Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Frelsið eða dauðinn

Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Við komum bílnum fyrir í skugga frá stóru tré á bílastæðinu við Arkadiouklaustrið og röltum að hliðinu. Klaustrið stendur á lítilli sléttu í fimm hundruð metra hæð yfir sjó. Útveggir eru sem virkisveggir, klaustrið ferhyrnt og klefar og salarkynni klaustursins við útveggina. Við fórum um hliðið, greiddum elskulegum klausturverði aðgangseyri og gengum inn í klausturgarðinn. Við Elín Sigrún höfðum komið þarna fyrir mörgum árum og það var ljóst að margt hafði verið gert síðan til fegrunarauka og fræðslu. Vel hirtar rósir, kryddrunnar, ávaxtatré, margar tegundir blóma og vínviður glöddu augu. Svo var komið glæsilegt safn, sem gaf innsýn í sögu klaustursins. Og tíminn varð eiginlega þykkur.

Við gengum úr einni vistarverunni í aðra, dáðumst að húsum, munum og málverkum. Presturinn íhugaði mun vestrænnar og austrænnar kristni, helgimyndagerð – íkónógrafíu Grikkja og klausturskipulagið. Svo komum við að norðvesturhorni klaustursins og fórum alveg inn í horn. Þar var gangur og hlið og þar stoppuðum við. Þar vorum við komin að einum átakanlegasta stað Krítar. Og drengirnir mínir upplifðu þungan nið sögunnar og skelfingu stríðs.

Grikkir og Tyrkir hafa barist um aldir. Á nítjándu öld var Krít stríðssvæði. Árið 1866 flýði hópur í skjól í klaustrinu undan framsókn Tyrkja. Fimmtán þúsund hermenn á vegum Tyrkja sóttu að því. Þó klaustrið væri víggirt væri ekki hægt að verjast ofurefli. Engin hjálp barst að utan og Tyrkirnir brutu allar varnir. Augljóst var að blóðbaðið yrði ægilegt og fólkinu yrði misþyrmt og það vanhelgað. Og þá voru kostirnir tveir heldur aðeins einn: Dauði. Börn, konur, munkar og hermenn, á níunda hundrað manns, söfnuðust í gamla vínkjallarann. Þar voru tunnur með því púðri sem eftir var. Þegar Tyrkirnir komu hlaupandi var kveikt í púðrinu. Sprengingin var svo öflug að steinhvelfingar yfir þessum sal dauðans splundruðust og grjót og brak dreifðist víða. Dauðinn kom skjótt.

Tyrkirnir þóttust hafa unnið mikinn sigur, en dauði píslarvottanna hleypti lífi í frelsisbaráttu Krítverja og varð sem tákn fyrir alla Grikki. Rendurnar í fána Grikkja eru tákn um kostina sem einstaklingar og þjóðin hafa orðið að velja, frelsi eða dauða. Það var þrúgandi að standa á þessum stað þar sem svo margir létu lífið. Þjáningin var nánast yfirþyrmandi. Sótið er enn á veggjunum og eins og blóðlyktin hefði ekki alveg horfið. Miklir steinveggir, engin hvelfing heldur aðeins opinn himinn. Og við fórum inn í kirkjuna í miðjum klausturgarðinum, kveiktum kerti fyrir fórnarlömb grimmdar og stríða, táknkerti um rétt manna til að búa við öryggi og frið.

Hverjar eru hugsjónir okkar? Eru gildi algerlega sveigjanleg og afstæð? Eða er eitthvað svo mikils virði að án þess tapi lífið gildi? Er grimmd einhverra svo skelfileg, að skárri kostur sé að sprengja sig og börnin sín í loft upp? Foreldrum fyrri tíðar hefur það verið skelfileg siðklemma. 

Fyrir tæpum sautján árum (11. september) vorum við Elín Sigrún á þessum sama stað og íhuguðum frið og stríð, átök þjóða og hlutverk okkar. Á þeim degi var flugvélum rænt og m.a. flogið á tvíburaturnana í New York. Það var einkennilegt að koma frá klaustrinu og heyra um árásirnar í Bandaríkjunum. Þá sprungu flugvélar í okkur öllum. Hvaða gildi getum við gefið drengjunum okkar og iðkað svo þeir hafi veganesti til lífgjafar en ekki grimmdarverka? Við vildum sýna þeim þetta gríska klaustur sem væri tákn um baráttu fólks á öllum öldum. Þetta var ekki skemmtiferð, sem við fórum, heldur ferð á vit gilda, hugsjóna og lífsgæða. Þegar bænakertin ljómuðu inn í kirkjunni kviknaði bál tilfinninga hið innra. Aldrei aftur Masada, aldrei aftur Arkadiou, aldrei aftur Verdun, aldrei aftur Sýrland… Gegn dauðanum stendur alltaf frelsið, eini valkosturinn. 

