Hve hratt er hægt að brjóta boðorðin?

Hefur einhver brotið öll boðorðin náast á sömu mínútunum? Flestir segja nei, það sé ekki mögulegt. Ísrael, þjóð Móse, gleymdi bæði Guði og mannasiðum við fjallsrætur Sínaí og dansaði í kringum gullkálfinn og þá molnuðu orðin tíu. Móses mölvaði báðar steintöflur boðorðanna og braut þar með öll boðorðin! En það eru ekki margir svo margbrotnir sem Móses. Öllum verður þó einhvern tíma hált á freistingasvellinu.

Á vefnum er til skondin stuttmynd, sem  fjallar um mann, sem tókst að brjóta öll boðorðin frá því að hann vaknaði og áður en hann var fullklæddur.  Maðurinn varð meira að segja öðrum manni að bana fyrir algera slysni, vegna þess að hann var á röngum stað. Eitt brot leiðir af öðru.  Þetta kostulalega myndband er að baki smellunni

Gildi Íslendinga og boðorðin

Hvernig er ellefta boðorðið? Dr. Þórir Kr. Þórðarson kenndi gamla testamenntisfræði í HÍ og spurði nemendur sína þessarar spurningar. Nemendurnir könnuðust ekki við neitt slíkt í Biblíunni svo Þórir svaraði sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðinleg!“ Og svarið og afstaðan er túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra á að lífið eigi að vera gott og skemmtilegt. Trúarhefð Gyðinga og síðan kristninnar er um gleðifréttir, fagnaðarerindi.

Eru boðorðin í Biblíunni gleðimál? Eru þau hagnýt fyrir lífið eða neikvæð bönn? Hafa fornir vegvísar Biblíunnar gildi fyrir allt fólk og á öllum tímum? Þetta eru spurningar sem við prestar Hallgrímskirkju tökum alvarlega. Við munum í prédikunum ræða um gildin í  samfélagi okkar og gildi boðorðanna í messum næstu vikurnar. 27. janúar verður fyrsta boðorðið íhugað og það síðasta í messunni 7. apríl. Verið velkomin í Hallgrímskirkju. Hvernig eru þín boðorð?

Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, prestar Hallgrímskirkju

Af hverju Guð maður?

Gleðileg jól. Enn einu sinni Heims um ból, helg jól. Enn einu sinni höfum við verið umföðmuð undri og unaði jólanna. Jólalyktin, dásemd í nösum, kliðmjúkir jólasálmarnir, pakkar til glaðnings og guðspjallið um jólabarnið og englana vekja tilfinningar í brjóstum okkar. En skuggar elta ljós. Í bland við spenninginn læðist jólamóri líka um. Við erum umlukin jólum á mörgum plönum. Líka hið innra, því minningarnar koma til okkar á jólum – og í nýju jólaauglýsingu Flugleiða segir hnittilega: „Varðveitum minningar og búum til nýjar.“

Kirkjusvefninn

Fyrst er það jólaminning, sem vinkona mín sagði mér í vikunni. Atburðurinn varð á aðfangadegi um eða eftir 1980. Fjölskyldan hennar bjó á Mímisvegi, sem er í slakkanum, suðaustan við Hallgrímskirkju. Allan daginn hafði snjóað. Logndrífan var svo heillandi, að mamman stóðst ekki mátið þegar liðið var á aðfangadagskvöldið og spurði son sinn hvort hann vildi ekki koma með út að leika í snjónum. Sá stutti var til og mæðginin drifu sig út, bjuggu til engla og nutu útivistarinnar. Þau voru orðin þreytt og „úthlegin“ þegar fólk kom úr húsunum og gékk í átt að kirkjunni. Mamman spurði son sinn: „Eigum við að fara upp í kirkju?“ Hann var til og þau smelltu sér í jólamessuna beint úr englagerðinni í snjódyngjunum. En stuttu síðar kom drengurinn einn heim frá kirkju. Pabbinn varð hissa og spurði áhyggjufullur: „Hvar er hún mamma þín.“ Drengurinn svaraði sposkur: „Hún er sofandi upp í kirkju. Ég gat ekki heyrt neitt fyrir hrotunum í henni!“

