Ó, Guð vors lands – hvar?

ljóskrossÓ, lands vors Guð. Hver og hvar er hann? Ertu í sambandi við þann Guð sem hefur tímaflakk á valdi sínu? Hverjir lofa hið heilaga nafn? Er það til einhvers? Og hvað munu þúsundir Íslendinga syngja í Frakklandi þegar landsleikir Evrópumótsins byrja? Lofsöng til Guðs! Og þeir munu leggja allt í sönginn og líka í leikinn. En hvað með trúna og stöðu hennar í samfélagi okkar. Trúin er ekki dauð heldur sækir fram – og Guð heldur áfram að elska þig og allan heim – hvaða afstöðu sem þú hefur.

Trúin á innleið

Kirkjusókn um þessi jól var víða mjög mikil. Hallgrímskirkja er stór helgidómur en í guðsþjónustum á aðfangadagskvöldi var stemming í kirkjunni, hvert sæti skipað og margir stóðu – og mál starfsfólks að aldrei hafi jafn margir komið og þessi jól. Ekki veit ég hve stór hluti þjóðarinnar sótti í kirkjur Íslands á þessari hátíð, en víða var aukning á kirkjusókn miðað við undanliðin ár. Fólk í jólaboðum spurði af hverju koma svona margir í kirkju? Er kannski aukinn trúaráhugi meðal þjóðarinnar? Er trúin á innleið í samfélaginu en ekki útleið?

Molnun – samstaða

Í samtölunum í skírnarveislum, fjölskylduboðum og jafnvel erfidrykkjum í liðinni viku hafa viðmælendur mínir teiknað upp fyrir mér breytt Ísland. Að allt fljóti – segja þau – fólk segi skilið við hefðbundnar hugmyndir um stjórnmál, menningarmál og trúmál. Æ stærri hluti Íslendinga sé á breytingaskeiði hugmyndanna. Þeim fjölgi sem segi skilið við hefðbundna flokka, stofnanir og hugmyndakerfi. Kirkjan verði fyrir sömu breytingum. Hafi einhvern tíma verið til einsleit menning Íslendinga sé hún að baki og  merkingarkerfi og menning Íslendinga hafi brotnað í marga mola.

Einn sagði:  „Kirkjusóknin vex því hluti þjóðarinnar stendur með kristni og fólk gerir sér grein fyrir gildi trúar og kristinnar siðfræði.“ Ein var á því að andstæðurnar yrðu meiri í samfélagi okkar. Sá hópur stækkaði sem berðist gegn trú, en hinn hópurinn efldist líka sem gerði sér grein fyrir að trú væri svo mikilvæg einstaklingum og samfélagi að slá yrði skjaldborg um líf hennar. Er menningin brotin og aðeins eftir menningarkimar sem ekki tala saman heldur berjast um völd og áhrif.

Trú: Samtöl og umfjöllun

Mér kom reyndar ekki á óvart að kirkjusókn myndi aukast því á þessu ári sem er að líða hef ég heyrt í svo mörgum sem hafa tjáð samstöðu um trú og gildi í samfélagsbreytingum. En ég hef líka hlustað á fólk tjá andstöðu við trú og orðað efasemdir um kirkjuna. Ég hlusta, ræði málin og deili helst ekki við fólk um trú því það rímar illa við mannvirðingu kristins manns. Ég hef líka þjónað mörgu fólki á árinu sem hefur ekki farið í felur með guðleysi sitt. Það er ákvörðun í hvert sinn að óska skírnar barns og foreldrar ekki alltaf sammála. Og útför í kirkju er ekki sjálfsögð.

Mér virðist ákveðin breyting hafi orðið í borgarsamfélaginu. Í samtölum í tengslum við athafnir, kemur í ljós að æ færri fela hugmyndir sínar. Þau sem eru ekki guðstrúar ræða oft afstöðu sína til trúar við prestinn. Trú eða trúleysi eru ekki lengur feimnismál og í öllum fjölskyldum eru ólíkar skoðanir og trúarhugmyndir. Skoðanafrelsi er mannfélaginu dýrmætt og þarf að verja. Tjáningarfrelsið er gull samfélags.

Samfélagsmiðlarnir

Umræður um trúmál hafa aukist á samfélagsmiðlunum. Sumt sem þar er sagt er af viti, annað léttvægt. Nokkur hella úr koppum yfir kirkju og trú og ljóst að sumt af því er óuppgerð reiði vegna einhvers annars en kirkju. Almennt er til bóta að trú og umræður um átrúnað hafi verið leyst úr viðjum hafta og þmt. tabúa. Að ræða um trú á forsendum kirkju eða átrúnaðar þjónar ekki sjálfkrafa Guði. Guð er óbundinn og frjáls og við eigum að leyfa okkur frelsi í trúarhugsun okkar. Marga hef ég heyrt gagnrýna þjóðkirkjuna en ekki þar með hafna trú eða Guði. Og þarft er að greina á milli kirkjustofnunar og trúar. Hver stofnun og mannlegt fyrirtæki gerir mistök sem á að gagnrýna. Þjóðkirkja er ekki hafin yfir gagnrýni, ekki frekar en dómstólar, Alþingi, sveitarstjórnir, hreyfingar og fyrirtæki. Þjóðkirkjan á ekki að fara í vörn, þarf að bæta starf sitt og breytast eins og hinar hreyfingarnar og stofnanir samfélagsins. Kristin guðfræði hefur alla tíð kennt af raunsæi að menn séu sjálfhverfir og breyskir. Trúmenn eru jafn ófullkomnir og aðrir menn. Lifandi kirkja sem vill þjóna fólki í framtíð fagnar því rýni til gagns.

Út úr almannarýminu?

En svo eru hins vegar til árásir á trú og guðstengsl sem hafa ekki með skynsemi eða raunveruleika að gera. Vaxandi hópur samfélagsins hefur óþol gagnvart hinu trúarlega, fer á límingunni þegar trú kemur við einhverja sögu. Mikið hefur verið rætt um samskipti kirkju og skóla á liðnum misserum. Tilgangur margra þeirra sem hafa hæst er að ýta málum trúar út af stóra sviði almennings og inn á litla svið heimilis og einkalífsins. Trú sé eins og kynlíf, það eigi bara að iðka innan vébanda einkalífsins. Það er auðvitað rétt að trú er mjög persónuleg en hún er þó allt annars eðlis en kynlíf og mun aldrei lúta líkum reglum. Trúin leitar alltaf inn á torg mannlífsins vegna þess að trú er samfélagsleitandi, leitar til margra. Trú verður aldrei ýtt inn fyrir dyr og glugga hins einkanlega því eðli trúar er samfélagsskapandi. Þegar reynt er að þrengja að trú sprengir hún af sér fjötra og teygir hendur til fólks.

