Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Guð blessi Ísland

Textar þessa sunnudags eru áleitnir og tala beint inn í tíu ára afmæli bankahrunsins. Í guðspjallinu er sagt frá manni sem var í miklum vandkvæðum, en Jesús líknaði honum og reisti hann á fætur til nýs lífs. Pistillinn hvetur til endurnýjunar og í lexíunni segir: „Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja … Snúið við svo að þið lifið.“ Þetta er kjarnyrt samantekt á erindi kristninnar í veröldinni, verkefni hvers manns og orð í tíma töluð þegar hugað er að uppgjörum áfalla – já allra hruna heimsins.

Geir og Guð

Í gær voru rétt tíu ár frá því sá merki stjórmálamaður Geir Haarde, forsætisráðherra, flutti áhrifaríka ræðu 6. október árið 2008. Ræðan var öll birt á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Erindi hennar er skýrt og Geir endaði ræðu sína með því að segja: „Guð blessi Ísland.“ Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki ofnotað Guð í kveðjum. En það er skýr og jákvæð kveðja að biðja mönnum blessunar Guðs. Og hefur aldrei skaddað nokkurn mann – en alltaf bætt. Amma mín og móðir sögðu við alla, sem þær kvöddu: „Guð blessi þig.“ En þessi blessun Geirs Haarde varð eins og táknsetning um ótrúlega atburði þessara haustdaga fyrir tíu árum, þegar bankakerfi Íslands hrundi.

Ekki gjaldþrota á meðan

Stórar stundir brenna minningu í huga. Og Guð blessi Ísland – kveðja Geirs var „aha-stundin“ þegar raunveruleiki hrunsins dagaði á okkur og brenndist í vitund flestra. Mörg eigum við sterkar minningar, sem tengjast þessum tíma. Við kona mín vorum vorum á leið til útlandi og líka uggandi um stöðu bankamálanna. Og hún hringdi í starfsmann í þjónustudeild bankans og tjáði áhyggjurnar. Hann sagði við hana vinalega og hughreystandi: „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“

Þegar við lentum í Barcelona opnuðu margir símana sína á leiðinni út úr flugvélinni. Og það varð mikið uppnám í landgangnum, hróp og köll. Glitnir hafði fallið og ríkið tekið yfir reksturinn meðan við flugum í suðurátt yfir úthafið. Ræða Geirs Haarde hitti okkur og við fylgdumst með fréttum og svo féll Landsbankinn. Daginn, sem við fórum heim, féll Kaupþing. „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“ Jú, Kaupþing féll, allir stóru bankarnir féllu. Fjármálakerfi Íslands hrundi. Tugir þúsunda urðu fyrir fjárhagstjóni, samfélagið lemstraðist, stjórnálaumræðan eitraðist og þjóðin varð fyrir áfalli. Guð blessi Ísland.

Álagahamur peninganna

Og nú lítum við til baka og rifjum upp. Og það er mikilvægt að fara yfir tilfinningarnar, þó sumar séu sárar og íþyngjandi. Eins og mörg önnur hlustaði ég – fyrir hrun – á helstu fjármálasérfræðinga þjóðarinnar lofa getu, fjárfestingasnilld, íslenskra útrásarmanna. Flestar trommur voru slegnar til að magna trúna á velgengnina. Forsetaembættið var notað og stjórnmálamennirnir voru líka málaliðar. Blekkingarvefurinn varð álagahamur Íslands. Það var nístandi sárt þegar háskaleikurinn endaði með skelfingu og í ljós kom að fataskápar keisaranna voru tómir. Þeim, sem treyst var, brugðust, hvort sem það var með vilja eða vegna álaganna. Eldarnir loguðu, harmurinn var mörgum mjög þungur. Við prestarnir heyrðum margar sorgarsögur fólks í miklum vanda.

