+ Magnús Jónasson + minningarorð

Æfi Magnúsar Jónassonar var ævintýraleg. Ég hlustaði á dætur hans segja litríkar sögur um hann og svo hlustaði ég á Magnús sjálfan í tveimur Laufskálaviðtölum. Og ég var snortinn af mannkostum hans og getu.

Og við byrjum á minningum um stríð. Nú eru eitt hundrað ár frá lokum fyrri heimstyrjaldar. Og við hugsum um friðinn. Á minningarsamverum um allan heim hefur liðna daga verið rætt um mikilvægi þess að rækta frið í ótryggri veröld. Magnús ólst upp við ysta haf – og þar var friður æsku hans rofinn af heimsstyrjöld. Líkum skolaði upp í fjörur. Tundurduflin, sem ekki sprungu við kletta, rak upp í fjörur í Barðsvík, í Bolungarvík og flestar víkur og firði sýslunnar. Og svo gengu Magnús og unglingarnir fjörur. Líkum var bjargað og þau voru jarðsett. Dunkar og ílát með matvöru eða nýtanlegum efnum var bjargað og timbur og ýmis gæði voru flutt heim. Svo voru duflin skoðuð og stundum var jafnvel stutt milli lífs og dauða. Magnús sagði sögu af sprengingu tundurdufls og þótti kraftaverk að maður sem var nærri hefði lifað. Magnús var þá á bak við stóran stein ásamt félaga sínum. Þeir sluppu og varð ekki meint af, en þeir urðu að bregðast fljótt við til að koma hinum slasaða til hjálpar og í Djúpbátinn til flutnings á sjúkrahús. Og friðurinn var oft rofinn af reiðarslögum stríðstólanna. Magnús var einu sinni á Straumnesi, heyrði vel skothríð fallsbyssanna í sjóorustu. Hann sagðist hafa fundið vel hvernig loftið gekk í bylgjum. Til hvers stríð? Eyðilegging, mannslífum fórnað. Magnús var alla tíð maður friðarins, gekk erinda hins góða, vildi öllum vel og lagði sitt til að allir fengju notið sín. Hann var ábyrgur fjöskyldufaðir, eiginmaður, skipstjórnarmaður, samborgari og vinur. „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“ sagði Jesús. Magnús átti þann frið. Hann er farinn inn í frið frið himinsins.

Uppruni og fjölskylda

Magnús Jónasson fæddist 28. september árið 1929 í Bolungarvík á Ströndum. Foreldrar hans voru hjónin Hansína Anna Bæringsdóttir og Guðbjartur Jónas Finnbogason. Þau voru ábúendur í Bolungarvík. Systkinin voru samtals sex. Hin eru Bergmundur, Ingunn, Kristján, Finnbogi og Svanhildur. Af þeim lifa Svanhildur og Finnbogi en hann hafði samband við mig og bað fyrir kveðjur sínar og fjölskyldu sinnar til þessa safnaðar því hann getur ekki verið með okkur í dag. Þráinn Arthursson biður einnig fyrir sínar kveðjur og sinna. Það sama gildir um Sigríði Valdimarsdóttir sem biður fyrir kveðjur sínar og fjölskyldu hennar.

Magnús ólst upp hjá sínu fólki í Bolungarvík og naut skólagöngu í farskóla sýslunnar. Hann sótti skóla m.a. í Reykjarfirði, Furufirði og heima í Bolungarvík. Magnús talaði alla tíð vel um uppeldisstöðvar sínar, naut frelsis, glímunnar við krafta náttúrunnar, stæltist og lærði eigin mörk og annarra. Hann sagði, að hann hefði fengið gott uppeldi. Heimili Magnúsar var gjöfult og í víkinni voru yfirleitt yfir tíu manns og höfðu lifibrauð af landi og sjó. Auk búsmalans hafði fjölskyldan gagn af hlunnindum. Þau voru m.a. selveiði, æðarvarp, svartfugl og egg. Magnús lærði að fara í björgin og varð sigmaður, sprangaði í klettunum og lærði að tína svartfuglseggin og koma þeim fyrir í neti sínu án þess að þau brotnuðu. Og Bolungarvíkurbörnin lærðu að nýta sér sjávarfangið. Magnús lærði að sjósetja bát og lenda. Farið var á handfæri og jafnvel lögð lína. Þorskur var saltaður og ýsan hert.

Svo þegar Magnús komst á legg fór hann að vinna í Ingólfsfirði og síðan á síldarbát, jafnvel þótt stríð geisaði í veröldinni. Hann stundaði síðan sjómennsku víða, fyrir norðan, vestan og sunnan. Og varð kunnáttusamur í flestum greinum útgerðar. Fjölskylda Magnúsar hætti svo búskap í Bolungarvík á Ströndum í lok fimmta áratugarins og fluttist yfir í Djúp – í hina Bolungarvíkina.