11. júní 2018

Fagmennska og mennska

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.

Fagmennskan

Flest okkar viljum, að fólk sé fagmannlegt í því sem það gerir. Að það sinni störfum sínum í samræmi við eðli þeirra. Að það kunni sitt starf, beiti tækjum og tólum af þekkingu og í samræmi við reglur og staðla starfans. Og skili verki sínu óaðfinnanlegu. Það er metnaður okkar, að vera góð í því sem við höfum menntað okkur til og störfum við. Fagmaðurinn vill rísa undir væntingum og ljúka verki svo, að þau sem njóta eða kaupa þjónustuna séu ánægð og störfin séu helst umfram vætningar. En hvað er nóg? Getum við gert kröfu um að fagmennirnir séu skemmtilegir, fyndnir, hlýlegir og nærgætnir? Getum við gert kröfu um að auk góðrar vinnu sé fagmaðurinn líka nálægur og tillitssamur? Eiginlega ekki. Vissulega ætlumst við til að góður fagmaður sé ekki neikvæður, tuði ekki eða víbri af neikvæðni. Við væntum þess að fagmaður gæti að blanda ekki persónu sinni, heimilisvanda eða sérvisku inn í fagvinnu sína. Við viljum að mörk séu virt.

Nálægð – mennska

Og þá erum við aftur komin að hótelinu og starfsfólkinu þar. Öll eru þau einstaklega fagleg í þjónustu. Þau kunna verk sín, vinna af alúð, vanda sig og skila sínu. En hið einstæða er að þau eru ekki aðeins fagmannleg og hlutlaus, heldur nálæg og jákvæð. Öguð mennska er fléttuð í fagmennskuna. Langir vinnudagar breyta ekki nálgun þeirra. Þó ég hafi séð þau glöð að verki snemma dags kem ég að þeim að kvöldi jafn faglega einbeitt en líka nálæg og mennsk. Alltaf jafn örugg í starfi, vakandi yfir velferð fólksins sem þau þjóna, alltaf mild, til í glens, kunnáttusöm um mörk, aldrei ágeng, en þó föst fyrir þegar kemur að þjónustuþáttum og hlutverkum. Þetta eru hinir stórkostlegu plúsar í fagmennsku þessa fólks. Mikill lærdómur. Þau hafa dýpkað skilning minn á fagmennsku. Mennskan er eins mikilvæg og fagið í fagmennsku. Hús skipta máli, en fólkið í þeim er alltaf mikilvægast.

Fyrirmynd

Ég fór í frí en ég lærði mikið. Flest störf okkar í nútímasamfélagi eru þjónustustörf. Hvort sem við erum píparar, kennarar, ráðherrar eða þjónar störfum við fyrir fólk með beinum eða óbeinum hætti. Það er metnaðarmál fagmannsins að gera sem best, en það er hins vegar stórkostlegt þegar mennskan verður aðall fagmannsins. Þá er lengst náð. Þannig er það á hótelinu okkar. Og þannig vil ég helst vera í mínu þjónustustarfi sem prestur. Ég fór í frí og lærði mikið um mennskuna. Krítverjarnir eru mér skínandi fyrirmyndir um fagmennsku. Takk fyrir.

Hugleiðing 10. júní 2018.

Mynd hér að ofan er af nokkrum sem þjónuðu við matreiðslunámskeið einn daginn, kokkur, yfirkokkur og sommelier hótelsins. Allt skemmtilegir karlar, en konan sem stjórnaði var farin þegar náði mynd. Myndin af konum í viðburðastjórnun. Blómamyndin: Alla daga eru blóm sett í herbergi, aldrei eins svo það er alltaf einhver framvinda, enda mikill blómgróður á hótelsvæðinu.

