Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Stjörnur og snjókorn Hallgrímskirkju

Á aðventunni fríkka bekkir Hallgrímskirkju. Bekkjaendarnir hafa síðustu ár verið skreyttir með hvítum, hekluðum snjókornum. Erla Elín Hansdóttir, sem er kunn að kennslu í Kvennaskólanum og störfum í þágu Hallgrímskirkju, er líka hannyrðakona. Fyrir mörgum árum vantaði skreytingu á aðventunni og þá gerði hún stjörnur úr pappír, sem voru notaðar til fegrunar á aðventutónleikum og í helgihaldi jólanna. Stjörnurnar voru gerðar í fjórum stærðum og vöktu gleði þeirra sem sóttu kirkjuna. En í troðningi slitnuðu þær niður og viðkvæmar stjörnur úr pappír aflöguðust. Erlu Elínu varð því ljóst, að þær myndu ekki duga í mörg ár. Hvað var til ráða? Hún fann góða hekluppskrift að stjörnu og það varð til að hún heklaði marga tugi af hvítum stjörnum. Vinkonur hennar í prjónaklúbbi hrifust af og lögðu lið og nærri eitt hundrað stjörnur fæddust. Þær voru síðan hengdar á enda kirkjubekkja og á nokkrum vel völdum stöðum í kirkjunni og líka á orgelið.

Í vitund margra Íslendinga er stjörnuskinið fegurst á jólanótt þegar birtan endurspeglast í fannbreiðum og snjóflygsum. Þegar Erla Elín fann bók árið 2014 með eitt hundrað hekluppskriftum hófst nýtt ævintýri. En nú voru það uppskriftir að snjókornum. Erla Elín heklaði fjölda snjókorna, sem hafa blasað við þeim sem hafa síðan komið í Hallgrímskirkju á aðventu og jólum.

Margir sem hafa sótt athafnir og tónleika á aðventu og jólum hafa heillast af þessum fögru handarverkum. Kirkjur á Íslandi hafa notið hannyrða og stuðnings kvenna. Hallgrímskirkja hefði ekki verið byggð ef dugmikilla kvenna hefði ekki notið við. Áfram verða undrin vegna þess að hugsjónakonur þora. Erla Elín Hansdóttur er ein þeirra. Snjókornin hennar birtast í Hallgrímskirkju á aðventu og sofandi stjörnur vakna til jólagleðinnar.

 

Sannur Keflvíkingur + Ásbjörn Jónsson

Ásbjörn fór á Heklu í október síðastliðnum. Á tindinum hélt hann stoltur á trefli og þar stóð: Sannur Keflvíkingur. Það var satt, hann var heilshugar í stuðningi sínum og samstöðu með samfélagi sínu. Síðustu vikurnar, sem hann lifði, notaði hann þverrandi krafta til að tryggja, að öll verkefni hans í þágu Keflavíkur yrðu í góðum höndum. Ásbjörn lauk sannarlega því sem honum var falið að sinna.
 
En Ásbjörn var ekki bara trúr Keflavík og Suðurnesjum. Hann var sannur í verkum og tengslum. Fjölskyldumaðurinn var traustur og heimilisbragðurinn gleðilegur. Þau Auður voru vinir og sálufélagar og voru dætrum sínum náin.
 
Ásbjörn var trúmaður og kirkjumaður. Hann var kjörinn til setu á kirkjuþingi og þar kynntist ég hversu vel hann vann. Hann var kjörinn til setu í kirkjuráði. Ásbjörn var glöggur, hagsýnn og mjög fundvís á leiðir úr vanda og lagði til farsælar lausnir. Honum var mjög í mun að tryggja, að kirkjunni væri stjórnað með skilvísum hætti. Jafnvel síðustu vikur ævinnar var hann á vaktinni og var uggandi um nýjan fjárhagssamning ríkis og kirkju.
 
