Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Jólahandritið þitt

Jólin eru komin, undrið er loksins orðið, þessi tilfinningatími, sem hefur svo margvísleg áhrif á okkur og vekur svo margar kenndir. Mig langar að spyrja þig persónulegrar spurningar: Hvernig er handrit þitt að jólunum? Hvað er þér mikilvægt? Hvaða tilfinningapakka opnar þú? Hvað gerir þú til að hleypa að þér því, sem er þér mikilvægt? Hvað viltu og hvað ekki? Hvað gerir þú til að halda burtu frá þér því sem þér þykir vont? Hvað eru jólin þér? Og hvert er þitt jólahandrit?

Plastjól undir pálmum

Tvenn jól var ég erlendis, þegar ég var við nám í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég fór suður á bóginn skömmu fyrir jól, til Flórída. Alla leið til Key West, rétt norðan við Kúbu. Veðrið var dásamlegt og gott að slaka á eftir próf. Svo kom aðfangadagskvöld. Við, þýskur félagi minn, vorum sammála um að við værum báðir jólabörn. Á aðfangadagskvöldi vildum við borða vel. Við fórum því á gott veitingahús og hófum máltíð kl. 6. Maturinn var góður, en samt var ólag á þessari máltíð sem jólamáltíð. Við vorum ekki í neinu jólastuði og héldum út í jólanóttina hugsi og þegjandi. Við okkur blasti stór ofurrauður Coca-cola-jólasveinn með kuldakinnar. Hann stóð í vagni og hreinar í fullri stærð hnykluðu vöðvana. Snjór var á jörðinni. Þessari miklu jólaskreytingu var komið fyrir undir risastórum pálmatrjám. Hlý Karíbahafsgolan blés um hár okkar, granahár hreinanna og skegg sveinsins. En snjórinn bráðnaði ekki, því myndin var öll úr plasti. Það litla, sem var af jólastemmingu lak af okkur félögum niður í malbikið. Engin jól, engin stemming, engin kirkjuferð, engin fjölskylduhátíð, ekkert guðspjall, allt ein samfelld andupplifun. Handritið innan í okkur passaði ekki settinu. Heimþrá og söknuður helltist yfir okkur.

„En það bar til um þessar mundir…“ ómaði textinn í höfði mér. Við fórum heim á hótel og ég rölti niður í flæðarmálið. “Hvað er það í jólahaldinu, sem skiptir máli?” tautaði ég með sjálfum mér. Af hverju varð ég svona óhemjulega dapur? Ég horfði á hvernig aldan glettist við smásteina, sem sungu jólasálma sína í ölduleik fjörunnar. Steinarnir, eins og mannfólkið í tímanum, hugsaði ég, og rifjaði upp ljóðið, að við værum sandkornin á ströndinni og kærleikur Guðs hafið. Svo lagði ég hlustir við hljóðum hinnar helgu nætur og fór yfir jólalíðanina. Eru jól háð stemmingunni heima, við ákveðnar aðstæður? Eru jólin háð umgerðinni eða rista þau dýpra en plasthreinar eða yfirspenna barnsins? Hvert er inntak og flæði jólanna? Hver er andi handrits jólanna?

Jólalíðan

Mörg börn standa í miðjum jólapappírshaugnum á aðfangadagskvöldi og spyrja: Eru ekki fleiri gjafir? Fullorðnir upplifa kannski ekki slík vonbrigði, en glíma þó við tómleika. Þegar stormur aðfangadagskvölds líður hjá snjóar tilfinningum í logni sálarinnar. Hvað kemur til okkar þá? Hvað býr innra með okkur, sem við mættum gjarnan hlusta á? Hvað er þetta jólamál og hvernig varðar það tilfinningarnar? Eru einhverjir plastjólasveinar og hreinar í lífinu? Hvað skiptir þig máli? Hvað ætti að vera í jólahandritinu þínu?

