Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Brauðið dýra og önnur brauð

Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir metfé. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér! 
 
Hljóðskrá prédikunar í Hallgrímskirkju 14. mars er að baki þessari smellu.
 
Textinn er svo hér að neðan. 2021 14. mars.
Fjórði sunnudagur í föstu.
 

Faðir minn var bókamaður og aðdáandi Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi. Hann hafði einfaldan smekk í jólagjafamálum sem létti líf okkar fjölskyldunnar. Hann óskaði sér alltaf bókar eftir Laxnes. Jóladagana sat hann svo glottandi og kumrandi yfir kúnstugum sögum frá stílmeistaranum og orðhaganum í Gljúfrasteini.

Ein jólin fékk hann Innansveitarkrónikuna sem lá lengi á borðinu við hlið lestarstóls pabba. Ég kíkti svo í hana. Í bókinni er merkileg saga sem var reyndar gefin út sér, umrituð og lagfærð lítillega. Það er sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá Guðrúnu Jónsdóttur sem var vinnukona prestsins í Mosfelli. Henni var treyst til að fara með brauðdeig í seyðslu á hverasvæði í Mosfellsdal. Brauðferðirnar voru ábyrgðarmál og jafnvel hættulegt starf vegna hitans á þessu svæði risabökunarofns. En Guðrún tók upp seydda brauðið þegar það var fullbakað og kom nýju deigi fyrir. Sagan segir að þegar hún hafði eitt sinn tekið upp stórt brauð var komin þoka þegar hún ætlaði heim. Hún var svo dimm að Guðrún villtist og var týnd í þrjá sólarhringa. Hún fór víða um Mosfellsheiði með stóran brauðhleifinn. Að lokum komst hún heim og fólki til furðu hafði hún ekki borðað af brauðinu. Þegar hún var spurð af hverju svaraði hún: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Sem sé, hún braut ekki brauðið til að nærast. Rigningarvatnið var það eina sem hún setti upp í sig á þesari löngu göngu. Af hverju bar hún fæðuna en notaði hana ekki sér til styrktar og lífs? Hún var jafnvel búin að krafsa erfðaskrá sína í moldarbarð þar sem hún lagðist fyrir svo ljóst var að hún var hrædd um líf sitt. En hún borðaði ekki brauðið. Var ástæðan þrællyndi, blind hlýðni við reglur? Nei, það var siðferðisstyrkur. Guðrún bar virðingu fyrir verkefni sínu, skyldum sínum, vera trú því sem henni var trúað fyrir. Halldór Laxnes hafði eftir Guðrúnu: „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Enginn hefði álasað Guðrúnu að hafa matarlaus og vegna svengdar borðað brauðið á þessari löngu villuför. En það gerði hún ekki. Það var ekki í samræmi við siðferði hennar, vinnuafstöðu, skyldusýn og lífsafstöðu. „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Innrætið skiptir sem sé máli.

Sagan um brauðið dýra varðar lífsafstöðu og rímar við áherslur í textum dagsins. Hvað er satt? Hvað er mikilvægt? Hver er lífsafstaða okkar? Er mikilvægt að tileinka sér siðferði eða er bara best láta reka stefnulaust? Þessi látlausa en litríka saga úr Mosfellssveit lýsir afstöðu og siðferði. Að konan skyldi ekki í hungri sínu kroppa úr brauðinu er ótrúlegt. Sagan er eins og dæmisaga úr safni Jesú. Atburðarásin er ydduð og ótrúleg svo tilheyrendur geri sér grein fyrir að boðskapurinn sé mikilvægur og eftirtektarverður. Og hver er hann? Siðferði – mikilvægi þess að axla ábyrgð, láta ekki eigin hag eða græðgi stjórna öllu. Heilindi.

Í siðferðisglundroða og sýndarsiðferði sýnist mörgum skylda að reyna að ná brauðunum, athyglinni, peningum, völdum og viðhlægjendum. Þá er sannleikurinn ekki við völd né heldur siðferði. Ekki þarf lengi að skygnast um í vestrænum samfélögum til að sjá að sjálfhverfir lukkuriddarar sæki í gæðin. Tveir síðstu áratugir hafa á Vesturlöndum verið blómatími hinna sjálfhverfu sem vilja gleypa allt. Það er fólkið með sjálfsástarröskun, narcissistarnir siðblekktu. Þegar fólk er ekki meðvitað um aðsóknina vandast málið og margt fer illa í rekstri peningastofnana, fyrirtækja og samfélaga þegar þeir ná tökunum. Sjáflhverfungarnir með sjálfsástarröskunina leita í valdastofnanir, stjórnmál og peningastofnanir. Norskir vinir mínir hafa sagt mér að þar í landi sé reiknað með að siðblekktir eða siðblindir menn séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar. Af því að sjálfhverfungar reynialltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð sé nauðsylegt að beita síunarkerfum í ráðningum og stífu eftirliti. Sjálfhverfungarnir borða alltaf allt brauðið og skila engu úr ferðum lífsins. Þeir koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra.

