+ Bjarni Bragi Jónsson +

Bjarni Bragi fór inn í Greyhound-rútu í Kaliforníu, bauð góðan daginn og kom sér vel fyrir. Svo hófst ferðin og Íslendingurinn hreifst svo af öllu sem skynfærin færðu til heilans að hann stóð á fætur og byrjaði að syngja. Og allir í rútunni heyrðu og einn kallaði: „Hey, listen to the tenor.“ Þetta er heillandi mynd. Gestakennarinn í Pomona-College svo snortinn af undri veraldar að hann söng. Og þannig þekkjum við mörg Bjarna Braga Jónsson, hæfileikamann, tilfinningaríkan snilling sem hló, orðaði viðburði lífsins, túlkaði en stundum þurfti hann bara að syngja. Og börnunum hans þótti þetta ekki smart þegar þau voru yngri. Einu sinni barst söngur Bjarna Braga í sumarblíðunni um austurhlíðar Kópavogs. Og krakkarnir hættu leik og sperrtu eyru: „Er þetta pabbi þinn?“ Svörin komu seint og ógreinilega. Og svo þegar hagfræðingur Seðlabankans kom inn í strætó á leið í vinnuna bauð hann auðvitað góðan daginn. En börnum hans þótti tryggara að fara á afasta bekkinn og hafa hægt um sig því fyrr en varði hafði Bjarna Braga lánast að hleypa farþegunum í umræðu um stórviðburði í pólitíkinni. Og ef tilfinningin var rétt breyttist strætó á leið úr Kópavogi niður í bæ í ómhöll á hjólum. Tilfinningar kalla á söng. Og Bjarni Bragi var þeirrar gerðar að hann leyfði tilfinningum heimsins að hríslast um sig. Og við sem kynntumst honum þökkum litríki hans, gáfur, afrek, húmorinn, snilld, djúpsækni, þor og elskusemi. Í öllu var hann stór – var hástigssækinn – eins og hann orðaði það sjálfur.

Upphafið

Bjarni Bragi Jónsson var sumardrengur, fæddist á Kárastíg 8. júlí 1928 og hefði því orðið níræður sl. sunnudag. Foreldrar hans voru Jón Hallvarðsson, síðar sýslumaður í Stykkishólmi og hæstaréttarlögmaður, og Ólöf Bjarnadóttir, húsmóðir og síðar iðnverkakona í Reykjavík. Bjarni Bragi var næst-elstur systkina sinna. Baldur var tæplega tveimur árum eldri. Sigríður fæddist árið 1931 en Svava 1932. Nú eru þau öll látin.

Í óbirtri ævisögu Bjarna Braga segir fjörlega frá litríkum uppvexti við Skólavörðuholtið, flutningi til Vestmannaeyja og síðan í Stykkishólm. Lögfræðingurinn, faðir hans, var yfirvaldið í Eyjum og síðan sýslumaður í Hólminum. Hvernig skólast manneskjan? Hvað mótar okkur? Í þessum minningum dregur hann saman hvernig hann mótaðist af umhverfi, mikilli ættarsögu, glímunni við aðstæður og einstaklinga og breytingar. Það þarf ekki að lesa lengi eða langt til að sjá að áhugasvið Bjarna Braga var víðfeðmt. Han skrifaði merkilegan texta um eðli minninga, sem sýnir sálfræðifærni hans. Svo eru þessi skrif um mannlíf á Skólavörðuholti, í Eyjum og Stykkishólmi svo ríkuleg að aðeins þeirra vegna er ástæða til að gefa út. En það sem hreif mig mest er hve ærlegur og afslappaður – í hispursleysi sínu – Bjarni Bragi var í söguritun sinni. Hann skrifaði óhikað um lesti sína sem kosti og um vonbrigði eins og sigrana. Og gæfu fjölskyldunnar lýsti hann jafn vel og að peningar tolldu ekki við föður hans. Þannig sögur eru betri en fegrunarsögur og söguritarinn nýtur virðingar fyrir þroskaða túlkun og heilindi.

Bjarni Bragi lauk stúdentsprófi frá MR árið 1947. Hann var alla tíð mikill og öflugur námsmaður en mér kom á óvart að hann hafði skipt um deild í MR, fór úr máladeild í stærfræðideild. Það sýnir þor hans, mörg áhugasvið sem kölluðu og löngun til fjölfræða. Svo var hann alla tíð félagslega opinn og virkur. Og hann var inspector scholaeí MR, sem er æðsta virðingarstaða nemenda í skólanum. Síðan hófst viðburðaríkur náms- og vinnuferill heima og erlendis. Bjarni Bragi lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ árið 1950, stundaði framhaldsnám við Háskólann í Cambridge í Englandi árin 1957-59. Og hann fór í lengri og skemmri náms- og kynnisferðir til ýmissa alþjóðlegra hagstofnana. Bjarni Bragi var skrifstofumaður hjá Olíuverslun Íslands, fulltrúi í útflutningsdeild SÍS og síðan í hagdeild Framkvæmdabanka Íslands. Hann var í fimm ár ritstjóri tímaritsins Úr þjóðarbúskapnum, síðan ráðgjafi hjá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, deildarstjóri og síðan forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, framkvæmdastjóri áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, hagfræðingur Seðlabanka Íslands, aðstoðarbankastjóri og síðast hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnarinnar þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1998. Þá var Bjarni Bragi stundakennari í mörg ár við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Og svo söng Bjarni Bragi ameríska söngva í Greyhound-rútunni þegar hann var gistiprófessor við Pomona College í Bandaríkjunum árið 1964.

