Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.

Undur lífsins

Gleðileg jól. Nú opnum við vitund okkar gagnvart jólasögunni. Í helgileik í skóla var átta ára drengur að leika í fæðingarsögu Jesú. Hann lék harðlyndan hóteleiganda, sem ekki vildi leyfa óléttri konu að komast í skjól. Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hótelkarlinn væri verulega vondur. Hvaða góður maður sendir burt konu sem væri komin að fæðingu? Gat hann leikið svona hrotta? Á jólunum ættu allir að vera góðir. Allt í einu var drengurinn kominn í bullandi siðklemmu.

Meðan hann var að hugsa sinn gang kom að þeim dramatíska hápunkti, að hjónaleysin í jólasögunni börðu að dyrum. Drengurinn lauk upp og örvæntingarfull spurning hljómaði. „Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?“ Drengurinn hikaði og svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið, leikarar og tilheyrendur. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt en óvænt:

„Já, hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin og látið fara vel um ykkur!“

Hvíslarinn í leikritinu glennti upp augun og hálfkallaði til stráksins: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir leikaranna flissuðu í stresskasti, en önnur fölnuðu. Leikstjórinn fórnaði höndum og svo hló einhver. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.

Þetta er jólasaga um hið óvænta, sem öllu breytir. “Já, hjá mér er nóg pláss.” Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Og þannig er raunar sagan um komu Jesú. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.

Sögur – mismunandi nálgun

Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár, leikin, túlkuð, endursögð og prédikuð. Við leyfum henni að seitla inn í okkur því hún varðar það mennskasta af öllu mennsku, fæðingu barns.

Jólasagan er grunnsaga. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu – heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, upplifa hana – eða breyta henni.

Plússaga fyrir líf þitt

Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við heyrum hana og skiljum mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við heyrum söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun gistihússkarlsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum.

Við erum á stöðugri hringferð ársins og í spíral tímans. Við eldumst og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í lotteríum lífsins eða töpum öllu.

Allt hefur þetta áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við gerum best að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til visku.

Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og frumsagan um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu eða glanssögu, sem aðeins gagnast börnum.

Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þær eru klassík, sögur, sem alltaf megna að bæta við og segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og ábót. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.

Plús Guðs

Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á klemmu þína og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung lífsins?

Jólasagan er ekki um fortíð heldur líf okkar í nútíð. Sagan virkar enn og á sér alls konar útgáfur og tilbrigði líka um þessi jól. Það var undursamleg tilkynning sem birtist á facebook fyrir nokkrum dögum. Kona sem á íbúð í miðbænum í Reykjavík – í nágrenni Hallgrímskirkju – tilkynnti að hún myndi ekki nota íbúðina sína yfir jólin og ef einhvern vantaði húsaskjól vildi hún lána íbúðina. Ekki fyrir gjald – heldur ókeypis þeim sem þyrftu. Eina skilyrðið var að nágrannar yrðu ekki fyrir ónæði. Hvílík gjafmildi, traust og elskusemi. Og margir hrifust af. „Já hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin.“ Rétti jólaandinn.

Jólin – tími fyrir hið stóra

Áramót eru fín til endurmats, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma, Guð inn í heim manna. Undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og mestur er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna í iðju lífsins, kallar til þín.

Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.” Konan í miðbænum líka. Og nú er komið að þér. Eru föstu liðirnir eins og venjulega óumbreytanlegar skorður – eða má bjóða þér að upplifa undur lífsins?

Verið velkomin er erindi jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér.

Amen

Hallgrímskirkja, jólanótt.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum,

sem komst til manna á jólum.

Við bjóðum þig velkominn til þinna – fögnum þér.

Þökk fyrir að þú varðst maður,

barn meðal okkar, fyrir okkur.

Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum.

 

Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd.

Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar.

Vitja þeirra Guð.

Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.

Vitja hinna fátæku, þau sem eru á flótta undan stríðum, hin kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenn okkur ábyrgð í verki, að opna dyr okkar og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna.

Í Jesú nafni – amen

Sorgin – skuggi ástarinnar

DSC01012Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016

Orðasóðar og frelsið

img_3988Í dag er sunnudagur guðlastsins. Það er ekki vegna þess að á þessum degi hafi menn guðlastað eða fengið leyfi til að vera orðasóðar. Nei, á þessum degi er sagt í guðspjallinu að Jesús hafi verið vændur um guðlast. Og hann var svo að lokum tekinn af lífi vegna guðlasts.

Á Íslandi var bannað að guðlasta en svo er ekki lengur. Á síðasta ári, 2015, felldi Alþingi úr gildi grein í almennum hegningarlögum sem úrskurðaði þá athöfn refsiverða, sem smánaði trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags. Það var 125 gr. hegningarlaganna (nr. 19/1940). Eini guðlastsdómurinn í seinni tíð féll í Hæstarétti árið 1984. Í tímaritinu Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Fleiri dómar hafa ekki gengið. Við Íslendingar hefðum ekki verið bættari ef grínistar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap. Að dæma menn fyrir guðlast hefur aldrei bætt samfélag eða guðsdýrkun.

