Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Ástin í sóttinni

Hvernig líður þér á þessum COVID-tíma? Hefur þessi tími reynt á þig, dregið þig niður eða hvílt? Líður þér verr eða betur? Og hvaða hugsar þú? Hvernig er hægt að bregaðst við í þessum aðstæðum?

Ég gekk meðfram bókahyllunum mínum og dró fram bækur um farsóttir fortíðar. Þá rakst ég bók, sem ég stalst í á unglingsárunum. Það var bókin Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni  – pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórence í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, flestar merkilegar og sumar ansi safaríkar. Svo rakst ég á aðra eftirminnilega sögu um hræðilega sótt. Og dró hana fram úr hyllunni. Það er La Peste – Plágan, bók Albert Camus, sem var í bókaskáp foreldra minna rétt hjá Tídægru. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju bernskunnar. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann. En læknirinn Bernhard Reiux var meðvitaður um hlutverk sitt og annars hjúkrunarfólks í farsóttinni. Hann vissi ekki frekar en annað samstarfsfólk hvað biði hans. Myndi hann veikjast og deyja? En hann axlaði ábyrgð, mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Og mér fannst erindi bókarinnar vera að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar. Kunnuglegt! „All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Viðbrögð í farsóttinni

Hvernig getum við brugðist við kreppum? Saga Íslands er áfallasaga. Hafís, eldgos, uppblástur, snjóflóð, sóttir, barnadauði, mannskaðar á sjó og landi. Áföllin eru í menningunni, hafa litað ljóð, mótað sögur, uppeldi, hlutverk, menningarefnið og jafnvel læðst inn í í genamengi okkar Íslendinga. Við fæðumst nakin og menningin færir okkur í föt, sem halda frá okkur sálarkulda. Hvernig gat fólk túlkað sögu sína svo myrkrið, kuldinn og sorgin linaðist? Við greinum hinar andlegu almannavarnir í bókmenntum þjóðarinnar og sérstaklega í trúarritunum. Þar er spekin, lífsleikni þjóðarinnar í aðkrepptum aðstæðum. Engar plágur og dauðsföll gætu eyðilagt galdur lífsins. Það er boðskapur trúarritanna. Ástin er alvöru.

Ástarasagan

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar um aldir. Hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Lífið í passíunni

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma, sem ég dró líka fram úr bókaskápnum. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Erkisagan um okkur

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa undarlega tíma? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. Og kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Ég kippti Biblíunni úr hyllunni með hinum bókunum. Þar eru allar farsóttir og kreppur heimsins saman komnar. En þar er líka meira en bara sögur fyrir innilokað fólk. Jú, margar safaríkar sögur. Þar er efni um óábyrga en líka ábyrgt fólk sem axlar ábyrgð. Þar er boðskapur um að flýja ekki heldur mæta. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum er mætt. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig.

Íhugun í heimahelgistund. Visir 26. apríl, 2020. Upptaka, Studíó Sýrland, Gestur Sveinsson og Sveinn Kjartansson. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju og Hörður Áskelsson. 

Bæn: 

Lífsins Guð

Lof sé þér fyrir skínandi sól; fugla í ástaleik, golu á kinn, alla sprotana sem gæjast upp úr moldinni, glaðar öldur og daggardropa sem vökva. Við þökkum fyrir hina dásamlegu sköpun, sem þú gefur líf. 

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Þú lausnari heimsins

Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífs og gleði. Lof sé þér fyrir að þú lætur ekki dauðann sigra heldur ruddir lífinu braut. Leið okkur út úr kvíum einsemdar og sjúkleika. Leyf okkur að lifa í vori og sumri upprisu þinnar. Styrk þau og lækna sem eru sjúk og vonlítil. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði…….  Ver með fjölskyldum þeirra.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

 Þú andi lífs

Við biðjum þig að blessa öll þau er ganga erinda lífsins, hjúkrunarfólk, kirkjufólk, uppalendur, þjóna almennings. Veit sköpunargleði í atvinnulíf okkar. Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf. Farsæl líf og atvinnulíf samfélags okkar. Ver með þeim sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt, þjóna að altari þínu, hlúa að æsku og mennta fólk og efla til lífsleikni. Gef vitur ráð í þjónustu við þig. Allt skapar þú Guð, allt leysir þú, allt lífgar þú.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Allar bænir felum við í bæn Jesú og segjum saman:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

 

Kjúklingur með miso, mirin, engifer og fleiri dásemdum

„Pabbi, þetta er uppáhaldskjúklingarétturinn minn“ sögðu yngri synir mínir þegar við vorum að borða. Þeir voru að vísu búnir að vera úti í körfubolta og fótbolta í marga tíma. En þetta er frábær réttur, sem upprunalega kom frá Ottolenghi en hægt að spinna með uppskriftina í ýmsar áttir. Ljómandi með eggjanúðlum eða basmati-hrísgrjónum. Ef eitthvað vantar af hráefnum er það til í Melabúðinni, ég er búinn að kaupa svo oft í þennan rétt.  Fyrir 6.