Magnús var 10 vetur togarasjóðmaður, á Karlsefninu og Narfa. Hann lenti í ýmsum stórmálum, m.a. í strandi nærri St. Johns í Nýfundalandi. Svo þekkti Magnús allar fisklöndunarhafnir sem Íslendingar sigldu á í Englandi og Þýskalandi. Magnús aflaði sér ekki aðeins þekkingar á öllum greinum útgerðar á Íslandi heldur líka stýrimanns- og skipstjórnarréttinda.

Svo var Magnús sjálfur útgerðarmaður, liðlega tvítugur. Hann keypti með tveimur bræðum sínum og frænda trébátinn Ölver gamla, sem var frægt skip, m.a. fyrir að hafa ekki farið niður í  Halaveðrinu alræmda. Það var heillandi að hlusta á Magnús segja frá hvernig þeir lentu bát og hvernig hægt var að draga stórt skip upp á kamb með spili og góðu verksviti. Svo þegar Sædísin var keypt hófu þeir rækjuveiðar yfir vetrartímann. Magnúsi þótti það góðurveiðiskapur og kunni að meta að hann gat verið verið heima hjá fjölskyldunni um nætursakir og um helgar. „Albesti veiðiskapur sem ég stundaði“ – sagði hann síðar.Síðar var Bryndís keypt, listasjóskip sem ekki átt sinn líka, áleit Magnús. Og útgerðin gekk vel.

Helga, börn og búseta

Svo var það ástin og hjúskapurinn. Magnús var þroskaður maður þegar þau Helga Sigurðardóttir urðu hjón 6. október 1969. Hún var hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Þau eignuðust fjögur börn. Sigurður Bjarni er elstur, fæddist í febrúar árið 1969. Hann býr í Noregi og sambýliskna hans er Geetha Sollie. Sigurður Bjarni eignaðist son árið 1995, Bjarna Magnús með Guðrúnu Hafdísi Hlöðversdóttur. Guðbjartur Jónas, annar sonur Magnúsar og Helgu, fæddist í júlí árið 1970. Gróa Guðrún fæddist svo í apríl árið 1972. Og Magnína er desemberkona og fæddist árið 1978.

Helga og Magnús byrjuðu hjúaskap sinn í Hafnarfirði og áttu svo heima í Reykjavík en fluttu í Bolungarvík við Djúp árið 1974. Magnús stundaði sjóinn og gekk vel. Og börnin þeirra uxu úr grasi og þegar Magnús seldi frá sér skip og hætti á sjó var sjálfgefið að verunni í Bolungarvík væri lokið. Hann var síðar spurður hvort hann langaði vestur. Mér þótti merkilegt að hlusta á svör hans. Honum líkaði veran við Djúp, en sagði að þegar afli og kvóti væru farnir og atvinnulífið væri höktandi væri ekki eftirsóknarvert að búa þar lengur. Það væri hægt að kaupa ódýrt húsnæði, en fólk yrði að hafa vinnu. Í þessu sem öðru var Magnús yfirvegaður og óhræddur.

Magnúsi leið vel í Grafarvoginum. Um tíma voru þau Helga í Laufrima en síðan í Dofraborgum 34. Magnús dittaði að húsinu sínu, gekk um í borginni, naut útsýnis og svo þegar hann var búinn að klára allt, sem gera þurfti, leitaði hugur út í sveit að nýju. Maðurinn, sem hafði alist upp við hið ysta haf, leitaði í dreifbýlið. Þau Helga keyptu stóran landskika í Melasveit og áttu m.a.s. land að sjó. Magnúsi þótti gott að gleðjast yfir öldubroti í fjöru og geta náð í fisk í soðið.

Minningarnar

Og nú eru skil. Hvernig manstu Magnús Jónasson? Manstu vinnusemi hans og dugnað? Manstu hve skemmtilegur sögumaður hann var? Sagnagleðin var óhvikul, getan til að segja góða sögu öguð. Og málgetan skýr og málfarið blæbrigðaríkt og fagurt. Það er merkilegt að hlusta á útvarpsviðtölin við hann og heyra hve umtalsfrómur hann var. Hann hafði auga og eyra fyrir hinu kúnstuga og kostulega en alltaf lagði hann vel til fólks. Engan vildi hann særa eða meiða.

