Greinasafn fyrir merki: ást
Manngildið og ástarhaf
Mörg börn heimsins hafa legið á bakinu, horft upp í himininn, dáðst að stjörnumergðinni og rekið upp undrunaróp þegar loftsteinn strikar næturhimininn. Og þegar bætt er við tölum eða vitund um stærð vetrarbrautarinnar og geimsins sjálfs, verður jarðarkúlan lítil — og manneskjan, sem liggur á bakinu og leyfir sér að „synda“ á yfirborði þessa afgrunns, verður sem smásteinn í fjöru.
Matthías Johannessen líkti í einu ljóða sinna mannverunni við sandkorn á ströndinni og bætti við að kærleikur Guðs væri sem hafið. Við erum óteljandi börn lífsins á strönd tímans — mannabörn sem leikum og lifum í flæðarmáli. Og það er undursamleg von og trú að við séum ekki leiksoppar rænulauss öldugangs, án tilgangs, heldur umvafin lífi, í kærleiksfangi.
Annað skáld, mun eldra — höfundur 8. Davíðssálms Biblíunnar — vísar líka til hinnar sammannlegu reynslu að horfa upp í himininn, undrast og velta fyrir sér smæð mannsins:
Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans,
og mannsins barn, að þú vitjir þess?
Þú lést hann verða litlu minni en Guð,
með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
Hvað er maðurinn? Hvað ert þú?
Öll erum við dýrmæt. Hin kristna nálgun og afstaða er að hver einasta mannvera sé undursamleg og stórkostleg. Jesús Kristur hvetur alla menn til að meta eigið líf, og umgangast aðra sem djásn og vini Guðs. Og þannig megum við íhuga hið merkilega líf fólks — að Guð minnist allra, Guð varðveitir alla.
Þakkarandvarp sálmaskáldsins fyrir þúsundum ára var, og má enn hljóma þegar börn — eða við öll — íhugum dýptir og hæðir, stjörnur, sandkorn, tungl og sólir:
Guð, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
Pabbinn hágrét
Þau eru bæði kínversk en völdu að ganga í hjónaband í hliði himins á Skólavörðuholti. Þau sögðu sín já af lífs og sálar kröftum. Pabbi brúðarinnar hágrét og táraflóðið var svo mikið að ég íhugaði að gera hlé á athöfninni. En hann harkaði af sér og við töluðum svo saman eftir athöfnina. Þá kjarnaðist kínversk saga seinni hluta tuttugustu aldar og þessarar líka. Brúðurin glæsilega var eina barn þeirra hjóna, þau fengu ekki að eiga fleiri. Þar var ein af táralindum pabbans. Nú var hún að játast sínum elskulega manni. Þungi sögunnar og lífstilfinninganna féllu á hinn grátandi sem elskaði dóttur sína og óskaði henni svo sannarlega að verða hamingjusöm með manni sínum. En nú var hún farin, tíminn breyttur og ekkert annað barn heima. Skilin urðu, fortíðin var búin, æskutíminn, dótturtíminn, ástartíminn. Mér komu ekki á óvart tilfinningar hjónanna nýblessuðu en hinar miklu tilfinningar föðurins urðu sem gluggi að Kínavíddunum. Voru fleiri ástæður táranna og ástarinnar? Spurningarnar þyrluðust upp. Höfðu jafnvel fleiri börn fæðst en tapast foreldrunum? Í tárum pabbans speglaðist ekki aðeins harmur hans heldur tuga og jafnvel hundruða milljóna sem fengu ekki að ráða ráðum sínum eða fjölskyldumálum vegna yfirgangs skammsýnna stjórnvalda (og auðvitað velmeinandi). Við mannfólkið elskum og missum – með mismunandi móti – og mikið er mannlífið stórkostlegt á dögum tára en líka hláturs.
Elskhugi veraldar
Guðsmyndir manna eru tjáning á þrá og oft klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guðstjáning er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika manna. Valdasæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd og hrylling. Þeir búa til sinn guð sem er alls ekki guð kristninnar. Gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig guð væri hræðilegur. Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Sá guð væri fáránlegur. Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af okkur og veröldinni í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og nálægur í gleði og böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég elska þig og er með þér og nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en auðmýkt fyrir valdi. Frelsi einkennir heilbrigt ástarsamband og einnig guðssamband. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð er ekki eins og yfirvald í efnaverksmiðju heldur skapar kjöraðstæður. Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi heldur er andlegt fang og stuðningur til hjálpar. Guðstengslin eru frelsistengsl.
Úr bókinni Ást, trú og tilgangur lífsins.
Er líf Guðs þess virði að lifa því?
Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.
Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.
Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.
Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.
Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.
Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.
Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?
Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.
Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.