Eftir jólaundirbúninginn og leik mæðginanna hafði værð sest að mömmunni og vitund hennar liðaðist inn í undur jólanæturinnar. En svo þegar byrjað var að syngja Heims um bólí messulok rumskaði hún. Hún vaknaði inn í jólin – kom úr draumheimi undirvitundar inn í draumaheim himins, jarðar og jóla. Hún gerði sér grein fyrir að skrákurinn var farinn, en óttaðist ekki því svo stutt var heim frá kirkjunni. Og hún sagði mér, að hún hefði farið að hlægja í kirkjunni þegar hún uppgötvaði að hún hafði sofnað og sá þegar hún rumskaði að hún hafði ekki einu sinni tekið af sér svuntuna áður en hún fór út og síðan óvænt upp í kirkju. Svuntan lafði niður fyrir kápuna hennar þar sem hún vaknaði í heitri kirkju jólanæturinnar. Hann er sætur kirkjusvefninn! Og það er flott að vakna inn í jólanna Heims um ból.

Jólasálmurinn

Já, sálmurinn Heims um bólá tvö hundruð ára afmæli. Hann fangar og tengir flest sem varðar jól. Joseph Mohr, prestur í austurríska fjallaþorpinu Obendorf, var að undirbúa jólin. Samkvæmt einni upprunasögunni var prestur að íhuga jólaprédikunina þegar gömul kona bankaði á dyrnar á prestssetrinu og bað prestinn að koma að skíra nýfætt barn. Og þó hann væri ekki búinn að undirbúa messuna fór hann með konunni. Þegar hann horfði á nýfætt barnið varð hann snortin og tengdi það og foreldrana við Jesú Krist, Maríu og Jósef, nafna prestsins. Gleðin í húsinu og barnsfæðingin hreyfði við skáldinu í klerkinum og meðan hann barðist í gegnum snjóskaflana á heimleiðinni veiddi hann fram sálm úr sálinni. Inntak og andi jólanna féll í hrynjandi orðanna: „Heims um ból – helg eru jól.“ Sr. Joseph fór með sálminn til Frans Gruber, vinar síns og samstarfsmanns, sem bjó til lag við textann. Orgelið í kirkjunni var bilað og því var gítar notaður í aftansöngnum. Og vinirnir sungu sálminn í fyrsta sinn opinberlega. Þetta var fyrir réttum tvö hundruð árum, árið 1818. Og öll jól síðan, í tvær aldir, hefur þessi jólasálmur verið sunginn og síðustu hundrað árin um allan heim. Jólasálmurinn sem vekur jafnvel þreyttar mömmur af kirkjusvefninum.[i]

Jesútrúin

Hvað ætlum við að gera með jólin og boðskap jólanna? Margir halda fram, að þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru bara plat þá hverfi trúin á svein jólanna. Þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru fólk í góðu gervi þá byrjar trúin á Jesú að ruglast. Fyrst fer jólasveinatrúin og svo fer Jesútrúin. Er það svo? Þegar börnin trúa ekki lengur á jólasveininn af hverju ættu þau að trúa á Jesú, aðalsvein jólanna? Auðvitað er allur munur á – en það er ekkert einfalt að trúa á himinsveininn. „Af hverju gerðist Guð maður?“ Þeirrar spurningar hefur fólk spurt um allar aldir. Af hverju kom ljósið í heiminn? Hver eðlis er þessi speki um barn í heimi? Gat Guð ekki bara gert heiminn almennilega svo engin neyð eða þjáning þrifist í þessari veröld og ekki þyrfti að senda lausnara af himnum. Er Guð kannski vanmáttugur? Því meira, sem við vitum um geiminn, því smærri verður kúlan okkar í svimandi óravíddum. Af hverju ætti æðsta vald himsins að hafa áhuga á þessum útnára heimsins, þessu smælki í alheiminum, sem jörðin er í geimgímaldinu? Og ekki er mannkynið ekki sérlega sjarmerandi, hópur lífvera sem hefur gert heimili sitt að ruslastíu og farið svo hraklega með óðalið sitt að það er að deyja.

