Greinasafn fyrir merki: Jesús Kristur

Ég vil gjarnan eiga þig að

Við prestar þjónum mörgum þessa dagana – ekki aðeins í jólamessum og í áramótaguðsþjónustum, heldur í skírnum, útförum, með samtölum og sálgæslu og í giftingum og annarri kirkjulegri þjónustu. Við fáum að vera með fólki á stærstu stundum lífsins. Og við heyrum margt stórkostlegt og verðum vitni að því þegar fólk tekur þroskaskref og sækir í hamingjuna. Í vikunni vígði ég hjón. Þau sendu mér tölvupósta um afstöðu sína til hvors annars. Það var undursamlegt að lesa þessi skrif, skynja hina djúpu ást sem þau tjáðu, virðinguna sem þau báru í sér til makans og þakklætið fyrir að fá að elska og vera saman. Tengslin voru þroskuð og samskiptin djúp og ást þeirra blómstrar því. Og já-in voru ákveðin og fögur. Og ástarjá er tengt afstöðu.

Tengsl

Við þessi áramót er mér er efst í huga tengsl fólks og hvernig lífsafstaða kemur fram í orðum og gerðum. Berum við góðan ávöxt í lífi okkar eða ekki? Erum við opin og gjöful eins og nýgift fólk eða erum við í öðrum sporum? Viljum við breytast og eflast? Gamlársdagur er góður til að vega og meta og ákveða stefnuna fyrir nýtt ár. Þegar ég lít til baka hef ég séð fólk lifa fallega og elska. En á þessu ári hef ég hef líka furðað mig á hve mörg rándýr eru í mannheimum og okkar samfélagi. #metoo-hreyfingin hefur sýnt okkur hve margir eru dólgar í samskiptum og valda þolendum skelfilegum þjáningum. Hvernig viljum við að tengsl séu? Tengsl ofbeldis eða virðingar? Við erum kölluð til ábyrgðar, til að ala upp fólk til lífsgleði og skapa þeim öryggi. Og við eigum að stöðva dólga, hvort sem þeir fara um í mannheimum eða fara með ránskap gegn lífi Jarðarinnar.

Áður en lengra er haldið langar mig til að spyrja þig persónulegra spurninga um þína eigin afstöðu. Hvernig viltu að samskipti séu? Og það er  mannskilningur þinn sem stýrir svarinu. Hvernig þú lítur á annað fólk. Er annað fólk markmið eða tól? Dólgarnir hafa þá hræðilegu afstöðu að fólk sé til að nota, sem sé tæki. En gegn þeirri afstöðu stendur hebresk-grísk menningarhefð okkar Vesturlandabúa – að manneskjan á alltaf að vera markmið. Jesús Kristur og löng röð af vitringum heimsins hafa minnt á að manneskjan hefur eigingildi og aðrar manneskjur eru aldrei og mega aldrei vera notkunartól. Þetta er meginatriði kristinnar lífsafstöðu og siðferðis. Og hefur verið kennd í kirkjum þjóðarinnar um allar aldir. En sjálfsástin og einfeldningsleg lífsafstaða virðir ekki þessa heildarhyggju og vill bara njóta í eigingirni, hrifsa til sín í smæðarlegri frekju. Þannig hegða tröllin sér. Dólgarnir lifa fyrir sjálfa sig en ekki aðra. Og dólgshátturinn er alltaf gegn lífinu, hvort sem um er að að ræða fólk eða gæði náttúrunnar.

Mig langar að veiða úr þjóðsögusafni okkar merkilega sögu sem tjáir vel sjúka og heilbrigða lífsafstöðu. Sagan túlkar raunar kristna siðfræði. Og þjóðsögur eru ekki bara skemmtilegar, heldur oft kennslusögur til að kenna lífsverkefni okkar manna. Þær eru eiginlega dæmisögur til að kenna lífsleikni. Ein saga af því tagi er sagan af systrunum Ásu, Signýju og Helgu. Sagan er reyndar til í ýmsum útgáfum en grunnáherslan sú sama. Í samþjöppun er sagan svona og með skýringum.

