Endurnýjun og hleðsla

endurnýjunKæru hlustendur. Góðan dag og verið velkomin til nýs dags og nýrra möguleika. Hvernig getur þú notað þennan dag, sem þér er gefinn? Hvernig viltu nota hann? Ef þú lætur aðeins stjórnast af áreiti hættir þú að heyra rödd hjartans. Þá blæs viskan hjá og spekin líka. Siglandi skip þarfnast stefnu og menn þarfnast líka stjórnar á sínum lífssjó.

Ég hlustaði einu sinni fyrirlestur um hvernig við getum breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins sem best. Fyrirlesarinn minnti á, að mörg okkar eigum þrískipta æfi. Fyrst koma bernsku- og náms-árin, oft nærri tuttugu og fimm ár. Síðan tekur við starfsæfin, sem er gjarnan fjörutíu til fimmtíu ár. Síðan fylgja eftirlaunaárin og ellin. En hentar öllum þessi þrískipting æfinnar?

Fyrirlesarinn ákvað að dreifa eftirlaunaárunum á alla starfsæfi sína. Fyrsta sinn fór hann á “eftirlaun” þegar hann var liðlega þrítugur og þá í eitt ár. Svo vann hann í sjö ár og þá tók við nýtt náðarár til að gera það, sem hann langði mest til. Hann tók ákvörðun um, að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manns óháð hasar daganna.

Að dreifa hleðslutíma á ævina með þessu móti krefst, að málum sé raðað í forgang. Í stað neyslu verður að spara, nýta fjármuni til andlegrar iðju fremur en kaupa hluta og eigna. Tíminn er ekki bara peningar. Tíminn er ekki heldur aðeins hinn sekúndur og mínútur. Tíminn er lifaður, er persónulegur. Hann getur verið angistarfullur sorgartími, stórkostlegur barneignatími, áhyggjutími eða tími algleymis og hamingju. Við gefum sjálf tímanum merkingu. Við megum líka hugsa nýjar hugsanir. Hin trúarlega nálgun er að leyfa himni og heimi að faðmast og kyssast í okkar eigin lífi.

Kristni er boðskapur um að Guð þorir. Kristin trú er ekki niðurnjörvaður átrúnaður hins læsta kerfis. Guð breytir um stefnu og tekur upp á hinu óvænta. Guð leggur sig í hættu vegna lífsins. Þú ert vissulega vera í heimi tímans, en í þér á frelsið heima. Má bjóða þér hamingjutíma? Þorir þú að lifa vel? Nýr dagur og nýir möguleikar.

Bænir

Guð gangi þér við hlið á þessum degi.

Morgunorð og bænir RÚV 27. september 2014

Meistarinn Gunnar

GunnarGunnar Bjarnason byggði gjarnan fyrir vini sína og lagði alúð í verk og kærleika í samskeyti. Stór hluti hússins sem ég bý í er handaverk hans. Mér þykir ekki aðeins vænt um húsið heldur met það sem verk vinar og dáist að smíðagæðum.

Fyrir tólf árum bætti Gunnar við húsið okkar og ég var liðléttingur. Ég hef hvorki fyrr eða síðar fylgst með nokkrum manni vinna eins hratt og Gunnar. Hann var á sprettinum. Ef hann vantaði fjöl eða verkfæri rölti hann ekki eða gekk – heldur spretti úr spori. Það gekk því mjög undan honum og þeim sem voru í vinnu hjá honum. En hann vandaði sig alltaf, flýtti sér aldrei þegar kom að fínu vinnunni.

Þjóðardýrmæti

Mörg ykkar sem kveðjið Gunnar í dag nutuð verka hans. Þau eru okkur mikilvæg og við megum gjarnan þakka fyrir Gunnar og vitja minninga um hann þegar við njótum húsaskjóls á köldum vetrardegi eða förum í einhvert dásemdarhúsið sem Gunnar smíðaði, hvort sem það er í Austurstræti, í Þjórsárdal, í Landsveit, í Brattahlíð á Grænlandi eða á Hólum. Handaverk hans eru ekki aðeins mikilvæg einstaklingum heldur líka menningarverðmæti og þjóðardýrmæti.

