Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Flýja eða mæta – Trevor Noah og frelsið

Hvað gerum við þegar við verðum fyrir áfalli? Kostirnir eru oftast tveir og báðir erfiðir: Að fara eða vera. Við annað hvort flýjum eða mætum áfallinu. Þegar við flýjum reynum við að losna undan afleiðingunum, tilfinningum, sorg, missi, því sem ekki varð eða rættist, öllu þessu skelfilega eða óþægilega, sem áfallið olli eða opinberaði. En ef við mætum skelfingunni erum við færari um að vinna úr, eflast af eða styrkjast – af því að glímt er við meinið, talað um það, rætt um það og reynt að greina hvað er hægt að læra af því. Við erum aldrei algerlega strand í grískum harmleik. Áfalli getum við mætt í frelsi. 

Í liðinni viku sat ég á grískri strönd. Kliðmjúkur söngur smáöldunnar leið í eyru, birta sótti í sál og ég las bók í skugga ólífutrjánna á ströndinni. Forlagið Angústúra gefur út þrungnar bækur í nýrri ritröð og Elín mín hafði tekið með tvær úr röðinni. Ég fór að lesa uppvaxtarbók Trevor Noah, Glæpur við fæðingu, sem ég vissi ekkert um áður. Bókin er grípandi. Höfundur teiknar vel aðskilnaðarstefnu S-Afríku í framkvæmd. Hann er sonur s-afrískrar, þeldökkrar konu og hvíts, svissnesks föður. Og slíkur blendingur var brot á lögum og drengurinn lenti utan hópa, kerfa og menningarkima og fór líka á mis við nánd föðurins. Og þvílíkur rússíbani stórmála, áfalla og tilfinninga. Höfundur miðlar okkur sýn til fólks og lífsbaráttu þess á breytingartíma í S-Afríku. Honum tekst líka að miðla okkur lokunum, heftingum, tabúum, niðurþrykkingum og fjölda glerþaka. Hvað er til ráða? Og þar er komið að viskunni í þessari fjörmiklu lífsleiknibók.

Trevor Noah lenti í rosalegum málum, en hann var elskaður og það er besta vegarnestið. Hann átti lífsviljandi móður, sem var honum fyrirmynd um frelsi, sjálfstæði, hugrekki, einbeitni og húmor líka. Og Trevor Noah lærði, að maður þarf ekki að draga áföll á eftir sér, er ekki skuldbundinn til að láta sektarkennd og eftirsjá eða afbrot annarra verða aðalmál eigin framtíðar. Hlutverk okkar er að vinna úr áföllum okkar og lifa í frelsi.

Áfallaflóttin býr bara til vælupúka, fórnlömb. En þegar fólk mætir og glímir við er hægt að taka ákvörðun um að sleppa. Það er alltaf val þeirra, sem lenda í áfalli, að sleppa reiðinni gagnvart þeim sem brjóta á manni, hafa skaðað eða kerfum og hópum sem níðast á öðrum. Það er líka hægt að fyrirgefa gungunum sem ekki þora að standa með sannleika eða réttlæti og hlaupa í burtu frá líðendum og þolendum til að bjarga eigin skinni. Frelsi eða fangelsi, skilyrðingar eða opnun.

„Ég hef hlustað á þennan gaur,“ sagði annar sonur minn. „Hann er stjarna í Ameríku og á Youtube.“ Og þá komst ég að því að Trevor Noah hafði ekki bara lifað af og iðkað lífsleikni, heldur líka slegið í gegn sem uppistandari og þáttastjóri. Svo unglingurinn fór að lesa bókina – bókin er alltaf betri!

Mér þótti efnið kjarnmikið veganesti fyrir okkur öll því ekkert okkar sleppur. Við lendum öll í stórum og smáum áföllum. Við líðum margt og mikið en við erum þó aldrei fórnarlömb nema við ákveðum það sjálf. Annað hvort flýjum við eða mætum áfallinu. Við þurfum að viðurkenna og tala um sorgarefni okkar. Trevor Noah og mamma hans sýna, að enginn neyðir okkur til að leika hlutverk fórnarlambsins. Við erum frjáls – jafnvel í ómögulegum aðstæðum og fangelsum anda, menningar og líkama. 

Takk Angústúra fyrir að koma þessari bók út.