Hamingjuleitin

Eitt sinn voru karl og kerling og áttu dæturnar Ásu, Signýju og Helgu. Eldurinn dó í kotinu sem var mikið áfall og mun verra en að rafmagnið færi, allar tölvur rugluðust og símkerfið hryndi. Að eldur slokknaði var dauðans alvara. Því var Ása, elsta dóttirin, send til að sækja eld. Á leiðinni gekk hún fram hjá hól og heyrði talað úr honum til sín: „Hvort viltu hafa mig með þér eða móti“? Ása svaraði að sér væri alveg sama og hélt áfram göngu sinni. Að lokum kom hún að helli. Þar var lifandi eldur og ketill á hlóðum með kjöti. Þar var líka brauð. Þar sem enginn maður var sjáanlegur og stúlkan hungruð borðaði hún kjöt og brauð en henti afganginum. Til hennar kom hundur, sem lét vinalega, en Ása lamdi hann. Hundurinn brást hinn versti við og beit af henni hendina. Og Ása flýði eldlaus. Þá var Signý send. En fyrir henni fór eins og systur hennar, en hundurinn beit af henni nefið. Hin yngsta var þá send af stað. Röddinni úr hólnum svaraði hún með því að segja: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“ Í hellinum sauð hún kjötið og bakaði brauðið, en vildi ekki borða í leyfisleysi. Hún beið því húsráðanda, sem leyfði henni að borða. Helga fékk að fara með eldinn. Heima fékk hún þó engar þakkir, en síðar kom svo hellisbúinn til að sækja Helgu og gera hana að drottningu í ríki sínu. Hann var, eins og vera ber í góðu ævintýri, prins í álögum.

Hvað merkir svona saga? Til hvers að endursegja hana í kirkju við áramót? Líf manna er eldsókn. Líf okkar allra, hópa og samfélaga er samfelld leit að hamingju, velsæld, góðu mannlífi, lífsgildum, visku – já, öllu því sem getur gert okkur og fólkinu okkar gott. Starf og vinna okkar allra er eldsókn, sókn til frumgæða. Allar manneskjur leita gleði og lífsfyllingar. En hvað um annað fólk og lífríki jarðarkringlunnar? Eru þau markmið eða bara tól sem við megum fara vel eða illa með? Viska aldanna er að við lifum í brothættu samfélagi og hlutverk okkar er ekki aðeins að uppfylla eigin þarfir eða fýsnir, heldur þjóna líka öðrum. Djásn og dýrmæti eru vandmeðfarin og geta orðið til mikillar ógæfu ef við virðum ekki aðra, þarfir þeirra og gildi. Hamingjan er ekki einkamál heldur samstarfsmál. Og stundum breytumst við sjálf í tröll þegar við virðum ekki gerð okkar og vinnum með sjálf okkur. Við verðum að gæta að því að vera ekki dólgar í samskiptum.

Foreldrar stúlknanna áttu – ef við færum inn í nútímann – hús, bíl, höfðu vinnu og allt þetta venjulega til að uppfylla grunnþarfir. En samt var allt í volli og skralli. Heimilislífið var í upplausn og lífi fólksins var ógnað. Og tvær systur af þremur lifðu í hroka og skeytingarleysi. Ása og Signý voru dólgarnir en ekki sá sem virtist hættulegur. Líf fólks er ekki aðeins bundið hinu ytra, heldur einnig hinu, sem innra er. Hver eru gildi okkar? Er eldurinn þinn kulnaður? Er eldur samfélags okkar að deyja? Er ofbeldið óhamið? 

Á vit hins djúpa – trúarlega

Systurnar í sögunni fóru ekki til nágrannana til að sækja eld, heldur á vit frumkraftanna, á vit hins trúarlega. En þær brugðust ólíkt við. Þær eldri voru kjánar, voru sjálfherfar og skeyttu ekki um lífsreglur. Þær misstu því hönd og nef. Þær náðu ekki markmiði sínu vegna frekju og höfðu að auki varanlegan skaða af.