Bjarni Bragi skrifaði fyrr og síðar mikið um efnahagsmál og farsæla stjórn þeirra. Þegar árið 1962 fór hann að ræða um að besta leiðin til að stýra íslenskum fiskveiðum væri að koma á auðlindagjaldi. Það myndi hafa gæfulegar efnahagslegar afleiðingar og stuðla að heilbrigði atvinnulífs. Árið 1975 hélt hann frægt erindi um auðlindaskatt, iðnþróun og efnahagslega framtíð Íslands og Seðlabankinn gaf út bæði á íslensku og dönsku.[i] Í baksýnisspeglinum virðist ljóst, að betur hefði tekist í fjársstjórn og fjármálum þjóðarinnar ef ráðum Bjarna Braga hefði verið fylgt.

Virkur í félagsmálum

Bjarni Bragi var alla tíð leiðtogi. Hann sló gjarnan í glas á mannfundum, hélt mergjaðar og túlkandi ræður. Svo var hann mjög klár uppistandari og rífandi skemmtilegur á mannfundum. Hann hreif fólk með sér og var því gjarnan kallaður til ábyrgðar og stjórnar. Á æskuárum var hann vinstrimaður og það er fyndið að lesa hans eigin frásögn um ákafa hans í málum heimsbyltingarinnar. Hann segist hafa safnað klisjum og verið vinsæll vestur á Snæfellsnesi og þmt við eldhúsborðin í sveitum landsins. Þar hafi hann slegið um sig. Einu sinni voru þeir Árni Pálsson, síðar prestur í Kópavogi, á frívaktinni í vegavinnunni. Bjarni Bragi var alla tíð vinnuþjarkur og þegar hann sleppti skóflunni settist hann inn í tjald með hvorki ómerkari bók en stjórnarskrá Sovétríkjanna og með formála Stalíns. Og þar sem hann sat og lærði þennan kommúníska jús greip galgopinn Árni bókina af borðinu og hljóp vel bússaður út í miðja á. Þar stóð hann, hélt bókinni yfir vatninu og hótaði að láta hana detta. Bjarni Bragi þaut á eftir honum og vélaði hann í land með köstum og orðum. En þó hann bjargaði bókinni og yrði formaður Æskulýðsfylkingarinnar tókst honum aldrei að verða eðlislægur marxisti heldur þorði að breyast og endurskoða gildi, fræði og líf. „Ég reyndi að sjóða … einhvern almennan hugsjónavelling …“ sagði hann. En Sovétbókin og fræðin flutu þó frá Bjarna Braga í flaumi tímans. Þegar hann fór að rýna í hagtölur og kynnist atvinnulífinu færðist hann frá vinstri bernskunnar til hægri fullorðinsáranna. Bjarni Bragi skipti algerlega yfir í pólík og var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann var mjög virkur félagslega alla ævi og jafnan í fremstu röð. Rotary-klúbburinn í Kópavogi naut löngum krafta hans. Hann var formaður Stofnunar Sigurðar Nordal á árunum 1993-99. Og Bjarni Bragi var syngjandi leiðtogi og mörgum eftirminnilegur þegar hann tróð upp og jafnvel tvistaði og söng „Þegar hnígur húm að Þorra.“ Svo söng hann í ýmsum kórum, m.a. Pólýfónkórnum í nær tuttugu ár og sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir kórinn. Bjarni Bragi söng svo sinn svanasöng í Hljómi – kór eldri borgara hér í Neskirkju. Þau hjón voru þar í góðum hópi. Það var gaman að vera á skrifstofunni í safnaðarheimilinu og hlusta á félaga Bjarna Braga – og þau hjónin líka – þenja raddirnar og kalla fram sálma lífsins.

Fjölskylda

Og þá er komið að Rósu og fjölskyldu. Þau voru hátt uppi þegar þau kynntust í Hvítárnesi á Kili. Bjarni Bragi efndi til hálendisferðar Æskulýðsfylkingarinnar og þar var Rósa Guðmundsdóttir með í för og systur hennar einnig. Rósa hefur alla tíð séð gullið í fólki og heillaðist af þessum káta og fjölfróða syngjandi formanni. Tilhugalífið var stutt og þau Bjarni Bragi og Rósa gengu í hjónaband árið 1948 þegar hann var 19 ára og hún 18. Þau voru því búin að vera hjón í 70 ár þegar Bjarni Bragi fór inn í ómhús eilífðar. Heimili þeirra Rósu og Bjarna Braga var hamingjuríkt. Þau stóðu alla tíð þétt saman, studdu hvort annað og virtu. Og það var hrífandi að sjá hve hrifinn Bjarni Bragi var af Rósu sinni, sem endurgalt tilfinningar hans og gætti hans og styrkti allt til enda.

Barnalán þeirra Bjarna Braga og Rósu

Þau Rósa nutu nutu barnláns. Jón Bragi var elstur, fæddist árið 1948. Hann var frumkvöðull eins og hans fólk, var ekki aðeins afburða kennari í efnafræði, prófessor við Háskola Íslands heldur höfum við mörg notið hugvits hans í notkun þorskafurða í smyrslum frá Pensími, sem hann stofnaði. Bjarni Bragi minnti son sinn gjarnan á að móðir hans hafi verið hans fremsti stuðnings- og sölu-aðili í upphafi. Fyrri kona Jóns Braga var Guðrún Stefánsdóttir og seinni kona hans var Ágústa Guðmundsdóttir. Jón Bragi varð bráðkvaddur árið 2011. Þeir feðgar og nafnar voru nánir, báðir fjölfræðingar og skoðuðu flest mál sjálfstætt. „Ef ég þarf eitthvað get ég alltaf leitað til pabba“ sagði Jón Bragi.