Í dag er brauðdagur í kirkjuárinu. Á fjórða sunnudegi í föstu er minnt á brauð lífsins. Brauð var og er tákn um líf. Kirkjur eru brauðhús. Í kirkjuhefðinni er talað um brotningu brauðs. Jesús var veislukarl og útdeildi brauði til næringar. Í miðju kirkna heimsins er borð sem kallar fólk til samfélags, samtals og veislu. Textar dagsins varða brauðið á því borði og tjá áherslumál Jesú og þar með lífsafstöðu trúmanna. Brauð í Gamla testamentinu var forsenda að áherslur Jesú á brauð lífsins skildust. En Jesús talaði sumt í gátum og annað í dæmisögum til að opna vitund fólks fyrir hvað skipti máli, til hvers lífið væri, hvernig fólk gæti lifað og notið lífsgæða. Við erum minnt á að svengd fólks í vanda er mætt með næringu. Daglegt brauð er eiginlega daglegt kraftaverk. Fólk í vanda í lexíunni og skipverjar í nauðum í pistlinum fá mat, von og þeim var bjargað. Jesús byggði á reynslu þúsunda kynslóða og minnum úr hebresku samfélagi þegar hann talaði um brauð lífsins. Hann setti sjálfan sig í tákn- og raunsamhengi sveltandi fólks, skildi þorsta og svengd, lífgaði, veitti von og blessaði. Boðskapur hans var skýr, hann væri kominn frá Guði til að næra og gefa það sem fólk og heimur þarfnast til að geta notið lífsins.

Í kirkjulífi COVID-tímans er ekki hægt að brjóta brauðið. Bið er á að altarisgöngur hefjist að nýju. Sóttvarnarástæður eru ástæðan. En hlutverk kirkna er óbreytt. Það er að verja líf, vernda fólk og efla til lífsgæða. Þrátt fyrir að við brjótum ekki brauð og göngum ekki til altaris getum við svo sannarlega íhugað boðskap Jesú um brauð og líf. Í djúpi tímans, vestrænnar menningarinnar og pólitík er vaxandi skilningur á að ekkert samfélag og ekki heldur lífríkið þolir yfirráð sjálfhverfunganna. Æ fleiri skilja að ráð þeirra eru til dauða. Sannleika um lífið þarf að verja og siðferði verður að ráða för.

Í vikunni hreifst ég eins og margir aðrir af viðtölum við Harald Þorleifsson og lífsafstöðu hans. Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir mikla fjármuni. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér. Af hverju? Jú, vegna þess að þau vildu borga skatt af söluhagnaðinum á Íslandi. Ísland hefði gert Haraldi kleyft að menntast og hann hefði notið góðs heilbrigðiskerfi sem þjónaði honum vel í heilsuvanda hans. Íslenskt samfélag og stofnanir þess höfðu gert Haraldi kleyft að komast þangað sem hann er í dag. Sem sé þakklæti, ábyrgð, siðferði og þroskuð lífsafstaða. Hann hefði getað látið hagnaðinn hverfa, étið allt brauðið og ekki skilað neinu til uppeldissamfélags síns. En hann var trúr skyldum sínum og borgaði til uppeldissamfélags síns. Þetta er að vera samfélagslega ábyrgur. Og í vikunni urðum við vitni að frábæru verkefni sem Haraldur beitir sér fyrir. Hann er að rampa Reykjavík. Haraldur er í hjólastól og veit af eigin reynslu að bæta þarf hjólastólaaðgengi til að fólk komist með þokkalegu móti inn í fyrirtæki og verslanir. Haraldur fer ekki aðeins í brauðferðir sínar á hverasvæði heimsins heldur kemur úr ferðinni með brauð, ekki bara eitt heldur mörg.

Jesús Kristur reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur með því að útdeila brauði og gæðum. Ölturu í kirkjum minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig. Hinn kristni boðskapur er að allir megi njóta gæða. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. En boðskapur texta dagsins varðar ekki bara að fá að borða góðan mat heldur njóta hamingju, frelsis, mannréttinda og framtíðar. Brauð lífsins merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt og gæðatengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði. Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Jesús Kristur frelsar líf, nærir og blessar. Og Guðrún Jónsdóttir axlaði ábyrgð sem er í samræmi við þroskaða samfélagssýn. Haraldur Þorleifsson sýndi siðvit og manndóm til fyrirmyndar. Við getum ekki sem einstaklingar bjargað heiminum en getum þó öll fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs. Að Jesús sé brauð lífsins og næring skilgreinir veröld okkar og lífsgæði. Við erum friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Við erum brauðberar Guðs. Amen

Fyrri ritningarlestur: 2 Kon 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Seinni ritningarlestur: Post 27.33-36
Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Guðspjall: Jóh 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“ Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“

