Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Elska og aggiornamento

Þessa ræðu flutti ég í Neskirkju skömmu eftir dauða Jóhannesar Páls II páfa árið 2005. Í ræðunni kemur fram afstaða mín til hlutverks kirkju, kirkjuhirða og merkingu trúar. Slagorð annars Vatikanþingsins er notað sem leiðarstef til að minna á að kirkja og trú eru ekki aðeins söguleg fyrirbæri heldur verða sífellt að endurnýjast. 

Jóhannes Páll II er dáinn. Blessuð veri minning hans. Þar fór góður maður og gegn biskup kirkju sinnar, bæði á pólskri heimaslóð og einnig í Róm. Páfi Rómarkirkjunnar er dáinn og grafinn. En hvað svo? Hvernig munu kardínálarnir velja? Hvernig verður stefna Rómarkirkjunnar? Verður einhver stefnubreyting? Auðvitað skiptir páfaval miklu, ekki síst vegna þess að rómversk-kaþólska kirkjan er stærsta kirkjudeild kristninnar og þar að auki miðstýrð og lagskipt.

Okkur lútherana skiptir einnig máli hvernig páfinn í Róm hugsar og starfar. Deilur kaþólskra og evangelísk-lútherskra voru gerðar upp í veigamiklum atriðum þegar hið merka plagg um “réttlætingu af trú” var undirritað á árinu 1999. En strax eftir undirritun kom þó í ljós að ekki voru allir yfirmenn kirkjunnar sammála um útfærslu stefnubreytingar. Skoðanir páfa skipta aðrar ekki-kaþólskar kirkjur máli vegna samskipta, vegna einingar kirkju Krists í heiminum og vegna vægis og áhrifa hins kristna boðskapar í veröldinni. Páfi getur haft mikil áhrif eins og sást í uppstokkun og uppgjöri í Austur – Evrópu og falli kommúnismans. Í þeim snúnu málum lagði Jóhannes Páll þung lóð á vogarskálar. En páfinn markar einnig stefnu í flestum málum, gefur út páfabréf um hverju kaþólikkar skuli trúa, hvernig þeir eigi að breyta og hvers þeir eigi að vona. Aggiornamento.

Pétur og Jesús

Guðspjallstexti dagsins varðar páfann, Róm og alla kirkju Krists í heiminum því Jesús spyr um heilindi og afstöðu. Textinn er úr elskuguðspjallinu Jóhannesarguðspjalli. Í því er oft vikið að elskunni, t.d. í því sem við nefnum litlu Biblíuna: “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn…” Guð elskar og gefur í ákveðnum björgunartilgangi. Í Guði ríkir sá kærleikstilgangur að gefa líf.

Texti þessa sunnudags í kirkjuárinu er elskutexti. Nokkuð óvænt spyr Jesús Pétur Jóhannesson, vin sin: “Elskar þú mig?” Sjálfsagt hefur Pétur verið hissa á þessari spurningu og fer undan á flótta segir að Jesús viti um afstöðu hans. En Jesús lætur sig ekki og þríspyr Pétur.

Settu þig í þessi spor. Jesú er umhugað um hvað taki við, hver muni halda áfram því verki, sem hann hafi hafið, hver muni stýra hópnum sem hafi aðhyllst kenningu, skilning og leiðsögn hans. Jesús þekkti bresti Péturs, vissi um hverflyndi, ístöðuleysi og hræðsluflýti hans. Samt vildi hann efla hann til starfa og þjónustu við Guðsríkið. Aggiornamento.

Hlutverk kirkju og trúar

Hvað er það að gæta sauðanna? Hvað merkir að gæta lamba Jesú? Jóhannes Páll II varð páfi skömmu áður en ég lauk guðfræðiprófi frá HÍ. Ég fór sem næst beint frá prófborði vestur um haf til framhaldsnáms. Sundurleit hjörð var við nám í guðfræðideild Vanderbiltháskóla. Skólinn og þar með deildin var óháð kirkjum og fólk með ólíkan trúarlegan bakgrunn sótti til hennar í akademískum tilgangi. Margir kaþólikkar voru þarna á kafi í skruddunum. Einna merkilegast þótti mér að kynnast Jesúítaprestunum og nunnum úr ýmsum reglum sem voru í doktorsnámi. Þau opnuðu fyrir mér furður kaþólsku kirkjunnar, fjölbreytileika hennar og skipulag. Þau voru flest trygg köllun sinni til prestsþjónustu og einlífis, en voru jafnframt í góðu sambandi við samfélagsbreytingar og þarfir tímans. Öll voru þau sammála um að kaþólska kirkjan þyrfti að nútímavæðast, koma til móts við félagslegar, menningarlegar, pólitískar og fjölbreytilegar lífsþarfir fólks.