Ég er sáttur við líf mitt

Við Gunnar hittumst nokkrum sinnum síðastliðið haust til að fara yfir lífið og undirbúa næsta líf. Gunnar talaði um æfi sína, fór yfir eigin afstöðu, talaði fallega um konu sína, son, tengdadóttur, afadreng, systkini og ættboga. Hann talaði um hugðarefni, skýrði verkefni sín og ástríðuna að baki. Svo horfði hann á mig íhugulum augum og sagði: „Ég er sáttur við líf mitt.“ Og hann bætti við: „Ég er sáttur við handaverk mín. Ég er sáttur við að nú lýkur mínu lífi.“

Að vera sáttur við líf sitt er mikil blessun. Í Gunnari bjó eldur og lífsþorsti en líka ræktuð Guðstrú. Hann virti teikningu meistarans mikla sem hefur hannað heiminn og ákvarðaði honum verkefni, stefnu og áferð. Svo þegar Gunnar gerði sér grein fyrir að hamarinn var fallinn, sögin líka og dagsverki var lokið gerði hann upp og kvaddi hann ástvini og samferðamenn. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og starfa sinna. En hann sagði: „Ég er sáttur“ – í þeirri sátt var fólgin vissa þess að hafa unnið vel, gegnt kalli og hlutverki. Öllu var vel fyrir komið og hann gætti horft til baka og verið þess viss að vel hefði verið lifað og hann ætti góða heimvon – því þannig er tilveran gerð.

Í húsi föðurins eru margar vistarverur, allar flottar, vel strikaðar, hús fyrir líf. Þar hrynur ekkert, engin fúi eða álag tímans skemmir. Lífið er uppbygingartími en eilífa lífið er til fullkomnumar. Það kunni Gunnar að meta.

Lofsöngurinn

„Og gerðu svo vel að lesa úr 103. Davíðssálmi við útförina mína“ sagði Gunnar og bætti svo við „skrítið að skipuleggja eigin útför.“ Við ræddum um líf og dauða og svo las ég fyrir hann upphátt þennan sálm. Hann gerþekkti merkingu textans, um lífsafstöðuna – um Guð og menn, líf og verk og samhengi mannlífsins. „Lofa Drottinn … allt sem í mér er.“ Guð er upphaf, máttur heims, bindingsverk alls.

Allt sem í mér er. Í Gunnari bjó afar margt – en allt vildi hann setja í þjónustu meistarans mikla og leyfa verkum, orðum, hlutum að syngja lofsöng. Hann hafði notað vel lífstímann til að marka sér stefnu og vinna í sjálfum sér og fyrir aðra.

Fyrir hvað lifum við? Fyrir hvað lifir þú?

Fólk og upphaf

Foreldrar Gunnars voru Hanna Arnlaugsdóttir, röntentæknir (f. 29.7. 1928, d. 13.1. 1984) og Bjarni Ólafsson (3. ágúst 1923. – 10. maí 2011) húsasmíðameistari og lektor. Gunnar fæddist 15. ágúst árið 1949 og var elstur þriggja systkina. Hann hafði í sér getu og mótun elsta barnsins og axlaði vel ábyrgð og skildi mikilvægi hennar. Ólafur var næstur, fæddist 1953 og Hallfríður er yngst, en hún kom í heiminn árið 1957.

Þau eru öll uppbyggileg. Það er ættarfylgja þeirra að bæta – byggja upp – og gildir einu hvort rætt er um hluti, hús eða fólk. Ólafur er bifreiðasmiður að mennt og býr í Svíþjóð ásamt sínu fólki en Halla er iðjuþjálfi og kennari og byggir upp fólk. Hún býr í Noregi sem og hennar fjölskylda.