Allir fingur upp til Guðs

Hvernig eru hendur þínar? Snúðu þeim og horfðu á þær. Þú þekkir handarbökin, sem blasa við þér og þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo eru lófarnir. Kannski hefur þú spáð í líflínu og myndagátu lófa þíns. Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handabandið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Hendur eru starfstæki okkar. En þegar við leggjum hendur saman er það gjarnan til að kyrra huga. En hendurnar þurfa ekki að vera alveg kyrrar eða ónytsamlegar þegar við tölum við Guð. Við getum notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Í dag er bænadagur og við íhugum bæn og bænahætti. Og mig langar til að kenna ykkur að nota hendur til bænaiðju.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðir þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Fingurinn gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Ef börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal getum við notað hann til að skófla upp trúarlegri merkingu líka.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á þau sem liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur baugur, hringur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er á flestum kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum. Vitja þeirra Guð, sem hafa verið umkringd af hinu rangláta. Og svo biðjum við fyrir syrjandi, deyjandi og þeim sem líður illa.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið. Er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú borðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að léttalitla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niðurí erli daganna, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Jákvæð lífsiðja

Jesús minnti fólk á mikilvægi bænarinnar. Hann sagði gjarnan: “Biðjið ...”Já við ættum að biðja, biðja mikið. Bænir eru eðlilegur þáttur í kirkjulífi og á afmörkuðum stundum dags og æfinnar. En bæn má verða eins eðlilegur þáttur lífsins og andardráttur. Það er ekki einkennilegt, að bænin er nefnd andardráttur trúarinnar. Og þar sem bænin má vefjast inn í allt lífið, verða meginþáttur í lífi okkar megum við gjarnan leyfa okkur skapandi bænaafstöðu. Við megum bæði draga lærdóm af bænafólki í eigin trúarhefðen líka öðrum trúarhefðum. Margt í íhugunarstellingumhinna miklu trúarhefðamá nota til eflingar eigin bænaiðju. Við megum gjarnan nota það sem höfðar til fegurðarskyns okkar og vefja inn í bænagerðina. Ljós skiptir trú og trúartúlkunmáli, notið kerti – en gætið að eldinum!

Bænaiðja er atferli sem er eins og allt annað í lífinu. Stundum er auðvelt að biðja, stundum erfitt. Stundum er eins og himininn sé tómur og stundum verðum við hrifin í sjöunda himinn og öllu er svarað greiðlega sem við ræðum við Guð. Oflæti í bænaiðju er kannski ekki það sem reynist best. Hið smáa er bæði fallegt og farsælt. Góðir hlutir gerast hægt. En engin bæn er sóun, engin bæn fellur óheyrð, ekkert orð týnist í hávaða veraldar. Guð heyrir ofurvel. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.”Spáðu í handverk bænarinnar og mundu líka að bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

 

Klopp og Kristur

Hefur það áhrif á líf fólks að trúa á Guð? Fólk er mismunandi og þau sem eru kristin eru ekki eins heldur alls konar. Sumir nota trú eða meðhöndla hana að eigin þörfum en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. Knattspyrnustjóri í Englandi er áhugaverður maður sem veitir Jesú Kristi aðgang að búningsklefanum. Hann var valinn til starfa í Liverpool af því hann umgekkst ekki leikmenn sem gæja með töfra í tánum heldur sem manneskjur. Þessi lífsafstaða hefur þjónað liðinu vel.

Knattspyrnulið Liverpool er að nýju að verða eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum var og þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Eftir nokkurra ára baráttu ákvað stjórnin að ráða Jürgen Klopp sem stjóra liðsins. Hann var undraþjálfari í heimalandi sínu í Þýskalandi og náði lengra með liðum sínum en flestir höfðu átt von á. Sem sé toppmaður. Og síðan hefur hann umbreytt liði Liverpool á stuttum tíma, gefið leikmönnum nýja djörfung, blásið þeim trú í brjóst, endurnýjað liðsandann og smitað gleði og von til stuðningsmanna Liverpool. Og Liverpool er að nýju orðið eitt af bestu liðum í Evrópu. Í síðustu viku sundurspilaði liðið Roma og í vikunni komst það í úrslit í bestu deild veraldar, meistaradeild Evrópu. Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Vegna þessa hefur knattspyrnupressa heimsins verið með augun á Klopp þessum og Liverpool. Í skemmtielgu viðtali við hann var spurt um liðið, andann, leikmennina, tæknina og skipulagið. Þegar hann hafði svarað öllu greiðlega var spurt um hans eigin persónu og nálgun: „Hvað með sjálfan þig? Nú ertu orðinn frægur þjálfari. Hvaða máli skiptir það þig persónulega?“ Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Og það þýðir að ég sé sjálfan mig í ljósi heildar. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið og ég er í liðinu.“