Olöf Erla, fæddist árið 1954. Hún er keramikhönnuður og kennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hennar maður er Sigurður Axel Benediktsson. Bjarni Bragi var stoltur af listfengi dóttur sinnar og fagnaði vegtyllum hennar heima og erlendis. Hann kynnti hreykinn dóttur sína með þeim orðum, að hún væri heimsfrægur keramiker og meistari í listfræði. Hann hafði ekki aðeins gleði af samskiptum við hana, heldur virti verk hennar og studdi hana.

Gumundur Jens er yngstur þeirra systkina, fæddist árið 1955. Hann er lyfjafræðingur. Kona hans er Ásta Hrönn Stefánsdóttir. Hann var giftur Guðrúnu Steinarsdóttir en þau skildu. Síðar bjó hann með Vigdísi Sigurbjörnsdóttir sem féll frá árið 2012. Þegar Guðmundur vitjaði Bjarna Braga á sjúkrastofnun kynnti hann nærstöddum son sinn svo, að Guðmundur spilaði á öll hljóðfæri og syngi allar raddir! Það þótti söngvaranum, pabbanum, stórkostlegt og aðdáunarvert.

Börn þeirra Rósu og Bjarna Braga fóru í æsku með þeim um heiminn, voru með þeim í Cambridge, París og Oslo og eitt þeirra í Kaliforíu. Þau nutu útsýnar og glímdu við fjölbreytilegar aðstæður í skólum, menningu, pólitík, félagsefnum og fjölskyldu. Og svo var Bjarni Bragi alltaf opinn og til í að miðla. Hann var góður, ögrandi kennari og vænti þess að ungviðið reyndi á sig. Hann gaf þeim mikla forgjöf í skák þeegar þau voru að byrja, jafnvel helming leikmanna sinna. En hann vænti þess að þau gerðu sitt besta og kættist þegar hann fann í þeim sóknarhug. Og í Bjarna Braga áttu þau og barnabörnin alltaf keppnismann sem hægt var að virkja. Hann vildi blása þeim hástigssókn í brjóst.

Heimilislífið var glaðvært. Bjarni Bragi studdi Rósu í námi og störfum og mat mikils kennslustörf hennar. En hann gætti þess vel að greina að trúnaðarmál í bankanum og heimalífið. Þegar gengisfellingar dundu reglulega yfir íslenskt samfélag spurði Rósa hann einhvern tíma af hverju í ósköpunum hann hefði ekki sagt frá að fella ætti gengið. Það hefði nú verið hentugt að geta keypt eldavél eða búshluti. Þá hló Bjarni Bragi hjartanlega og sagði að það mætti hann ekki. Og þannig var hann gagnvart fólkinu sínu, vinnunni og veröldinni – heiðarlegur, ábyrgur og siðlegur. Á heimili Bjarna Braga var ekki hægt að merkja yfirvofandi gengisfellingu.

Við tímamót hef ég verið beðinn að bera ykkur kveðju Bjarna Braga Jónssonar yngri og Hólmfríðar unnustu hans. Þau eru í Sviss og geta ekki verið við þessa athöfn í dag. Ennfremur biðja Sverrir Guðmundsson og Þórdís Ingvarsdóttir fyrir kveðjur.

Minningar

Hvernig manstu Bjarna Braga Jónsson. Manstu hve skemmtilegur hann var? Oft fyndinn en alltaf hnyttinn! Djarfur ræðumaður. Manstu vinsemd hans og glettnina, áhugann og duginn? Manstu hve góður hagfæðingur hann var? Manstu einbeitni hans, að hann gat lesið námsbók um leið og hann var á kafi í barnableyjum. Manstu íslenskuhæfni hans? Svo var hann konungur minningagreinanna. Vissir þú að að Bjarni Bragi magnaði alla ungu hagfræðingana þar sem hann var, umgekkst þá sem jafningja og hvatti til dáða. Hann var ekki aðeins veitull í fræðasamhenginu heldur líka sem kollegi. Manstu ættfræðiáhuga Bjarna Braga og víðfeðma og langsækna þekkingu á tengslum og ættum. Og hann var ekki lengi að rekja saman ættir og ekki höfðu við fyrr kynnst á sínum tíma en hann var búinn að tengja. Manstu hve vel Bjarni Bragi var að sér í tónlist og hvernig músíkin liðaðist í öll fræði og kryddaði allt líf? Hann söng Schubert í Vín og ameríska og jafnvel skoska slagara í Kaliforníurútu. Manstu fræðafang hans, hve vítt það var? Mér þótti skemmtilegt að tala við Bjarna Braga um guðfræði. Hann var gagnrýninn trúmaður og við vorum hjartanlega sammála um bókstafshyggju og trúarlega grunnfærni. Hann var vel lesinn og lagði sig eftir helstu straumum og stefnum í guðfræði rétt eins og öðrum greinum. Og á fyrri parti ævinnar velti hann vöngum yfir hvort hann hefði átt að verða við hvatningu sr. Jakobs Jónssonar í Hallgrímskirkju um að læra til prests því þjóðin þyrfti besta fólkið í prestastétt. Svo var Bjarni Bragi sinn eiginn lögfræðingur, hann kunni að leita að og lesa lagatexta. Manstu hve reglusamur hann var? Sástu einhvern tíma fjölskyldumyndabækurnar og hve vel þær voru gerðar og í þær raðað? Manstu hagyrðinginn Bjarna Braga og orkti hann jafnvel um þig? Hann ljóðaði jafnvel til dóttur sinnar einu sinni í útför og bað um að hún gerði duftkerið hans. Og þessa vel sniðluðu bón má sjá aftan á sálmaskránni. Og við henni verður orðið. Austfirska smáblómið við hlið vísunnar er verk Rósu. Manstu hve opinn og spurull Bjarni Bragi var? Spurði hann þig einhvern tíma hvernig gengi í ástalífinu? Stundum setti hann fílterarna til hliðar til að tala sem beinast og greiðast! Og manstu hestamanninn á Seljum á Mýrum? Manstu vininn Bjarna Braga og hve vel Rósa og hann ræktuðu vini sína?