Bjarni, Hanna og börnin áttu heima á Gullteig og í Sigtúni í bernsku Gunnars. Hann hóf því skólagönguna í Laugarnesskóla. Gunnar var kominn af smiðum. Ólafur, afi hans, var kunnur smiður og Bjarni, faðir hans, sömuleiðis. Gunnar fékk því smíðar í arf og meistaravíddina einnig. Gunnar fór í Gagnfræðaskóla verknáms og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði árið 1970.

Handverk og fræði

Gunnar starfaði síðan við smíðar og fyrst með föður sínum í nokkur ár eftir að námi lauk. Hann lærði byggingu stokkahúsa í Ål í Hallingdal í Noregi veturinn 1976 og í framhaldinu fékk hann vinnu á byggðasafninu á Bygdöy í Osló. Á þessum árum var Gunnar líka yfirsmiður þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Með smíðinni kynntist hann húsagerðarsögu, handverki, miðaldafræðum og fólkinu í þessum greinum. Arkitektar, safnamenn og handverksmenn urðu síðan vinir hans og félagar og Gunnar lagði til þessa samfélags bæði tæki, hugmyndir og verk.

Gunnar fékk meistararétindi í grein sinni árið 1987. Sem húsasmíðameistari kom Gunnar og menn hans að smíði margra húsa. Hann stýrði ekki aðeins verkum eða negldi, heldur blés mörgum í brjóst áhuga á handverki fyrri kynslóða. Gunnar sérhæfði sig í viðgerð gamalla húsa og vann við mörg hús í umsjá Þjóðminjasafnsins og Húsafriðunarnefndar. Svo tók hann þátt í byggingu margra tilgátuhúsa. Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er þegar nefndur. Við hlið hans er helgidómur sem Gunnar smíðaði. Þá vann hann við smíði bæjarins á Eiríksstöðum í Haukadal og í Brattahlíð þegar Þjóðhildarkirkja var reist. Og vert er að minna á Austurstræti 22 í Reykjavík. Og dýrmæti önnur mætti nefna og nokkur þeirra í einkaeign. Gunnar smíðaði hér í Neskirkju og lagði á ráðin um margt varðandi viðgerðir. Hann smíðaði í tugum kirkna á Íslandi, lagfærði og bætti. Ég vil fyrir okkar hönd, Neskirkjufólks, og fyrir hönd þjóðkirkju Íslands færa þakkir fyrir verk völdundarins í þágu kirkjunnar.

Svo háttaði til að við Gunnar hittumst reglulega þegar unnið var að undirbúningi byggingar Auðunnarstofu á Hólum. Það var hrífandi að hlusta á Gunnar þegar hann lýsti verkefninu, gerð hússins, að hverju þyrfti að hyggja og hvernig yrði að vinna verkið svo það yrði eins og að væri stefnt.

Sami hugurinn brann í Gunnari þegar komið var að búðinni í Skálholti, sem nú er risin við hlið dómkirkjunnar. Sum áhöldin sem hann notaði við smíði þess húss og annarra tilgátubygginga smíðaði hann sjálfur. Gunnar hafði verið í sveit í Heysholti í Landsveit. Þar var smiðja og smíðað úr járni. Síðar fékk Gunnar tækifæri til að læra eldsmíði og lagði sig eftir tengslum við erlenda smiði.

Gunnar leitaði út fyrir mörk í smíðavinnu og gerði tilraunir með alls konar smíðar og eldsmíðin var ein handverksvíddin sem hann kom að. Raunar hafði hann áhuga á að prufa fornar iðnir. Sverðið sem hann smíðaði ungur kallaði á fjölbreytilega vinnu. Gunnar steypti t.d. döggskó sverðslíðursins og svo lærði hann spjaldvefnað til að geta gert upphengiól slíðursins.

Fyrir hönd handverksmanna í Noregi biður Atle Ove Martinussen, menningarsafnastjóri á Hörðalandi, fyrir kveðjur og þakkir fyrir góðan félaga, afburða smíðar og segir að skerpa og gæði verkfæranna sem Gunnar skildi eftir sig í Noregi muni gleðja marga og mörg ár.

