Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hann var mér norður, suður – austur og vestur

Síminn sönglaði, skilaboð bárust frá Noregi. Vinkona í Þrándheimi hafði verið beðin að lesa eitthvert viðeigandi ljóð við útför vinar. Og vinkonan norska bað um hjálp. Hvað ljóð væri hægt að lesa við útför elskaðs vinar? Hávamál eða eitthvað eftir norskan höfund? Það ljóð, sem var mér þá stundina efst í huga var ljóðið sem var flutt við útför í kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför. Ég fletti upp að nýju hinu magnaða ljóði Wystan Hugh Auden Funeralblues og minntist stórkostlegs flutnings John Hannah á þessu ljóði í kvikmyndinni þegar hann kvaddi maka sinn. Hvaða tilfinningar vakna þegar maður missir ástina sína? Hvernig breytist veröldin við dauða?

Vinkona mín las ljóðið á enskunni og heillaðist af hljóðlátum krafti þess. Svo fletti hún upp norskum þýðingum þess. En þar sem engin þeirra snart hana snaraði hún sjálf ljóðinu á nýnorsku – og flutti við útför vinar síns í gær. 

Glóðin í texta Auden er persónuleg og hefur sértæk en mismunandi áhrif. Engin íslensku þýðinganna snart mig heldur svo ég umorðaði líka. Það varð ekki þýðing orða eða efnisatriða heldur fremur snörun tilfinninga í þessu sorgarljóði Auden. Djúpsvartur harmur og tilfinningar fólks í sorg eru líkar á öllum öldum og í mismunandi aðstæðum. 

Útfararblús

Stöðvið tímann, kastið símum.

Hendið beini í hundinn og kæfið gjammið.

Stöðvið glamrið – syrgjendur nálgast.

Lyftið kistu við dempaðan bumbuslátt.

 

Hann er dáinn. Þotur veina á flugi

og krota andlátsfregn á himinskjáinn.

Fregnin fer um samfélagsvefinn.

Fánar í hálfa stöng.

 

Hann var mér norður, suður – austur og vestur,

allar helgar og vinnuvikur.

Hann var mér dagar, nætur, mál og músík.

Ég hélt að ástin væri eilíf – en hvílík blekking!

 

Stjörnur daprast. Slökkvið á þeim.

Hyljið tungl og drepið sól.

Sturtið hafi og eyðið gróðri.

Engin gleði framar, ekkert líf.

Sorgin er skuggi ástarinnar og tárin flæðandi sorg. Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Sá syrgir aldrei sem aldrei hefur elskað. Ef við viljum losna við eða forðast að harma kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Veröldin missir lit og allt skekkist. Ástvinamissir skilgreinir veröldina, efnisheiminn og merkingu alls. Þá hrynja lögmál heimsins og allt breytist, litir verpast, mál og merking hliðrast. Sorgin málar allt, líka skýin.

Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg manna og skilur sársauka. Dauðinn dó, en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Bæn: Guð: Ver okkur norður, suður – einnig austur og vestur, allar helgar og vinnuvikur. Ver nærri daga, nætur og í máli og músík.

 

Rúnar Reynisson

Getur það verið? Er Rúnar Reynisson raunverulega sextugur? Það getur varla verið. Hann sem er eins og unglingur! Jú, mikið rétt hann fæddist á árinu 1962. Sextugur og sívökull öðlingur.

