EXIT

Ég var sjö ára gamall. Vorið var komið og börnin í götunni voru úti. Það var fjör á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna. Það var galsi í hópnum og ævintýraleiðangur hófst. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og einn úr hópnum sneri sér að mér og skipaði mér að að klifra upp í skottið. Ég hlýddi og þá var skottlokinu skellt aftur. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út!En strákarnir hlógu. Svo heyrði ég að þeir fóru, lokuðu bískúrshurðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran. Ég hafði verið úti, í birtu og undir berum himni frelsis og gleði. Allt í einu var ég strand í myrkri og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki vísaði veg í myrkrinu. Engin neyðarútgangur og ógerlegt að opna læsingu á skottlokinu. Mér tókst ekki heldur að spyrna því upp. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt? Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina? Ég komst að því að það væri það eina sem ég gæti gert. Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom einn af sökudólgunum og opnaði skottið. Hann hljóp svo burt. Ég brölti úr fangelsinu. Mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamleg og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun. Upprisa. 

Lokun

Innilokun er vond og getur valdið fólki djúptækum sálarskaða. Lokun getur verið með margvíslegu móti í lífi okkar manna. Við getum lokast í ofbeldissambandi eða í fangelsi fíkna. Vonska fólks getur farið illa með viðkvæmar sálir. Valdakerfi og hagsmunakerfi geta kramið. Áföll, veikindi og slys verða mörgum fjötrar. Kærleiksskert fólk kremur.

Oft hefur verið spurt hvað væri það hræðilegasta við það sem fólk túlkar sem helvíti? Svarið hefur löngum verið að þar væri engin neyðarútgangur, ekkert exit. Hið hræðilegasta af öllu skelfilegu erlokaður veruleiki. Dauðinn. Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni. Hann var þó ekki einn heldur í hlutverki sem fulltrúi allra manna. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Allt búið, engin útleið?

Út

Nútíma hús er svo gerð að fólk á ekki að geta lokast inni. Neyðarútgangar eru í byggingum, líka kirkjum. Til að leiðbeina fólki eru sett upp flóttaleiðarmerki. Á þeim er gjarnan mannvera á hlaupum. Þar er líka ör fyrir stefnu og oftast ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru líka í flugvélum og skipum. Merkin eru græn á Íslandi og í mörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. Neyðarútgangur stendur á sumum hinna íslensku. Erlendis stendur gjarnan EXIT á merkjunum. Þau eru vegvísar sem er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og reykur fylli hús.

Flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð. Þeim má treysta og stefnan út úr ógninni er gefin. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg? Jesús Kristur var ekki haminn af neinum festum. Grafhvelfingin hélt honum ekki föngnum. Dauðinn dó en lífið lifir. Opnun er einkenni lífs. Trúin sér í Jesú Kristi leiðina út úr heftingum. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn. Ekkert vinnupuð er honum framandi. Ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er við hlið fólks í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar og í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi okkar þegar við dettum, tekur á móti þegar við hrösum. Við erum laus úr skottinu því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. 

Páskar 2021

Ástarsaga

„Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. En hvað um Guð?

Hallgrímur Pétursson var ofurpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur lífs. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma. Hún er saga um hvernig hægt væri að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi og sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir allt ástarfólk.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs. Með því að skoða vel ástarsögur getum við komist að mörgu um Guð. Við getum líka skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

COVID-tíminn er tími þrenginga og endurskoðunar. Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort leggjum við á flótta og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd, þarfir eða áföll. Í Biblíunni og öðrum klassískum, kristnum bókmenntum eins og Passíusálmum er sagt frá lífi fólks. Þar er sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er svo sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins og öðrum áföllum. Það er erki-ástarsagan, um Guð, um heiminn og saga um fólk. Kristnin kennir að lífið er ekki aðkreppt heldur ástarsaga möguleikanna. Líf okkar er svo sannarlega stundum furðulegt, gleðilegt og sorglegt. En saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um okkur öll. Það er gott að elska.

Gleðilega páska á COVID-tíma.

