Gunnar Kvaran

Gunnar Kvaran er áttræður. Hann er einn af tónlistarrisum Íslands. Og hann er einn af vitringum Íslands líka. Hlýr og þroskaður mannvinur. Mér þótti alltaf merkilegt að fylgjast með Gunnari þegar hann lék einleik í útförum sem ég þjónaði í. Hann spilaði af innlifun og næmni og settist svo niður og hlustaði grannt á minningarorðin og nam víddir og blæbrigði ræðunnar. Að því komst ég þegar hann vildi ræða einstaka þætti og túlkun í erfidrykkjunni eða í öðru samhengi. Hann hafði hlustað af skapandi athygli. Það eru forréttindi að hafa fengið að njóta tónlistar Gunnars, djúphygli hans og vinsemdar. Lof sé hinum síkvika og vel lifandi áttræða Gunnari Kvaran. Guð blessi hann.

Um Gunnar á Wikipedia. Hreinn S. Hákonarson fjallar vel um Lífstjáningu, bók Gunnars í grein á kirkjan.is. 

Myndina tók ég á tónleikum Gunnars og Hauks Guðlaugssonar í Hallgrímskirkju 18. nóvember 2018.