Verði ljós

 

 

Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?

Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Ígjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“

Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.

Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.

 

 

 

 

 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.

+ Lovísa Bergþórsdóttir +

Lovísa var traust og hlý. Þegar ég kynntist Lovísu, börnum hennar og fjölskyldu fylltist ég gleði og þakklæti yfir hlýjunni í samskiptum, virðingu í tengslum og samstöðu hennar með fólki og góðu mannlífi. Þegar maðurinn hennar Lovísu, Jón Pálmi Þorsteinsson, lést fyrir liðlega þremur árum íhuguðum við í útför hans trú og tengsl. Og traust eða skortur trausts er aðalmál í lífi allra, í samfélagi og í vef heimsbyggðarinnar. Einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna á tuttugustu öld, Erik Eriksson, setti fram merka kenningu um traust, og sú viska hafði mikil áhrif í fræðaheiminum og hafði áhrif á uppeldismál, skólaskipan, sálfræðimeðferð, kirkjustarf og aðrar greinar og víddir mannheima. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn njóti eðlilegs þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar að þessara þátta er gætt getur orið til frumtraust – sem er afstaða til lífsins, fólks, veraldar og lífsins.

Manstu eftir hve Lovísu var annt um að öllu fólkinu hennar liði vel? Mannstu að henni var velferð fólks aðalmál? Hún vildi að líf ástvina hennar væri traust og hamingjuríkt. Traust er veigamikill þáttur í trú – og trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs að tryggja traust fólks til að lífið lifi og þroskist – að allir fái lifað við óbrenglaða hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphafið í Þingholtunum

Lovísa Bergþórsdóttir fæddist í Reykjavík inn í haustið þann 7. september, árið 1921. Og hún lést þann 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bergþór Vigfússon húsasmíðameistari og Ólafía Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja. Hún var nefnd Sigríður Lovísa við skírnina, en það voru svo margar Sigríðar fyrir í fjölskyldunni, að hún notaði helst Lovísunafnið. Sigríðarnafnið hvarf vegna notkunarleysis. Fjölskylda Lovísu bjó í húsinu nr. 12 við Þingholtsstræti, rétt hjá Menntaskólanum í Reykjavík og KFUM-og K. Bræður Lovísu voru: Sigursteinn, sem lést ungur, og Einar Sigursteinn, en hann lést fyrir þrjátíu árum. Einar var árinu eldri en Lovísa.

Miðbærinn og Þingholtin voru skemmtilegur uppvaxtarreitur á milli-stríðsárunum. Lovísa naut góðra uppvaxtarskilyrða, hlýju og kærleika. Hún fylgdist vel með umhyggju foreldranna fyrir samferðafólki og hve vökul móðir hennar var gagnvart kjörum og aðstöðu fólks. Og Lovísa lærði gjafmildi, umhyggju og ábyrgð í foreldrahúsum. Hún fór stundum með lokuð umslög út í bæ til aðkreppts fólks og vissi að í þessum umslögum voru peningar, sem móðir hennar sendi. Og alla tíð síðan vissi Lovísa að fjármunir væru til eflingar heildarinnar og vandi annarra væri ekki einkamál þeirra heldur samstöðumál og tilkall. Þökk sé Lovísu og hennar fólki fyrir lífsvörslu þeirra – trausta framgöngu í þágu lífsins.

Lovísa þurfti ekki langt til að sækja skóla. Miðbæjarskólinn var skammt frá og Lovísa skokkaði niður og suður götu. Hún var námfús og vildi læra meira en grunnskólinn gat veitt henni. Og þegar Lovísa hafði aldur til fékk hún inni í öðrum skóla í nágrenninu, Verslunarskóla Íslands. En þá urðu skil, sem höfðu afgerandi áhrif á skólagöngu Lovísu. Móðir hennar missti hægri handlegg vegna krabbameins og heimilis- og fjölskyldu-aðstæður urðu til þess að Lovísa sagði sig frá námi, tók við heimilinu og ýmsum verkefnum sem á hana voru lögð. Hún annaðist móður sína vel og til enda. Lífsverkefnin tóku við og veigamikill þáttur þeirra tengdust Jóni Pálma Þorsteinssyni. Og þá erum við komin að ástalífinu.