Grein í Mbl á skírdegi 2021. Myndin er af gluggaskreytingu í stórverslun í San Francisco sem ég tók í janúar 2018.

 

 

Hvað meinti hann?

Hvað er inntakið eða merkingin í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar? Á fræðslusamverum í Hallgrímskirkju í mars var rætt um erindi sálma Hallgríms, uppbyggingu þeirra, tilgang, listfengi, barokk, málfar og ást. Guðríður Símonardóttir, kona Hallgríms, kom líka við sögu. Þrjár hljóðskrár urðu til í þessum samverum og hafa verið birtar á kirkjuvarpi þjóðkirkjunnar. Rætt er við Steinunni B. Jóhannesdóttur, dr. Margréti Eggertsdóttur og að auki flytur Sigurður Árni Þórðarson yfirlitserindi um um ástina í Passíusálmunum. Hægt er að nálgast og hlusta á samtölin og erindi að baki þessari smellu.

Ástin í Passíusálmunum

Ástarþörf er frumþrá allra manna og hjá mörgum blossar ástarþörfin upp þegar að kreppir og allar hvunndagsvenjur brotna og augn- og sálarskýlur eru dregnar burt. Í fyrra þegar farsóttarfárið byrjaði gekk ég meðfram bókahyllunum mínum og dró út nokkur rit sem tengdust farsóttum. Sú fyrsta sem ég dró út var Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni. Það er pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórens í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, sumar ansi safaríkar og margar um ástina. Já ástin sprettur fram á tímum kólerunnar – og það er nafnið á annarri bók, eftir meistara Gabriel Garcia Marques. Svo var La Peste – Plágan, bók Albert Camus. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju unglingsáranna. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif á mig. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann, svipað og við höfum orðið vitni að í ýmsum ríkjum erlendis. En söguhetja bókarinnar, læknirinn Bernhard Reiux mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Erindi bókar Camus er að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli hvort sem það ríkir plága eða ekki? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar.

Mig langar til að minna á tvær nýjar íslenskar ástarsögur sem urðu til á tíma hörmunganna. Báðar tjá að ástin blómstrar þvert á erfiðar aðstæður. Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði og gaf út bókina Snerting á liðnu ári. Söguhetjan Kristófer lokaði veitingastað sínum í Reykjavík þegar farsóttin byrjaði. Hann fékk í miðjum faraldri vinarbeiðni á facebook og þá var eins og allt ævipuðið gufi upp. Faraldurinn opnaði sálargáttirnar og þessi gamli maður lagði af stað í langferð, – í miðju veirufárinu – um tómar flughafnir og austur til Japan til að vitja sjálfs sín og ástarinnar sem hvarf frá honum en tilfinningin hvarf aldrei. Kreppur kalla fram djúpást lífsins. Þetta er einhver dásamlegasta ástarsaga sem ég hef lesið. Pestin hindrar ekki ástina heldur magnar.

Og af því allt skelfur og hristist þessa dagana er full ástæða minna á hina mögnuðu sögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir. Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar þjóðarinnar og helsti eldfjallasérfræðingurinn. (Hún er hliðræn, skálduð, útgáfa Kristínar jónsdóttur sem er í öllum fréttum þessa dagana). Versta útgáfa af nátturuhamförum dynja yfir. En það verða flekahreyfingar, sálarskjálftar í Önnu líka og hún verður ástfangin. Sagan er rosaleg. Þar er það ekki kyrrlát ást í pestinni heldur hamfaraást í sálardjúpum og náttúru. Og kannski er það svo að ástin hittir fólk með meiri þunga en jarðskjálftar hversu stórir og öflugir sem þeir eru. Allir þarfnast ástarinnar. En stundum leiðir hún til dauða af því samhengið er ekki virt og hamfarirnar eru of rosalegar. Ég vona að ég spilli ekki um of fyrir ykkur sem eiga eftir að lesa bókina.