Guð sem teygir sig til…

Á jóladegi er „hitt“ jólaguðspjallið lesið frá altari, upphafsvers Jóhannesarguðspjalls. „Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Svo er sögð saga þessa orðs, viðtöku þess eða höfnun. Stórtákn eru nefnd og þjónar þess kynntir. Inntak þessara fáu setninga er svo rismikið að mörgum þykir þessi texti einn af mikilvægustu og fegurstu textum Biblíunnar. Jafnvel grískan er svo fallega ljóðræn, að ég lærði fyrstu versin utan að fyrir fjörutíu árum. Upphaf guðspjallanna er ólíkt. Í þessum Jóhannesartexta er ekkert sagt um ætt og uppruna Jesú. Hér er engin ættartala eins og í Matteusarguðspjalli. Ekkert klippt og skorið eins og í Markúsi. Ekkert sagt um Kýreneus, Heródes eða Ágústus keisara eins og í Lúkasarguðspjalli.

Nei, formáli Jóhannesar er öðru vísi, rismikill, djúpur og stórkostlegur. Þar er byrjað á himnum, eiginlega innan í Guði og þar á eftir er síðan talað um samband þess Guðs við heim. Fyrstu versin varða skapandi orð, tjá útleitandi elsku. Ekki feiminn, innhverfur Guð heldur tengslasækjandi veraldarvaki. Þungur undirstraumur og ljóðræna textans heillar.

Allir þokkalega biblíufróðir gera sér grein fyrir að þessi vers í jólaguðspjalli Jóhannesar varða skapandi guðdóm. Textinn vísar beint í sköpunartexta Gamla testamentisins, t.d. í fyrstu bók Móse og  Davíðssálmum. Hvernig Jesús Kristur er kynntur til sögu varðar að Guð er nálægur og virkur. Í sköpun heimsins varð ljós. Svo þegar Jesús kom í heiminn kom ljós, sem skín í myrkrinu, gefur líf, nærir og blessar.

Jólaguðspjall Jóhannesar veitir okkur innsýn í Guð. Mennskan fæðist í innra lífi Guðs. Upphaf alls, efnis og anda, er í guðsdýpt himinsins. En eitt er undur hins guðlega og annað er hvernig brugðist er við undragjöfunum. Þegar skapandi viska Guðs kemur fram í tíma heyra sumir, nema, skynja, skilja og taka við. Aðrir taka ekki á móti. Mál jólanna er ekki bara að allir séu kátir. Innan hrings jólanna eru líka reiðir menn sem hafna. Fólk allra alda veit að þegar ljós skín sem skærast verða skuggarnir djúpir.

Ljósið sem skín

Í vikunni kom hópur frá Englandi og Bandaríkjunum í Hallgrímskirkju. Þau voru að vinna efni fyrir samfélagsmiðla Apple um tengsl fólks á Íslandi við látna ástvini og hefðir okkar Íslendinga við að kveikja kerti á leiðum ástvina. Þau höfðu hrifist af lífsástinni, sem kemur fram í virðingunni á lífi genginna ástvina sem ljósin tjá. Mér þótti gaman að tala við þetta íhugula fólk sem skrifar fyrir tugi milljóna á samfélagsmiðlunum. Ég held, að við kveikjum ljós á leiðinum af því það er ævagömul hefð fyrir að lýsa vegfarendum. Fyrir tíð rafmagns setti fólk ljós í glugga til að ferðafólk gæti séð mannabústaði. Kristin kirkja hefur alla tíð talað um ljós Guðs, sem kemur í heiminn til að lýsa í myrkri. Við elskum fólkið okkar og viljum lýsa því á leiðinni inn í himinn Guðs. En svo eru ljósin á leiðunum líka áminning um að við erum á sömu leið og ástvinir okkar á undan okkur, pílagrímar í tíma, á leið um myrkar og ljósar lendur heimsins, á leið inn í himininn. Á jólum kveikjum við á mörgum kertum, hlöðum seríum í glugga, á ufsir og í tré. Og ljósadýrðin er mikil í og við húsin okkar hjér á norðurslóð. Það er ekki bara löngun til að tjá myrkrinu að við viljum ekki vera döpur, heldur tjáning um að við viljum að tilveran sé björt og upplýst en ekki drungaleg veröld. Með atferli okkar tjáum við hina dýpstu þrá, vonina um að til sé gott afl, guðleg veröld sem heimsljósið lýsir.