Barnið í garðinum

Við prestarnir lifum ekki bara frá degi til dags heldur líka frá sunnudegi til sunnudags. Í byrjun vikunnar förum við gjarnan að skoða texta næsta sunnudags, þrennuna sem eru lexía, pistill og guðspjall. Í samráði við organistann veljum við svo sálma næsta helgidags. Þegar við Björn Steinar vorum búnir að ræða saman um sálmana á mánudeginum fór ég að lesa textana. Sumum vinum mínum þykja föstutextarnir leiðinlegir og rökin eru að í þeim væru svo dapurlegar hörmungarsögur! En mér fannst lexía þessa annars sunnudags í föstu úr Orðskviðunum vera heillandi. Þar er talað af skáldlegri visku og elsku um hjartað, munninn og fæturna, sannleikann og framtíðina. Hrífandi texti. Pistillinn er fermingarlegur því þar kemur kórónan við sögu eins og í fermingarávarpinu. Þar er líka áminning til ævigöngunnar um staðfestu og trúmennsku. Góður og gefandi texti. En svo er í guðspjallinu furðusaga af dreng sem var illa leikinn. Hann var mállaus, fékk svo hroðaleg köst að hann skókst til, froðufelldi og afskræmdist. Þegar verst lét hljóp hann líka í vatn og eld og var því í lífshættu. Guðspjallið segir frá því að faðirinn kom með drenginn sinn til Jesú Krists. Það er ljóst að ekki bara Jesús heldur fólkið í kringum hann stundaði lækningar. Þetta var lýðheilsuhreyfing. Lærisveinarnir gegndu heilsueflingarhlutverkum. Þeir voru fengnir til að lækna, voru taldir hafa eitthvað af mætti meistarans. Í þessu tilviki og í samræmi við trú samtíðar áttu þeir að reka út illan anda sem rændi drenginn máli og friði. En þessi illi vágestur hafði náð svo algeru valdi á persónumiðju drengsins og líkama að hann fékk engu ráðið. En lækningin tókst ekki. Drengurinn var eftir jafn illa kominn, skekinn, málllaus en froðufellandi. Miklar tilfinningar flæddu og háværar deilur geisuðu þegar Jesús kom að. En þeir náðu að tala saman – ráðalaus faðirinn sem bæði trúði og efaðist og Jesús sem notaði tækifæri til að kenna en líka færa drenginn til heilsu.

Þetta er undarleg saga og mér þótti hún tyrfin og minna laðandi en lexían og pisitlllinn. Ég renndi yfir söguna nokkrum sinnum á mánudeginum áður en ég brá mér á skíði í Bláfjöllum og hélt svo áfram að íhuga söguna meðan ég puðaði í fjallageimnum. Eftir kvöldmantinn hélt ég svo áfram að lesa nýja bók í handriti sem mér var send fyrir síðustu helgi. Hún heitir Barnið í garðinum og er uppvaxtarsaga Sævars Þórs Jónssonar. Ég lauk lestri bókarinnar um kvöldið og sagan sat í mér.

Svo fór ég að sofa og guðspjallstexti Markúsarguðspjalls og saga Sævars Þórs fléttuðust saman í draumum næturinnar. Ég rumskaði tvisvar um nóttina. Í bæði skiptin voru sögurnar saman í undarlegri draumaflækju í hálfsofandi meðvitund. Þær blönduðust saman sögurnar um mállausa drenginn í guðspjallinu og málhefta drenginn Sævar Þór. Undirmeðvitundin vann sitt fléttustarf og þegar ég vaknaði á þriðjudeginum voru þessar sögur mannabarna tengdar, gamall og nýr tími – tveir drengir í djúpum vanda. Þegar ég vaknaði fannst mér sögurnar speglast, tvö þúsund ára saga guðspjallsins og samtímasaga okkar.

Barnið í garðinum

Fyrst um sögu Sævars Þórs, Barnið í garðinum. Þetta er nístandi frásögn um barn sem farið var illa með, naut ekki elsku og verndar við hæfi. Sagt er frá uppvexti Sævars á alkóhólíseruðu heimili og frá líðan og viðbrögðum hans og systkinanna við drykkju foreldranna. Svo fylgjumst við með Sævari Þór átta ára gömlum sem var narraður inn í dimma byggingu þar sem vondir menn misnotuðu hann. Sagt er frá félagslegri einangrun í kjölfarið, erfiðleikum í skóla, kækjum, líðan og innri baráttu, sjálfsskaða, englum sem björguðu og studdu, vansælli fjölskyldu og hvernig hæfileikaríkur strákur tók ákvörðun um að lifa þrátt fyrir dauðaógnir allt í kring og hið innra einnig. Þetta er uppvaxtarsaga, áfallasaga, fíknisaga, bisnissaga og menntasaga. Þetta er samtímasaga Íslands síðustu fjörutíu ára sögð frá sjónarhóli lemstraðs drengs sem lifði af. Það er ekkert minna en kraftaverk að drengurinn skyldi lifa, menntast og verða að öflugum lögmanni og réttargæslumanni fólks, líka þeirra sem hafa lent í rosalegum aðstæðum og eiga fáa málsvara. Þetta er nútíma kraftaverkasaga. Hvernig eigum við að túlka þessa sögu? Það bíður um stund.

Mállaus til heilsu

Og þá sveiflum við okkur í tímarólunni yfir í guðspjallssöguna. Það er nístandi frásögn af ráðþrota föður og fjölskyldu. Við vitum ekkert um hvort þetta var ofbeldisfjölskylda eða lemstruð af fíkn eða hvort þetta var venjulegt fólk sem varð fyrir því skelfilega áfalli að efnilegi drengurinn veiktist. Við vitum ekki hvort drengurinn varð fyrir misnotkun eða veikindin væru geðræn, félagsleg eða vefræn. Það var eitthvað mikið að. Hann var fárveikur. Allt var því gert til að reyna að afla honum lækninga. Farið var með hann til hóps af mönnum sem vildu vel, reyndu að gera það sem þeir kunnu til að reka út meinið. Túlkun ástvina og hjúkrunarfólks var að drengurinn væri bugaður af einhverju sem ylli málleysi, flogaköstum og sjálfskaða sem gæti dregið hann til dauða. Því reyndi fólkið lækningu en án árangurs. Þá töluðu Jesús og faðirinn saman um vandann. Og faðirinn sagði svo eftirminnilega og tjáði togstreituna: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“

Sjúkdómar og heilsa

Hin almenna skýring fólks á þessum tíma var að þegar engar sýnilegar ástæður fundust fyrir svona einkennum væri líklegast að illur andi hefði flutt inn í viðkomandi. Illir andar voru forðum taldir valda veikindum, fötlun, andlegum kvillum og ófélagslegri hegðun þeirra sem hýstu þá. Þegar slíkt gerðist tæki þessi líkamsleitandi viljavera yfir stjórnstöðvar persónunnar. Andsetning var illvíg yfirtaka. Til að hið veika fólk næði heilsu yrði að reka andann út með særingum. Þessi gerð af sjúkdómsgreiningu og lækningum var útbreidd víða um heim, líka meðal Gyðinga og í nágrannaríkjum þeirra og hefur verið meginviðhorf um víða veröld fram á síðustu aldir.  Kraftaverkasögurnar sem eru sagðar í Biblíunni verður að skilja í þessu forvísindalega samhengi.

