Guðlaugur H. Jörundsson – minningarorð

Það var undursamlegt að sjá fingur Lauga fara fimlega yfir hljómborðið. Lag hljómaði, einbeittni einkenndi spilarann og gleðibros færðist yfir andlitið. Músíkin í Lauja snart okkur sem fengum að njóta. Tónlistin var sumpart lykill að sál hans og lífi. Hann vakti snemma athygli fyrir tónlistargetu og fór ungur til náms í tónlist. Og Laugi var fjölhæfur, í honum bjó listræn næmni sem fékk útrás með ýmsum hætti í samskiptum, handverki og gjafmildi.

Í módelsmíðinni samþættaði Lauji smekkvísi og smíðagetu. Módelin hans voru listasmíði sem löðuðu fram tilfinningu, ekki aðeins fyrir húsum eða mögulegum húsum, heldur líka fyrir honum sjálfum og lífinu. Módelin hans urðu til að fólk fékk vitund um hvernig form og útlit húsa yrði. Teikningar eru ekki öllum skiljanlegar en módel sýna afstöðu, hlutföll og útlit. Módel eru oft mikilvægir skilningsvakar og tilfinningahvatar. Lauji megnaði því að koma hinu ósegjanlega og nánast yfirskilvitlega í heim upplifunar. Og það þarf snilld til.

Lauji varð eins og meðalgangari milli hugarheims og raunheims. Með módelum hans byggði hann brýr milli heima. Það sem hafði verið hugsað og skissað fékk mynd meðal manna. Og ég efast ekki um að sumar byggingar voru byggðar vegna þess að Lauji hafði með líkönum sínum opnað leið fyrir skynjun og innsæi.

Módel vekja skilning, en líka tungumál og tónlist. Maðurinn er ekki einnar víddar heldur margra. Við látum okkur ekki nægja bara vatn og brauð. Við, menn, þurfum næringu á svo mörgum sviðum til að við getum höndlað hamingju og notið hennar. Þess vegna er til tónlist, ljóðlist, ritlist og myndlist. Þess vegna komum við saman til að syngja eða segja sögur. Þess vegna er til menning. Og þau okkar, sem eru músíkölsk á sviði trúarinnar, leitum í dýptir sálar og hlustum eftir tónlist himinsins. Við þráum að réttlæti ríki í heiminum, að fólk virði dýrmæti lífsins, fólks, allra. Við viljum að óréttur sé gerður upp og hið góða gildi – ef ekki fyrir mannlegum dómstólum – þá fyrir æðri og eilífum hæstarétti sem við köllum Guð. Við leitum að lífshamingju, þráum hið góða, viljum að lífið sé ekki bara mál tíma heldur vefur hamingju sem teygi sig inn í heim handan dauðans. Og þá erum við komin inn í himininn.

Ástvinur Lauja skrifaði í bréfi að himnaríki væri hægt að lýsa sem bestu tónleikum sem maður getur ímyndað sér. Er það ekki eitthvað fyrir Lauja – að vera á aðaltónleikunum, alfrjáls, alglaður – og það sem meira er – að hann fái sjálfur að músísera á þessum stórkostlega konsert, njóta alls innan frá og með allri næmni, gleði og unaði. Og svona lýsing á himni er ekki annað en ofurlítið orðamódel um lífið og veröldina sem Guð hefur skapað. Heimur trúarinnar er með því sniði. Guð elskar fólk og veröld. Saga Jesú Krists er frásögn um að Guð sættir sig ekki við sundrað mannkyn heldur þráir góð tengsl við alla menn og að allir fái notið lífs og komist á besta konsertinn. Trúir þú því? Viltu að Lauji lifi þá dásemd, fái notið alls sem hann hafði í sér – og með fullkomnu móti? Hann trúði því, ég trúi því einnig. Þú mátt fá þinn miða á þá tónleika líka – ef þú vilt.

Ætt og upphaf

En þá að músík mannlífs og dásemd náttúru við Steingrímsfjörð. Guðlaugur Heiðar Jörundsson var sumardrengur. Hann fæddist 12. ágúst árið 1936 og var því 78 ára þegar hann lést. Foreldrar Lauja voru hjónin Elín Sigríður Lárusdóttir og Jörundur Gestsson. Guðlaugur var yngstur þeirra systkina sinna. Ingimundur var elstur og hin voru Ragnar, Lárus, Guðfinna og Vígþór. Fóstursystir þeirra var Elenóra. Magnús var hálfbróðir Guðlaugs og samfeðra. Hann er látin. Vígþór einn lifir systkini sín.

Lauji fæddist á Hellu við Steingrímsfjörð. Heimilið var dugmikið menningarheimili og Hella var sem afleggjari himins í heimi. Lauji var alla tíð tengdur sínum stað og fólki og sótti ávallt heim í Helludýrðina. Elín sá um heimilisstörfin og Jörundur var – auk bústarfanna, hreppstjóri, hagyrðingur og halgeiksmaður og smíðaði báta. Meðal Strandamenn hafa um aldir verið góðir bátasmiðir og þjóðhagar. Lauji ólst upp við að hugur og hönd verða að vinna saman til að smíðisgripurinn yrði góður. Lauji lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Og svo þáði hann gamansemi í arf frá sínu fólki og sveitungum.

Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Lauji menntun sína.

En svo kallaði tónlistin – drengurinn var músíkölsk kvika. Foreldrar hans afréðu að hann færi aðeins 12 ára gamll til náms í tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar nam hann auk þess að ljúka grunnskóla. Halldóra og Walter Knauf urðu honum ekki aðeins músíkforeldri heldur fóstruðu hann með nærfærni og elskusemi á Ísafirði.

Eftir að Lauji var útskrifaður úr Tónlistarskóla og hafði lokið bóknámi hafði hann atvinnu af tónlistariðkun. Hann spilaði ekki aðeins á piano og orgel heldur var einnig harmoníkuleikari. Lauji var um tíma kirkjuorganisti í Strandasýslu. Svo fór hann – að undirlagi Jónasar Tómassonar – til Siglufjarðar og var þar skólastjóri tónlistarskólans.

Á Siglufirði staldraði Lauji stutt við og fór uður. Tónlistin varð honum mikilvæg aukabúgrein. Hann hafði líka þörf fyrir að spila og músísera. Lauji var í hljómsveitinni Skuggum og þeir félagar voru öflugir tónlistarmenn, vönduðu til flutnings og sungu raddað sem er ekki sjálfgefið þegar einnig er leikið á hljóðfæri. Eftir að Lauji hætti í Skuggum spilaði hann fyrir sjálfan sig og Bíbí, fyrir veislugesti heima og í samkvæmum vina þeirra, ávallt auðfúsugestur og metinn fyrir hinar músíkölsku kærleiksgjafir.

Lauji sat ekki aðeins og spilaði annarra lög heldur samdi einnig tónlist. Og sumt af þessum lögum rötuðu síðan til annarra og sum þeirra hafa notið þeirrar gæðstimplunar að hafa verið síðasta lag fyrir fréttir!

Módelin

Svo var það handverkið. Eftir að hafa starfað um tíma hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík var Lauji ráðinn á teiknistofu Borgarverkfærðings. Þar vann hann með teikningar og hreifst m.a. af hangýtu gildi módela. Smáhúsadjásnin urðu til að hann fór til starfa á sérstakri módelvinnustofu Reykjavíkurborgar. Lauji stofnaði síðan eigin vinnustofu, smíðaði fjölda listilega smíðaðra módela, var samverkamaður arkitekta og fékk bestu meðmæli þeirra – eins og sést vel á kynningarblöðungi Módelstofu Guðlaugs H. Jörundssonar.

Lauji hafði vinnustofu í Bolholti og þar var slíkt safn af verkfærum til smíða að mörgum þótti sem þeir kæmu í himnaríki smíðanna.

Smíðavinnan var oft flókinn og reyndi gjarnan á Lauja að finna hæfileg efni, lýsa upp og leysa þrautir. Hann hafði þjálfast í nýta hluti við Helluströndina og á strönd Reykjavíkurheima lærðist honum að nýta ný efni og það sem rak á fjörur hans í nægtaheimum nútímans. Og hann var vandvirkur og valdi efnin vel. Lauji lokaði vinnustofu og fyrirtæki sínu árið 2004.

Bíbí

Lauji og BíbíOg svo var það Bíbí, Guðrún Valgerður Haraldsdóttir. Við, sem kynntumst Lauja á síðari árum, kynntumst líka konunni hans. Hann sóttist eftir að vera nálægt henni og fór aldrei langt án hennar. Og tengsl þeirra hrifu okkur vini þeirra og það var vermandi, vekjandi og hrífandi að fylgjast með hve góð þau voru í samskiptum og hve hlýjan í hjónabandinu var mikil og nándin ræktuð.

Þau Bibí og Lauji kynntust á balli Áttahgafélags Strandamanna í skátaheimilinu við Snorrabraut. Guðrún var þá sautján ára og sá þennan glæsilega og fallega mann og hreifst af. En svo fór hann út á land aftur – tíminn leið en svo var haldið annað Strandaball. Þá sá Bíbí hann aftur og reyndar stórfjölskyldu hans líka. Og ekki var það verra. Ættboginn hreif hana og hún átti eftir að verða vinur þessa fólks og njóta samvista við þau, bæði í Reykjavík og síðan á Hellu.

Og smekkmaðurinn og fagurkerinn Lauji mundi alla tíð eftir hvernig Bíbí var á Strandaballinu – ljóshærð þokkadís í himinbláum flauelskjól. Þau heilluðust af glæsileik og mannkostum hins, urðu blússandi ástfanginn og héldu trúlofunarveisla 7. Mars árið 1958. Hún fékk hann í afmælisgjöf þegar hún var átján ára. Þau gengu svo í hjónaband í Neskirkju 11. Júní árið 1960. Hann var dökkur og hún ljós – falleg, hrífandi hjón.