Manstu snyrtimennið Magnús og að hann vandaði allt í umhverfi sínu? Manstu hve vel hann var heima? Já, hann las dagblöðin, heyrði vel það sem sagt var í fréttum, lagði sjálfstætt mat á og kunni að greina. Hann hafði góða eðlisgreind og nýtti hana í vinnu, í samskiptum, á heimili og lagði alls staðar hjartahlýju og umhyggju með. Hann gekk í öll verk, var dugmikill og stefnufastur. Hann var góður kokkur enda hafði hann stundað nám í húsmæðraskóla! Sunnudagslærið hans og helgarmaturinn var hreinasta afbragð – og brúnuðu kartöflurnar hans og sósan meðfylgjandi. Hann hafði notið góðra móturnar heima og rabbarbarahnaus í Bolungarvík á Ströndum var fluttur í Bolungarvík við Djúp og jafnvel suður. Magnús kunni ekki bara á ræktun heldur líka að sjóða sultu sem var notuð með helgarlærinu.

Manstu hve vel læs hann var á bækur, menn og málefni? Og vissir þú að hann var afar biblíufróður og las vegna áhuga á efninu? Hann var eins og margir sjómenn vel tengdur við sinn innri mann og Guð.

Og manstu ferðamanninn Magnús? Hann fór ekki aðeins á sjó við Íslandsstrendur eða sigldi á Cuxhaven. Hann og Helga fóru víða, sigldu um karabíska hafið, fóru td fjórum sinnum til Mexikó, líka til Kúbu, Bandaríkjanna og til Kanada. Svo óku þau um Ísland og voru sátt við sitt nýja líf fyrir sunnan og á ferðum um heiminn.

Manstu, að sjómaðurinn Magnús var aldrei laus við sjóveiki? Hann var ekkert að fegra sjálfan sig og talaði einlæglega og hispurslaust um kosti sína og stöðu. Manstu hve natinn Magnús var við sitt fólk þegar hann var í landi? Manstu vinsemd og gæsku í garð manna og dýra? Manstu hve veðurglöggur hann var og hve vel hann las í spár og blikur? Manstu að honum þóttu góðir selshreyfar?!

Inn í himininn

Og nú er hann farinn í sjóferð eilífðar. Hann hangir ekki lengur í línu, lítill eldhugi utan í stóru bjargi. Hann dregur aldrei fisk úr sjó framar, spáir ekki í blikur og öldu. Hann stingur aldrei góðmeti í ofn framar eða skýst til útlanda. Og enga matreiðsluþætti horfir hann framar á. Hann fer ekki norður í Bolungarvík á Ströndum til að ná í reka eða nýta hlunnindi landsins. Og hann horfir ekki framar með ástaraugum á fólkið sitt.

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“ sagði Jesús Kristur (Jh 14.27). Magnús býr í friði himinsins og Guð umvefji ykkur, fjölskyldu og ástvini, með þeim friði sem ekkert rýfur og engin stríð megna að spilla. Guð geymi Magnús í eilífð sinni og blessi þig.

Amen.

Minningarorð. Grafarvogskirkja 16. nóvember 2018 kl. 13. Kistulagt sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Grafarvogskirkju eftir útför. Schola cantorum og Björn Steinar Sólbergsson. Útfararstofa kirkjugarðanna.

Ástarsögur

Útsending Rúv að baki þessari smellu.

Ég sat í vikunni fyrir framan sjónvarpið með sonum mínum sem eru á unglingsaldri. Við horfðum á leiki í Meistaradeild Evrópu. Við sáum Juventus sigra vini okkar í Manchester. Svo sáum við líka brot úr öðrum leikjum. Strákarnir mínir eru í boltanum og fylgjast með heimsknattspyrnunni. Og íþróttahetjurnar eru dýrlingar nútímans, fyrirmyndir, sem hafa mikil áhrif á og móta milljónir uppvaxandi ungmenna um allan heim. Og þegar við hrifumst og hryggðumst yfir leikjum vikunnar flaug í gegnum hug mér: Hvað hefur áhrif á drengina mína? Hvað mun móta þá? Hvernig verða þeir? Hvað gerir þeim gott og hvað verður þeim til góðs? Og ég horfði á þá ástaraugum.

En við, karlarnir mínir, sáum ekki bara meistaradeildarleiki heldur líka leiki í allt annarri deild, – og mun myrkari. Það var steraþátturinn, sem Kveikur sýndi nú í vikunni. Við hlustuðum á sögur þeirra, sem hafa freistast til að nota stera. Markmiðið er einfalt, að fá hjálp við að móta líkamann, gera hann stæltan og flottan. Og vöðvarnir verða útblásnir við steranotkunina. En í flottum skrokki er fleira en vöðvar – sterar rugla fínstillt jafnvægi efnabúskapar líkamans.Og það er fjöldi ungmenna sem deyr á Íslandi á hverju ári vegna stera. Það, sem átti að skapa stórkostlegt lúkk, var í raun ásjóna dauðans. Sterkasti maður heims dó, líklega vegna steranotkunar. Og æðið heldur áfram, það eru ungu drengirnir sem eru ginkeyptastir fyrir sterunum. Þessar sögur hræddu.