Tilgangur og innri rök

Þegar nemendur og vinir Jesú gátu ekki læknað drenginn var komið að meistaranum. Hann talaði, framkvæmdi, fræddi og upplýsti. Sagan endaði vel. Drengurinn fékk mál, faðirinn fylltist trú, lærisveinarnir nutu þjálfunar og fræðslu og mannfjöldin fékk innsýn í eðli guðsríkisins og mátt Jesú. Hið mikilvæga er að virða að áhersla sögunnar er ekki á kraftaverk, furðuverk, töfra eða sértæka þekkingu Jesú. Kraftaverkasögur Biblíunnar á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Það merkir að við – rétt eins og Biblíufólk fyrir tvö þúsund árum – leitum að merkingu viðburða fremur en að glepjast af ásýnd þeirra. Við lesum ekki kraftaverkasögur Biblíunnar eins og jarðskjálftagröf Veðurstofunnar eða fréttafrásagnir stórviðburða í fjölmiðlum. Lækningar og læknisfræði fornaldar er merkilegt viðfangsefni en er þó alls ekki erindi eða mál guðspjallstextans. Frásagnir um lækningar í Biblíunni eru ekki textar í uppflettiriti um sjúkdóma. Biblían kennir ekkert um hvað sé rétt læknisfræði, stjörnufræði, jarðeðlisfræði eða önnur vísindi. Biblían er ástarsaga sem beinir sjónum að ástgjöf Guðs, Jesú Kristi, og segir gleðitíðindin, þetta margnefnda fagnaðarerindi til hvers hann hafi komið, hvaða líftengsl hann skapi og hvaða möguleika hann gefi. Tilgangur guðspjallanna er að tala um að Guð elskar og kemur og hefur jafn mikinn áhuga á froðufellandi málstola dreng og okkur hinum.

Mein í lífi mannabarna

Og þá er það barnið sem var rekið út úr Paradísargarðinum. Uppvaxtar- og átakabók Sævars Þórs rífur í og hrífur. Hann var illa leikinn. Drykkja foreldranna varð til að börnin nutu ekki ástar, umönnunar, eflingar, næringar, hróss og viðurkenningar. Það eru frumefni og byggingarefni heilbrigðrar persónugerðar. Svo voru illir anda í mannsmynd sem réðust á hrekklausan dreng og tóku yfir persónudýptir hans, rændu hann frelsi, sjálfstæði og rugluðu hann svo hann varð málstola og gat ekki sagt frá. Kækir skóku drenginn rétt eins og hann væri haldinn. En englarnir í lífi Sævars Þórs björguðu því sem bjargað varð. Það voru amma, konur í viðkomuhúsum Sævars og konurnar í skólanum sem sáu þurfandi dreng og studdu. Svo varð Lárus Sigurður eins og lærisveinn Jesú sem alltaf hlúði vel að sínum manni, læknaði og studdi til lífs. Sævar Þór segir svo mikla og áhrifaríka sögu að það er eins og hún sé kraftaverkasaga. Hann lýsir brenglun Reykjavíkur samtímans, segir frá illum öndum í skólum, kerfum og bisniss. Þetta er svo stór saga að það er ástæða til að skoða hana í sem víðustu samhengi. Hún er ekki bara saga um kynferðismisnotkun eða fíknifræði. Hún er ekki heldur bara karlafræði eða happy-ending-saga. Þetta er saga um líf okkar margra. Saga um að líf nútímafólks er baráttusaga og að alls konar andar eru á ferð. Siðblinnt fólk er illt, kerfi geta verið helsjúk og fíknir eru vondar. Illska kemur fram í ástskertu fólki og óuppgerðum fíknum. Barnagirnd er alvarlegt mál, ofdrekkandi foreldrar líka, misnotkun vímuefna í mörgum hópum og lögum samfélags okkar er risamál. Og það er fólk sem verður fyrir barðinu og líður fyrir. Barnið í Garðinum segir okkur það. Að vera andsetinn er ekki bara það að forvísindalegur andi kemur heldur líka þegar eiturefni hafa yfirtekið stjórn fólks eða óstillt og óheft girnd af einhveruu tagi eða einhver illvígur sjúkdómur. Fórnarlömbin eru lemstruð jafnvel þó takist að greina veilurnar og hrekja hið vonda út, hvort sem það er hjá AA hreyfingunni, sálfræðingum, læknum eða prestum. En það verður að lækna, opna og reka út hið illa. Kraftverkið varð. Bókin Barnið í Garðinum er upprisubók, um nýtt líf. Að Sævar Þór og maki hans tóku við litlum dreng er eins himinljós í bókinni. Og minnir okkur á spennuparið Guð og barn í jólaguðspjallinu. Barn í heimi og á ábyrgð fjölskyldu minnir á dýpstu köllunarmál okkar í lífinu. Ástarsaga.

