Lax, graslaukssósa og bygg

Uppskriftin er auðveld og hentar ágætlega bæði fyrir gestaboð sem og heimilismáltíð. Vert er að vinna sósuna nokkrum klukkutíum fyrir máltíð eða jafnvel deginum áður. 

Uppskrift ætluð 4

laxaflök, 800 gr, roðflett og beinlaus
8 súrdeigsbrauðsneiðar
1 dl rifinn óðalsostur
1 tsk oreganó
1 tesk tímían
1 tesk salt
rifinn börkur af 2 limeávöxtum (þ.e. límónum)
safi úr 1 limeávexti
2 hvítlauksrif, pressuð
150 g smjör

Stillið ofninn á 200 gráður. Smyrjið stórt eldfast fat og leggið laxaflökin á fatið og saltið fiskinn. Setjið brauðsneiðarnar, ostinn, kryddið, börkinn og safann af limeávextinum og pressaðann hvítlaukinn í blandara og tætið vel í sundur. Látið vélina ekki ganga of lengi, þá verður brauðið blautt. Dreifið mylsnunni jafnt yfir laxaflökin. Bakið í 15 mínútur. Takið flakið úr ofninum og setjið smjör í litlum bitum ofan á – eða bræðið smjörið og hellið jafnt yfir.

Berið laxinn fram með graslaukssósunni, byggi og salati ef vill.

Graslaukssósa
200 ml majones
200 ml sýrður rjómi
1 dl smátt klipptur eða saxaður graslaukur
2 msk smátt söxuð steinselja
1 tsk oreganó
ferskmalaður pipar og cayenne pipar á hnífsoddi
safi úr ½ limeávexti (þ.e. safi ur hálfri límónu)

Blandið öllu vel saman og kælið helst í a.m.k. 3 klst.

Sagan um fiskidráttinn mikla í fimmta kafla Lúkasarguðspjalls er mögnuð og verð íhugunar með fiskmeti. Fiskur er gamalt Kriststákn, sem kristnir menn frumkirkjunnar teiknuðu í sandinn til að tjá á hvern þeir tryðu. Kirkjan er kölluð til veiða í margvíslegum skilningi. Bragðgóður kirkjufiskur hentar í kirkjusamhengi og hefur í sér heilnæma merkingardýpt sem tjáir hlutverk kirkjunnar í veröldinni.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.