Og svo heyrði ég í vikunni margar aðrar sögur um unglinga, sem hafa lent í algerum ógöngum vegna útlitsáherslu. Til að ná útitsmarkmiðum sínum, hvort sem þau eru raunsæ eða ekki, hætta margir unglingar að borða eðlilega – og mörg lenda í hringrás blekkinga og alls kyns veikinda. Til hvers? Ásýnd er ekki inntak hamingju. Og við ættum að horfa ástaraugum á börnin okkar, hugsa um hvort þeim lánast að rata veg hamingjunnar og hvað við getum gert til að styrkja þau og efla. Það er sótt að þeim, raunar okkur öllum. Vertu þetta, notaðu þetta, gerðu þetta, kauptu þetta. En hvað dugar og hvað þráum við innst inni?

Í okkur býr ástarþrá. Við höfum öll þörf fyrir umhyggju, athygli, strokur, aðdáun og samfélag. Við erum börn ástarinnar, á leið eftir ástarveginum og viljum fá að vera með öðrum á þeim vegi. En hvernig lánast okkur?

Hallgrímur og Passíusálmar

Í dag er Hallgrímsmessa. Við minnumst þess, að 344 ár eru liðin frá dauða Hallgríms Péturssonar, sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, að mínu viti mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er góður gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki hinum reiða guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hamingjuleitin

Unga fólk nútímans, eins og á öllum öldum, leitar hamingjunnar. Hvað verður þeim til lífs og gleði? Eru sterarnir góðir fyrir stráka, sem eru að stækka og vilja vera stæltir? Eru köglarnir, grasreykingar í Hólavallagarði eða matarflóttinn það besta fyrir stráka og stelpur?

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Og hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin, fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Og mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Ég, þú, við öll, erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Og þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Pílagrímaferðirnar

Við, sem störfum í þessum mikla helgidómi, Hallgrímskirkju, verðum daglega vitni að leit fólks að inntaki lífsins. Hingað koma margir og tjá, að þetta sé áhrifaríkur staður. Og mörg ykkar vitið, að einn af fjölmiðlarisum veraldar hefur úrskurðað, að Hallgrímskirkja sé eitt af mikilvægstu íhugunarhúsum heimsins. Það kemur þeim ekki á óvart, sem sækja þessa kirkju. Og ekki lýgur the Guardian– vörður sannleikans – og flytur ekki falsfréttir gegn betri vitund.

Hvað merkir að vera íhugunarhús? Það er staður þar sem er gott samband, góð skynjun og líðan, skapandi hugsun. Staður til að tengja við innri mann, umhverfi en líka við eilífðina. Og af því fólk hefur heyrt, að Hallgrímskirkja sé staðurinn, kemur það hingað til að vera. Það fer ekki aðeins hálfa leið upp í himininn og baka – þ.e. í kirkjuturninn, heldur inn í kirkjuna og sest niður. Þar er hægt að fara yfir líðan, vonir og áhyggjur og kveikja svo á kertum til stuðnings sálarvinnunni, hugsa um til hvers við lifum og af hverju. Í kyrru kirkjunnar taka margir ákvarðanir um stærstu málin og breyta um stefnu, ákveða með fjölskyldumál sín, atvinnu, menntun, tengsl og líka tengslarof. Allt þetta, sem fólk hugsar um varðar merkingu, hamingju og tilgang. Þetta sem allir leita að og hugsa um. Og svo er vaxandi fjöldi, sem kemur frá útlöndum, í þetta mikla sambandshús, til að giftast, fer á heimsenda til að fá bæn og blessun yfir ást sína. Ástarsögurnar eru alls konar.

Þín ástarsaga

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Og fólk á ferð lífsins kemur í þessa kirkju til að leita að hinu djúpa. Við segjum ástarsögu um Hallgrím og Guðríði og ástarsögu Guðs sem alltaf elskar. Og þó Hallgrímskirkja sé gott íhugunarhús fyrir borg, þjóð og heim er þó annað hús sem skiptir þig þó enn meira máli. Það ert þú sjálfur – þú sjálf. Þú ert raunar miðjan í ástarsögu Guðs og heimsins. Þú mátt elska og njóta ástar. Sterar, grasreykingar, matarflótti eru ásýndarmál, yfirborð – en hið innra þarftu það sem raunverulega gefur þér hamingju.

