Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Af hverju Guð maður?

Gleðileg jól. Enn einu sinni Heims um ból, helg jól. Enn einu sinni höfum við verið umföðmuð undri og unaði jólanna. Jólalyktin, dásemd í nösum, kliðmjúkir jólasálmarnir, pakkar til glaðnings og guðspjallið um jólabarnið og englana vekja tilfinningar í brjóstum okkar. En skuggar elta ljós. Í bland við spenninginn læðist jólamóri líka um. Við erum umlukin jólum á mörgum plönum. Líka hið innra, því minningarnar koma til okkar á jólum – og í nýju jólaauglýsingu Flugleiða segir hnittilega: „Varðveitum minningar og búum til nýjar.“

Kirkjusvefninn

Fyrst er það jólaminning, sem vinkona mín sagði mér í vikunni. Atburðurinn varð á aðfangadegi um eða eftir 1980. Fjölskyldan hennar bjó á Mímisvegi, sem er í slakkanum, suðaustan við Hallgrímskirkju. Allan daginn hafði snjóað. Logndrífan var svo heillandi, að mamman stóðst ekki mátið þegar liðið var á aðfangadagskvöldið og spurði son sinn hvort hann vildi ekki koma með út að leika í snjónum. Sá stutti var til og mæðginin drifu sig út, bjuggu til engla og nutu útivistarinnar. Þau voru orðin þreytt og „úthlegin“ þegar fólk kom úr húsunum og gékk í átt að kirkjunni. Mamman spurði son sinn: „Eigum við að fara upp í kirkju?“ Hann var til og þau smelltu sér í jólamessuna beint úr englagerðinni í snjódyngjunum. En stuttu síðar kom drengurinn einn heim frá kirkju. Pabbinn varð hissa og spurði áhyggjufullur: „Hvar er hún mamma þín.“ Drengurinn svaraði sposkur: „Hún er sofandi upp í kirkju. Ég gat ekki heyrt neitt fyrir hrotunum í henni!“

Eftir jólaundirbúninginn og leik mæðginanna hafði værð sest að mömmunni og vitund hennar liðaðist inn í undur jólanæturinnar. En svo þegar byrjað var að syngja Heims um bólí messulok rumskaði hún. Hún vaknaði inn í jólin – kom úr draumheimi undirvitundar inn í draumaheim himins, jarðar og jóla. Hún gerði sér grein fyrir að skrákurinn var farinn, en óttaðist ekki því svo stutt var heim frá kirkjunni. Og hún sagði mér, að hún hefði farið að hlægja í kirkjunni þegar hún uppgötvaði að hún hafði sofnað og sá þegar hún rumskaði að hún hafði ekki einu sinni tekið af sér svuntuna áður en hún fór út og síðan óvænt upp í kirkju. Svuntan lafði niður fyrir kápuna hennar þar sem hún vaknaði í heitri kirkju jólanæturinnar. Hann er sætur kirkjusvefninn! Og það er flott að vakna inn í jólanna Heims um ból.

Jólasálmurinn

Já, sálmurinn Heims um bólá tvö hundruð ára afmæli. Hann fangar og tengir flest sem varðar jól. Joseph Mohr, prestur í austurríska fjallaþorpinu Obendorf, var að undirbúa jólin. Samkvæmt einni upprunasögunni var prestur að íhuga jólaprédikunina þegar gömul kona bankaði á dyrnar á prestssetrinu og bað prestinn að koma að skíra nýfætt barn. Og þó hann væri ekki búinn að undirbúa messuna fór hann með konunni. Þegar hann horfði á nýfætt barnið varð hann snortin og tengdi það og foreldrana við Jesú Krist, Maríu og Jósef, nafna prestsins. Gleðin í húsinu og barnsfæðingin hreyfði við skáldinu í klerkinum og meðan hann barðist í gegnum snjóskaflana á heimleiðinni veiddi hann fram sálm úr sálinni. Inntak og andi jólanna féll í hrynjandi orðanna: „Heims um ból – helg eru jól.“ Sr. Joseph fór með sálminn til Frans Gruber, vinar síns og samstarfsmanns, sem bjó til lag við textann. Orgelið í kirkjunni var bilað og því var gítar notaður í aftansöngnum. Og vinirnir sungu sálminn í fyrsta sinn opinberlega. Þetta var fyrir réttum tvö hundruð árum, árið 1818. Og öll jól síðan, í tvær aldir, hefur þessi jólasálmur verið sunginn og síðustu hundrað árin um allan heim. Jólasálmurinn sem vekur jafnvel þreyttar mömmur af kirkjusvefninum.[i]

Jesútrúin

Hvað ætlum við að gera með jólin og boðskap jólanna? Margir halda fram, að þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru bara plat þá hverfi trúin á svein jólanna. Þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru fólk í góðu gervi þá byrjar trúin á Jesú að ruglast. Fyrst fer jólasveinatrúin og svo fer Jesútrúin. Er það svo? Þegar börnin trúa ekki lengur á jólasveininn af hverju ættu þau að trúa á Jesú, aðalsvein jólanna? Auðvitað er allur munur á – en það er ekkert einfalt að trúa á himinsveininn. „Af hverju gerðist Guð maður?“ Þeirrar spurningar hefur fólk spurt um allar aldir. Af hverju kom ljósið í heiminn? Hver eðlis er þessi speki um barn í heimi? Gat Guð ekki bara gert heiminn almennilega svo engin neyð eða þjáning þrifist í þessari veröld og ekki þyrfti að senda lausnara af himnum. Er Guð kannski vanmáttugur? Því meira, sem við vitum um geiminn, því smærri verður kúlan okkar í svimandi óravíddum. Af hverju ætti æðsta vald himsins að hafa áhuga á þessum útnára heimsins, þessu smælki í alheiminum, sem jörðin er í geimgímaldinu? Og ekki er mannkynið ekki sérlega sjarmerandi, hópur lífvera sem hefur gert heimili sitt að ruslastíu og farið svo hraklega með óðalið sitt að það er að deyja.