„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. .. öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Nóg fyrir kirkjusvefn, kirkjuvöku, jól heima, allt árið. Ljós Guðs lýsi þér.

Hallgrímskirkja jóladagur 2018

Textaröð: B

Lexía: Jes 62.10-12
Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

[i]Texti sálmsins er eftir Sveinbjörn Egilsson og er texti hans frumsaminn fremur en þýðing. Matthías Jochumsson þýddi hins vegar texta Joseps Mohr: Hljóða nótt, heilaga nótt

 

Litir messuskrúða og helgisiða – litúrgía :)

Í messuskrúða og helgihaldi þjóðkirkjunnar hafa síðust áratugi aðallega verið notaðir fjórir litir, grænn, hvítur, rauður og fjólublár. Litanotkun þjóðkirkjunnar verður fjölbreytilegri og ríkulegri með meiri tengslum við erlendar kirkjudeildir og meiri þekkingu á helgihaldi og helgisiðum.  Þeir litir sem notaðir eru í helgihaldi kirkna heimsins eru margir. Hér er yfirlit en þó ekki tæmandi listi.

Konungblátt

Konungbláminn er litur konungsins og notaður til að fagna hinum konungborna. Er einnig tákn næturhiminsins sem stjarna jólanna birtist á og minnir því á Jesúkomuna. Ég mæli með að blátt verði notað á aðventutímanum og þá til aðgreiningar frá fjólubláa litnum á föstunni fyrir páska. Aðventutíminn er tími eftirvæntingar og biðarinnar eftir að Jesús Kristur fæðist í heim manna.

Skærblátt

Táknar gjarnan himininn. Í ýmsum greinum kristninnar er skærblámi tákn fyrir Maríu, drottningu himinsins og stjörnu hafsins. Skærbláminn táknar einnig frumvötnin í 1. Mósebók, vötnin við upphaf heimsins.

Bleikt

Táknar gjarnan gleði og hamingju. Í ýmsum kirkjudeildum er bleikt notað á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventunni fyrir jól og þá til að tákna gleði og fögnuð vegna væntanlegrar fæðingar Jesú Krists. Svo má gjarnan verða einnig á Íslandi.

Rósrautt

Notað til að tákna gleði og hamingju og er líka notaður í stað bleika litarins á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu.

Hvítt

Hvítt táknar gjarnan hreinleika, fullkomleika og heilagleika. Hvítt er notað á hátíðum kirkjuársins, fyrsta sunnudegi í aðventu, aðfangadegi og jóladögunum (nema öðrum jóladegi, þ.e. á Stefánsmessu), þrettándasunnudegi, skírdegi, páskum og eftir páska, þrenningarhátíð og allra heilagra messu o.fl. Einnig víða í kirkjum heimsins notað við skírnir, giftingar, vígslur og einnig við útfarir og þá sem tákn upprisu.

Silfrað

Stundum notað – vegna skærleika – í stað hvíta litarins.

Gyllt

Tákn gleði, hátignar og hátíðar. Gyllti liturinn gjarnan notaður til að tákna návist Guðs. Oft notað með hvítum á hátíðum, ekki síst á jólum og páskum. Oft notað sem viðbótarlitur á öðrum hlutum kirkjuársins.

Gult

Guli liturinn er ljóstákn og notað um návist Guðs. Tákn um endurnýjun og sem vonarlitur, gjarnan tengt upprisu Jesú. Notað gjarnan í stað gyllts eða hvíts og stundum sem viðbótarlitur með öðrum lit á ýmsum tímabilum kirkjuársins, t.d. páskum.

Grænt

Grænt táknar gjarnan líf, vöxt og viðgang og von. Notað á Íslandi á tímanum eftir þrettánda og fram að föstu, sem og langa tímabilið eftir þrenningarhátíð og að mestu til loka kirkjuársins. Grænn er mest notaði litur kirkjuársins á Íslandi.

