Greinasafn fyrir merki: Jesús Kristur

Í ofsa og ógn

Páll og strandHvað tekur kórfélagi með sér í upphitun fyrir messu? Í morgun sá ég að einn tók með sér bangsann sinn. Það hef ég ekki séð fyrr! En þau sem syngja í Neskirkju í dag eru ung að árum – sum mjög ung. Tveir barnakórar syngja, annar er Barnakór Neskirkju en hinn er frá Friðriksbergskirkjunni í miðborg Kaupmannahafnar. Danski kórinn er komin hingað vegna þess að Selma bjó einu sinni á Tómasarhaga og mikill samgangur var milli hennar fjölskyldu og minnar. En nú býr hún og fjölskylda hennar í Kaupmannahöfn og Selma syngur í Fredriksbergkirke Juniorkor. Þegar við, fjölskylda mín, vorum á ferð í Kaupmannahöfn, var okkur boðið að hlusta á kórinn syngja í kirkjunni. Þá kviknaði hugmyndin að hópurinn heimsækti Ísland. Nú eru þau komin, gista í kjallara Neskirkju, syngja í messu og á nokkrum stöðum höfuðborgarsvæðinu. Þau syngja um lífið, eilífðina og fegurðina. Bangsinn fær að vera með – á æfingu – og okkar eigin kór svarar með söngvum af sama tagi.

Það er dásamlegt að söngvar unga fólksins – raddir framtíðar – hljómi á sjómannadegi eftir kosningar – söngur um líf og von. Lítil stúlka með bangsann sinn á leið inn í kirkju er tákn um mannkyn í þörf fyrir öryggi. Dramatískir biblíutextar dagsins minna á að í lífi er Guð er alltaf nærri.

Guð – líka á kantinum

Í pistli sjómannadagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula. Hann var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Og gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin til að tala um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari átti að senda hann til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunarorð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði.

Þessi magnþrungna saga í 27. og 28. kafla Postulasögunnar er merkileg og inntaksrík. Þetta er lítil saga af stóru skipi, fjölmennri áhöfn og úr öllum heimshornum hins þekkta heims þeirrar tíðar. Skip á siglingu frá útkjálka og á leið til miðjunnar í Róm. Sagan er smámynd um stóran heim. Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhól, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heim speglast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri.

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sér lausnina, leysir vandann og talar máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í sögu dagsins – pistlinum – eru það fangarnir sem bjarga þeim sem gæta þeirra. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks og lífs. Sagan er þrungin merkingu og er til íhugunar.

Sjórinn

Já, í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. Við erum flest komin af sjósóknurum. Sjávarútvegur hefur verið Íslendingum mikilvægur og mun verða meðan menn spilla ekki lífríkinu. Hafið gaf og hafið tók – fæstar þjóðir í veröldinni hafa tapað eins mörgum hlutfallslega í stríðum og Íslendingar í glímunni við sjóinn. Neskirkjuglugginn – Stóribláinn – sem varpar lit á kórvegginn á sólardögum minnir á lífsbaráttu fólk við sjávarsíðuna, sjósóknina, lífsbjörgina og stóran himinn sem umlykur allt, allan heiminn og lífið.

Úrslitin

Svo er þetta dagurinn eftir kosningar. Margir hafa stundað atkvæðaveiðar síðustu vikurnar, reynt að skýra mál sín til að afla atkvæða til stuðnings. Stjórnmál er ein tegund útgerðar. Pólitíkin er mikilvæg og á að þjóna því göfuga markmiði að stýra málum samfélags til réttlætis og farsældar. Nú er dómur fallinn – hvort sem hann hugnast mönnum eða ekki. Síðan er að vinna úr og stýra vel og vinna úr aflanum til lífs.