Ég vissi af Rúnari frá unglingsaldri en kynntist honum fyrst vel þegar við vorum báðir starfsmenn þjóðgarðins á Þingvöllum. Hann var landvörður, gekk í öll verk og var alltaf jafn brattur og ötull. Honum mátti treysta til smárra verka sem stórvirkja. Ég minnist næturvaktar fyrstu helgar í júlí þegar unglingarnir í Reykjavík fengu fyrstu útborgun sumarsins og ákváðu að breyta þjóðgarðinum í útihátíð. Þá var gott að njóta ráðsnilldar Rúnars. Hann horfði óhræddur í augu drukkinna unglinga og hjálpaði þeim að finna svefnpokana sína. Hann bognaði ekki undan hrópum dekraðs stráks úr bænum sem hótaði okkur að pabbi hans myndi reka okkur úr starfi á Þingvöllum. Pabbinn alvaldi kom og sótti son sinn og bað okkur margfaldlega afsökunar á látunum í syninum. Rúnar hélt húmornum í stórræðunum, lægði öldur, kom fólki til hjálpar og leysti alla hnúta greiðlega og farsællega. Á Þingvöllum varð Rúnar meira en landvörður, nánast landvættur. Þaðan í frá vissi ég að Rúnar væri lífslistamaður.

Það kom mér ekki á óvart að Rúnar varð skapandi kirkjumaður. Guðfræðinámið kom honum að gagni í fræðslustarfi kirkjunnar. Hann þorði að hugsa og spyrja nýrra spurninga um starfshætti kirkjunnar og guðfræði. Hann var í framvarðasveit þeirra sem efldu fjölskyldustarf þjóðkirkjunnar á níunda áratug síðustu aldar og síðan. Það var Nessöfnuði mikið happ að Rúnar kom til starfa í Neskirkju. Hann var og hefur verið burðarás í kirkjustarfi í Vesturbænum. Þegar sóknarnefnd og prestum Neskirkju varð ljóst hve fjölhæfur Rúnar var breyttist starf hans. Auk fjölskyldustarfsins var honum falið að stýra skrifstofu kirkjunnar. Skrifstofustjórinn Rúnar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Neskirkju á þriðja áratug.

Ég var svo lánssamur að starfa með Rúnari í Neskirkju í áratug. Ég dáðist að geðprýði hans í miklum önnum, fjölþættum gáfum hans, óbrigðulum húmor, æðruleysi gagnvart kjánaskap samferðafólks eða sprikli okkar félaga hans, sköpunarkrafti og einbeittum metnaði hans fyrir hönd starfa sinna og safnaðar og heilindum og helgun í starfi.

Rúnar hefur alla tíð kunnað að tjá sig. Af því hann var frjór og íhugull greinandi hafa margar hugmyndir hans ratað í hugleiðingar og prédikanir presta Neskirkju. Margt af því sem Rúnar lagði til í fermingarfræðslu og öðru fræðslustarfi varð að veruleika af því hann gat útfært og sá leiðir.

Á seinni árum hefur Rúnar haft möguleika á að vinna að listsköpun. Tvær myndlistarsýningar hans í Neskirkju, eins og ólíkar og þær eru, hafa opinberað þroskaðan listamann.

Vegna þess hve náið við unnum saman í áratug fylgdist ég með fjölskyldumanninum Rúnari. Honum hefur alla tíð verið umhugað um að þjóna fólkinu sínu og gert með elskusemi og hlýju. Nú hefur hann komið börnum sínum til manns og manndóms. Ástin á heima hjá Rúnari.

Við sem höfum notið Rúnars Reynissonar eigum honum mikið að þakka – ekki aðeins samverkafólk í Neskirkju heldur söfnuður hennar, vesturbæingar og þjóðkirkjan. Fyrir hönd okkar Elínar Sigrúnar og fjölskyldu segi ég: Takk Rúnar Reynisson fyrir gjöfula samfylgd. Guð laun.

18. nóvember, 2022. Myndir sáþ.

Arngrímur málari og bruni Möðruvallakirkju

Kirkjur brenna. Í sumum er kveikt af ásetningi. Að meðaltali er kveikt í 274 kirkjum í hverjum mánuði, ár eftir ár um allan heim. Aðrar brenna vegna bilana, mistaka eða af öðrum ástæðum. Kirkjubruni er alltaf stórmál.

