Ísland vann EURO 2016

Ísak og tákninÍslendingar unnu EM í fótbolta karla! Íslenska liðið náði lengra en nokkurn óraði fyrir í Evrópukeppninni. Karlarnir töpuðu vissulega síðasta leiknum, en það er hægt að vinna með margvíslegu móti. Skilaboð heimspressunar voru: Frakkar unnu leikinn en Íslendingar unnu hjörtun. Og það er sigur Íslendinga á EURO 2016 – ekki aðeins að hafa töfra í tánum heldur í tengslum og á dýptina. Og það er trúarlegt mál sem vert er að íhuga.

Listdans og trúargildi

Ég horfi á fótboltaleiki eins og listsýningu, listdans tveggja liða í skapandi og gagnvirku ferli. Áhuginn hefur smitast til drengja minna sem iðka fótbolta. Í uppeldi þeirra nota ég gjarnan viðburði eða persónur í boltaheiminum til að ræða við þá og fræða um vont eða gott siðferði. Dýrlingar eru ekki fyrirferðarmiklir lengur í menningu Vesturlanda en fótboltahetjur hafa m.a. komið í þeirra stað. Og myndirnar sem börnin safna eru eins og íkónar. Íþróttir hafa trúarlegar víddir og gegna ýmsum trúarlegum hlutverkum.

Til hamingju Ísland

Fyrir liðlega viku ákváðum við fjölskyldan – í skyndingu – að fara til Parísar og fara á leik Íslendinga og Frakka. Ferðalagið var skemmtilegt og viðtökurnar voru stórkostlegar. Alls staðar var okkur fagnað. Þjónn í lestinni frá Brussel gladdist þegar hann uppgötvaði að við værum íslensk, óskaði Íslendingum heilla og gaf drengjunum lukkugripi. Stúlka sem sat í lestinni var himinglöð yfir að sjá Íslendinga í fyrsta sinn. Leigubílstjórar, þjónar og verslunarfólk báðu um að fá að taka sjálfumyndir af sér og okkur Íslendingum. Allir vildu fagna með okkur, snerta, ljósmynda og óska velfarnaðar. Ekki lengur skrítlingar úr norðri, heldur eðalvíkingar sem höfðu unnið kraftaverk sem dáðst var að. Aldrei hefur verið eins gaman að vera Íslendingur í Evrópu heldur en þessa boltadaga. Ekkert íslenskt auglýsingaátak hefur verið betur heppnað.

Við upplifðum Öskubuskuævintýri í raunheimi. Heimspressan, vefmiðlarnir og sjónvarpið sagði boltasögu um litla þjóð sem elur af sér fólk með töfra í tánum. Og við komumst á Stade de France. Okkar lán var að hafa keypt miða á erlendum miðavef svo við lentum ekki í sömu miðavandkvæðum og sumir landa okkar. Á vellinum tóku Frakkarnir vel á móti Íslendingunum – okkur leið eins og við værum úr fjölskyldunni. Íslendingarnir sungu Ferðalok og þjóðsönginn hástöfum og tár féllu. Íslensku áhorfendurnir hleyptu upp fjörinu og hávaðanum. Asíubúarnir og hinir Evrópubúarnir fögnuðu innilega þegar vel gekk á vellinum og Íslendingar skorðuðu. „Bravó Ísland, til hamingju Ísland.“ Íslendingarnir unnu hjörtun.

Það sem meira er

EURO 16 vakti margar tilfinningar og hugsanir. Það er ekki sjálfgefið að Íslendingar séu verri í fótbolta en Englendingar eða Austurríkismenn. Þegar dýpst er skyggnst og allt er skoðað megum við í þessu Öskubuskuævintýri greina að lífið er ekki lokað, læst, frosið í fyrirframgefnum og óbreytanlegum mynstrum. Innan rammans sem Skaparinn setur veröldinni spírar nýgræðingur,  hið nýja. Veruleikaafstaða trúarinnar er að innan ramma erum við frjáls til að vera. Lífið er leikvangur hins mögulega og kallar lifandi fólk til nýsköpunar og að þora. Það þarf hin nýskírða Sif Hanna að læra og Þorri Jakob einnig. Það þurfa foreldrar þeirra og fjölskyldur að iðka.

