Greinasafn fyrir merki: guðsvitund

Ástarsaga

„Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. En hvað um Guð?

Hallgrímur Pétursson var ofurpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur lífs. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma. Hún er saga um hvernig hægt væri að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi og sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir allt ástarfólk.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs. Með því að skoða vel ástarsögur getum við komist að mörgu um Guð. Við getum líka skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

COVID-tíminn er tími þrenginga og endurskoðunar. Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort leggjum við á flótta og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd, þarfir eða áföll. Í Biblíunni og öðrum klassískum, kristnum bókmenntum eins og Passíusálmum er sagt frá lífi fólks. Þar er sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er svo sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins og öðrum áföllum. Það er erki-ástarsagan, um Guð, um heiminn og saga um fólk. Kristnin kennir að lífið er ekki aðkreppt heldur ástarsaga möguleikanna. Líf okkar er svo sannarlega stundum furðulegt, gleðilegt og sorglegt. En saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um okkur öll. Það er gott að elska.

Gleðilega páska á COVID-tíma.

Grein í Mbl á skírdegi 2021. Myndin er af gluggaskreytingu í stórverslun í San Francisco sem ég tók í janúar 2018.

 

 

Þinn Jesús?

táningurinn JesúsMenn hafa leitað að Jesú um aldir. Sumir hafa fundið Jesú en aðra hefur Jesús fundið. En allir sem verða vinir Jesú túlka samskiptin með einhverjum hugmyndum, lýsingum og nokkrir síðan með kenningum um hver hann sé og hafi verið. Og nálgun fólks og kenningar eru með ýmsum hætti og hver samtíð þráir og túlkar ákveðin tengsl í samræmi við þarfir. Eitt sinn var það ímyndin af siðvitringnum sem hreif. Í annan tíma var það kraftaverkamaðurinn eða orðsnillingurinn. Í sumum kirkjuhefðum var lögð áhersla á fórnarhlutverk og endurgjald hins krossfesta, í öðrum á upprisuljóma páskanna. Kristur, hinn stríðandi konungur, höfðar til sumra einstaklinga, hópa og tíma. Mjúklátur mildingurinn er öðrum nærstæðari. Stundum hefur Jesús verið í mynd andófsmannsins og sósíalistarnir sáu í honum fyrsta kommúnistann, jafnréttisaktívistar skapandi frelsispostula og bróður hinna kúguðu og fátæku. Ó, Jesú bróðir besti. Myndir Jesú Krists eru margar. Hver er mynd þín af Jesú? Hvers leitar þú? Hvað hefur áhrif á þína Jesúmynd? Eru það þarfir, samfélagsstraumar, menningarviðhorf eða eitthvað djúptækt í þér? Ertu til í að hitta hann?

Fermingarstrákurinn Jesús

Guðspjallstexti fyrsta sunnudags eftir þrettánda fjallar um leit, margþætta og margvíslega leit. Fyrir það fyrsta voru María og Jósef að leita að Jesú. Reyndar er kostulegt, að það hafi tekið þau a.m.k. heilan dag að uppgötva að hann væri týndur. Margar skýringar eru til um af hverju þau voru svona sein að átta sig á stöðunni. Var Jesús vanur að týnast og kom alltaf aftur? Þau sneru við og voru svo þrjá daga að leita að strák. Að finna Jesú getur verið tímafrekt!

Jesús var orðinn 12 ára og bar eins og jafnöldrum hans að fara til Jerúsalem til að taka þátt í manndómsathöfn, hliðstæðu fermingar í okkar hefð. Jórsalaferðin var undirbúin og farin. Jesúfjölskyldan komst klakklaust á leiðarenda og sveinninn hefur gengið í gegnum ritúalið.

