Greinasafn fyrir merki: veiði

Ég er hættur að veiða!

Um ævina hef ég verið hamfaraveiðimaður frá því ég veiddi fyrsta silunginn í Svarfaðardalsá 10 ára. Nú er veiðum mínum lokið, ekki að ég hafi tapað vatnslestrargetu, tilfinningum eða líkamsfærni, útivistargleði og hinni frumlægu hvöt að draga björg í bú. Nei það er annað og dýpra sem veldur.

Þegar við veiddum marga tugi silunga á dag í haustveiðinni fórum við með í soðið á nágrannabæi. Það var alltaf dásamlegt að færa gömlu hjónunum í Gröf fisk og Laugu og því dásemdarfólki í Uppsölum. Þegar ég var kominn á legg voru prestshjónin á Völlum flutt niður á Dalvík, annars hefðu þau fengið fisk líka. Að draga björg í bú er samfélagsmál – og ætti að vera enn í dag í praxis útgerðarfyrirtækja.

Ég veiddi mikið flest sumur frá 1963, hef veitt þúsundir silunga og fjölda laxa sem ég hef ekki tölu á og m.a. hnúðlax 1971, sem og helling af sjóbirtingi ekki síst í skaftellskum undraám. Ég hef veitt á Norðurlandi, Hornströndum (aðallega marhnúta), Vesturlandi og Suðurlandi. Sum árin veiddi ég svo mikið að ég seldi fyrir öllum veiðileyfum! Stundum hef ég veitt svo mikið að ég hætti löngu fyrir lokunartíma. Þegar maður er búinn að veiða nóg fyrir sig og sína – ja, þá er nóg komið. Annað væri ofbeldi og drápsfýsn. Ég hef ekki veitt undanfarin ár og ekki haft löngun til. Veiðiþráin er farin, löngunin til lífsverndar hefur vikið veiðisókninni til hliðar. Ég vil ekki deyða. En ég skil veiðimenn, dæmi engan sem sækir í vatn og veiði, er alveg til í að fara í veiðitúra með félögum mínum og ástvinum, elda fyrir þau, aðstoða þau, kenna ungviðinu að lesa á og straum, legustaði og tökustaði. Ég vil gjarnan aðstoða þau í köstunum og fræða um náttúruna og dásemdir hennar og víddir. En ég hef veitt minn síðasta fisk – engin dramatík og enginn áföll – bara breyting sem ég álít vera þroska og þarf ekki viðurkenningu neins á slíkri niðurstöðu. 

En ég hafði gaman af þessari svart-hvítu mynd – líklega frá 1975 – sem kom upp í fangið við tiltekt. Efri myndin úr haustveiði í ágúst er frá brúarhylnum í landi Hofs í Svarfaðardal, líklega frá 1970.