Jón Pálmi Þorsteinsson

Þau Lovísa og Jón sáumst ekki á rúntinum í Lækjargötu í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið á Oxfordstreet í verslunarerindum, en fáir hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku verslunargötu í heimsborginni.

Það var mjö gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna um fyrsta fund þeirra. Þau Jón voru á sama hóteli eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi líka nákvæmlega hvernig Jón hafði verið klæddur og þekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu traustið, festuna, í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband, þann 30. desember. Síðan áttu þau stuðning og voru hvors annars í 65 ár. Það er ekki sjálfsögð gæfa eða blessun. En þau ræktuðu traustið og virðinguna og það er gæfulegt veganesti til langrar samfylgdar.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og afkomendafjöldinn vex þessi misserin. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Pálmi er læknir og prófessor í fræðum sínum. Kona Pálma er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, son Einars af fyrra sambandi, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og kona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, sérfræðingur í stjórnarráðinu. Börn þeirra eru Björk, Freyja, Lilja Sól – af fyrra sambandi Láru – og Hallgerður Bára.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar maður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur. Þau eiga Pálma Sigurð.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og tónsmíðameistari eins og kona hans einnig. Hún heitir Veronique Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorkona, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir og prófessor. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er læknir.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur.

Davíð er læknir og kona hans er Ramona Lieder, líftæknifræðingur. Og það er ánægjulegt að segja frá því að þau eru nýgift og sögðu sín já í Þingvallakirkju á laugardaginn síðasta. Hjónavígsludag þeirra er alltaf hægt að muna – því hann er menningarnæturdagurinn, Reykjavíkurmaraþondagurinn. Börn þeirra Davíðs og Ramonu eru Anna Lovísa og Ólafur Baldvin.

Lovísa helgaði sig heimilinu og börnum sínum og velferð fjölskyldunnar var henni aðalmál. Þegar börnin voru fullorðin fór Lovísa að starfa utan heimilis, og þá við lyfjagerð og umbúðaframleiðslu. Eftir að eiginmaður hennar féll frá hugsaði Lovísa um sig sjálf þar til fyrir tæpu einu og hálfu ári að hún flutti frá Tjarnarstíg 3 og á hjúkrunarheimilið Sóltún og naut þar góðrar umönnunar, sem hér með er þökkuð.

Minningar

Við skil er mikilvægt að staldra við og íhuga. Við fráfall ástvinar er ráð að kveðja, að fara yfir þakkarefnin, rifja upp eigindir og segja eftirminnilegar sögur. Og varðveita svo í huga og lífi það sem við getum lært til góðs og miðla áfram í keðju kynslóðanna. Og það er svo margt sem Lovísa skildi eftir til góðs og í lífi fólksins hennar, ykkar sem hér eruð.

Manstu gæsku hennar? Hve kærleikur og umhyggja hennar var innileg? Lovísa var ástrík móðir, sem umvafði fólkið sitt og heimili kyrrlátum friði. Hún lagði börnum sínum í huga metnað, dug, vilja til náms, vinsemd til fólks og virðingu fyrir lífinu. Lovísa kenndi þeim visku – t.d. að ekki væri hægt að gera meiri kröfur til fólks en það stæði undir. Hver og einn yrði að gera eins hægt væri, en meira væri ekki hægt að krefjast.

Manstu hve fallega og vel Lovísa talaði til fólks og blessaði? Manstu hve Lovísa ávann sér virðingu? Og manstu að hún þorði og gat talað um tilfinningaefni og trúmál? Það er ekki öllum gefið og þakkarefni þegar fólk hefur í sér þroska til slíkra umræðna. Lovísa var óspör á að segja börnum sínum og ástvinum sögur frá fyrri tíð og var góð og gjöful sagnakona. Manstu skerpu Lovísu og greiningargetu hennar? Og svo var hún fjölhæf. Og Lovísa staðnaði ekki, hún hélt áfram að hugsa um þjóðmál og velferðarmál samfélagsins og varð róttækari með árunum. Mannvirðing bernskuheimilisins og umhyggja fyrir velferð fólks varð Lovísu leiðarvísir um hvað og hver gætu orðið fólki, menningu og þjóð til gagns.