Hliðrun – veiklun

Vandinn var vissulega margþættur: Oflæti í fjárfestingum, getuleysi stjórnmálastéttarinnar, hræðsla embættismanna, háskólafólksins og líka kirkjunnar. Teflonhúðin var álagayfirborð stétta og hópa. Guð blessi Ísland. En gerðir eða getuskortur einstaklinga eða hópa er ekki eina ástæða hrunsins heldur fremur hliðrun í menningunni, sem stóð í langan tíma. Að fjármálamenn, stjórnmálamenn, embættismenn og við öll skyldum lenda í hruninu var niðurstaða þróunar í heila öld. Gamla Ísland var ekki fullkomið, en í menningu okkar hafði kristin mannsýn stýrt meðferð fjármuna. Raunsæji var um styrkleika, en líka breiskleika fólk. Fyrr og síðar hafði verið hamrað á í prédikun, bókum og stjórmálum, að menn væru samfélag en ekki samsafn einstaklinga, um mikilvægi þess að standa með náunganum og öðru fólki. Samstaðan var aðall menningar okkar. Um aldir var hamrað á, að peningar væru ekki markmið, heldur tæki til að þjóna öðrum. Gróði væri ekki í eigin þágu, heldur til að bæta líf heildar. Við erum ekki eyland fyrir okkur sjálf – eða fyrir fjölskyldu okkar og ættmenni. Við erum ábyrg fyrir velferð þeirra sem hafa lítið, þeirra sem eru líðandi – allra. Guð blessi þig merkti alltaf á fyrri tíð að Guð hefði áhuga á velferð allra. Það var þessi sýn og vitund, sem hafði spillst í vaxandi velsæld tuttugustu aldar Íslands. Hið trúarlega var alla liðna öld æ ákveðnar flæmt úr almannarýminu og lokað inn í kirkjuhúsunum og helst á skrifstofum prestanna. Íslensk þjóð gleymdi, að Guð blessar ekki bara þjóðkirkjuna, heldur vill efla uppeldi og blessa atvinnulíf, banka og móta útrásarvíkinga. Siðferðisveiklun samfélags er vond menningarhliðrun. Og þegar Geir Haarde sagði Guð blessi Ísland hljómaði það ekki eins og góð kveðja um að við öll nytum góðs, heldur fremur eins viðvörunaróp. „Nú er allt komið til fjandans og búið ykkur undir það versta.“

Blessun en frelsi manna

Við getum spurt: Blessaði Guð Ísland? Ég segi já. Guð var og er með. Við treystum frekt, gerðum mistök, fórum of hratt, trúðum bláeyg og hrundum öll. En alltaf var Guð þó með. Guð er alltaf nærri, Guð blessar einstaklinga, gefur líf, ljós, mat og drykk, vind og sól, veröld til að lifa í – og róttækt frelsi til starfa og að gera gott. En þótt Guð blessi allt og alla tekur Guð aldrei frá okkur ákvörðunarvaldið, hið rótttæka frelsi til að ákveða okkar stefnu, vinnu, fjárfestingar, líf og lífshætti. Við getum ákveðið, að halda í þau gildi sem hafa reynst vel í samfélagi manna um aldir. En við getum líka ákveðið að sleppa þeim og bara græða og grilla.

…svo að þið lifið

Geir Haarde sagði í ræðunni merku: „Ég hvet ykk­ur öll til að standa vörð um það sem skipt­ir mestu máli í lífi hvers ein­asta manns, standa vörð um þau lífs­gildi sem stand­ast það gjörn­inga­veður sem nú er að hefjast…  …Guð blessi Ísland.“

Bæn Geirs virkaði.  Björgunaraðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri. Víða hefur verið tekið faglega og vel á málum. En við erum ekki búin að vinna grunnvinnuna við að ákveða hvað við ætlum að gera í siðferðisefnum okkar, menningarhliðrun og uppeldi barnanna. Guð blessi Ísland gekk eftir í flestu hinu ytra. En það er okkar að vinna með blessunina í okkar lífi og okkar menningu. Það varðar nýjan anda, nýtt hjarta.

Ég kalla eftir þeim nýja anda, því nýja hjarta. „Snúið við svo að þið lifið.“ Guð blessi Ísland og í Jesú nafni – Amen.

Hallgrímskirkja 7. október, 2018. 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Tíu ára afmæli hruns.

Lexía: Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Pistill: Ef 4.22-24
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.

Guðspjall: Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.

Opna

Á þessari afmælishelgi Reykjavíkur iðar borgin af lífi. Margt er á dagskrá hér í kirkjunni, m.a. Sálmafoss í gær sem þúsundir sóttu. Í gærkvöldi horfði ég svo á flugeldasýninguna ofan úr kirkjuturni. Það var áhrifaríkt.