Alla tíð síðan var Bíblí engillinn hans Lauja. Hann var bæði blíðlyndur og rómantískur og tjáði greiðlega tilfinningar sínar til Bíbíar. Auk rósanna á föstudögum sem hann færði henni stráði hann rósablöðum orðanna yfir Bíbí og rómantík tónanna einnig.

Jólapakkarnir hans til hennar voru svo stórkostlegir að þeir rötuðu á forsíðu vikublaðs. Og að hann var Bíbí helgaður og hafði sagt já við hana var skýrt í bréfunum til hennar. Laugi hafði mjög einfaldan smekk gagnvart konu sinni, hann vildi bara að hún fengi það besta og að umbúnaðurinn yrði fagur. Alla tíð skrifaði hann til hennar: „Þinn eilífur Laugi.“ Og samband þeirra var samofið úr ást og tryggð af eilífðartagi og er eilíft.

Þau Bíbí og Lauji voru samhent og oftast sammála og vönduðu til alls sem þau höfðu í kringum sig og gerðu sér fallegt heimili. Eftir upphafssambúð í forstofuherbergi á Fornhaganum hjá foreldrum Bíbíar, Valdísi og Haraldi, sem Lauji tengdist vel og varð þeim sem hinn besti sonur og þau honum sem foreldrar. Þau Bíbí bjuggu síðan í Álftamýri áður en þau fengu sjávarlóð og byggðu við Bollagarða. Þar leið þeim vel, Lauji var nálægt sjónum, naut þess að vera í nábýli við litríkt og síkvikt lífríki – nánast eins og hann væri heima á Hellu. Og þau Lauji eignuðust vini í nágrönnum, buðu heim til sín stórum vinahópi, voru ávallt veitulir gestgjafar og lifðu fallegu og inntaksríku lífi.

Þau eignuðust ekki börn en urðu hins vegar mörgum nánir ástvinir. Sif og Auður Edda urðu þeim t.d. sem dætur – einkadætur eins og þau Bíbí orðuðu það. Og Klara og Tómas urðu afabörnin hans Lauja. Og mörg ykkar sem kveðjið í dag eru að kveðja einn af sínum nánustu. Guð geymi ykkur í sorgarvinnu ykkar.

Mér hefur verið falið að bera ykkur kveðju frá Vígþóri Sjafnar, Ashley og Bríma sem eru í Bandaríkjunum og geta ekki komið til þessarar athafnar.

Minningarnar

Hvaða minningar áttu um Lauja? Manstu hve vandvirkur hann var – hversu mikið hann lagði á sig til að allt sem hann gerði mætti verða sem best? Hann vann kvöld-og næturvinnu til að tryggja að geta skilað verkum á tilsettum tíma og að allt væri eins vel úr garði gert og hægt var.

Og hann var með huga við að verka hans nyti lengi við. Og hann hafði auga fyrir lit, áferð og pensildráttum við málningarvinnu.

Manstu músíkina hans? Fegurðarskyn hans og stíláherslur? Hvernig hann umvafði aðra með blíðu sinni í hjúp tónlistar? Manstu fagurkerann?

Manstu náttúrubarnið í honum? Að fuglarnir hændust að honum og aðrir málleysingjar. Það voru ekki aðeins hundarnir þeirra sem urðu þeim hjónum náin. Jafnvel fuglarnir urðu honum sem vinir. Sömu endurnar komu ár eftir ár á pollinn á lóð þeirra Lauja. Þegar ég fór frá húsi þeirra hjóna nú í vikunni sat þröstur á grein við útidyrnar og horði á mig, fullkomlega rólegur og óhræddur. Það var gott að sjá til hans og merkja hve vel ræktaður hann var og eins og hann spyrði: Hvað er orðið af Lauja?

Manstu hve natinn Lauji var við ungviðið. Börn hrifust af honum, fundu traust hjá honum og hann tók því vel þegar litlar hendur laumuðust í lófa hans. Og æ síðan var hann vinur þeirra sem sýndu honum traust.

Manstu veiðimanninn Lauja? Þau Bíbí höfðu gaman af veiði, stundum fóru þau í laxveiði og Lauji var veiðinn. Á fyrri árum lögðust þau út við fjallvötn í Strandasýslu. Af þeim ferðum sögðu þau heillandi sögur með „súrreal“ ívafi að ættingjar komu jafnvel keyrandi á dráttarvél um langan veg til að færa þeim pönnukökur!

Manstu þegar Laugi fór að missa og að hann dró sig smátt og smátt í hlé og byrjaði að hverfa inn i himininn. En fallega konan í himinbláa kjólnum tryggði að hann gat verið vonum lengur heima. Þökk sé henni og þökk sé starfsfólki Fríðuhúss þar sem Lauji naut góðar aðynningar í eitt og hálft ár sem er þökkuð. Síðasta mánuðinn sem hann átti ólifaðan dvaldi hann svo í Sóltúni og naut þakkarverðrar hlýju.