Manstu hve skemmtileg Lovísa var? Hve bjartsýn og ljóssækin hún var? Svo hafði hún þokka, útgeislun, gætti vel að fötum sínum og klæðnaði. Og var afburða húsmóðir og rækti hlutverk sín og verkefni af alúð. Henni lánaðist að gera mikið úr takmörkuðum efnum. Og hún tók viðburðum lífsins með æðruleysi. Hún var góður kokkur. Lovísa talaði einhvern tíma um að hún sæi eftir að hafa ekki eignast börnin fyrr, til að hafa notið samvisanna enn lengur! En vísast hefði sagan þá orðið öðru vísi, og Jóna Karen og Pálmi ekki orðið til heldur eitthvað annað fólk! En hún naut samvistanna við fólkið sitt lengi og hlúði að því alla tíð.

Manstu dýravininn Lovísu? Þegar börnin hennar og fjölskyldur þeirra voru að flytja til útlanda fengu þau Jón hundinn Ponna að gjöf. Hann var nánast himingjöf. Og samstillt voru þau Lovísa um að gleðja Ponna og veita honum hið besta samhengi. Hann varð þeim líka góður heilsuvaki því þau stunduðu hundagöngur og fóru skemmtiferðir saman með Ponna.

Manstu lestrarkonuna sem fylgdist vel með? Hún las t.d. bók um Hillary Clinton og aðrar slíkar á ensku! Lovísa hafði áhyggjur af fátækt heimsins og stríðsrekstri og vildi leggja sitt af mörkum til að sem flestir nytu lífsgæða og friðar. Hún var friðarsinni og verndarsinni í afstöðu.

Inn í eilífðina

Nú eru skil. Leyfið myndunum að þyrlast upp í huga. Lovísa brosir ekki framar við þér, grennslast eftir líðan þinni eða fer út í garð til að lykta af angandi rósum. Hún fer ekki framar upp að Esjurótum til að hleypa hundi og tjáir þér ekki framar þakklæti. Lovísa átti gott og gjöfult líf, sem er þakkarvert. Nú er hún horfin inn í traustið sem ekki bregst, rósagarð himinsins. Hún fer blessuð og þakkir ykkar er ilmur eilífðar.

Guð geymi Lovísu og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen.

Útför Lovísu var gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudaginn, 23. ágúst, 2018. Bálför og því jarðsett síðar í duftgarðinum Sóllandi, K – 10 – 10. Erfidrykkja í Hótel Radisson Blu við Hagatorg.

 

Opna

Á þessari afmælishelgi Reykjavíkur iðar borgin af lífi. Margt er á dagskrá hér í kirkjunni, m.a. Sálmafoss í gær sem þúsundir sóttu. Í gærkvöldi horfði ég svo á flugeldasýninguna ofan úr kirkjuturni. Það var áhrifaríkt.

Reykjavíkurmaraþonið er dásamlegt og þúsundir hlupu. Þegar ég fylgdist með manngrúanum hlaupa í gær hríslaðist um mig sterk tilfinning – það var tilfinning fyrir lífinu. Allt þetta fólk var að hlaupa af því lífið er mikilvægt, gott, eftirsóknarvert. Það var gleði í augum hlauparanna og þúsundir stóðu við göturnar til að hvetja áfram, gefa þreyttum fótum aukinn kraft, lemja búsáhöld og nýta alls konar hljóðgjafa til að skapa hvatningarhávaða. Fæst af þessum sem hlupu voru að hlaupa til að vinna í sinni grein. Flest hlupu vegna einhvers fallegs markmiðs; til að hlaupa fyrir góðan málstað, til að gleðjast eða fagna einhverjum fallegum persónulegum áföngum eða markmiðum. Og kannski er ástæða fyrir hlaupum flestra að þakka fyrir líf eða lífsgjöf, hlaupa fyrir lífið, halda upp á lífið, fagna lífinu.