Til að minna okkur á list hins mögulega segjum við ævintýri, förum í leikhús, í kirkju, látum okkur dreyma um breytingar í einkalífi, vinnu, pólitík og samfélagi. Við megum hugsa nýjar hugsanir og efast um hefð eða hið venjulega. Við megum breyta og getum gert tilraunir í vísindum, pólitík og einkalífi. Við megum beita okkur til að bæta samfélagsvef okkar þegar eitthvað hindrar réttlæti og möguleika fólks. Líf er vissulega háð formi og skipan en líf leitar þó ávallt út fyrir mörk og heftandi skorður. Þannig virkar gróður við gróðurmörk. Aspir sprengja jafnvel malbik og steypu, flóttafólk við landamæri leitar að smugum, leitandi hugur með forréttindi og spillingu fyrir augum bregst við og viskan reynir að hemja frekju heimskunnar. Mannfólk leitar alltaf út fyrir skorður, mæri sem hefta. Líf er ekki bara efnaferlar og lokað kerfi heldur opin og laðandi veröld möguleika.

Frá … og til – exodus

Í merkingargrunni menningar okkar heimshluta er varðveitt og sögð saga um brottför, exodus, fólk sem fór frá einni veröld til annarrar til að tryggja sér líf og hamingju. Jafnvel úfið haf megnaði ekki að hindra för þessa fólks. Og sú merkilega saga hefur orðið til að þjóðir fyrr og síðar hafa gert hið sama, lagt af stað þrátt fyrir hindranir. Hin íslenska saga byrjaði eins og saga Ísraela. Sagan um Jesú Krist er dýpsta og áhrifaríkasta saga veraldar fyrr og síðar, hin eiginlega erkisaga þessa heims. Og merking hennar er að tilveran er ekki til dauða, harms og ósigurs heldur til lífs, gleði og sigurs. Öll viska Jesú, lífshættir hans og andóf gegn formkreddum var að dauði er ekki hindrun heldur að lífið má og skal lifa, ef ekki í tíma þá í eilífð. Guð er góður dómari en ekki böðull, Guð er ástvinur. Mál kristninnar er sigur lífsins og hins góða. Það sem virtist sigur hins máttuga í sögu Jesú var aðeins sigur í leik. Jesús stefndi aldrei að því að vinna EM-knattleiki fólks heldur hjörtun. Tengsl okkar við hann verða aðeins lífleg þegar við opnum fyrir undrinu og skiljum að töfrar táa hans, munns, handa og veruleika er um líf og tilgang þess. Erindi Jesú verður aðeins numið með hjartanu. Sumt verður ekki sagt eða numið nema með hjartanu. Hin dýpsta skynjun, túlkun og mannlífsiðkun verður aðeins numin með opnum huga, sálarinnar. Sif Hanna og Þorri Jakob skora mörk lífsins með því að að lifa vel, þora að vera og tengjast því sem mestu máli skiptir.

Snortið hjarta

Saga dagsins um fiska og brauð er um að fólk sem leitar lífs mun ekki hungra heldur njóta hins góða. Og máttarverk kristninnar er ekki aðeins undur í huga fólks heldur lífi þess. Kristindómur varðar öll gæði – andleg, vitsmunaleg, félagsleg og líkamleg mál. Kristnin er tengd meistara sínum þegar trúmenn reyna að tryggja velferð allra. Íslenskir knattspyrnumenn unnu ekki alla leiki heldur hjörtun. Jesús Kristur vildi ekki knýja fram sigra heldur snerta hjörtu fólks. Er hjarta þitt snortið eða ertu bara hrifinn af töfrum í tánum. Má bjóða þér fiska, brauð og líf?

Amen.

Sif Hanna Hildardóttir Danielssen (búsett í Bergen, Noregi) var skírð í messunni og fermdur Þorri Jakob Jónsson (búsettur á Manhattan, New York).

Hallgrímskirkja 10. júlí, 2016. 7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Textaröð: A

Guðspjall: Mark. 8.1-9

Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“ Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ Þeir sögðu: „Sjö.“ Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.