Helga fór leið hinnar markvissu og ábyrgu sóknar. Hún virti frumreglurnar, lét gott af sér leiða, missti ekkert og ávann allt. Þannig lifir gott fólk, þroskað og gott samfélag. Eldsókn mannkyns er leit að því sem er rétt, til eflingar, menningarauka og mannbóta. Það, sem menn öðlast til gagns, er hið torsótta, sem gefið er utan hins venjulega, í einhverjum helli lífsreynslu eða stórviðburða. Það er mikilvægt fyrir þig að muna að í mestu erfiðleikum, sorg og lífsháska er eldsókn þín. Á sorgarhafsbotni sannleiksperlan skín. Erfiðustu atburðir lífs þíns eru þínar eldgöngur.

Ég vil gjarnan eiga þig að

Hver er þinn háttur í lífinu? Hrifsar þú til þín, og átt á hættu að missa nef eða hendi? Iðkar þú hófstillingu í lífinu? Þarftu að breyta? Þegar dýpst er farið, í helli þinnar heimuglegu veraldar, er spurt: Hver er trú þín?

Hvað viltu á nýju ári? Hvaða lífsreglur viltu virða og styðja í samfélagi þínu á nýjum tíma? Á þessu kvöldi og á nýjum degi nýs tíma berast okkur orðin: „Viltu eiga mig að?“ Það er rödd gildanna, djúpsins, himinsins. Hverju svörum við: Svörum við með skeytingarleysi, ofbeldi og hroka? Eða svörum við með: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“

„Viltu eiga mig að?“ Þannig spyr Guð. Úr hvaða álögum þarftu að losna? Hvaða hamingja bíður þín? Viltu veita öðrum hamingju og gleði? En hvernig ferðu að? Hrifsar þú með frekju og verður fyrir skaða?

Árið er farið, nýtt ár er að fæðast. Eldurinn slokknar reglulega, dólgarnir hamast og myrkrið sækir að. Okkar verkefni er sístætt, að sækja í eldinn og gæðin og fara vel og með ábyrgð. Dauðinn dó en lífið lifir. Okkur opnast nýr tími – nýtt ár – til að nýta það sem okkur er gefið til lífsgleði en einnig í þágu annarra. Þannig er lífsstefna Guðs, sem er frumeldurinn sjálfur.

Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Takk og gleðilegt ár

Við áraslit langar mig að þakka samskiptin við það fólk sem hefur komið í Hallgrímskirkju á árinu sem er að líða. Það er líklega yfir ein milljón manns. The Guardian telur Hallgrímskirkju vera eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum veraldar. Það eru því margir sem koma til að vitja dýptar og njóta helgi í hliði himins. Við, prestar, stjórn og starfsfólk Hallgrímskirkju þökkum samskipti og hlýju í okkar garð og biðjum ykkur öllum blessunar á nýju ári. Fegin viljum við eiga ykkur að og verið velkomin í kirkjuna á nýju ári. Við eigum öll þennan helgidóm og hann er hlið himins. Gleðilegt ár í Jesú nafni: Amen.

Hugvekja – gamlárskvöld, Hallgrímskirkju, 31. desember, 2017.

Upptaka RÚV – aftansöngur aðgengileg á vefnum að baki þessari smellu (til loka mars 2018). 

Pabbar eru líka fólk

 

Hvenær byrjar eilífa lífið? Í þessu lífi. Þegar barn er vígt himninum í skírn kyssir eilífðin tímann. Skírn og trúaruppeldi hafa verið töluð niður í samfélagi okkar en ekkert er of gott fyrir börnin. Og börnin þurfa að læra margt og eflast að þroska. Sálarþroski og trúarþroski er einn veigamesti þáttur þess að verða manneskja. Börnin þurfa að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfum sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan aðstoðar við trúarlega mótun en heimilin eru afgerandi um hvort börnin fá notið trúarþroska. Guðmæður og guðfeðgin hafa líka hlutverk við uppeldið. Við erum öll kölluð til að blessa börnin. Karlarnir hafa líka hlutverk; feður, afar, bræður – já heilu karlahóparnir.