Jesús læknaði, hið illa fór, drengurinn lifði. Við sjáum kraftaverkin enn gerast. Tilveran er opin af því hún er þannig gerð. En guðspjallssagan, saga Sævars Þórs og saga fólks um allar aldir sýnir okkur að við erum öll í hættu. En Guð er nærri sem býður okkur að vera heil og rísa upp til lífsins. Guð laðar, biður og styður. Og við megum gjarnan vera í hópi hans. Fagnaðarerindi á tíma þegar allt skelfur og veirurnar trylla.

Prédikun í Hallgrímskirkju 28. febrúar 2021. 2sd. í föstu. Þriðja textaröð.

Lexía: Okv 4.23-27
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru 
því að þar eru uppsprettur lífsins. 
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum 
og vörum þínum fjarri lygamálum. 
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er. 
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum. 
Víktu hvorki til hægri né vinstri, 
haltu fæti þínum frá illu.

Pistill: Op 3.10-13
 
Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Guðspjall: Mrk 9.14-29
Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“ En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“ Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“ Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“ Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“ Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur. 
Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“

Dekraðu nú við ástina!

„Það er gott að elska.“ syngur þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar. Í dag er Valentínusardagur og auglýsendur heimsins magna upp ástarbrímann og hvetja alla að dekra ástina. Tilboðunum rignir yfir, gistitilboð á hótel Sigló eða góðgæti á Forréttabarnum og dekur á Hópkaup til að koma elskunni á óvart. Já, Valentínusardagurinn er alls konar. En þetta er góður dagur og fyrir ástina. Hvaða ást? Alla ást; til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs, náttúrunnar og líka Guðs. Og kannski eru einhver hér í hópnum sem bara hugsa um konudaginn og mæðradaginn sem ástardaga – og sjá engan tilgang í að bæta amerískum Valentínusardegi í ástardagasafnið. En raunar eru allir dagar fyrir ástina.

Þær góðu fréttir bárust nú í vikubyrjun að nú mætti opna kirkjur. Við sungum dásamlegan sálm í byrjun þessarar guðsþjónustu. „Opnið kirkjur allar …“ Nærri hálft ár er liðið frá því að Hallgrímssöfnuður kom til sunnudags-guðsþjónustu. Það er því hátíð í dag. Hallgrímskirkja hefur vissulega verið opin. Helgistundir hafa verið í kirkjunni í hádeginu, síðustu mánuðina, lengstum sex sinnum í viku hverri. Við höfum gætt vel að sóttvarnarreglum og tryggt að þrátt fyrir stærð kirkjunnar hafi fjöldinn ekki verið meiri en reglur hafa sagt til um. Við höfum gætt fjarlægðarmarka og hætt að faðmast og kyssast. Við signum hins vegar og krossum hvert annað úr hæfilegri fjarlægð. Og við höfum beðið saman. Guð er óbundinn af sóttvarnarreglum og hefur blessað samfélag safnaðarins. En nú megum við koma saman í stærri hópum en áður. 150 manns mega vera við helgiathafnir í kirkjunni þessar vikurnar og vonandi fleiri þegar á líður. Haffi Haff, tónlistarmaður og messuþjónn kom í vikunni og hvatti til að á þessum degi minntum við okkur á kærleikann, ástina, tengslin í öllum myndum. Það er ekki bara forsetafrú vestur í Ameríku sem undirbýr Valentínusarhjörtu heldur undirbjó Haffi Valentínusarhjörtun fyrir Hallgrímskirkju og lagði Kristnýju og Kristínu lið í undirbúningi barnastarfsins. Nýr opinn tími. „Fyllum kirkjuna af ást“ sagði Haffi. Já, það er svo sannarlega opinn tími. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi.

Biblíutextar dagsins eru margræðir og fjölþættir. Yfirskrift þessa sunnudags og textanna á vef kirkjunnar er: Krossferill – vegur kærleikans. Og vissulega er það ein útgáfan af Valentínusardegi. Lifið betur og með ábyrgð er merking lexíunnar. Bætið vegi lífsins. Það er ekki verið að tala um Sundabraut eða Borgarlínu – heldur leiðir hjartans og hamingjuleiðir samfélagsins. Og pistillinn: Gætum að samfélagsmótun, uppeldi og sjálfsvirðingu. Það er ekki aðeins verið að tala í anda hinnar splunkunýju heimildarmyndar Hækkum rána sem var sýnd á sjónvarpsstöð Símans nú í vikunni heldur um hið stóra uppeldissamhengi allra manna, helgi lífsins og helgi alls sem Guð hefur gert. Uppeldi stelpna og stráka fellur undir það og hlutverk okkar allra er að vera meðskapendur Guðs, samverkafólk. Svo er texti Jóhannesar í þeim anda. Ég staldraði við eitt stef: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Það er ljóst að Jesús hafði áhyggjur. Hann óttaðist. Það eru djúpir skuggar sem hann uppteiknar í ræðu sinni um veginn, ljósið og leiðina. Og það er ástæða til að hugsa um lífið á Valentínusardegi, í ástarbríma á föstu.