Norskur fræðimaður sagði einu sinni að manneskjan bæri í sér „grænseoverskridende tendens.“ Gunnar hafði alltaf áhuga á að gera sem best og skila sem fegurstu verki og grúskaði því mikið. Hann vildi skoða gerð hluta, fræða, hefða og skilja og skila síðan til nýrrar kynslóðar.

Það var vandalaust að koma Gunnari inn á menningarsöfn, en það gat verið þrautin þyngri að ná honum þaðan út – svo heilaður var hann af lömum og lásum aldanna, snilldarhandbragði og verkfærum. Gunnari var gefið að draga heim lærdóm fortíðar til nota fyrir framtíð. Því var Gunnar ekki aðeins mikilvægur smiður heldur ráðhollur við hönnum og frágang.

Jesús Kristur og trúin

Þið sem hér eruð í dag nutuð ekki aðeins verka hans heldur einnig fyrirbænar. Gunnar var maður andans einnig. Í Jesúskólanum var hann jafnlengi og lífið lifði. Hann þáði trú og menningu kristni í arf frá foreldrum sínum. Frá barnsaldri tók Gunnar tók þátt í starfi KFUM og -K. Á fullorðins árum vann hann mikið fyrir sumarbúðir í Vatnaskógi og Vindáshlíð. Hann sat í stjórn KFUM í Reykjavík um tíma. Svo gekk hann í Karlakór KFUM á síðari árum og söng annan tenór og hafði mikla gleði af. Hann studdi kristniboð og var í stjórn kristniboðssambandsins um tíma.

Hann var félagi í Gideonfélaginu og kapellán sambandsins 1996-99 og gaf æsku þessa lands Nýja testamenti. Gídeonfélagar á Íslandi biðja fyrir kveðju til þessa safnaðar með þakklæti fyrir frábærlega vel unnin störf í hinum ýmsu embættum og verkefnum sem Gunnari voru falin.

Gunnar var bænamaður. Hann var sem sveinn í samskiptum við meistarann mesta, lagði lærdómsefni lífsins fyrir hann, gleðiefni sín og vandkvæði. Hann var algerlega opin fyrir bænheyrslu og þakkaði heilshugar þegar kraftaverkin urðu. En svo var hann líka auðmjúkur þegar beiðnum hans var ekki svarað með þeim hætti sem hann vonaðist eftir. Í dauðastríði sáum við vinir Gunnars æðrulausa trú hans og traust sem ekki brast. Jesúskólinn hafði skilað honum miklu.

Kristín og fjölskylda

Í hjúskap var Gunnar hamingjumaður. Þau Gunnar og Kristín Sverrisdóttir (f. 31.3.1952, náms- og starfsráðgjafi) voru engir unglingar þegar þau fóru að leiðast. Mæður þeirra þekktust og þegar Gunnar var sjö eða átta ára talaði hann um óþekku stelpurnar og átti við þær Sverrisdætur!

En svo tók Gunnar síðsumars árið 1978 við pakka úr hendi Kristínar til að fara með til Danmerkur. Eitthvað í þeim gjörningi snart Gunnar því skömmu síðar fór að styttast á milli þeirra. Þegar andinn var kominn var Gunnar stefnufastur um framhaldið. Þau Kristín gengu í hjónaband 7. júlí árið 1979, voru samhent og leiddust síðan í gegnum lífið. Þau nærðu samband sitt, höfðu að fjölskyldustefnu að eiga sunnudaginn saman – til kirkjuferða, gönguferða og fjölskylduræktar. Þau lögðu upp úr að vera saman, líka þegar Gunnar var að verki utan höfuborgarsvæðisins. Og vinnutími og fjölskyldutími þeirra samfléttaðist vel. Og Gunnnar kunni að meta konu sína og henni var lagið að efla hann og styrkja.