Manstu hógværð hans, seiglu og glaðværð? Manstu hve skemmtilegur hann var, fyndinn og góður sögumaður? Manstu hve vænn hann var í samfélagi, jákvæður og blíðlyndur? Og að hann hafði í sér svo mikinn sjálfsstyrk að hann gat hrósað öllum. Manstu hve þakklátur hann var?

Og nú er Lauji farinn – horfinn inn í eilfífðina og tilfinningarnar vaka. Lauji spilar ekki aftur fyrir þig, þú séð hann aldrei framar fara fingrum um hljómborð og séð ekki ljúflegt brosið breiðast yfir ásjónu hans. Hann týnir ekki aðalber lengur af fullkomnu listfengi. Hann baðar hvorki þig eða Bíbí með kærleika sínum. „Guð er góður“ sagði Lauji gjarnan.

Já, hann er farinn inn í Hellu himinsins þar sem allt er gott, allt er heilt, stórkostleg músík hljómar, besti konsertinn. Þar er Guðlaugur H. Jörundsson í sínu fínasta pússi og í essinu sínu, altengdur og alglaður. Hann var vinur Guðs, vinur Jesú, skildi hvað páskajátning fornkirkjunnar merkir: „Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.“ Lauji var maður páskana og nú er hann horfinn inn í ljósabað á stórtónleikum lífsins. Þar er hann á Hellunni, glaður. Lof sé Lauja og lof sé Kristi. Og „Guð er góður.“ Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Minningarorð við útför í Neskirkju, 26. mars, 2015.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði, erfidrykkja á Hótel Sögu.

Praesens historicum

Við Hallgrímskirkju – utan dyra – er slétt, ferhyrnd steinplata. Hún er á áberandi stað sunnan kirkjunnar en lætur þó lítið yfir sér. Á hellunni stendur Praesens historicum. Hvað þýða þessi latnesku orð? Hver er merkingin og varðar hún þig?

Þetta er mynd sem Kristinn E. Hrafnsson, myndlistarmaður, gerði fyrir sýningu í Skálholti. Heiti verksins snarað á íslensku er “Söguleg samtíð” og varðar sögu í samtíma. Og það var við hæfi að þetta verk var gert fyrir Skálholtssýningu því saga biskupsstólsins er “höfuðstóll” íslenskrar sögu og Skálholt samtíðar er einn glugganna að drama Íslendinga. Hvernig lifir saga? Kristinn fékk Sigurbjörn Einarsson til að skrifa latneska heitið á blað. Svo stækkaði Kristinn áritunina og verkið var innrammað og hékk lengi í setustofu Skálholtsskóla og hefur orðið mörgum íhugunarefni. Svo var Sigurbjörnsáletrunin klöppuð á steinhellu.

Árið 1998 barst Hallgrímskirkju boðsbréf frá Kjarvalsstöðum um að setja listaverkið niður við kirkjuna. Því var fagnað og þegið. Og síðan hefur þetta hógværa og lágstemda verk kúrt sólarmegin við kirkjuna og hvíslar spurningum um tengsl sögu og samtíðar, þeirra sem farin eru og okkar sem lifum í nútíðinni, milli vefs menningar og spunagerðar samtímans.

Mynd af Ph við HallgrímskirkjuVið búum til okkar eigin sögu. Sum okkar segjum hana með gleði og í frelsi en önnur eiga í erfiðleikum með að greina sögu sína, túlka hana jafnvel bara í neikvæðum tengslum við aðra. Þau sem eru kúguð eða meðvirk eiga t.d. oft erfitt með að segja sögu sína af því þau hafa verið bæld eða þvæld í samskiptum. En öll reynum við þó að greina merkingu í eigin lífi hversu köflótt sem ævin er. Verkefni margra presta, sálfræðinga, geðlækna, markþjálfa, góðra vina og jákvæðs fólks er m.a. að vera til staðar svo fólk geti orðað sögu sína – eða endursagt hana ef þarf að umtúlka t.d. vegna áfalla eða neikvæðrar upplifunar af einhverju tagi. Við eigum sögu sem er meiri en vitund okkar. Ekkert okkar man fæðingu og frumbernsku. Og ekkert okkar er til frásagnar um lok lífs okkar. Önnur segja þá sögu. Svo eru stærri sögur samfélaga, hópa, þjóða og menningar.

Hvernig lifir þú? Er þín saga algerlega sjálfstæð, engu og engum háð? Eða megnar þú að lifa í samfélagi annarra og þar með hlusta og reyna að skilja líf, veru, sögu samferðafólks þíns?