Og nú er hann farinn – til fundar við Jón Braga, systkini, foreldra og ástvini. Bjarni Bragi var stórkostlegur. Var hann gáfaðasti maður Íslands eins og einn samferðamanna sagði um hann? Það er mikil samkeppni um sigur í þeirri keppni. En Bjarni Bragi var í landsliðinu. Nú er söngurinn hans er hljóðnaður í tíma en ómar í eilífð. Þökk sé honum – fyrir kærleika hans, verk, hugsjónir, fólkið hans. Þökk sé fyrir hagfræðina, kátínuna, dans, ræður, kímni, – Já þökk fyrir Bjarna Braga Jónsson. Guð geymi hann í sönghúsinu, þar sem allt gengur upp, ekki þarf að greiða leigu fyrir kvóta og allt er í hástigi. Þar er bara söngur.

Í Jesú nafni – amen.

Útför frá Neskirkju föstudaginn 13. júlí 2018. Bálför. Erfidrykkja í Súlnasal Hótel Sögu.

[i]http://www.visir.is/g/2018180719712/minning-u

+ Haukur Bergsteinsson +

„80 ára og heldur uppá 1500 sjósund með því að synda sjósund við Nauthólsvík í Reykjavík.“ Þetta var yfirskriftin á fréttavef á vefnum fyrir einu og hálfu ári síðan. Haukur hafði að venju farið í Nauthólsvík, hitt félaga sína og vini. Svo fór hann í sjóinn og synti tvö hundruð metra. „Það er stórkostleg tilfinning“ sagði hann fréttamanninum og upplýsti að hann hefði byrjað sjósund vorið 2008. Hann hefði langað til að athuga hvort hann gæti farið í svo kaldan sjó og hefði byrjað á því að fara í sjóinn í eina mínútu. En svo hefði tíminn lengst og hann hefði farið að skrifa hjá sér þegar hann hefði farið í sjóinn og líka hvert hitastigið væri. Og svo var hann búinn að synda 1500 skipti þegar blaðamaðurinn ræddi við hann.[i]Já, Hauki fannst það dásamlegt tilfinning. Fjöldi Íslendinga og fólk um allan heim fer í kalt vatn, kaldan sjó, sér til heilsubótar.Og áður en yfir lauk hafði Haukur farið í sjóinn 1708 sinnum, fundið fyrir flæði adrenalínsins í líkamanum, fundið viðbrögðin, kuldan, en naut líka hinnar sterku upplifunar eftir sundið, þegar vellíðanin flæðir um æðar, vöðva, sinar og húð. Og samfélagið er glatt í lauginni.

Vatn fyrir lífið

Ylströndin og Nauthólsvík eru fyrir lífið og miðla lífsmætti og lífsnautn til notenda sinna. Og baðferðirnar eru til hressingar og gott samfélag verður í þeim hópi sem sækir í sjóinn. Og svo hefur verið um allar aldir að vatnið heillar, nærir, eflir, stælir og skapar tengsl og samfélag. Og vatn markar upphaf og endi. Meira segja Jesús Kristur sótti í vatn þegar hann byrjaði starfsferil sinn. Hann fór að ánni Jórdan. Jóhannes skírði hann og þar með hófst ferli eða vegferð sem hefur haft áhrif á heimsbyggðina síðan. Kristnum mönnum frumkirkjunnar þótti þessi vatnssókn Jesú merkileg og tóku mark á henni. Síðan eru skírnarlaugar í kirkjum heimsins. Við hliðina á kistunni hans Hauks er fagur skírnarfontur Leifs Breiðfjörð sem minnir á þessa vatnssókn kristinna manna um aldir. Og fontar kirknanna, líka þessarar kirkju, minna á að Guð nærir og elskar mennina, leyfir okkur að njóta vatnsins, gefur okkur vatn til að baða okkur í. Og við þiggjum lífið að gjöf frá Guði. Vatnið er ævarandi tákn um að við lifum, megum lifa, erum elskuð og getum elskað. Við erum lauguð, sækjum í laugun og svo megum við – þegar þar að kemur – njóta lífsins á Ylströnd eilífðar.

Upphafið

Haukur Bergsteinsson fæddist inn í vorið árið 1936. Hann fæddist 5. maí. Foreldar hans voru mikið dugnaðar- og afreksfólk. Móðir hans var Margrét Auðunsdóttir, verkakona og verkalýðsleiðtogi í Reykjavík. Faðirinn var Bergsteinn Kristjónsson, kennari á Laugarvatni. Bæði voru Sunnlendingar. Margrét var Skaftfellingur, frá Eystri-Dalbæ í Landbroti í Vestur Skaftafellssýslu. En Bergsteinn var Árnesingur, frá Útey við Laugarvatn. Þau Margrét og faðir Hauks bjuggu ekki saman og Haukur var eina barn Margrétar. Börn Bergsteins og yngri hálfsystkin Hauks eru eru: Sigríður, Hörður, Kristín, Áslaug og Ari.