Þau voru jákvæð á val Carol Wojtyla sem varð Jóhannes Páll II. páfi. En þau minntu á að hann hefði hlotið mótun í baráttu við pólitísk einræðiskerfi og því væri ekki að vænta að hann myndi vinna nein stórvirki utan þess ramma sem uppvöxtur hans hefði skapað. „Það verður ekki fyrr en eftir hans dag, að einhverja breytinga verður að vænta. En þá verður að stokka upp að nýju, nútímavæða málin,“ sögðu þau. Sem sé Aggiornamento.

Hinn nýlátni páfi var lengur páfi en nær allir Rómarpáfar og gætti sauðanna. Ég held að hann hafi gert vel í flestu, t.d. í samskiptum við trúmenn annarra hefða, múslima og Gyðinga, lagt góð lóð á skálar friðar í heiminum o.s.frv. En á páfatíð hans hefur kaþólska kirkjan þó ekki tekið mörg kirkjupólitísk eða trúfræðileg skref inn í samtíðina. Kenning hennar, stefnumál og atferli er í flestu í takt við gamla hætti. Hún heldur fast í gömul samskiptaform kynjanna, veitir ekki konum aðgang að prestsþjónustu, leyfir ekki prestum sínum að kvænast eins og flestar aðrar kirkjur og er íhaldsöm og í ýmsu afturhaldssöm í siðferðisefnum.

Þrátt fyrir upphaf og mótun hefur Jóhannes Páll II. bent á gamlar lausnir og hefur beitt sér fyrir skipan gamalhugsandi kardínála og biskupa. Þegar yfir lauk var páfinn búinn að ákveða hvernig páfi framtíðar hugsar, verður og starfar því hann sat svo lengi að hann var búinn að skipa flesta yfirmenn kaþólikka í heiminum. Gátin á yfirsauðunum var alger og því verður þess að vænta að kardínálarnir muni velja einhvern sem verður með sama marki og Jóhannes Páll II. Aggiornamento eða hvað?

Uppfærsla og hluterk

Hvert er hlutverk kirkjunnar í heiminum? “Elskar þú mig?” spurði Jesús Pétur. Páfinn í Róm er arftaki þess Péturs sem á að hafa verið fyrsti biskupinn í Róm. Jóhannes Páll II. skildi vel spurningu Jesú og streittist við að þjóna meistara sínum allt til enda, gæta sauðanna eins vel og hann gat allt þar til heilsan bilaði algerlega. Ekki lét hann Parkinson aftra, ekki hrumleika ellinnar. Auðvitað elskaði hann Jesú, en var þetta samt ekki um of? Hvað merkir að elska Jesú og gæta hjarðar hans? Það er alveg örugglega ekki fólgið í að viðhalda kirkjustrúktúr sjálfs hans vegna; ekki fólgið í að tryggja að aðeins að karlar einir geti þjónað að sakramentum kirkjunnar; ekki fólgið í því að tryggja forræði Rómar í allri kaþólsku kirkjunni; ekki fólgið í því að stjórnkerfi kaþólskra sé í samræmi við alda-hefðir og -venjur og örugglega ekki fólgið í því að meina fólki að nota getnaðarverjur!

Að elska Jesú er að opna tilveru sína gagnvart hinu mesta, stærsta og besta – Guði. Það er að opna fyrir elskuna í öllum myndum. Vissulega munum við menn eiga í erfiðleikum með að vita í hverju elskan er fólgin þegar hún er tengd og túlkuð að ákveðnum aðstæðum í tíma, menningu, félagslífi og skyndilegum kreppum.

Kirkjur eru mikilvægar en koma ekki stað trúarinnar. Páfi er mikilvægur en getur aðeins svarað fyrir sjálfan sig þegar Jesús spyr um elskuna. Jesús spyr biskupa allra alda um elskuna. En þeir ruglast illilega ef þeir halda að þeir svari vel ef þeir bara gæta þess að sauðirnir sem þeir gæta hugsi enga nýja hugsun, fari aldrei í nýja haga og á andleg engi. Trúmennska biskups á rót í því að biskup svari grunnspurningunni, sem Jesús spyr: “Elskar þú mig?” Þar er forsenda hirðisstarfsins. Þeirri spurningu verður prestur að svara játandi. Þjónusta prests snýst í andhverfu sína, ef hann eða hún getur ekki svarað meistara sínum með elskuyrði.