Síðan heimferð, konur og börn fóru gjarnan á undan körlunum, hvort sem það hefur verið vegna þess að þeir fóru hraðar yfir – eða að þeir höfðu einhver aukahlutverk umfram hin. Kannski voru þeir bara að skemmta sér! Við getum ímyndað okkur, að foreldrar Jesú hafi treyst strák, hafa haldið, að hann væri á heimleið, allt þar til þau María og Jósef hittust á leiðinni. Þá kom í ljós að hann var týndur og þau neyddust til að snúa við. Leitin hófst.

Jesús týndur

Hvernig lýsir maður eftir drengnum Jesú þegar hann týndist? Hvað gæti best lýst honum svo þau sem hefðu séð til hans kveiktu á perunni og seegðu? „Já, það er einmitt strákurinn sem ég sá.“ Tólf ára gutti, engin barnastjarna í Palestínu og því algerlega óþekktur. Ekki hafa þau sagt, að hann væri frelsari heimsins eða að hann væri mannssonurinn. María hefur ekki vogað sér að segja frá, að þegar hann hafi fæðst hafi harðstjórinn Heródes orðið svo hræddur, að hann hafi látið deyða alla nýbura á svæðinu sunnan Jerúsalem. Ekki hafa þau sagt, að hann væri herkonungurinn Messías. Það hefði sent þau beina leið í fangelsi Rómverja.

Væntanlega hafa þau bara lýst venjulegum unglingsslána, íhugulum og spyrjandi. Þau hafa kannski óttast að búið væri að limlesta hann eða jafnvel myrða. Allir foreldrar geta sett sig í þeirra spor, ímyndað sér kvíðann. Í hverju hafði hann lent? Hvað hafði komið fyrir? Hafði hann gert eitthvað af sér?

Þau hafa farið á lögreglustöðina. Nei, enginn hafði rekist á hann. Þau þekktu leitandi hug hans og hafa vonast til, að hann kynni að laðast að guðsmönnunum og því farið í musterið. Viti menn, sat ekki Jesús þar eins og prútt fermingarbarn, spurði greindarlega, reyndi fræði þjóðar sinnar, ræddi álitaefni í trú og siðferði og vildi svör! Saga dagsins er því ekki morðsaga eða saga um aula vikunnar, heldur heillandi þroskasaga um skarpan ungling í leit að svörum við rosalegum spurningum. Hvað hann borðaði og hvar hann svaf vitum við ekki. Síðar minnti hann á, að matur hans var nú að gera vilja þess, sem sendi hann. Og mannsonurinn væri heimilislaus og ætti engan höfuðhvílustað.

Leit Jesú að eigin sjálfi

Hvað ræddi unglingurinn við fræðimennina? Hann vildi skýringar, ekki aðeins á pólitík eða menningarmálum, á trúarlegum skyldum, heldur á enn róttækari málum, hver hann sjálfur væri. Jesús óx örugglega ekki upp með einhverja barnatrúarvissu um, að hann væri Messías, frelsari heimsins, læknirinn besti, ljós heimsins, brauð veraldar o. s. frv. Hann bjó í smiðshúsi í Nasaret, reyndi að fá botn í hvað grunurinn í djúpum hugans merkti, hvað upphaf hann hefði og hvernig hann gæti brugðist rétt við í upplifunum, af hverju máttur hans stafaði og hvað hvötin merkti. Kannski hefur mamman talað við hann um reynslu sína og vangaveltur. Kannski hefur Jósef líka rætt málið og frændfólkið minnt á sérstakar aðstæður í frumbernsku. Svo hefur lífsreynslan bætt í sjóðinn.

Hann vildi svar við meginspurningunni: Hver er ég? Til hvers lifi ég og hvert er hlutverk mitt í lífinu? Guðsmennirnir gátu veitt honum sértæk svör um ákveðin atriði, en hann varð sjálfur að vinna úr efninu, og marka stefnu sem vörðuðu sjálf hans, þetta sem við getum kallað sjálfsskilning og þar með lífsstefnu. Jesús átti val, naut algers frelsis. Heillandi saga um ungan mann í leit að lífsstefnu.