„All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Ástarsagan

Og þá að ástinni í Passíusálmunum. Fyrsta spurning er: Af hverju urðu Passíusálmarnir vinsælir á Íslandi? Af hverju varð safn af sálmum metsölubók og metlestrarbók Íslands í mörg hundruð ár? Er eitthvað í Passíusálmum sem er mikilvægt og sígilt? Hvernig var saga höfundarins? Við vitum að Hallgrímur var mikils metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar. Af hverju? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega, en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. 

En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. 

Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á börn sín og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu og fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Í þeim er sögð tilfinningasaga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð sem líknar og er vinur en ekki óvinur og Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur reynslu sem nærir og svarar kærleiksþörf fólks. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Passíusálmar – merking og gildi

Guðsorðabækur voru aðalútgáfuefni íslenskra forleggjara fram yfir aldamótin 1900. Útgáfa þessara rita var svo mikil að spaugararnir töldu að ef bókunum væri raðað saman væri hægt að byggja brú frá jörðinni og alla leið til tungslins og svo til baka. Bækurnar sem voru gefnar út voru hugvekjubækur og kristileg ræðusöfn til styrktar trúariðkun á heimilum og til nota í kirkjum og heimahúsum. En af öllum bókum sem gefnar voru út eftir siðbótartímann eru tvær bækur eru í sérflokki þeirra sem lesnar voru. Það voru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og Vídalínspostilla. Þær voru elskaðar og dáðar. Passíusálmarnir voru fyrst útgefnir 1666 og Vídalínspostilla var gefin út 1718-20. Síðan voru þær báðar gefnar út í mörgum upplögum.

Hver var höfundurinn?

Aðeins um skáldið. Hallgrímur Pétursson fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði. Ekkert er vitað um fæðingardaginn en hins vegar er vitað að hann lést 27. október 1674. Líf hans var ævintýralegra en flestra Íslendinga. Hann missti ungur móður sína og fluttist til Hóla með föður sínum og fjölskyldu. Í skjóli biskups naut hann menntunar og fékk innsýn og útsýn í menningu og menntir. Hann þótti bráðger og hæfileikaríkur. Ýmsar litríkar sögur af honum og að hann var ljóðrænn orðhákur sem lét orðahrísið yfir þorpsbúana á Hólum. Í Hallgrími bjó útþrá og vilji til stórvirkja. Hvort sem hann hefur strokið eða farið með leyfi var hann þegar á unglingsárum kominn til norður Þýskalands og vann þar við járnsmíðar. Síðan fór hann, að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar til latínuskólanáms í Kaupmannahöfn. Þegar komið var að námslokum var Hallgrímur Pétursson settur í kennsluverkefni sem mótaði líf hans upp frá því. Hópur Íslendinga hafði verið leystur úr ánauð, sem höfðu verið fluttir frá Íslandi í Tyrkjaráninu og alla leið til Norður Afríku. Hópurinn var sendur til Kaupmannahafnar. Þótti við hæfi að uppfræða fólkið eftir veruna ytra. Hallgrímur var fenginn til að kenna þeim. Hann varð ástfanginn af konu í hópnum, Guðríði Símonardóttur. Áður en henni var rænt hafði hún verið gift kona og búið í Vestmannaeyjum. Ástarsaga Hallgríms og Guðríðar hófst. Guðríður varð þunguð af ást, kristinfræði og barni þeirra Hallgríms. Eiginmaður Guðríðar lést skömmu fyrr og þau Hallgrímur fluttu til Íslands og settust að á Suðurnesjum þar sem Hallgrímur hafði ofan af fyrir fjölskyldu sinni með verkamannavinnu. Hann fékk svo prestsembætti á Hvalsnesi árið 1644 og þjónaði söfnuðinum til 1651. Prestshjónin voru ekki borin á höndum eða nutu aðeins náðugra daga. Ástarsagan var ekki bara brími því þau Guðríður misstu börn og m.a. Steinunni, þriggja og hálfs árs árið 1649. Í rismiklu ljóði Hannesar Péturssonar Á Hvalsnesi fjallar hann um sorg skáldsins sem er meiri en hafið. Legsteinn Steinunnar sem Hallgrímur klappaði er til í Hvalsnesi.

