Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Árni Svanur 47

Afmælisdagur. Vinur minn og velgerðarmaður, Árni Svanur Daníelsson á afmæli. Hann er vitur, fjölfræðingur, óáreitinn, tillitssamur, vinnuforkur og samviskusamur. Hann hefur góða baksýn og menningarlæsi. En svo hefur hann líka áhuga, tilfinningu fyrir hræringum tíma, kirkju og samfélags. Hann les vel mynstur, strauma og fólk og er alltaf opinn gagnvart breytingum og möguleikum. Ég hef löngum dáðst að hve vel Árni Svanur þolir álag, áreiti, streitu, hrokafullt fólk og alls konar vitleysisgang. Í miðju ati hefur hann húmor, yfirsýn og sér leiðir úr vandkvæðum og möguleika. Gefst aldrei upp. Það er einstakt og eftirsóknarvert að vera í liði með honum. Í fyrirstöðu sér hann jafnvel möguleika. Hann er leiðtogi. Svo er hann flestum tölvuglöggari og gott að njóta kunnáttu hans þegar vélarnar skrölta, símarnir klikka og öppin skelfa. Árni Svanur byggði upp vefi þjóðkirkjunnar, uppfærði prestastéttina um mörg tækniþrep og í guðfræðiopnun og menningarlæsi. Svo varð hann snemma afar skarpur guðfræðingur. Það var mikið lán að hann gekk í þjónustu þjóðkirkjunnar og jafnframt missir þegar hann fluttist erlendis. En Lútherska heimssambandið hefur notið visku hans og kunnáttu. Ég er sá lánsmaður að hafa notið vináttu Árna Svans Daníelssonar og notið hæfileika hans og velvildar. Guð laun. Hamingju- og blessunaróskir til þín, Kristínar Þórunnar og barna.

Myndir Sig. Árni

 

Vigdís Finnbogadóttir á afmæli

Alla mína tíð hefur Vigdís verið álengdar, stundum nær og stundum fjær. Hún átti heima í nágrenni mínu í bernsku og var alltaf elskuleg okkur börnunum í hverfinu. Ég heillaðist eins og flestir af frönskukennslunni og svo fylgdist ég álengdar fjær með störfum hennar. Meðan atkvæði voru talin eftir forsetakjörið var ég í húsinu við hlið heimilis hennar, hjá Þóri Kr. og Bíbí. Svo þegar dagaði fórum við út á stétt og fögnuðum þegar Vigdís gekk út (sjá mynd Þóris Guðmundssonar). Svo varð Vigdís nánast heimilisvinur þegar fóstri minn Halldór Reynisson varð óvænt forsetaritari. Hún var gjöful í samskiptum þegar ég bjó í Skálholti, studdi starfið og staðinn þar. Svo þegar ég og fjölskylda mín bjuggum á Þingvöllum þjónaði ég Vigdísi oft í opinberum heimsóknum. Aldrei bar nokkurn skugga á því Vigdís hafði lag á að lyfta formsamverum í hæðir hlýju og gleði.

Einu sinni var ekki hægt að fara með Noregskonung í Borgarfjörð vegna veðurs. Þá varð stórkostlegt skrall í stofunni heima hjá okkur. Davíð Oddsson og Jón Baldvin fóru á kostum og Vigdís stýrði gleðinni. Þau konungshjónin söguðu að þau hefðu aldrei upplifað slíka partígleði. „Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar“ sögðu þau við mig og leið svo vel í hlýjunni handan formalismans. Oft voru börnin nærri opinberum gestum og alltaf hafði Vigdís lag á að leyfa þeim að vera þátttakendur. Hún nýtti alltaf möguleikana til lífsbóta og gleðiauka – og allir nutu.