„Ég er kristinn.“ Það var svarið. Þekkt er að Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega. Hann er sjálfsagt ekki fullkominn frekar en við hin en skilur og tekur afleiðingum af hvað trú merkir. Allir sem fylgjast með fótbolta Liverpool hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk, af virðingu, með hlýju og til að stykja. Hann byggir upp liðsheild hóps sem vinnur saman og til stuðnings öðrum. Ég er kristinn. Það merkir að ég er hluti af heild, ég styð aðra, ég lít ekki á sjálfan mig sem einstakan snilling heldur sem einn af mörgum í stóru teymi fólks. Það er heildin sem er samhengi einstaklinga og þegar við skiljum það skiljum við betur eðli kirkjunnar. Þegar við skiljum eðli kirkjunnar sem samfélags skiljum við mikið um þarfir og eðli einstaklinga. Og þegar við höfum náð því stóra samhengi skiljum við betur afstöðu Guðs til manna og veraldar.

Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist varðar að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari, klárari en allir aðrir. Við erum aðeins einstök í tengslum við fólk, lífsamhengi okkar og Guð. Við megum gjarnan spyrja okkur: Hvaða lífsafstöðu hef ég? Hvað skilgreinir mig og tengsl mín við fólk? Ertu kristinn? Og púlarar, stuðningsmenn Liverpool, syngja hástöfum: „You will never walk alone.“ Í því er ljómandi áhersla sem rímar vel við meginstef kristninnar. Hvort Liverpool vinnur meistaradeildina eða ekki á eftir að koma í ljós. En kristin trú virkar vel í tengslum, í fótbolta og í meistaradeildum hversdagslífsins.

Hefur það áhrif á líf fólks að trúa á Guð? Fólk er mismunandi og þau sem eru kristin eru ekki eins heldur alls konar. Sumir nota trú eða meðhöndla hana að eigin þörfum en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. Knattspyrnustjóri í Englandi er áhugaverður maður sem veitir Jesú Kristi aðgang að búningsklefanum. Hann var valinn til starfa í Liverpool af því hann umgekkst ekki leikmenn sem gæja með töfra í tánum heldur sem manneskjur. Þessi lífsafstaða hefur þjónað liðinu vel.

Knattspyrnulið Liverpool er að nýju að verða eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum var og þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Eftir nokkurra ára baráttu ákvað stjórnin að ráða Jürgen Klopp sem stjóra liðsins. Hann var undraþjálfari í heimalandi sínu í Þýskalandi og náði lengra með liðum sínum en flestir höfðu átt von á. Sem sé toppmaður. Og síðan hefur hann umbreytt liði Liverpool á stuttum tíma, gefið leikmönnum nýja djörfung, blásið þeim trú í brjóst, endurnýjað liðsandann og smitað gleði og von til stuðningsmanna Liverpool. Og Liverpool er að nýju orðið eitt af bestu liðum í Evrópu. Í síðustu viku sundurspilaði liðið Roma og í vikunni komst það í úrslit í bestu deild veraldar, meistaradeild Evrópu. Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Vegna þessa hefur knattspyrnupressa heimsins verið með augun á Klopp þessum og Liverpool. Í skemmtilegu viðtali við hann var spurt um liðið, andann, leikmennina, tæknina og skipulagið. Þegar hann hafði svarað öllu greiðlega var spurt um hans eigin persónu og nálgun: „Hvað með sjálfan þig? Nú ertu orðinn frægur þjálfari. Hvaða máli skiptir það þig persónulega?“ Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Og það þýðir að ég sé sjálfan mig í ljósi heildar. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið og ég er í liðinu.“

„Ég er kristinn.“ Það var svarið. Þekkt er að Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega. Hann er sjálfsagt ekki fullkominn frekar en við hin en skilur og tekur afleiðingum af hvað trú merkir. Allir sem fylgjast með fótbolta Liverpool hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk, af virðingu, með hlýju og til að stykja. Hann byggir upp liðsheild hóps sem vinnur saman og til stuðnings öðrum. Ég er kristinn. Það merkir að ég er hluti af heild, ég styð aðra, ég lít ekki á sjálfan mig sem einstakan snilling heldur sem einn af mörgum í stóru teymi fólks. Það er heildin sem er samhengi einstaklinga og þegar við skiljum það skiljum við betur eðli kirkjunnar. Þegar við skiljum eðli kirkjunnar sem samfélags skiljum við mikið um þarfir og eðli einstaklinga. Og þegar við höfum náð því stóra samhengi skiljum við betur afstöðu Guðs til manna og veraldar.

Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist varðar að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari, klárari en allir aðrir. Við erum aðeins einstök í tengslum við fólk, lífsamhengi okkar og Guð. Við megum gjarnan spyrja okkur: Hvaða lífsafstöðu hef ég? Hvað skilgreinir mig og tengsl mín við fólk? Ertu kristinn? Og púlarar, stuðningsmenn Liverpool, syngja hástöfum: „You will never walk alone.“ Í því er ljómandi áhersla sem rímar vel við meginstef kristninnar. Hvort Liverpool vinnur meistaradeildina eða ekki á eftir að koma í ljós. En kristin trú virkar vel í tengslum, í fótbolta og í meistaradeildum hversdagslífsins.

Porvoo-kirknasambandið

Fundur höfuðbiskupa Porvoo-sambandsins var haldinn í Kaupmannahöfn 12.-14. október 2017 (sjá skýringu afast í greininni). Ætlunin hafði verið að funda í Litháen, en fundurinn var færður til Danmerkur og var haldinn í Andrésarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Helgihald var þar og í Frúarkirkjunni. Tengslahópurinn samtakanna, PCG, hélt fund sinn til undirbúnings og úrvinnslu í húsakynnum biskupsstofu Kaupmannahafnar. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, boðaði forföll og ég var því eini Íslendingurinn á fundinum.

Trúarlöggjöfin

Hans Gammeltoft Hansen sagði frá löggjöf um trúmál í Danmörku og greindi að löggjöf um stofnanir og einstaklinga. Margt hljómaði kunnuglega íslenskum eyrum þegar rætt var um sögu kirkju- og trúarlöggjafar, Grundloven 1849 og löggjöf um trúfélagafrelsi í Danmörk fyrir liðlega öld, sem hafði mikil áhrif á þróun kirkju og trúarlöggjafar á Íslandi. En Danir hafa ekki tekið sömu stóru sjálfstæðisstökk í kirkjumálum og Ísland, Noregur og Svíþjóð og hlustuðu því grannt á reynslu okkar hinna Norðurlandaþjóða. Anglikönunum þótti þetta einnig áhugaverður jús.

Kirkja á tali

Marianne Christensen sagði að brýnasta hætta kirkjunnar nú væri að draga sig í hlé, staðsetja sig utan samfélags og lifa þar í eigin menningarkima. En kirkjan eigi ekki gera forsendur hins veraldlega samfélags sínum nema þær rími við hið kristna erindi. Hún ræddi m.a. um búrkur og fatnað kvenna og sagði að valdamenn sem vildu alltaf líka stjórna tísku og fatnaði kvenna. Þá ræddi hún um pílagrímastaði og minnti á að níu milljónir manna sæktu heimsaltarið í Fatíma. Fólk á ferð væri alltaf fólk í leit að merkingu. Þá ræddi M. Christensen – til upplýsingar anglikönum – um hið jákvæða og gleðilega í lútherskunni. Hún minnti á áherslu lútherana á tónlist, sem ræki burt hið djöfullega og hleypti gleðinni að. Guð væri alltaf gleðimegin – lífsmegin skv. lútsherskunni – og styður hið góða. Hlutverk kirkjunnar er að tala við Guð. Kirkjan á ekki aðeins að starfa í söfnuðunum eins heldur líka að vera í lifandi samvinnu eða samtali við samfélagið. Hún eigi beita sér fyrir velferð fólks, að allir séu virtir og heyrðir. Kirkjan eigi ekki aðeins að vera vörður hinna andlegu og þröng-trúarlegu efna, heldur einnig að sinna samfélagslegri gildavörslu. Hún væri siðferðisvörður hverrar samtíðar. Hún eigi að þora að gagnrýna, rífa niður og byggja svo upp. Í krafti Jesú á kirkjan að þora að vinna í samtíð og í miðju samfélagsins og líka varpa upp gildum og knýja framgang hins góða fyrir framtíð.