Miðgarðakirkja í Grímsey brann í september 2021. Mikilvægur sögustaður fuðraði upp, vettvangur stóratburða samfélagsins hvarf og mikilvægir gripir hurfu í gin eyðingar. Altaristafla Miðgarðakirkju brann líka. Þá mynd gerði Arngrímur sem hafði viðurnefnið málari. Hún var ein af ellefu altaristöflum sem hann málaði og sýndi síðustu kvöldmáltíðina. Fyrirmyndin var frægasta kvöldmáltíðarmynd allra alda, verk Leonardo da Vinci í Mílanó. Söfnuðurinn í Grímsey keypti mynd Arngríms fyrir 120 krónur árið 1879 og síðan var hún í Miðgarðakirkju. Nú er þessi þokkafulla mynd málarans horfin í eldi tímans. Bruninn í Grímsey rifjaði upp fyrir mér annan eld sem Arngrímur tengdist og málaði líka. Það var kirkjubruninn á Möðruvöllum árið 1865

Angrímur málari var umtalaður í uppeldi mínu. Svanfríður Kristjánsdóttir, móðir mín, var Svarfdælingur. Hún sagði mér í bernsku frá Arngrími sem meistara lita og forma. Hún benti á málarastofu hans, sem blasti við frá Brautarhóli hinum megin dalsins. Þar var ég í sveit í sautján sumur. Ég fann fyrir svipaðri virðingu þegar nafni minn, frændi og fóstri, Sigurður Kristjánsson, talaði um Arngrím. Málarinn varð í tali þeirra systkina að dýrmætum nágranna, frænda og fyrirmynd. Margir Svarfdælingar hafa heiðrað Arngrím og haldið minningu hans á lofti. Við ævilok skrifaði Kristján Eldjárn, forseti, bók um málarann og Þórarinn, sonur hans, bjó ritið til prentunar þegar Kristján féll frá og skrifaði einnig formála bókarinnar.

Svarfdælingar hafa virt fleiri en eigin dætur og syni. Arngrímur Gíslason var ekki Svarfdælingur heldur Þingeyingur og fæddist í Skörðum í Reykjahverfi árið 1829. Síðustu æviárin bjó Arngrímur og seinni kona hans, Þórunn Hjörleifsdóttir, í Svarfaðardal, fyrst á Tjörn, síðan á Völlum og að lokum í Gullbringu ofan við Tjörn. Þar reisti Arngrímur sér smáhýsi til listiðju sinnar. Húsið var elsta vinnustofa listmálara á Íslandi. Hún er enn til og loflega vel varðveitt af eigendum, fjölskyldu Kristjáns Eldjárns. Þrátt fyrir drátthæfni naut Arngrímur ekki myndlistarmenntunar fyrr en hann var kominn á fullorðinsár. Arngrímur var hæfileikamaður og kunnáttusamur á mörgum sviðum. Hann var forystumaður sundmennta á Norðurlandi. Hann lærði bókband og þótti listamaður á því sviði. Hann hafði atvinnu af bókbandi um tíma og skrifaði líka um listina að binda bækur. Rit hans um bókbandsreglur er til í afriti á Landbókasafninu. Þá hreifst Arngrímur af tónlist, lærði á fiðlu og flautu og lagði sig eftir tónfræði. Svo spilaði hann á samkomum og hafði nokkrar tekjur af giggunum. Hann var poppari tímans. Arngrímur stundaði einnig nótnaskrift og var áhrifamaður í tónlistarþróun á Norðurlandi á nítjándu öld.

Á́ fertugsaldri, þegar Arngrímur var við nám í rennismíði í Reykjavík, fékk hann tilsögn í myndlist hjá Sigurði Guðmundssyni, málara. Fjárskortur meinaði Arngrími þó frekara náms en hann hélt áfram að teikna og munda penslana. Hann var sjálfmenntaður alþýðumálari. Björn Th. Björnsson, listfræðingur, rómaði atorku Arngríms, dug við gerð mannamynda sem og sjálfstæði hans. Þó altaristafla Miðgarðakirkju væri eftirmynd var Arngrímur þó lausbeislaður við málverkið og altaristöflurnar málaði hann gjarnan í samræmi við eigin hugmyndir. Hann var frjálshuga og hentaði að fara eigin leiðir í lífi og list.