Í íslenskri kristni hefur um aldir verið alið á mannvirðingu. Passíusálmar, Vídalínspostilla, hugvekjubækurnar og sálmarnir kenna fólki að virða aðra og bera hag þeirra og samfélags fyrir brjósti. Siðfræði kristninnar hefur kennt í þúsund ár að menn eigi að virða mannhelgi hvers manns. Eitt af því gæfulegasta og gleðilegasta í samfélagi Íslendinga síðasta áratuginn er að nú ríkir sátt meðal okkar um að virða kynhneigð fólks. Það er vel því allir eiga að njóta manngildis og öllum á að sýna mannvirðingu. En þegar kynhneigð fólks er virt er stækkandi hópur sem gerir gys að, tortryggir og hæðist að trúhneigð fólks og trúariðkun. Þegar tabúin losna varðandi kynhneigðina er hópur að reyna að þrengja að trúnni og troða inn í skáp þöggunar. Það er sorglegt því engum líður vel í skápum. Samkynhneigðu fólki leið ekki vel þar. Trúmenn – og allt heilbrigt fólk – óskar eftir mannvirðingu en ekki mannfyrirlitningu, marglitu samfélagi en ekki einlitu, opnu en ekki þröngu.

Trúin í lífinu

Á árinu 2016 munum við ekki aðeins vinna, borða, elska, kjósa og elta fótbolta í Frans. Við munum búa við hernað, hermdarverk, flóttafólk og líka fólk með óþol gagnvart trú. Við munum sem einstalingar og hópar taka skref og jafnvel ákvarðanir um mörk trúar, hvar trúin má vera og hvernig hún eigi eða geti blandast samfélagsvefnum. Við getum lagt niður eða eytt trúarstofnunum en enginn einræðisherra heimsins eða menningarafl megnar að útrýma trú. Það er virðing við trú að reyna hana með rökum en mannfyrirlitning að reyna að ýta henni út af rönd samfélagsins. Flestir heilbrigðir menn leita að lífsdýptum og margir finna engan frið fyrr en í tengslum við þann mátt sem trúmaðurinn kallar Guð.

Á lokadegi ársins gleðst ég yfir hversu víða er talað um trú og hve margir vilja ræða um hvað er gilt og hvað er úrelt. En þegar rætt er um framtíð íslensks samfélags með aukinni menningarlegri fjölbreytni, fjölgun innflytjenda til landsins og æ meiri blöndun, er mikilvægt að taka upplýst gæfuskref. Við gerðum mistök í efnahagsmálum sem leiddu til hruns. Og við höfum ekki efni á að gera menningarleg misstök með því að ana fram af samfélagslegri einfeldni. Allir verða að beita sér með viti og yfirvegun í málum menningar og trúar. Hið mikilvæga er að viðurkenna að trú gefur einstaklingum stað, gildi og stefnu, áttvísi í veröldinni. Og slíkir leita inn í almannarými með siðvit sitt og afstöðu. Trú er mál torgsins.

Opna – loka – torgþrá – skápur

Viljum við menningarlega einsleitni? Viljum við banna erlendu fólki að koma til landsins? Einangrunarhyggja er ekki til gagns. Það er til farsældar að íslenskt samfélag megi njóta hins besta úr menningu heimsins en afar mikilvægt að skera burt hið illa, hvort sem það er innlend vitleysa eða erlend. Mannvirðing er mikilvæg og mannfyrirlitningu á ekki að líða.

Við höfum tvo kosti hvernig við viljum skipa trúmálum okkar í framtíðinni. Annar kosturinn er að þrengja að hinu trúarlega og ýta iðkun hennar inn á svið einkalífsins. Ef trúnni er hins vegar þrengt í skápa samfélagsins, henni haldið í gettóum, elur hún bókstafshyggju, þröngsýni og þegar verst lætur ofbeldi. Trú og trúariðkun þarf að vera hægt að skoða og skilgreina.

Hinn kosturinn er að virða torgþrá trúar og sókn hennar inn í almannarýmið. Trú þarf að fá að dafna í almannarýminu til að þroskast með heilbrigðu móti. Trú leitar alltaf inn í miðju samfélags og menningar. Trú getur vissulega lifað á jaðrinum. En vegna þess hve umbreytnadi, lífsfyllandi og gefandi Guðsnándin er mörgum sækir trúin í mannlífsmiðjuna. Í trú er fólginn kraftur til góðs. Í almannarýminu er hægt að tala um trú, greina hana og gagnrýna til góðs, rökræða hana, grínast með hana og gleðjast yfir fjölbreytni hennar og lífsgæðum.

Flóttamenn koma til okkar með ólíka menningu, trú og siði. Hvað viljum við gera þessu fólki? Viljum við búa til skápa, menningarkima, sem eru aðgreindir og lokaðir frá öðrum kimum íslensks samfélags?

Heimsbyggðin verður æ tengdari. Átök í Asíu og Afríku hafa bein áhrif í París og Reykjavík. En það er okkar eigið val er hvort við veljum að lifa sem opið, gagnrýnið samfélag eða lokað og aðþrengjandi þjóðfélag. Hvort er betra? Hvort hentar lífi og fólki betur?

Söngur þjóðar

Svo eru áramót. Við syngjum þjóðsönginn og á stóru stundum Íslands. Þessi mikli söngur þjóðarinnar opnar gáttir og víddir til dýrðarsmáblóma landsins, til ofurfléttu tíma og sólkerfa. Guð vors lands og lands vors Guð, við lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Sú trú verður ekki lokuð í skáp heldur leitar hún út í víðerni náttúru, mannheima, alheims. Guð kemur til þín sem trúir á Guð, vilt trúa á Guð, finnur fyrir guðlegri nánd í náttúrunni og upplifir eitthvað dásamlega guðlegt í lífinu.

„Með Jesú byrja ég, með Jesú vil ég enda.“ Guð geymi þig á nýju ári og varðveiti þig, heima, á torgum, í áhorfendastúkum, skólum, búðum, í vinnu og samskiptum og gefi þér trú og mátt til að lifa í mannvirðingu og sátt við þitt eigið sjálf, fólkið þitt, heimsbyggðina og Guð.

Guð gefi þér gleðiríkt ár.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju við áramót. Aftansöngur 31. desember, 2015. Hljóðsrká fra´RÚV er aðgengileg um tíma á bak við þessa smellu.