Jól hinna fullorðnu

Það er bara hálfsannleikur að jólin séu hátíð barnanna. Jólin eru fyrir alla, líka þig. Jól hins fullorðna eru engu síðri en jól barnsins, en þau eru öðru vísi. Við erum ekki lengur börn að aldri. En við erum ekki of gömul til að lifa. Og við megum leyfa okkur að upplifa jól með öðrum hætti en barnið. Mál jólanna er einfalt: Guð kemur til þín. Guð finnur þig – hvar sem þú ert. En til að þú getir upplifað jólin er mikilvægt að þú skiljir hvaða aðstæður skilgreina og móta þig – þitt handrit, þetta sem stýrir hvernig þú upplifir Guðskomuna. Jólasagan talar til dýptar þinnar, til langana þinna og þarfa. Hvernig getur Guð snortið þá kviku, sem er að baki umbúðunum? Hvernig getur Guð komið til þín í þitt innsta inni? Já, jólin eru ekki aðeins hátíð barnanna heldur hátíð lífsins. Og inntak þess lífs er að Guð segir við þig: „Ég elska þig. Þú ert óendanlega mikils virði.“ Það er jólahandrit himinsins um þig, veröldina og lífið.

Vonbriðgin og ný skynjun

Þegar vonbrigðin voru alger á strönd Key West og jólahald okkar félaga fullkomlega misheppnað – varð mér litið upp í himinhvelfinguna. Stjörnurnar glitrðu á festingunni. Loftsteinn skaust inn í sjónsvið mitt og brann á örskotsstundu. Í austri titraði stjarna. Og það var um þennan himinskjá, sem andi jólanna fór að tala til mín. Eitthvað kviknaði, stjarna jólanna seig inn í sálina og boðskapur guðspjallsins fór að koma.

Í djúpi hugans heyrði ég rödd pabba lesa: „En það bar til um þessar mundir….“ Svo kom sagan um boð keisarans um manntalið, um ferð fólks til borganna, för Jóseps og Maríu, um plássleysið og síðan fæðingu barnsins í gripahúsi, bændurna á völlunum og englasöngva.

Allt í einu kom djúp tilfinning sem ég leyfði að hríslast um mig. Sársaukinn dofnaði og þá hætti að skipta máli að einhverjir plasthreinar væru undir pálmatrjám – eða að ég væri fjarri kokkhúsi móður minnar. Jólin komu til mín – Jesús fæddist í mér. Og þá féll einn stofn bernskunnar, ritúal barnsins opnaðist og goðsagan féll. Bernskuatferli aðfangadags gat ekki lengur verið eina nauðsynlega forsenda inntaksupplifunar. Jól í lífi hins fullorðna varðar inntak og upplifun á dýptina. Og þar er lykillinn að því að lifa merkingu jólanna, þegar Jesús fæðist í mér.

Á þessum jólum skýst stjörnugeisli inn í líf þitt alveg óvænt og býður þér að gera ferð þína að jólaferð í lífinu, að Jesús fæðist þér, ekki sem barn í jötu, heldur sem Guð sem kemur og fyllir líf þitt, sál þína og gerist félagi þinn á lífsgöngunni. Handrit þitt og handrit Guðs tengjast og fara saman.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með öllum mönnum. Guð gefi þér gleðileg jól.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——-

Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Amen.

Englar í stuði og sveitalykt Jesú

…að boð kom frá Ágústus keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina… Alla, hverja einustu stelpu og strák í heiminum – karla og konur, Kínverja, Rússa? Er hægt að muna eftir öllum?

Boð  frá … keisara. Það er blákaldur hljómur í þessum orðum. Járnbragð kemur í munninn og meiðslaverkur í putta. Ekki góður keisari, sem neyðir ófríska kona að fara að heiman, langa leið á asna og milli gistihúsa í myrkri?

María og Jósep fóru fóru út úr heimi keisarans, inn í bláleita veröld flakkandi stjörnu, undurveröld vitringa og engla í stuði, kærleiksríkra kinda og jórtrandi kúa. Það var örugglega sveitalykt af heimi Jesú. Þar er allt hægt, allt satt, allt gott.

Keisarinn þarf að skrifa til að muna, en þó er alltaf einhver útundan. Guð man eftir öllum. Hjá Guði er allt gott.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður. Já, það var það, sem þurfti að skrifa í heiminum. Ekki friður keisarans, heldur friðurinn sem skrifaður er í lífið.  Boð kom frá Guði handa strákum og stelpum heimsins að skrifa sína stafi.

(Fann þetta við tiltekt í tölvunni – samdi einhvern tíma á jólakort til vina – svo þetta er ofurlítil aðventuleiðsla).

 

Viðtal um matseld í Fréttablaðinu 15. desember. 

„Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.

Matreiðsluáhuga Sigurðar Árna Þórðarsonar, sóknarprests í Hallgrímskirkju, má rekja til æskuáranna þegar hann gerði sér grein fyrir því að elda mætti silung með mismunandi hætti og að krydd væri undraefni. „Foreldrar mínir ræktuðu fjölbreytilegt grænmeti. Svo var ég á unglingsárum stórveiðimaður norður í Svarfaðardal og týndi marga tugi lítra af berjum á haustin. Það er platveiðimaður sem ekki lærir að gera að fiski og elda.“

Inn á vef sínum www.sigurdurarni.is, birtir Sigurður m.a. greinar, pistla og hugvekjur en líka ýmsar ljúffengar uppskriftir. „Vinir okkar hjóna voru alltaf að biðja um þessa eða hina uppskriftina svo við gáfum bara út matreiðslubók eitt árið og gáfum vinum og fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þar sem óskirnar héldu áfram og ég var með heimasíðu var auðvelt að smella inn uppskriftum sem eru þarna í bland við hugleiðingar um lífið, prédikanir, þjóðmál og annað sem prestur skrifar um.“

Mikilvægt að borða saman

Eiginkona Sigurðar, Elín Sigrún Jónsdóttir, er að hans sögn betri bakari en hann og líka næmari á uppskriftir. „Hún veit að ég er mikill matfaðir og vil helst elda og hafa marga í kringum mig og gefa mörgum að borða. Því sendir hún mér uppskrift um miðjan dag eða kaupir hráefni og tilkynnir mér að hún hafi fundið þessa góðu uppskrift. Ég verð kátur þegar maturinn er góður, allir borða og standa upp frá borðum með hrós á vörum.“

Starf sóknarprests getur verið mjög annasamt og vinnudagar langir. Góður matur í góðum félagsskap skiptir því Sigurð miklu máli. „Í kirkjunni stöndum við prestarnir við borð, altarið. Og í safnaðarheimilum kirkna eru borð og samfélag. Jesús Kristur var veislukarl. Hann er minn maður. Kirkja er í þágu lífsins. Að borða saman er mikilvægt, samtölin eru mikilvæg og við snertum hvert annað tilfinningalega þegar við eigum samfélag. Það vissi Jesús Kristur og ég tek mark á því, líka heima.“

Áhugi á Biblíumat

Miðjarðarhafsmaturinn, bæði hráefnin og kryddin, eru uppáhald Sigurðar. „Biblíumatur er sértækt áhugaefni og mig langar til að dýpka þekkingu mína á klassísku hráefni fornaldar því það er heilsufæði nútímans. Ég verð í Berkeley í Kaliforníu næstu mánuði og mun örugglega fara á heilsumarkaðina á San Fransisco-svæðinu.“

Uppskriftin sem Sigurður gefur lesendum er Maríukjúklingur sem hann segir  vera biblíumat. „Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans.“ 

Til hvers aðventa?

Sex ára drengur sat í kirkju. Söngvar aðventunnar og jólaundirbúnings seitluðu inn í vitund hans. Og minnið brást honum ekki, textarnir frá því í fyrra komu úr sálargeymslunni og hann söng með. Barnakórarnir heilluðu líka alla í kirkjunni. Augu drengsins ljómuðu þegar hann sneri sér að mömmu sinni og sagði með barnslegri einlægni: “Mikið er gaman að lifa.” Mamman sagði mér svo frá þessari jákvæðu upplifun barnsins.

Aðventan er komin. Þessi tími sem er “bæði og” en líka “hvorki né.” Aðventan er samsettur tími, sem krefst ákvörðunar um hvað skal vera í forgangi. Álagið getur verið mikið og margt sem þarf að framkvæma fyrir jólin. Kröfur, sem fólk gerir til sjálfs sín og sinna á þessum tíma, geta verið miklar og úr hófi. Áður en þú druknar í verkum er ráð að þú staldrir við og spyrjir: “Til hvers? Má ekki sumt af þessu bíða? Er ekki allt í lagi að fresta því, sem er ekki alveg aðkallandi?” Á aðventu er ráð að muna eftir tvennunni: Að vera eða gera. Hvort er mikilvægara að lifa eða strita, klára verk eða njóta lífs, upplifa eða puða? Við prestar heyrum oft á fólki tala um við ævilok að dótið og eignirnar hafi ekki fært þeim djúptæka lífshamingju. Dýrmæti lífsins væri fólkið þeirra, maki, börn, barnabörn og vinir. Getur verið að á aðventu sé mikilvægast að vera með sjálfum sér, fólkinu sínu og vænta hins guðlega?

