Boris Johnson, fólin og við hin

Á sunnudegi, á miðjum vaxtartíma sumarsins, – þroskatíma – er í textum kirkjunnar vakin athygli á því sem gæti hindrað þroska – falsinu, lyginni og þeim sem fara með lygar! Ekki til að við lærum að ljúga heldur til að þjálfast í sannleikanum sem fer betur með fólk en það sem í skugganum býr. Lygi er nærri okkur. Hún nærist í myrkrinu, er útúrsnúningur og afbökun, alltaf eitthvað hálf, læðist í skugganum, laumar sér í pólitík, í einkalíf og einnig trú. Lygin er boðflenna á fundum fólks og í samtölum. Viljum við það?

Fals – login

Lygin er víða, hún selur fólki falsaða miða á landsleiki. Lygin ekur vörubíla inn í mannmergð saklauss fólks í Nice. Lygin skapar glundroða og réttarmorð í byltingarsamfélögum. Lygin upphefur sig á kostnað annarra. Lygin brenglar verleikasýn fólks og leiðir það til glæpa og voðaverka. Lygin prangar inn á fólk hlutum í stað dýpri gæða. Lygin er á fullu í pólitík nær og fjær. Lygin ruglar gildi þín og æsir þig til að elta tíbrá í stað þess að iðka sannleika og leita lífshamingju.

Lygin spinnur ekki aðeins vef sinn á einkasviðinu heldur einnig í almannarýminu. Lygin nær oft að brengla og brjála stofnanir, þjóðir og samfélög. Hundruðir milljóna fólks hafa dáið á aðeins einni öld vegna þess að lygin stýrði för. Stofnanir brenglast þegar lygin nær valdatökum.

Í norskri stjórnsýslu er reiknað með að allt að þrjú prósent yfirmanna geti verið siðlausir. Slíkir menn valda skaða og fólki mikilli þjáningu. Báðir fulltrúar í forsetakjöri í Bandaríkjunum eru vændir um óheilindi. Franski utanríkisráðherrann sagði í vikunni að Boris Johnson, hinn nýji utanríkisráðherra Englendinga sé lygagosi. Ruth Bader Ginsburg, sem er dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hélt líka fram í vikunni að Donald Trump væri loddari. Allir sem fylgjast með stjórnmálum og þjóðmálum vita að sumir forystumenn ljúga purrkunarlaust. Lygi er oft haldið stíft fram þegar ná skal ákveðnni niðurstöðu eða til að verja stöðu flokka eða hagsmuna. Og það merkilega er að rannsóknir sýna að þegar lygaherferðir dynja á fólki í fjölmiðlum er flóknara og erfiðara fyrir fólk að varast lygarnar en trúa því einfaldlega sem haldið er fram. Jafnvel skarpasta og gagnrýnasta fólk lætur blekkjast.

Machiavelli ráðlagði mönnum í því slæga riti Furstanum að beita aldrei valdi ef hægt væri að ná sama markmiði með prettum. Mörg telja það stjórnkænsku að segja aðeins hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur. Það er þessi skelfilega mannsýn, þjóðfélagssýn og gervisiðfræði, sem hefur magnað spillingu og valdið óréttlæti, hryllingi og stríðum.

Grunnreglur, megindyggðir, eru nauðsyn heilbrigðs samfélags. Gott og farsælt mannlíf verður ekki byggt á lygi. Hálfsannleikur spillir. Við ættum að gjalda varhug við öllum sölumönnum glansveraldar, hvort sem þeir ætla að selja okkur vöru, pólitíska stefnu eða trú. Hvorum megin ertu, hvað viltu?

Gosi

Dr. Jakob Jónsson þjónaði Hallgrímssöfnuði yfir þrjá áratugi og lengur en nokkur annar prestur. Hann var glaðsinna og hnyttinn. Mér þótti eftirminnilegt að hann vitnaði á nokkrum fundum okkar og í einu bréfinu til ritverks Carlo Collodi sem heitir á frummálinu Pinocchio. Það er sagan um Gosa. Gosi var þeirrar nátturu að nefið á honum lengdist þegar hann sagði ósatt. Sagan er m.a. kennslusaga hve lygi fer illa með fólk og sannleikurinn gagnast lífinu best. Börnin skilja vel að skrökva er ljótt. Þau vita að við þurfum að vanda okkur til að við afskræmumst ekki og töpum mennskunni.

