Orð gegn orði (prima facie)

Tessa er slyngur lögmaður, fer á kostum í dómssal og er orðinn stjörnulögfræðingur þó ung sé. Hún kann leikrit dómstólanna, þekkir hvað gengur og greinir veilurnar á færi. Hún ver líka brotamenn í kynferðisbrotamálum og hefur engar lamandi sálarskrúblur þó þeir sleppi við refsingu. En svo verður hún sjálf fyrir broti. Allt breytist í lífi Tessu og hún fær innsýn í líðan þeirra sem brotið er á. Hún neyðist til að endurskoða gildi sín, afstöðu og viðhorf sín sem fagmanns. Meðan hún dró ekki í efa praxis lögfræðinganna gekk vel. En hún áttaði sig á að nálgun hennar og kollega hennar hefði jafnvel ekki réttlæti að leiðarljósi og stefndu ekki að því að sekir yrðu dæmdir og saklausir næðu rétti. Ofbeldið breytti öllu. Tessa fór á botninn og þar er hægt að spyrja stærstu og mikilvægustu spurninganna. 

Þetta er dúndurleikverk í Þjóðleikhúsinu sem laumar ágengum spurningum til okkar um eðli réttar, hlutverk lögfræði, kynferðisbrotamál, sekt og sönnun. Hvernig á að túlka og meta tilfinningar og flókin brotamál? Hverjir stjórna lagakerfum vestrænna samfélaga? Stýrir tuddamenning enn lagapraxis dómskerfisins? Kannski stjörnulögfræðingar séu engar stjörnur heldur fremur gerendur og meðsekir?

Ebba Katrín Finnsdóttir leikur stórkostlega í þessum einleik eftir Suzie Miller. Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir af snilld. Ebba og Þóra toppa báðar. Lýsing og búningar Finns Arnar Arnarssonar hæfðu fullkomlega og fjölhæfur er hann Finnur, kemur mér stöðugt á óvart. Flott þýðing Ragnars Jónssonar. Lokasenan reif í djúpvitund mína. Til hamingju með stórkostlega sýningu og ég hvet alla til að fara, hrífast, reiðast, gleðjast, hryggjast og spyrja spurninga um kerfin og merkingu þess að vera ábyrg manneskja í samfélagi. Það er ekki aðeins í leikhúsinu sem orð er gegn orði – heldur í samfélagi okkar og eigin fjölskyldum. 

Myndin hér að ofan er af Ebbu Katrínu og brotaþolum í baksýn og er af vef Þjóðleikhússins. En myndina að neðan tók ég fyrir upphaf sýningarinnar 19. nóvember 2023 sem var önnur sýningin.