Guð sem teygir sig til…

Á jóladegi er „hitt“ jólaguðspjallið lesið frá altari, upphafsvers Jóhannesarguðspjalls. „Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Svo er sögð saga þessa orðs, viðtöku þess eða höfnun. Stórtákn eru nefnd og þjónar þess kynntir. Inntak þessara fáu setninga er svo rismikið að mörgum þykir þessi texti einn af mikilvægustu og fegurstu textum Biblíunnar. Jafnvel grískan er svo fallega ljóðræn, að ég lærði fyrstu versin utan að fyrir fjörutíu árum. Upphaf guðspjallanna er ólíkt. Í þessum Jóhannesartexta er ekkert sagt um ætt og uppruna Jesú. Hér er engin ættartala eins og í Matteusarguðspjalli. Ekkert klippt og skorið eins og í Markúsi. Ekkert sagt um Kýreneus, Heródes eða Ágústus keisara eins og í Lúkasarguðspjalli.

Nei, formáli Jóhannesar er öðru vísi, rismikill, djúpur og stórkostlegur. Þar er byrjað á himnum, eiginlega innan í Guði og þar á eftir er síðan talað um samband þess Guðs við heim. Fyrstu versin varða skapandi orð, tjá útleitandi elsku. Ekki feiminn, innhverfur Guð heldur tengslasækjandi veraldarvaki. Þungur undirstraumur og ljóðræna textans heillar.

Allir þokkalega biblíufróðir gera sér grein fyrir að þessi vers í jólaguðspjalli Jóhannesar varða skapandi guðdóm. Textinn vísar beint í sköpunartexta Gamla testamentisins, t.d. í fyrstu bók Móse og  Davíðssálmum. Hvernig Jesús Kristur er kynntur til sögu varðar að Guð er nálægur og virkur. Í sköpun heimsins varð ljós. Svo þegar Jesús kom í heiminn kom ljós, sem skín í myrkrinu, gefur líf, nærir og blessar.

Jólaguðspjall Jóhannesar veitir okkur innsýn í Guð. Mennskan fæðist í innra lífi Guðs. Upphaf alls, efnis og anda, er í guðsdýpt himinsins. En eitt er undur hins guðlega og annað er hvernig brugðist er við undragjöfunum. Þegar skapandi viska Guðs kemur fram í tíma heyra sumir, nema, skynja, skilja og taka við. Aðrir taka ekki á móti. Mál jólanna er ekki bara að allir séu kátir. Innan hrings jólanna eru líka reiðir menn sem hafna. Fólk allra alda veit að þegar ljós skín sem skærast verða skuggarnir djúpir.

Ljósið sem skín

Í vikunni kom hópur frá Englandi og Bandaríkjunum í Hallgrímskirkju. Þau voru að vinna efni fyrir samfélagsmiðla Apple um tengsl fólks á Íslandi við látna ástvini og hefðir okkar Íslendinga við að kveikja kerti á leiðum ástvina. Þau höfðu hrifist af lífsástinni, sem kemur fram í virðingunni á lífi genginna ástvina sem ljósin tjá. Mér þótti gaman að tala við þetta íhugula fólk sem skrifar fyrir tugi milljóna á samfélagsmiðlunum. Ég held, að við kveikjum ljós á leiðinum af því það er ævagömul hefð fyrir að lýsa vegfarendum. Fyrir tíð rafmagns setti fólk ljós í glugga til að ferðafólk gæti séð mannabústaði. Kristin kirkja hefur alla tíð talað um ljós Guðs, sem kemur í heiminn til að lýsa í myrkri. Við elskum fólkið okkar og viljum lýsa því á leiðinni inn í himinn Guðs. En svo eru ljósin á leiðunum líka áminning um að við erum á sömu leið og ástvinir okkar á undan okkur, pílagrímar í tíma, á leið um myrkar og ljósar lendur heimsins, á leið inn í himininn. Á jólum kveikjum við á mörgum kertum, hlöðum seríum í glugga, á ufsir og í tré. Og ljósadýrðin er mikil í og við húsin okkar hjér á norðurslóð. Það er ekki bara löngun til að tjá myrkrinu að við viljum ekki vera döpur, heldur tjáning um að við viljum að tilveran sé björt og upplýst en ekki drungaleg veröld. Með atferli okkar tjáum við hina dýpstu þrá, vonina um að til sé gott afl, guðleg veröld sem heimsljósið lýsir.

„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. .. öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Nóg fyrir kirkjusvefn, kirkjuvöku, jól heima, allt árið. Ljós Guðs lýsi þér.