Reykjavíkurmaraþonið er dásamlegt og þúsundir hlupu. Þegar ég fylgdist með manngrúanum hlaupa í gær hríslaðist um mig sterk tilfinning – það var tilfinning fyrir lífinu. Allt þetta fólk var að hlaupa af því lífið er mikilvægt, gott, eftirsóknarvert. Það var gleði í augum hlauparanna og þúsundir stóðu við göturnar til að hvetja áfram, gefa þreyttum fótum aukinn kraft, lemja búsáhöld og nýta alls konar hljóðgjafa til að skapa hvatningarhávaða. Fæst af þessum sem hlupu voru að hlaupa til að vinna í sinni grein. Flest hlupu vegna einhvers fallegs markmiðs; til að hlaupa fyrir góðan málstað, til að gleðjast eða fagna einhverjum fallegum persónulegum áföngum eða markmiðum. Og kannski er ástæða fyrir hlaupum flestra að þakka fyrir líf eða lífsgjöf, hlaupa fyrir lífið, halda upp á lífið, fagna lífinu.

Gjörningur lífsins

Ástæða þess að ég segi þetta er að ég þekki svo mörg sem hlupu vegna þess að þau hafa verið veik en fengið nýjan styrk, bata eða bót meina sinna. Ég þekki fólk í hlaupinu, sem fékk krabbamein en hefur notið endurbata. Og nú hlaupa þau vegna þess að þau meta og þakka fyrir lífið. Ég þekki fólk á hlaupum sem er með gangráð fyrir hjarta og þess vegna gat þetta fólk hlaupið, notið og glaðst yfir lífi og heilsu. Ég þekki fólk í þessu hlaupi, sem hefur verið mikið veikt, verið illa farið, orðið fyrir skelfilegum áföllum en hefur notið stuðnings, hjálpar og lækningar svo það getur tók þátt í hlaupinu í ár. Og svo eru öll áheitin til að efla líf annrra, koma þeim til aðstoðar – líklega á annað hundrað milljónir!

Reykjavíkurmaraþonið er gjörningur lífsins, eiginlega risavaxið þakkarritúal til að tjá gleði og þökk fyrir líf og heilsu. Og líf og þakklæti er aldrei innhverft og sjálfhverft heldur leitar út og til annrra, að verða öðrum til góðs. Margir njóta því beins stuðnings sem er hvatning og peningastuðningur.

Hlaup til lífs

Og þá er það guðspjall dagsins. Þar er líka hlaup til lífs og þakkar. Hópur af vinum fór langa leið til að tryggja að maður í vanda næði fundi Jesú. Hann hafði liðið fyrir heyrnarleysi og þar með málleysi. Svo endaði gjörningur Jesú með því að maðurinn fékk bót meina sinna. Frá því er sagt að Jesús framkvæmdi læknisaðgerð á manninum og sagði við hann lykilorðið Effaþa. Við þetta orð og með læknandi atferli Jesú varð breyting – maðurinn heyrði hljóð lífsins og  fékk mál. Allt gerði Jesús vel og fólk talaði um það sem hann gerði.

Þetta er jákvæður og skemmtilegur texti. Við megum gjarnan nálgast hann með persónulegu móti. Ef við erum opin gagnvart sérstökum kraftaverkum getum við glaðst. Ef við efumst um kraftaverkasögur er hægt að sjá í þessari sögu öflugan lækni sem gat meira en aðrir. Og svo er þessi saga auðvitað táknsaga um um að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel.

Effaþa

Effaþa– er eitt af þessum stóru orðum í sögu heimsins. Og merkingin er einföld en stórkostleg. Effaþaþýðir: Opnist þú. Jesús hefur notað orðið oft því það varðveittist sem máttarorð. Opnist þú – hefur hann sagt við það mörg að frumkirkjan mundi það og varðveitti sem lykilorð sem opnaði skrár og kerfi lífsins. Opnist þú. Maðurinn var í vanda rétt eins og krabbameinssjúkur, hjartveikur, sinnisveikur eða fastur í neti fátæktar eða félagslegs vanda. Opnist þú var sagt, læknirinn tók til starfa og lausnin fannst. Maðurinn fékk hjálp og nýtt líf.

Að baki einstaklingnum og frásögn dagsins er dýpri merking. Öll lendum við í þeim aðstæðum að við erum lokuð og fjötruð. Fjölskyldur lenda í vandkvæðum, samfélög líka, þjóðir eru haldnar af einhverjum vondum mönnum eða meinum sem leiða til ills. Og þá er ljóst að lausnar er þörf. Segja þarf lausnarorðin – einhver þurfa að ganga erinda lífsins, hvort sem það eru sálfræðingar, stjórnmálajöfrar, hugsuðir, aktívistar eða aðrir hugsjónamenn sem þurfa að segja orðið effaþaog framkvæma það sem þarf til að losa fjötrana. Vandi mengunar í veröldinni er slíkur að himneskt og jarðneskt effaþaer nauðsyn.