Leyfið

Við allar skírnir á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín…” – segir hann – “…varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir fara gjarnan með textann við skírnirnar en stundum lesa foreldrar, guðfeðgin eða aðrir ástvinir. Sjaldan er fyrirstaða með að afla lesara og það er gaman að sjá og heyra ástvinina flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum að koma til Jesú. Þegar bræður eða pabbar lesa hef ég stundum hugsað um vilja karlanna til uppeldis. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna

Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og ræktun kærleikans. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru að ræða þessi mál. Fæst hiksta þegar spurt er um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum í þeim efnum. Og þær eru margvíslegar og alls konar.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu eða geti verið á öllum sviðum. Frjálsir pabbar samtíðans eru tilbúnir til góðra verka. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna

Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldi. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu trúarlegu mótunarhlutverki. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Ástæðurnar voru menningarlegar. Atvinnuhættir og samfélagsgerð bundu marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum, svo sem út á sjó. Í heimi þar sem karlar áttu að bíta á jaxlinn í sorgum og áföllum áttu sumir þeirra í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Og konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun.

Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun. En hörkunaglarnir detta úr tísku. Feður samtíma okkar eru mun virkari í uppeldi ungviðisins nú en fyrir þremur áratugum. Þáttaka kvenna og karla er jöfn í atvinnulífinu og eðlilegt að karlarnir axli jafna ábyrgð í heimilislífinu.

Gæði fæðingarorlofs

Kynhlutverkin hafa breyst. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) höfðu góð áhrif á íslenska feður. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við mæður. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að flestir karlarnir eru afar barnvænir. Þeirra hlutverk er ekki lengur bara á kafi í að byggja eða nota feðraorlof í puð. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem nýta sér ekki orlofið. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar. Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar heimilisbragur og líðan heimilisfólksins þar með.

Margir feður hafa nýtt tímann vel og notið þessa tíma. Einn faðir setti þá athugasemd á netið, að föðurorlof hans hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld”skrifaði hann.

Vilja vera heima en verða að vinna!

Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en atvinnusamhengi feðranna þarf að bæta. Það kemur í ljós að of margir feður telja sér ekki fært að taka sína orlofsmánuði. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfi ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta þegar þeir koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barn stefni vinnu í voða. Of margir feður telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Það er skaði því það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnum og fjölskyldum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur að börnin fái notið alls hins besta í lífinu – líka feðra sinna. Þeir eiga að fá næði til tengjast börnum sínum og vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með barni sínu, fær betri möguleika á að leggja traust í sál þess og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði “leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi.” Skírnin er mikilvæg og Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Foreldrarnir báðir hafa trúarhlutverki að gegna.

Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf – þá blessum við börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Hallgrímskirkja, 8. janúar 2017, 1. sunnudag eftir þrettánda.

Undur lífsins

 

Gleðileg jól. Nú opnum við vitund okkar gagnvart jólasögunni. Í helgileik í skóla var átta ára drengur að leika í fæðingarsögu Jesú. Hann lék harðlyndan hóteleiganda, sem ekki vildi leyfa óléttri konu að komast í skjól. Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hótelkarlinn væri verulega vondur. Hvaða góður maður sendir burt konu sem væri komin að fæðingu? Gat hann leikið svona hrotta? Á jólunum ættu allir að vera góðir. Allt í einu var drengurinn kominn í bullandi siðklemmu.

Meðan hann var að hugsa sinn gang kom að þeim dramatíska hápunkti, að hjónaleysin í jólasögunni börðu að dyrum. Drengurinn lauk upp og örvæntingarfull spurning hljómaði. „Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?“ Drengurinn hikaði og svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið, leikarar og tilheyrendur. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt en óvænt:

„Já, hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin og látið fara vel um ykkur!“

Hvíslarinn í leikritinu glennti upp augun og hálfkallaði til stráksins: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir leikaranna flissuðu í stresskasti, en önnur fölnuðu. Leikstjórinn fórnaði höndum og svo hló einhver. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.

Þetta er jólasaga um hið óvænta, sem öllu breytir. “Já, hjá mér er nóg pláss.” Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Og þannig er raunar sagan um komu Jesú. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.

