Greinasafn fyrir merki: Hnausar

Fyrsti fiskur Kötlu og veiðiugginn vondi

Henni þótti veiðiugginn vondur! Katla, dóttir mín, er þarna fyrir framan Hnausa í Meðallandi. Hún var fimm ára. Ég fór með henni út að hyl í Eldvatni og hjálpaði henni að kasta. Svo stríkkaði á línunni og sjóbirtingur þeyttist um allan hyl – og sjóbirtingar eru oft sprækir. Þeirri stuttu féllust ekki hendur og hún missti ekki stöngina heldur hélt fast og tókst svo að koma fiskinum á þurrt.  Heim við bæ reyndi Katla að framfylgja síðustu ábendingu pappans – að bíta uggann af! Það gerðu veiðimenn við fyrsta fiskinn. En það þótti henni öllu erfiðara en að ná birtingnum á land. En maður lifandi – einbeitt var hún í öllu. 

Katla greinilega með maðkaboxið hans Vihjálms á Hnausum og stendur þarna stolt með fiskinn sinn fyrir framan gömlu fjósbaðstofuna. Hún er með fyrstu silungastöngina mína sem var keypt hjá Ásbirni Ólafssyni – þar sem nú er Ráðhúsið – og Abu-hjólið keypti pabbi í Veiðimanninum og gaf mér.

Ég dáðist að styrk Kötlu í þessum veiðiskap. Nú er hún farin að kenna sínum börnum veiðar! Ég er hættur – en liðtækur meðhjálpari.