Guðrún Valborg Finnbogadóttir +

Guðrún Valborg FinnbogadóttirKynslóðir koma og kynslóðir fara… hið stóra samhengi sem jólasálmurinn dregur upp. Konan sem var 11.12.13. var einu sinni barn. Hún lifði langa æfi og er nú horfin inn í Paradís með sigursöng.

Hvernig var hún? Minningar þyrlast upp þegar hugsað er til baka. Það var hrífandi að hlusta á sögur vel mælandi fólksins hennar Guðrúnar. Leiftrandi og litrík mynd varð til í mínum huga, mynd af konu sem hafði gaman af veiðum, hafði auga fyrir myndum, tók myndir og framkallaði einnig þegar fáar konur höfðu aðgang að myndavél, hvað þá lögðu fyrir sig í frístundum að ljósmynda og stækka. Guðrún hafði farið í reisu um Norðurlönd á fjórða áratug síðustu aldar þegar fár konur fóru út fyrir landsteina. Svo spilaði hún á píanó og tónlistin barst út á Njálsgötuna og blandaðist inn í borgarsynfóníuna.

Já, það eru jól, og vert að fagna að frelsari heimsins fæddur er. Og á þessum jólum kveður Guðrún Valborg Finnbogadóttir og vert og verðugt að þakka fyrir allt það sem hún var og gaf fólkinu sínu, ástvinum og samfélagi. Kynslóðir koma og fara og við njótum þess sem okkur hefur verið fært og skilum áfram til að nesta næstu kynslóð til hamingjugöngu og göngu til lífs.

Upphafið

Guðrún Valborg Finnbogadóttir var 11.12.13. – fæddist á fimmdegi klukkan ellefu fyrir hádegi þann ellefta desember árið 1913 og hafði náð 102 ára aldri þegar hún lést. Þegar Guðrún átti aldarafmæli, fyrir tveimur árum, sagði hún í dagblaðsviðtali að hún hafi vonast til að afmælisdagurinn yrði á fimmtudegi líka, sem varð reyndar ekki. Blóðforeldrar hennar voru Þuríður Jóhannesdóttir og Georg Finnsson. Foreldrarnir höfðu ekki tök á að hafa hana hjá sér og hún fór því til föðurömmu sinnar, Guðrúnar Snorradóttur. Amman var elskurík og þær yngri og eldri höfðu gleði af hvor annarri.

Þegar Guðrún gat ekki alið önn fyrir nöfnu sinni lengur stakk hún upp á við barnið að hún gerði tilraun að fara um tíma til systur sinnar, Sesselju Snorradóttur og Finnboga Finnbogasonar, sem voru barnlaus. Og Guðrún litla fór með aleiguna, koddann sinn. En tilraunin hjá Sesselju og Finnboga á Njálsgötu 27 tókst framar öllum vonum. Guðrúnu var tekið svo vel að hún fann sig fljótt heima og svo féll Guðrún amma frá og þá var ekki aftur snúið. Og Guðrún yngri fagnaði mjög þegar ljóst var að hún hefði eignast pabba og mömmu og mætti kalla þau þeim persónulegu nöfnum og ávarpa þau sem slík. Hún fagnaði mjög þeim áfanga sem mörgum þykja sjálfsögð gæði.

Glaðværð ríkti á heimilinu og þær Sesselja áttu skap saman. Efnin voru þokkaleg því húsbóndinn var skipstjóri á strandferðaskipinu Skaftfellingi, sem var happafleyta og vonar- og bjargarskip Skaftfellinga. Þau Sesselja báru Guðrúnu á höndum sér, veittu henni öryggi, leyfðu hæfileikum hennar að þroskast. Guðrún sótti skóla í Miðbænum, enda Austurbæjarskóli ekki orðinn til þegar hún var að vaxa upp á Njálsgötunni. Þegar hún hafði lokið barnaprófi fór hún í Kvennaskólann.

Þegar ljóst var að músík blundaði í Guðrúnu var tækifærið notað þegar hún var fermd og hún fékk píanó í fermingargjöf, fínt tékkneskt píanó sem varð slagharpa tónlistariðkunar Guðrúnar alla æfi. Hún sat fúslega og æfði sig á skölunum, fann gleðina í hljómaganginum, stóð sig vel í píanónáminu og varð handgengin tónlistarkennaranum Ingibjörgu Benediktsdóttur. Þær fór svo mikla reisu saman 1934 áður en óveðrið skall á með fullum þunga í stórnmálum Evrópu. Í minnum er haft að Guðrún var ekki bara með puttana á nótnaborðinu heldur einnig á myndavélinni. Hún tapaði reyndar vélinni á leiðinni en hafði það mikð fé milli handa að hún gat keypt sér nýja til að mynda það sem bar fyrir augu. Það eru því til myndir í fjölskyldunni af því Guðrún hafði áhuga á að taka myndir og framkalla. Myndirnar eru dýrmæti eru til fyrir eftirlifendur og kynslóðir framtíðar.

Sesselja, fóstra Guðrúnar, féll frá árið 1932 og fóstrinn Finnbogi kom í land. Fyrr og síðar var Guðrún natin við fósturforeldra sína og þegar húsmóðirin var látin hélt hún heimili fyrir Finnboga. Þótt aðstæður hafi ekki verið beinlínis gæfulegar þegar Guðrún kom í heiminn og henni hafi verið fleytt tvisvar til nýrra umsjónaraðila er saga uppvaxtar hennar gæfusaga. Hún fékk næði og stuðning til að þroska gáfur sínar og njóta. Gott samkomulag var við fjölskyldurnar í nágrenninu við húsið nr 27, svo gott að Njálsgötuþorpið fór jafnvel í skemmtiferðir saman.

Hermann og börnin

Svo kom Hermann Guðlaugsson inn í líf Guðrúnar. Þau kynntust í vinahóp og mublusmiðurinn ungi hreifst af Guðrúnu og hún af honum. Þau dönsuðu uppábúin á Borginni og dönsuðu til framtíðar. Þó ekki deildu þeir Finnbogi og Hermann pólitískum skoðunum virtu þeir hvorn annan og gáfu með samskiptum, orðum og jafnvel líka þögnum, yngri kynslóðinni innsýn í átaklínur stjórnmála. Þeir keyptu ólík blöð og smituðu með augnagotum, smáhlátri og viðbröðgum hvað var hvers og hvurs var hvað. Hermann efldi Finnboga til dáða og dreif hann með sér í vinnu á stríðsárunum sem varð honum og heimilislífinu til góðs.