En nú er guðlastsgreinin farin en verkefni okkar er að bæta samtal okkar. Í netheimum hafa margir sullað sinni drullu á torg heimsins. Þar er hópur sem talar niðrandi um menn og Guð, hnjóðar í atferli fólks, lastar skoðanir einstaklinga og smánar fólk með ýmsum hætti. Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Er það vegna áfalla í bernsku eða hrunreiði sem svo mikið flýtur skætingi í garð skoðana fólks, trúar, litar, kynhneigðar. Eða er það ótti? Orðsóðaskapur er líka stundum tjáning óuppgerðar reiði.

Niðrandi tal um Guð

Orðabókin segir að guðlast sé það að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Guðlast var talinn glæpur meðal hinna fornu Hebrea og refsing var líflát. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. En hið athyglisverða er að refsiharkan var ekki vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna valdamanna. Árás á trú og kenningu var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi stjórnvöld þegar trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var að lasta stjórn samfélagsins. Guðlast var ekki liðið vegna þess að það ógnaði valdsjórninni. En sú samfélagsútgáfa guðlasts er allt annað mál og hin trúarlega. Guðlast að viti kristninnar er það að virða ekki hin elskandi, leysandi og styðjandi Guð. Að Guð elskunnar sé ekki elskaður.

Frelsi

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer reynt að feta leið frelsins. Við njótum mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Og þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju. Mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskuafstöðu Guðs kristninnar.

Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum. Jesús Kristur stóð alltaf vörð um einstaklinga og við fylgjendur hans eigum að fara eins að. Frelsi er einn meginþáttur kristninnar. Guð hefur áhuga á frelsi fólks. Jesús Kristur var frelsishetjan mikla sem kom til að leysa fjötra og kalla fólk og heim til frelsis. Enn kallar hann.

En frelsi má nota eða misnota. Að kristnum skilningi er frelsið ekki bara frelsi til að fá útrás fyrir einstaklingsþarfir. Frelsið er fangvítt og í þágu lífsins, lífs okkar allra. Frelsið er líka í þágu annarra. Á tímum sem einkennast af einstaklingshyggju sem slagar í átt að narcissisma slævist meðal fólks hin djúpa frelsisáhersla kristninnar og þjónustuafstaða. Siðvitund breytist og samfélgssýn einnig. Einstaklingurinn verður mælikvarði alls, þarfir hans og langanir. En Guð vill að við umgöngumst lífið, frelsið, fólk sem dýrmæti en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Hinn lamaði í sögunni á sér systur og bræður í samtíma okkar. Sjálfhverfa er ein af alvarlegri röskununum. Því þegar hún vex rrýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða ofar öllu og allt annað verði að lúta því. Og til að frelsið nýtist sem best þarf að gæta að samskiptum, jákvæðri nálgun og mannhelgi allra. Það er hlutverk okkar að stæla siðvitund og kenna börnum okkar ábyrg tengsl og jákvæð samskipti. Verkefni okkar samfélags er að rækta virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, fólki sem hugsar eða er öðru vísi en við sjálf. Við þurfum að gæta okkur að lasta hvorki menn né Guð.

Hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Það er hið trúarlega í lífi þínu. Við erum kölluð til að vanda okkur í öllum tengslum okkar. Vöndum okkur í samtölum og stælum mannvirðinguna.

Hvað er þér mikilvægt?

Strákur var spurður hvað guðlast væri. Hann hugsaði sig um og sagði svo: „Last á enskunni er síðastur. Guð er last. Það þýðir þá að Guð sé síðastur.“ Og það er hnyttin útgáfa og rambar á hið mikilvæga. Þegar allt er þrotið kemur Guð. Guð er síðastur en líka fyrstur.

„Hann guðlastar” ályktuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði viturlega: „Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp?“ Og þar sem maðurinn fékk heilsu var komið að spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlastaði Jesús eða ekki? Nei hann stóð lífsins megin. Guðlast er að virða ekki Guð sem elskar, læknar og leysir. Jesús Kristur elskaði, læknaði og leysti fjötra. Það er fagnaðarerindið sem varðar þig og allt samfélagið.