Hallgrímur, Guðríður og þeirra fólk fluttu árið 1651 í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en sumarbúðaparadísinn Vatnaskógur er í landi Saurbæjar. Þau bjuggu við Hvalfjörðin allt til dauðadags og þar urðu Passíusálmarnir líklega til og alla vega voru þeir fullmótaðir þar.

Hvað eru Passíusálmar?

Passíusálmarnir eru safn fimmtíu sálma sem lýsa píslarferli Jesú Krists. Aðalpersónunni er lýst með tvennu og mjög ólíku móti. Annars vegar er dregin upp mynd af Jesú Kristi sem himinkonungi í heimi þegna sinna. Hins vegar er hann í hlutverki mensks fulltrúa mannkyns, sem lætur yfir sig ganga illsku þessa heims í átakanlegum útgáfum.

Þessar andhverfur hátignar og þjáningar fléttar Hallgrímur Pétursson saman í eitt. Jesús Kristur Passíusálmanna er líðandi konungur. Þar með er sprengd annars vegar konungsímyndin og hins vegar sú mannhugsun, að menn séu ofurseldir vonleysi, þjáningu og dauða. Mál himins og heims eru eitt, fléttuð saman. Lausn alls vanda heimsins á rætur í þeirri ást Guðs, sem lætur sér ekki standa á sama um kjör og velferð manna og heims. Konungur himins kemur af því að hann lætur sér annt um heiminn og gengur síðan krossferilinn allt til enda. Þar sem hann er fulltrúi manna leiðir hann mannkyn til Guðs. Jesús gengur inn í allan vanda manna en stenst. Í því verður hann fyrirmynd, sem menn geta séð sig í. Öllum, sem eru niðurþrykktir og brotnir, verður Jesús sem ímynd vonar og hvatningar til að gefast ekki upp í baráttu lífsins. Hann verður daglegur styrkur á vegi trúarinnar.

Íhugunarkveðskapur

Sálmarnir voru hugsaðir sem föstusálmar, til lesturs og íhugunar á föstunni fyrir páska. Í norður-evrópskri trúarhefð frá dögum Marteins Lúthers var lögð áhersla á sístæða endurnýjun innri manns. Og sú iðja var kallað daglegt afturhvarf. Í því felst að menn geri reikningsskil við Guð, náungann og sjálfa sig á hverjum degi. Lífið er ferli og sífellt þarf að skoða hvað má bæta eða batna og hvernig megi lifa í sátt við Guð og menn. Sálmunum var ætlað að efla íhugun og verða fólki til endurnýjun trúar og hvetja til betra lífs.

Hinn skipulagði höfundur

Hallgrímur Pétursson, höfundur Passíusálmanna, vildi að þau sem læsu sálmanna næðu að fylgja söguþræði og draga lærdóm af píslarsögu Jesú. Sálmarnir hvetja lesendur til að fylgja Jesú eftir. Í upphafi hvers sálms er staða mála kynnt með því að tilfæra vers eða kenningu Bilíunnar sem tengjast baráttu Jesú. Passíusálmar hefjast við lok síðustu máltíðar Jesú og lýkur við grafarsetningu hans. Það sem guðspjöllin segja um píslarsöguna er tekið til skoðunar. Ekkert á þeim ferli fer fram hjá vökulum augum íhugunar, hvorki stærstu atburðir eða smáatriði. Allt skyldi skoðað. Í eftirfylgdinni er sálinni bent á hvað fyrir ber, rætt er við hana um ýmsar víddir og merkingu guðspjallstextanna. Biblíutextarnir stýra flæði hvers sálms, en eintsök stef eru endurtekin og margskoðuð frá mörgum sjónarhornum.