Foreldrar fundu – en unglingur Guð

Meðan foreldrarnir leituðu að unglingnum var Jesús að leita að sjálfum sér. Þau fundu tryggan og góðan son, en hann fann Guð hið innra, í sjálfum sér. Svör hans við spurningum foreldranna virðast harkaleg en skiljanleg, þegar guðsvitund Jesú og vitund um hlutverk og köllun er höfð í huga. Nokkra þætti í sjálfsvitund Jesú getum við greint í ræðum hans. Á henni byggir síðan íhugun guðfræðinga og trúmanna um allar aldir.

Þegar við förum yfir guðspjöllin sjáum við, að sagan um unglinginn í musterinu er eina bernskufrásagan um Jesú. Engin önnur saga frá æsku Jesú og unglingsárum er til. Jólasöguna og upphafssöguna þekkjum við og næst á eftir henni kemur svo þessi musterisferð og leitin að Jesú. Síðan ekkert annað fyrr en meira en löngu síðar, þegar Jesús byrjaði starf sitt með formlegum hætti. Við eigum því enga ævisögu Jesú í guðspjöllunum. Til að fá fyllri mynd verður að leita í aðrar heimildir utan Biblíunnar, s.s. Tómasarguðspjall. En margir hafa efast um heimildagildi þess og annarra rita um Jesú, þ.e. utan Biblíunnar.

Jesúveruleikinn

Guðsvitund Jesú var ríkuleg, en hann hafði meiri áhuga á lífsiðkun en að skilgreina sjálfan sig fræðilega. Hann hafði minni áhuga en miðaldaguðfræðingar á frumspekilegum skilgreiningum. Við vitum ekki hvað María sagði honum. Enginn Biblíufræðingur mun halda fram að Betlehemsatburðirnir séu lýsandi sagnfræði. Allt er þetta á sviði táknmáls.

Sjálfsvitund helstu jöfra menningarsögunnar er eitt og hugmyndir fylgjenda stundum aðrar. Sjálfsvitund Jesú er um margt greinanleg, en þó er margt á huldu.

Björgin góða

Forsenda þess, að við getum gengið inn í guðsreynslu og innlífast guðsveru Jesú, er að við viðurkennum okkar eigin leit, sem er æviverk, förum í musterið með honum, göngum inn í angist hans og líka traust. Er Jesús forgöngumaður, vinur þinn, bróðir sem heldur í hendi þína?

Hver er Jesús? Jesús er í húsi föður síns. En finnur þú hann þar? Þú finnur hann ekki í fræðunum um hann. Ég get útlistað kenningarnar um hann, en aðeins þú getur farið og fundið hann, lifandi persónu. Að trúa er persónulegt mál, það að hitta Jesú og verða vinur hans. Það gerir enginn annar fyrir þig.

María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim, við leitum að ákveðnum Jesú, en svo mætir okkur annar. Þar er viskan, þegar við gerum okkur grein fyrir, að við finnum annan en við leitum að. Jesús er meira en ímynd okkar af honum, líka annað og meira en ímynd guðfræðinnar um aldir. Mannleg orðræða og lýsingar spanna aldrei það sem er guðlegt.

María og Jósef spurðu hvort menn hafi séð Jesú. Spurningin í nútíð okkar varðar ekki hvar hann er, heldur hvort og hvernig hann lifir meðal okkar og í okkur. Líf okkar varðar hvort við erum vinir Jesú Kristi og leyfum honum að vera Guð í okkur. Algert frelsi, algert val. Gildir fyrir alla, mig og þig.

Prédikun í Hallgrímskirkju 9. janúar, 2016.

Lexía: Slm 42.2-3

Eins og hindin þráir vatnslindir

þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,

hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Pistill: Róm 12.1-5

Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.

Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Guðspjall: Lúk 2.41-52

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.