Skóli, vinna, hjúskapur og dætur

Haukur sótti skóla í Austurbæjarskóla. Hann bjó í nágrenni Skólavörðuholtsins, við Barónsstíg og Bergþórugötu. Svo fylgdist með uppbyggingunni á Holtinu, líka hvernig sprengt var fyrir kirkjukjallaranum og síðan byggt. Hvernig herinn byggði í kapp við íbúana og tók yfir hluta Skólavörðuholtsins. Drengurinn óx til manns og þegar hann hafði aldur til fór hann í Iðnskólann hér á holtinu og lærði málmsteypu og vann við iðn sína um tíma. Haukur var alla tíð opinn og sótti í aukna menntun og reynslu. Og hann réð sig á norsk farskip og sigldi um öll heimsins höf og náði að skoða veröldina og kom í allar heimsálfur. Hann var kannski á undan sínum tíma því sum skipin sem hann var á voru farþegaskip og hann náði því að krúsa um heiminn. En þessar ferðir breyttu ekki aðeins heimssýn hans og afstöðu til veraldarinnar heldur einnig atvinnu því Haukur veiktist af berklum í Afríku. Hann kom heim og fór á Vífilsstaði sér til heilsubótar. Á hælinu kynntist hann fyrri konu sinni og eftir veruna þar breyttist atvinna hans. Haukur gekk að eiga Málfríði Steinsdóttir og eignaðist með henni dæturnar Margréti og Agnesi. Margrét var fædd 17. apríl árið 1964. Hún var barnlaus og lést árið 2010. Agnes fæddist nákvæmlega tveimur árum á eftir systur sinni, eða 17. apríl, 1966. Hennar maður erÞórir Borg Gunnarssyni. Börn Agnesar eru Sara Borg Þórisdóttir og Haukur Borg Þórisson. Haukur og Málfríður skildu.

Haukur var natinn faðir og sinnti dætrum sínum vel. Og svo var hann á Norðurlandaferð með dætrunum og Margréti móður sinni. Hún hafði samband við Landsýn og spurði hvort einhverjar norðurlandaferðir væru á dagskrá ferðaskrifstofunnar. Já, þá var Samkór trésmiðaað taka þátt í móti í Oslo og Haukur og fjölskylda gætu fengið að fara með. Svo fóru þau af stað í dásamlega ferð. Og í Samkórnum var Ragna Guðvarðardóttir, úr Fljótum í Skagafirði, Ragna gerði sér grein fyrir að þessi Haukur var góður við dætur og mömmu. En hún hugsaði svo ekki meira um hann. Síðar hittust þau og þá gerði hún sér grein fyrir að þessi Haukur var ekki eins mikið unglamb og hún hugði og þau felldu hugi saman, gengu í hjónaband og voru búin að búa saman í nær fjóra áratugi.

Haukur mat Rögnu sína mikils, vináttuna við hana, hæfileika hennar og getu, sem hann dáði. Og þökk sé Rögnu fyrir hve gott heimili hún bjó Hauki og virti þarfir hans og uppátæki. Og studdi hann og styrkti allt til enda.

Vinnan

Þegar Haukur hafði náð sér af berklunum á Vífilsstöðum varð hann að breyta um vinnu. Hann vann um tíma við bensínafgreiðslu en fór svo í skóla að nýju. Hann lærði tækniteiknun og síðar landmælingar í Tækniskólanum. Og þá opnuðust honum dyr hjá Vegagerðinni. Hann hóf störf þar árið 1973 og átti farsælan feril þar yfir þrjátíu ár. Haukur fór víða um land og mældi fyrir vegastæðum, hljóp um fjöll með tæki, setti niður punkta og mældi. Við breytingar hjá Vegagerðinni varð Haukur hluti af Reykjanes-teyminu og kom að öllum framkvæmdum á því svæði. Þegar hann hafði rétt til að láta af störfum hætti hann opinberum störfum, en var ekki tilbúinn að hætta allri vinnu og var ráðinn til Vífilfells. Ekki er nú víst að sykur og safinn sem framleiddur var hjá Vífilfelli hafi verið áhrifavaldur, en það var mikill kraftur í starfsmannafélaginu og m.a. voru stunduð hlaup. Haukur hafði gengið mikið en aldrei stundað regluleg hlaup. En þau urðu honum gleði- og hreystigjafi. Haukur tók þátt í ýmsum hlaupum og rann mislöng skeiðin, m.a. hálft maraþon árið 2008, þá á áttræðisaldri.

Sjósundið og heilsurækt
Hlaupin voru Hauki heilsurækt og lífgjafi þegar hann greindist með krabbamin árið 2005. En þegar hann fékk svo lungnamein varð Haukur að hætta að spretta úr spori. Þegar ein leið lokast geta aðrar opnast – ef fólk er opið og þorir að breytast. Haukur hafði fyrr orðið að breyta í lífinu, breyta um starfsvettvang og hafði glímt við breyttar hjúskaparaðstæður. Þegar lungun voru orðin veil vissi hann að hann yrði að bregðast við og vinna að heilsurækt sinni. Þá gerði hann tilraunina með sjóbað. Og böðin, trúin á gæði þeirra og góður félagsskapur varð honum til eflingar. Haukur var mikils metinn heiðursfélagi í söfnuði sjóðbaðsfólksins. Það var sérstök heiðursstaða hans að fá heitt súkkulaði í heita pottinn í dýrlegum glæsibolla sem bara útvaldir nutu. Morgunblaðið birti einu sinni mynd af Hauki vera skenkt í bolla og þið getið gúglað Hauk á vefnum og skoðað myndirnar – þá sjáið þið skemmtilegheitin.