Tilgangur

Passíusálmum er að efla og styrkja íhugun og leiða til skilnings og tileinkunar. Hvernig sálmarnir eru skipulagðir þjónar íhugun og innri eflingu. Aðferð Hallgríms er aðferð liðsstjóra þeirra sem vilja eflast í þroska trúarinnar. Hver sálmur er sem eining íhugunar. Dreginn er heim lærdómur og speki, sem píslargangan vekur. Skoðunin á ferli Jesú er ætlað að að styrkja einstaklinga, næra sál hins kristna. Skoðun og íhugun leiðir lesandan vítt og djúpt og þegar best lætur – til bænar. Jesús fer á undan og ég á eftir.

Þetta sameiginlega ferðalag verður til að staða mín sem mannveru frammi fyrir eigin sjálfi, öðru fólki og Guði skýrist. Eigindir, staða og brestir opinberast. Ég er sem á flæðiskeri. Að mér er sótt og synd mín er stór. Leiðin er aðeins ein, að fylgja líðandi konungi mínum allt til enda. Þrautaleið hans er ekki átakalaus sigurganga, heldur þjáningarfull ganga til lausnar. Í hverjum sálmi er niðurstöðu náð. Lofgjörð er hið rétta viðbragð trúar gagnvart baráttu hins líðandi en þó sigrandi höfðingja, sem veitir hlutdeild í sigri sínum.

Guð í Passíusálmunum

Passíusálmarnir eru trúarrit sem sver sig til liðins tíma og lúthersks rétttrúnaðar. Þeir eru orktir í anda klassískrar guðfræði og víkja í engu frá meginstefnu klassískra játninga kirkjunnar. Guði er lýst sem föður, skapara, dómara og hjálpara. En Hallgrímur Pétursson eins og Immanúel Kant síðar var trúr lútherskri hefð í því að virða takmörk skynseminnar. Vit manna væri takmarkað. Eðli Guðs og leyndardóma getur takmörkuð skynsemi ekki skoðað (21:1). Passíusálmarnir kenna því enga frumspeki. Myndin af Guði, föður er tvíþætt í sálmunum. Annars vegar er Guð ástmögurinn mikli, sem ber velferð heims og manna fyrir brjósti (44:4, 44:6, 3, 20). Sú ástarafstaða knýr einnig reiði, sem bregst við heimi sem fer villur vega (26:2, 12:22 o.áfr.). Guði er ekki lýst sem fjarlægum hátignarguði, heldur í stöðugum tengslum við heim. Á þann hátt einan þekkja menn Guð. Um himin og Guðseðli verður ekkert sagt sem ekki verður reynt í sambandi við Guð. Guð verður aðeins þekktur í tengslum.

Jesús í Passíusálmum

Jesú Kristi er í Passíusálmum er hvorki lýst sem hernaðarhöfðingja né dulrænum frelsara úr hæðum. Honum er lýst sem stjörnuprinsi sem afsalar sér stöðu sinni og verður líðandi fulltrúi mannkyns. Í sálmunum er því lítið rætt um hátignareigindir Jesú, s.s. alviturleika og almætti. Hallgrímur var ekki með hugann við guðfræðilegar útfærslur. Hann einfaldlega aðhylltist hefðbundnar kenningar um Guð og þar með um Jesú. Hann hafði trú á yfirskilvitlegri visku Jesú (1:24, 42:3) en verkefni sálmanna var ekki að skilgreina eða túlka merkingu hennar, heldur sýna ástgjöf hans. Passíusálmarnir eru saman settir út frá hugmyndinni „fyrir mig.“ Sá eða sú er elskar Jesú mun ekki aðeins verða vitni að ópersónulegu kraftaverki heldur eignast hlut í því.

Hið brotna jafnvægi og rásleysi

Þegar í fysta sálmi er talað til sálar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“ Allt mennskt er brothætt og forgengilegt. Líkingarnar sem notaðar eru tjá þann veruleika okkar manna. Og pílagrímaganga manna varðar meðalhóf sem er siðfræði sálmanna. Við eigum hvorki að fara of skammt eða of langt. Illska og þjáning leiðast af markaleysinu. Báðum megin við reit manna og athafna þeirra er hengiflug, sem menn falla í og leiða aðra í ef þeirra er ekki gætt í hugsun, orðum og æði. Aðalmálið í lífi hvers manns að lúta engu valdi nema Guðs. Aðalmálið er að endurnýja eða treysta ástarbandið við Guð.