12 kjúklingaleggir eða tveir bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir.

2 msk ólífuolía

2 ½ msk mirin

2 ½ msk hlynsíróp

2 ½ msk soya eða tamarin

80 gr hvítt miso eða 1 poki miso.

4 cm ferskur engifer, flysjaður og síðan rifinn – ca 30 gr

4 hvítlauksrif smáskorin eða marin

1 límóna – börkur rifinn og safinn pressaður

40 gr kóríander

2 rauðir chilli, meðalsterkir. Fræhreinsaðir og skornir langsum – þurrkaðar chilliflögur duga ef ekki er til chilli í kælinum

10 vorlaukar. 8 skornir langsum en 2 fínt þverskornir til að bera fram í lokin. Í kvöld átti ég ekki vorlauk en notaði bara púrrulauk í staðinn sem sést á meðfylgjandi mynd.

Salt, pipar og krydd að vild

  1. Forhita ofninn í 200 °C og með viftuna á.
  2. Koma kjúklingnum fyrir í skál og krydda og setja olíu yfir.
  3. Steikja síðan kjúklinginn á pönnu við meðalhita og snúa við eftir ca 4 mínútur og steikja fjórar mínútur í viðbót.
  4. Meðan kjúllinn steikist setjið í stóra skál mirin, soya-sósuna, miso, engifer, hvítlauk, límónubörkinn og límónusafann. Blandið saman.
  5. Setjið síðan nýsteiktan kjúklinginn í skálina með öllum vökvanum, hrærið lítillega til að tryggja að marineringin nái að öllum kjúklingabitunum.
  6. Olíuberið ofnþolið fat. Setjið lauk, kóríander og chilli í botninn og síðan kjúklingabitana ofan á. Hellið vökvanum yfir. Setjið inn í heitan ofninn og álpappír eða lok yfir. Steikið í ca 20 mínútur. Takið lokið af og snúið kjúklingabitunum. Steikið síðan í 20 mínútur í viðbót eða 30 mínútur ef þið notið kjúklingaleggi með beinum.
  7. Berið síðan fram með núðlum eða hrísgrjónum. Og skreytið gjarnan með skornu kóríanderlaufi og vorlauk. Ausið bragðmikilli sósunni yfir kjúling og núðlur. Og auðvitað má nota litríkt salat með eða strá einhverri tegund af Ecospíru yfir eins og ég gerði þennan sólardag í apríl. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður. Miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

 

 

 

 

 

 

Rauðspretta, koli eða smálúða

Þessi matur er dásamlegur og hátíðarfiskréttur.  Fyrir fjóra:

800 gr. smálúðu, kola- eða rauðsprettu-flök

250 gr ferskir sveppir

1 gulur laukur

2 dósir niðursoðnir tómatar

300 ml. grænmetiskraftur

2 dl þurrt hvítvín

1 1/4 tsk salt

300 gr mjúkt smjör (200 gr í steikingu og 100 gr. í fiskrúllurnar – sjá neðar)

2 tsk. estragon

1 dl rjómi

Fínskera sveppina og laukinn. Látið renna af tómötunum. 

Bræða smjör á pönnu. Brúna sveppina og laukinn hægt.

Láta tómatana og grænmetiskraftinn út í ásamt víni og vatni. Sjóða undir loki í ca. 10 mín.

Breiða úr fiskflökunum á bretti og strá salti yfir. Blanda smjöri og estragoni saman og láta eina smjörlíkpu á hvert fiskflak. Rúlla þeim síðan saman eða leggja saman. Festið þau síðan saman með tannstöngli eða ómeðhöndluðum trérprjóni.

Blanda smjöri og rjóma í sósuna.

Leggið fiskinn síðan í sósuna og láta malla í í ca. 10 mín. undir loki, en án þess að sjóði.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Takk Áslaug Björgvinsdóttir fyrir að miðla okkur þessari uppskrift frá Svíþjóð.