Við lifum á tíma þegar söguminjum er skutlað inn í stofnanir sem varðveita, sýna og túlka sögu. Svo hafna margir einhverju úr sögunni, misvirða eða rangtúlka. Margir trúlausir afneita veigamiklum þáttum trúarsögunnar og vilja endurskilgreina menningartúlkun. Þverrandi áhugi á fortíð og sögutáknum fortíðar breyta sýn einstaklinga, hópa og jafnvel þjóða. Þú ert veruleiki innan þíns eigin hrings sem er saga þín og líf. Til að þú þroskist vel skarast þinn merkingarhringur við veruleika annarra, hring annarra. Og það er trú mín að til að fólk og hópar nái miklum þroska verði sagan að hafa áhrif – ekki stýrandi eða kúgandi áhrif – heldur lífgefandi áhrif. Í sögunni er líf, fortíð og nútíð. Heimspekingurinn H. G. Gadamer talaði um að sjóndeildarhringir deildust þegar skilningur yrði.

En hvað þá um sögu kristninnar? Er hún þér lifandi veruleiki sem hefur áhrif á þig – og er lífi þínu til eflingar? Verk Kristins, rithönd Sigurbjörns, saga og verk Hallgríms, veruleiki þessar kirkju, þjónusta alls þess fólks sem hér hefur starfað og verið – allt áhrifasaga sem varðar samtíð. Þú átt þér líka sögu og samtíð.

Stærsta sagan sem er til er saga Guðs. Hún er erkisaga – lykilsaga. Trúmenn sjá í þeirri sögu túlkun á eigin smásögu. Hver ertu? Aðeins fortíðarsnauð nútíð – eða nútíð sem sagan litar og er til framtíðar? Jesús Kristur er í sögu, en er einnig söguleg samtíð og á erindi við þína sögu – við þig. Þess vegna er praesens historicum við og í Hallgrímskirkju – öllum kirkjum – ekki dautt grjót heldur erindi um líf og fögnuð.

(Praesens historicum varðar einnig málvísindi. Þegar nútíð er sett inn í fortíðaratburði í ræðu, leikhúsi eða kirkjulegri prédikun er það praesens historicum, sbr. Jesús „segir“ en ekki aðeins sagði)

Íhugun í kyrrðarstund í Hallgrímskirkju, 29. október, 2015

Liverpool, Klopp og lífsviskan

Í gær var ég að vinna í prédikun dagsins. Tíu ára gamall sonur minn beygði sig yfir tölvuna þegar hann sá að ég var að skrifa um fótbolta, las lengi, horfði svo á mig og sagði: “Þetta er góð ræða hjá þér pabbi minn!“  Hann hefur gaman af knattspyrnu, iðkar hana og veit mikið um fótboltafræðin. Og í dag ætla ég að ræða um áhugamál hans og þeirra bræðra.

Knattspyrna hefur ekki verið meginefni íhugana í kirkjum landsins og kemur ekki við sögu í messum hvern sunnudag. En boltaíþróttir eru mikilvægar í lífi nútímafólks, tengja saman þjóðir og hópa og eru fremur til friðar en ófriðar. Þær vekja áhuga á fólki frá öðrum svæðum, borgum og menningu. Knattspyrnusamtök vinna að ýmsum góðum málum t.d. er respect-virðingarátak FIFA til að innblása fólki mannvirðingu, að láta engan gjalda fyrir útlit, bakgrunn, lit eða eigindir. Ég tala um fótbolta í dag – ekki til að mæra eða hælast af íslensku landsliðum kvenna og karla sem bæði eru frábær – heldur til að íhuga lífið og hvað er til eflingar. Í dag er það fótbolti og guðsríkið en skoðunarefnið gæti allt eins verið blak, körfubolti og handbolti – raunar allar íþróttir – því kristinn boðskapur fjallar um allt fólk og veröldina.

Season of salvation

FourFourTwoÍ ágústbyrjun kom inn á mitt heimili tímaritið FourFourTwo sem er knattspyrnutímarit. Forsíðan var óvenjuleg og minnti á steindan glugga, helgimynd í kirkju. En í stað postula og engla eru á myndinni fótboltakarlar sem eru frægir fyrir fleira en siðprýði og hetjulund. Á myndinni eru líka Arsene Wenger þjálfari Arsenal í London, þáverandi Liverpool-stjóri, Brendan Rogers, Wayne Rooney úr Manchester United og Vincent Kompany úr City. José Mourinho, einn skrautlegasti knattspyrnustjóri heims, er á miðju myndarinnar eins og Jesús en þó í lakkskóm, með bindi og í jakkafötum. Margar helgimyndir hafa púka einhvers staðar til að minna á að lífið er ekki bara leikur á himneskum blómavelli. Það er m.a.s. púki á Hallgrímsmyndinni yfir aðaldyrum þessarar kirkju. Sepp Blatter, FIFA-forsetinn, er á tímaritsmyndinni í hlutverki hins illa enda aðalleikari í langdreginni spillingarsögu FIFA. Welcome to the Season of Salvation. Velkomin til tíma lausnarinnar, tíma frelsisins. Eða hvað?