Kristín og Gunnar eignuðust einn son, Sverri, sem fæddist þeim í febrúar árið 1982. Þau lögðu til hans umhyggju, kærleika og fyrirbænir. Þau voru lengur með hann heima í bernsku en flestir aðrir foreldrar gerðu á þessum tíma og hafa enda uppskorið nánd og ræktuð tengsl. Sverrir smíðaði um tíma með föður sínum og það var heillandi að verða vitni að samvinnu þeirra og gagnkvæmri virðingu. Svo flaug Sverrir að heiman og upp í skýin, varð flugmaður og hefur atvinnu af flugi. Og Gunnar hafði líka áhuga á flugi! Kona Sverris er Guðrún Birna Brynjarsdóttir, ferðamálafræðingur (f. 12.5. 1984). Sonur þeirra er Jakob Bjarni f. 6.1.2014 og annars barns er að vænta. Það er harmsefni að þau njóta ekki barngæsku Gunnars í framtíð.

Gunnarsminningar

Hvernig manstu Gunnar? Kannski sástu hann þeytast um mótorhjóli! Montesa-hjólið hans dansaði jafnvel með hann. Manstu eftir honum út í sveit vera svipast um eftir Willysjeppa – eða einhverju Willysbraki? Hann sagði stundum við Kristínu konu sína að hún mætti ekki láta sér bregða – hann ætti von á sendingu – og stundum voru Willysræflar sendir til hans og hann gerði þeim gott til á næstu árum. Og svo stendur Willys 44 hér utan kirkjunnar og fylgir meistara sínum hinstu ferðina.

Manstu eftir myndum Gunnars? Sástu einhvern tíma til hans bograndi yfir gömlum lás, rannsaka og ljósmynda til að greina sem best gerðina. Hlustaðir þú á Gunnar segja frá því sem hreif hann? Manstu hve vel hann sagði frá þegar hann talaði um hjartansmál?

Stríddi hann þér einhvern tíma – og gerðir þú þér grein fyrir hvað hann yddaði vel og húmor hans gat verið beittur? Manstu eftir honum á fjöllum og í víðerni Íslands, með dýrð himins og jarðar í blikandi augum?

Manstu eftir honum með spenntar greipar í djúpu samtali við yfirhönnuð alheimsins? Sástu hann einhvern tíma lesa hina helgu bók með íhugulli vitund? Sástu hann móta listaverk í eldsmiðjunni? Manstu þegar hann rak fram hökuna þegar eitthvað kúnstugt kom fram á varirnar? Manstu hve vel hann hlustaði á fólk, hve hann lagði sig fram um að nema og skilja – og hve mannvirðing hans var djúp? Manstu hve lausnamiðaður hann var?

Í húsi föður míns

Og nú er hann horfinn. Hann mun ekki fella saman fleiri stokka nema ef vera skyldi í himneskum föðurhúsum. Hann mun ekki hlaupa á safni til að skoða flugvél eða lás. Tenórrödd Gunnars er þögnuð en lofsöngurinn er ekki þagnaðar.

Handaverkin hans lifa, bænir hans hafa verið heyrðar.

Í sumar skoðaði ég Auðunnarstofu og dáðist að handarverkunum. Fyrir einni og hálfri viku gekk ég að búðinni í Skálholti sem Gunnar smíðaði, heillaðist ekki aðeins að trésmíðinni heldur hreifst líka af lásnum – og hugsaði til Gunnars sem lifði óhræddur sína hinstu daga í þessum heimi. Lásinn er fagur. Gunnar trúði því dauðinn læsti ekki líf hans í gleymsu eilífðar, heldur hefði Guð opnað lás heimsbrenglunarinnar og dauðans algerlega. Í dauða Gunnars er byrjað nýtt líf í búð eða stofu eilífðar. Og því megum við syngja Guði lof sem teiknar, gerir, leysir og blessar heiminn.

Guð geymi Gunnar Bjarnason – Guð geymi þig.

Amen – Í Jesú nafni Amen.

Minningarorð við útför Gunnars í Neskirkju 23. september, 2014.

 

Sálmur 103, 1-22

2 Lofa þú Drottin, sála mín,

og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;

lofa þú Drottin, sála mín,

og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

3Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,

læknar öll þín mein,

4leysir líf þitt frá gröfinni,

krýnir þig náð og miskunn.