Kirkja, hvort sem hún er kaþólsk, evangelísk-lúthersk, Fíladelfía eða Vegurinn, – kirkja er á rangri braut ef hún aðeins reisir girðingar umhverfis fólk, skilgreinir siðferði og rétt líf, skipar fyrir um skoðanir og atferli en hjálpar fólki ekki til að svara vel frumspurningunni: Elskar þú Jesú? Ertu ástvinur Guðs?

Þá erum við komin inn í okkar veröld. Texti dagsins varðar Róm, en líka kirkjur á Íslandi, alla biskupa, presta, djákna, organista, sóknarnefndarfólk, starfsmenn, sjálfboðaliða, fólk sem sækir kirkju en líka hin sem ekki sækja kirkju. Umfram allt varðar spurningin þig. Jesús Kristur spyr alla: „Elskar þú mig?” Þá spyr hann þig ekki um kreddu, siðferði eða stjórnmálaviðhorf heldur um afstöðu – það sem kallast trú. Ef þú átt í vandræðum með þá spurningu þarftu að ræða við þennan Jesú og kannski líka fá hjálp hjá þeim trúmönnum sem þú treystir til samtals. Til þeirra starfa erum kirkjulegir starfsmenn valdir og falið að þjóna því hlutverki.

Aggiornamento

Þegar einn merkasti páfi síðari tíma Jóhannes 23. kallaði saman kirkjuþing á sjötta áratug síðustu aldar, gerðu fæstir sér von um nokkur mikilvæg tíðindi. En kirkjuþingið varð hið merkasta og margt var rætt sem virtist benda til að vortíð væri hafin meðal kaþólikka. Þá var talað um að nú væri verið að færa mál kaþólskunnar til nútímans. Aggiornamento varð slagorð þingsins og meðal kaþólikka um allan heim. Það þýðir bókstaflega að færa til dagsins í dag, færa til nútímans. Það merkir að uppfæra, hugsa og lifa í samræmi við þarfir samtímans. En uppfærslan varð fljótt úrelt, aldraðir leiðtogar kirkjunnar hræddust breytingar. Það er alltaf auðveldara að vera eins og menn hafa “löngum” verið, en opna fyrir því, sem enginn veit hvernig lyktar.

Kirkjan býr alla tíma við þá kröfu að bregðst við þörfum samtíma síns, líka nú. Á miðöldum voru oft miklir áhyggjutímar og prestar sem páfar voru hræddir. Nótt eina dreymdi Leó páfa að honum fannst kirkja Krists væri að hrynja. Páfinn varð hræddur. En svo sá hann í draumnum að fátæklega búinn maður kom til hjálpar. Páfinn gerði sér grein fyrir að þar fór góðmennið og munkurinn Frans frá Asissi. Kirkjuyfirvöld höfðu ekki haft mikla trú á starfi hans og fylgismanna hans. En páfinn veitti Frans þót leyfi til starfa eftir þennan draum sem varð til mikils góðs.

Hverjir halda uppi kirkju Krists á jörðinni? Það eru ekki aðeins einhverjir útvaldir heldur þau sem vilja þjóna, vilja varðveita lífið, vilja styðja við þjónustuna við Guð. Elskar þú mig? Spurningunni verða allir að svara, kardínálar við páfaval, þau sem velja hirða sína og við sem erum hér í dag.

Aggiornamento.

Annar sunnudagur eftir páska, 2005. 

Merðfylgjandi mynd málaði Salvador Dali þegar Jóhannes 23.  páfi kallaði saman annað Vatikanþingið á sjöunda áratug aldarinnar. Dali – eins og margir aðrir – gerði sér von um að þingið breytti kaþólsku kirkjunni í átt við þarfir nútímans. Myndina af málverki S.  Dali tók ég í Dali-safninu í St. Petersburg á Flórída 29. desember 2023. 