Skip kirkjunnar

Í kirkjum eru oft skipstákn og við tölum um kirkjuskip. Í mörgum kirkjum heimsins eru skip hengd upp til að minna á að við erum fólk á ferð, við erum á siglingu frá tíma og inn í eilífð. Við erum á ferð – með bangsann okkar – þrána eftir öryggi og blessun sem Guð einn getur í raun gefið. Jesús Kristur lét sig fólk varða, kallaði til lífs og gleði og lofaði að vera með hvað sem kæmi fyrir. Pólitík, óveður, sjómennska, söngur og samskipti eru mál sem varða Guð. Hann vill vera með og býður alltaf til veislu.

Þegar Páll lenti í sjávarháska við Krít bauð hann til máltíðar, gerði sjálfur þakkir og braut brauðið. Þekkir þú orðalagið – þekkir þú aðferðina og gjöfina? Og þá erum við í skyndi komin heim, að altarinu, að borði Drottins, hingað. Við erum komin með þrá okkar um velferð, vináttu og öryggi. Um allan heim brjóta menn brauð, í snarvitlausu umhverfi, óskaplegum aðstæðum – undir góðri stjórn eða vondri og tjá með þessari táknathöfn að Guð kemur til manna, blessar og bjargar.

Textaröð: A

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
 því að miskunn hans varir að eilífu.
 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
 þeir er hann hefur leyst úr nauðum sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni. 
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
 færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði. 
Þeir sem fóru um hafið á skipum 
og ráku verslun á hinum miklu höfum
 sáu verk Drottins 
og dásemdarverk hans á djúpinu.
 Því að hann bauð og þá kom stormviðri 
sem hóf upp öldur hafsins. 
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
 og þeim féllst hugur í háskanum. 
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður 
og kunnátta þeirra kom að engu haldi. 
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
 og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
 Hann breytti storminum í blíðan blæ 
og öldur hafsins lægði. 
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust 
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Pistill: Post 27.13-15, 20-25


Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. 
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27


Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

Höfuð, fætur, hendur, hjarta – líka magi

IMG_2024Vilborg Arna Gissurardóttir, afrekskona, fór frá Íslandi í morgun. Hún er búin að klífa sex af sjö hæstu fjallatindum heimsins. Aðeins Everestfjall er eftir. Hún ætlar á toppinn. Ég hef fylgst með Vilborgu Örnu frá því hún gekk á skíðum á Suðurpólinn. Ég dáðist að hve vel hún undirbjó þá ferð, að gildum hennar, einbeittni sem hún sýndi og hve öguð hún var. Hún stælir sinn innri mann, gætir lífsháttum og heilsu. Vilborg Arna er hetja og nú er sjöundi tindurinn eftir. Næstu vikur mun hún gæta að næringu og aðlaga líkama sinn að hæð og stilla höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magan líka! Guð geymi hana og varðveiti hana.

Um næringu

Þetta er ofurlítill inngangur að óbyggðaferð hins kristna safnaðar. Aðalsaga dagsins er af fjallaferð og frásögnin er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð þar sem lítið var um mat. Í ljós kom að ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og allir fengu það sem þeim var þörf á, líkamsfæðu, næringu fyrir anda og samhengi fyrir lífið. Fólk á ferð fékk næringu til lífs – ekki bara fyrir magann heldur líka höfuð, fætur, hendur, hjarta og samfélag.

Það eru ekki margar sögur sem öll guðspjöllin segja. En þetta er ein af þeim. Sagan er þó sögð með mismunandi móti í guðspjöllunum. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna öðru vísi en hin guðspjöllin, sem kölluð eru samstofna guðspjöllin. Einkenni Jóhannesarguðspjalls eru tvenndir sem gjarnan eru hugtakapör í spennu. Þegar minnst er á ljós er myrkur í baksviði þessa guðspjalls. Lífsáhersla þess er í andstöðu við dauða. Trú er rædd með vísan til alvöru vantrúar. Jóhannesarguðspjall er dramatískt og tilgangurinn sá að beina sjónum fólks til Jesú sem lausnara lífsgátunnar – að hann er ljós í myrkri, „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Næring

Rauður þráður í textum dagsins er næring – og næring er það sem menn og mannlíf þarfnast til að lífið sé gott. Næring er það sem viðheldur lífi mannsins og eflir. Ekki einungis líkamlega, heldur einnig andlega. Gef oss í dag vort daglegt brauð … minnir á að næringin þarf að vera stöðug.