Þau Hermann og Guðrún gengu í hjónaband á Þorláksmessu árið 1944. Sr. Jakob Jónsson, prestur í Hallgrímssókn gaf þau saman, líklega í stofunni heima hjá klerki. Breytingar urðu á mannlífinu í húsinu á Njálsgötu 27. Ungu hjónin fengu góða aðstöðu og Finnbogi afi færði sig um set í húsinu. Hjúskapurinn bar þann góða árangur að Finnbogi kom í heiminn árið 1945. Kona hans er Hansína Garðarsdóttir, Guðlaugur fæddist svo ári síðar eða 1946. Kona hans er Guðrún Sverrisdóttir. Sesselja fæddst svo árið 1950.

Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin tíu.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðrúnu og hvernig tengdist hún þér? Já, hún bjó hér í þessari sókn, Hallgrímssókn alla tíð. Á Njálsgötunni var hún frá fjögurra ára aldri og hátt í öld og þá fór hún nokkur hundruð metra og yfir á Droplaugarstaði árið 2009.

Guðrún var Rekjavíkurkona en líka mikil ferðakona. Þau Hermann voru samvaxin í að fara um og skoða Ísland. Guðrún hikaði ekki þegar þeim hjónum bauðst að kaupa bíl af breska setuliðinu. Og Bedfordinn var kannski ekki hraðskreiðasti bíllinn í bænum, en traustur og tryggur í fjölskylduferðunum og boddíið sem Hermann smíðaði á Beddann dugði vel.

Farið var árlega austur í Þingvallasveit í útilegu og veiðiskap. Svo festu þau Hermann sér liðlega fimmtíu fermetra grunn í landi Elliðakots ofan Reykjavíkur. Þar byggu þau sér sumarhús og nutu lífsins. Svo seldu þau það frá sér síðar og teygðu sig lengra og komu sér upp sumarhúsi við Meðalfellsvatn í Kjós. Þar undu þau sér við veiðar og landnemastörf og voru samhent. Ævintýralífið hentaði Guðrúnu vel og þau settu ekki fyrir sig að hafa bara eina kabyssu til hitunar og eldamennsku og þurfa að ná í vatn í lækinn. Þau áttu líka bát til veiða og þótti ekki verra þegar lax kom um borð og í pott.

Guðrún var skemmtileg mamma. Í henni bjó lífsgleði og gáski og hún var svo náttúruð að hún lagði sig eftir því sem hreif börn hennar. Hún var því hrifkvika heimilisins á Njálsgötu 27. Og af því hún vann heima var oft margt um manninn og við vinum barnanna var tekið. Hún setti börnin sín í forgang og gaf þeim veganesti til lífs. Svo spilaði hún “etíður og tunglskinslög” og gaf börnum sínum tilfinningu fyrir Chopin og Beethoven. Hún tengdi saman þrjár kynslóðir i húsi afans. Og sagan um húsið er frábærlega sögð í dásamlegri bók Finnboga Hermannssonar, Í húsi afa míns.

Hermann vann við iðn sína, húsgagnasmíði og vann lengstum hjá Reykjavíkurborg og smíðaði m.a. skápa og innréttingar í skóla borgarinnar. Þegar hann eltist og hætti vinnu hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurborgar settu þau hjón upp húsgagnaverslun, forngripaverslun, á Njálsgötunni og unnu bæði við að gera upp húsgögn og koma til nýtingar á ný. Og Guðrún var flínk í höndum og þau unnu vel saman í viðgerðum. Þegar heilsa Hermanns brast var Guðrún honum hin besta stoð. Hann lést árið 1997 og hún bjó áfram á Njálsgötunni og átti þar ágæt ár umvafin börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Á Droplaugarstöðum naut Guðrún í sex ár ágætrar aðhlynningar og eignaðist vini í hópi starfsfólks. Og starfsfólkið á Droplaugarstöðum sagði mér með blik í augum hve Guðrún var alltaf jákvæð og hve bjartsýni hennar og léttleiki hefði verið smitandi og haft góð áhrif á heimilisfólkið í kringum hana.

Saga Guðrúnar er sem örsaga Íslands síðustu hundrað árin. Hún mundi Kötlugosið 1918 og sá ösku frá gosinu á hvítum diski. Örlög hennar voru ráðin þegar nýja Ísland var að fæðast, sjálfstæðið að aukast. Hún fæddist á dönskum tima og tók dönsk orðatiltæki í arf. Þegar Guðrún var hundrað ára og minnist uppvaxtaráranna á Njálsgötunni sagði hún: „Þarna var gaman að vera í gamla daga. Þá voru engir bílar á götunni. Þetta var bara hestvagnar og hestar.“ Og svo bætti hún við. „Ég held að ég hafi haft góða lund, létta frekar. Þótti gaman að eitthverri vitleysu.“

Og nú er hún farin. Nú er lokið langri sögu. Fram, fram um víða – veröld og gistum. Já hún hafði getu til að fara ferðir, fór sínnar pílagrímaferðir. Konan 11.12.13. er komin í sína Paradís og með sigursöng. Þegar hún var að undirbúa hinstu ferðina var hún farin að hlakka til að hitta ástvini sína og hún hlakkaði líka til að hitta vinkonur sínar. Það er dásamleg afstaða að trúa að lífið sé ekki smátt heldur stórt, gott en ekki illt. Hún hafði reynslu af góðu fólki og að lífsferðin væri góð. Og Guðrún átti í sér trú á að lífið héldi áfram og góðs væri að vænta. Elífa lagið gleymist ekki – gleðisöngurinn. Njálsgata 27 var góð, og Himingata 27 er óefað góð líka. Þar er enginn deyfð eða drungi heldur góð soðning, fjör og músík. Og söngur himsins er um að Guð er góður, elskar og kemur til manna, er með mönnum, er frelsari sem heldur öllu til haga, umhyggjusamlega -eins og besta móðir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Í þeim boðskap og veruleika er rún Guðs. Guðrún er í góðum ranni.

Guð geymi hana og varðveiti. Guð geymi þig og gefi þér líf til blessunar.

Amen.

Jakob Guðmundsson á Árbakka í Austur Húnavatnssýslu hefur beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Hann bjó sem barn á Njálsgötu 36 og sagði mér hve oft Guðrún hefði kallað hann í eldhús og gaukað að honum og börnunum í hverfinu kökubita.

Minningarorð við útför Guðrúnar í Hallgrímskirkju 30. desember, 2015. Kistulagt sama dag. Bálför. Erfidrykkjan í Nauthól við Nauthólsvík.

Heillakarlinn Jósef

Owen Jones - Jósef dreymir
Þegar fólkið þitt spyr þig heima á eftir: “Hvernig var í messunni í kirkjunni?” þá getur þú svarað: “Það var alger draumur!” Jú, vegna þess að í dag íhugum við drauma í fornöld, draum Guðs og svo þinn eigin draum. Hver er hann? Hvað dreymir þig?