Viltu hamingju – staldraðu við.

Leitar þú ástar – hún stendur þér til boða.

Þarftu fang? Það er tilbúið.

Viðurkennir þú þörf þína – þá er vinur við hlið þér.

Guð sér þig. Þú og þitt fólk er elskað.

Guð elskar.

Amen

Hallgrímsmessa – 28. október, 2018

 

Árnabiblían

Ég hef aldrei keypt Biblíu handa sjálfum mér. Mér hefur þó aldrei verið Biblíuvant því ég hef verið svo lánsamur að hafa fengið margar Biblíur að gjöf. Ein af gjafabiblíunum rataði í hendur mínar síðla árs 2003. Hún er ekki aðeins falleg hið innra heldur líka hið ytra, bundin í skinn og silfurslegin. Það þarf engan bókelskling eða biblíuvitring til að sjá að þetta er mikið lesin bók.

Ég var settur til afleysingar í Hallgrímskirkju haustið 2003. Af því ég hafði sungið í einum kórnum þekkti ég marga í starfsliði kirkjunnar. Það var því ánægjulegt að koma til starfa fyrsta vinnudaginn. Eftir kaffibolla, hlátra og hlýjar móttökur héldu allir á sínar vinnustöðvar. Inn á skrifstofunni, sem mér var ætluð, var bókastafli á skjalaskápnum. Þarna voru gamlar bækur, Passíusálmar og guðsorðabækur. Þá sá ég kunnuglega Biblíu. Blóðið þaut fram í kinnar mínar. Ég þekkti hana því ég hafði svo oft handleikið hana í húsi við Sjafnargötu. Biblían var merkt Árna Þorleifssyni, sem hafði fengið hana að afmælisgjöf þegar hann varð sextugur árið 1937. Ég hafði ekki séð hana í meira en þrjátíu ár, þar til á þessum degi í Hallgrímskirkju.

Árni Þorleifsson var vinur foreldra minna og þau kynntust í hans skjóli. Þegar þeim fæddist drengur bað hann um að sá stutti fengi líka að bera nafn hans því hann átti ekki börn sjálfur. Ég heiti því Árni og þar sem ég var afalaus gekk hann mér í afa stað. Árni missti sjón á gamals aldri og bað mig um að lesa fyrir sig. Ég fór til hans í hverri viku öll unglingsárin. Hann gaf mér smjörköku eða vínarbrauð, við ræddum saman og svo bað hann mig oftast að lesa fyrir sig úr Biblíunni. Hann ákvað hvaða kaflar skyldu lesnir og ég tók bókina góðu og las upphátt. Við nutum samfélagsins og hann sá til þess að ég lærði að lesa í Biblíunni og skilja samhengi og dýrmæti. Síðan lést Árni og bækur hans og Biblíur hurfu mér einnig.

Svo varð samsláttur atburða í tíma. Nokkrum dögum áður en ég hóf störf var Biblían afhent kirkjunni að gjöf. Svo tók hún á móti mér. Hvaða verkfæri fær prestur betra en Biblíu við upphaf prestsstarfs? Tákn um ábyrgð prests að rannsaka ritningarnar og leyfa lífsorði Guðs að streyma um sig í menningu og kirkju. Í árslok 2003 var mér svo gefin þessi Árnabiblía. Síðan hefur hún fylgt mér.

Biblían kemur víða við sögu og flestir eiga sér einhverja persónulega minningu um hana. Persónur eða viðburðir Biblíunnar eiga sér afleggjara í bókmenntum, listum og sögu heimsins. Áhrifasaga Biblíunnar er mikilfengleg. En áherslur samfélaga breytast. Hvað í Biblíunni skiptir nútímafólk máli og hvað hefur hlutverki að gegna í menningu samtíðar? 

Á miðvikudögum í október og nóvember er á dagskrá í hádeginu í Hallgrímskirkju dagskrá um Biblíuna. Fyrirlesarar segja frá eftirminnilegum Biblíuviðburðum í lífi sínu og tala um hvað í Biblíunni skipti máli í menningunni eða eigin lífi. Biblíurnar koma til okkar með ýmsum hætti. 

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. október 2018. 

Guð tjáir sig í kartöflum og eplum

Hvernig tekur þú við gjöfum? Hvaða merkingu hafa gjafir og hvernig bregstu við þeim?