Hallgrímskirkja jóladagur 2018

Textaröð: B

Lexía: Jes 62.10-12
Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

[i]Texti sálmsins er eftir Sveinbjörn Egilsson og er texti hans frumsaminn fremur en þýðing. Matthías Jochumsson þýddi hins vegar texta Joseps Mohr: Hljóða nótt, heilaga nótt

 

Greta, Guð og blessunin

Hún er fimmtán ára gömul og vakti athygli Svía í haust. Í stað þess að fara í skólann á föstudögum fór hún í skólaverkfall. Hún fór að þinghúsinu í Stokkhólmi og mótmælti mengun jarðar og lofts. Hún heitir Greta Thunberg og skólaverkfallið hennar vakti svo mikla athygli að henni var boðið til Katovice í desember síðastliðnum til að flytja ávarp á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þar var haldin. Þessi lágvaxni risi sakaði leiðtoga heimsins um að stela framtíð barna. Í fjögurra mínútna ræðu sagði hún, að gömlu aðferðir þeirra hefðu ekki skilað neinu. Allt of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Hún sagði: „Þið talið bara um grænan hagvöxt því þið eruð hrædd við óvinsældir. Þið talið bara um sömu vondu hugmyndirnar, sem komu okkur í vanda í stað þess að taka í neyðarhemilinn. Þið eruð ekki nógu þroskuð til að segja hlutina eins og þeir eru. … Þið segist elska börnin ykkar heitar en nokkuð annað, en samt stelið þið framtíð þeirra fyrir framan nefið á þeim.“ Og svo hélt hún áfram og minnti á að lífhvolfi jarðar væri fórnað svo að auðugt fólk í löndum gæti áfram lifað í vellystingum. Þægindi fárra væru keypt með þjáningu. Og Greta Thunberg sagði pótíkusunum upp. Hún hefur sett sér áramótaheit, kveikti skilning margra og kallar til ábyrgðar og starfa. Boðskapur þessarar ungu konu er erindi úr framtíð.

Blessunin er alls konar

Nú er nýársdagur, opinn tími nýrra möguleika. Hvert er nýársheit Guðs? Það kemur úr framtíðinni líka. Og hvert er þitt heit? Áttu þér draum? Hvað viltu að hverfi og yfirgefi þig? Við erum kölluð til góðs lífs. Sá nýársboðskapur kemur fram í textum dagsins. Er þar eitthvað sagt, sem varðar líf okkar á nýju ári, gilt fyrir heila, hjarta, hendur og fætur? Framtíðin kallar til þín – kallar þig.

Lexía dagsins eru eiginlega stóryrði – og svo mikilvæg að Gyðingar álitu þau meginmál. Og kristnin, með Jesú Krist sem fyrirmynd, gerði þau að niðurlagi í messum. Þetta eru blessunarorðin, sem prestar fara með í lok allra messugerða. Þau eru skráð í fjórðu Mósebók. Kannski hljóma þau eins og þula eða orðasúpa, en þau eru svo sannarlega ekki inntantóm merkingaleysa, heldur varða líf og hamingju allra:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hefur þú heyrt þessi orð? Þetta er hin aronítíska blessun, sem líka er kölluð prestslega blessunin. Svo eru til fleiri blessanir í Biblíunni, t.d. sæluboðin og postulega kveðjan. Og mömmur og pabbar, afar og ömmur hafa breitt elsku yfir fólkið sitt og afkomendur í sama anda og sagt: „Guð blessi þig“ – eða – „Guð geymi þig.“

Blessun merkir að lífið verði gott þeim, sem þiggur blessun. Blessun er til bóta. Við menn erum farvegur en Guð er lind blessunar. Þegar Guð blessar eru gjafir gefnar og þær eru allt hið góða, sem við njótum; gjöful og fögur náttúra, friður meðal þjóða og hópa, matur, öryggi fólks, gott skólakerfi og heilsugæsla. Ekkert af þessu eru sjálfsögð gæði, sem við eigum heimtingu á til að nota eða misnota. Hver er blessun þín?

Tvíhyggja eða eining?

Mörgum hættir til að hugsa um hið trúarlega sem innra líf, hugarró, innra traust eða æðruleysi. Já, það er blessun en hún er líka stærri. Blessun Guðs varðar líka efnaferla í eldfjöllum, sprengingar í sólkerfum, nýjustu rannsóknir í krabbameinslækningum og hvort Trump trompast (aftur og áfram?). Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju. Tvíhyggja er sú nálgun, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar og samfélag sé óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Bibllíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggjan, sem kom inn í heim fólks, eyðilagði þá heild. Og það er komið að því að við hættum að rugla.

Hvað er blessun? Hún er stórpólitísk yfirlýsing og kall til átaka. Blessunin í messunni er ekki fróm ósk prestsins um að þér líði skár innan í þér í næstu viku en í þeirri síðustu. Hún varðar að þú lifir lífinu vel á öllum sviðum, gerir upp brot þín og áföll, vinnir í þínum málum, hugir að heilsu þinni, látir ekki spillt fólk spilla friði og fara illa með aðra. Og hún merkir, að þú leggir þitt á vogarskálar svo líf heimsins fái lifað. Blessun Guðs er áramótagjöf Guðs svo líf þitt og líf heimsins batni.

Umhverfi, blessun, ábyrgð

Nýtt ár, nýir möguleikar og framkvæmdir til góðs.

Drottinn blessi þig – en við menn dælum samt árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið, sem skaða alla þætti lífríkisins. Ein milljón fugla deyr árlega vegna þessa og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr. Drottinn varðveiti þig.