Sögur – mismunandi nálgun

Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár, leikin, túlkuð, endursögð og prédikuð. Við leyfum henni að seitla inn í okkur því hún varðar það mennskasta af öllu mennsku, fæðingu barns.

Jólasagan er grunnsaga. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu – heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, upplifa hana – eða breyta henni.

Plússaga fyrir líf þitt

Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við heyrum hana og skiljum mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við heyrum söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun gistihússkarlsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum.

Við erum á stöðugri hringferð ársins og í spíral tímans. Við eldumst og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í lotteríum lífsins eða töpum öllu.

Allt hefur þetta áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við gerum best að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til visku.

Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og frumsagan um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu eða glanssögu, sem aðeins gagnast börnum.

Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þær eru klassík, sögur, sem alltaf megna að bæta við og segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og ábót. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.

Plús Guðs

Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á klemmu þína og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung lífsins?

Jólasagan er ekki um fortíð heldur líf okkar í nútíð. Sagan virkar enn og á sér alls konar útgáfur og tilbrigði líka um þessi jól. Það var undursamleg tilkynning sem birtist á facebook fyrir nokkrum dögum. Kona sem á íbúð í miðbænum í Reykjavík – í nágrenni Hallgrímskirkju – tilkynnti að hún myndi ekki nota íbúðina sína yfir jólin og ef einhvern vantaði húsaskjól vildi hún lána íbúðina. Ekki fyrir gjald – heldur ókeypis þeim sem þyrftu. Eina skilyrðið var að nágrannar yrðu ekki fyrir ónæði. Hvílík gjafmildi, traust og elskusemi. Og margir hrifust af. „Já hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin.“ Rétti jólaandinn.

Jólin – tími fyrir hið stóra

Áramót eru fín til endurmats, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma, Guð inn í heim manna. Undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og mestur er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna í iðju lífsins, kallar til þín.

Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.” Konan í miðbænum líka. Og nú er komið að þér. Eru föstu liðirnir eins og venjulega óumbreytanlegar skorður – eða má bjóða þér að upplifa undur lífsins?

Verið velkomin er erindi jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér.

Amen

Hallgrímskirkja, jólanótt.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum,

sem komst til manna á jólum.

Við bjóðum þig velkominn til þinna – fögnum þér.

Þökk fyrir að þú varðst maður,

barn meðal okkar, fyrir okkur.

Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum.

 

Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd.

Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar.

Vitja þeirra Guð.

Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.

Vitja hinna fátæku, þau sem eru á flótta undan stríðum, hin kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenn okkur ábyrgð í verki, að opna dyr okkar og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna.

Í Jesú nafni – amen

Guð blessi Ísland

IMG_0055Hrunið dundi yfir árið 2008. „Guð blessi Ísland“ – var fróm ósk og viðeigandi niðurlag í sjónvarpsávarpi forsætisráðherrans. Sömu orð, sama bæn, kom í hugann þegar ég horfði á hinn dramatíska Kastljósþátt fyrir viku síðan. Svo skrifaði ég þau á facebook: „Guð blessi Ísland II.“ Vinur minn skrifaði strax og spurði á móti: „Heldurðu ekki að hann sé orðinn þreyttur á því?“ Góð spurning. Er Guð þreyttur á okkur Íslendingum og Íslandi? Erum við sveimhugar, verri viðureignar en aðrir? Verður Guð þreyttur á sumum og síður á öðrum? Gerir Guð sér mannamun og elskar Guð mismikið? Á gleðidögum, tímanum eftir páska er vert að spyrja: Af hverju deyr dauðinn og lífið lifir? Af því Guð er ekki lúinn, gefst ekki upp – elskar.