Yngri drengirnir mínir fylgdust svo með Vigdísi þegar hún heimsótti Ástríði, dóttur sína, og fjölskyldu hennar á Tómasarhaganum. Svo þegar þeir fengu reiðhjól vorum við, fjölskyldan, einu sinni að koma frá Norræna húsinu hjólandi. Vigdís rölti úti með dótturbörnum sínum og svo illa vildi til að annar drengjanna hjólaði á hana. Þeim brá báðum en Vigdís var meira með hugann við hræðslu drengsins en eigin áverka. Hún fullyrti að hún væri óslösuð, en drengurinn fylgdist reglulega með hvort hún stingi nokkuð við þegar hann sá hana síðar. Svo var ekki, honum til léttis. Honum þykir ekki gott að vera strítt á að hafa hjólað Vigdísi niður. Vigdís hefur líklega kysst fleiri karla á Íslandi en aðrar konur en enginn karlanna hefur hjólað hana niður nema sonur minn. Vigdís efldi alltaf alla, stækkaði fólk í kringum sig og gaf íslendingum trú á möguleika sína og getu. Takk Vigdís – Guð geymi þig.

Svart hvíta myndin er mynd Þóris Guðmundssonar. Hina myndina tók ég í dag er við Hörður Áskelsson vorum á leið frá Hallgrímskirkju á leið heim og gengum fram hjá heimili Vigdísar, Aragötu 2. Við blessuðum íbúann. Einhver höfðu stráð blómum á stéttina. Fagurt.

Lífið lifir

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Þetta er hin forna páskakveðja um, að dauðinn dó og lífið lifir. Kveðjan þarf að berast sem víðast, heyrast sem best og ná inn í grunn lífs okkar. Fréttin varðar okkur öll, mennina, en líka allt líf, líka lífið í hreiðrum fugla, í moldinni, sjónum, ám og slímhúð mannanna.

Fyrir tæpu ári síðan stóðum við nokkur við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér milli greina og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Ástarsöngvar annarra fugla heyrðust úr trjánum umhverfis. Til okkar barst líkaflugvélahljóð og bílaniður. Vorflugur voru komnar á kreik. Ástvinirnir færðu sig að gröfinni. Þegar við ætluðum að byrja athöfnina var allt í einu hækkað í útvarpi í bíl, sem var við gröf nálægt okkur. Mannlegi þátturinn var að byrja á RÚV og fjörleg músík hljómaði. „Þetta er forspilið“ sagði ég og ástvinirnir kinnkuðu kolli brosandi. Útfararstjórinn hljóp af stað til bílstjórans og bað um að fjörið yrði dempað. Svo var hægt að halda áfram. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Ég las úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum. Síðan komu synir hins látna og molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast full kom þrösturinn fljúgandi. Hann settist við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt, að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og óhræddan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri ástvinir komu og mokuðu. Fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll, en smeygði sér svo niður í holuna á milli mokstra. Ég beygði mig og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við. Þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið. Sólin kyssti okkur öll.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt á gröfinni. Dauðinn er hluti af lífinu og líf sprettur af gröf. Orðin í 104. Davíðssálmi leituðu á mig: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Ég prédikaði ekki yfir fuglunum þennan daginn, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers varð stund upprisunnar. Þrösturinn velti steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já, dauðinn dó og lífið lifir.

Á þessum páskum er hugur okkar með öllum þeim, sem eru veik, af kórónaveirunni eða öðrum sjúkdómum. Þeim eru margir dagar langir föstudagar. Margir standa álengdar fjær og hafa áhyggjur af þeim sem eru sóttsjúkir og berjast við veikindi. Og blessað veri allt það fólk sem sinnir hinum veiku. Hin örsmáa kórónaveira hefur kastað álagaham á heimsbyggðina, veiklað kerfi, opinberað vit og mikilvægi þekkingar og fagemennsku en líka vitgrannt vald, sem ekki lætur stjórnast af mannúð, kærleika og umhyggju. Liðið ár og þessi sóttartími hefur dýpkað vitund margra um, að mannkyn og náttúra eru eitt. Menn geta valdið miklum spjöllum og eyðilagt líf og lítil veira getur sett mannlíf þúsunda milljóna úr skorðum. Við menn og lífvefnaður heimsins erum eitt og verðum ekki slitin í sundur. Okkur ber að virða betur hið fíngerða samspil lífheimsins og vera ábyrg.

