Greinasafn fyrir merki: Alviðra

Alviðrusúpan – ítölsk kjötsúpa fyrir Íslendinga

Hvað eldar maður fyrir hóp göngufólks sem plantar trjám eftir gönguferð? Augljóslega kraftmikinn kost. Sprækir umhverfissinnar á þriðja æviskeiði komu í Alviðru – umhverfissetur Landverndar í Árnessýslu – í hádegismat. Ég ákvað að elda ítalskættaða lambakjötssúpu. Hún er matarmikil og bragðgóð. Notaði lambalæri, úrbeinaði, skar kjötið í 1-2 cm teninga og var ekki smámunasamur með skurðinn – ekki frekar en varðandi skurð á grænmetinu. Bein og afskurðinn sauð ég í potti til að ná kjötkraftinum og síaði í lokin vökvann frá og smellti honum í súpuna. Kryddun er persónulegt mál og ég nota chilli æ meira í svona súpur þó ég nefni það ekki í hráefnalistanum – það var svolítið af því í ítalska kryddinu – frá Campo di Fiori í Róm – sem ég notaði. Ég nota mun meiri hvítlauk fyrir fjölskyldu mína en listaður er – en hélt aftur af mér vegna tillitssemi við fíngerða bragðlauka fólks sem ég hef ekki eldað fyrir áður. Rauðvínssletta gefur líka meiri dýpt. Fyrir þau sem vilja bragðmikla súpu má líkja steikja nokkrar ræmur af smátt skornu bacon á pönnu og setja í súpuna síðustu mínúturnar.

Fyrir 6

Hráefni

1 kg súpukjöt

¼ hvítkálshöfuð, skorið fremur smátt

2 laukar, skornir

2 gulrætur smáskornar

½ blaðlaukur, skorinn í smáa bita

1 paprika skorin í bita

3 hvítlauksgeirar, saxaðir

1 knippi steinselja, söxuð

1 msk balsamedik

170 g tómatmauk (puré)

2 l vatn

1 dl orzo eða vermicelli (eða annað smágert pasta)

0.5kg blómkál – kjarni og stærstu greinar skornar frá og blómin losuð sundur.

1 msk ítölsk kryddblanda

Pipar og salt að smekk

Skreytt með steinselju og/eða graslauk

Kjötið sett í pott ásamt hvítkáli, lauk, gulrótum, blaðlauk, hvítlauk og hálfu knippinu af saxaðri steinselju. Kryddað með pipar, salti og kryddblöndunni. Balsamediki og tómatmauki hrært saman við hluta af vatninu og hellt yfir og síðan er afganginum af vatninu bætt út í. Hitað að suðu og látið malla í um 40 mínútur. Orzo (eða t.d. vermicelli) og blómkál sett út í og látið malla í 10 mínútur til viðbótar. Ausið í skálar og skreytt með steinselju. Gott og bragðmikið brauð fer vel með.  

Ekki þarf að orðlengja að Aldinfélagar tóku vel við og nokkrar hinna rösku kvenna báðu um uppskriftina – en enginn karlanna því þeir voru uppteknir við að ná sér í þriðju ábótina.

Myndina hér að neðan tók ég í eldhúsinu í Alviðru meðan ég eldaði og fíflamyndin hér að ofan var við heimreiðina. Blómabreiðan brosti við mér þegar ég var að svipast um eftir göngufólkinu. Takk fyrir komuna félagar í Aldin.

Þökkun Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Líflegt í Alviðru

Stjórn Landverndar ákvað að fjölga í stjórn Alviðru úr þremur fulltrúum í fimm. Núverandi stjórnamenn eru Auður I. Ottesen, gjaldkeri, Kristín Vala Ragnarsdóttir, fulltrúi stjórnar Landverndar, Margarita Hamatsu, Sigurður Árni Þórðarson, ritari, og Tryggvi Felixson, formaður. Myndin var tekin á fundi stjórnar Alviðru 8. mars 2025. Með vorinu lifnar Alviðra við eftir vetrardvala. Sjálfboðaliðar SEEDS mæta um miðjan apríl og vinna við endurbætur á fjósinu og fleira. Grenndargarðurinn tekur til starfa í maí og stangveiðimenn fjölmenna á bakka Sogsins. Skólarnir eru boðnir velkomnir með sumarkomu og opið hús verður fyrir kennara 25. apríl. Í sumar verður svo fjölþætt opin fræðslu- og upplifunardagskrá sem lýkur með uppskeruhátíð í september. Verið velkomin í Alviðru.

Vatn og fræðsla

Vatn er dýrmæti. Lífið skírist í vatni. Vatn verður ekki aðeins metið til peninga – ekki frekar en lífið sjálft. Jafnvel í köldu Þingvallavatni lifa um 120 þúsund lífverur á hverjum fermetra við vatnsbakka. Það er heilt samfélag á litlum bletti og í stóru samhengi. Það lífríki er verðmætt. Göngumst við ríkidæminu og ábyrgð okkar. Gerum vatnalífi landsins gott til með fræðslu, gestastofum, almennri menntun um lífið í vatninu. Já, verndum vatnið hæfilega.

Fyrir nokkrum árum kom ég í safn í Vestur-Noregi, sem helgað er lífinu í merkilegri laxá. Þegar inn var komið var þar ekki aðeins miðlað upplýsingum um ofurfiska, sögu veiða og árnýtingar, heldur var sem einn hluti árinnar rynni í gegnum húsið.
Eins og í góðum vatna- og sjávarlífs-söfnum erlendis var hægt að ganga að stórum sýnisgluggum. Þeir veittu innsýn beint í hylinn. Þar syntu árbúarnir og hægt var að fylgjast með gerð, stærð, hreyfingum og samskiptum fiskanna. Þetta var heillandi heimur og ég hugsaði með mér: Góð hugmynd fyrir fólk, sem metur vatnið og lífið mikils – frábær hugmynd fyrir Árnesinga. Gullhringurinn – Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Skálholt – er góður en yrði enn betri ef hægt væri í ferðarlok að skoða stórfiska á leið upp ána og fræðast um dýrmæti og nýtingu vatns. Allt vatn og líf þess er gott og við erum vörslumenn þess. Ekki er verra að fiskur í kristninni er tákn hins heilaga. Er ekki tími til kominn að Árnesingar gangist við ríkidæmi sínu, byggi laxastofu og opni fjársjóðskistu vatnaheims héraðsins. Gullið má sýna. Slíka vatnsstofu má gera í eða við Árborg. Alviðra var fyrir hálfri öld gefin af stórhug til verndar náttúru og fræðslu. Gestastofa í Alviðru við brúna yfir Sogið er kjörin staðsetning fyrir slíka gestastofu.