Viðurnefnið málari fékk Arngrímur seint á ævinni þegar hann sneri sér af krafti að myndsköpun. Hann fór um Suður-Þingeyjarsýslu, teiknaði og málaði fólk á bæjunum þar sem hann kom. Möðruvallakirkja brann árið 1865 og þá var Arngrímur á staðnum. Möðruvellir eru brunavellir. Klaustrið brann 1316 og Davíð Stefánsson skrifaði leikrit um þann atburð. Árið 1712 brunnu öll staðarhús nema kirkjan. Amtmannsstofan varð eldi að bráð árið 1826 og amtmannssetrið, Friðriksgáfa, árið 1874. Þegar kirkjan brann árið 1865 var litlu bjargað. Arngrímur horfði ekki aðeins á brunann heldur óð hann inn í eldhafið til að bjarga altaristöflu kirkjunnar. Honum var verðlaunað afrekið og fékk þá mynd að launum. Líklega varð þessi tafla til að beina sjónum, huga og höndum málarans að gerð trúarmynda. Töflurnar sem Arngrímur gerði voru allar unnar eftir 1870, þ.e. eftir að hann eignaðist Möðruvallamyndina.

Ein af merkustu myndum Argríms er vatnslitamynd hans af kirkjubrunanum á Möðruvöllum. Hún er raunar fyrsta myndin af samtímaatburði eftir íslenskan listamann, fyrsta fréttamyndin eins og Kristján Eldjárn kallaði hana. Gerð brunamyndarinnar vitnar um andlega auðgi listamannsins sem og kraft og þor í dráttum, ljósi og skuggum. Þegar brunamyndin er skoðuð sést hve slyngur teiknari og málari Arngrímur var. Myndin sýnir vel útlit kirkjunnar, glugga, turn og hlutföll. Hún opinberar að veðrið hefur verið á norðan eða norðaustan því kirkjan stóð austur-vestur eins og flestar íslenskar kirkjur. Svo sést að hún hefur haft norðlenska kirkjulagið, með glugga á austurgafli sem gerir slíkar kirkjur að elskulegum guðshúsum. Í þeim ljóshúsum er gott að messa því birtan flæðir inn í kirkjuna báðum megin við altari og í mörgum kirkjum að ofan líka. Í seinni tíð eru tré gjarnan í kirkjugarði utan glugga og hafa orðið fólki augnhvílur í athöfnum.

Þegar fólkið á brunamyndinni er skoðað sést að flestir eru hættir að bera vatn að. Fólk er búið að gefast upp gagnvart eldinum. Amtmaðurinn stendur þarna og styður sig við amboð eða staf og hin líka. Ég hreifst af hugarflugi málarans, hvernig myndin var útfærð. Hún er dökk, eins og sótið sæki að honum. Væntanlega hefur kirkjan verið bikuð líka. En til að búa til sterkar andstæður reynir Anrgrímur að magna eldinn. Hann málar bálið kunnáttusamlega og býr til ógnvænlegar myndir til að tjá hve eldhafið hefur verið algert. Mikil hreyfing er í myndinni og einkum í eldinum. En mennirnir eru sem lamaðir, stirnaðir. Eldurinn gýs upp og tungurnar teygjast til hægri, þ.e. til suðvesturs. Í reyknum er sem óvættur eða drekar birtist, einhverjar yfirjarðneskar ásóknarverur. Það gæti rímað við trúarhugmyndir fólks á þessum tíma, þá trúarvitund sem Hallgrímur, Jón Vídalín og aðrir túlkuðu í ritum sínum. Að fólki væri sótt og menn yrðu að gæta sín og sinna, annars færi illa.