Börnin nutu líka athygli Ásbjarnar. Einu sinni hittumst við á leið til Kaupmannahafnar. Þau Auður voru á leið til sinna dætra og ástvina og við kona mín vorum með strákana okkar. Drengirnir heilluðust af þessum brosmilda og káta vini foreldranna. Skömmu síðar kom hann í heimsókn með fangið fullt af leikföngum til að gleðja drengina. Ásbjörn var sannur vinur og ræktaði vinasambönd.
 
Styrkur og geta Ásbjörns blasti við öllum, sem kynntust honum. Einstakt er hvernig hann við ævilok gekk frá öllum endum, kvaddi félaga sína og vini og lauk öllum sínum verkefnum. Þrotinn að kröftum kom hann í heimsókn til að kveðja okkur hjón og fjölskyldu okkar. Með hlýju í augum þakkaði hann fyrir tengsl, samhug og gleðimál. Ásbjörn var sannur í trú sinni og lífstengslum. Ekki aðeins sannur Keflvíkingur, heldur sannur gæfumaður, sem sárt er saknað. Guð geymi hann.

Þessa mynd hér að neðan tók ég af Ásbirni í ferð á Lúthersslóðir sumarið 2012. 

Paradísarmissir – Paradísarheimt

Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.

Missir og heimt

Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.

Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.

Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.

Um tímann og vatnið

Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.

Erindi kristni og mengun

Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.

Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.

Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.

Jürgen Klopp – Allt í botn

Hvernig verður þjálfari til? Hver er saga áhugaverðasta knattspyrnuþjálfara heimsins? Ég las bókina um knattspyrnumanninn Klopp. Bókin kom fyrst út á ensku árið 2017, en svo var bætt við efni um tvö síðustu árin, þ.e. til 2019.

Höfundurinn, Rap­hael Honig­stein, flétt­ar sam­an frá­sagn­ir ým­issa aðila, sem hafa kynnst Klopp á ferlinum. Sagt er frá fjöskyldu Jürgens í Þýskalandi. Faðir hans var íþróttafrömuður og fjölskyldulífið gleðiríkt. Klopp var opinskár um upphaf sitt og vinirnir voru örlátir á skemmtilegar frásagnir af bernskubrekum, skólalífi og unglingsárum. Síðan er sagt frá hvar Klopp spilaði, hvaða stöðum hann gengdi, bæði í sókn og vörn, og löngun hans til að verða atvinnumaður og hvernig til tókst. Að lokum varð hann leikmaður knattspyrnuliðsins Mainz og var hávær og glaðvær leiðtogi leikmanna.

Klopp lauk BA námi í íþróttafræðum (skrifaði um göngur!) og aflaði sér dýrmætrar þekkingar á þjálfun, ekki síst liðsheildar- og hápressu-aðferð Franks. Þegar þjálfari Mainz fór skyndilega var Kloppo, bráðungur, kallaður til aukinnar ábyrgðar sem þjálfari. Síðan gekk allt upp á við í Mainz og Klopp stýrði liði sínu til sigurs í næst efstu deild og upp í Bundesliguna. Klopp tók síðar við liði Dormund og gerði að stórliði að nýju. Hann varð svo þjálfari Liverpool 2015 og gerði miðlungslið að Evrópumeisturum og einu besta félagsliði í heimi. Bókin segir þá sögu vel og nákvæmlega. 

Klopp: Allt í botn, hinn eini sanni Jürgen Klopp er ekki æfisaga. Hún segir ekkert um lífsskoðanir hans, hvernig trúmaðurinn Klopp þroskaðist, sem næst ekkert um fjölskyldulíf hans eftir fimm ára aldurinn og ekkert um stjórnmálaskoðanir, áhugamál, sorgir og litríkar víddir persónusögunnar. En bókin segir þeim mun meira um ýmsa kima þýskrar knattspyrnu og helstu þátta enskrar knattspyrnu síðustu árin. Þetta er nördabók, sem telur nákvæmlega upp leiki og úrslit, stöðu og átök í næstefstu deild þýsku knattspyrnunnar og síðan Bundeslígunnar. Einna mikilvægasti þáttur bókarinnar er að saga hápressuleikstíls Klopp er skýrð og hvernig hann hefur þróað þessa öflugu en vandmeðförnu aðferð knattspyrnunnar. Tengslin við knattspyrnuþróun á Ítalíu eru skýrð, þróun í Þýskalandi og hvernig Klopp hefur rutt braut nýjum áherslum í iðkun fótboltans. Eftir lesturinn skil ég betur hvernig aðferðin er hugsuð, útfærð og tilgang hennar. Um hápressustíl er bókin gjafmild.