Trúlegu skot fótboltans

Þessi forsíða varð umtöluð í knattspyrnuheiminum og þótti ýmsum sú besta í langan tíma. Fótboltinn skýst ekki aðeins inn í peningaveröldina og tískuheiminn heldur yfirtekur boltamenningin líka ýmis ritúalhlutverk trúarbragðanna. Trúarlífsfélagsfræðingarnir hafa löngum bent á að í atferli leikmanna og áhorfenda séu trúarvíddir og boltamenningin þjóni ýmsum þörfum fólks, t.d. að tilheyra hópi, samhengi og þiggja skilgreiningu um hlutverk sín. Og boltinn gegnir uppeldishlutverki einnig því hetjurnar verða mörgum fyrirmyndir um hegðun og afstöðu. Boltasiðferðið verður viðbót eða jafnvel viðmið grunnuppeldis.

Útaf

Það er ekkert öruggt í boltanum. Síða fótboltablaðsins í ágúst er orðin úrelt. Brendan Rogers – sem þjálfaði Gylfa Þór Sigurðsson hjá Swansea og vildi fá hann með sér til Liverpool þgar hann fór þangað -var sagt upp. Honum var hent út, settur út af “sakramentinu” – sýnt rauða spjaldið. Hann þótti ekki nógu góður því Liverpool hefur tapað og tapað og er mun neðar á stigatöflunni en púlarar (stuðningsmenn Liverpool) sætta sig við. „You never walk alone“ er slagorð Liverpool en nú gengur Rogers aleinn og yfirgefinn. Mourinho í Chelsea er hugsanlega á útleið og hinir jafnvel líka.

Celebrity-menningin

Helgimynd fótboltans í ágústblaðinu varð mér til íhugunar. Það er ekki rétt að fótboltahetjurnar hafi geislabaug sem verðlaunaskjöld eldskírnar, sigurlaun í úrslitaleik lífsins. Hetjunum á takkaskónum er hampað um stund meðan þeir hafa töfra í tánum og þjóna hlutverki í liðinu sínu en svo er þeim kastað út. Ef þeir eru “góðir” í boltanum eru sjaldnast gerðar til þeirra miklar vistmunalegar, menntunar-, félagslegar eða siðferðilegar kröfur enda hefur komið í ljós að margar stjörnurnar í boltanum hafa brennt illa af í vítaskotum einkalífsins.

Íþróttahetjurnar hafa orðið hluti celebrity-meningarinnar. Fótboltastjörnurnar eru í hópi fræga fólksins. Menningararvefur vestrænna samfélaga hefur breyst. Áhersla á dyggðir hefur dvínað og siðferðisgildunum hefur verið skotið út af. Þetta á við um meginskyldur, aðalreglur lífs, mennsku og trúar, að við berum ábyrgð á hverju öðru, velferð annarra, menningargildum og samfélagi. Þessi siðgildi skiljast illa eða ekki. Hetjur í trúarlegum, samfélagslegum, pólitískum og menningarlegum skilningi eru týndar en fræga fólkið er komið í staðinn. Celebrity-menningin er umbreyta viðmiðum og er sett í staðinn fyrir siðmenningu eða flæðir inn í götin sem myndast í gildaflæði. Fræga fólkið getur orðið fyrirmyndir í ýmsu en sjaldnast sem þroskaðar fyrirmyndir um hvað við eigum að gera í siðferðisklemmu, gagnvart flóttamönnum í neyð, í nánum samskiptum fjölskyldu og áföllum eða gagnvart dauða.

Árni Guðjón var skírður áðan. Hvað haldið þið að foreldrar hans og fjölskylda vilji helst gefa honum sem nesti til ævinnar? Það sem reynist honum best. Hann mun alast upp í samhengi og menningu sem haldið er fram í samfélagi og vefmiðlum og foreldrarnir vilja að hann mannist vel og hafi gott innræti, menningu og menntun til lífs.

Hvernig afstaða og iðkun

Textar dagsins fjalla um tengsl fólks. Við erum minnt á hetjuna Rut í bók sem ber nafn hennar. Hún var flóttamaður sem þorði að velja hið erfiða en siðferðilega fagra. Í dauðanum valdi hún lífið. Hún var hetja og því dýrlingur. Í pistlinum er fjallað um að gera hið rétta, iðka hið góða sem alltaf er í krafti Guðs og vera þar með skínandi ljós og fyrirmynd meðal fólks. Í guðspjallinu er svo sjónum beint að mismunandi viðbrögðum fólks. Þar eru tveir en ólíkir synir. Annar segir já þegar pabbi hans bað hann en gerði þó ekkert. Hann sem sé sveik. Hinn sagi nei við pabbabeiðninni en framkvæmdi þó það sem beðið var um. Líf fólks er líf gagnvart öðrum, atferli okkar hefur áhrif á aðra og varðar gildi, sannleika, traust eða vantraust. Við erum alltaf í tengslum og iðkum annað hvort hið góða eða vonda. Og yfir okkur er vakað. Allt sem við gerum eru tengsl við grunn lífins, það sem við trúmenn köllum Guð. Jesús sagði að það sem við gerðum hinum minnstu systkinum gerðum við honum.