Þýðing Helgu Soffíu er góð og ég hikstaði sjaldan í hraðlestrinum. Kynning forlagsins á bók Trevor Noah er á þessari slóð:

https://www.angustura.is/glaepur-vid-faedingu

Glæpur við fæðingu

Stórmerkileg saga uppistandarans og stjórnmálaskýrandans Trevor Noah sem ólst upp í skugga aðskilnaðarstefunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist hans var glæpur, því samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim tíma. Trevor segir á heillandi hátt frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Trevor Noah (f. 1984) hefur vakið mikla athygli fyrir hárbeitta þjóðfélagsrýni í þættinum The Daily Show í Bandaríkjunum sem hann hefur stýrt frá árinu 2015. Hann er vinsæll uppistandari og má nálgast heimildarmyndir um hann á Netflix. Glæpur við fæðingu var valin ein besta bók ársins af helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna þegar hún kom út. Kvikmynd er í bígerð.

„Ástarbréf til einstakrar móður höfundarins.“ – The New York Times

„Lykilrit… því það afhjúpar aðskilnaðarstefnuna… fremur en aðrir nýlegir fræðitextar.“ – The Guardian 

Trevor NoahHelga Soffía Einarsdóttir þýddi

Saumuð kilja 110 x 180 mm 368 blaðsíður.

Besta baðströnd í heimi?

Hver er besta baðströnd í heimi? Ég hef sótt í sjóinn víða. Synt í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, víða í Miðjarðarhafi, Eystrasalti og Atlantshafi. Og hef hrifist af góðum ströndum og góðri baðaðstöðu. En tvær strendur eru í uppáhaldi. Í dag kom ég og mitt fólk á baðströnd sem er kannski ein sú besta í heimi. Hún er nærri Sidari á Corfu.

Grísku eyjarnar eru flestar dásamlegar og tvisvar hef ég verið á Krít, sem ég er hrifinn af. En Corfu er græn, líklega grænust grísku eyjanna. Og margar strendur eyjarinnar eru heillandi. Baðströndin við Daphnilla-flóa er afar fjölskylduvæn, hættulaus, hvít og sjaldan nokkur alda, enda sundið milli eyjarinnar og Albaníu fremur þröngt. En Aþena, ráðgjafinn okkar á hótelinu, sagði að ef við færum í ökuferð um norðurhluta Corfu væri eiginlega skylda að fara á sólarlagsströndina við 7th. Heaven Café. Og þangað fórum við m.a. í dag. Dásamlegt veður, stillt, hlýtt, sjórinn tær og heitur, fáir ferðamenn og kyrrð og ró yfir öllu. Gróðurinn fagur, kalk- og sandsteinsklettarnir glæsilegir, svölurnar heilluðu, bátar liðu hjá eins og í draumhemi og mitt fólk lék sér í tæru vatninu. Og við vorum mun lengur en við höfðum skipulagt. Niðurstaðan var: Þetta er besta baðströnd í heimi!

Ef þú ferð með fólkið þitt um Corfu er ráð að fara til Sidari og alla leið út á strönd, taka baðfötin með, fara í sjóinn, njóta og heimsækja svo kokkana í kaffihúsinu sem kennt er við sjöunda himin. Og ströndin var áttundi himininn.

 

Þröstur í kirkjugarðinum og lífið

Við stóðum við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér í gegnum laufþykknið og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Fuglasöngur var í fjarska, þotuhljóð og bílaniður og flugur suðuðu. Svo komu ástvinirnir nær og athöfnin byrjaði. Þá kom í ljós að Mannlegi þátturinn var byrjaður á RÚV og fjörleg músíkin hljómaði frá útvarpi. „Þetta er forspilið“ sagði ég og allir brostu. Nafni minn, hjá Útfararstofu kirkjugarðanna, var snöggur að bílstjóranum og bað um að tónlistin yrði lækkuð. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Svo las ég úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum yfir kerið í jörðu. Síðan komu synir hins látna og þá hin. Allir molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast fyllt kom þrösturinn fljúgandi, stóð við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og yfirvegaðan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri komu og mokuðu, fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll en smeygði sér svo niður. Ég beygði mig  og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við, þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, kvöddum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt.  Og lexía hvítasunnunnar leitaði á mig, orðin í 104. Davíðssálmi: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Þarna prédikaði ég ekki mikið yfir fuglunum, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers var stund upprisunnar og þrösturinn velti nokkrum steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já dauðinn dó og lífið lifir.