Drottin láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, sagði í liðnum mánuði í Katovice, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims.Það merkir á máli trúar, að gott fólk um allan heim er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og forréttindafólki vestursins hættir til. Og Drottin sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig. Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér streymir dásamlegt vatn. Um fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Þú varst borin til skírnar sem barn. Milljarðagamalt hreint vatn lék um hársvörð þinn og vatnið, sem þú nærðist af í móðurmjólkinni varð þér til lífs. Þegar þú gengur til altaris á eftir gengur þú að uppsprettu lífsins í margföldum skilningi. Og Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Á nýju ári kallar Guð lærisveina, fólk til starfa. Áramótablessun Guðs varðar þitt líf. Við erum ekki kölluð til að bjarga heiminum en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum athkvæði okkar og notum peninga.  Sóknarnefnd Hallgrímskirkju t.d. undirbýr nú að Hallgrímskirkja verði græn kirkja.

Á nýju ári er heimurinn blessaður. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð, í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar blessunar. Kristnin virðir skugga og áföll – talar alltaf með rödd hins góða og eflandi.

Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Boðskapurinn er: Dauðinn dó en lífið lifir. Guð kallar fram líf – gleði, von, vit, ljós og kallar fólk til verka. Nýársheit Guðs er blessun.

Amen.

Prédikun 1. janúar, 2018. Hallgrímskirkja. 

Grist: https://grist.org/article/greta-thunberg-activist-cop24-katowice/

http://www.visir.is/g/2018181219320

Blessunarorðin – 4Mós 6.22-26
Drottinn talaði til Móse og sagði: „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Bullandi karlmennska

Hvað eigum við þá að gera? Það er spurning guðspjallsins. Samtöl á bar rétt hjá Dómkirkjunni og Alþingishúsinu fönguðu athygli margra síðustu vikurnar. Klausturupptökur Marvins, sem reyndar er kona og heitir Bára, voru opinberaðar í skömmtum. Sumt af því, sem sagt var á barnum, var meinlítið röfl en annað var meiðandi. Fjölmiðlafólkið, sem hlustaði fyrst á upptökurnar, spurði sig. „Hvað eigum við þá að gera?“ Og þegar efnið var svo opinberað þyrluðust upp álitaefni. Hvernig átti að bregðast við hlutgervingu kvenna og að þær voru túlkaðar sem tól? Fötlun fólks varð enn einu sinni skotspónn. Samtölin opinberuðu ýmsa fordóma og reiði. Já, hvað eigum við þá að gera?

Textar þessa þriðja sunnudags í aðventu varða samtöl á bar og reyndar líka hvernig karlar, já allt fólk, þarf að lifa og vera. Karlar hafa lengi ráðið mestu í hinu opinbera rými. Hlutur karla er íhugunarefni. Og þar sem karlarnir gegna mörgum hlutverkum í messu dagsins, ómbrimandi karlakór syngur, karl spilar á orgelið og tveir þjóna fyrir altari – og textinn gefur tilefnið – verður talað um karlmennsku af prédikunarstóli, eðli hennar og skuggahliðar. Þau, sem eru með símana sína tilbúna, hafa hér með fulla heimild til að taka upp allt, sem hér verður sagt, birta á netinu og framsenda hvert sem er.

Biblían hefur margt að segja við karla um styrkleika þeirra og veikleika – hvað þeir geta gert eða ættu að gera. Já, Biblían hefur mótað margt í sögu okkar og þar á meðal haft áhrif – með biblíupersónum – á karlmennskuhugmyndir okkar. Og þegar karlar láta allt flakka, óra sína, fordóma, stefnumál og átök þá er margt, sem Biblían getur bent þeim á og bætt við. Biblían heldur áfram að leggja til vísdóm og líka karlímyndir.

Klausturbarsgjörningurinn er merkilegt stykki á leiksviði þjóðfélags. Ekkert handrit var skrifað, heldur var flæðið og spuninn í samræmi hvatir og tilfinningar. Á Klausturbarnum var öll mennska undir, tengsl fólks, gildi og þrýstilínur samfélags, eðli og hlutverk kvenna og fatlaðra. Því er þetta mál rætt í dag og varðar alla karla og allar konur.

Verk karla

„Hvað eigum við þá að gera?“ Svo var og verður spurt. Jóhannes skírari var merkilegur karl. Hann fór ekki á barinn heldur út í eyðimörkina. Hann hafði komist að því að gamla pólitíkin hafði bara klúðrað málum og nú þurfti eitthvað nýtt að vinda ofan af vitleysunni. Jóhannes barðist fyrir bættu samfélagi. Margir hrifust og töldu, að fram væri kominn nýr leiðtogi fyrir nýjan miðflokk fólksins. Jóhannes kom úr eyðimörkinni og að vatninu, skírði og hélt ræður, sem hlustað var á. Hann var vissulega rosalegur, með hunang í skegginu og þyrna í kyrtli, en það var ekkert rugl eða röfl í málflutningi hans. Boðskapurinn var fyrir karla í krapinu, konur að störfum og réttlátt samfélag. Hann hélt fram: Ef þið eruð rík, náið þá í fjármunina úr skjólum ykkar og gefið hinum fátæku. Ef þið eigið föt og mat aflögu ættuð þið að að gefa með ykkur. Og þau, sem voru jaðarsett í samfélaginu (og biblían kallar tollheimtumenn), spurðu: „Meistari, hvað eigum við þá að gera?“ Jóhannes sagði þeim að græða ekki meira en hæfilega. Allir skyldu taka tillit til annarra, enginn skyldi beita slægð eða svikum. Menn skyldu gæta hófstillingar. Og af því það var stemming fyrir búsáhaldabyltingu í þjóðfélaginu vildu margir að Jóhannes yrði foringinn. „Nei, nei,“ sagði hann. Hann væri ekki í pólitík til að bola einni valdastétt frá til að koma annarri að. Hann væri í stóru málunum – þessum sem jól og páskar varða.