Lútherskan

Helga Byfuglien talaði um framlag lútherskunnar í post-modern samfélagi. Á tíma uppþota og gríðarlegra breytinga halda lúthersk upp á fimm hundruð ára afmæli siðbótar. Og nú er fullkomin tími til að vera kirkja – einmitt vegna ástandsins í heiminum. Lútherska fjölskyldan vex í suðri, en í norðri eru allt aðrar aðstæður. En áherslan á öllum tímum er á hið sama, fagnaðarerindið. Frelsuð vegna náðar Guðs. Það er erindið, sem kirkjan á við allt fólk og alla aldurshópa. Frelsuð vegna elsku Guðs. Erindi kirkjunnar er ekki að gera sjálfa sig að forsendu heldur lifa í krafti tengslanna við Guð. Kirkjan hættir ekki að eiga erindi til lífs þó hið opinbera hafi tekið að sér mörg hlutverk sem kirkjan gegndi áður. Enn hefur kirkjan ómengaða skyldu að tala spámannlega – um öll hin jaðarsettu, flóttamenn, öll þau sem líða og eru vanvirt. Það verður bara að hafa það þó nokkrir stjórnmálamenn í Noregi telji kirkjuna vera vinstri sinnaða. Meðan hún er trú hinu kristna erindi munu alltaf einhverjir uppnefna kirkjuna og gera lítið úr málstað hennar.

Kölluð til nýs skilnings

Justin Welby talaði um Brexit og breytingar á tengslum Englands og Evrópu. Hann líkti kirkjunni við áhöfn Titatnic eftir að skipið rakst á ísjakann. Brexit verður og verkefnið er ekki að gera hið besta úr ómögulegum aðstæðum, heldur vera blessun í kreppunni. Bretar fara úr Evrópusambandinu en ekki út úr Evrópu. Menningarleg og kirkjuleg tengsl hafa verið mikil og um aldir. Bretar hafa alltaf verið smeykir við meginland Evrópu. Er það ástæðan þess, sem knýr áfram Brexit-ferlið? Guðfræði er oft mótuð af staðsetningum, sérstökum aðstæðum og samhengi. Brexit er hin hliðin á hinu breska. Bretar voru um aldir með augu á fleiru en menginlandi Evrópu. 1/3 heimsins var lengi breskur, þ.e. undir yfirráðum Englands. Bretar réðu stórum hluta hins múslimska heims og hagsmuni og gróðasjónarmið voru hreyfiaflið að baki. Kristindómur og trúboð voru oft aðeins viðhengi við fjármálahagsmuni. Kristnin á nú undir högg að sækja í hinum breska heimi. Aðeins 1,8% sækja kirkju – að vísu 6 milljónir á jólum. En þótt sóknin sé lítil er bergmál kristninnar hljómmikið í menningunni. Kirkjurnar í Evrópu verða að styrkja samstarf – Porvoo er ekki markmið heldur áfangi. Við erum kölluð til að vera með þeim sem eru okkur ósammála. Svo það er eins gott að fólk sætti sig við það og hugi að því hvernig er hægt að umlíða þau sem eru ósammála. Við, guðfræðingar og kirkja, erum kölluð til nýs skilnings á því hvað merkir að trúa, vera andleg vera og þar með að vera kristin kirkja.

Trú í samfélögum Evrópu.

Af þessum upptöktum urðu líflegar umræður. Dæmi voru nefnd úr héraði og undirritaður sagði frá gliðnun og þróun íslenskrar menningar sem á sér hliðstæður víða í hinu evrópska samhengi. Margir hugsuðu síðan upphátt um breytingar kirkjulífs og trúartúlkunar og iðkunar í Evrópu og sögðu sögur úr sínu heimasamhengi. Rætt var um breytingar á mannskilningi, þ.e. aukna einstaklingshyggju í hinum evrópsku samfélögum. Fundarmenn voru sammála um að kirkjustjórnir lútherskra og anglikanskra gætu haft meira samráð um stór siðferðileg, trúarleg og pólitísk mál. Raunar ættu kirkjurnar að koma sér upp samtalsvettvangi.

„Við eigum að hræðast fólk sem ætlar að ýta Guði inn í horn og verja Guð þar fyrir heiminum.“ Við erum vön að vera í miðjunni á samfélögum okkar, en munum þurfa að venja okkur við að vera á grensunni – periferíunni. „Ef ljósið kemur inn up bakdyrnar – þá verum bakdyrnar. Ef ljósið kemur inn um aðaldyrnar. Þá verum aðaldyrnar.“ Minnt var á vanda allra kirkna Evrópu varðandi borgirnar: Fólk er á hreyfingu í borgunum og raunar hverfur kirkjunum í þeytingnum. „Drop-in“ skírnir og giftingar eru tilraunir kirkna á Norðurlöndum til að svara þörfum, lækka þröskulda og tryggja ódýra kirkjulega þjónustu. Þar sem vel er unnið er ekkert “ódýrt” – í merkingunni lágkúrulegt – við þessa „drop-in“ þjónustu.