Er Guð vatnssósa? Blaut og breytt kristni

Sjómannadagur og kirkjulistahátíð eru góðar systur, sem faðmast og halda hátíð í dag í þessari kirkju. Sjómennskan er í okkur öllum og sjávarsaltið er í blóði okkar. „Föðurland vort hálft er hafið“ segir í gömlum sálmi.Við erum komin af sjósóknurum og bændum. Við erum börn náttúrunnar. En ekki aðeins það, við Íslendingar höfum séð hið stóra og háleita í umhverfi okkar. Trúin og listin hafa fléttast saman og orðið til að bæta lífið. Trú hefur verið miðlað við móðurkné og í föðurfangi, verið athvarf fólks um aldir. Og listin hefur verið íþrótt og farvegur skapandi fólks á Íslandi.

Börn anda og náttúru

Við erum börn náttúrunnar – en líka fólk andans. En það er ekkert sem er óbreytanlegur fasti. List, náttúra og trú breytast. Náttúra Íslands er ekki sú sama og var fyrir þúsund árum. Listræn iðja landsmanna er með allt öðrum hætti en var fyrir 500 árum og trú Íslendinga er ekki sú sama og var eftir kristnitöku, eftir siðbót eða á tímum Hallgríms Péturssonar. Tengsl við náttúru, fagurfræði og trúarhugmyndir og trúariðkun eru með ólíkum hætti. Við trúum öðru vísi en áður. Aðstæður eru breyttar, vald manna er aukið og ábyrgðin líka. Við þurfum að horfast í augu við allar breytingarnar, verðum að þora og axla ábyrgð. Og í trúarefnum þurfum við líka að breytast.

Hefðarbylting

Ég hef sannfærst um, að trúmenn samtíðar hafa ekki bara almenna mannskyldu að sinna náttúruvernd heldur höfum við beinlínis trúarlega köllun í þeim efnum. Guð kallar heimsbyggðina til ábyrgðar. Gætið að liljum vallarins sagði Jesús Kristur. Nú er svo komið að við gætum ekki aðeins blómum, grösum og gróðri, heldur öllu lífi. Nútíma trúarkall Jesú er: Gætið að blóðinu í smádýrunum, hvort þar séu plastagnir og mengun. Gætið að jöklum og ám, gætið að grasi og grænmeti, að hvölum, makríl og hafdjúpum.

Í dag er dásemdardagur í Hallgrímskirkju og sjómannadagur. Og þrátt fyrir atvinnubreytingar er sjávarútvegur enn afar mikilvægur velferð okkar Íslendinga og menningu. Flestir eru sammála um, að veiðar, vinnsla og einnig fiskeldi verði að skipuleggja svo að umhverfið verði ekki mengað.

Umhverfismálin eru stórmál þjóðlífs okkar. Engin sækir sjó án þess að til sé vatn – lífgefandi vatn. Vatn getur verið lifandi vatn en líka mengað og deytt. Ég er heillaður af vatni, rennandi, streymandi, hreyfanlegu og lifandi vatni. En ég hryggist yfir fúlu vatni. En mér þykir skemmtilegt að ganga með lækjum frá uppsprettu til ósa, horfa í iðuna og leyfa vitundinni að flæða með straumnum og köstum.

Vatnið er til lífs og við getum ekki lifað án vatns. Við erum að mestu leyti vatn og ef vatnið er ekki heilsusamlegt veldur það veikindum og jafnvel dauða. Hreint vatn er forsenda lífs en þó er mengun vatns heimsins skelfilega mikil og vaxandi svo æ minna er af hreinu vatni. Stór hluti mannkyns nýtur ekki heilnæms vatns. Þess vegna er svo loflegt að Hjálparstarf kirkjunnar og Kristniboðssambandið beita sér fyrir að fólk hafi aðgang að hreinu vatni í Afríku og íslensk fermingarungmenni safna á hverju ári fyrir brunnum á því svæði.

Til að minna okkur á mikilvægi ábyrgðar manna gagnvart vatni – og einkum sjó – er á vegum Sameinuðu þjóðanna haldinn í júní á hverju ári alþjóðlegur dagur hafsins. Og svo er vatnsbúskapur veraldar. Það er raunverulegt áhyggjuefni að æ minna er af hreinu vatni í veröldinni. Hvernig verður framtíð lífs á jörðinni ef hreint vatn er takmarkað? Mark Twain sagði hnyttilega, að whisky væri til að drekka, en menn berðust og dræpu vegna vatns! Þegar hreint vatn er orðið dýrmætara en olía fara einstaklingar, hópar og þjóðir í stríð vegna vatns. Tuttugasta og fyrsta öldin er og verður tuttugusta og þyrsta öldin. Lífið lifir ekki án vatns. Við erum ekki aðeins kölluð til að hemja sókn í fiskstofna, heldur kölluð til heildrænnar ráðsmennsku.