Jesútexti dagsins varðar ekki bara þau sem finnst þau vera sjúk. Hann varðar okkur öll og er okkur boðskapur. Við sem einstaklingar erum í ýmsum aðstæðum lífsins og á ýmsum skeiðum fjötruð eða í vandræðum. Við erum jafnvel stundum í þeim aðstæðum að skilja ekki að við þurfum hjálp. Fíklar heimsins vilja ekki þiggja hjálp eða heyra lausnarorðin, heldur þarfnast þess að vinir styðji þá til hjálpar eða komast í hjáparaðstæður – eins og í textanum. Flóttamenn heimsins þarfnast máttarorða og aðgerða. Og á þeim tíma sem ofstæki vex í pólítík vesturlanda verða æ fleiri læstir í fjötra einfeldni, einhæfni og falsfrétta. Þá er þörf á máttarorðum, leysandi visku og fólki sem þorir.

Mannvirðing

Jesús Kristur er í sögunni sá sem virðir og viðurkennir vanda. Hann afskrifar ekki fatlaðan mann heldur virðir mennsku hans, talar heyrnarleysið til heyrnar og málleysið til málgetu. Sagan er því mannvirðingarsaga. Jesús Kristur virti og virðir fólk, afskrifa ekki heldur kemur til hjálpar. Kristnin, hreyfing Jesú, hefur fylgt fordæmi hans, metur manninn mikils, elur á mannvirðingu óháð hæfni og getu, reynir að koma fólki til hjálpar og sjálfshjálpar og eflir til lífs. Jesús Kristur efldi lífsgæði fólks og þannig vill kristin kirkja vera. Styðja og efla. Því hafa mannréttindi sprottið fram í kristnu, vestrænu samhengi, og um allan heim þar sem kristnin hefur verið heyrð og tungur hafa talað máttarorð. Textinn er því rammpólitískur. Jesús stóð alltaf með lífinu og gegn fjötrum.

Opnun eilífðar

En svo er texti dagsins ekki aðeins um pólitík, góða læknisfræði eða aðgerðir í þágu mengaðrar og þjáðrar náttúru. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel vegna þess að Guð vakir yfir og leysir fjötra. Vandi manna – okkar – er ekki aðeins líkamlegir og andlegir kvillar sem geta dregið okkur til dauða, félagslegar festur eða náttúruvá heldur líka leiðsögn um leiðir dauðans og tímans. Við erum dauðleg, við deyjum öll. Og þar er líka sagt enn og aftur effaþa– opnist þú. Við mörk lífs og dauða, tíma og eilífðar, kemur Jesús Kristur líka við sögu. Máttarorð Jesú veldur að lífi lýkur ekki við dauðastund og tveimur metrum undir grænni torfu. Við erum ekki aðeins dauðlegar verur haldnar af fjötrum og sjúkleika, heldur eru við verur lífsins, sem megum hlaupa okkar lífshlaup en halda því hlaupi áfram hinum megin við endamark lífs. Kristindómur er átrúnaður opnunar. Við megum hitta Jesús Krist alla daga, en hann heldur áfram að vera með okkur líka í dauðanum. Hann opnar fjötra dauðans, opnar tímann í eilífð sinni. Kristur segir effaþa– opnist þú og það merkir að ekkert í þínu lífi megnar að fjötra þig alltaf.

Þótt allir séu dauðlegir hleypur samt fólkið í Reykjavíkurmaraþoni fyrir lífið. Þótt allir séu dauðlegir hleypur Jesús Kristur fyrir okkur og opnar líf í tíma og eilífð. Það þarf trú til að sá veruleiki opnist. Við getum ákveðið og neitað að trúa því að lífið sé opnað en Jesús stendur álengdar og bíður okkar. Tilboð hans er skýrt: Opnist þú. Ekkert er svo erfitt að þú getir ekki losnað við fjötra þína og við lok tímans er opnað fyrir veröld eilífðar. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel af því Guð elskar þig og allt fólk, alla sköpun sína.

Amen.

Prédikun 19. ágúst, 12. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hallgrímskirkja. Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon voru 18. ágúst. Myndirnar tók ég þann dag. Kapparnir eru Tómas Magnús, Ísak og Jón Kristján. Flugeldamyndina yfir sundin – er sjónarhorn okkar sem stóðum í Hallgrímskirkjuturni. 

Textaröð: A

Lexía: Jes 29.18-24
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.