Mikil pólitísk tíðindi hafa orðið liðna daga. Flestir hafa einhverjar skoðanir á framvindu, skúrkum og hetjum. Óþægilegar spurningar vakna við vandann: Lauk Hruninu ekki á árunum eftir 2008? Getur verið að Hrunið hafi aðeins verið fyrsti hluti í lengri sögu okkar Íslendinga – kannski bara einn af milliköflunum í breytingasögu þjóðar og vestrænna samfélaga? Ég held að svo sé og held raunar að grunnur samfélagsins hafi gliðnað sem síðan veldur skjálftum m.a. í skattaskjólunum. Hin klassísku kristnu gildi, sem við þáðum í arf frá kynslóðum liðins tíma, hafa tapað samfélagslegri seltu sinni. Og ég fór – í fyrradag – að lesa Passíusálma og Vídalínspostillu til að rifja upp boðskap fortíðar. Það var eins og mig minnti um samfélagsmálin: Hallgrímur Pétursson og Jón Vídalín eru afar skýrir um getu manna til afbrota, um skyldur hins kristna, opinbert og prívat siðferði og skyldur valdamanna. Þar kemur fram að Guð blessar Ísland þegar fólk ræktar siðvit og setur sig í samband við það sem máli skiptir.

Hvernig tengir þú reynslu daganna við lífsafstöðu þína? Eru einhver sár eða reið meðal ástvina þinna eða vina? Sá fjöldi sem mætir til mótmælafunda er teikn um miklar skoðanir og tilfinningar. Samtöl við fólk í trúnaðarsamtölum prestsþjónustunnar sem og á vinnustöðum í borginni hefur staðfest að systurnar sorg og reiði fara víða. Og þær beina spjótum sínum að einstaklingum, hreyfingum, opinberum aðilum og félögum. Miklar tilfinningar þurfa að fá útrás. Ljós sannleikans – hversu ljótur sem hann er – þarf að skína í einstaklingum og samfélagi. Guð blessi Ísland.

Þegar systurnar sorg og reiði ganga um torgin gerist margt. Ekki er að undra að þegar mikið gengur á í þjóðfélaginu að þér líði einkennilega og jafnvel á skjön við upplifun annarra í kringum þig. Af hverju? Samfélagsmein hafa áhrif á einstaklinga. Samfélagsfár rífur gjarnan ofan af gömlum einkasárum. Í látum nútíðar rifjast upp áföll fortíðar og tilfinningar þeirra spretta fram. Sorg yfir ástvinamissi vitjar fólks í umbrotum þjóðfélagsins. Ef fólk hefur einhvern tíma orðið fyrir kúgun, einelti, óréttlæti eða öðrum áföllum koma tengdar tilfinningar gjarnan í ljós á álagstíma. Í sumum tilvikum opnar samfélagsfár sálarkassa í geymslum hugans. Það sem við héldum að væri unnið og grafið kemur óvænt upp. Hitinn í samfélaginu ýtir á leynitakka sálnanna og opnar lager eða safn sorgarefna. Í uppnámi samfélagsins slengist fortíð inn í samtíðina. Þegar fólk er slegið vegna pólitískra áfalla hitnar orðræðan. Sum fara á límingunum og „missa sig.“ Fólk sem lætur sig stjórnmál miklu varða er sumt tilfinningalega og félagslega laskað þessa dagana. Og fólk dettur í sinn gír, hvort sem það er meðvirkni, vörn, kvíði eða eitthvað annað. Tökum ekki þátt í hóphýðingum, gerum ekki grín að fólki í uppnámi. Það er þarft að muna að við megum hafa hlýtt hjarta en kaldan heila, umvefja fólk með kærleika en líka góðum rökum og skynsemd. Guð blessi Ísland.

