Brauð, bikar og gjörningar

Ég stóð við dómkirkjuna í Sansepolcro í austurhluta Toscana á Ítalíu. Íbygginn unglingsstrákur krítaði gamla götusteina fyrir framan kirkjuna. Nærri honum voru pappakassar. Í einum var mikið magn af gulum krónublöðum einhverrar fífiltegundar, sem var íslenskum flórukarli framandi. Í öðrum voru blóm af smágerðri baldursbrá og í þeim þriðja blá blóm. Hvað var strákurinn að gera? Ótrúlegt magn af krónublöðum. Þvílíkur vinnuvilji og puð að klippa þessa tugi þúsunda blóma!

Eitthvað var í bígerð, en hvað? Drengurinn fyllti lófana af blómum og lét falla á götuna og úðaði svo vatni yfir. Gul breiðan virtist ætla að verða í mynd faðmandi veru. Eða var það bikar? Svo gerði hann stóran baug með hvítu blómunum ofan við þau gulu. Gjörningurinn átti sér einhverja merkingu og var ætlað að tala til þeirra, sem áttu leið að kirkjunni. En hver var meiningin?

Karlar báru stórkostlegan vínrauðan vefnað út úr kirkju heilags Jóhannesar. Í hann var ofin dagsetningin 1760. Þeir hengdu klæðið á virðulegt hús við kirkjuna. Svo komu góðlátlegir og skríkjandi hringjararnir með stóra kertastjaka úr kirkjunni og komu þeim fyrir á borði á upphækkuðum tröppum, nærri klæðinu góða. Prestur kom með nokkra hökla. Það var hátíðisdagur í borg hinnar heilögu grafar. Klukkuómar úr turninum bárust letilega út í daginn og kölluðu fólk úr síestunni. Krónublaðadrengurinn hélt áfram að úthella örlæti Guðs og auðæfum sínum á strætið. Nú var búið að bæta við stöfum ofan í hvítan hringinn. Hin kirkjulega merking var að birtast: IHS. Það er skammstöfun Jesú, sem er í mörgum Jesúmyndum heimsins, líka á Íslandi. Iesus Hominum Salvator – Jesús frelsari mannkyns.

Svo bættust við geislar í götumyndina. Forvitinn vegfarandi spurði hvað þetta væri. Án þess að líta upp svaraði blómadrengurinn stuttaralega: Hostia – Brauð. Þá var allt skýrt. Brauð lífsins og svo var það líka bikar lífsins. Allt frá Guði, allt í táknrænni mynd, en í raunveruleika og skuggsjá strætisins. Kirkja í borg hinnar heilögu grafar til nota fyrir hinn góða boðskap. Strætið helgað með gerningi til að túlka hver merking lífsins er, hvaðan allt er og til hvers.

Á þessum tíma erum við minnt á að lífheimurinn er einn. Allt er tengt og smáveira getur umturnað stórkerfum mannkynsins. En líf er aldrei sjálfgefið. Lífi er alltaf ógnað. En allt er tengt þeim sem kallar fram líf – Guði. Gegn voða, vá, dauða og heimsfaraldri er boðskapurinn um, að dauðinn dó og lífið lifir. Drengur í Sansepolcro og við öll lesum blóm á göngum okkar og gjörningarnir lita veröldina. Hostia á götu, gæskuverk manna, bros og vonarorð eru líka brauð Guðs og bikar lífsins. Djúpmerking í viðburðum heimsins er lífgjöf Guðs, sem gefur, verndar og blessar. Yfir, með og undir er andi Guðs í brauði og víni, fyrir heim, fyrir líf og til lífs.