Ég var í Tallinn í Eistlandi liðna helgi. Borgin er heillandi og hefur fríkkað og braggast eftir sjúkdómstíma kommúnismans. Þetta get ég sagt því ég sótti hana heim á sovéttímanum árið 1990 – og þrisvarsíðan. Það er gaman að ganga um gamla bæinn og sjá hvernig húsum hefur verið gert gott til, sótið hefur verið þvegið, gömul málning skafin af og allt endurmálað. Nýjar þakrennur eru á húsunum, göturnar eru viðgerðar og mannífið ríkulegt í gömlu miðaldaborginni. Eins og álagaham hafi verið lyft, allt fengið lit, líf og fegurð að nýju. Kirkjurnar sem voru laskaðar, vanhelgaðar, eru nú viðgerðar. Það er heillandi fara inn í þessa söguríku, miklu helgidóma. Í öllum eru auðvitað ölturu og prédikunarstólar og orgel allt þetta sem búast má við í kirkjum. En það sem kom á óvart var að í öllum kirkjunum var mikið af grænmeti og ávöxtum. Við kórtröppurnar voru kartöflur, kálhausar, grasker, epli, gulrætur, laukur, tómatar, ber og perur. Það var fagurt, að sjá þessar náttúrugjafir í kirkjunum. En af hverju var búið að koma þessu fyrir? Var þetta skreyting, eitthvað til að fegra og í staðinn fyrir blóm eða listmuni? Eða selja fólki? Var búið að breyta kirkjum í markað? Nei. Ástæðan var önnur. Hver var hún?

Ávextir jarðar hafa verið bornir í helgidómana á haustin um aldir. Hinir fornu hebrear höfðu liðið sáran matarskort á langferð til fyrirheitna landsins og pílagrímagöngu tímans. Þegar hinir umreikandi Aramear höfðu fengið land til ræktunar og frið til að yrkja jörðina spratt fram þakklæti. Þetta fólk gerði sér grein fyrir að matur er ekki mannréttindi heldur þakkarverðar lífsgjafir. Og svo varð til helgigjörningar til að marka tengsl mannaþakka og guðsgjafa. Í 26. kafla 5. Mósebókar segir frá að setja eigi þessar jarðargjafir í samhengi gæsku Guðs og bera sumt af þeim í helgidóminn. Það voru ekki gjafir til að gefa guðunum að borða, heldur var gjörningurinn til að staðfesta samhengi lífsins. Svo hefur verið um allan heim. Þegar landnemar í Bandaríkjunum höfðu uppskorið héldu þeir þakkargerðarhátíð.

Að vera maður Guðs í heiminum er andstætt lífi frekjunnar. Allan sóvéttímann, í baráttu og matarskorti bar fólk í Eistlandi kartöflur og aðra jarðarávexti í kirkjurnar á haustin. Það var gerningur gleði og þakkar, afstaða sem alltaf er sterkari en dólgshátturinn. Eftir dauða kemur líf. Jesúboðskapur, Jesúiðkun – djúpur hjartsláttur þess heims sem Guð hefur gert. Grænmeti og ávextir í kórum kirkna heimsins vekur djúpar spurningar. Hvernig lifi ég? Hvernig lifir þú? Tekur þú bara til þín í markaleysi og frekju eða ræktar þú með þér gjafmildi. Það er merkilegt að lesa ábendingar um meðferð jarðagæðanna meðal hebreanna, að sérstaklega er tekið fram að fólk skuli halda hátíð en líka gefa aðkomufólki með sér. Við börn heims og himinsins erum öll í sömu þörf fyrir gjafir lífs. Í okkur öllum býr þrá til hamingju, öryggis, friðar, matar og sáttar við sjálf, samfélag og lífgjarann sjálfan. Og kartöflur, kál og epli í kirkjum eru tákn um ást, sem skapar okkur öll, já – spannar okkur öll, alla náttúru. Okkar er að tryggja að allir njóti. Þannig er ástarsaga himins. Guð tjáir sig í kartöflum og eplum.

Amen.

Guð sem skapar, Guð sem leysir, Guð sem helgar.

Þökk sé þér fyrir ástargjafir þínar, grænmetið, alla ávexti jarðar, mannfólk, litríki veraldar, tónlist heimsins.

Þökk fyrir að þú vilt að veröldin sé ríkulegt veisluhús mettaðs og þakkandi fólks.

Allt líf kallar þú fram, allt líf nærir þú og allt líf helgar þú.

Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 18. október 2018

 

Syngjandi saga – Tallinn

Ég var svo lánssamur að heimsækja Eistland meðan þjóð og land var hluti Sovét. Söngbyltingin hófst árið 1987 og þegar ég kom árið 1990 stóð hún enn yfir. Eistar sungu sig til frelsis. Engar byssur, hnífar eða sprengur. Raddir fólks með frelsið í hjarta – besta byltingaraðferð heimsins. Og það var hrífandi að kynnast söngmætti Eista og mikilli tónlistarvisku. Og Arvoo Pärt er uppáhalds.