Bænaefni

Thy kingdom come – Gott efni sem Church of England heimilar Porvoo-kirkjunum að nota að vild. https://www.thykingdomcome.global/prayerresources#individuals

https://www.thykingdomcome.global/resources/33

Drop-in á menninganótt

10 þúsund manns fóru í Frúarkirkjuna á menningarnótt. Þetta var opin kirkja. Prestar voru til viðtals, ljósstafir á gólfi til að lýsa upp myrkvaða kirkjuna. Allir gátu komið og verið í sínum bæna- eða íhugunarheimi. http://koebenhavnsdomkirke.dk/event/3513415 Opin kirkja af þessu tagi gæti verið í Dómkirkjunni og Hallgrímskirkju á menningarnótt.

Bænalisti

Porvokirknasambandið er biðjandi samfélag. Beðið er

. 11. júní er beðið fyrir kirkjulífi á Íslandi og biskupum þjóðkirkjunnar. 

Porvoo – fundir framundan

2018 verður ráðstefna haldin í Eistlandi um meirihluta og minnihluta.

2019 PCG og Church leaders munu hittast Portúgal. Ungt forystufólk í kirjunum verður boðið til fundarins auk leiðtoga í kirkjunni.

2020 Guðfræðiráðstefna. Um samfélag – Communion. Stefnan verði “úthverf” frekar en “innhverf” – þ.e. rætt um samfélagsköllun kirkjunnar.

2021 Porvoo – 25 ára hátíð kirknasambandsins og fundur höfuðbiskupa.
Porvoo-fundir eru jafnan gefandi þeim sem sækja. Hlutverk og stöður hverfa í opnu flæði og samtali ólíkra einstaklinga. Og þar sem fundarmenn eru úr tveimur kirkjufjölskyldum eru þeir jafnan fjölskrúðugir og ríkulegir. Fundunum er ætlað að þjóna kirkjuleiðtogunum, ekki síst biskupunum. Fullur trúnaður ríkir um viðkvæm mál, en þau eru rædd hispurslaust og farið yfir mismunandi kosti. Anglikanarnir hafa t.d. hlustað vel á reynslusögur lútherskra og lært mikið af norrænu kirkjunum um meðferð mála samkynhneigðra. Brexit-umræðan á Kaupmannahafnarfundinum var mjög opin og hinar ólíku áherslur voru opinberaðar, allt eftir því hvort átt var við hagsmuni Englendinga, Íra, Walesbúa eða Skota. Vandi kirknanna var ræddur, en trúarviskan var ómenguð. Hrædd eða smæðarleg trú kom ekki við sögu heldur styrk, björt og framtíðarleitandi viska af hæðum. Það er því þakkarvert að fá að vera með. Porvoo-samfélagið hefur náð að vera opið og þroskað samfélag, sem á eftir að skila meiri samvinnu á næstu árum.

Peder Skov Jakobsen, Kaupmannahafnarbiskup, er með skemmtilegustu mönnum og tryggði að kvöldsamverur væru gleðilegar. Fólki var raðað saman og svo endurraðað til að tryggja að kynni yrðu margvísleg og sem mest. Við Justin Welby voru t.d. settir saman í hálftíma og áttum djúpsækið og mjög persónulegt samtal en líka skemmtilegt. Welby er kátur sögumaður og fór yfir ekki aðeins eigið upphaf, heldur gaf innsýn baksvið stórmála í enskri pólitík. Kvöldsamverurnar í biskupsgarði voru miklar söngsamverur og anglikanar voru mótmælalaust dregnir í færeyskan hópdans. Þetta var allt gert í lútherskum anda, enda fagnaðarerindið tilefni til fögnuðar og lífsgleði.   

Porvoo-kirknasambandið er kennt við Borgå eða öðru nafni Porvoo í Finnlandi en þar var sambandsaðild undirrituð. 

Sigurður Árni Þórðarson, fulltrúi íslensku þjóðkirkjunnar í tengslahóp Porvoo-kirknasambandsins, Porvoo Contact Group.