Sjómennska heimsins og einnig okkar þjóðar er háð því að vatn og sjór njóti elsku okkar og umhyggju. Mengunarslys eru afar hættuleg, en stærsti og mesti vandi okkar er áframhaldandi mengun sem hinn ríki hluti heimsins veldur, okkar hluti jarðarinnar. Við erum kölluð til ábyrgðar í sjósókn okkar, sjóvernd okkar og lífsafstöðu.

Áhrif á náttúru

Í guðspjalli dagsins fer Jesús á sjó með lærisveinum sínum. Þeir félagar hrepptu versta veður og voru í lífsháska. Og þegar Jesús vaknaði bjargaði hann. Hann hafði góð áhrif á náttúrukraftana og mennina, sem hann var með. Jesús Kristur vill, að við höfum góð áhrif á krafta náttúrunnar og mannfólkið. Við höfum lífsstyrkjandi hlutverkum að gegna eins og Jesús Kristur.

Hvað eiga þau sameiginlegt kirkja, börn, samfélag, list, fiskur og heimsbyggð? Þau þarfnast öll, að Guð elski og veiti þeim líf og heilsu. Og við erum farvegir elsku Guðs í veröldinni. Við getum skemmt, en við getum líka hlúð að lífinu, í nærumhverfi okkar en einnig fjarumhverfi. Kristin trú varðar ekki aðeins innri mann heldur allt líf okkar. Við erum ekki vegna trúar okkar á leið út úr heiminum heldur vegna trúar á leið inn í heiminn til að lægja öldur, minnka hættu, stoppa stormviðri mengunar og alls iðnaðar manna sem er til ills.

Og vatn og sjór er elskaður af Guði og þeim mönnum, sem vilja ganga erinda Guðs. Blóm og dýr eru ekki aðeins vatnssósa, heldur mennirnir einnig. Jafnvel Biblían er rennandi blaut. Vatn er nefnt – að því er mér telst til – um sjö hundruð sinnum í þeirri helgu bók.

Kristnir menn hafa um aldir talið að vatn væri heilagt vegna þess að Jesús helgaði vötn heimsins í ánni Jórdan. Við menn erum hluti þess vatnsbúskapar. Við erum ekki geimgenglar á ferð um vetrarbrautina sem koma við á jörðinni, svona svipað eins og við stoppum í vegasjoppu á leið frá himni til himins. Við erum ekki heimsfjarlægir guðstúristar, heldur er líf okkar á jörðu og til jarðar – til að lifa með ábyrgð. Við berum ábyrgð á bláa hnettinum. Já, við berum ábyrgð á fiskunum í sjónum, fuglunum, ströndum sem við viljum varna að verða plastinu að bráð. Jesús axlaði ábyrgð á hættu og beitti kröftum til góðs. Við njótum hans fyrirmyndar í því köllunarverkefni okkar að beita mætti okkur í þágu lífs.

Vatnssósa Guð – breytt vitund og trúarafstaða

Í Biblíunni er anda Guðs líkt við rennandi vatn. Og Guð sem skapari er sem vatnsuppspretta, Guð frelsarinn sem vatn í ám og hafi og Guðs andi er sem vatnið sem vökvar og nærir allt líf. Guð er í öllu, alls staðar og gefur líf. En það er okkar að virða lífgjöf Guðs og bregðast við með ábyrgð. Skírn er heilög athöfn, sem líka minnir okkur á heilagleika þess sem Guð skapar, veröldina sem við erum hluti af.

Hver er náungi minn? Hið trúarlega svar er, að við höfum hlutverki að gegna gagnvart fólki en líka náttúrunni. Náttúran er hinn náungi okkar.

Amen.

To those of you not speaking Icelandic: Today is a day for the rememberance of the Icelandic fishermen and fishing in Icelandic waters. Fishing has been of utmost importance for our country and more and more we realize how important it is to take good care of the blue planet. The text of the gospel deals with Jesus on a boat with his friends. Everything goes wrong and Jesus calls for a different approach to life and pressing issues. This also is highly practical today. Jesus affected the minds but also the processes of nature. This we are called to as a religious task: Make impact on the processes of nature in such a way that life may flourish. We are not pilgrims on the way out of the world but but as religious people we are called into the world to do good. That is the grand paradigm-shift in western Christianity. You go from the church today with blessing – and be a blessing to others, nature included.

Hallgrímskirkja 2. júní, 2019 sjómannadagur og kirkjulistahátíð.