Leiðtoginn

Textar dagsins fjalla um hinn góða hirði. Ísraelsþjóðin rauk út á sinn Austurvöll og spurði ákaft hvort yfirstjórn ríkisins væri góð og skilaði sínu hlutverki. Boðskapur spámannsins Ezekíels í lexíu dagsins, var að Guð myndi sjálfur ganga í verkið, safna hinum villuráfandi sauðum, hjálpa í vanda, græða sár, binda um brot  og tryggja góðar aðstæður til lífshamingju. Gamall boðskapur og fyrir rappið á Austurvelli. Jesús talar í guðspjalli dagsins um góða hirðinn og þar ýtir hann á gamlan takka í vitund þjóðar sinnar um leiðtoga og gildi. Góður stjórnandi er sá sem engin svik eru í. Og með öll stjórnvöld og alla málaliða í heiminum í huga bendir Jesús á hinn sviklausa sem er reiðubúinn að greiða hæsta gjaldið, allan skattinn, já lífið. Lífið er hæsta gjaldið. Trúmennskan er ekki innflutt, ekki útflutt í skjólin heldur, hún er heimaræktuð. Sá einn er alverðugur sem ekki flýr heldur stenst til enda. Texti dagsins fjallar ekki um pólitík heldur lífsafstöðu. Hvar er traust þitt og hvernig tengir þú gæði, gildi, lífshætti, siðferði og tengsl við fólk? Ertu sannur og sönn? Eða ertu aðeins málaliði sem lifir með eigin hag fyrir augum? Textar dagsins eru ekki um stjórnmál liðinnnar viku en eru þó fullkomlega hagnýtir til að dæma um hvernig við menn eigum að lifa í umróti og ringulreið daganna. Við erum Guðs og eigum að bregðast við með trúmennsku og í trú. Jesúpólitíkin er að samfélagsmálin eigi að vera bæði siðleg og lögleg. Innræti stjórnar siðferði, notkun fjármuna og valda. Guð blessi Ísland.

Gleðidagar

Þessir sumpart dapurlegu dagar eru gleðidagar. Tíminn eftir páska er tími til að fagna. Ekkert er svo slæmt og þungbært að sigur lífsins gildi ekki. Engin áföll í samfélagi eða sálarlífi þínu eru svo stór að ljós páskanna megi ekki lýsa yfir og gefa birtu.

Gleðidagar eftir páska geta verið mjög sorglegir, en hætta ekki við að vera gleðidagar þótt margt dapurlegt gerist. Sorg getur dunið yfir á gleðidögum, reiði getur blossað upp á lífsdögum. Systurnar reiði og sorg eru á kreiki alla daga og koma Guði við. Við megum gjarnan nýta gleðidaga til að ígrunda hvaða sorg, áföll, reiði og miklar tilfinningar vakna í þér. Þær varða sálarlíf þitt. Hvað getur þú gert til að grisja, hverju má leyfa að fara inn í endurvinnslu eilífðar? Hvað getur þú gert til að styrkja fólk í uppnámi? Hvað getur þú gert til að íslenskt samfélag megi njóta gilda og góðs lífs?

Viltu leyfa nánd Guðs að umlykja þig, gildum guðsríksins að vefjast inn í samfélag þitt og viltu vera ásjóna Jesú Krists gagnvart fólki í sorg og reiði. „Ég er góði hirðirinn“ segir Jesús Kristur. Guð blessi Ísland.

Amen

Stólræða í Hallgrímskirkju 10. apríl, 2016.

Textaröð: A

Lexía: Esk 34.11-16, 31

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill: 1Pét 2.21-25

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Ég elska þig

IMG_8904Guð gefi þér gleðileg jól. Og jólagleðin má berast á milli fólksins hér í kirkjunni. Gerðu svo vel að rétta fólkinu sem situr við hlið þér í bekjunum hendina og bjóða gleðileg jól!

Já, gleðileg jól eru komin, undrið er loksins orðið. Í kyrru þessa hliðs himins máttu láta fara vel um þig og hugsa: Hvað skipir þig mestu máli á þessum jólum?

Fyrst um pakkana: Á mörgum heimilum er á þessari stundu verið að rífa upp fyrsta pakkann núna, svona til að róa ungviði og kannski einstaka eldri, sem ekki ráða við sig! Hvað mun koma upp úr pökkunum þínum? Nýturðu hlýjunnar að baki gjöfunum? Eru einhverjir skyldugjafir – án hjartahlýju? Færðu kannski pakka sem kosta lítið en snerta þig þó djúpt og verða þér mikils virði af því þeir tjá ást og alúð? Pakkar eru mismunandi og gildi þeirra líka. En hvaða gjöf dreymir þig um?

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Útilokunaraðferðin getur stundum gagnast. Hugsaðu um hvað þú mátt missa. Hvað má hverfa? Eru það hlutirnir þínir, vinnan eða er það fólkið þitt? Hvað er það, sem þú getur alls ekki án verið?