En hvers þörfnumst við til að við lifum í samræmi við gerð okkar og þarfir? Brauð og fiskur, líkamsfæðan, er aðeins eitt af því sem er okkur lífsnauðsyn. Í enskumælandi heimi er stundum talað um primary food og secondary food, grunnfæði og annað fæði.

Hver heldur þú að sé frumfæða hvers manns? Alveg í samræmi við boðskap Jesú: „Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði einu…“ Frumfæða manneskjunnar er ekki fiskur eða brauð, heldur það sem nærir dýptir og eflir hamingjuna.

Frumfæða – fyrsti flokkur fæðunnar eru tengsl við fólkið okkar og ástvini. Enginn lifir aleinn og bara fyrir sjálfan sig. Enginn lifir nema í samhengi við aðra. Í öðru lagi er hreyfing. Við þörfnust þess að líkami okkar njóti hreyfingar. Við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga en við þörfnumst áreynslu til að líkama okkar líði vel. Svo er þriðji þátturinn – vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars.

Frumfæða mennskunnar eru þessir fjórir flokkar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt. Til að minna okkur á þessa þætti getum við þulið: Höfuð, fætur, hendur hjarta. Höfuð fyrir tengsl við fólkið, fætur fyrir hreyfingu, hendur fyrir störfin, hjarta fyrir andlega miðju okkar, andann. Höfuð – fætur – hendur – hjarta. Og svo myndast við hreyfinguna kross!

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? En vinnulífið eða störfin þín: Er allt í lagi með það – eða má bæta? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju? Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum?

Höfuð – fætur – hendur – hjarta – og svo bætist við magi. Líkamsfæðið er okkur nauðsyn líka. En það skiptir máli hvað við setjum ofan í okkur. Það getur orðið til lítils að njóta góðs frumfæðis ef líkamsfæðið er rusl. Og margt í nútímafæði verður ekki til blessunar heldur bölvunar af því það er í óhófi.

Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Hvers þarfnastu? Súrefnis, vatns og líkamlegrar næringar. Já, en líka andlegrar næringar og félagslegrar líka. Þú hefur gott af viðurkenningu, að einhver sjái þig og meti. Og þú þarfnast þess að vinna þín og störf þín séu gæfuleg og gefandi. Þú þarfnast margs konar næringar til að lifa vel og með hamingju.

Fjallaferð

Vilborg Arna er á ferð á hæsta fjall jarðarkúlunnar. Og nokkrir Íslendingar hafa þegar farið á tindinn m.a. Leifur Örn Svavarsson sem býr hér í sókninni okkar.

Fjallamaðurinn Jon Krakauer skrifaði einu sinni metsölu- og háfjallabókina Into thin air. Það er merkileg bók sem segir frá hræðilegum slysaleiðangri á Everest-tind árið 1996. Súrefni og andnauð komu við sögu. Öll, sem hafa kynnt sér fjallamennsku, vita að á hæstu tindum er súrefni ekki sjálfgefið eða auðfengið.

Krakauer segir m.a. frá Andy Harris sem komst á toppinn. En hann var of lengi uppi og lenti í súrefnisnauð á niðurleið. Harris hafði samband við tengla sína í neðar í fjallinu og sagði þeim frá vandanum og að hann hefði séð súrefniskúta sem aðrir fjallamenn hefðu skilið eftir. En hann hélt að þeir væru allir tómir. Hin, sem þegar höfðu farið niður og séð kútana, vissu hins vegar að þeir voru allir fullir af súrefni. Þeir báðu því Harris að nota súrefnið sér til bjargar. En hann trúði þeim ekki og það var honum til tjóns og dauða. Vegna súrefnisskorts vann heili hans ekki sem skyldi. Hann kvartaði yfir skortinum en var ófær um að nota það sem var þó innan seilingar og hefði bjargað honum. Það sem maðurinn hafði nærri var fjarri vitund hans. Súrefnisnauðin brenglaði dómgreind Harris og hann lét lífið.