Pistill: 2Kor 3.4-9
Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar. Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Guðspjall: Mrk 7.31-37
Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Dansandi Guð

Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.

Guðsástin

Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.

Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.

A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?

Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.

Jólahandritið þitt

Jólin eru komin, undrið er loksins orðið, þessi tilfinningatími, sem hefur svo margvísleg áhrif á okkur og vekur svo margar kenndir. Mig langar að spyrja þig persónulegrar spurningar: Hvernig er handrit þitt að jólunum? Hvað er þér mikilvægt? Hvaða tilfinningapakka opnar þú? Hvað gerir þú til að hleypa að þér því, sem er þér mikilvægt? Hvað viltu og hvað ekki? Hvað gerir þú til að halda burtu frá þér því sem þér þykir vont? Hvað eru jólin þér? Og hvert er þitt jólahandrit?

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis, þegar ég var við nám í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór suður á bóginn skömmu fyrir jól, til Flórída. Alla leið til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að slaka á eftir próf. Svo kom aðfangadagskvöld. Við, þýskur félagi minn, vorum sammála um að við værum báðir jólabörn. Á aðfangadagskvöldi vildum við borða vel. Við fórum því á gott veitingahús og hófum máltíð kl. 6. Maturinn var góður, en samt var ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við vorum ekki í neinu jólastuði og héldum út í jólanóttina hugsi og þegjandi. Við okkur blasti stór ofurrauður Coca-cola-jólasveinn með kuldakinnar. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna og skegg sveinsins. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu lak af okkur félögum niður í malbikið. Engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Handritið innan í okkur passaði ekki settinu. Heimþrá og söknuður helltist yfir okkur.

„En það bar til um þessar mundir…“ ómaði textinn í höfði mér. Við fórum heim á hótel og ég rölti niður í flæðarmálið. “Hvað er það í jólahaldinu, sem skiptir máli?” tautaði ég með sjálfum mér. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu jólasálma sína í ölduleik fjörunnar. Steinarnir, eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég, og rifjaði upp ljóðið, að við værum sandkornin á ströndinni og kærleikur Guðs hafið. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðanina. Eru jól háð stemmingunni heima, við ákveðnar aðstæður? Eru jólin háð umgerðinni eða rista þau dýpra en plasthreinar eða yfirspenna barnsins? Hvert er inntak og flæði jólanna? Hver er andi handrits jólanna?

Jólalíðan

Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum á aðfangadagskvöldi og spyrja: Eru ekki fleiri gjafir? Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en glíma þó við tómleika. Þegar stormur aðfangadagskvölds líður hjá snjóar tilfinningum í logni sálarinnar. Hvað kemur til okkar þá? Hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það tilfinningarnar? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu? Hvað skiptir þig máli? Hvað ætti að vera í jólahandritinu þínu?

Jól hinna fullorðnu

Það er bara hálfsannleikur að jólin séu hátíð barnanna. Jólin eru fyrir alla, líka þig. Jól hins fullorðna eru engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn að aldri. En við erum ekki of gömul til að lifa. Og við megum leyfa okkur að upplifa jól með öðrum hætti en barnið. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. Guð finnur þig – hvar sem þú ert. En til að þú getir upplifað jólin er mikilvægt að þú skiljir hvaða aðstæður skilgreina og móta þig – þitt handrit, þetta sem stýrir hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna og þarfa. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, sem er að baki umbúðunum? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Já, jólin eru ekki aðeins hátíð barnanna heldur hátíð lífsins. Og inntak þess lífs er að Guð segir við þig: „Ég elska þig. Þú ert óendanlega mikils virði.“ Það er jólahandrit himinsins um þig, veröldina og lífið.

Vonbriðgin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West og jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitrðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá, sem andi jólanna fór að tala til mín. Eitthvað kviknaði, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans heyrði ég rödd pabba lesa: „En það bar til um þessar mundir….“ Svo kom sagan um boð keisarans um manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna á völlunum og englasöngva.

Allt í einu kom djúp tilfinning sem ég leyfði að hríslast um mig. Sársaukinn dofnaði og þá hætti að skipta máli að einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám – eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Jólin komu til mín – Jesús fæddist í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins opnaðist og goðsagan féll. Bernskuatferli aðfangadags gat ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér.

Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þitt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist félagi þinn á lífsgöngunni. Handrit þitt og handrit Guðs tengjast og fara saman.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með öllum mönnum. Guð gefi þér gleðileg jól.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——-

Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Amen.