Ljósgrænn

Ljósgrænn stundum notaður sem ígildi hins græna. Í sumum kirkjudeildum er ljósgrænn notaður á föstunni fyrir páska en grænn notaður á tímanum eftir hvítasunnu.

Fjólublár

Fjólublár táknar gjarnan þjáningu, iðrun yfirbót, undirbúning og sorg. Þetta er algengasti föstuliturinn. Stundum notaður sem konungslitur. Hefur verið notaður á Íslandi á jólaföstu líka og er hinn eiginlegi föstulitur skv. handbók kirkjunnar. Ég legg til að við leggjum hann af sem aðventulit og notum bláan í hans stað eins og margar mótmælendakirkjur gera.

Vínrauður

Vínrauður er tákn þjáningar og er oft notaður í stað fjólubláa litarins. Gamlir rómanskir höklar á Íslandi voru gjarnan í þesum lit.

Grátt

Grár er litur ösku og gjarnan litur sorgar og iðrunar. Í ýmsum kirkju heimsins er þessi litur notaður á öskudegi og á föstu sem og á dögum föstu og bæna.

Svartur

Svartur táknar dauða og sorg. Svartur er notaður á föstudeginum langa. Aldrei notaður sem viðbótarlitur með öðrum litum. Svartur gjarnan notaður í stólur sem notaðar eru við útfarir.

Rauður

Rauður er litur nándar Guðs, litur baráttu trúarinnar og jafnvel fórna sem menn færa vegna trúar sinnar, þ.e. píslarvættis. Þá er rauði liturinn blóðtákn. Rauður er litur hvítasunnunnar, kristniboðsdags og minningardaga, t.d. Stefánsdags ef hann er haldinn hátíðlegur 2. jóladag. Kaþólikkar nota stundum rautt á pálmasunnudegi til að minna á yfirvofandi dauða Jesú.

Samantekt SÁÞ

Skírn – niður og upp

Vertu Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni.

Hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.

Þessi bænavers Hallgríms standa á hinum stórkostlega skírnarfonti Hallgrímskirkju. Og í dag beinum við huga að skírn. Mér þykir dásamlegt að taka þátt í skírn, horfa í augu hvítvoðungs og sjá í þeim himin og framtíð. Í skírn kyssast allar góðar víddir mennsku og lífs. Tími og eilífð faðmast. Því er skírn hátíð.

Barnið, nýkomið frá Guði, er fært í klæði hreinleikans og hvílir í fangi ástvinar. Svo eru lesnir miklir textar, sem varða lífið og lífslánið. Vatnið í skírnarfontinum er hreint og vekur oft athygli hins unga lífs. Svo gutlar í vatninu og tilfinningar bylgjast í ástvinum, bros læðast í munna og augu. Og flestar skírnarathafnir eru gjörningur hins óvænta. Flestum nema foreldrunum fannst mjög fyndið þegar stóri bróðir átti að segja nafn barnsins en honum fannst nafnið sem pabbi og mamma höfðu ákveðið bara ekki gott. Hann sagði hátt og skýrt það nafn sem honum fannst flottast. Foreldrarnir hrópuðu neiiiiiiii. En svo var allt leiðrétt, nafnið var nefnt frammi fyrir Guði og mönnum. Skírn er gjörningur og fyrir lífið og ástvinir umvefja barnið með vonum og bænum. Krúttið er blessað og ég lyfti því gjarnan upp. Oft klappa allir. Já, mikil hátíð og tilfinningaþrungin.

Umstang – lífgjöf

En til hvers að skíra börn? Hátíð já en fyrirhöfn líka. Á kannski bara að einfalda? Nú er hægt að fara inn á vef þjóðskrár og ganga frá skráningu. Ekkert mál, tekur fimm mínútur, búið og gert. Er það ekki snjallast – eða hvað? Fólk segir líka stundum, að það vilji leyfa barninu að ráða hvort það verður skírt eða ekki. En er einhver ástæða að bíða með að gefa stærstu gjafirnar þar til krakkarnir eru unglingar? Skírn er ekki hættuleg heldur stórkostleg gjöf. Það er hægt að bíða með skírn ef fólk vill bara sætta sig við lágmörkin. Skírn er meira en nafngjöf eða skráning. Nafngjöf er lagaskylda en skírn er lífgjöf.