Og ef sjóböðin minna á skírn minna þessar skenkingar á kirkjulega altarisgöngu. Þegar Haukur gat ekki lengur skokkað tók hann til við fjallgöngur. Hann gekk á Hvannadalshnúk þegar hann var sjötugur, sem tjáir hve vel hann var að manni þrátt fyrir rosalega krabbameinsmeðferð. Síðar gekk hann á Heklu, fór yfir Fimmvörðuháls og gekk Laugaveginn úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Og oft fór hann á Esjuna og hundurinn Bubbi rölti stundum með honum. Og Haukur fór jafnvel einn á gamlárskvöldi til að geta – frá besta mögulega sjónarhorni – notið ljósadýrðar kvöldsins. Svo gekk hann á skíðum yfir Drangafjökul. Heilbrigð sál í hraustum líkama. Haukur vissi, að hann gat stuðlað að heilsubót og varð lengri og betri lífdaga auðið en annars hefði orðið. Haukur vissi um heilsumátt ofurfæðis og þau Ragna týndu á hverju hausti mikið af bláberjum til að eiga í heilsudrykki vetrarins, sem Haukur gerði af þekkingu og list.

Minningarnar

Félagarnir í sundinu sakna vinar síns. Og vogin sem hann gaf Nauthólsvík og Ylströndinni minnir nú alla á að heiðursfélaginn Haukur er farin í nýjar laugar. Nú eru skil, minningarnar mega gjarnan þyrlast upp í vitundina. Hvernig manstu Hauk Bergsteinsson. Manstu hve bóngóður hann var, greiðvikinn og umburðarlyndur? Keyrði hann þig einhvern tíma heim úr samkvæmi eða skaust með þig eitthvað? Manstu dansæfingar hans eða línudans? Manstu hve viljugur hann var að bæta við sig í námi eða sækja námskeið? Hann lærði skriðsund á síðari árum og bætti sig í öðrum greinum sunds. Hann var framúrskarandi í sínum aldurshópi og þegar hann keppti vann hann oftast til verðlauna (eins og sjá má á mynd í sálmaskránni). Haukur efldi tungumálakunnáttu sína og hikaði ekki við að læra nýtt tungumál. Hann fór á matreiðslunámskeið til að læra að elda handa elskunni sinni. Svo var hann allan daginn að búa til veislu og elda og Ragna beið uppi þar til henni var boðið til dýrlegrar máltíðar. Manstu hvað Haukur var opinn gagnvart nýungum t.d. í bílamálum. Hann keypti metagas-bíl og síðan rafmagnsbíl. Manstu hve þolinmóur og elskulegur hann var við ungviðið? Manstu reglusemi og vanafestu Hauks? Manstu allar húfurnar sem hann safnaði sér og hafði gaman af að hengja upp í forstofunni í Bræðratungunni? Og vissir þú að hann sá lengi um heimasíðuna sem Íþróttafélagsið Gló hélt úti? Manstu orðatiltækin hans? Manstu seigluna, nákvæmnina, vandvirknina og þolgæið? Og manstu hve umtalsfrómur hann var?

Dauðinn dó og lífið lifir. Nú er hann farinn, hann mælir ekki fyrir fleiri vegarstæðum, hleypur ekki á fjöll framar eða telur kjark í krabbameinssjúka. En minningin um hann lifir og fyrir honum er vel séð. Og himinvegurinn var vel mældur og frábærlega vel hannaður. Leið þess vegar var til lífs. Jesús sagði: Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið. Sú kristilega vegagerð var góð, sá sannleikur réttur og lífið gott. Nú er Haukur kominn alla leið og kannski farinn í sjósund eilífðar, á Ylströnd himinsins. Þú mátt leyfa honum að fara. Í þeirri dýrðarveröld er eitthvert himneskt stell borið fram og Hauki er boðið.

Guð geymi Hauk Bersteinsson í eilífð sinni, styrki Rögnu, Agnesi, Maríu, maka þeirra og afkomendur. Guð geymi þig í tíma og eilífð.

Amen.

Kistulagning í Hallgrímskirkju kl 11,30 – útför kl. 13 mánudaginn 16. júlí. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Nauthól að athöfn lokinni.

[i]http://gostaygo.is/80-year-old-icelander-celebrates-1500th-ocean-swim-at-nautholsvik-beach-reykjavik/

Liðsheildin á HM í Rússlandi

Þátttaka Íslands á HM 2018 var hrífandi. Liðið tryggði þátttökuna með glæsibrag. Það var ekkert gefið í undankeppninni og enginn veitti smáþjóðinni afslátt. Mörg okkar fylgdumst með undirbúningnum og svo hófst keppnin í Rússlandi. Jafnteflið við Argentínu í fyrsta leiknum var stórkostlegur árangur. Eftir tapið á móti spræku liði Nígeríu var allt lagt undir í lokaleiknum gegn Krótaíu. Leikur Íslendingana var í raun sigur. Liðið spilaði glæsilegan fótbolta og var óheppið að sigra ekki þann leik. Það vantaði aðeins herslumuninn að komast upp úr riðlinum. En það er ekki hægt að kvarta. Íslendingar eru í góðum hóp, sem er á heimleið, með Pólverjum og heimsmeisturum Þjóðverja ofl. Þetta heimsmeistaramót sýnir breiddina og dýptina á heimsfótboltanum. Engar þjóðir eiga neitt öruggt lengur. Fótboltinn hefur þróast svo að engar þjóðir eiga áskrift að árangri, sætum eða bikurum. Flestir leikir eru orðnir eru eins og úrslitaleikir, slík eru gæðin. Öll lið á HM eru frábær, líka okkar. Nútímafótbolti bestu liðanna er skapandi listgjörningur, eiginlega listsýningar.