Kristur er upprisinn er erindi dagsins. Það fagnaðarerindi á erindi við líkamlega sjúkt en líka heilbrigt fólk, en einnig veirur og bakteríur, lofthjúp og sjó, jökla og ár, fiska og fugla. Dauðinn dó en lífið lifir er boðskapur um að föstudagurinn langi er ekki niðurstaða tilraunar um líf á jarðarkúlu okkar. Lífið lifir er erindi páskanna og varðar allt og alla. Líf okkar manna er ekki tilvera til dauða heldur lífs. Fuglinn í dauðaholunni prédikaði um lífið, að öllu er vel fyrir séð og að við erum blessuð.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Guð gefi þér gleðilega páska.

Meðfylgjandi mynd tók ég af þrestinum við matarleit á gröfinni. Sigurður Árni Þórðarson

 

Nakið altari

Af hverju er allt tekið af altarinu í Hallgrímskirkju á skírdagskvöldi? Af hverju er altarið nakið allt fram á páskamorgun? Ljós kirkjunnar eru slökkt og prestur afskrýðist hökli. Bæn Jesú í Getsemane er íhuguð og slökkt er á altarisljósum. Síðan eru ljósastjakar, bækur, vasar, þerrur og dúkur borin fram, undanfarin ár undir söng en í ár í þögn kirkjuhússins.

Þessi gjörningur í kirkjunni, svonefnd Getsemanestund, er tjáning lífsafstöðu og trúarjátning. Þegar við játum hið góða og trú til Guðs er hið næsta að horfast í augu við, að líf í þessum heimi hefur skuggahliðar, sekt, misgerðir, sjúkdóma, ofbeldi og dauða – þetta sem við viljum ekki en er samt. Þegar við afklæðum altarið tjáum við líka, að í okkur lifi ekki aðeins Guðsneistin, trúin og samstaða með öllu góðu, heldur búi líka í okkur möguleikar til ills. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka að gera eitthvað sem særir. Þegar við berum allt af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða.

Þegar altarið hefur verið afklætt er í Hallgrímskirkju borið fram pelíkanaklæði Unnar Ólafsdóttur. Myndin tjáir forna sögu um pelikana, sem gaf ungum blóð sitt til lífs. Þá sögu túlkuðu trúmenn aldanna sem líkingasögu um fórn Jesú Krists til að bjarga mönnum og heimi. Pelíkanaklæðinu er komið fyrir við altarið og blasir við þeim sem koma í Hallgrímskirkju allt til páskamorguns. Snemma þann dag er pelikanaklæðið borið út, en dúkur og altarismunir eru bornir í kirkju. Helgidómurinn, munir, listaverk og lifandi fólk fagna að dauðinn dó en lífið lifir.

Altarið er tákn um lífið og það er heilagt. Altarið er miðjan í kirkjunni, borð sem okkur er boðið til. Altarið er staður veislunnar, en þegar táknin hafa verið borin burt, eru fimm rauðar rósir lagðar á nakið borðið. Blómin eru tákn um síðusár Jesú Krists. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn meina heims og manna.

Nakið altari, grípandi pelikanamynd, myrk kirkja og rauðar rósir. Langur föstudagur og síðan laugardagur. Verða páskar?

Sigurður Árni Þórðarson

 

Nær en lífsneistinn

Skírdagur, dagur hreinsunar. Orðið að skíra merkir að hreinsa. Fólk hreinsaði híbýli sín á þesum degi. Í kirkjum voru ölturun þvegin og hreinsuð. Allt á þetta rætur í, að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og bjó þá til máltíðar.