Ástalífið á sér skugga og birtustundir rétt eins og lífið í öllum myndum. Þó heimsbyggðin hafi ákveðið að mannréttindi skuli virða, samþykkt barnasáttmála og sett í lög alls konar hvata, stefnur og bætur brengla fjársókn, hluthyggja, valdasókn, fíknir og aðrar útgáfur illskunnar líf einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga, mannkyns og lífheims. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Þessa síðustu daga hafa réttarhöld staðið yfir í þinghúsinu í Washington yfir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ég hef verið hugsi yfir stöðu lýðræðis í heiminum eins og milljónir um allan heim. Lýðræði er æfintýraleg tilraun til félagslegs samkomulags um að allir megi koma að stjórn ríkis. En slíkt samkomulag er ekki gefið og getur auðveldlega þokað fyrir ofbeldisfullu valdi sem hrifsar taumana til sín, vill meira og helst allt. Lífið sækir fram en það mætir alltaf fyrirstöðu og lífverur þurfa að hafa fyrir lífinu. Lýðræði þarf að rækta til að það lifi. Réttarhöldin í Washington eru aðeins dæmi um lýðræðisskaða í þessu mikla lýðræðisríki og að nú er vetur lýðræðis þar vestra. Tekst að hreinsa og bæta? Kemur vor? Vonska mannanna er ekki bara í röðum Trumpistanna heldur í öllum mönnum, kennir kristnin. Okkur öllum.

„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Ég minnist úr eigin lífi hvernig líf mitt lenti haustfrostum, fræ féllu, veturinn varð skeliflegur en svo voraði að nýju. Ekkert er sjálfgefið og hamingjan er engin fasteign sem er bundin af eignarhaldi og einkarétti. Lífið þarfnast alúðar, umhyggju, ræktunar. Við verðum að gangast við þroskaverkefnum okkar, áföllum og vaxtartímum.

Hvernig er með þitt líf? Hefur einhvern tíma gefið á? Hefur þú misst, tapað, týnt? Hefur vetrað í líf þínu. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Lífssögurnar eru alls konar og ástarsögurnar þar með líka. Á föstunni erum við minnt á að lífið er ekki sjálfgefið heldur barátta. Og við megum líka minna okkur á anda og boðskap Passíusálma og höfundar þeirra. Passíusálmarnir draga upp þá mynd að himinkonungur kom til að þjóna og að lokum með svo róttæku móti að hann lét líf fyrir aðra. Það er íhugandi hlið ástalífsins. Fastan og píslarsagan dregur upp skuggahliðar lífsins. Við erum minnt á baráttu, brenglun, illskuna sem beyglar jafnvel deyðir. Píslarsaga er ekki bara saga Jesú heldur alls lífs. Jesúsagan dregur saman alla þætti mannllífs og veraldar.

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.Við getum ímyndað okkur margt um Guð með því að skoða vel ástarsögur. Við getum skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa liðna árs, COVID-tímans? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Nú er dagur ástar, dagur á föstu. Við megum næra ástina okkar. En það merkir ekki bara að dekra við fólkið okkar heldur líka okkur sjálf. Þora að horfa inn á við og huga að dýptunum.

Í Biblíunni er sagt frá lífinu í öllum myndum. Þar eru sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig. „Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“ Kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Líf okkar er köflótt en saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Viltu ástarsögu eða sorgarsögu? Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um þig.

Amen.

Lexía: Jes 57.14-15
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Pistill: Heb 12.9-13
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

Guðspjall: Jóh 12.23-36 
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist. 

Prédikun SÁÞ 14. febrúar 2021.

Kvíði, ótti og uggur

Ég varð einu sinni vitni að vopnuðu ráni í sjoppu í borginni Nashville í Bandaríkjunum. Ég hafði farið á föstudagskvöldi til að kaupa nauðþurftir fyrir sambýlinga mína. Þegar grímuklæddur byssumaður hentist inn um sjoppudyrnar var ég eini viðskiptavinurinn í búðinni. Allt gerðist ofurhratt. Ég átti bágt með að trúa eigin augum og eyrum. Ránsmaðurinn var æstur og augnaráðið tryllingslegt. Hendur hans titruðu og skjálfandi byssan voru tákn þess að maðurinn væri til alls líklegur. Afgreiðslumaðurinn tók fyrir hjartað og staulaðist að peningakassanum. Hann gerði sig líklegan að afhenda grænt dollarabúnt. Allt í einu beindi ræninginn byssunni að mér. Mér fannst hlaupið svo stórt að það minnti helst á haglabyssuhlaup. Svo heyrði ég hann öskra: „Leggstu á gólfið með andlitið niður.” Ég lyppaðist niður. Það var mun verra að geta ekki séð neitt eða fylgst með með framvindunni. Ég vissi ekki, hvort maðurinn væri líklegur til að lóga okkur afgreiðslumanninum eða hvort þetta væri bara venjulegur þjófur sem vildi valda sem minnstum usla en ná sem mestu fé. Af því ég sá ekkert bjóst ég við hinu versta. Ég fékk sting í aftanverðan hálsinn og hnakka eins og kúla færi brátt í gegnum höfuð mitt. Ræninginn fékk féð og hljóp út. Ég staulaðist á fætur og fór að stumra yfir afgreiðslumanninum sem var enn með sáran verk í hjarta og ofsahræddur. Þá sá ég að hann hafði verið með skammbyssu í afgreiðsluborðinu og skildi að hann hafði verið í spennu hvort hann ætti að grípa hana og skjóta. Ránið settist að í mér og þegar ég minnist þess finn ég enn fyrir verknum í hnakkanum og óttanum.

Hví hræddir?