Þetta er sláandi saga um mistök sem kostuðu líf. Sagan varð mér táknsaga um mannlíf og mikilvægi þess að bregðast rétt við og með góðri dómgeind. Sagan minnir okkur á að menn geta tapað lífi þegar aðstæður eru rangtúlkaðar. Hvað verður okkur til næringar? Hvað verður okkur til góðs? Hvers þörfnumst við með til að lifa vel?

Jesús gefur lífið

Jesús segir: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús gefur lífið – að hann sé forsenda lífs og næring þess lífs.

Og við erum hinn stóri hópur mannkyns á fjalli lífsins. Hvað verður til góðs? Viltu þiggja næringuna sem Jesús Kristur blessar og öll gæðin sem hann gefur þér? Finnur þú til þarfar en trúir ekki að súrefni sé á tönkunum við hlið þér? Trúir þú ekki ráðgjöfum þínum sem segja þér, já biðja þig, að nota það sem er við hendi? Tjáir þú bara vöntun þína og er dómgreind þín að bresta vegna skorts þíns? Eða tekur þú við blessuninni þér til lífs. Trúin er í þágu fjallaferða lífsins – súrefni til bjargar. Höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magi – og allt í kross.

Amen.

Prédikun 4. sunnudag í föstu, 30. mars, 2014. A-textaröð.

Hönnuð saga

Trúir þú virkilega svona sögu um “ljósashow” upp á fjalli í fornöld? Er þessi ummyndunarsaga ekki bara skröksaga, bull sem þjónaði því hlutverki að blekkja auðtrúa fólk? Er ekki eðlilegast að efast um ótrúlega Jesúsögu?

Efi og túlkun

Hvað með efann? Viltu hugsa rökrétt – líka í málum Jesú, Biblíu og trúar? Efinn og trúin eru ágætar systur og líka vinir þegar viskan ræður. Í vökulum heila pælir efinn þann akur sem ber góða ávexti heilastarfseminnar. Efinn greinir, gagnrýnir og leitar þekkingar. Heilbrigð trú hræðist ekki efann, heldur gleðst yfir getu hans og tekur þátt í að kanna túlkanir, möguleika, nýjar hugmyndir um það sem máli skiptir. En hvað um Biblíuna? Eigum við að trúa sögum hennar eins og fréttum af mbl, guardian eða bbc?

Það er skynsamlegt að skoða Biblíuna með velviljaðri gagnrýni og spyrja: Hver eru skilaboðin? Getur þessi ræða eða saga kryddað líf mitt í allt öðrum aðstæðum en til forna? Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga og trúarlærdóma þarf að skoða í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki og má ekki vera óbreytanleg. Forn heimsmynd og úreltir samfélagshættir eru ekki aðalmál trúarinnar.

Ég álít að allt sem tengist trú og trúariðkun eigi skoða með opnum huga. Ekkert undanskilið. En ég trúi og þótt ég meti skynsemina, heilann, efann og gagnrýnina mikils trúi ég á Guð. Ég upplifi að Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, í frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. Og ég álít, alveg í samræmi við hefð okkar Vesturlandamanna allt frá tíma Immanuel Kant og upplýsingarinnar, að við skoðum veröldina út frá ákveðnum forsendum og með „rósrauðum“ gleraugum.