Ég vek athygli á að það er fleira dásamlegt á þessu móti en töfrar í tám leikmanna. Það sem hefur hrifið mig mest við íslenska liðið er samheldni, virðingin í hópnum og samvinna. Stjörnustælarnir eru ekki sýnilegir í liðinu. Allir virðast vinna saman. Leikmennirnir vita, að þeir eru kannski ekki mestu listamenn fótboltans, en þeir eru hins vegar sannfærðir um að þeir geta flest, ef ekki allt, sem hópur. Samvinna, hópvinnan, hefur komið þeim á heimsmeistaramót sem milljónaþjóðum hefur ekki lánast. Þeir tala fallega hver um annan, rækta gleðina, grínast, hlægja, rækta félagsskapinn, tala liðið upp en ekki niður. Þeir brjóta ekki á liðsstjórninni heldur styðja ákvarðanir sem vissulega má deila um (sbr. leikskipulag Nígeríuleiksins).

Snilld íslenska fótboltalandsliðins er liðsheildin. Hún er til fyrirmyndar og eftir er tekið. Leikmennirnir hafa þegar unnið með efasemdir, tilfinningalega þröskulda og stefnumál. Þeir efast ekki um að þeir geti á góðum dögum unnið alla leiki. Þeir ætla sér alltaf langt. Enginn í liðinu ætlar sér eða reynir að lyfta sjálfum sér á kostnað annarra. Þeir gera þetta saman. Og ef hallað er á einhvern í liðinu er öllu liðinu að mæta. Enginn er gerður að blórabögli. Þeir eru samábyrgir.

Við getum lært margt af íslenska landsliðinu. Ekki aðeins fótbolta heldur hvernig má ná árangri. Vinnustaðir, félög, samfélög, söfnuðir, skólar, íslenskt samfélag – já heimsbyggðin – getur lært mikið af okkar landsliðum í fótbolota. Liðsheild verður ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. En lið geta orðið ógnarsterk ef unnið er með veikleikana, ef allir eru með og styrkleikar allra nýtast. Áfram Ísland og takk.

 

 

 

Frelsið eða dauðinn

Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Við komum bílnum fyrir í skugga frá stóru tré á bílastæðinu við Arkadiouklaustrið og röltum að hliðinu. Klaustrið stendur á lítilli sléttu í fimm hundruð metra hæð yfir sjó. Útveggir eru sem virkisveggir, klaustrið ferhyrnt og klefar og salarkynni klaustursins við útveggina. Við fórum um hliðið, greiddum elskulegum klausturverði aðgangseyri og gengum inn í klausturgarðinn. Við Elín Sigrún höfðum komið þarna fyrir mörgum árum og það var ljóst að margt hafði verið gert síðan til fegrunarauka og fræðslu. Vel hirtar rósir, kryddrunnar, ávaxtatré, margar tegundir blóma og vínviður glöddu augu. Svo var komið glæsilegt safn, sem gaf innsýn í sögu klaustursins. Og tíminn varð eiginlega þykkur.

Við gengum úr einni vistarverunni í aðra, dáðumst að húsum, munum og málverkum. Presturinn íhugaði mun vestrænnar og austrænnar kristni, helgimyndagerð – íkónógrafíu Grikkja og klausturskipulagið. Svo komum við að norðvesturhorni klaustursins og fórum alveg inn í horn. Þar var gangur og hlið og þar stoppuðum við. Þar vorum við komin að einum átakanlegasta stað Krítar. Og drengirnir mínir upplifðu þungan nið sögunnar og skelfingu stríðs.

Grikkir og Tyrkir hafa barist um aldir. Á nítjándu öld var Krít stríðssvæði. Árið 1866 flýði hópur í skjól í klaustrinu undan framsókn Tyrkja. Fimmtán þúsund hermenn á vegum Tyrkja sóttu að því. Þó klaustrið væri víggirt væri ekki hægt að verjast ofurefli. Engin hjálp barst að utan og Tyrkirnir brutu allar varnir. Augljóst var að blóðbaðið yrði ægilegt og fólkinu yrði misþyrmt og það vanhelgað. Og þá voru kostirnir tveir heldur aðeins einn: Dauði. Börn, konur, munkar og hermenn, á níunda hundrað manns, söfnuðust í gamla vínkjallarann. Þar voru tunnur með því púðri sem eftir var. Þegar Tyrkirnir komu hlaupandi var kveikt í púðrinu. Sprengingin var svo öflug að steinhvelfingar yfir þessum sal dauðans splundruðust og grjót og brak dreifðist víða. Dauðinn kom skjótt.

Tyrkirnir þóttust hafa unnið mikinn sigur, en dauði píslarvottanna hleypti lífi í frelsisbaráttu Krítverja og varð sem tákn fyrir alla Grikki. Rendurnar í fána Grikkja eru tákn um kostina sem einstaklingar og þjóðin hafa orðið að velja, frelsi eða dauða. Það var þrúgandi að standa á þessum stað þar sem svo margir létu lífið. Þjáningin var nánast yfirþyrmandi. Sótið er enn á veggjunum og eins og blóðlyktin hefði ekki alveg horfið. Miklir steinveggir, engin hvelfing heldur aðeins opinn himinn. Og við fórum inn í kirkjuna í miðjum klausturgarðinum, kveiktum kerti fyrir fórnarlömb grimmdar og stríða, táknkerti um rétt manna til að búa við öryggi og frið.