Amen

19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Hallgrímskirkju, 2016. Útvarpsmessa RÚV.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: „Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Freki kallinn

grimanManstu eftir Dallasþáttunum í sjónvarpinu? Einu sinni var Ewing gamli, pabbi Dallasbræðranna, að kenna Bobby hvernig hann ætti að koma sér áfram. Hann sagði við hann og var að kenna honum meginregluna: “Enginn gefur þér vald. Vald er eitthvað sem maður hrifsar til sín.” Dallasserían er nú kannski ekki lífsleikniþáttur fyrir unglinga, en setning ættföðursins um hið grímulausa, hrifsandi vald er eftirminnileg. Hún tjáir vel hvernig freki kallinn hegðar sér. „Power is not given to you. It is something you take!“

Eitthvað sem þú tekur þér! Valdið, sem þú hrifsar til þín! Þetta er Voldemortviska veraldar. Allt of margar frekjur ganga lausar í samfélaginu, sópa að sér fjármuni, reyna að ná bestu sætunum, aðstöðunni, hrifsa til sín valdastöðurnar. Dallassápan hefur lekið út í allt samfélagið, en jafnframt rutt frá sér hinni mjúku lífsvisku sem allt nærir og eflir.

Í Biblíunni eru í margar sögur um aðila sem sækja í vald. Aðalhrifsir Biblíunnar og sá versti er Satan og er eins konar safnmynd og táknvera alls hins versta. Hann sogar til sín, tælir, rænir og brjálar. Samkvæmt arfsögninni var Satan sonur ljóssins, engill Guðs. Hann vildi þó meira af dýrðinni en honum bar, vildi meira. Og sóknin í vald varð honum að falli. Svona saga varðar alla, er um okkur öll. Við þurfum ekki að taka hana afar alvarlega.

Er frekjan að hrjá þig?

Guðspjallsvers dagsins – í þriðja guðspjallinu – fjallar um það þegar fólk sest í rangt sæti og það er ein birtingarmynd þess að vera í ruglinu. Guðspjallið er um freka kallinn – og freku konuna. Lúkasarguðspjall er bók veislunnar og okkur er sagt frá samkvæmi. Jesús situr til borðs með hópi fólks. Venjan var að heiðursgesturinn talaði um lífið og trúna. Það var nú reyndar uppáhaldsefni Jesú eins og við vitum. Hann hefur sjálfsagt séð vandræðagang fólks við að finna sér rétt sæti. Freki kallinn hefur verið að troða sér og Jesús vísar til uppákomunnar til kenna tilheyrendum sínum lífsleikni. Auðvitað þekktu nærstaddir hinar stífu sætareglur. Enginn fór beina leið til gestgjafans og hlammaði sér niður honum til hægri handar. Og erindi Jesú er: Ertu freki kallinn inn við beinið. Er frekjan að heltaka þig?

Draumur þinn?

Viltu vekja athygli? Langar þig til að vera aðalkallinn – aðalkonan? Viltu verða frægur, ríkur, voldugur? Í undirbúningi kosninga eru þetta góðar spurningar. Kemur þú þér þar fyrir sem þín er ekki vænst og þú átt ekki að vera? Eða bíður þú og lætur vísa þér til sætis? Niðurstaða Jesú er að “…hver sem upphefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upphafinn verða.”

Hver er syndin?

Þessi íhugun um sætaröðun smellpassar inn í tíma okkar. Hún varðar eðli og hlutverk okkar allra. Marteinn Lúther minnti á að maðurinn væri incurvatus in se ipsum, kengboginn inn í sjálfan sig. Það heitir á einfaldri íslensku að vera sjálfselskur – frekjubeygla. Þau sem gera sjálf sig að nafla tilverunnar eru sjálfhverf. Fólki er ætlað að vera upprétt í samskiptum við fólk, náttúru og Guð. En þegar fólk bregst þeirri köllun sinni bognar það inn í sjálft sig. Þá riðlast allt, tengslin bresta og samskiptin. Freki kallinn eyðileggur lífið.

Hrokinn – hubris

Þessa innsýn höfum við Vesturlandabúar þegið í arf bæði úr hinni grísku og gyðinglegu hefð. Grikkirnir sögðu margar rosalegar sögur um þau, sem ekki þekktu mörk sín og ætlaðu sér aðra stöðu en mönnum er fært að skipa. Vefarinn Arachne ætlaði sér að sigra gyðjuna Aþenu í vefnaði. Hroki hennar varð til að henni var breytt í könguló. Draumasveinninn Narcissus tapaði glórunni og lífinu vegna ástar á sjálfum sér. Hann dó beinlínis af því að dást að spegilmynd sinni. Grikkirnir sáu, að þegar menn ætla sér annað og meira en mönnum ber, fer illa. Þeir kölluðu slíkt hroka, hubris. Þegar spekingurinn Evagrius frá Pontus setti fyrstur saman lista hinna verstu synda var hrokinn þar með. Síðar ákvað Gregor páfi á sjöttu öld hverjar dauðasyndirnar væru. Hrokinn hefur síðan oft verið talin meginsyndin og möndull hinna lastanna.