Manngildið

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk spurt þeirrar spurningar. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti og við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni með einu eða öðru móti, jafnvel þó við reynum okkar besta til að forðast hana.

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og alls staðar í veröldinni. Lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Fáir munu við æfilok halda fram að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin sem skiptu mestu máli. Og ég hef ekki hitt neinn sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Því oftar sem ég horfi í augun á fólki segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég að þær eru ástarsögur – en vissulega í ótal tilbrigðum. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. En áföll og píslarganga er hluti ævigöngunnar. Margir ástvinir bregðast, truflast og týnast. Það er sorglegt. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Öll lifum við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Guðsástin

Í tilfinningum og ástarsögum manna og líka Passíusálmum getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En við getum líka farið dýpra og séð í þeim ljósbrot af ástargeislum Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð elsku himinsins. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg og áleitin. En við megum gjarnan stækka þessa spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almennt heldur setja inn þarfir, tilfinningar og verðandi Guðs. Það er merkilegt að spyrja okkur sjálf hvað gerir okkar eigið líf þess vert að lifa því en það er rosalegri spurning að spyrja: Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Þetta er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju sá Guð ástæðu til að stíga inn í ruglingslegan heim tíma og efnis? Af hverju kemur hið stóra inn í smáheiminn? Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum og megnum ekki að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn eða ástarjátning. Þannig orkti Hallgrímur um ástina í veröldinni. Líf er flókið en ástin er hrein.

Af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli í eilífðinni. Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú er kominn í strand, í öngstræti og á enda? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei heldur opnar út, hrífst, leitar tengsla, viðfangs, faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar og sagan af Guði er fyrst og síðast ástarsaga. Og þannig ástarverk eru Passíusálmarnir.

SÁÞ. Fræðslusamvera í Hallgrímskirkju 2. mars 2021 í röð erinda og viðtala um ást í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hjóðvarp – þ.e. upptaka þessa erindis sem og viðtöl í röð samtala um ást í passíusálmum er að baki þessari smellu. 

Meðfylgjandi mynd tók ég af málverki í stórverslun í San Francisco í janúar 2018. 

 

 

Brauðið dýra og önnur brauð

Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir metfé. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér! 
 
Hljóðskrá prédikunar í Hallgrímskirkju 14. mars er að baki þessari smellu.
 
Textinn er svo hér að neðan. 2021 14. mars.
Fjórði sunnudagur í föstu.
 

Faðir minn var bókamaður og aðdáandi Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi. Hann hafði einfaldan smekk í jólagjafamálum sem létti líf okkar fjölskyldunnar. Hann óskaði sér alltaf bókar eftir Laxnes. Jóladagana sat hann svo glottandi og kumrandi yfir kúnstugum sögum frá stílmeistaranum og orðhaganum í Gljúfrasteini.