Jósef kemur í ljós
Við þekkjum aðalfólkið í jólasögunni, Maríu, hirðana, englana og svo auðvitað sjálft Jesúbarnið. Og kannski eru það María með barnið í fanginu sem við sjáum fyrir okkur þegar hugur leitar inn í gripahúsið á jólum, inn í helgisöguna. Af öllum kirkjuferðum, jólasamverum, söngvum, sálmum og helgileikjum hefur síðast inn hverjar eru aðalpersónurnar og hverjar ekki. Í dag hugum við að einum sem er oftast í bakgrunni jólasögunnar. Það er heillakarlinn Jósef. Þó hann sé næstum ósýnilegur er vert að beina sjónum að honum.

Hvers konar karl var hann? Og getum við eitthvað lært af honum? Er hann fyrirmynd og til að læra af? Það var Jósef sem studdi heitmey sína á förinni til Betlehem. Hann hentist inn á alla gististaðina og fékk afsvör. Það var hann sem tók á móti barninu þegar það kom í heiminn, skildi á milli og batt fyrir naflastreng. Hendur hans hafa skolfið þegar hann hélt á smálífinu í lúkunum og vafði klæði um barnið til að varna næturkælunni að komast að því. Hann hefur sett það í móðurfang þegar hún bar það fyrst að brjósti.

Jósef hafði atvinnu af smíðum en við vitum ekkert um hvað hann smíðaði eða hvernig verkmaður hann var. Væntanlega var Jósef ekki mállaus, en þó er ekki eitt einasta orð haft eftir honum í guðspjöllunum. Jesús var fullkominn snillingur í samræðum og örlátur í samskiptum og væntanlega hefur Jósef lagt til þeirrar hæfni.

Maðurinn á bak við konuna
Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann er maðurinn á bak við konuna. Hann rataði siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu. Hann veik sér aldrei undan að taka erfiðar ákvarðanir og fara langar ferðir ef það mætti verða til að vernda líf og hamingju fjölskyldu hans. Jósef er fyrirmynd um karlmennsku í jafnvægi. Í miðju glimmerskreyttrar draumafrásögu er saga um sterkan mann, sem þorði. Sá Jósep hafði karlmannslundina í lagi.

Draumar Jósefs
Brasilíski ritjöfurinn Paulo Coelho opnaði augu mín fyrir hve fáir draumamenn eru í Nýja testamentinu. Í Gamla testamentinu er fjöldi drauma og draumspakra en í því nýja fyrst og fremst Jósef. Í guðspjöllunum er aðeins sex sinnum sagt frá draumförum. Í fjórum af þessum sex tilvikum var það Jósef sem dreymdi. Hann var tengdur dýptum tilverunnar og tók mark á sínum innri manni. Draumar hans breyttu afstöðu hans, skoðun og stefnu. Því var lífi Jesú bjargað.

Í fyrsta lagi ákvað Jósef að skilja ekki við Maríu vegna óléttunnar. Samkvæmt sið og stöðlum samtíðarinnar hefði Jósef átt að rifta trúlofuninni. En hann hlustaði á draum sinn og þorði að gera annað en það, sem nágrannar hans ætluðust til og aðrir einfaldari hefðu gert.

Svo dreymdi hann í Betlehem að hann ætti að drífa sig með sitt fólk til Egyptalands. Ættmennin hafa væntanlega álitið það vera maníukast að rjúka í slíka óvissuferð með ungabarn. Og maður með snefil af bisnissviti hefði neitað að hlaupa svo frá verkum sínum og skyldum. En Jósef var reiðubúinn að hlusta á kall til heilla þótt það kostaði hann mikið. Hann var tengdur djúpum og gildum og þorði að fara gegn almenningsálitinu.

Svo fáum við að heyra af þessum draumajóa þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Egyptalandi, var væntanlega í góðri vinnu og átti til hnífs og skeiðar. Enn einu sinni hlustaði hann á boðskap og hlýddi þó það kæmi honum illa. Hann lagði í ´ann og enn einu sinni fékk hann bendingu í draumi um að fara heim í þorpið í Galíleu (og stoppa ekki á Jerúsalemsvæðinu, nefnt Júdea í Nt.).

Fjórir draumar sem höfðu áhrif og urðu til að vernda líf og velferð fjölskyldu hans og þar með vernda uppvöxt Jesú Krists.

Draumafyrirmynd
Aðalpersónur í jólasögunni og þar með í allri kristninni eru vissulega María og Jesús. En vert er að gæta að og taka eftir hinum trausta Jósef. Hann er flottur. Ég met mest hversu tengdur hann var sínum innri manni. Hann þorði að breyta um skoðun. Hann sinnti eins og milljarðar fólks fyrr og síðar öllum hinum hversdagslegu skylduverkum eins og við hin – en hann átti í sér vilja og getu til að axla ábyrgð í vondum aðstæðum, efla þar með líf annarra, ekki aðeins síns fólks heldur veraldarinnar. Að hlusta á drauma er okkur nauðsyn og veröldinni lífsnauðsyn.

Draumur Guðs
Draumar eru dýrmæti. Á jólum megum við gjarnan vitja stærsta draums veraldar, sem er stærri en okkar eigin draumur. Hver er hann? Það er draumur Guðs um hamingju, gleði og réttlæti handa öllum mönnum. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, dreymir að þér líði vel, að þú njótir elsku og hamingju, í einkalífi og vinnu.

Þegar Jósef tók með skjálfandi höndum hið litla líf í fangið var Guð að birta elskugerð veraldar, túlka drauminn um lífið og heiminn. Hið varnarlausa barn tjáir sögu um, að Guð lætur sig veröldina varða, vitjar fólks í raunverulegum aðstæðum en ekki bara í andlegri heilaleikfimi.

Vitjaðu draums þíns
Jósef tók mark á draumum sínum. Hver er þinn draumur. Hvert er hlutverk þitt, hvað gerir þú til að lifa vel? Hver er lífshamingja þín? Er eitthvað í lífi þínu, sem hindrar að þú sért hamingjusamur eða hamingjusöm?”

Vegna þess að Jósef tók mark á draumum sínum bjargaði hann Maríu, Jesúbarninu og hamingju sinni. Á hverjum jólum vitjar hann þín og spyr þig um leið þína og lífssamhengi. Nærvera Jósefs á öllum jólum er hljóðlát spurning um þinn draum, gleðiefni þín og köllun þína.

Þú mátt vita, að Guð dreymir þig og sá draumur situr í þér – draumur um lífshamingju. Jósef þorði – leyfðu draumi Guðs um þig að rætast. Það er draumur til lífs.