Orð og gerðir Jóhannesar skírara sýna karl, sem var sterkur leiðtogi og skilgreindi forystu sína í þágu annrra. Jóhannes sýndi okkur meginþætti karlmennsku. Karl sem þjónn, karl sem siðferðisvera, karl sem vitringur, karl sem lítur á sig sem hlekk í keðju, hluta heildar og í þágu annarra. Það er karlaímynd Biblíunnar – og enginn ábyrgðarflótti.

Karlímyndir

Það var nú ekki markmið þeirra á Klausturbarnum að bjóða Jóhannesi skírara til sín. En Jóhannes þarf að mæta þangað líka með alvöru pólitík. Hann þarf að mæta til okkar allra því við gerum öll mistök, dettum í rugl og missum okkur. Við erum öll undir auga alskyggninnar. Þegar karlar lýsa konum sem tólum er karlmennskan sködduð. Karlar, sem tala niður til einhverra og jafnvel gera grín að þeim eins og þau væru dýr, hafa tapað getunni og flekkað mennskuna. En klausturbargjörningurinn er ekki undantekning heldur eitt af mörgum dæmum um afstöðu einstaklinga og hópa í samfélagi okkar, sem höndla illa samfélagsbreytingar, ógnanir alþjóðavæðingar og fljótandi siðferðisviðmið. Óttinn hefur magnast. Alls konar ótti, við nýbúa, flóttamenn, homma og lesbíur og fleiri. Og reiðin er systir óttans. Þegar karlmennskan tapar getunni er stutt í ofbeldið. Um það verðum við að ræða undanbragðalaust og ekki setja okkur sjálf utan hrings.

Styrkur eða veikleiki

Í öllum samfélögum eru til karlar, sem eru hræddir við sjálfa sig, um sjálfa sig og þar með hræddir við konur. Ein af aðferðum hins hrædda er að hlutgera annað fólk, niðurlægja, lítillækka og hreykja sér á kostnað annarra. Þegar konur eða karlar ná ekki að þroskast til visku og máttar – verða til skuggamenni, sem misnota. Hverjir verða fyrir? Jafnan þrenningin: Börn, konur og náttúra. Það eru helstu þolendur sjúkrar mennsku. Litlir karlar níða aðra niður eða riðlast á öðru fóki til að sjást. Hræddir karlar beita ofbeldi. Ófullnægðir karlar tuddast áfram og trampa á öðrum. Siðblekktir karlar varpa draumórum um eigin mikilleika á heiminn og sækja í vald. Kenna öðrum eða aðstæðum um allt sem aflaga fer. Ábyrgðarflótti einkennir atferli þeirra.

Það er annað en karlímynd Biblíunnar. Stóru karlar kristninnar eru þjónar, karlar sem siðferðisverur, vitringar sem sjá hlutverk sitt í tengslum og í þágu annarra. Og gangast við ábyrgð sinni.

Lýsa upp skuggana

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sagði einu sinni frá því, að í skóla dóttur hans hefðu tólf ára drengir sagt, að það þyrfi að nauðga stelpum með skoðanir. Og takið eftir: Þetta eru drengir, sem ekki eru komnir á fermingaraldur! Ekki væri tekið mark á stelpunum vegna þess að þær væru “ómerkilegar, þær væru ílát, drasl” – eins og drengirnir orðuðu það! Tólf ára drengir í skóla, en töluðu eins og drengir á bar. Ofbeldismenning varðar okkur öll og skiptir okkur máli. Við eigum að bregðast við henni. Allt annað er meðvirkni. Hið illa lifir og dafnar meðan gott fólk gerir ekkert. Við þurfum að staldra við og spyrja okkur sjálf hvort við ræktum óttann innan í okkur og ofbeldið þar með? Við erum öll í hættu og hættir til að verða skuggaverur.

Jóhannes var flottur karl. Hann ól ekki á ótta og lagði ekki til nauðganir og mannfyrirlitningu. Nei, hann beindi sjónum að því, sem mestu máli skipti, Guði, komu hins góða, trúarlega í mannheim. Aðventan er undirbúningstími. Við megum gjarnan skúra að hætti Jóhannesar. Skúra út ótta og hreinsa okkar andans vistarverur. Taka á móti Jesú Kristi. Hann þjónaði alltaf fólki, virti fólk, gerði ekki grín að fötlun þess, heldur studdi og læknaði. Jóhannes var flottur karl og Jesús Kristur er ímynd þroskaðrar karlmennsku.

Aðventan kallar á alvöru kalla!

Stöldrum við og þorum að endurskoða mennsku okkar. Þið karlar, syngjandi, þjónandi, verandi. Þorið að vera alvöru karlar, sem ræktið þroska en ekki smæðarlegar skuggamyndir. Dætur okkar og synir, allt fólk í umhverfi okkar á að fá að njóta hæfileika sinna án heftinga. Haturshópar eiga ekki rétt á starfsfriði og ofbeldiskúltúr hentar bara í endurvinnsluna. Nú eigum við að leyfa draumum að rætast. Bönnum lausagöngu karltrölla í almannarýminu, en ræktum mennskuna. Notum aðventuna til að hreinsa út fordóma og falsímyndir úr lífi okkar. Hvað eigum við þá að gera? Opnum bar himinsins, leyfum sálmum lífsins að hljóma, körlum að leika og mannlífi að blómstra.

Amen.