Við erum takmörkuð og túlkun okkar á raunveruleikanum er alltaf takmörkuð og hið sama gildir um hið trúarlega. Túlkun á hinu guðlega verður ekki annað en ágiskun og tilraun til að tjá hið ósegjanlega, t.d. með hjálp líkinga, frásagna og vísana. Við trúmenn berum Guði vitni en tölum um samskiptin við Guð með hjálp dæma, sagna og hliðstæðna úr heimi manna. En skyldi Guð verða reiður yfir þeim óbeinu og ónákvæmu lýsingum? Nei, ekki frekar en við foreldrar pirrum okkur ekki á börnum okkar þegar þau eru að læra að tala. Guð gleðst vonandi yfir tilraunum okkar. Og Guð stressar sig – held ég – ekki yfir óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur fávíslegar hugmyndir um Guð.

Reynsla kallar á form frásagnar

En þessi ótrúlega saga af fjallinu? Hvað heldur þú að þessi ljósagangur þýði? Og til hvers þessir zombíar sem allt í einu birtast? Já, sagan af fjallinu er furðuleg. Hún er kölluð ummyndunarsagan enda ummyndaðist eða umbreyttist Jesús Kristur.

Eitthvað gerðist? En hvað? Hvernig á að segja frá því sem enginn annar hefur upplifað? Þegar fólk upplifir eitthvað mjög sérstakt er því vandi á höndum. Stundum segir fólk mér sögur sem það segir engum öðrum en mér, prestinum, og alls ekki kunningjum eða fjölskyldu. Fólk segir ekki sögur ef það á von á því að sá kvittur fari á kreik að það sé orðið kúkú, andlega bilað. Fólk er viðkvæmt fyrir orðspori sínu. Svo var í fornöld einnig. En í öllum menningarkimum verða til mynstur eða leyfilegar fyrirmyndir um hvernig sagt er frá hinu sérstæða eða ótrúlega. Hefðir marka ramma hins leyfilega og einnig mystur orðræðu.

Tákn og saga

Þeir voru fjórir á ferð, Jesús, Pétur, Jakob, Jóhannes og puðuðu upp á fjall. Þar gerðist eitthvað dularfullt. Áhorfendum þótti eins og aðrir kæmu til fundar og komumenn væru ekki af þessum heimi. Félagarnir brugðust við, þeir túlkuðu söguna í anda hefðarinnar og héldu að komnir væru frægir karlar úr fortíðinni, Móse og Elía. Það væri svona álíka og ef við værum að klífa Esjuna og allt í einu væru komnir þar til fundar við okkur Jón Sigurðsson og Snorri Sturluson. Í einhverju kasti – væntanlega stresskasti – býðst lærisveinn til að tjalda fyrir meistara þeirra og komumennina einnig.

Öll sagan er samsett táknum og táknmáli. Þeir voru á fjalli. Móse fékk lögfræði Ísraels á fjalli eins og Íslendingar fengu sín lög í fjallasal. Fjall er tákn um hið guðlega. Þessir nafngreindu foringjar og fyrirmyndir Ísraelssögu, Móse og Elía, eru tákn um lög, hefð og sögu. Að þeir komu til fundar þjónar hlutverki gjörningsins til að opna nýja skynjun, tilfinningu og túlkun. Jesús er hinn nýji sem tekur við og umbreytir hebreskri hefð og sögu. Svo voru postularnir samverkamenn sem tóku við og túlkuðu. Þeir brugðust við en skildu ekki, voru mannlegir, en þrátt fyrir flónskuna var þeim samt treyst til að hlusta á, meðtaka og endurflytja.

Þrennan – rosi, sýn og skilaboð

Til að skilja sérstæða sögu er mikilvægt að þekkja bókmenntalegt mynstur hennar og gerð og hlutverk í menningarheimi fornaldar. Það er þarft að greina milli þriggja tegunda af sögum sem tjá birtingu hins yfirskilvitlega. Ein hefur einkenni rosa, önnur varðar sýn og sú þriðja hefur skilaboð – rosi-sýn-boð.