Amen

Íhugun á 2. degi jóla, 26. desember, 2015

Textaröð: A – Lexía: Jes 9.1-6

Sú þjóð, sem í myrkri gengur,

sér mikið ljós.

Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna

skín ljós.

Þú eykur stórum fögnuðinn,

gerir gleðina mikla.

Menn gleðjast fyrir augliti þínu

eins og þegar uppskeru er fagnað,

eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.

Því að ok þeirra,

klafann á herðum þeirra,

barefli þess sem kúgar þá

hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.

Öll harkmikil hermannastígvél

og allar blóðstokknar skikkjur

skulu brenndar

og verða eldsmatur.

Því að barn er oss fætt,

sonur er oss gefinn.

Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,

hann skal nefndur:

Undraráðgjafi, Guðhetja,

Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Mikill skal höfðingjadómurinn verða

og friðurinn engan enda taka

á hásæti Davíðs

og í ríki hans.

Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,

héðan í frá og að eilífu.

Vandlæting Drottins allsherjar

mun þessu til vegar koma.

Pistill: Tít 2.11-14

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

Guðspjall: Matt 1.18-25

Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.

Ég elska þig

IMG_8904Guð gefi þér gleðileg jól. Og jólagleðin má berast á milli fólksins hér í kirkjunni. Gerðu svo vel að rétta fólkinu sem situr við hlið þér í bekjunum hendina og bjóða gleðileg jól!

Já, gleðileg jól eru komin, undrið er loksins orðið. Í kyrru þessa hliðs himins máttu láta fara vel um þig og hugsa: Hvað skipir þig mestu máli á þessum jólum?

Fyrst um pakkana: Á mörgum heimilum er á þessari stundu verið að rífa upp fyrsta pakkann núna, svona til að róa ungviði og kannski einstaka eldri, sem ekki ráða við sig! Hvað mun koma upp úr pökkunum þínum? Nýturðu hlýjunnar að baki gjöfunum? Eru einhverjir skyldugjafir – án hjartahlýju? Færðu kannski pakka sem kosta lítið en snerta þig þó djúpt og verða þér mikils virði af því þeir tjá ást og alúð? Pakkar eru mismunandi og gildi þeirra líka. En hvaða gjöf dreymir þig um?

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Útilokunaraðferðin getur stundum gagnast. Hugsaðu um hvað þú mátt missa. Hvað má hverfa? Eru það hlutirnir þínir, vinnan eða er það fólkið þitt? Hvað er það, sem þú getur alls ekki án verið?

Vegna starfa minna á ég trúnað margra og ég sperri eyru þegar fólk er á krossgötum lífsins – og stundum við ævilok – gerir upp og talar um stóru málin. Hvað skiptir fólk máli þegar allt er skoðað? Það er lifandi fólk, maki, börn, ástvinir – ekki dótið. Og oft er stærsta sorgin við lífslok að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum.

Bestur

Pakkarnir þínir – hvernig verða þeir? Þegar drengirnir mínir voru litlir skrifuðu þeir orð á blað, og líka setningar frá hjartanu, áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum. Á blöðunum stóð: “Pappi er bestur” eða “Mamma er best í heiminum.” Þetta voru ekki lýsingar á staðreyndum, sem allir eru sammála um, heldur fremur tjáningar á tilfinningum, afstöðu og trausti. En við, sem fengum svona ástarbréf glöddumst. Á einum sneplinum stóð: “Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn upplifa margt og sjá flest sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda fólks, þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Ég elska þig – þetta undur að fá að elska og vera elskaður. Það er það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði  – Ég elska þig, pabbi – verður ekki  metinn til margra króna, en varð mér óendanlega dýrmætur.

Elskar þig einhver?

Um hvað er jólaboðskapurinn? 

Og þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan, helgisagan í Lúkasarguðspjalli, varðar það mál. Hvernig eigum við að bregðast við þessari upphöfnu sögu um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, ekki heldur um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu, en þau mál eru fremur rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, eða árið 0, eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar, sem er vissulega kennt við Kristsburð.

Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin varðar ekki bókstaf sögunnar heldur inntak hennar, sem er persónulegt og raunar persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft – af ástríðu. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins bréflega eða í bók heldur kemur í persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapin um of? Nei, vegna þess að efni og form helgisögu þjónar ákveðnum tilgangi – að sýna hið guðlega samhengi, hina persónulegu nálgun. Hið ytra þjónar hinu innra. Aðferð helgisögunnar er að nota stef, ímyndir og minni, sem þjóna boðskap eða skilaboðum. Við megum alveg skræla burt það, sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega.

Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um Guðsnánd, en eru það varla lengur, jafnvel hindrun trúar. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til forna til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið og sagan gengi upp og hvernig átti að segja hlutina til að samhengi og algert mikilvægi væri ljóst. Þetta var túlkunarrammi helgisögunnar.

Með hjartanu

Í spekibókinni Litla Prinsinum (eftir Antoine de Saint-Exupéry) segir refurinn við drenginn að skilnaði þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu.”

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru við öllu eða taka allt bókstaflega. En við ættum að leggja okkur eftir inntaki fremur en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd, persónu fremur en sögu.

Jólajafir eru jafnan í umbúðum. Svo er einnig með jólasöguna en þegar búið er að taka umbúðir helgisögunnar burtu kemur gjöfin í ljós, það sem máli skiptir. Stærsta gjöf jólanna, sem við getum öðlast og opnað, er lífsundrið, að tilvera þín er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti – nóttin er rofin með gráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp lífspakkann og munt uppgötva að alla tíð þráði persónudjúp þitt svörun.

Dýpstu sannindi lífsins eru með þeim hætti að hvert barn getur skilið og með hjartanu. Stærsta lífsgjöfin er “Ég elska þig.”

Guð er elskhugi, ástmögur, sem elskar ákaft og tjáir þér alltaf – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, í fangi ástvina og alls staðar: “Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Njóttu gjafanna þinna í kvöld, efnislegra og óefnislegra, horfðu í augun á fólkinu þínu og sjáðu í þeim undur lífsins. Gjöf lífsins er að Guð sér þig, gefur þér jólagjöf í ár og segir við þig:

„Ég elska þig.“

Amen. – í Jesú nafni.

Bæn.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur

og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——— Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Íhugun og bæn – aftansöngur á aðfangadagskvöldi, 2015. Sigurður Árni Þórðarson.

