Greinasafn fyrir merki: rjúpur

Skýtur presturinn engla?

Fyrir mörgum árum fór að vitja konu, sem hafði ekki lengur fótavist. Þegar við höfðum rætt saman um stund, reis hún upp við dogg í rúmi sínu, horfði alvörugefin á prestinn sinn og spurði: “ Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Ég hváði við og hún endurtók: “Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Til skýringar bætti hún við, að hún hefði heyrt, að presturinn hefði gengið til rjúpna, henni væri illa við slíkt og teldi það löst á ráði allra manna og hvað þá klerks. Já, ég viðurkenndi að ég hefði skotið svoleiðis engla og hún áminnti sálgæti sinn að hætta slíku. Síðan hef ég ekki skotið engla mér vitandi. Sjokkspurning hinnar öldruðu konu hafði tilætluð áhrif. Ekki held ég þó, að það sé dauðasynd að skjóta rjúpur. Öll nærumst við á því, sem lifað hefur og gefur öðru líf. Það er einn þátturinn í speki hinnar kristnu hefðar um líf Jesú og lífgjöf heimsins.