Guðspakkinn – ég elska þig

Ég sat fyrir jólin og pakkaði inn jólapökkum. Pappírinn flóði og borðarúllurnar voru um allt borð. Frá-og til-miðarnir voru skrifaðir. Handverkið var talsvert en meiri vinna var þó lögð í að velja pakkana, hlaupa í búðir, skoða og íhuga þarfir og samhengi þeirra sem áttu að fá gjafirnar. Þó hugsun og tími hafi verið lögð í val og pökkun ræð ég þó engu um tilfinningar viðtakenda og hvort gjafirnar munu gleðja eða hryggja. Ekki heldur hvort þeim verður skilað eða þær fái heiðursess í lífi þeirra sem þiggja. Þegar ég reyndi að stilla jólapappír, límdi og áritaði hugsaði ég um hve ólíkar tilfinningar pakkaflóð veraldar vekur. Sumir jólapakkar gleðja á dýptina en aðrir særa eða opna jafnvel gömul sár. Gildi jólapakka er óháð raunverðmætum. Sumir pakkar sem kosta lítið geta þó snortið djúpt og verða mikils virði af því þeir tjá ást og alúð.

Hjartans málin

Síðustu árin hef notið þess á viskuhluta æfinnar að taka þátt í uppvexti tvíburadrengja sem hafa orðið mér uppspretta margra skemmtilegra hugsana. Þegar drengirnir voru að læra að skrifa fengum við foreldrarnir í hendur snepla, kort og bréf. Þar voru skrifaðar áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum: „Pabbi er bestur” eða „Mamma best í heimi.” Svona bréf hafa mörg ykkar fengið og glaðst yfir. Tilgangur bréfanna var ekki að lýsa með hlutlægum hætti. Þau voru og eru fremur tjáning á afstöðu og tengslum. Svona tilskrif eru ekki lýsingar á staðreyndum sem allir eru sammála um heldur tjáning tilfinninga. En þau sem fá svona ástarbréf fagna þeim og hrífast því þau segja satt. Á snepli sem varð mér merkilegasta plagg heimsins stóð. „Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn að sjá allt sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Það er undur að elska og vera elskaður. Það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði verður ekki metinn til margra króna en varð mér samt tákn um það dýrmætasta í lífinu. Við þörfnumst þess að fá að heyra að við séum elskuð. Ekki varajátningu heldur tjáningu á dýpstu afstöðu lífsins. Ég elska þig.

Um hvað er jólaboðskapurinn?

Þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur og inn í okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan varðar það mál. Hvernig ættum við að bregðast við þeirri upphöfnu sögu? Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna og viljir fá að lifa í upphafinni helgi þeirra. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu eða vitringa og englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem eða í einhverri annarri borg. Allt þetta kemur vissulega við sögu en þau mál eru rammi fremur en meginmál, umgjörð fremur en eiginleg mynd. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1 árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar sem er þó vissulega kennt við Kristsburð. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar. Hún þarf að kafa í merkingu en stoppa ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt. Hann er persónulegur og er í kristninni persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft. Guð tjáir þá ást með róttæku móti en ekki aðeins bréflega heldur kemur í persónu. Efni og form helgisögu þjónar þeim ákveðna tilgangi að sýna hið guðlega samhengi og hina persónulegu nálgun. Helgisögur eru flétta stefja, ímynda og minna sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum og verðum jafnvel að skræla burt það sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Form helgisögunnar er eins og jólapappírinn utan um jólafjöfina. Umbúðirnar verður að fjarlægja til að gjöfin birtist. Kraftaverk voru forðum skýr tákn um Guðsnánd en eru það ekki sjálfkrafa lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu því ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur nema bara í ævintýrum. Svo var þjóðmenning gyðinga og túlkunarhefð að baki í Biblíunni sem var eins og stýrikerfi sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna og urðu að koma fram til að hægt væri að ráða í og gera skiljanlega dulkóða merkjakerfisins. Til voru menningarskilyrðingar hvernig átti að segja hlutina til að samhengið yrði ljóst. Þetta var túlkunarhefðin og menningararfleifðin sem stýrði nálgun og skilningi. Allar þjóðir og hópar eiga sína viðurkenndu kvarða um hvernig eigi að segja frá mikilvægum málum. Við Íslendingar lifum og stjórnumst af íslensku samhengi og íslenskum veruleika og gyðingar höfðu sína arfleifð og sinn hátt á. 