Lyndiseinkun, tengslahæfni, örlæti, húmor og þróun knattspyrnustjórans er lýst ágætlega í bókinni. Samferðamenn Klopps og leikmenn hafa talað um hann, hvernig hann fer að, hvernig hann hefur orðið leiðtogi, sem dregur menn áfram á erfiðleikastundum, drifið áfram í baráttu og lifir sig með ástríðu í hvern leik sem spilaður er. Ástríðarn og keppnisskapið er alltaf virkt í Klopp, líka í fótbolta í fríum og með áhugamönnum. Klopp er allur þar sem hann er af lífsgleði og ástríðu. Og mér þótti merkilegt að lesa hvernig hann höndlar mótlæti og dregur sinn flokk áfram og upp úr vonbrigðapollum. 

Bókin er ljómandi yfirlitsrit um knattspyrnuferil Jürgen Klopp og um þróun þjálfarans, en varla um nokkuð annað. Bókin er einkum skrifuð fyrir þýskan markað og ég lærði því heilmikið um þýska knattspyrnu, en eiginlega ekkert um enska. Stóru spurningum mínum um lífsskoðanir Klopps, sem ég hef áhuga á, er enn ósvarað. En maður lifandi, sjarmerandi er hann Kloppo, klókur, útsjórnarsamur, heillyndur og merkilegur hugsuður á sínu sviði. Ljómandi vel þýdd bók, sem fær þrjár stjörnur af fimm.

Bókaútgáfan Krummi, 2019. Þýðing Ingunn Snædal. 

Smálúða eða rauðspretta

Á unglingaheimili er stöðugt viðfangsefni að koma fiski í ungviðið. Og þá er listin að bragðbreyta. Ég eldaði þennan flatfiskrétt í vikunni og þá sagði annar drengurinn. „Þetta er fínn matur. Höfum svona oftar. Mér finnst lax ekkert góður!“ Þessi matur er góður og reyndar góður lax líka. 

Fyrir fjóra:

800 gr. lúðu eða rauðsprettuflök

150 gr ferskir sveppir

1 gulur laukur

1 1/2 msk smjör

1 dós niðursoðnir tómatar

grænmetiskraftur

2 dl þurrt hvítvín

1 dl vatn

1 1/4 tsk salt

2 msk mjúkt smjör

2 tsk. estragon

1 1/2 msk mjúkt smjör

1 dl rjómi

2 msk fínhökkuð steinselja

Fínskera sveppina og laukinn. Látið renna af tómötunum.

Bræða smjörið í víðum, grunnum potti eða pönnu. Brúna sveppina og laukinn hægt.

Láta tómatana og grænmetiskraftinn út í ásamt víni og vatni. Sjóða undir loki í ca. 10 mín.

Breiða úr fiskflökunum á bretti og strá salti yfir. Blanda smjöri og estragoni saman og láta eina smjörlíkpu á hvert fiskflak. Rúlla þeim síðan saman eða leggja saman. Festið þau síðan saman með tannstöngli.

Blanda smjöri og rjóma í sósuna.

Leggið fiskinn síðan í sósuna og láta malla í í ca. 5. mín. undir loki, en án þess að sjóði.

Strá steinselju yfir þegar rétturinn er borinn fram.

Berið fram með hrísgrjónum eða byggi og salati.