Á þessum slita- eða lokatíma kommúnismans var hin forna borg Tallinn svört, skítug, lemstruð, í sárum. Hún var flekkótt vegna brútalískra sovéthrúgalda sem byggð höfðu verið til að hýsa nútíma Eistlands. Í þessari fyrstu heimsókn minni bjó ég á Olympíuhótelinu sem var byggt norðan við borgina. Sú bygging var með þeim skári. Leigubílstjórarnir keyrðu Lödurnar hratt inn í borgina. Það var bræla í gömlum bílunum og okkur, útlendingunum, leið illa á ofsahraða sem var umfram getu bílanna. Ég var á guðfræðiþingi sem Lútherska heimssambandið hélt, kynntist þá kraftmiklum ungprestum Eista og norrænum guðfræðingum og háskólakennurum. Mörg þeirra hef síðan hitt á kirkjufundum. Og nú er ég enn með þeim dásamlega Matin Lind, sem dansaði glaður og dreifði óhikað húmor og kraftmikilli guðfræði í kjötlausu Eistlandi sóvéttímans. Hann kenndi sænskum guðfræðinemum og varð svo með merkustu biskupum sænsku kirkjunnar á tuttugustu öld. Nú er hann, á áttræðisaldri biskup lútherana á Bretlandseyjum, alltaf nálægur, líflegur, skapandi guðfræðingur, enda Bonhoeffermaður.

Það var merkilegt að tala við fólk í Eistlandi á þessum breytingatímum. Átök voru í kirkjunni um hversu hratt ætti að fara í frelsissókninni og þar með átökum við Rússa. Eiginlega tókust á reiðir, ungir menn við hrædda, reynslumikla eldri menn (þekkir þú hliðstæðuna ?). Út í sveit, suður af Tallinn, kynntist ég kirkjulífinu sem átti rætur í þykkni aldanna og bar svip lífsreynslunnar. Þar var Jüri Bärg, merkilegur prestur, frægt ljóðskáld, hippi, sem hafði yfirgefið menningarelítuna í Tallinn til að fara út í sveit til að þjóna fólki. Það var hrífandi að sjá hlý samskipti hans við sóknarfólkið – heilagleiki sem maður ímyndaði sér að aðeins væri til í rómantískum biblíumyndum. En svo var þetta raunverulega fólk, sveitasamfélag og alvöru prestsþjónusta. Skáldið Jüri Bärg var dýrlingur. Hann minnti mig á tengsl Sigurbjörns Einarssonar við fólk – en þó þeir væru ólíkir í útliti voru þeir báðir hárprúðir. Kannski hippar Guðs.

Niður við strönd Eystrasalts var okkur, fundarfólki, kynnt hvernig kirkjan hafði verið meðhöndluð af tröllum tuttugustu aldar. Í strandbæ hafði kirkjunni verið breytt í liðsforingjaklúbb en söfnuðinum hafði tekist að forða altaristöflunni áður en tröllin áttuðu sig. En svo þegar fókið fékk kirkjuna sína að nýju kom altaristaflann úr geymslu háalofts í bænum. Og viti menn, þar var ein af mörgum kópíum af mynd Tégners sem er m.a. í dómkirkjunni í Reykjavík. Samsláttur tíma og staða, alda og safnaða. Vegir Guðs eru alls konar.

Gengi Rússaunglinga fór um götur Tallinn árið 1990, eyrði engu og réðust m.a. á okkur útlendinga. Fara varð með einn úr okkar hópi, Englending, á sjúkrahús. Svo illa var hann leikinn af bullum götunnar. Merkilegt þótti mér að verða vitni að því þegar þjóð var mikil af sjálfri sér og magnaðist til sjálfstæðis. Þessi reynsla gaf mér vitund um tilfinningar sem afar mínir og ömmur á Íslandi höfðu borið í brjósti einni öld fyrr. Um haustið prédikaði ég heima, við þingsetningu í dómkirkjunni, út af þessum átökum í Tallinn. Margir þingmenn komu til mín á eftir og vildu heyra meira um Eistland, árásir á götunum og viðhorf heimafólksins.