Lexía:  Mík 5.1-3

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Guðspjall:  Lúk 2.1-14

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

+ Guðmundur Kristinn Klemenzson +

List fagfólks er að læra hlutverk sitt vel, skilja það og vera því svo innlifað að afstaða sé skýr og viðbrögð fumlaus og eðlileg í breytilegum og oft krefjandi aðstæðum. Lögfræðingurinn lærir sín lög, túlkanir og þjálfast í að beita hinni lögfræðilegu nálgun. Sagnfræðingurinn skýrir aðstæður í nútíma með hjálp sögutúlkunar. Verkfræðingurinn greinir snarlega tæknivíddirnar og hvernig hlutirnir virka. Við lærum okkar fag ef við leggjum á okkur erfiði mótunarinnar og kunnum svo að beita hinum fræðilegu tólum og tækjum. Þegar best lætur verðum við listamenn í okkar grein, vissulega bundin af kvörðum og óbrotnum hefðum greinarinnar en þó frjáls til að skapa og í samræmi við ferla fræða og iðnar.

Kannt þú þitt hlutverk?

Hvert var hlutverk Guðmundar Kristins Klemenzsonar? Læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir segja sína sögu. Hann kunni svo sannarlega sín fræði, var afburðamaður á sínu sviði, jafnvel listamaður í lækningum. Svo valdi hann sér önnur hlutverk líka og gegndi ýmsum. Hann var afar vel að sér á sviði sagnfræði, lagði m.a.s. á sig að læra alla röð rómversku keisaranna og ártölin líka! Þekking hans var svo mikil og nákvæm að hann gat leiðrétt kennarana í menntó í ýmsum greinum. Hann átti sér ýmis hlutverk í einkalífinu, var undursamlegur og natinn sonur, umhyggjusamur bróðir og frændi. Svo lagði hann sig eftir að iðka hinar gúrmetísku listir og þó hann ætlaði sér ekkert aðalhlutverk þar nutu vinir hans veislunnar – og fjölskyldan einnig.

Hlutverk Guðmundar

Af hverju var hann svona góður í því sem hann tók sér fyrir hendur? Af hverju gat hann svona margt? Ég hlustaði á sögurnar sem ástvinir hans sögðu og svo staldra ég alltaf við uppeldið. Faðir hans var þessi mikli leikhúsmaður og móðir hans stóð öflug við hlið manns síns. Þau lögðu upp úr að börnin þeirra nytu góðrar menntunar, næðu að virkja máttinn hið innra, lærðu til hvers væri ætlast, næmu framvindu lífsþáttanna, skildu samhengi hlutanna, kynnu til verka, nærðu sinn innri mann – lærðu hlutverk sín vel. Og Guðmundur hlaut miklar gáfur í vöggugjöf. Í hann var mikið lagt og af honum var mikils að vænta. Fyrr var sagt um mikinn Íslending – og það er við hæfi að sletta latínu þegar Guðmundur, Rómarsögusnillingur, er kvaddur. Hann var “ingenio ad magna nato.” Þeim er nóg er skilja.

Hver voru hlutverk Guðmundar? Hvert er hlutverk þitt? Hvernig lifir þú? Undrastu lífið? Er lífið þér kraftaverkalaust – eða samfellt, undursamlegt drama og kraftaverk? Lifir þú lokað eða opið? Guðmundur kunni öll hlutverk hinna afmörkuðu ferla – hann var góður vísindamaður – en svo átti hann í sér opnanir, skynjanir og vitund um það sem meira er. Tilvera hans var ekki rulla á sviði sem maður romsar upp úr sér eða iðkar, heldur stærri. Líf hans var líf í plús og í anda plúsa hins stórfenglega. Við getum vissulega lært hlutverk okkar en ef við lifum þröng förum við á mis við dramað og hið merkilega. Köllun þín er hver? Þorir þú að lifa, en ekki bara skrimta – þorir þú að njóta, upplifa og ganga á nýjar slóðir? Það er hin trúarlega nálgun – hlutverk trúarinnar.

Nú kveðjum við Guðmund Klemenzson og hugsum um af hverju, til hvers og hvernig getum við lifað stórt og mikið? Gagnvart áfallinu er mikilvægt að staldra við, þakkar fyrir allt það sem Guðmundur lagði til og leyfa því að verða þér til lífs og lífsbóta.

Ævistiklur

Guðmundur Kristinn fæddist 9. nóvember árið 1969 og var því aðeins 46 ára er hann lést. Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir og Klemenz Jónsson. Hún var fulltrúi á skrifstofu Þjóðleikhússins og hann leikari og einn af burðarstólpum í leikhúslífi þjóðarinnar, við Þjóðleikhúsið, hjá Ríkisútvarpinu og víða um land. Guðrún og Klemenz eignuðust þrjú börn og á löngum tíma. Það var því mikið lagt í hvert þeirra þriggja. Elstur er Ólafur Örn, hagfræðingur, sem fæddist árið 1951. Hann er kvæntur Ingu Aðalheiði Valdimarsdóttur. Sæunn fæddist árið 1956. Hún er starfsmaður Landsbanka Íslands og maður hennar er Hallur Helgason. Guðmundur var langyngstur og fæddist þegar systir hans var komin á unglingsár og stóri bróðir að hverfa til útlanda í heim fræðanna. En vel var hlúð að drengnum og hann fékk það í veganesti sem dugði vel. Og eldri systkinin gættu stubbsins og tengdust honum því nánum böndum, sem aldrei slitnuðu þó þau væru langdvölum langt frá hverju öðru. Og Guðmundur tengdist systkinabörnum sínum og hafði hug við velferð þeirra.

Guðmundur var vesturbæjarmaður, Reykvíkingur og heimsborgari. Fyrstu æviárin bjó fjölskylda hans á Bræðraborgarstíg og síðan á Eiðismýri. Og af því foreldrarnir vildu börnum sínum góða menntun og Klemenz þekkti skólastarfið í Ísaksskóla fór Guðmundur þangað eftir upphafs-ögun á leikskólanum Grænuborg. Svo tóku við hamingjuár í skólum vesturbæinga, Melaskóla, Hagaskóla og síðan MR.

Og hann fékk líka hlutverk í leikhúsinu. Klemenz, faðir hans, leikstýrði leikritinu Dýrin í Hálsaskógi og var á höttum eftir skýrmæltu barni í hlutverk bangsastráksins. Og hann fann leikarann heima við eldhúsborðið. Og Guðmundur lærði ekki aðeins hlutverk sitt heldur líka með hvaða hætti öll dýrin í skóginum geta verið vinir og hvernig sú vinátta getur rofnað. Og leikurinn lagði grunn að fjárhagslegu sjálfstæði drengsins. Eftir fyrsta leiksigurinn voru ýmis hlutverk í boði. Guðmundur lék í nokkrum barnaleikritum og í bíómyndinni Veiðiferðin. Og þó einhver ykkar eigið erfitt með að ímynda ykkur eða sjá Guðmund fyrir ykkur sem pönkara lék hann einn slíkan í gamanseríunni: Fastir liðir, eins og venjulega: Léttur fjölskylduharmleikur í sex þáttum sem sýndur var í Sjónvarpinu haustið 1985. Hann gat því brugðið sér í ýmis hlutverk.