Ein jólin fékk hann Innansveitarkrónikuna sem lá lengi á borðinu við hlið lestarstóls pabba. Ég kíkti svo í hana. Í bókinni er merkileg saga sem var reyndar gefin út sér, umrituð og lagfærð lítillega. Það er sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá Guðrúnu Jónsdóttur sem var vinnukona prestsins í Mosfelli. Henni var treyst til að fara með brauðdeig í seyðslu á hverasvæði í Mosfellsdal. Brauðferðirnar voru ábyrgðarmál og jafnvel hættulegt starf vegna hitans á þessu svæði risabökunarofns. En Guðrún tók upp seydda brauðið þegar það var fullbakað og kom nýju deigi fyrir. Sagan segir að þegar hún hafði eitt sinn tekið upp stórt brauð var komin þoka þegar hún ætlaði heim. Hún var svo dimm að Guðrún villtist og var týnd í þrjá sólarhringa. Hún fór víða um Mosfellsheiði með stóran brauðhleifinn. Að lokum komst hún heim og fólki til furðu hafði hún ekki borðað af brauðinu. Þegar hún var spurð af hverju svaraði hún: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Sem sé, hún braut ekki brauðið til að nærast. Rigningarvatnið var það eina sem hún setti upp í sig á þesari löngu göngu. Af hverju bar hún fæðuna en notaði hana ekki sér til styrktar og lífs? Hún var jafnvel búin að krafsa erfðaskrá sína í moldarbarð þar sem hún lagðist fyrir svo ljóst var að hún var hrædd um líf sitt. En hún borðaði ekki brauðið. Var ástæðan þrællyndi, blind hlýðni við reglur? Nei, það var siðferðisstyrkur. Guðrún bar virðingu fyrir verkefni sínu, skyldum sínum, vera trú því sem henni var trúað fyrir. Halldór Laxnes hafði eftir Guðrúnu: „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Enginn hefði álasað Guðrúnu að hafa matarlaus og vegna svengdar borðað brauðið á þessari löngu villuför. En það gerði hún ekki. Það var ekki í samræmi við siðferði hennar, vinnuafstöðu, skyldusýn og lífsafstöðu. „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Innrætið skiptir sem sé máli.

Sagan um brauðið dýra varðar lífsafstöðu og rímar við áherslur í textum dagsins. Hvað er satt? Hvað er mikilvægt? Hver er lífsafstaða okkar? Er mikilvægt að tileinka sér siðferði eða er bara best láta reka stefnulaust? Þessi látlausa en litríka saga úr Mosfellssveit lýsir afstöðu og siðferði. Að konan skyldi ekki í hungri sínu kroppa úr brauðinu er ótrúlegt. Sagan er eins og dæmisaga úr safni Jesú. Atburðarásin er ydduð og ótrúleg svo tilheyrendur geri sér grein fyrir að boðskapurinn sé mikilvægur og eftirtektarverður. Og hver er hann? Siðferði – mikilvægi þess að axla ábyrgð, láta ekki eigin hag eða græðgi stjórna öllu. Heilindi.

Í siðferðisglundroða og sýndarsiðferði sýnist mörgum skylda að reyna að ná brauðunum, athyglinni, peningum, völdum og viðhlægjendum. Þá er sannleikurinn ekki við völd né heldur siðferði. Ekki þarf lengi að skygnast um í vestrænum samfélögum til að sjá að sjálfhverfir lukkuriddarar sæki í gæðin. Tveir síðstu áratugir hafa á Vesturlöndum verið blómatími hinna sjálfhverfu sem vilja gleypa allt. Það er fólkið með sjálfsástarröskun, narcissistarnir siðblekktu. Þegar fólk er ekki meðvitað um aðsóknina vandast málið og margt fer illa í rekstri peningastofnana, fyrirtækja og samfélaga þegar þeir ná tökunum. Sjáflhverfungarnir með sjálfsástarröskunina leita í valdastofnanir, stjórnmál og peningastofnanir. Norskir vinir mínir hafa sagt mér að þar í landi sé reiknað með að siðblekktir eða siðblindir menn séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar. Af því að sjálfhverfungar reynialltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð sé nauðsylegt að beita síunarkerfum í ráðningum og stífu eftirliti. Sjálfhverfungarnir borða alltaf allt brauðið og skila engu úr ferðum lífsins. Þeir koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra.