Mál hjartans og lífsviskan

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru að öllu hinu yfirborðslega í jólasögunni og taka allt bókstaflega. Við megum frekar leggja okkur eftir inntaki en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd og persónu fremur en sögu. Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Hvað skiptir fólk máli þegar lífið er gert upp og allt vegið og metið? Það er lifandi fólk en ekki dót og fasteignir. Oft er stærsta sorgin að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum. Jólin geta líka kallað fram eftirsjá og harm vegna þeirra sem eru horfin inn í eilífðina. En Guð elskar þau líka og umvefur þau og man líka eftir þér sem syrgir og saknar. Jólajafir eru tákn og vísun til þess sem dýpra liggur. Þar er komið að því sem skiptir okkur máli. Við viljum lifa vel og njóta hamingju og friðar í einkalífi og samfélagi. Við þráum að lífið sé meira en lífsbarátta, hrörnun og dauði. Við þráum meira og þetta meira köllum við Guð. Við erum þannig gerð að við þráum djúpnæringu.

Jólagjöfin í ár

Jólasagan er tjáning lífs sem þú ert kölluð eða kallaður til og mátt njóta. Stærsta gjöf jólanna sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti að nóttin var rofin af gráti guðsbarnsins. Hann er hinn eiginlegi ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Hver lifandi mannvera getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum heldur meðtekin og skilin á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og skynja Guð og tjá hvernig Guð er. Guð er elskhugi sem elskar ákaft og alltaf. Trúmaðurinn lærir að skynja að alltaf er Guð nærri. Tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og þrái að þú sért mín og minn.” Það er jólagjöfin. Umbúðirnar eru saga um vitringa, jötu, kóng, hirða og engla. En miði pakkans er einfaldur og ljóst að pakkinn er til þín og frá þeim sem elskar þig. Hvernig sem þér líður og hvort sem þú hefur fengið eða ekki fengið aðra pakka á þessum jólum færðu þennan ástarpakka. Það skiptir mestu að þú ert elskuð og elskaður. Þú hefur óendanlegt gildi og ert þeirrar gerðar að þú ert til lífs í tíma og eilífð. Því máttu njóta þess að lifa og njóta þess sem þér er gefið. Jólagjöfin í ár er gjöf Guðs sem segir við þig: „Ég elska þig.“

Jólanótt. Jes. 9.1-7. Tít. 2.11-14. Lúk. 2.1-14.

Úr bókinni: Ástin, trú og tilgangur lífsins

Litrík ástarsaga

Morgunblaðið birti þessa afmælisfrétt á Þorláksmessu 2023. Pétur Atli Lárusson blaðamaður skrifaði greinina.

Sigurður Árni Þórðarson fæddist 23. desember 1953 í Reykjavík. „Ég ólst upp við ástareld gjafmilds og samheldins fólks sem mat meira andleg, siðleg og félagsleg gæði en efnisleg. Ég fæddist fyrir tímann því móðir mín var vinnuforkur og gekk fram af sér í hreiðurgerðinni og skúringum. Gísli, móðurbróðir minn, vildi að ég yrði nefndur Þorlákur helgi vegna fæðingardagsins á Þorláksmessu. Ég hefði kiknað undan því nafni. En svo voru tveir Lákar fyrir í húsinu og mamma sagði síðar að hún hefði ekki getað hugsað sér að kalla á Þorlák og þrír hefðu komið hlaupandi.

Það var gaman að alast upp í Vesturbænum. Barnafjöldinn var mikill í öllum húsum, mikið fjör á Tómasarhaga og fótbolti iðkaður af kappi. Bjarnastaðavörin var nærri með busli, heillandi fjörulífi og fiskiríi. Ég fékk að vitja um grásleppunet með Birni Guðjónssyni og var sendisveinn fyrir Árna í Árnabúð.

Skólaganga Sigurðar Árna var hefðbundin, Melaskóli, Hagaskóli og Menntaskólinn í Reykjavík. „Á sumrin var ég kaupamaður á Brautarhóli í Svarfaðardal hjá Stefáníu Jónasdóttur og nafna mínum og frænda, Sigurði M. Kristjánssyni sem margir muna sem „stjóra“ héraðsskólans á Laugum í S-Þingeyjarsýslu. Þau treystu mér til allra verka og ég lærði að vinna og axla ábyrgð snemma. Ég hafði alla tíð mikinn áhuga á vatni og stefndi á líffræðinám og helst vatnalíffræði í háskóla. En á krabbameinsspítala í Noregi sneri ég við blaðinu og ákvað að læra guðfræði. Kennarar mínir í guðfræðideild HÍ voru stórkostlegir fræðarar, fyrirmyndir og mentorar.

