+ Vilhjálmur Eyjólfsson, Hnausum +

Á bakka Eldvatns í Meðallandi bjó Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum. Við fljótið kynntist ég honum árið 1983. Ég var nýfluttur í Ása í Skaftártungu og Vilhjálmur hafði samband og spurði hvort ég kynni að veiða. Hann vildi kynna mér dásemdir Eldvantsins. Svo ók ég í morgunsólinni í hlað á Hnausum þar sem tíminn er lygn. Í asaleysi var sest við eldhúsborðið og Vilhjálmur byrjaði að fræða um hraunið, sem blasti við út um eldhúsgluggann, sandöldur og mýrar Meðallands, Kötlu, gossögu ofurfjallanna og svo kryddaði hann náttúrufræðina með nokkrum mergjuðum draugasögum. Á þessum tíma fræða og furðu urðum við Vilhjálmur vinir. Hann erfði ekki við mig að ég gat ekki hugsað mér að drekka koníak kl. 8 að morgni. En svo fórum við að veiða og Vilhjálmur sannfærði mig um að Eldvatnsbirtingurinn væri eitt af undrum heimsins.

Eftir upphafskynnin kom Vilhjálmur og húsvitjaði reglulega. Svo voru heimsóknir hans endurgoldnar. Vináttan var ræktuð og samgangur hélst þótt fjölskyldan flytti í aðra landsfjórðunga. Þar sem Vilhjálmur kom til nokkurra daga dvalar gat ég fylgst með því sem hann vann að. Honum var í mun að varðveita fróðleik, munnmæli, sögur, atburði og hóf skriftir á fullorðinsaldri. Meðal þess, sem Vilhjálmur setti á blað, voru minningar Einars Einarssonar, djákna. Vilhjálmur kom efninu á blöð sem hann setti í mínar hendur til að slá inn og koma á tölvutækt form. Ég varð því ritari Vilhjálms og fékk innsýn ekki aðeins í heim djáknans heldur líka Hnausabóndans, vinar míns. Ritsmíðin var prentuð í héraðsritinu Dynskógum.

Vilhjálmur á Hnausum 2

Vilhjálmur Eyjólfsson var andlega og fræðilega fangvíður. Hann var víðlesinn fjölfræðingur og því gefandi að ræða álitamál við hann. Alla ævi íhugaði hann skaftfellska náttúru og sögu og miðlaði til þeirra sem vildu við taka. Einu gilti hvort rætt var um jarðfræði, guðfræði, heimspeki, landafræði, líffræði, dulræn efni eða kirkjusögu. Eldfjallafræði var honum sérlega hugleikin, en einnig byggðasaga, landamerkjamál, verndun fiskjar og ábyrg nýting. Svo sá Vilhjálmur fleira en við hin og í sumu einnig lengra. Í þeim efnum var ekki komið að tómum kofum. Veröld Villa á Hnausum var stór. Hann lifði lífinu í fagurri lotningu gagnvart undri veraldar. Hann var gjöfull samfylgdarmaður.

Fyrir hönd barna minna og fjölskyldu þakka ég vináttu, fræðslu, umhyggju og elskusemi Vilhjálms á Hnausum. Guð geymi hann í lygnu eilífðar.

Minningargrein í Morgunblaðinu.

Dánartilkynning í Morgunblaðinu var þessi: Vil­hjálm­ur Eyj­ólfs­son, bóndi, frétta­rit­ari og fyrr­ver­andi hrepp­stjóri, lést á hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­il­inu Klaust­ur­hól­um 21. júlí sl., 93 ára að aldri. Vil­hjálm­ur fædd­ist 5. júní 1923 í Meðallandi í Skafta­fells­sýslu, einka­son­ur hjón­anna Sig­ur­lín­ar Sig­urðardótt­ur (f. 1891, d. 1985), hús­móður og Eyj­ólfs Eyj­ólfs­son­ar (f. 1889, d. 1983), hrepp­stjóra. Vil­hjálm­ur ólst upp á bæn­um Hnaus­um í Meðallandi í Vest­ur-Skafta­fells­sýslu og var gjarn­an kallaður Villi á Hnaus­um. Vil­hjálm­ur var síðasti maður­inn til að gegna starfi hrepp­stjóra í hrepp sín­um, auk þess sem hann var með bú­skap á jörð sinni. Vil­hjálm­ur gegndi einnig starfi frétta­rit­ara Morg­un­blaðsins um langt skeið. Þegar Vil­hjálm­ur var sjö­tug­ur lauk hann leiðsögu­manna­námi en hann gegndi lengi starfi leiðsögu­manns um Kirkju­bæj­arklaust­ur og ná­grenni. Vil­hjálm­ur var einnig mik­ill söngmaður og söng með kór­un­um í sveit­inni. Vil­hjálm­ur hætti bú­skap árið 1987 en á Hnaus­um til árs­ins 2014 þegar hann flutti á hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­ilið Klaust­ur­hóla. Vil­hjálm­ur var ókvænt­ur og barn­laus. Útför hans frá Lang­holts­kirkju 28. júlí 2016.