Lifir einhver í skugga Hallgríms Péturssonar? Eru Passíusálmar einhverjum hindrun eða fyrirstaða? Stór og fyrirferðarmikil skáld geta orðið svo mikil að önnur skáld þora ekki, bera svo mikla lotningu að sjálfstæðið glatast. Um tíma var eins og Halldór Laxnes væri slíkur, hamlaði framvindu og kastaði skugga yfir land og menningu. Skuggar þeirrar gerðar verða í öllum greinum mannvísinda, í öllum listgreinum, trúarheimum og í öllum smáheimum sem mennirnir skapa. Síðan minnkar áhuginn eða að verk þeirra eru svo stórkostleg, kenningarnar svo frumlegar og snjallar að þau verða sígilld eða opna svo veigamikinn verkahring að á þau er fallist. Þetta eru hinir miklu snillingar eða löggjafar mannkyns eins og vísindaheimspekingurinn Thomas Kuhn hefur nefnt þá.
Lifir einhver í skugga Hallgríms og Passíusálmanna? Ég held að svo sé ekki. Allir Íslendingar eru frjálsir að trúarhugsun og skynjun. En hvert er þá gildi þeirra? Passíusálmar hafa lifað með þjóðinni og mótað fólk. Þeir hafa hrifið skáld og mótað skáldamál um aldir. En hvert er gildi þeirra og lífsmáttur í samtíð okkar? Hver er dýpt eða “plús” þeirra sem við nútímafólk getum notið og túlkað okkur til gleði, stuðnings og visku?
Öll verk manna, sálmar og ljóð eru tengd tíma, spíra í jarðvegi og andrúmi menningar. Aðeins þau lifa af samtíð sína sem með einhverjum hætti snerta tilveru fólks með einhverjum djúptækum hætti. Þetta eru klassikerarnir. Bókmenntirnar eiga sér slík verk frá öllum tímum sem fólk les. En til hvers. Ég held að klassískt sé það verk sem með einum eða öðrum hætti tjáir lífsmáta, lífshátt, mögulegt líf manns í heiminum. Shakespeare eða frásagnir Biblíunnar verða innlifuðum lesendum veruleiki sem hægt er að lifa í og af. Þau eru klassíkerar vegna þess að lífið sem tjáð er, lífsbaráttan sem túlkuð er og lausnirnar sem sýndar eru höfða til fólks, eru trúverðugar með einum eða öðrum hætti – hafa dýpt, hafa plús, eru dýrmæti sem hver samtíð, hver nútími getur notið og nýtt sér.
Eru Passíusálmarnir klassiker? Kanski er skáldamál þeirra orðið fornlegt lítt yrkjandi fólki samtímans. En er píslarsaga þeirra ekki ríkuleg öllum þeim sem nema þjáningu í lífi sínu eða átökum heimsins? Eru sálmarnir aðeins sýnisbókmenntir sinnar tíðar eða megna þeir að tjá eitthvað fyrir nútímafólk sem verður til lífs?
Skáldin sem lesa hér í Hallgrímskirkju hafa verið beðin að yrkja eða ljóða í framhaldi eða til hliðar við Passíusálma. Þau hafa frjálsar hendur. En mín spurning er hvort eða hvernig klassíkerinn eða píslarsagan hefur áhrif í nútíma. Hvernig ljóða frjáls skáld en í tengslum við Passíusálma? Eru þau í skugga, eru þau frjáls – er skuggi Passíusálmanna kanski hvítur og ljósgæfur?
Ávarp Sigurðar Árna við upphaf ljóðadagskrár Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju 6. júní 2003. Skáld fluttu frumort ljóð sín í framhaldi af Passíusálmum. Því var notað heitið Passíusálma+ eða Passíusálmaplús og ávarpið er til inngangs en fjallar einnig um merkingu og hlutverk hins klassíska í menningu og lífi – að veita plús, viðbót, örva til nýsköpunar. Skáldin sem beðin voru að yrkja og lesa voru: Andri Snær Magnason, Baldur Óskarsson, Hjörtur Pálsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Ísak Harðarson, Jón Bjarman, Kristján Þórður Hrafnsson, Kristján Valur Ingólfsson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Matthías Johannessen, Sigurður Pálsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Þóra Jónsdóttir, Þórarinn Eldjárn. Kennimyndin af Hallgrími Péturssyni er verk Leifs Breiðfjörð og er hluti stóra gluggans yfir aðaldyrum Hallgrímskirkju.


Ég veiddi mikið flest sumur frá 1963. Ég hef veitt þúsundir silunga og fjölda laxa sem ég hef ekki tölu á – m.a. hnúðlax 1971 – sem og helling af sjóbirtingi ekki síst í skaftellskum undraám. Ég hef veitt á Norðurlandi, Hornströndum (aðallega marhnúta), Vesturlandi og Suðurlandi. Sum árin veiddi ég svo mikið að ég seldi fyrir öllum veiðileyfum! Stundum hef ég veitt svo mikið að ég hætti löngu fyrir lokunartíma. Þegar maður er búinn að veiða nóg fyrir sig og sína – ja, þá er nóg komið. Annað er drápsfýsn og hömluleysi. Ég hef ekki veitt undanfarin ár og ekki haft löngun til. Veiðiþráin er farin, löngunin til lífsverndar hefur vikið veiðisókninni til hliðar. Ég vil ekki deyða. Blessunarafstaða og lífsgleði hefur þokað veiðigleðinni til hliðar. En ég skil veiðimenn og dæmi engan sem sækir í vatn og veiði. Ég er til í að fara í veiðitúra með félögum mínum og ástvinum, elda fyrir þau, aðstoða þau, kenna ungviðinu að lesa á og straum, legustaði og tökustaði. Ég vil gjarnan aðstoða þau í köstunum og fræða um náttúruna og dásemdir hennar og víddir. En ég hef veitt minn síðasta fisk – engin dramatík og enginn áföll – bara breyting sem ég álít vera þroska og þarf ekki viðurkenningu neins á slíkri niðurstöðu. Og mér þykir skemmtilegra að sjá fisk skjótast um í hyl en vita af öngli föstum í fiskskjálka. Þetta er endurröðun gilda og gleðiefna.