Sigurður Árni fór vestur um haf til framhaldsnáms í hugmyndasögu og guðfræði og lauk doktorsnámi frá Vanderbilt University í Bandaríkjunum. „Ég skrifaði um myndmál og merkingu íslenskrar trúarhefðar. Lífsafstaða sem blasti við mér í íslensku trúarhefðinni var kraftmikil mannsýn og lífsást manna á mærum. Virðing og auðmýkt gagnvart náttúru og vá í hefð okkar bjó til lífsmátt sem nýtist og birtist í kreppum. Það er þessi menningarplús sem hríslast um allt þjóðlíf og dugar dásamlega þegar rýma þurfti Vestmannaeyjar á einni nóttu eða Grindavík í haust.“

Þegar fyrsta æviskeiði Sigurðar Árna lauk tóku við starfsár og koma börnum til manns. Honum var boðið háskólakennarastarf vestra en vildi frekar fara heim og verða að gagni á Íslandi. „Ástin á landinu, fólkinu, íslenskri kristni og menningu kallaði og ég gegndi því kalli.“ Hann varð prestur Skaftfellinga og síðar S-Þingeyinga og segist hafa verið svo lánsamur að búa og starfa í Skálholti og á Þingvöllum. „Það eru helgistaðir Íslands. Svo flutti ég á mölina, þjónaði biskupum, Nessöfnuði og Hallgrímskirkju í Reykjavík og kenndi við HÍ. Það eru forréttindi að fá að starfa sem prestur og vera með og styrkja fólk á mikilvægustu stundum þess. Ég komst til vitundar á tíma kalda stríðsins og ákvað að eiga engin börn en eignaðist fimm. Guð er meiri húmoristi en við menn.“

Sigurður Árni lauk störfum sem sóknarprestur Hallgrímskirkju í apríl síðastliðnum og hefur hafið þriðja æviskeiðið. Í nóvember var gefin út stórbók með hugleiðingum hans Ástin, trú og tilgangur lífsins. „Barnabörn mín kalla hana ástarbókina. Í ritinu eru 7,8% af hugleiðingum mínum síðustu tuttugu árin. Þegar ég lít til baka finnst mér líf mitt hafa verið litrík ástarsaga. Hvað gerir líf manna þess virði að lifa því? Það er ástin, að elska og vera elskaður. Lífið er ástarferli en það er vissulega val okkar hvernig við lifum og vinnum úr lífsmálum okkar. Sá guð sem ég þekki er elskhugi.

Heimilislíf okkar fjölskyldunnar er litríkt og skemmtilegt. Mér þykir afar nærandi að 18 ára synir mínir búa heima og eru nánir okkur foreldrunum. Það er mikið lán. Mér líður vel í kokkhúsinu og við að metta svanga. Ég elda æ meira gyðinglegan og palestínskan mat. Ottolenghi er minn maður. Ég hef áhuga á ljósmyndun og um 1,4 milljónir hafa skoðað myndir mínar á ljósmyndavef. En ég vil verða betri ljósmyndari og læra meira. Heimasíðan mín www.sigurdurarni.is er fjölsótt og margir hafa gaman af mataruppskriftum og sálaruppskriftum í hugleiðingum. Þegar ég hef vitjað fólks sem prestur segir það mér oft að það noti uppskriftirnar mínar.

Ég er náttúruverndarsinni og er með augun á vatni. Ekkert líf er án vatns og vatnið sullar bæði í Biblíunni, náttúrunni og þar með okkur sjálfum. Elín mín heldur mér að gleðiefnum lífsins og saman stundum við skemmtilegt og hagnýtt lífsleikninám í HR. Svo er ég að taka fram hina hagnýtu doktorsritgerð mína sem fjallaði um mæramenningu Íslendinga, siðferði og aðferðir við að bregðast við vá. Afstaða Íslendinga er hagnýt ástarhefð fyrir veröld á heljarþröm. Þá hefð þarf að endurnýta. Ég sinni svo heilsuræktinni því ég vil stuðla að því að heilsuárin verði jafn mörg og æviárin.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar Árna er Elín Sigrún Jónsdóttir, f. 22.4. 1960, lögmaður. Hún á og rekur lögfræðistofuna Búum vel og þjónar fólki á þriðja æviskeiðinu með ráðgjöf og skjalagerð við sölu og kaup fasteigna, kaupmála, erfðaskrár og uppgjör dánarbúa. Synir þeirra Sigurðar Árna eru tvíburarnir Jón Kristján og Ísak, f. 26.9. 2005, nemar í Kvennaskólanum í Reykjavík. Foreldrar Elínar Sigrúnar: Hjónin Magnea Dóra Magnúsdóttir, húsmóðir, f. 25.11. 1920, d. 31.12. 2003, og Jón Kr. Jónsson, útgerðarstjóri Miðness í Sandgerði, f. 6.5. 1920, d. 26.9. 1990.