Texti dagsins er í áttunda kafla Mattheusarguðspjalls. Jesús og hópur hans hafði lokið verkum og þeir höfðu lagt í hann. Í stað þess að ganga fóru þeir í bát. Jesús var óttalaus og sofnaði. Veðrið snarversnaði og rokið skóflaði upp öldum. Lærisveinarnir ýttu við meistara sínum og báru upp erindið: „Herra, bjarga þú, við förumst.” Jesús spurði: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?” Hann hastaði síðan á veður og vatn og þeir náðu áttum og landi og undruðust. Báturinn er tákn um stærri veruleika, hluti fyrir heild, hvort sem það varðar friðarmál, umhverfismál eða menningarmál. Við erum öll á sama báti hvort sem við erum söfnuður á Íslandi, vinahópur á Genesaretvatni, þjóð, mannkyn eða jarðakúlan. Við eigum samleið og eigum allt undir að báturinn farist ekki í einhverju stormviðrinu. Það skiptir síðan öllu máli hver er í bátnum og hver bjargar.

Samfélag óttans

Condoleezza Rice sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna notaði gjarnan orðasambandið „samfélag óttans“ fear society til aðgreiningar frá því samfélagi sem væri í jafnvægi. Ótti hefur um aldir læðst um og spillt heilbrigði þjóðfélaga og þar með menningar. Frá tíma Hermanns Göring í þriðja ríkinu hafa margir og meðvitað alið á ótta. Í samfélögum samtímans reyna hópar að magna spennu og tortryggni sem seytlar síðan um æðar menningar og samfélaga. Í öllum átakamálum samtímans eru óttavaldar á fullu. Óttamenning er þeirra kjörlendi.

Í máli okkar eru til fjölmörg orð yfir það sem er ógnvænlegt og vekur með okkur sterkar tilfinningar: Kvíði, ótti, hræðsla, beygur, uggur, angist og skelfing. Til skilningsauka getum við flokkað hræðsluheitin í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru þau orð sem vísa til þess sem er hið innra í okkur. Flokkur númer tvo varðar hræðsluefni hið ytra og eru fyrir utan okkur. Þriðji flokkurinn er síðan það sem er handan hins þekkta heims og lífs. Ég nota orðið hræðsla um allar víddirnar en síðan eru einstök hugtök, sem eiga betur við einstaka flokka en aðra. Hræðslu hið innra kalla ég kvíða en hræðslu við eitthvað hið ytra kalla ég ótta. Þriðji flokkurinn er sérstakur og varðar það sem ég kalla ugg eða lífsangist.

Kvíðinn

Hræðsla hið innra er kvíði gagnvart einhverju sem við ímyndum okkur, einhverju sem ekki er en gæti orðið, einhverju sem er ekki nálægt eða yfirvofandi en veldur samt hræðslu. Flughræðsla er dæmi um kvíðaefni. Staðreyndin er sú að það er hættulegra að keyra út á flugvöll en ferðast með flugvél. Þetta vita flestir en samt eru margir hræddir. Aðrir eru kvíðnir vegna veikinda eins og krabbameins þó ekkert bendi til slíks. Áætlað er að nærri sjö prósent fólks sé haldið kvíða þ.e. yfir tuttugu þúsund Íslendingar. Enginn smáfjöldi! Kvíðaefni geta orðið svo ógurleg í lífi einstaklinga að þeir verða sjúkir og líf viðkomandi undirlagt og brenglað með ýmsu móti.

Óttinn

Svo er hræðslan sem beinist að ákveðnum atriðum. Það er óttinn gagnvart beinum ógnum t.d ofbeldismanni sem beinir ofsa sínum að þér. Byssumaður í búð er hræðilegu ógnvaldur. Það er líka raunverulegt óttaefni að vera í sama rými og stórt og svangt rándýr. Óttinn á sér rætur í reynslu sem er miðlað í menningu eða sem einstaklingurinn hefur orðið fyrir. Ef tilefni óttans er ógurlegt og yfirvofandi getur fólk fyllst skelfingu. Ef maður er á efstu hæð háhýsis sem er alelda hið neðra, engar flóttaleiðir mögulegar og engar þyrlur nærri verður fólk hrætt. Þau sem voru á efstu hæðum tvíburaturnanna í New York eftir að flugvélarnar flugu á þá voru í þeirri stöðu. Ef maður keyrir í hálku og stór strætisvagn kemur skautandi stjórnlaus beint á móti manni, engar bremsur virka og áreksturinn virðist yfirvofandi er ekkert einkennilegt að skelfingin verði alger. 

Flokkun reynslu

Bátsverjarnir voru hræddir. Kannski var einhver þeirra kvíðinn svona almennt talað. En ástandið var þó meira en kvíðvænlegt. Þeir voru fullir ótta við óveður sem var svo rosalegt að vanir sjómenn töldu að lífi væri raunverulega ógnað. Því vöktu þeir Jesú og leituðu aðstoðar. Hann spurði: „Við hvað eruð þið hræddir” og bætir við „þér trúlitlir?” Hver eru þá tengsl trúar og hræðslu? Það var ekki kvíði sem ég upplifði í búðarráninu heldur ótti við klikkaðan ránsmann. Ef mér hefði ekki lánast að vinna úr reynslunni hefði ég getað orðið kvíðinn og haldið að ég lenti í ráni í sjoppum heimsins í hvert sinn sem ég færi í slíka. Það sem varð mér drýgsta umhugsunarefnið í kjölfar þessarar reynslu var hversu lífið er brothætt og hve lítið þarf til að manneskjan drukkni í öldugangi daganna og lífið hverfi. Gagnvart háska vakna oft spurningar um hinstu rök. Það eru trúarlegu spurningarnar. Líf okkar gefur tilefni fyrir úrvinnslu. Það er trúarglíman. Ef við náum ekki að þroska með okkur trú geta hræðsluefni valdið skemmdum t.d. í mynd kvíða og alvarlegri andlegum sjúkleika.

