Greinasafn fyrir merki: Guð

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Lífslind

Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífs,
– þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og
sveipað líkama hennar vatnsklæðum,
sem blakta í golu, bylgjast – rísa og hníga.
Þú ert vatnaskáldið mikla,
sem yrkir af hita svo vatn svífur upp í himininn.

Þú leikur þér í baði veraldar

og veitir vatni í hringrás heimsins.
Þú veitir því í blóðrás lífsins,
tyllir því á fjallatoppa.

Svo stikla bunur niður stalla, kvíslast milli steina,
faðma aðrar lænur, sameinast,
endurvarpa ljós þitt í morgunsólinni,
dreyma hádegisdrauma
og hverfa í hafið, faðm þinn.

Vatni ausa, með fögnuði…
Þú gefur vatn fyrir lífið, fyrir gleðina.
Veitir vatni um líkama hvala og fjalldrapa,
og í smásyngjandi lyfjagras og dýjamosa,
fíla, apa, ær og menn –
í frumur og örverur,
í stóra keðju, sem þú gefur og mylkir.

Mig þyrstir – þú vökvar.
Ég er grænþörungur á steini – þú ert haf kærleikans.

Þú umspennir allan heiminn blessun,
Þú gefur vatn fyrir lífið.

Ég er ausinn vatni ….. þitt vatn þrýtur ekki.

En gefur þú fögnuð Guð?

Hvaða lindir eru lindir fagnaðar?
Hvað svalar nístandi þorsta hið innra?
Hvaða rekja sefar þegar kvíðinn sækir að?
Hvað endurreisir þegar sektin nagar?
Hvað græðir brotið fólk og marðar fjölskyldur?
Hvað bætir fyrir orð hryllings, illvilja, morð og mein?

Vatn umlykur allt.

Vatn af himni – vatni er hellt í font.

Barn hjalar við sólbroti vatnsins,
í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Kross á enni, kross á brjóst,
vatn á höfuð.

Bros í augum.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
Þú, sem gefur vatn af himni, vatn í jörðu, haf,
kemur svo sjálfur með lífsins vatn.
Þú ert vatnsveitan eina – lindin lífs.

Þegar geimar gliðna, heimur riðlast,
menn æða og sál engist – þá gefur þú gott vatn.
Þorstinn er minn en þú ert lind lífsvatnsins.

(Bæn á kyrrðarstund – Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Jesaja 12:3)

Guð hjálpi Trump – og okkur öllum

Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.

George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?

Kirkja sem leiktjöld

Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um  háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan. 

Hver er heilagur?

Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar.  Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það. 

Samfélag og Ísland

Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.

Valdið styrkst en vitið veikst

En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.

Að  friða en sundra ekki

Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“

Við erum Trump

Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum.  Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags.  Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu.  Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.

(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)

Brauð, bikar og gjörningar

Ég stóð við dómkirkjuna í Sansepolcro í austurhluta Toscana á Ítalíu. Íbygginn unglingsstrákur krítaði gamla götusteina fyrir framan kirkjuna. Nærri honum voru pappakassar. Í einum var mikið magn af gulum krónublöðum einhverrar fífiltegundar, sem var íslenskum flórukarli framandi. Í öðrum voru blóm af smágerðri baldursbrá og í þeim þriðja blá blóm. Hvað var strákurinn að gera? Ótrúlegt magn af krónublöðum. Þvílíkur vinnuvilji og puð að klippa þessa tugi þúsunda blóma!

Eitthvað var í bígerð, en hvað? Drengurinn fyllti lófana af blómum og lét falla á götuna og úðaði svo vatni yfir. Gul breiðan virtist ætla að verða í mynd faðmandi veru. Eða var það bikar? Svo gerði hann stóran baug með hvítu blómunum ofan við þau gulu. Gjörningurinn átti sér einhverja merkingu og var ætlað að tala til þeirra, sem áttu leið að kirkjunni. En hver var meiningin?

Karlar báru stórkostlegan vínrauðan vefnað út úr kirkju heilags Jóhannesar. Í hann var ofin dagsetningin 1760. Þeir hengdu klæðið á virðulegt hús við kirkjuna. Svo komu góðlátlegir og skríkjandi hringjararnir með stóra kertastjaka úr kirkjunni og komu þeim fyrir á borði á upphækkuðum tröppum, nærri klæðinu góða. Prestur kom með nokkra hökla. Það var hátíðisdagur í borg hinnar heilögu grafar. Klukkuómar úr turninum bárust letilega út í daginn og kölluðu fólk úr síestunni. Krónublaðadrengurinn hélt áfram að úthella örlæti Guðs og auðæfum sínum á strætið. Nú var búið að bæta við stöfum ofan í hvítan hringinn. Hin kirkjulega merking var að birtast: IHS. Það er skammstöfun Jesú, sem er í mörgum Jesúmyndum heimsins, líka á Íslandi. Iesus Hominum Salvator – Jesús frelsari mannkyns.

Svo bættust við geislar í götumyndina. Forvitinn vegfarandi spurði hvað þetta væri. Án þess að líta upp svaraði blómadrengurinn stuttaralega: Hostia – Brauð. Þá var allt skýrt. Brauð lífsins og svo var það líka bikar lífsins. Allt frá Guði, allt í táknrænni mynd, en í raunveruleika og skuggsjá strætisins. Kirkja í borg hinnar heilögu grafar til nota fyrir hinn góða boðskap. Strætið helgað með gerningi til að túlka hver merking lífsins er, hvaðan allt er og til hvers.

Á þessum tíma erum við minnt á að lífheimurinn er einn. Allt er tengt og smáveira getur umturnað stórkerfum mannkynsins. En líf er aldrei sjálfgefið. Lífi er alltaf ógnað. En allt er tengt þeim sem kallar fram líf – Guði. Gegn voða, vá, dauða og heimsfaraldri er boðskapurinn um, að dauðinn dó og lífið lifir. Drengur í Sansepolcro og við öll lesum blóm á göngum okkar og gjörningarnir lita veröldina. Hostia á götu, gæskuverk manna, bros og vonarorð eru líka brauð Guðs og bikar lífsins. Djúpmerking í viðburðum heimsins er lífgjöf Guðs, sem gefur, verndar og blessar. Yfir, með og undir er andi Guðs í brauði og víni, fyrir heim, fyrir líf og til lífs.