5Hann mettar þig gæðum,

þú yngist upp sem örninn.

6Drottinn fremur réttlæti

og veitir rétt öllum kúguðum.

7Hann gerði Móse vegu sína kunna

og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

8Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,

þolinmóður og mjög gæskuríkur.

9Hann þreytir eigi deilur um aldur

og er eigi eilíflega reiður.

10Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum

og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum

11heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðinni,

svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12Svo langt sem austrið er frá vestrinu,

svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,

eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14Því að hann þekkir eðli vort,

minnist þess að vér erum mold.

15Dagar mannsins eru sem grasið,

hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16þegar vindur blæs á hann er hann horfinn

og staður hans þekkir hann ekki framar.

17En miskunn Drottins við þá er óttast hann

varir frá eilífð til eilífðar

og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18þeirra er varðveita sáttmála hans

og muna að breyta eftir boðum hans.

19Drottinn hefur reist hásæti sitt á himnum

og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20Lofið Drottin, þér englar hans,

þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans,

er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21Lofið Drottin, allar hersveitir hans,

þjónar hans er framkvæmið vilja hans.

22Lofið Drottin, öll verk hans,

á hverjum stað í ríki hans.

Lofa þú Drottin, sála mín.

Geislar lífsins

köllun SÞGóðan dag kæru hlustendur.

Við Landakotskirkju í Reykjavík er skúlptur Steinunnar Þórarinsdóttur. Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá honum og vitjaði móður minnar, sem lá banaleguna á Landakotsspítala. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af þokka hennar, mjúkum línum og þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og óttaleysi.

Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð.

Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð ég fyrir undri. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið magnaði ljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók í sig himinljósið. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar.

Verkið heitir Köllun og við erum öll kölluð til lífs, hins guðlega veruleika. Enginn gengur að undrinu að vild, þegar fólk er í stuði og ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins verður ljóst, í málmi, gifsi og gleri.

Hvernig verður þessi dagur í lífi þínu. Kannski sækja að þér þungir og myrkir þankar. En ljósið skín, dagur er runninn, aftureldin verður. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun þín í dag – köllun til ljóss og lífs. Guð lýsi þig og upplýsi þig á þessum degi og sé þér náðugur. Guð upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Bænir Morgunorð og morgunbæn Rúv. 25 sept. 2014

Hljóðupptaka Rúv er að baki þessari smellu:

http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunbaen-og-ord-dagsins/25092014

Ég öfunda þig svo…

morgunorð og bæn á Rúv 24. september, 2014.

IMG_3135Góðan dag, kæri hlustandi. Hvaða afstöðu langar þú til að temja þér í dag? Er sátt í þér eða einhver öfund? Öfundin getur afvegaleitt.

Margir viðurkenna blygðunarlaust, að þau langi í það sem aðrir eiga. Vegna klókinda – og jafnvel líka bælingar – talaði fyrri tíðar fólk ekki um ágirndarmál sín. Málfar breytist og óvíst að ungt fólk samtímans öfundi freklegar en foreldrar þeirra, afar og ömmur, gerðu á sínum tíma. Kannski brann eldri kynslóðin af öfund en í leyni?

Öfund gýs upp í fólki gagnvart einhverju og einhverjum, sem eru eða eiga hið eftirsóknarverða. Hún getur verið afleiðing skerts sjálfsmats. Öfund dafnar helst í skugga og skorti. Öfundin er ávöxtur hinna tilfinningalega snauðu, gleðifirtu og viskuskertu.

En þau, sem samgleðjast eru ekki full af skorti heldur ríkidæmi nægjuseminnar og oftast líka hamingju. Við þurfum að æfa okkur að segja: “Ég samgleðst þér,” æfa okkur að hrósa og segja: “Mikið er þetta fallegur kjóll. Þú lítur glimrandi vel út, þetta var fallega sagt…”

Því fylgir jafnvel líkamleg vellíðan að segja: “Ég samgleðst þér.”