Uggur og angist

Kvíði og ótti eru ekki trúarleg fyrirbæri en geta orðið tilefni til trúarlegrar glímu og hafa ýmsar trúarlegar skírskotanir. En ein tegund hræðslu varðar trú. Hún er handan þess sem við köllum kvíða og ótta. Þá á ég við það sem stundum hefur verið nefnt uggur eða angst í erlendum bókum og danski heimspekingurinn Sören Kierkegård notaði til að nefna það sem er djúprættara en venjulegur ótti við eitthvað. Þessa vídd hræðslunnar getum við líka kallað lífsangist. Í ritum Kierkegård og síðan ýmissa tilvistarspekinga á tuttugustu öld merkir angst allt annað en kvíða eða ótta við veraldarfyrirbæri eins og dýr, hættulegar aðstæður eða fólk. Kierkegård lagði áherslu á að menn væru frjálsir en gagnvart Guði mistækist þeim. Menn væru því fullir af ugg sem er staða hins seka gagnvart hinu guðlega. Uggur er líka hræðsla gagnvart djúpum sjálfsins og tilverunnar, hræðsla gagnvart innræti og merkingu heimsins, dýptum okkar sjálfra og líka myrkrinu. Uggur er hræðsla við hið óþekkta og hræðilega í okkur sjálfum og heiminum, því sem er handan við veruleikann eins og við sjáum hann og þreifum á. 

Lífsangist

Kvíða- og ótta-efni er hægt að sefa án hjálpar trúarinnar. En lífsháski og ótti rífur hins vegar falskt öryggi og opinberar sálarnekt okkar. Að okkur læðist í kjölfarið lífsangist, þessi grunur um að líf okkar sé ekki fyllilega rétt og ekki fullsátt eða fagurt nema eitthvað meira komi til, eitthvað sem sættir andstæðurnar hið innra, streituþætti veraldar og leysi tilvistargáturnar, geri upp óuppgerð mál og líka höfuðsyndir mannkyns sem engir menn megna að leysa. Dæmi um slíkt eru þjóðarmorð. Menn í þessum heimi eru í báti sem siglir sjó lífsbaráttu. Við reynum að túlka reynslu okkar. Þegar verst lætur mögnum við hjátrú, hindurvitni, ofstopa eða hatur á grundvelli hræðslu. Þegar vel fer lærum við af aðstæðum, horfumst í augu við hræðsluna og verðum skynug og vitur. Það er mannlegt að hræðast. En það er hollt að gera sér grein fyrir hvað eru kvíðaefni, hvað óttaefni og hvað uggur um inntak tilverunnar, okkur sjálf og Guð. Að lifa er oft háskalegt en það er hræðilegt að sjá bara bylgjurnar og taka ekki eftir honum sem er í bátnum með okkur og getur bjargað. Við þurfum að viðurkenna hræðsluefni okkar en líka læra að sjá það sem gerir upp angistina. Trúmenn hafa engin fyrirheit um að sleppa betur en hin trúlitlu. Það sem gerir gæfumuninn er að eiga þann að í bátnum sem hjálpar í óveðrinu. Við megum rífa í hann þegar allt virðist vera að sökkva. Þá tikkar trúin inn og hjálpar í glímunni við kvíða, óttaefni og líka angist hinnar meiri. Þeir sem eru einir á báti eru trúlitlir og sjá oft tilveruna bara í mynd óveðurs og ógna leggja því sitt til samfélags óttans. Þau eiga ekki neina algilda vörn gegn vonsku og hættum. Byssuhlaupin verða slíkum að skelfingarmálum sem kalla á ofbeldisviðbrögð og ofsa. En þegar menn gera sér grein fyrir að kvíðaefni og önnur fár heimsins eru gárur sem hægt er að hasta á með hjálp skapara himins og jarðar verður auðveldara að glíma við kvíðann, líka óttann sem og lífsangistina. Trú verður ekki til á grundvelli hræðslunnar. En hræðslan verður stundum tilefni þess að menn fara að leita til trúar og síðan til hans sem er viðfang og höfundur trúarinnar. Þegar menn eru í þeim sporum þá vaknar hann. Þá fá menn tækifæri til að upplifa að kvíðinn getur sefast, óttinn líka og uggurinn dvínar.

Fjórði sunnudagur eftir þrettánda. Jes. 40.25-31. Rm. 13.8-10. Matt. 8.23-27.

Meðfylgjandi mynd eftir Shepard Fairey, We the people are greater than fear frá árinu 2017.

Framtíðarfólk

Af hverju að senda fólk og fé til Afríku – eða einhvers annars hluta heimsins til að kynna fólki Jesú Krist, kristna trú, kristinn sið? Er það til að bæta heiminn og þjóna fólki? Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar er í dag og hefur verið haldinn frá árinu 1936. Söfnuður Hallgrímskirkju styður hjálparstarf og kristniboð. Sigurður Árni segir frá ferð til Eþíópíu og Keníu í frásögn að baki þessari smellu.