Greinasafn fyrir merki: 32. Passíusálmur

Bænatré heimsins

Litríkt birkitré var í Hallgrímskirkju á föstunni. Á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar í byrjun mars 2019 var lögð áhersla á náttúruvernd og mannvernd. Lagt var til að tré yrðu sett í kirkjurnar og síðan gæti kirkjufólkið náð sér í garnspotta og bundið á tréð. Garnið var í sjö litum og fólk valdi sér þann lit, sem vísaði til þeirra bænaefna sem skipti það mestu máli.

Ég sótti birkitré austur í Árnessýslu og kom fyrir í jólatrésfætinum mínum við prédikunarstól kirkjunnar. Það var hrífandi að taka þátt í gjörningnum, binda garnspottana og biðja. Tréð varð litríkt í messunni og brosti við sól og mönnum. Ekkert ýtti á að taka tréð niður strax og ferðamennirnir héldu áfram að binda sína bænaspotta á birkitréð allt fram til miðvikudagsins í kyrruviku.

Í öðrum kafla biblíunnar er sagt frá alls konar trjám og lífsins tré sérstaklega nefnt. Tré hafa fangað athygli okkar og þau hafa gefið mannkyni ávexti til næringar. Tré hafa orðið tákn um öryggi, næringu, andlega líðan og velferð. Í 32. passíusálmi íhugar t.d Hallgrímur Pétursson merkingu hins græna trés og líka hins visnaða. Kristnir menn hafa um allar aldir munað, að kross Jesú var tré í þágu lífsins. Og trén, sem tákn umhverfisverndar, hafa svo sprottið upp úr jarðvegi kristninnar.

Föstutréð í Hallgrímskirkju sló í gegn. Það var tákntré sem kallaði fólk til bæna. Tréð bar bænatákn alls heimsins. Og svo grænkaði það! Á bak við alla spotta og litina sprungu birkibrumin út. Lífið lifir. Bænir virka og Guð heyrir ágætlega.