Klopp og Guð

Áfram með fótboltann. Brendan Rogers var rekinn frá Liverpool og er aleinn og yfirgefinn. Og af því celeb-menningin gleypir siðinn er söngur Liverpool úreltur: You never walk alone. Svo var Jürgen Klopp ráðinn í hans stað. Hann er kraftaverkamaður sem gerði Borussia Dortmund að stórkostlegu liði í Þýskalandi og heimsboltanum. Af hverju skilar hann liðum lengra en aðrir? Það er vegna þess að Klopp byggir á gildum en ekki yfirborðshasar, virðir mennsku spilaranna en ekki bara töfra í tánum, leggur upp úr að allir vitji þess sem innra býr og spili með hjartanu.

En af hverju þessar íþróttafréttir í messu? Hvað kemur Klopp kirkju við? Það er vegna þess að Guð er aðili að fótbolta Klopp. Hann var spurður um hvort fótboltaguðinn hefði snúið baki við honum. Klopp skrifaði og talaði um að hann tryði ekki á fótboltaguð heldur alvöru Guð. Við menn værum í frábærlega góðum höndum Guðs sem væri stórkostlegur. Sá Guð elskaði okkur, með kostum okkar en líka göllum og hefði gert okkur ábyrg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Guð héldi ekki á okkur sem strengjabrúðum. Við værum sjálf ábyrg fyrir því sem við værum og gerðum. Við menn yrðu að skora okkar eigin mörk í lífinu.

Knattspyrnan hjá Klopp er ekki kristilegri heldur en í hinum liðunum – heldur er afstaða hans til mannlífs og annara hið áhugaverða og skilar að mínu viti jákvæðri mannsýn, hvatningu og ástríðu. Sem drengur í Svartaskógi var hann alinn upp við eflandi tengsl við Guð. Mamman kenndi honum bænir og amman fór með hann í kirkju sem hann sækir. Hann tekur tíma á hverjum degi til að vitja sjálfs sín og biðja sínar bænir. Síðan hefur hann lifað í stóra neti guðstrúarinnar og ræktaðri mannvirðingu. Sem þjálfari nálgast hann leikmenn sem mannverur en ekki aðeins vöðvavélar, að allir leiti hamingju og merkingar í áföllum og gleði lífsins. Nú festa hundruðir þúsunda aðdáenda Liverpool trú sína við Klopp en Klopp festir trú sína við meira en sjálfan sig.

Árni Guðjón, ferðamennirnir og þú í þínum verkum, gleði og sorgum, fótboltabullurnar og öll hin sem hafa engan áhuga á tuðrum, – öll reynum við að lifa hamingjuríku lífi. Hvað dugar best; celeb eða siður, lúkkið eða viskan? Ætlar þú að segja já eða nei í lífinu? Hvað ætlar þú gera? Já er best í lífinu og siðvit í samræmi við það já.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 18. október, 2015.

Lexía: Rut 2.8-12

Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“

Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:

„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Pistill: Fil 2.12-18

Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar. Gerið allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.

Guðspjall: Matt 21.28-32

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ Þeir svara: „Sá fyrri.“ Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“

Þessir flóttamenn

ÁvextirGult lauf liggur á götunum. Rauð reyniberin mynda fagurt litaívaf í haustlitasinfóníuna. Tré og runnar hafa náð fullum þroska og fuglar himins uppskera. Menn hafa bjargað forða til hausts og vetrar.

Þótt fæst okkar séum með beinum hætti háð gróðri jarðar lifum við samt í hrynjandi náttúru og megum gleðjast yfir jurtum sem þroskast, í samræmi við köllun sína og skila ávexti sínum til lífkeðju veraldar og fræjum til framtíðar. Rauð ber, fullþroska grænmeti og líka hálfslompaðir, syngjandi þrestir eru fulltrúar lífsins í verðandi veraldar.

Í Biblíunni eru ávaxtaríkar sögur sem ríma við tímann. Það eru ekki úreltar sögur – eins og grunnhyggnir skríbentar halda fram – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta og eru erkisögur. Sögur um að við menn megum bera ávöxt í samræmni við eðli okkar og viðmið. Ein þeirra er Rutarsaga í Gamla testamentinu. Texti úr þeirri bók er lexía næsta sunnudags sem er 20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, um lífið, gildi lífsins, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef nokkuð úrelt, er eitthvað sem minnir þig á vanda og val okkar í nútíma?

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að ísraelsk fjölskylda, kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér vel og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu, konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim og ungu konurnar – sem voru barnlausar – urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir og hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu.