Vegna starfa minna á ég trúnað margra og ég sperri eyru þegar fólk er á krossgötum lífsins – og stundum við ævilok – gerir upp og talar um stóru málin. Hvað skiptir fólk máli þegar allt er skoðað? Það er lifandi fólk, maki, börn, ástvinir – ekki dótið. Og oft er stærsta sorgin við lífslok að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum.

Bestur

Pakkarnir þínir – hvernig verða þeir? Þegar drengirnir mínir voru litlir skrifuðu þeir orð á blað, og líka setningar frá hjartanu, áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum. Á blöðunum stóð: “Pappi er bestur” eða “Mamma er best í heiminum.” Þetta voru ekki lýsingar á staðreyndum, sem allir eru sammála um, heldur fremur tjáningar á tilfinningum, afstöðu og trausti. En við, sem fengum svona ástarbréf glöddumst. Á einum sneplinum stóð: “Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn upplifa margt og sjá flest sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda fólks, þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Ég elska þig – þetta undur að fá að elska og vera elskaður. Það er það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði  – Ég elska þig, pabbi – verður ekki  metinn til margra króna, en varð mér óendanlega dýrmætur.

Elskar þig einhver?

Um hvað er jólaboðskapurinn? 

Og þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan, helgisagan í Lúkasarguðspjalli, varðar það mál. Hvernig eigum við að bregðast við þessari upphöfnu sögu um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, ekki heldur um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu, en þau mál eru fremur rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, eða árið 0, eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar, sem er vissulega kennt við Kristsburð.

Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin varðar ekki bókstaf sögunnar heldur inntak hennar, sem er persónulegt og raunar persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft – af ástríðu. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins bréflega eða í bók heldur kemur í persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapin um of? Nei, vegna þess að efni og form helgisögu þjónar ákveðnum tilgangi – að sýna hið guðlega samhengi, hina persónulegu nálgun. Hið ytra þjónar hinu innra. Aðferð helgisögunnar er að nota stef, ímyndir og minni, sem þjóna boðskap eða skilaboðum. Við megum alveg skræla burt það, sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega.

Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um Guðsnánd, en eru það varla lengur, jafnvel hindrun trúar. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til forna til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið og sagan gengi upp og hvernig átti að segja hlutina til að samhengi og algert mikilvægi væri ljóst. Þetta var túlkunarrammi helgisögunnar.

Með hjartanu

Í spekibókinni Litla Prinsinum (eftir Antoine de Saint-Exupéry) segir refurinn við drenginn að skilnaði þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu.”

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru við öllu eða taka allt bókstaflega. En við ættum að leggja okkur eftir inntaki fremur en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd, persónu fremur en sögu.

Jólajafir eru jafnan í umbúðum. Svo er einnig með jólasöguna en þegar búið er að taka umbúðir helgisögunnar burtu kemur gjöfin í ljós, það sem máli skiptir. Stærsta gjöf jólanna, sem við getum öðlast og opnað, er lífsundrið, að tilvera þín er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti – nóttin er rofin með gráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp lífspakkann og munt uppgötva að alla tíð þráði persónudjúp þitt svörun.

Dýpstu sannindi lífsins eru með þeim hætti að hvert barn getur skilið og með hjartanu. Stærsta lífsgjöfin er “Ég elska þig.”

Guð er elskhugi, ástmögur, sem elskar ákaft og tjáir þér alltaf – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, í fangi ástvina og alls staðar: “Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Njóttu gjafanna þinna í kvöld, efnislegra og óefnislegra, horfðu í augun á fólkinu þínu og sjáðu í þeim undur lífsins. Gjöf lífsins er að Guð sér þig, gefur þér jólagjöf í ár og segir við þig:

„Ég elska þig.“

Amen. – í Jesú nafni.

Bæn.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur

og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——— Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Íhugun og bæn – aftansöngur á aðfangadagskvöldi, 2015. Sigurður Árni Þórðarson.

Lexía:  Mík 5.1-3

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Guðspjall:  Lúk 2.1-14

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.