Gjörningur lífsins

Ástæða þess að ég segi þetta er að ég þekki svo mörg sem hlupu vegna þess að þau hafa verið veik en fengið nýjan styrk, bata eða bót meina sinna. Ég þekki fólk í hlaupinu, sem fékk krabbamein en hefur notið endurbata. Og nú hlaupa þau vegna þess að þau meta og þakka fyrir lífið. Ég þekki fólk á hlaupum sem er með gangráð fyrir hjarta og þess vegna gat þetta fólk hlaupið, notið og glaðst yfir lífi og heilsu. Ég þekki fólk í þessu hlaupi, sem hefur verið mikið veikt, verið illa farið, orðið fyrir skelfilegum áföllum en hefur notið stuðnings, hjálpar og lækningar svo það getur tók þátt í hlaupinu í ár. Og svo eru öll áheitin til að efla líf annrra, koma þeim til aðstoðar – líklega á annað hundrað milljónir!

Reykjavíkurmaraþonið er gjörningur lífsins, eiginlega risavaxið þakkarritúal til að tjá gleði og þökk fyrir líf og heilsu. Og líf og þakklæti er aldrei innhverft og sjálfhverft heldur leitar út og til annrra, að verða öðrum til góðs. Margir njóta því beins stuðnings sem er hvatning og peningastuðningur.

Hlaup til lífs

Og þá er það guðspjall dagsins. Þar er líka hlaup til lífs og þakkar. Hópur af vinum fór langa leið til að tryggja að maður í vanda næði fundi Jesú. Hann hafði liðið fyrir heyrnarleysi og þar með málleysi. Svo endaði gjörningur Jesú með því að maðurinn fékk bót meina sinna. Frá því er sagt að Jesús framkvæmdi læknisaðgerð á manninum og sagði við hann lykilorðið Effaþa. Við þetta orð og með læknandi atferli Jesú varð breyting – maðurinn heyrði hljóð lífsins og  fékk mál. Allt gerði Jesús vel og fólk talaði um það sem hann gerði.

Þetta er jákvæður og skemmtilegur texti. Við megum gjarnan nálgast hann með persónulegu móti. Ef við erum opin gagnvart sérstökum kraftaverkum getum við glaðst. Ef við efumst um kraftaverkasögur er hægt að sjá í þessari sögu öflugan lækni sem gat meira en aðrir. Og svo er þessi saga auðvitað táknsaga um um að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel.

Effaþa

Effaþa– er eitt af þessum stóru orðum í sögu heimsins. Og merkingin er einföld en stórkostleg. Effaþaþýðir: Opnist þú. Jesús hefur notað orðið oft því það varðveittist sem máttarorð. Opnist þú – hefur hann sagt við það mörg að frumkirkjan mundi það og varðveitti sem lykilorð sem opnaði skrár og kerfi lífsins. Opnist þú. Maðurinn var í vanda rétt eins og krabbameinssjúkur, hjartveikur, sinnisveikur eða fastur í neti fátæktar eða félagslegs vanda. Opnist þú var sagt, læknirinn tók til starfa og lausnin fannst. Maðurinn fékk hjálp og nýtt líf.

Að baki einstaklingnum og frásögn dagsins er dýpri merking. Öll lendum við í þeim aðstæðum að við erum lokuð og fjötruð. Fjölskyldur lenda í vandkvæðum, samfélög líka, þjóðir eru haldnar af einhverjum vondum mönnum eða meinum sem leiða til ills. Og þá er ljóst að lausnar er þörf. Segja þarf lausnarorðin – einhver þurfa að ganga erinda lífsins, hvort sem það eru sálfræðingar, stjórnmálajöfrar, hugsuðir, aktívistar eða aðrir hugsjónamenn sem þurfa að segja orðið effaþaog framkvæma það sem þarf til að losa fjötrana. Vandi mengunar í veröldinni er slíkur að himneskt og jarðneskt effaþaer nauðsyn.