Veistu hvað aðventa þýðir? Orðið er komið af latneska orðinu adventus. Það merkir koma, að eitthvað kemur. Við, menn megum leyfa okkur að hlakka til og vona. Það er einn af undraþáttum lífsins að við megum í læstum aðstæðum vinna að því mál leysist, vænta að lausnin komi. Í aðkrepptum aðstæðum megum við vona að úr rætist, að inn í myrkar aðstæður nái ljós að skína.

Aðventan þarf ekki að vera puðtími heldur getur verið tími hins innri manns. Aðventan má vera tími eftirvæntingar þess að lífið verði undursamlegt. Boðskapur jólanna er um þá dásemd að allt verður gott. Og á aðventunni megum við undirbúa innri mann, skúra út hið óþarfa og vænta komu hins fagnaðarríka. Aðventan er tími til að núllstilla lífið til að við getum tekið við undri lífsins, að hið guðlega verði. Og við getum sagt við fólkið okkar, sem við elskum. Mikið er gaman að lifa.”

Forseti Eistlands í Hallgrímskirkju

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands er á Íslandi á þingi stjórnmálakvenna. Hún hefur áður komið til Íslands og þekkir Reykjavík. Svo sagði hún Íslendingunum í gærkvöldi að hana langaði að heimsækja Hallgrímskirkju. Ragnar Þorsteinsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, hafði samband og þar sem við þjónum fólki sagði ég að sjálfsagt væri að taka á móti henni. Nokkrum mínútum eftir  settan tíma kom forsetinn gangandi, í fylgd starfsfólks og öryggisvarða. Hún vildi fremur ganga frá Hörpunni en aka.

Kersti Kaljulaid brosti þegar hún kom að kirkjunni. „Ég hef verið hér áður,“ sagði hún og við gengum inn. Það var margmenni í kirkjunni. „Það er dásamlegt að upplifa ljósið“ bætti hún við og gekk rösklega fram að kórtröppum. Fylgdarfólkið stoppaði við fremstu bekki. Það varð enginn fyrirlestur yfir hópi heldur töluðum við, fjarri hinum, um söng og frelsi, kirkju og mannlíf. Ég hreifst af því á sínum tíma að Eistar sungu sig til frelsis og gaf forsetanum frelsissöngva íslensku þjóðarinnar, Passíusálmana. „Takk, takk“ og hún skoðaði bókina með áhuga. Svo fórum við yfir sameiginlega reynslu af Rússum. „Það herti okkur að þurfa að glíma við þá.“ Þegar við vorum búin að ræða um ljós og birtu arkitektúrs, dást að orgelhljómi kirkjunnar vildi hún fara upp í turninn. “Hálfa leið til himins og til baka?“spurði ég. „Já, og endilega til baka líka.“ Svo hleypti amerískt par okkur fremst í röðina og fylgdarfólk og tveir íslenskir öryggisverðir fórum í lyftunni upp. Eistarnir voru kátir, voru þakklátir fyrir að móttakan var afslöppuð, hlógu hjartanlega í lyftunni enda tekur svolítinn tíma að fara hálfa leið til himins. Forsetinn leit yfir borgina og dáðist að útsýninu. „En gaman að sjá borgina frá þessum sjónarhól.“ Svo var farið niður að nýju. Ekki hægt að láta forseta Íslands bíða.“ Kvaddi með virktum. „Þetta var gaman, en allt of stutt heimsókn,“ sagði hún. „En þá kemur þú aftur“ svarði ég. „Já, svo sannarlega. Þið Íslendingar eigið svo mikið í okkur, það er svo gott á milli þjóða okkar. Og takk fyrir að taka svona vel á móti okkur,“ sagði Kersti Kaljulaid. Opinberar heimsóknir eru oftast ánægjulegar en þessi var sérlega skemmtileg. Stíft form er stundum til hjálpar en  Eistar og Íslendingar þora oftast að fara út fyrir rammann. Takk fyrir mig líka.