Einkenni hrokans

Hvað einkennir freka kallinn og freku konuna? Þau vilja vera miðja gæðanna. Hinn hrokafulli hefur alltaf rétt fyrir sér. Þú þarft ekki lengi að svipast um til að sjá slíka snillinga! Þegar eitthvað fer aflaga kemur hinn freki sök á aðra og býr til sökudólga. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem berjast skal gegn. Einu gildir hvort það er í einkalífinu eða í pólitíkinni. Nazistarnir minntu alltaf á sökudólgana, kommarnir líka. Því miður er alltof mikið af heimspólitík okkar samtíðar með einkennum hinnar hrokafullu frekju. Þau “hin” eru sek, hinar þjóðirnar og eða hóparnir eru dólgarnir.

Frekjan deyðir

Frekjan er sjúkdómur, sem allir líða fyrir nema einna helst sá sem sjúkur er. Fíklar eru skýr mynd hins hrokafulla, haldnir sjálfsblekkingu og reyna alltaf að sannfæra aðra um eigin blekkingu. Hinn freki er sama marki brenndur, reynir að beygja aðra til fylgilags við sig. Hrokinn reynir að smækka tilveruna, einhæfa og rýra. Frekjan deyðir. Fólk tapar ávallt þar sem hrokinn stjórnar. Þar sem hrokafrekjan verður alger, hjá þeim sem hafa tapað siðferðiskennd og dómgreind, eru samferðamennirnir, makar, börn, ættingjar og vinnufélagar notaðir sem tæki til að ná dýrð, aðdáun, völdum eða fjármunum. Hrokinn er hið djöfullega í samfélaginu. Frekjan er alls staðar umhverfis okkur og líka í okkur sjálfum.

Auðmýktin – andstæða hrokans  

Hver sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig mun upphafinn verða. Þetta er boðskapurinn. Þessu vill Jesús miðla okkur. Auðmýktin, hver er hún og hvað er hún? Er mögulegt að vera auðmjúkur í hinni freku samkeppni? Já, vegna þess að auðmýkt er ekki það að vera geðlaus gufa. Auðmýkt er ekki sakleysi kjánans.

Auðmýkt er andstæða frekjunnar. Hin auðmjúku eru æðrulausir höfðingjar samstöðu og lífsverndar. Hin auðmjúku gera sér grein fyrir að öll erum við jafn mikilvæg, að aðrir eru ekki tæki í eigin þágu, heldur markmið í sjálfum sér eins og bæði Jesús Kristur og siðfræði Immanúels Kants minna okkur á. Á vegi auðmýktar lærum við, að við erum ekki nafli heimsins heldur fögur og fullgild meðal annarra fagurra og fullgildra. Við lærum að við eigum rétt – en þó ekki allan réttinn ein. Við göngumst við að við erum mikilvægur hlekkur í neti veruleikans en ekki miðdepill. Við skiljum að tilveran er fjölbreytileg og margbrotin og við megum gleðjast óttalaust gagnvart því sem er öðru vísi.

Það er ekki auðmjúk afstaða að halda að maður sé neðstur alls sem er og eigi að vera þar. Það er afrakstur lélegrar sjálfsmyndar. Auðmýkt hefur ekki með tap að gera, heldur er geðstyrk viska og heilbrigð veraldarsýn.

Hin fremstu eru hógvær og vitur

Mundu eftir anda boðorðanna: Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa. Þar eru skilin dregin. John Milton kenndi í Paradísarmissi að frekjan væri upphaf og forsenda annarra synda, hið djöfullega afl, sem við eigum í okkur, reynir að draga okkur á tálar, vill sannfæra okkur um að heimurinn eigi að lúta okkur. Þegar dýpst er skoðað er hrokinn uppreisn gegn Guði. Baráttan við frekjuna í okkur er því trúarbarátta þegar grannt er skoðað. Lestu Passíusálmana og þú munt nema sama boðskapinn.

Hin djúpa alvara í sögu Jesú er að veisluherrann í lífsveislunni er Guð sjálfur. Sætaröðunin er ekki af tagi Ewingpabbans, ekki samkvæmt handbók hins illa eða Furstum stjórnsnillinga (Machiavelli). Þar hrifsar enginn, þar er freki kallinn ekki í aðalsætinu. Þar eru allir menn uppréttir, tengdir og glaðir. Því þar er auðmýktin og lífsvitið. Í hvaða sæti ertu þú?

Prédikun 18. september 2016.

Lestrar 17. sunnudags eftir þrenningarhátíð, skv. A-textaröð.

Lexían Orðskv. 16.16-19

Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.
Braut hreinskilinna er að forðast illt,
að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar.
Drambsemi er undanfari tortímingar,
og oflæti veit á fall.
Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum
en að skipta herfangi með dramblátum.

Pistillinn Ef. 4.1-6

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Guðspjallið Lúk. 14.1-11

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.’ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“