Textaröð: B

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum
og safnað saman frá öðrum löndum,
frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Pistill: Post 27.21-25

Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

YNWA Klopp og Liverpool


Er þú brýst fram gegn bylnum
berðu höfuðið hátt.
Óttastu ei myrkrið
né ógn þess og mátt.

You’ll nvever walk alone er söngur Liverpool í Englandi og tugir þúsunda syngja hann hástöfum á leikjum. Helgi Símonarson, frændi minn á Þverá í Svarfaðardal, sagði mér fyrst frá þessum söngsálmi Púlara. Hann var kennari og bóndi fyrir norðan og líka mikill áhugamaður um fótbolta og sérstaklega Liverpool. Og hann varð elsti stuðningsmaður Liverpool í heimi, náði 105 ára aldri. Árið 2000 var fullyrt í leikjaskrá Liverpool að hann væri elsti stuðningsmaður félagsins í heiminum.

Liverpool-liðið er merkilegt. Það hefur orðið kraftaverk, eiginlega upprisa í því liði. Það er að nýju orðið eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum. Þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Í mörg ár var liðið gott meðallið í ensku úrvaldsdeildinni. En svo réð Liverpool Jürgen Klopp til að byggja upp. Og síðan hefur hann endurnýjað liðsandann og smitað gleði til stuðningsmanna. Óháð fyrsta eða öðru sætinu í Englandi eða fyrsta eða öðru sætinu í Meistaradeild Evrópu er liðið orðið eitt það besta í heimi – að nýju.

Af hverju skyldi það vera – og af hverju hefur prestur áhuga á anda fótboltaliðs? Klopp og Kristur tengjast nánum böndum. Það getur haft – og á að hafa – áhrif á líf fólks að trúa á Guð. Svo er ekki alltaf því fólk er mismunandi. Sumir nota, misnota trú eftir þörfum, en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. En þegar allt er eðlilegt skilar trú mannvinsemd og hlýrri afstöðu og tengingum veröldinni.

Í viðtali var Jürgen Klopp spurður hvernig velgengnin skipti hann sjálfan máli? Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið.“ Þetta er kjarnamál. Að vera kristinn hefur afleiðingar, á að hafa afleiðingar og móta hvernig kristinn maður beitir sér í lífi og starfi, tengist öðrum og lítur á sjálfan sig í tengslum. Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega og í samskiptum við fólk tekur hann afleiðingum af hvað trú merkir. Allir, sem fylgjast með fótbolta, hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk af virðingu. Hann byggir upp liðsheild. Hann er náinn leikmönnum, brosir til þeirra, eflir sjálfstraust þeirra, tekur utan um sína menn, er mjög skapríkur og einbeittur í störfum en alltaf ræður mannvirðing för, tillitssemi, hógværð og heildarhugsun. Og hvort sem hann tapar eða vinnur virðir hann alltaf mótherjana, talar vel um þá bæði fyrir leiki og eftir leiki. Kristur hefur áhrif á Klopp – og það er þess vegna að Liverpool er upprisið. Kristur hefur áhrif og má hafa áhrif.

Hvað merkir að vera kristinn – að trúa á Guð? Það merkir að við erum hluti af heild. Við erum ekki nafli alheimsins, við erum ekki svarthol eigingirninnar, sem allt sogar til sín. Okkar hlutverk er að styðja aðra, líta ekki á okkur sjálf sem miðju veraldar, heldur sem mikilvæga þátttakendur í stóru teymi fólks. Þegar við skiljum það skiljum við betur eðli tengsla og trúar.

Við mannfólkið erum einstök og dýrmæt. Lífsverkefni okkar eru að rækta siðvitund, visku, mannvirðingu og góð tengsl, við sjálf okkur og fólkið okkar. Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist er að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari og klárari en allir aðrir. Stuðningsmenn Liverpool syngja hástöfum: „You´ll never walk alone.“ Það eru orðin sem standa yfir Shankley-hliðinu á Anfield. Sú tjáning rímar við meginstef kristninnar. „Þú ert aldrei einn.“

Fótboltinn getur fallið, Liverpool getur dalað, allt getur hrunið í kringum okkur – en þó erum við ekki eða verðum yfirgefin. Guð er yfir og allt um kring. Til að verða afburðamaður í fótbolta krefst æfinga. En til að þið verða afburðamenn í lífinu hjálpar að vera eins og Klopp, taka mark á trú og leyfa henni að móta samskipti og líf. Kristur hefur áhrif.