Þau, sem lifa skort og sjá ekki út úr honum, eru herpt, bæði líkamlega og tilfinningalega. Fátækur maður getur verið ríkur af lífsgæðum. Billjóner getur verið skínandi fátækur en eignasnauður getur verið auðjöfur heimsins. Allir ættu skilja bölvun skortsins, að þekkja uppsprettu efnishyggju og valdapots.

En þau, sem gleðjast með öðrum, losna úr álögum skortsins og hafa betri möguleika til lífsfyllingar og örlætis en annars væri.

Við getum auðveldlega dottið í öfund, sókn í ásýnd í stað hins varanlega. Í dag er góður dagur til að styrkja lífsgleðina og þakklætið. Í dag er ljómandi dagur til að samgleðjast og hrósa líka. Þegar öfundin dvín og samgleðin styrkist förum við að horfa á okkur sjálf, samferðafólk okkar og lífsgæðin með augum Guðs. Biðjum:

Gef mér Drottinn góðan dag.

Gefðu, að ég í návist þinni,

eignist hugrótt hjartalag,

hjálpi ef einhver þarf í dag.

Blessa þú og bæt minn hag.

Bægðu synd frá götu minni.

Gef mér Drottinn góðan dag,

góðan dag í návist þinni.

 

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Amen

 

Guð gefi þér gleði og að sjá dýrmæti í öðrum.

Guð gefi þér góðan dag.

Morgunbæn Rúv 24. september, 2014.

 

Góðan dag, kæri vinur

IMG_4581_2_9109600037_lÉg stóð einn daginn í forstofu barnaskóla og horfði á kennara taka á móti börnum í skólann. Þeim mætti ekki aðeins hlýtt viðmót heldur kveðjan: “Góðan dag, kæri vinur.” Í þessum skóla, eins og öðrum góðum menntastofnunum, er fólk ræktað. Góðan daginn er ljómandi ávarp, en varð elskulegt þegar “kæri vinurinn” bættist við. Ég er viss um, að svo vinsamleg ávörp hafa góð áhrif á nemendur, á skólabrag og þar með uppeldisaðstæður. Síðan seytlar þessi vinátta upp úr skólatöskum og úr barnamunnum inn á heimilin. Hvernig við tölum við hvert annað skiptir máli.

Vinarkveðjan fylgdi mér út í morgunrökkrið. Hvað er vinur? Við eigum flest góða kunningja. Við getum átt við þá margvísleg samskipti. Kunningjar rabba saman, en vinir þora frekar að tala um mál tilfinninga, sorgar og ástar. Kunningjar geta skemmt sér í leik orða, en gleði vina er dýpri. Kunningjar eiga sér leikreglur um mörk samskipta, en vinir tala á grundvelli trausts. Kunningjar segja sögur, en vinir leggja á sig að rýna til gagns og eflingar. Kunningjar fara að mörkum hins óþægilega, en vinir þora að fara lengra vegna umhyggju og heiðarleika. Kunningjar geta verið afar ánægjulegir félagar, en vinir efla hvern annan.

Um miðjan dag vitjaði mín maður, sem ég hef þekkt í áratugi. Við röbbuðum saman en svo kom að því að viðmælandi minn talaði um það, sem hvorki er einfalt eða auðvelt. Hann kom til að gagnrýna mig. Hann sagði mér frá þáttum í fari mínu, sem ég gæti bætt. Ég sat á móti þessum manni og fann hversu heill hann var, umhyggjusamur og talaði við mig í krafti trausts. Svona talar ekki kunningi manns, heldur raunverulegur vinur. Kunningjar eru mikilvægir í lífinu en kærir vinir dýrmæti. Er einhver sem vill heyra í þér í dag? Svo er vinur á himnum sem er alltaf glaður að heyra í þér.

Gef mér Drottinn góðan dag.

Gefðu, að ég í návist þinni,

eignist hugrótt hjartalag,

hjálpi ef einhver þarf í dag.

Blessa þú og bæt minn hag.

Bægðu synd frá götu minni.

Gef mér Drottinn góðan dag,

góðan dag í návist þinni.

 

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen

Góðan dag, kæri vinur