Íhugun um karlmennsku, skuggahliðar og alvöru karla.

B-röð texta. Hallgrímskirkja 16. des 2018

Ofurhugar Íslands

5. desember 1948, vígsla fyrsta hluta kirkjunnar, Hallgrímskapella. Fremst á mynd er Vörðuskóli. Í baksýn eru braggar og Hnitbjörg. Skólavörðuholt. Nú er þetta kapella undir kór kirkjunnar.

París hefur sinn Eiffelturn, London Big Ben og Reykjavík Hallgrímskirkju. Þannig var Reykjavík uppteiknuð í ferðakynningu og tjáir hlutverk kirkjunnar í borgarlandslagi Reykjavíkur. Hallgrímskirkja er orðin einkenni borgarinnar, lógó ferðamennskunnar. Auglýsingabransinn notar hana, sem bakgrunn til að staðfæra og sannfæra. Hallgrímskirkja teiknar sjóndeildarhring Reykjavíkur og Íslands. En svo hefur það nú ekki verið um aldir.

Hvar er Hallgrímskirkja?

Gamlar myndir frá Reykjavík eru skrýtnar því á þeim er enginn gnæfandi kirkja á Skólavörðuholti, turnspíra hálfa leið til himins, kirkjuskip og nettur kórkúpull. Það, sem nú er nauðsyn í auglýsingum ferðaþjónustunnar og sjónrænn stimpill vitundar okkar, er ekkert sjálfsagt heldur ávöxtur starfs stórmenna. Þegar byrjað var á byggingu kapellunnar, neðri hluta kirkjukórsins, var á holtinu braggabyggð stríðsáranna. Það var erfitt að afla heimilda fyrir lóð fyrir kirkjuna. Svo hafði hernámsliðið ekki mikla þolinmæði fyrir eitthvert kirkjurask í miðri heimsstyrjöld. Miðað við fátækt fólks var fáránlegt að láta sig dreyma svona stóra byggingu, hvað þá að fara af stað. Byggingaráform Hallgrímskirkju voru órar, enda var enginn skortur á andstæðingum, úrtölumönnum og glefsandi uppistöndurum. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að Hallgrímskirkju á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar. Þökk sé þeim einbeittu konum. Þær eru meirihluti ofurhugaliðsins.  

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Hetjur heyrðu. Þær voru stórhugar Íslands, sem við stöndum í þakkarskuld við. Þær voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags, þjóðfélag og kristni. Það var farið til að byggja. Milli bragganna í Skipton Campá Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Sjötug kapella, sjötíu náðarár.

Kapellan og fólkið

Við höfum notið náðar Guðs. Sum ykkar voru fermd hér og önnur gift. Hvað eru mörg ykkar, sem voru skírð í Hallgrímskirkju? Gerið svo vel að rétta upp hönd! Hvað eru mörg í þessum söfnuði, sem voru fermd hér? En gengu í hjónaband? Já og öll hafið þið komið til messu í þessari kirkju. Og við erum í stórum söfnuði fólks, sem hefur lagt lið, notið og verið í liði himinsins.

Í fjölskyldu minni var alltaf talað með mikilli elsku um kapellu Hallgrímskirkju. Foreldrar mínir stóðu með framtíðarfólkinu á Skólavörðuholti og sóttu oft messur hingað. Og svo þegar ég var nýkominn frá Guði fóru foreldrar mínir upp á holtið og sr. Sigurjón Þ. Árnason skírði mig. Og ég var með foreldrum mínum í guðsþjónustum síðar. Eins og mörg önnur börn starði ég heillaður á Kristsmynd Einars Jónssonar og pálmann, sem Guðrún og Karl Ryden gáfu kirkjunni. Bæði voru í kapellunni, síðar í Suðursalnum og eru enn í kirkjuskipi Hallgrímskirkju nú. Eins og tákn um hið lífræna samhengi hins lifandi boðskapar í sjötíu ár. Og mörg munum við líka hve gluggarnir voru hátt uppi í kapellunni og hve stór hún var. Í minni fjölskyldu var börnum kennt að tala þessa kirkju upp en ekki niður. Hún væri á ábyrgð okkar allra. Erindið væri aðalatriðið og það varðar: Að lífið væri ekki bara stríð, braggar, ógnanir og búralegt hyggjuvit – heldur dásamlegt, fullt af möguleikum, fagnaðarefnum og opinni framtíð. Því var svona kirkja byggð. Við njótum stórhuga Anda.

Það sem rætist

Kirkja á sér fortíð. Kirkja er líka saga og þessi kirkja á sér langa sögu. Hvers virði er minning og saga? Í guðspjalli dagsins er Jesús kominn í heilan hring og inn í sögu þjóðar og fjölskyldu. Hann hafði verið í langferð og var loksins kominn heim. Hann fór í sína kapellu á sínu holti á helgidegi. Og tók las orð úr ritasafni þjóðmenningar sinnar, orð um hlutverk, gleðilegan boðskap, hinum þurfandi lausn, nýja og heilbrigða sýn. Þetta voru stærri orð en braggamenn heimsins gætu skilið. Og allir viðstaddir gerðu sér grein fyrir að orð þessa manns voru þvert á allar hugmyndir hagnýts hyggjuvits: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Orð úr fortíð, sem opnuðu framtíð. Söguleg samtíð. Allt stórt, allt nýtt, allt opið. Jesús Kristur, sem veruleiki nýrrar nálgunar alls. Samstaða með hinum kúguðu, líðandi og hömluðu. Já, það væri einkenni þess samfélags, sem Guð kallaði fram, að bæta líf fólks, kalla það til samúðar og samheldni. Og þetta með fagnaðarerindið væri ekki bara að búa til ræðupall fyrir hnyttna uppistandara, heldur opna tímann. Lífið væri meira en matur og frumskógarlögmál. Lífið væri skapað af elskandi Guði. Síðan varð til kristni og alls konar kirkjur. En erindið er alls staðar hið sama, fagnaðarerindi fyrir fólk, heim og framtíð.