Er Gosasaga bara fyrir 19. og 20. öld? Nei, hún á við um fólk á öllum öldum því lygin læðist að okkur, vill inn í okkur og stjórna okkur. Vegna þess að lygin er svo víða í stofnunum og samskiptum erum við öll í stöðugri sannleiksglímu. Hið mikilvæga er að gera okkur grein fyrir að þegar við látum af lyginni verðum við mennsk. Lygin eyðileggur hið mennska en sannleikurinn eflir lífið. Því er óendalega mikilvægt og nytsamlegt að staldra við og spyrja: Leitar lygin inn í þig – eða býr Gosi jafnvel innan í þér? Laðast þú að blekkingum? Segir þú sögur sem ekki þola ljós sannleika? Lætur þú ljúga að þér? Lýgur þú að öðrum? Ertu Gosi?

Hið jákvæða og rétta

Hið illa elur illt en ekki gott, hið góða elur gott en ekki illt. Slagorð verslunarinnar Silla og Valda var úr Fjallræðunni og texta dagsins: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Jesús var ekki að tala um epli, appelsínur, krækiber, ástaraldin og bláber – heldur um tengslin við Guð, kærleika til manna og trúmennsku til gilda. Þar greinir á milli þeirra sem segja satt og lygaranna. Falsspámenn eru öll sem smækka sannleikann og brengla veröldina. Þegar dýpst er skoðað búa falsspámenn í okkur öllum. Sr. Heimir Steinsson, annar merkur íslenskur guðfræðingur, skrifaði eitt sinn: „Í mér býr fól“ og talaði þar fyrir hönd okkar allra. Gosinn er ekki í hinum eða stjórnmálamönnum. Gosi býr í mér og þér og reynir að umbreyta okkur og aflaga.

Erkimynd mennskunnar – Jesús Kristur

Andstæða Gosa, fúlmenna veraldar – okkar allra – er Jesús Kristur. Jesús faldi aldrei sannleikann, dró aldrei undan og sagði alltaf satt. Því var hann elskaður og varð í vitund og trú fólks sannleikurinn sjálfur. Hann var ekki uppfullur af sjálfum sér og eigin dýrð heldur tengslum við Guð. Í samskiptum hafði Jesús alltaf velferð annarra í huga, fegurð þeirra, frelsi og reisn. Erindi Jesú var ekki að banna heldur opna, ekki að benda á hið neikvæða, heldur beina sjónum að hinu mikilvæga. Jesús minnti á að sum þeirra sem þykjast vera hans vinir, boðberar og málsvarar eru svikarar.

Tilraun um sannleikann

Gosar tímans hafa gert atlögur að öllu því mesta og besta í veröld manna og náttúru. Styrjaldir síðustu aldar voru hluti þess gjalds sem greiða varð fyrir mistök og rangan mannskilning. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Post-módernísk afstaða, sem litað hefur margt í menningu heimsins síðustu ár, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur og afstæður. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri handan tímans og sammannlegt. Þessi afstaða hefur síðan litað neysluhyggju og sjálfshyggju, að fólk er upptekið af eigin þörfum, upplifunum og algildi eigin langana. Í þessari brotkenndu afstöðu til veraldar, sjálfs og sannleika hefur orðið hliðrun í veruleikaafstöðu fólks miðað við það sem áður var kennt. Það eitt hefur orðið mikilvægt sem “mér” þóknast. Sannleikurinn, dyggðir og gildi hafa því mátt liggja í þagnargildi og verið hunsuð. Þetta má greina í þöggun í pólitík, í menningarmálum, viðskiptum og fjölmiðlum.

Líður þér ekki betur með fólki sem segir satt, jafnvel þó sannleikurinn sé þungbær? Skapast ekki traust þegar þú veist að allt er heilt og þú ert ekki leiksoppur eða fólk reynir að nota þig?

Getur traust lifað þar sem lygin dafnar? Nei, aðeins þar sem sannleikurinn ríkir, dafna heilindi og traustið vex.

Gosa, nei takk. Sannleikann, já takk.

Amen.

Hallgrímskirkja 17. júlí, 2016

  1. sunnudag eftir þrenningarhátíð.