Jesútexti dagsins varðar ekki bara þau sem finnst þau vera sjúk. Hann varðar okkur öll og er okkur boðskapur. Við sem einstaklingar erum í ýmsum aðstæðum lífsins og á ýmsum skeiðum fjötruð eða í vandræðum. Við erum jafnvel stundum í þeim aðstæðum að skilja ekki að við þurfum hjálp. Fíklar heimsins vilja ekki þiggja hjálp eða heyra lausnarorðin, heldur þarfnast þess að vinir styðji þá til hjálpar eða komast í hjáparaðstæður – eins og í textanum. Flóttamenn heimsins þarfnast máttarorða og aðgerða. Og á þeim tíma sem ofstæki vex í pólítík vesturlanda verða æ fleiri læstir í fjötra einfeldni, einhæfni og falsfrétta. Þá er þörf á máttarorðum, leysandi visku og fólki sem þorir.

Mannvirðing

Jesús Kristur er í sögunni sá sem virðir og viðurkennir vanda. Hann afskrifar ekki fatlaðan mann heldur virðir mennsku hans, talar heyrnarleysið til heyrnar og málleysið til málgetu. Sagan er því mannvirðingarsaga. Jesús Kristur virti og virðir fólk, afskrifa ekki heldur kemur til hjálpar. Kristnin, hreyfing Jesú, hefur fylgt fordæmi hans, metur manninn mikils, elur á mannvirðingu óháð hæfni og getu, reynir að koma fólki til hjálpar og sjálfshjálpar og eflir til lífs. Jesús Kristur efldi lífsgæði fólks og þannig vill kristin kirkja vera. Styðja og efla. Því hafa mannréttindi sprottið fram í kristnu, vestrænu samhengi, og um allan heim þar sem kristnin hefur verið heyrð og tungur hafa talað máttarorð. Textinn er því rammpólitískur. Jesús stóð alltaf með lífinu og gegn fjötrum.

Opnun eilífðar

En svo er texti dagsins ekki aðeins um pólitík, góða læknisfræði eða aðgerðir í þágu mengaðrar og þjáðrar náttúru. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel vegna þess að Guð vakir yfir og leysir fjötra. Vandi manna – okkar – er ekki aðeins líkamlegir og andlegir kvillar sem geta dregið okkur til dauða, félagslegar festur eða náttúruvá heldur líka leiðsögn um leiðir dauðans og tímans. Við erum dauðleg, við deyjum öll. Og þar er líka sagt enn og aftur effaþa– opnist þú. Við mörk lífs og dauða, tíma og eilífðar, kemur Jesús Kristur líka við sögu. Máttarorð Jesú veldur að lífi lýkur ekki við dauðastund og tveimur metrum undir grænni torfu. Við erum ekki aðeins dauðlegar verur haldnar af fjötrum og sjúkleika, heldur eru við verur lífsins, sem megum hlaupa okkar lífshlaup en halda því hlaupi áfram hinum megin við endamark lífs. Kristindómur er átrúnaður opnunar. Við megum hitta Jesús Krist alla daga, en hann heldur áfram að vera með okkur líka í dauðanum. Hann opnar fjötra dauðans, opnar tímann í eilífð sinni. Kristur segir effaþa– opnist þú og það merkir að ekkert í þínu lífi megnar að fjötra þig alltaf.

Þótt allir séu dauðlegir hleypur samt fólkið í Reykjavíkurmaraþoni fyrir lífið. Þótt allir séu dauðlegir hleypur Jesús Kristur fyrir okkur og opnar líf í tíma og eilífð. Það þarf trú til að sá veruleiki opnist. Við getum ákveðið og neitað að trúa því að lífið sé opnað en Jesús stendur álengdar og bíður okkar. Tilboð hans er skýrt: Opnist þú. Ekkert er svo erfitt að þú getir ekki losnað við fjötra þína og við lok tímans er opnað fyrir veröld eilífðar. Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel af því Guð elskar þig og allt fólk, alla sköpun sína.

Amen.

Prédikun 19. ágúst, 12. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hallgrímskirkja. Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon voru 18. ágúst. Myndirnar tók ég þann dag. Kapparnir eru Tómas Magnús, Ísak og Jón Kristján. Flugeldamyndina yfir sundin – er sjónarhorn okkar sem stóðum í Hallgrímskirkjuturni. 