Staður tengingar

Saga Hallgrímskirkju er lykilsaga. Hún hófst í andófi og í miðju braggahverfi. Þar voru gleðimálin túlkuð og iðkuð, samfélagið ræktað, fátækir virtir og náðarár kunngerð. Sjötíu árum síðar er Hallgrímskirkja eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. The Guardianhefur fellt þann úrskurð vegna þess að hér hafa milljónir ferðalanga lífsins fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra, náð sambandi við himininn. Ritningin hefur ræst. Byggingunni er ætlað að vera hlið himins, benda upp, teikna landslag menningar og samfélags, vera athvarf hinum jaðarsettu, vettvangur fegurðar, vörn gilda, farvegur skapandi listar, stefnumótastaður tíma og eilífðar. Staðurinn þar sem Jesús Kristur er, stendur upp, opnar bókina og segir skýrt og klárt: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Til hvers kirkja?

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. Hvernig á að túlka vinsældahrun kirkjunnar? Er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó fólk og samfélög ruglist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Kirkjustofnanir fremur en kristni eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkja sé ónauðsynleg – heldur að kirkja sé að breytast. Við, sem viljum hlusta á Jesúboðskap daganna, megum vita að Guð kallar alltaf með raunhæfum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar, en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa. Hvernig eigum við að þjóna öllu þessu fólki sem hingað kemur? Hvernig getum við verið farvegur fyrir gleði Guðs, fagnaðarerindi, fyrir alla?

Nunnurnar

Þær þúsundir, sem koma í Hallgrímskirkju á hverjum degi, eru á lífsferð sinni, pílagrímagöngu frá fortíð til framtíðar. Allt sálir, fólk í leit að merkingu fyrir líf sitt. Fyrir nokkrum dögum var hér á ferð hópur af nunnum. Reyndar voru tveir karlar í nunnubúningi og annar þeirra var með yfirvaraskegg. Nunnurnar íslensku og þmt þessir klæðskiptu munkar eru að ljúka framhaldsskóla. Þau voru uppáklædd vegna dimissjónar. Tímum er lokið og stúdentsprófin eru framundan. Hópnum var boðið inn í kirkjuna og þegar búið var ræða við þau sagði einn í hópnum: „Ég vissi ekki, að þjóðkirkjan væri svona opin og skemmtileg. Eða er þetta kannski fríkirkja?“ Nei, var svarið. „Þjóðkirkjan er svona opin og skemmtileg.“ Og svo kom niðurstaða stráksins: „Ég þarf nú að fara endurskoða fordóma mína gagnvart þjóðkirkjunni.“ Presturinn sagði „amen.“

Svo tók ég mynd af nunnuhópnum við kór kirkjunnar. Þegar ég skoðaði myndina síðar um daginn og setti hana á vef Hallgrímskirkju varð mér hugsað til allra þúsundanna, sem hafa verið skírð, fermd og gift í þessum kór, í þessum helgidómi. Til þeirra líka, sem hafa verið kvödd með tárum. Og ég hugsaði til eldhuganna, sem þvert á efnisást, fóru til að byggja þetta risahús hinum mesta Guði. Og ég fylltist þakklæti til hugsjónafólksins, sem byggði þessa kirkju og hefur þjónað henni. Er hlutverkinu lokið, nei þetta sjötuga hlið himins er á bernskuskeiði, er vissulega í andlistlyftingu, aðgerð, þessa dagana og framtíðin er opin. Kirkjan er að breytast og þjónusta okkar þar með. Fólkið, sem kemur hingað, þarf að heyra að Jesús Kristur er staðinn upp og talar. Þann dag rætist ritningin.

Hallgrímskirkja 2. desember, 2018.

Lexía

Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. Jer. 33. 14 -16

Pistill

Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Op. 3. 20-22

Guðspjall

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: 

Andi Drottins er yfir mér 
af því að hann hefur smurt mig. 
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, 
boða bandingjum lausn 
og blindum sýn, 
láta þjáða lausa 
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“  Lk. 4.16-21

 

 

Ástarsögur

 

Ég sat í vikunni fyrir framan sjónvarpið með sonum mínum sem eru á unglingsaldri. Við horfðum á leiki í Meistaradeild Evrópu. Við sáum Juventus sigra vini okkar í Manchester. Svo sáum við líka brot úr öðrum leikjum. Strákarnir mínir eru í boltanum og fylgjast með heimsknattspyrnunni. Og íþróttahetjurnar eru dýrlingar nútímans, fyrirmyndir, sem hafa mikil áhrif á og móta milljónir uppvaxandi ungmenna um allan heim. Og þegar við hrifumst og hryggðumst yfir leikjum vikunnar flaug í gegnum hug mér: Hvað hefur áhrif á drengina mína? Hvað mun móta þá? Hvernig verða þeir? Hvað gerir þeim gott og hvað verður þeim til góðs? Og ég horfði á þá ástaraugum.