Miðað við eldhafið og hvernig Arngrímur málaði sýnist að eldur hafi komið upp í forkirkju eða framkirkju því eldurinn er mestur vestast í byggingunni. Það passar við frásagnir staðarmanna síðar. Í kirkjunni var ofn og hefur verið í miðri kirkju sbr. staðsetning reykháfs. Eldurinn gaus upp eftir að kveikt var upp í ofni að morgni til undirbúnings guðsþjónustu dagsins. Talið var að neisti eða glóð hafi fallið einhvers staðar á milli útidyra og ofnsins.

Arngrímur málari var áhugaverður maður. Mynd hans er líka áhugaverð. Hún er vel skipulögð. Myndbyggingin er skýr. Mennirnir eru teiknaðir og málaðir sem varnarlaust fólk, þó í mismunandi stöðu sé. Eyðileggingin er alger og tjáð í teikningunni. Allir sem þekktu til og sáu þessa mynd hafa fundið til missisins. Þarna fer kirkja forgörðum, mikil verðmæti, menningarhögg. Kirkjur eru ekki bara hús út á túni. Kirkjur eru meira, þær eru táknhús byggða og menningar. Kirkjur lifa ákveðnu lífi og hafa hlutverki að gegna sem tákn hvers samfélags. Þegar kirkja brennur eða eyðileggst af einhverjum ástæðum fara ekki bara verðmæti forgörðum heldur lemstrast samfélag. Má kirkjan brenna? Geta menn bara staðið hjá og látið sér fátt um finnast, annað en að þar fari fortíð og eyðist? Nei. Kirkja er hjarta samfélags, en líka ásýnd og tákn.

Brenna Möðruvallakirkju 1865. Arngrímur Gíslason (1829–1887), Blýantur og vatnslitir, 27 x 36. Gjöf Friðriks Sveinssonar (Fred Swanson), Winnipeg, 1930. LÍ 376.

Hvönn sem englahvönn

Þetta er jurt englanna, já og líka erkiengla. Hún heitir á latínunni  Angelica archangelica, engla – erkiengla, eins og þurfi að ítreka engileðli, engiláhrif, engilráð. Að baki nafninu er reynsla fólks í þúsundir ára. Jurtin var ætihvönn, notuð til næringar, líka notuð til kryddunar í víngerð og til að bragðstilla rótsterka drykki. En það var lækningamáttur plöntunnar sem tengdi hana helst við engla. Klaustrin og kirkjumiðstöðvar voru lækningastöðvar fortíðar. Þar voru laukagarðar. Lækningajurtir voru ræktaðar, lyf þróuð og reynd. Kristnistöðvarnar voru eins og englar – til að bæta líf fólks.

Fyrirtækið Saga Medica varð til eins og arftaki laukagarðanna. Á þeim bæ hefur hvönn verið notuð til að bæta líðan og heilsu. Þráinn Þorvaldsson og fleiri stofnuðu fyrirtækið til hagsbóta fyrir fólk. Ég legg til að Þráni verði veitt fálkaorðan og hvönn verði í framtíðinni kölluð englahvönn.  

Vinir mínir í Noregi kalla hvönnina Tromsö-pálma. Hvaðan kemur nafn rússnesku borgarinnar Arkangelsk? Frá nafni englahvannar eða frá hinum himnesku sendiboðum Guðs? 

Myndina tók ég við Ægisíðu. Í forgrunni er hvönn og engilbjört ljóssúla hnígandi sólar speglast í Skerjafirðinum.

 

Hrafn in memoriam +

Hrafn kom reglulega í Hallgrímskirkju síðustu vikurnar – til að kveðja og opna inn í eilífðina. Þegar hann fór í næst-síðasta sinn sagði hann. „Þú kannt að hlusta.“ „Og þú að tala“ svaraði ég. Hrafn hló og þakkaði fyrir að hafa fengið viðmælanda í hliði himinsins til að kanna djúpin. Skáldpresturinn er þarna að baki honum og svo líka færeyski kútterinn. Hrafn kvaddi fallega og hefur nú siglt inn í hvíta skuggan.