Textaröð: A

Lexía: Jes 29.18-24
Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók
og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur.
Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni
og hinir fátækustu meðal manna
munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels.
Kúgarinn verður ekki lengur til,
skrumarinn líður undir lok,
öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt
og þeim sem sakfella menn fyrir rétti,
þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu
og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali.
Þess vegna segir Drottinn,
sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs:
Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur
og andlit hans ekki framar að fölna
því að þegar þjóðin sér börn sín,
verk handa minna, sín á meðal
mun hún helga nafn mitt,
helga Hinn heilaga Jakobs
og óttast Guð Ísraels
og þeir sem eru villuráfandi í anda
munu öðlast skilning
og þeir sem mögla láta sér segjast.

Pistill: 2Kor 3.4-9
Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar. Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Guðspjall: Mrk 7.31-37
Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

+ Helgi Valdimarsson +

Helgi var fjallamaður. Hann naut áreynslunnar við að klífa fjöll, finna leiðir, gleðjast yfir undrum náttúrunnar og komast á toppinn. Og syngja svo að kvöldi í hópi glaðsinna göngufólks. Í þannig aðstæðum kynntist ég Helga. Hann hafði reyndar alltaf verið til í vitund minni, því við vorum systrasynir og hann var sautján árum eldri. Móðir mín og móðursystir elskuðu hann og hossuðu honum ungum og alla tíð síðan. Ég vissi því af honum, en við kynntumst þó ekki fyrr en fyrir tuttugu árum. Þá réð Ferðafélag Íslands Helga til að stýra gönguferðum um svarfdælsk fjöll. Ég var sá lukkuhrólfur að vera í hópi Helga og naut þess í mörg ár síðan. Hann var afburða leiðsögumaður. Ég hef ekki notið annars betri. Þar sem við frændur deildum herbergi í fyrstu ferðinni varð ég vitni að hve margra vídda Helgi var. Hann m.a. gerði námstilraunir með sjálfan sig. Hann sofnaði með lestur Íslendingasagna í eyrum og nýtti því svefntímann til að læra. En hann var slakur gagnvart því að draumar hans hafi yfirtekið námið og ekki alltaf ljóst hvað væri úr Gerplu og hvað frá honum sjálfum. Þessi eftirminnilega gönguvika tengdi þátttakendur og ég naut þeirrar blessunar að kynnast konu minni undir vökulum augum fararstjórans.

Helgi var afar eftirminnilegur maður. Honum var mikið gefið, fjölgáfaður. Atorku- maður við vinnu, hvort sem það var í sveitavinnu bernskunnar eða í fræðum fullorðinsáranna. Hann hafði þörf fyrir einveru og sökkti sér í það, sem hann sinnti hverju sinni, hvort sem það var á rannsóknarstofunni eða við skáktölvuna sína.

Hann sótti í söng og gleði og var allra manna skemmtilegastur þegar sá gállinn var á honum. Hann var alvörumaður en líka syngjandi gleðikólfur, íþróttagarpur en líka fíngerður tilfinningamaður, háskólamaður en einnig bóndi, stórborgamaður en sótti í fásinnið, þekkingarsækinn og framfarasinnaður, en mat einnig mikils klassík og festu menningarinnar.

Ég þekkti foreldra Helga og fannst hann flétta gæði beggja í eigin lífi. En ólíkur var hann þeim þó og fór sínar eigin leiðir.

Nú er Helgi farinn upp á Rima eilífðar og við hinir pílagrímar lífsins þökkum samfylgdina. Þökk sé Guðrúnu Agnarsdóttur, konu Helga, fyrir alúð hennar við ættfólk hans. Hún gekk hiklaus með manni sínum í heimum manna og fjalla, þjónaði fólkinu hans og annaðist hann síðan aðdáunarlega vel síðustu veikindaárin. Við leiðarlok vil ég tjá þakklæti mitt fyrir ræktarsemi þeirra Helga í garð móður minnar, móðursystur og fjölskyldu. Guð gangi kindagötur eilífðar með Helga Þresti Valdimarssyni og geymi ástvini hans.

Minningargrein mín um Helga í Morgunblaðinu 17. ágúst 2018.