Árið 1998, átta árum síðar, kom ég svo til Tallinn að nýju. Þá var ég í fríðum hópi Mótettukórs Hallgrímskirkju. Kórinn var í söngferð um Norðurlönd í sumarbyrjun 2008. Við sungum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Eistlandi. Meðal þess sem var á efnisskrá voru Óttusöngvar á vori, hið magnaða verk snillinganna Matthíasar Johannesen og Jóns Nordal. Kórinn hélt flotta tónleika 8. júní. Forseti Íslands var í opinberri heimsókn til Eistlands. Því var þjóðsöngurinn fluttur, en upphafið þó oftar en heildin – þ.e. tvisvar. Fyrstu tónarnir voru ómstríðir og Hörður Áskelsson, stjórnandinn, sló af. Svo var byrjað hreint og aldrei hefur lofsöngurinn verið sunginn af meiri innlifun og ákefð en í Karlskirkjunni þennan dag. Þannig var og er aginn og andinn í Mótettukórnum, mistök magna snilld. Hvort er mikilvægara að muna upphafið, eða heildarupplifunina eða hvort tveggja? En ég man dásemdina vegna hins óvænta og skelfandi upphafs. Framhaldið var skemmtilegt í þjóðarbókhlöðunni eftir tónleikana. Forseti Eistlands var hlýr í garð okkar Íslendinga. Baltnesku þjóðirnar gleyma ekki frumkvæði Jóns Baldvins og Íslendinga í frelsisbaráttunni. Hann er hetja og stórmenni við austanvert Eysstrasalt. Svo er líka spurning um um hvað við munum í pólitíkinni og hvernig.

Árið 2002 kom ég svo á fund Porvoo-kirknasambandsins í Tallinn. Anglikanar og Lútheranar eiga með sér samtök og á þessum árum og svo á síðari árum hef ég verið fulltrúi þjóðkirkjunnar í samtökunum. Síðan er fundur sömu samtaka í Tallinn í október 2018. Og aftur gisti ég á sama hóteli og fyrir 16 árum, rétt við gömlu Tallinn, sem er réttilega á menningar- og minjaskrá Unesco.

Borgin hefur breyst mikið á þessum 28 árum síðan ég kom fyrst. Nú er hún hrein, sótið er horfið. Búið er að laga flestar byggingar eftir húsakreppusótt kommúnismans. Meira segja kirkjurnar eru pússaðar og fallegar. Kirkjurnar í miðborginni voru í hræðilegu ástandi árið 1990. Tiit Päddam, arkitekt, var ungur biskupssveinn á þeim tíma og gekk í verkin ásamt vaskri ungsveit kirkjufólks í Eistlandi. Allir sem komu til Eistlands á þessum tíma gerðu sér grein fyrir að þörf var á stuðningi og norrænu kirkjurnar skáru ekki við nögl. Þökk sé þeim. Nú eru flest bráðaverkin unnin, en orgelin eru þó í þörf fyrir stillingu og viðhald. Sum þeirra eru með skerandi bænahljóm. Klukkurnar í turnunum eru sumar skringilegar í hljómi. En það tekur tíma að byggja upp allt það sem illa hafði farið á löngum krepputíma.

Tallinn á sér mikla sögu. Danir komu hér að ströndum og stjórn á þrettándu öld og jafnvel hugsanlegt að Tallinn merki einfaldlega borg Dana – á latínuninni var hún Castrum Danorum. Í Njálssögu er borgin nefnd Rafalasem er í samræmi við lík heiti borgarinnar á mörgum málum. Reveli hét hún gjarnan á fyrri öldum.  

Tallinn er eftir tæplega þrjátíu ára frelsi orðin alþjóðleg borg. Það er mikill kraftur í atvinnulífinu. Eistar hafa verið mjög dugmiklir í stofnun fyrirtækja. Brautryðjendaandinn lifir. Tölvutækninni var tekið fagnandi og sagt er að Skype eigi sér eistneskt upphaf.

Það er gaman að rölta um gömlu borgina, skoða handverksmuni, fara í kirkjurnar og horfa upp í himininn og skoða alla kirkjuturnana. Já Hallgrímskirkjuturn er flottur en við lok 16. aldar var helmingi hærri turn við Ólafskirkjuna í Tallinn! Hann varð nú reyndar eldi að bráð en er nú 123 metrar sem er fimmtíu metrum hærri en okkar heima. Það er hægt að hlaupa upp allar tröppurnar í þann turn, sem eru á þriðja hundrað ef farið er alla leið. Það er talsvert. Mér er til efs að þéttleiki kirkna sé nokkurs staðar meiri en í miðborg Tallinn. Takk fyrir mig og takk fyrir margra alda og dásamlegu Tallinn.

Svo mæli ég með hinu frábæru veitingastöðum sem eru í borginni. Ekki fara á þá ódýrustu. Fáið ráð hjá Tripadvisor, Michelin og öðrum góðum ráðgjöfum. Lítið dýrara en mörgum sinnum betri veitingastaðir.