Börn Sigurðar Árna og Hönnu Maríu Pétursdóttur, f. 22.4. 1954, prests og kennara, eru: 1) Katla, f. 15.9. 1984, arkitekt. Maki: Tryggvi Stefánsson og börn þeirra eru Bergur, f. 16.2. 2017 og Jökla, f. 9.8. 2019; 2) Saga, f. 10.10. 1986, ljósmyndari. Maki: Vilhelm Anton Jónsson. Sonur þeirra er Hringur Kári, f. 10.3. 2023. Synir Vilhelms eru einnig Illugi, f. 12.11. 2007 og Ríkarður Björgvin, f. 18.11. 2014; 3) Þórður, f. 16.1. 1990, organisti á Dalvík. Maki: Dominique Gyða Sigrúnardóttir. Börn þeirra eru Högni Manuel, f. 9.6. 2019 og Hugrún Mariella, f. 7.11. 2022.

Systir Sigurðar Árna er Kristín Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 6.7. 1952, búsett í Hønefoss í Noregi. Maki Öyvind Kjelsvik, læknir, f. 20.09. 1960. Sonur þeirra er Baldur, sálfræðingur, f. 25.4. 1994.

Foreldrar Sigurðar Árna voru hjónin Þórður Halldórsson, f. 31.10. 1905, d. 22.5. 1977, múrarameistari, og Svanfríður Guðný Kristjánsdóttir, f. 22.3. 1910, d. 7.2. 2004, húsmóðir. Þórður var fæddur í Litlabæ á Grímsstaðaholti og Svanfríður var frá Brautarhóli í Svarfaðardal.

​Kennimyndin: Sigurður Árni á leið til skírnar við Ægisíðu í haust. Hin myndin er frá áramótum 2014. Katla, Saga, Sigurður Árni, Elín, Jón Kristján, Þórður og Ísak. Myndin af SÁÞ og Elínu tekin í höfninni við Palma 2023. Svo er hér að neðan skjáskot úr Íslendingabók. 

 

 

Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Bréfið frá Bessastöðum

Guðni Th. Jóhannesson er skrifandi forseti og að auki vel skrifandi. Hann kann ágætlega á lyklaborð á tölvu og notar það þegar hann skrifar bækur. En hann notar penna til að skrifa persónuleg bréf. Eitt slíkt barst mér í dag inn um bréfalúguna á heimili mínu.

Þegar útgáfan auglýsti bók mína Ástin, trú og tilgangur lífsins var Guðni Th. sá fyrsti – af miklum fjölda – til að panta bókina. Mér fannst það skemmtilegt. En svo kom forsetabréf í dag og það var elskulegt bréf til að þakka fyrir bókina góðu sem hann sagði glæsilega að innihaldi og útliti. Og taldi að gott væri að grípa í hana – fyrir sálarheill og líka þegar semja þyrfti ræður og ávörp! Fallegt rit og notadrjúgt. 

Þvílíkur þjóðhöfðingi sem sest niður með penna, hugsar með hlýju til viðtakanda og skrifar svona vermandi texta! Fallega sagt og vænt þætti mér um ef bókin eflir þjóðhöfðingja í ræðugerðinni. Ég bað um hljóð við kvöldverðarborðið, tilkynnti að ég ætlaði að lesa upp bréf sem hefði komið fyrr um daginn og það væri ljómandi gott. Fagnaðarlæti brutust út við lestrarlok og meira að segja hundurinn gelti líka. Guðni Th. er einstakur. Bréfið verður geymt. Ljósmynd af texta forsetans er hér að neðan en forsíðan hér að ofan. 

forsetabréfið