Í dag er brauðdagur í kirkjuárinu. Á fjórða sunnudegi í föstu er minnt á brauð lífsins. Brauð var og er tákn um líf. Kirkjur eru brauðhús. Í kirkjuhefðinni er talað um brotningu brauðs. Jesús var veislukarl og útdeildi brauði til næringar. Í miðju kirkna heimsins er borð sem kallar fólk til samfélags, samtals og veislu. Textar dagsins varða brauðið á því borði og tjá áherslumál Jesú og þar með lífsafstöðu trúmanna. Brauð í Gamla testamentinu var forsenda að áherslur Jesú á brauð lífsins skildust. En Jesús talaði sumt í gátum og annað í dæmisögum til að opna vitund fólks fyrir hvað skipti máli, til hvers lífið væri, hvernig fólk gæti lifað og notið lífsgæða. Við erum minnt á að svengd fólks í vanda er mætt með næringu. Daglegt brauð er eiginlega daglegt kraftaverk. Fólk í vanda í lexíunni og skipverjar í nauðum í pistlinum fá mat, von og þeim var bjargað. Jesús byggði á reynslu þúsunda kynslóða og minnum úr hebresku samfélagi þegar hann talaði um brauð lífsins. Hann setti sjálfan sig í tákn- og raunsamhengi sveltandi fólks, skildi þorsta og svengd, lífgaði, veitti von og blessaði. Boðskapur hans var skýr, hann væri kominn frá Guði til að næra og gefa það sem fólk og heimur þarfnast til að geta notið lífsins.

Í kirkjulífi COVID-tímans er ekki hægt að brjóta brauðið. Bið er á að altarisgöngur hefjist að nýju. Sóttvarnarástæður eru ástæðan. En hlutverk kirkna er óbreytt. Það er að verja líf, vernda fólk og efla til lífsgæða. Þrátt fyrir að við brjótum ekki brauð og göngum ekki til altaris getum við svo sannarlega íhugað boðskap Jesú um brauð og líf. Í djúpi tímans, vestrænnar menningarinnar og pólitík er vaxandi skilningur á að ekkert samfélag og ekki heldur lífríkið þolir yfirráð sjálfhverfunganna. Æ fleiri skilja að ráð þeirra eru til dauða. Sannleika um lífið þarf að verja og siðferði verður að ráða för.

Í vikunni hreifst ég eins og margir aðrir af viðtölum við Harald Þorleifsson og lífsafstöðu hans. Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir mikla fjármuni. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér. Af hverju? Jú, vegna þess að þau vildu borga skatt af söluhagnaðinum á Íslandi. Ísland hefði gert Haraldi kleyft að menntast og hann hefði notið góðs heilbrigðiskerfi sem þjónaði honum vel í heilsuvanda hans. Íslenskt samfélag og stofnanir þess höfðu gert Haraldi kleyft að komast þangað sem hann er í dag. Sem sé þakklæti, ábyrgð, siðferði og þroskuð lífsafstaða. Hann hefði getað látið hagnaðinn hverfa, étið allt brauðið og ekki skilað neinu til uppeldissamfélags síns. En hann var trúr skyldum sínum og borgaði til uppeldissamfélags síns. Þetta er að vera samfélagslega ábyrgur. Og í vikunni urðum við vitni að frábæru verkefni sem Haraldur beitir sér fyrir. Hann er að rampa Reykjavík. Haraldur er í hjólastól og veit af eigin reynslu að bæta þarf hjólastólaaðgengi til að fólk komist með þokkalegu móti inn í fyrirtæki og verslanir. Haraldur fer ekki aðeins í brauðferðir sínar á hverasvæði heimsins heldur kemur úr ferðinni með brauð, ekki bara eitt heldur mörg.

Jesús Kristur reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur með því að útdeila brauði og gæðum. Ölturu í kirkjum minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig. Hinn kristni boðskapur er að allir megi njóta gæða. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. En boðskapur texta dagsins varðar ekki bara að fá að borða góðan mat heldur njóta hamingju, frelsis, mannréttinda og framtíðar. Brauð lífsins merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt og gæðatengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði. Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Jesús Kristur frelsar líf, nærir og blessar. Og Guðrún Jónsdóttir axlaði ábyrgð sem er í samræmi við þroskaða samfélagssýn. Haraldur Þorleifsson sýndi siðvit og manndóm til fyrirmyndar. Við getum ekki sem einstaklingar bjargað heiminum en getum þó öll fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs. Að Jesús sé brauð lífsins og næring skilgreinir veröld okkar og lífsgæði. Við erum friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Við erum brauðberar Guðs. Amen

Fyrri ritningarlestur: 2 Kon 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Seinni ritningarlestur: Post 27.33-36
Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Guðspjall: Jóh 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“ Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“