Sú unga gekk í verk til að bjarga sér og tengdamóður sinni, hreif fólk í nágrenni Jerúsalem og svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. En Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar. Það var þessi kona sem síðan varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins – formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega vefs.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks af alls konar kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru sem hefðarminni sem ratar til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar og til að menn beri ávexti og fræ til framtíðar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist. Og það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða.

Og þá lexíutexti sunnudagsins. Rutarbók, annar kafli. Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust, vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Og yfir vakir Guð elskunnar, sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum Guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra.

Biðjum:

Fyrir hvert skref sem ég tek í lífi mínu – ver mín leiðarstjarna – þú lífsins Guð

Fyrir allar byrðar lífsins – ver mér styrkur – lífsins Guð

Fyrir allar fjallaferðir ævinnar – gef mér kraft – lífsins Guð

Fyrir allar árnar sem ég þarf að vaða – ver mér styrk hönd, lífsins Guð

Fyrir alla áningarstaði mína ver mér friður – lífsins Guð
Fyrir aftureldingu og sólarlag allra daga ver mér gleðigjafi – þú lífsins Guð

(ensk pílagrímabæn)

Biðjum bæn Drottins: Faðir vor….

Drottinn blessi oss og varðveiti oss, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss frið.

Um Rutarbók sjá ágæta og áhrifaríka prédikun sr. Sigurvins Lárusar Jónssonar.

Íhugun – kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 15. október, 2015.

Porvoo-kirknasamfélagið dafnar

YorkTvær lútherskar kirkjur undirrituðu Porvoo-sáttmálann þann 19. september og urðu þar með fullgildir aðilar Porvoo-kirknasamfélagsins. Martin Lind undirritaði fyrir hönd Evangelísk-lúthersku kirkjunnar á Bretlandseyjum, LCiGB, og Elmars Ernst Rozitis fyrir hönd Lettnesk-evangelísk-lúthersku kirkjunnar erlendis, LELCA, en Lettar hafa stofnað kirkjusöfnuði víða, m.a. í Þýskalandi, á Bretlandseyjum og í Norður-Ameríku. Undirritunarthöfnin fór fram í lok leiðtogafundar Porvoo-kirknasambandsins sem haldinn var í York 17.-19. september.

Porvoo-kirknasamfélagið hefur verið samband anglíkanskra kirkna á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu og Íberíuskaganum og evangelísk lútherskra kirkna á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Átján ár eru liðin frá undirritun Porvoo-yfirlýsingarinnar. Nú hefur lútherska kirkjan á Bretlandseyjum orðið fullgildur aðili samfélagsins sem og Lettneska ev.-lúth. kirkjan erlendis. Þessar tvær kirkjur hafa til þessa tekið þátt í Porvoo-starfinu sem áheyrendur.

Porvoo-kirknasamfélagið þjónar tengslum og gagnvirku samfélagi kirknanna. Samfélagið er ekki stofnun heldur tengslasamband, hefur enga skrifstofu né fasta starfsmenn en allar kirkjur hafa tilnefnt tengla í tengslahóp, PCG, sem hittist árlega. Á tveggja ára fresti hittast höfuðbiskupar kirknanna til að ræða saman og miðla upplýsingum. Kirkjurnar hvetja til samskipta safnaða, prófastsdæma og biskupsdæma. Prestar hafa fengið möguleika til starfa í Porvookirkjum sem hefur orðið til gagns, kynningar og þar með skilnings. Þá efnir sambandið reglulega til guðfræðifunda og býður til samkirkjulegra funda. Daglega er beðið fyrir einhverjum kirkjum samfélagsins. Fyrir Íslandi og íslensku kirkjunni verður beðið 15. júní í ár. Bænaefni og uppýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu samfélagsins http://www.porvoocommunion.org

Á fundinum í York var rætt um átján ára unglinginn, Porvoo-kirknasamfélagið. Glaðst var yfir samskiptaháttum og að hið gagnvirka net hafi skilað í tengslum og auknum skilningi. Síðustu átján ár hafa einkennst af miklum breytingum í Evrópu, menningarlegum, félagslegum og trúarlegum. Að anglíkankar og lútherskar kirkjur hafa átt greiðar samskiptaleiðir hefur skilað skilningi, samstöðu og umhyggju. Engar samþykktir voru gerðar á York-fundinum en þeim mun meira talað og rætt um erindi kirkjunnar í samtíðinni, ungt fólk í kirkjunni og framtíð kirkjunnar. Porvoo-kirkjurnar eru á leiðinni, þær eru að breytast og spyrja um tilgang sinn, hlutverk og þjónstu gagnvart Guði og mönnum. Kirkjurnar eru á ferð.

Þessi skýrsla mín átti að birtast á vef þjóðkirkjunnar í septemberlok 2014. Ég var að leita á netinu og tók þá eftir að hún var í felum og hafði aldrei birst. Til að hún sé aðgengileg er hún birt nú – seint og um síðir.

Slóð á myndasafn þessa fundar er: https://www.flickr.com/photos/56754544@N00/albums/72157647642131119