Á þessum sérkennilegu dögum í apríl 2020 er tími endurmats. Þegar þrengir að okkur leita stóru spurningarnar í hugann. Af hverju? Til hvers? Hvernig? Og þegar við spyrjum stórt læðast að spurningar um ofurmálin líka. Hvaða máli skiptir dauði og þjáning Jesú? Hvernig getur krossfesting manns orðið að gagni? Hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Hvað þýðir að hann hafi verið Guð? Á föstunni og í kyrruviku verðum við vitni að sögugjörningi Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun megum við endursjá heiminn. Saga Jesú er saga Guðs um okkur mannfólkið og líka allan heiminn. Og sú saga verður líklega best skilin sem ástarsaga.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að greina þjáningu hans fræðilega, heldur fara með honum. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja hans til lífs og umsköpunar. Jesúfylgdin er virk og starfarík afstaða, sem kallar vini hans til  að horfast með hugrekki í augu við lífið eins og það er og vilja til að breyta þeim óréttlátum og illum aðstæðum. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi. Það eru gleðifréttirnar um frelsi allra, hinna fátæku, lausn hinna kúguðu og örvæntingarfullu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrkingu hinna hrelldu. Þessi boðskapur getur svipt hulu af lygavefum, sem þrengja að okkur – á vinnustöðum, í heimi stjórnmála, í mengun, plágum, arðráni og kúgun. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er mörgum erfiðast að viðurkenna og opinbera eigin sjálfsblekkingu.

Frá dauða til lífs

Föstutími COVID-plágunnar er mannkyni andleg raun og jafnvel hreinsunartími. Mörgum er þetta skelfingartími og föstudagurinn langi táknmynd um raunörlög fólks. Erum við fólk og heimur bara sprikl til endanlegs dauða? Er coronaveiran staðfesting, að heimur okkar er dæmdur til brenglunar og að veikjast vegna mengunar? Skírdagur og föstudagurinn langi eru tákndagar fyrir baráttu, en líka að mannkyn og heimurinn eru ekki ofurseldir sjúkdómum, þjáningu og dauða, heldur að Guð elskar. Guð yfirgefur ekki heldur er okkur nær en lífsneistinn sjálfur í okkur. Við erum ekki yfirgefin heldur tekur Jesús Kristur þátt í öllu því sem við reynum, erum og verðum.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags. Enginn maður er sendur til að tilkynna okkur einhver sorgartíðindi heldur kemur Guð, lifir allar plágur mannkyns og fléttar eilífð í þá sögu tímans og heilbrigði þar sem sjúdómar geisa. Dagur hreinsunar. Ástarsaga.

Biðjum:

Kom Jesús Kristur. Ver hjá okkur.

Við biðjum fyrir öllum þeim, sem eru okkur bundin kærleiksböndum,

Hjálpa þeim og gæt þeirra á lífsveginum.

Ver með öllum þeim sem eru sjúk og hrædd.

Styrk öll er syrgja og sakna, allar stundir nætur þar til dagur rennur og ljós þitt kemur.

Ver með öllum þeim sem eru sjúk og í hættu.

Varðveit oss undir skugga vængja þinna.

„Í þínar hendur Drottinn Guð vil ég nú fela anda minn. Þú hefur endurleyst mig Drottinn, þú trúfasti Guð. Gæt vor Drottinn eins og sjáaldurs augans. Frelsa oss Drottinn meðan vér vökum, varðveit þú oss er vér sofum svo að vér vökum með Kristi og megum hvíla í friði.”

Þú knýrð á, gengur í hús heimsins, þrífur, hreinsar og sest svo niður og seilist í brauðið og blessar.

Brýtur brauð fyrir veika veröld, sem hungrar og þyrstir eftir heilbrigði, réttlæti, lífsins orði – góðu lífi.

Þú kemur til allra manna. Kenn okkur að þiggja brauð þitt og iggja svikalausa fyrirgefninu – vera þín börn. Amen

Meðfylgjandi myndir: Kennimyndin er mynd Salvador Dali af síðustu kvöldmáltíð Jesú. Myndin er næsta dulúðug og áhugavert að sjá að baksviðsfjöllin eru snævi þakin. Hina myndina tók ég af legsteini í Fossvogskirkjugarði. Sigurður Árni.