En við, karlarnir mínir, sáum ekki bara meistaradeildarleiki heldur líka leiki í allt annarri deild, – og mun myrkari. Það var steraþátturinn, sem Kveikur sýndi nú í vikunni. Við hlustuðum á sögur þeirra, sem hafa freistast til að nota stera. Markmiðið er einfalt, að fá hjálp við að móta líkamann, gera hann stæltan og flottan. Og vöðvarnir verða útblásnir við steranotkunina. En í flottum skrokki er fleira en vöðvar – sterar rugla fínstillt jafnvægi efnabúskapar líkamans.Og það er fjöldi ungmenna sem deyr á Íslandi á hverju ári vegna stera. Það, sem átti að skapa stórkostlegt lúkk, var í raun ásjóna dauðans. Sterkasti maður heims dó, líklega vegna steranotkunar. Og æðið heldur áfram, það eru ungu drengirnir sem eru ginkeyptastir fyrir sterunum. Þessar sögur hræddu.

Og svo heyrði ég í vikunni margar aðrar sögur um unglinga, sem hafa lent í algerum ógöngum vegna útlitsáherslu. Til að ná útitsmarkmiðum sínum, hvort sem þau eru raunsæ eða ekki, hætta margir unglingar að borða eðlilega – og mörg lenda í hringrás blekkinga og alls kyns veikinda. Til hvers? Ásýnd er ekki inntak hamingju. Og við ættum að horfa ástaraugum á börnin okkar, hugsa um hvort þeim lánast að rata veg hamingjunnar og hvað við getum gert til að styrkja þau og efla. Það er sótt að þeim, raunar okkur öllum. Vertu þetta, notaðu þetta, gerðu þetta, kauptu þetta. En hvað dugar og hvað þráum við innst inni?

Í okkur býr ástarþrá. Við höfum öll þörf fyrir umhyggju, athygli, strokur, aðdáun og samfélag. Við erum börn ástarinnar, á leið eftir ástarveginum og viljum fá að vera með öðrum á þeim vegi. En hvernig lánast okkur?

Hallgrímur og Passíusálmar

Í dag er Hallgrímsmessa. Við minnumst þess, að 344 ár eru liðin frá dauða Hallgríms Péturssonar, sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, að mínu viti mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er góður gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki hinum reiða guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hamingjuleitin

Unga fólk nútímans, eins og á öllum öldum, leitar hamingjunnar. Hvað verður þeim til lífs og gleði? Eru sterarnir góðir fyrir stráka, sem eru að stækka og vilja vera stæltir? Eru köglarnir, grasreykingar í Hólavallagarði eða matarflóttinn það besta fyrir stráka og stelpur?

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Og hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin, fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Og mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Ég, þú, við öll, erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Og þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Pílagrímaferðirnar

Við, sem störfum í þessum mikla helgidómi, Hallgrímskirkju, verðum daglega vitni að leit fólks að inntaki lífsins. Hingað koma margir og tjá, að þetta sé áhrifaríkur staður. Og mörg ykkar vitið, að einn af fjölmiðlarisum veraldar hefur úrskurðað, að Hallgrímskirkja sé eitt af mikilvægstu íhugunarhúsum heimsins. Það kemur þeim ekki á óvart, sem sækja þessa kirkju. Og ekki lýgur the Guardian– vörður sannleikans – og flytur ekki falsfréttir gegn betri vitund.

Hvað merkir að vera íhugunarhús? Það er staður þar sem er gott samband, góð skynjun og líðan, skapandi hugsun. Staður til að tengja við innri mann, umhverfi en líka við eilífðina. Og af því fólk hefur heyrt, að Hallgrímskirkja sé staðurinn, kemur það hingað til að vera. Það fer ekki aðeins hálfa leið upp í himininn og baka – þ.e. í kirkjuturninn, heldur inn í kirkjuna og sest niður. Þar er hægt að fara yfir líðan, vonir og áhyggjur og kveikja svo á kertum til stuðnings sálarvinnunni, hugsa um til hvers við lifum og af hverju. Í kyrru kirkjunnar taka margir ákvarðanir um stærstu málin og breyta um stefnu, ákveða með fjölskyldumál sín, atvinnu, menntun, tengsl og líka tengslarof. Allt þetta, sem fólk hugsar um varðar merkingu, hamingju og tilgang. Þetta sem allir leita að og hugsa um. Og svo er vaxandi fjöldi, sem kemur frá útlöndum, í þetta mikla sambandshús, til að giftast, fer á heimsenda til að fá bæn og blessun yfir ást sína. Ástarsögurnar eru alls konar.

Þín ástarsaga

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Og fólk á ferð lífsins kemur í þessa kirkju til að leita að hinu djúpa. Við segjum ástarsögu um Hallgrím og Guðríði og ástarsögu Guðs sem alltaf elskar. Og þó Hallgrímskirkja sé gott íhugunarhús fyrir borg, þjóð og heim er þó annað hús sem skiptir þig þó enn meira máli. Það ert þú sjálfur – þú sjálf. Þú ert raunar miðjan í ástarsögu Guðs og heimsins. Þú mátt elska og njóta ástar. Sterar, grasreykingar, matarflótti eru ásýndarmál, yfirborð – en hið innra þarftu það sem raunverulega gefur þér hamingju.

Viltu hamingju – staldraðu við.

Leitar þú ástar – hún stendur þér til boða.

Þarftu fang? Það er tilbúið.

Viðurkennir þú þörf þína – þá er vinur við hlið þér.

Guð sér þig. Þú og þitt fólk er elskað.

Guð elskar.

Amen

Hallgrímsmessa – 28. október, 2018