Greinasafn fyrir merki: York-fundur

Porvoo-kirknasamfélagið dafnar

YorkTvær lútherskar kirkjur undirrituðu Porvoo-sáttmálann þann 19. september og urðu þar með fullgildir aðilar Porvoo-kirknasamfélagsins. Martin Lind undirritaði fyrir hönd Evangelísk-lúthersku kirkjunnar á Bretlandseyjum, LCiGB, og Elmars Ernst Rozitis fyrir hönd Lettnesk-evangelísk-lúthersku kirkjunnar erlendis, LELCA, en Lettar hafa stofnað kirkjusöfnuði víða, m.a. í Þýskalandi, á Bretlandseyjum og í Norður-Ameríku. Undirritunarthöfnin fór fram í lok leiðtogafundar Porvoo-kirknasambandsins sem haldinn var í York 17.-19. september.

Porvoo-kirknasamfélagið hefur verið samband anglíkanskra kirkna á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu og Íberíuskaganum og evangelísk lútherskra kirkna á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Átján ár eru liðin frá undirritun Porvoo-yfirlýsingarinnar. Nú hefur lútherska kirkjan á Bretlandseyjum orðið fullgildur aðili samfélagsins sem og Lettneska ev.-lúth. kirkjan erlendis. Þessar tvær kirkjur hafa til þessa tekið þátt í Porvoo-starfinu sem áheyrendur.

Porvoo-kirknasamfélagið þjónar tengslum og gagnvirku samfélagi kirknanna. Samfélagið er ekki stofnun heldur tengslasamband, hefur enga skrifstofu né fasta starfsmenn en allar kirkjur hafa tilnefnt tengla í tengslahóp, PCG, sem hittist árlega. Á tveggja ára fresti hittast höfuðbiskupar kirknanna til að ræða saman og miðla upplýsingum. Kirkjurnar hvetja til samskipta safnaða, prófastsdæma og biskupsdæma. Prestar hafa fengið möguleika til starfa í Porvookirkjum sem hefur orðið til gagns, kynningar og þar með skilnings. Þá efnir sambandið reglulega til guðfræðifunda og býður til samkirkjulegra funda. Daglega er beðið fyrir einhverjum kirkjum samfélagsins. Fyrir Íslandi og íslensku kirkjunni verður beðið 15. júní í ár. Bænaefni og uppýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu samfélagsins http://www.porvoocommunion.org

Á fundinum í York var rætt um átján ára unglinginn, Porvoo-kirknasamfélagið. Glaðst var yfir samskiptaháttum og að hið gagnvirka net hafi skilað í tengslum og auknum skilningi. Síðustu átján ár hafa einkennst af miklum breytingum í Evrópu, menningarlegum, félagslegum og trúarlegum. Að anglíkankar og lútherskar kirkjur hafa átt greiðar samskiptaleiðir hefur skilað skilningi, samstöðu og umhyggju. Engar samþykktir voru gerðar á York-fundinum en þeim mun meira talað og rætt um erindi kirkjunnar í samtíðinni, ungt fólk í kirkjunni og framtíð kirkjunnar. Porvoo-kirkjurnar eru á leiðinni, þær eru að breytast og spyrja um tilgang sinn, hlutverk og þjónstu gagnvart Guði og mönnum. Kirkjurnar eru á ferð.

Þessi skýrsla mín átti að birtast á vef þjóðkirkjunnar í septemberlok 2014. Ég var að leita á netinu og tók þá eftir að hún var í felum og hafði aldrei birst. Til að hún sé aðgengileg er hún birt nú – seint og um síðir.

Slóð á myndasafn þessa fundar er: https://www.flickr.com/photos/56754544@N00/albums/72157647642131119