Skírnarsagan

Og þá fyrst sagan. Jesús var skírður í ánni Jórdan. Það var afgerandi stórviðburður í sögu skírnarinnar, raunar miðjan, sem skilgreinir allt hitt sem á eftir kom. Jóhannes, nefndur skírari af starfanum, var út í á og jós vatni á fólk eða dýfði því niður. Kristnir gerðu eins og meistarinn. Frumkirkjan sótti út í vatnið og vantssullið hefur einkennt allar stóru – raunar flestar – kirkjudeildir heimsins síðan. Skírn hefur alltaf verið meira en skráning, stærri bónus og djúktækari plús en bara að líma nafn við fólk. Skírn varðar hið stóra en nafngjöf hið smærra og best að þau fari saman. Skírn er það að leyfa öllum lífsvíddum að umfaðma barnið en ekki bara að setja nafn á það. Og í skírn er auðvitað beðið um að Guð verði alltaf vinur barnsins.

Orðið skírn er gegnsætt og tandurhreint orð. Sögnin að skíra merkir að hreinsa. Jesús talaði um skírn og ritarar Nýja testamenntisins líka. En í þeirra túlkun var skírn ekki eins og laugardagsbað til að þrífa skítugan kropp. Skírn var mál hins ytra og innra, tíma og alls þess sem er eftir dauða. Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður. Í Rómverjabréfinu, sem var lesið áðan, segir hann: „Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans?“ Barn skírt til dauða! En svo bætir hann strax við: „Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.“ Skírð til lífs í tíma og eilífð.

Það er eitthvað mikið meira og dýpra á ferðinni í þessum orðum heldur en að pikka nafn á netinu í þjóðskrá. Jesús notaði raunar nefninguna skírn um allan feril sinn og hlutverk, þetta sem við íhugum á föstunni, skírdegi, föstudeginum langa og páskum. Jesús sagði vinum sínum að honum yrði dýft ofan í voðalegan hyl. Hann yrði beinlínis að fara á kaf svo hann mætti klára hlutverk sitt. Af orðum hans ályktuðu hugsuðir frumkristninnar að skírnin væri þátttökugjörningur. Skírn væri beintenging við allt sem Jesús Kristur stæði fyrir, kenndi, upplifði og afrekaði. Fullkomin samábyrgð og tenging.

Fer niður getur komið upp

Ólíkt reglunni í hagfræðinni sem segir, að það sem fari upp komi niður, er í kristninni andstæðar hæðarlýsingar og hreyfitjáning. Kristnin kennir, að það sem fer niður getur komið upp. Hugsuðir aldanna tóku eftir þessum merkilega ferðastíl kristninnar. Engin þjáning, engin neyð er til dauða í Jesúreisunni, heldur getur allt, sem við upplifum neikvætt, snúist til góðs af því Guð er nærri. Alþýðuvísdómurinn hefur túlkað þetta svo, að lífið sé harður skóli og engin viska verði til nema vegna lífsreynslu. Heimspekingurinn Hegel notaði þessa lífsspeki í heimspekikerfi sínu og talaði um aufhebung– upphafingu. Líf fólks og þjóðfélaga er aldrei samfelld hamingjusaga heldur baráttusaga. Lífið er agandi skóli. Hetjan verður ekki til nema í átökum, hetjan verður aðeins skírð í eldi baráttunnar. Sem sé, það sem fer niður getur farið upp ef Guð er nærri. Farsælar lyktir af því Guð er. Líf er ferli í stórum tíma en líka eilífð.

Sköpun, blessun vatns og ógn

Þegar við skoðum frásögur Biblíunnar og guðfræði fyrstu alda sjáum við, að skírnarboðskapur Jesú hafði stýrandi áhrif á hvernig bað kristninnar var skilið og túlkað. Skírn Jesú var frá fyrstu tíð tengd við sköpunarsögu Gamla testamentisins. Jesúskírnin var skilin með vísan til upprunasköpunar sem ný sköpun. Guð endurhelgaði heiminn. Við, sem höfum lesið miðaldaprédikanir Hómilíubókarinnarskynjum, vitum að kristnir miðaldamenn töldu að öll vötn veraldar væru helguð með skírn Jesú. Framhald – sköpunargjörningur.