 

Gera eða vera

Hugleiðing í hádegisbænum 18. apríl 2020 er hér að neðan. Upptaka er að baki þessari smellu

Ekki snerta, ekki taka í hendur, halda sér langt frá öðrum. Þetta sem er svo langt frá því sem okkur hefur verið kennt og þykir svo mikilvægt. Okkur er gert erfitt fyrir að gera það sem við vildum svo gjarnan, knúsa fólkið okkar, fara í sund eða á fundina sem gera okkur gott eða sækja menningarlíf sem er okkur til eflingar. Hvað getum við gert? Við megum ekki eða getum ekki gert það, sem við erum vön að gera. Við neyðumst til að hægja á okkur. Á þessum tíma þegar kerfi mannanna brenglast neyðumst við til að staldra við. Og hvað getum við þá gert?

Já, við vitum auðvitað að hamingjan er ekki í hasarnum. Hamingjan er handan við atið. Hún kemur þegar við erum. Þegar við hömumst við að gera gleymum við gjarnan að vera. En hvernig getum við þá verið? Lífið færir okkur svo dásamlega margt, sem við megum taka eftir í rólegheitunum. Við getum opnað vitund gagnvart puttum okkar, hárinu eða heilsunni. Við getum strokið nefið, dregið að okkur andann til að finna lungun fyllast og lyktina í umhverfi okkar. Við getum andað djúpt og hugsað um fólkið í krinum okkur og það besta sem við höfum notið í lífinu. Við getum leyft myndum af þeim sem við elskum – eða höfum elskað – að koma fram í huganum. Og hvað er það merkilegasta sem við höfum heyrt eða gildi sem eru okkur dýrmætust? Og við getum hugsað um það sem okkur finnst best. Um hverja þykir þér vænst um?

Að vera er að sækja í visku og frið sem hinir fornu Hebrear kölluðu jafnvægi kraftanna. Að vera á sér trúarlega dýpt. Jesús hvatti fólk til að fylgja honum, trúa honum. Að vera er að virða dýptir lífsins sem við köllum Guð? Viljum við það?

Gera eða vera. Þetta er viðfangsefni allra alda og niðurstaða spekinga aldanna og trúarbragðanna, að lífsleiknin er ekki fólgin í puði og hasar. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um og Hallgrímur Pétursson túlkaði vel í Passíusálmunum. Menn þurfa ekki að afreka neitt til að ná prófi Guðs. Það er Guð, sem afrekar og við megum lifa, anda og vera í því ástarríki. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er svo að gera vel. Að gera gott blíðkar ekki Guð heldur er það algerlega nauðsynlegur þáttur lifandi Guðstrúar. Guð árangurstengir ekki heldur elskutengir. En af því Guð elskutengir árangurstengir trúmaðurinn. Gerið svo vel að vera.

Hugleiðing í hádegisbæn í Hallgrímskirkju laugardaginn 18. apríl, 2020. Myndskreytti upptöku íhugunarinnar. Ég tók allar myndirnar nema þá síðustu – af kirkjuturningum. Saga, dóttir mín, tók hana. 

Árni Svanur 47

Afmælisdagur. Vinur minn og velgerðarmaður, Árni Svanur Daníelsson á afmæli. Hann er vitur, fjölfræðingur, óáreitinn, tillitssamur, vinnuforkur og samviskusamur. Hann hefur góða baksýn og menningarlæsi. En svo hefur hann líka áhuga, tilfinningu fyrir hræringum tíma, kirkju og samfélags. Hann les vel mynstur, strauma og fólk og er alltaf opinn gagnvart breytingum og möguleikum. Ég hef löngum dáðst að hve vel Árni Svanur þolir álag, áreiti, streitu, hrokafullt fólk og alls konar vitleysisgang. Í miðju ati hefur hann húmor, yfirsýn og sér leiðir úr vandkvæðum og möguleika. Gefst aldrei upp. Það er einstakt og eftirsóknarvert að vera í liði með honum. Í fyrirstöðu sér hann jafnvel möguleika. Hann er leiðtogi. Svo er hann flestum tölvuglöggari og gott að njóta kunnáttu hans þegar vélarnar skrölta, símarnir klikka og öppin skelfa. Árni Svanur byggði upp vefi þjóðkirkjunnar, uppfærði prestastéttina um mörg tækniþrep og í guðfræðiopnun og menningarlæsi. Svo varð hann snemma afar skarpur guðfræðingur. Það var mikið lán að hann gekk í þjónustu þjóðkirkjunnar og jafnframt missir þegar hann fluttist erlendis. En Lútherska heimssambandið hefur notið visku hans og kunnáttu. Ég er sá lánsmaður að hafa notið vináttu Árna Svans Daníelssonar og notið hæfileika hans og velvildar. Guð laun. Hamingju- og blessunaróskir til þín, Kristínar Þórunnar og barna.

Myndir Sig. Árni