Þeófaía – rosinn

Í fyrsta lagi eru guðsbirtingarsögur rosans, sem tjá komu eða návist Guðs með hjálp náttúruhamfara – t.d. jarðskjálfta, þrumuveðurs og öðru í þeim dúr þó guðinn sjáist ekki í eigin persónu. Þetta eru þeófaníurnar – dramatísku guðsbirtingarnar – sem tjá einfaldlega að Guðinn er nálægur. Þær sögur lýsa hughrifum fólks og oft miklum ótta við nánd hins ógurlega guðs. Ummyndunarsagan sem segir frá í Matteusarguðspjalli er ekki slíkrar gerðar. Þar eru engar náttúruhamfarir. Stíllinn er annar.

Sýn – hið sjónræna

Í öðru lagi eru sögur um sýnir. Sögur um sýnir greina jafnan frá útvöldum hópi fólks sem fær að sjá eitthvað sem er ekki vanalegt í mannaheimi. Fólk sér eitthvað óvenjulegt sem ber fyrir augu – en ekki er miðlað neinni sérstakri þekkingu eða skilaboðum. Vissulega er sýn í ummyndunarsögunni en í þessari sögu er talað og skilboðum er komið áleiðis til þeirra sem upplifðu. Saga dagsins er því ekki sýn af tagi birtingarsögu.

Skilaboðasögur

Þriðja gerð guðsbirtinga eru skilaboðasögur og sem segja frá skyndilegri og óvæntri guðsbirtingu sem einhver eða einhverjir útvaldir verða fyrir. Mikilvægum boðskap er komið á framfæri og skilaðboðin eru heyranleg. Þannig saga er ummyndunarsagan. Skilaboðin eru um persónu og hlutverk Jesú Krists sé og hvaða afleiðingar það hafi. Því er sagt sem svo: Hlustið á hann, takið eftir því sem hann segir. Það eru skilaboðin. Ummyndunarsagan er um skilaboð Guðs til manna. Móse og Elía þjóna aðeins hlutverki dýpkunar. Þeir eru aukapersónur og gefa samhengi en táknum en aðalpersónan er hinn nýji fulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Merkingin er að við eigum ekki að staldra við lögmál fortíðar heldur elskuboðskap guðssonarins. Rödd úr guðsvíddinni tjáir: Jesús Kristur er Guðsfulltrúinn – hlustið á hann og hlýðið honum.

Boðskapurinn mótar og knýr á

Og hverju getum við þá trúað? Er þetta skröksaga? Þegar við erum búin að greina söguna kemur í ljós að hún er færð í stílinn vegna þess að sagan er umgjörð um ákveðin skilaboð. Hún hönnuð saga, lituð með ákveðnu móti, með ákveðnum atriðum og í ákveðnni fléttu. Þú mátt hafa allar heimsins skoðanir á hvort sagan hafi tekist eða ekki, hvort hún er trúleg eða ekki, hvort hún er leiðinleg eða skemmtileg en skilaboðin eru skýr. Boðskapurin er að Jesús Kristur sé trúverðugur, áheyranlegur og ákjósanlegur. Spurningin er ekki hvort sagan sé bull og skröksaga heldur hvort Jesús Kristur sé fulltrúi Guðs eða ekki. Trúir þú því – með efasemdum og mannlegum breiskleika þínum? Þar er efinn og þar er trúin.

Neskirkja 9. febrúar, 2014.

Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda A-röð

Lexían er úr 5. Mósebók

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistillinn er úr 2. Pétursbréfi

Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast. Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall úr Matt. 17.1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Ástarsagan

DSC07926_4494926787_l

Boðskapur þessara jóla. Hver er hann? Ástin og ástalífið!

Hefur þú elskað? Strák eða stúlku, konu eða karl, mömmu eða pabba, barnið þitt, fólkið þitt? Hefur þú orðið fyrir ástarsorg – og þótt lífið hryssingslegt? Á þriðja aldursskeiði æfinnar er ég frjáls, get ég horft til baka og að fenginni reynslu viðurkennt að það besta og dýrmætasta í lífinu er að elska og vera elskaður.  Lesa áfram Ástarsagan

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.