Hverjar eru hugsjónir okkar? Eru gildi algerlega sveigjanleg og afstæð? Eða er eitthvað svo mikils virði að án þess tapi lífið gildi? Er grimmd einhverra svo skelfileg, að skárri kostur sé að sprengja sig og börnin sín í loft upp? Foreldrum fyrri tíðar hefur það verið skelfileg siðklemma. 

Fyrir tæpum sautján árum (11. september) vorum við Elín Sigrún á þessum sama stað og íhuguðum frið og stríð, átök þjóða og hlutverk okkar. Á þeim degi var flugvélum rænt og m.a. flogið á tvíburaturnana í New York. Það var einkennilegt að koma frá klaustrinu og heyra um árásirnar í Bandaríkjunum. Þá sprungu flugvélar í okkur öllum. Hvaða gildi getum við gefið drengjunum okkar og iðkað svo þeir hafi veganesti til lífgjafar en ekki grimmdarverka? Við vildum sýna þeim þetta gríska klaustur sem væri tákn um baráttu fólks á öllum öldum. Þetta var ekki skemmtiferð, sem við fórum, heldur ferð á vit gilda, hugsjóna og lífsgæða. Þegar bænakertin ljómuðu inn í kirkjunni kviknaði bál tilfinninga hið innra. Aldrei aftur Masada, aldrei aftur Arkadiou, aldrei aftur Verdun, aldrei aftur Sýrland… Gegn dauðanum stendur alltaf frelsið, eini valkosturinn. 

11. júní 2018

Fagmennska og mennska

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.

Fagmennskan

Flest okkar viljum, að fólk sé fagmannlegt í því sem það gerir. Að það sinni störfum sínum í samræmi við eðli þeirra. Að það kunni sitt starf, beiti tækjum og tólum af þekkingu og í samræmi við reglur og staðla starfans. Og skili verki sínu óaðfinnanlegu. Það er metnaður okkar, að vera góð í því sem við höfum menntað okkur til og störfum við. Fagmaðurinn vill rísa undir væntingum og ljúka verki svo, að þau sem njóta eða kaupa þjónustuna séu ánægð og störfin séu helst umfram vætningar. En hvað er nóg? Getum við gert kröfu um að fagmennirnir séu skemmtilegir, fyndnir, hlýlegir og nærgætnir? Getum við gert kröfu um að auk góðrar vinnu sé fagmaðurinn líka nálægur og tillitssamur? Eiginlega ekki. Vissulega ætlumst við til að góður fagmaður sé ekki neikvæður, tuði ekki eða víbri af neikvæðni. Við væntum þess að fagmaður gæti að blanda ekki persónu sinni, heimilisvanda eða sérvisku inn í fagvinnu sína. Við viljum að mörk séu virt.

Nálægð – mennska

Og þá erum við aftur komin að hótelinu og starfsfólkinu þar. Öll eru þau einstaklega fagleg í þjónustu. Þau kunna verk sín, vinna af alúð, vanda sig og skila sínu. En hið einstæða er að þau eru ekki aðeins fagmannleg og hlutlaus, heldur nálæg og jákvæð. Öguð mennska er fléttuð í fagmennskuna. Langir vinnudagar breyta ekki nálgun þeirra. Þó ég hafi séð þau glöð að verki snemma dags kem ég að þeim að kvöldi jafn faglega einbeitt en líka nálæg og mennsk. Alltaf jafn örugg í starfi, vakandi yfir velferð fólksins sem þau þjóna, alltaf mild, til í glens, kunnáttusöm um mörk, aldrei ágeng, en þó föst fyrir þegar kemur að þjónustuþáttum og hlutverkum. Þetta eru hinir stórkostlegu plúsar í fagmennsku þessa fólks. Mikill lærdómur. Þau hafa dýpkað skilning minn á fagmennsku. Mennskan er eins mikilvæg og fagið í fagmennsku. Hús skipta máli, en fólkið í þeim er alltaf mikilvægast.

Fyrirmynd

Ég fór í frí en ég lærði mikið. Flest störf okkar í nútímasamfélagi eru þjónustustörf. Hvort sem við erum píparar, kennarar, ráðherrar eða þjónar störfum við fyrir fólk með beinum eða óbeinum hætti. Það er metnaðarmál fagmannsins að gera sem best, en það er hins vegar stórkostlegt þegar mennskan verður aðall fagmannsins. Þá er lengst náð. Þannig er það á hótelinu okkar. Og þannig vil ég helst vera í mínu þjónustustarfi sem prestur. Ég fór í frí og lærði mikið um mennskuna. Krítverjarnir eru mér skínandi fyrirmyndir um fagmennsku. Takk fyrir.

Hugleiðing 10. júní 2018.

Mynd hér að ofan er af nokkrum sem þjónuðu við matreiðslunámskeið einn daginn, kokkur, yfirkokkur og sommelier hótelsins. Allt skemmtilegir karlar, en konan sem stjórnaði var farin þegar náði mynd. Myndin af konum í viðburðastjórnun. Blómamyndin: Alla daga eru blóm sett í herbergi, aldrei eins svo það er alltaf einhver framvinda, enda mikill blómgróður á hótelsvæðinu.