Allir vita að ekkert lifir án vatns. En vatn getur líka fært í kaf og drekkt lífi. Syndaflóðasögur tjá þá ógn. Flóðbylgjur aldanna hafa eytt lífi. Í öllum landdýrum býr óttinn við of mikið vatn. Vatn slekkur ekki aðeins þorsta lífs, heldur er jafnframt tákn um að lífið er óöruggt. Nútímamengun sjávar og æðakerfis vatnsheimsins er svo syndaflóð samtíma okkar, sem við menn berum alla ábyrgð á.

Stórviðburðir – adráttarafl og túlkun

Skírn Jesú var ofurviðburður sem kallaði á skýringar, tákn og túlkun. Jesúskírnin var  slíkur samsláttur kraftanna að stór tákn soguðust til þeirrar miðju. Skírn dró að sér túlkun og tákn. Myrkur, þjáning, dauði, vatn og þorsti hafa verið skýrð með margvíslegu móti. Svo er dúfa líka tengd hinum lífgefandi en einnig lífsógnandi vötnum í táknheimi Biblíunnar. Í hinum fornu ritningum var rok tákn um návist Guðs. Fyrst var kaos, óreiða, en orð og blástur Guðs komu skipan á og til varð veröld. Úr líflausri frumvatnaveröld varð til blái hnöttur hinnar góðu sköpunar. Guð sá, að allt var harla gott. Frumkristnin tengdi skírn Jesú og skírn allra manna við þessa sköpun heimsins. Í skírn var tengt inn í lífið, sem Guð hafði gert svo gott. Vatnið var ekki bara ógnandi heldur líka lífgefandi. Harla gott. Veröldin væri ekki aðeins til dauða heldur var og er stefna kristninnar stefna Guðs upp úr dauðadalnum og til lífs og hamingju. Svo skildi fólk, að allir sem tóku þátt í þessum skírnargjörningi voru kysstir af himninum og eilífðinni. Og ættarmótið er heyrum kunnugt og opinbert: „Þetta er sonur minn.“„Þetta er dóttir mín.“ Fólk á Guðs vegum. Líka börn í samtíð okkar – ekki bara nöfn í skrá, heldur elskuð og kysst af himinum. Það sem fer niður kemur upp af því að Guð hefur áhuga á hinu ríkulega og stóra – sem er meira en nafngjöf. Guð skapar líf í risastóru samhengi.

Fonturinn geislar

Er lífið einfalt? Nei. Hefur þú einhvern tíma átt erfitt, misst marks eða orðið fyrir áfalli? Já. Ekkert okkar flögrar átakalaust í gegnum lífið. Það er raunsæisboðskapur skírnarinnar. Það, sem fer niður, getur farið upp vegna þess að Guð er nærri. Enginn er einn og óstuddur. Guð er alltaf nærri, fer með okkur á kaf þegar við þjáumst, heldur í hendi okkar þegar við erum að kafna, sleppir aldrei og er alltaf tilbúinn. Það, sem fer niður, fer upp ef Guði er leyft að vera með. Líf hins skírða er opið líf, með bónus, fullt af möguleikum. Aðalmál skírnarinnar er að Guð fær að vera nálægur vinur. Það er hægt að hafna skírn og afþakka þá nálægð, en Guð er nærri og býður hlýja návist.

Skoðaðu hinn dásamlega skírnarfont Hallgrímskirkju. Á hann er ekki aðeins letrað bænaversið – líka með stafagerð höfundarins Leifs Breiðfjörð – sem við báðum áðan. „Vertu Guð, faðir faðir minn…“ Hitt, sem er líka letrað, er versið í Markúsarguðspjalli : „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Ekkert lítið heldur stórt, beintenging við lífið í tíma og eilífð. Upp, upp mín sál.

13. janúar, 2019.