Guðmundur varð öflugur námsmaður. Hann var marksækinn og einbeittur í námi. Það sem fangaði hug hans varð honum mikils virði og því brilleraði hann í öllu sem honum þótti skemmtilegt. Og hann var alhliða í námsgetu sinni, mundi allt sem hann vildi leggja á minni, skildi vel stærðfræði og tungumálanám lá líka vel fyrir honum. Ingenio ad magna nato. 

Menntaskólaárin voru honum gleðilegur tími, hann eignaðist góða og trausta vini og Gummi Klemm ræktaði vináttuna. Guðmundur horfði í kringum sig með áhuga, íhugaði pólitík og hafði skoðanir í þeim efnum sem öðrum, las ítarefni utan skólabókanna og drakk í sig menningarefnin.

Þar sem Guðmundur var afburðanemandi stóðu hönum allar fræðdadyr opnar eftir að hann lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðideild MR árið 1989. Hann fór í læknisfræði og lauk prófi frá lænadeild HÍ árið 1995. Hann hafði engin orð um námsárangurinn sjálfur og þegar bróðir hans hans spurði: „Hver var hæstur“? þá svaraði Guðmundur hálfsnúðugt: „Hver heldurðu“ og meira þurfti ekki að segja í þeim málum.

Svo var kandídatsárið og Guðmundur vann sem deildarlæknir og umsjónardeildarlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans í tvö ár. „Farðu vestur, ungi maður“ var sagt vestra og Guðmundur fór til Madison og stundaði framhaldsnám í University of Wisconsin og lauk námi þar árið 2002.

Og Guðmundur var ekki aðeins á toppnum á Íslandi. Þegar hann tók ameríska læknaprófið varð bið á að hann fengi niðurstöðu úr prófinu. Ástæðan var sú að hann var svo hár að það þurfti að tvífara yfir prófið til að sannreyna að einkunnin væri rétt. Síðan tóku við tæplega 2 ár á Mayo Clinic í Rochester, Minnesota. Svo fór Gummi Klemm heim og frá 2003 starfaði hann sem svæfinga- og gjörgæslu-læknir á Landspítala við Hringbraut og m.a. var í hjartasvæfingateyminu.

Síðustu árin var Guðmundur í sérnámi á vegum norrænu svæfinga og gjörgæslusamtakanna og beindi sjónum sérstaklega að svæfingum og deyfingum þungaðra kvenna. Guðmundur hafði gaman af veru og vinnu á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn sl. veur þar sem hann starfaði um tíma í tengslum við nám sitt. Hann skrifaði greinar í sínu fagi. Hann hafði ætíð mikinn faglegan metnað og þótti gott að fá birt efni  – sem hann og samstarfsfólk hafði unnið – í bestu læknablöðunum.

Hvaða hlutverki gengdi Guðmundur á spítalanum? „Hann var einn af okkar bestu mönnum,“ sagði læknir á svæfinga- og gjörgæsludeildinni. Hann hafði gott samband við fólk, deildin var eins og stórfjölskylda sem hann naut. Hann var ákveðinn, vel tengdur, mikill fagmaður og lét sig fólk varða, hikaði ekki við að taka erfiðar ákvarðanir í þágu lífsins – og tók nærri sér veikindi og bágindi fólks. Kollegar í Félagi svæfinga- gjörgæslulækna hafa stofnað minningarsjóð til  að styðja lækna til framhaldsnáms í greininni. Sjóðurinn ber heiti Guðmundur Klemenzsonar. Það er vel og loflegt framtak vina hans og samstarfsfólks.

Að kveðja og gera upp 

Það er sárt að kveðja góðan félaga, öflugan fagmann, hlýjan fjölskylduvin sem fellur frá á miðjum aldri. Hvernig gerir þú upp og hvaða áhrif hefur uppgjörið á líf þitt? Kveddu fallega og notaðu færið til að íhugaða þín hlutverk. Leyfðu minningunum að flæða og vitjaðu allra víddanna. Kallaðu fram í huga og hið innra allar myndirnar af Guðmundi.

Manstu ferskleikann sem fyldi honum, jafnvel gustinn? Manstu fagurkerann, matgæðinginn og sommelier-þekkinguna? Tókstu eftir næmni og viðkvæmu fegurðarskyni hans? Og merktir þú fínu strengina í sál hans sem hann flíkaði ekki? Og vissir þú af nægjusemi hans?

Manstu hinn faglega styrk en líka hina persónlegu hógværð. Manstu þekkingu hans á orustum og Rómarsögu? Hann var líka vel heima í tónlistarsögu – auðvitað – því hann hafði ríkulega listaæð sem hann virti og naut.

Manstu hinar ákveðnu pólitísku skoðanir Guðmundar? Hann tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hann var ekki aðeins bundin við torfuna heldur las sér til og var vel heima í alþjóðastjórnmálum.

Og svo voru allar ferðirnar sem hann fór um heiminn eins og pílagrímur í leit að merkingu, já kraftaverki sögu og samtíðar. Hann var tilbúinn að fara um langan veg og milli landa til að gleðja foreldra sína og styðja þau eða vini þeirra á ferðalögum. Guðmundur var einstaklega natinn sonur og líka vinur foreldravinanna. Hann sótti í suður – ekki til að flatmaga á ströndinni heldur í menningarheima sögunnar. Hann skoðaði ekki bara borgir og minjar frá rómverskum tíma og þrautkannaði sögu hins mikla pólitíska veldis sem kennt er við Róm. Og það er miður að hann skyldi ekki hafa verið fenginn til að stýra námskeiði í Rómarsögu í háskólanum. En hann var ósínkur á sýn sína, staðreyndir og túlkun um minjar, sögu og samtíð.

Mannstu mannvirðingu Guðmundar? Hann setti sig aldrei á háan hest heldur við hlið fólks, virti alla, sjúklinga, kollega, samstarfsfólk, ástvini og börn. Hann gerði aldrei grín að fólki heldur lagði fremur gott til en hitt.

Og nú er hann farinn. Hann fer aldrei í göngutúr með hundinum Galdri og Ólafi bróður til að ræða stjórnmálaviðhorfið. Hann veiðir ekki lengur harðfisk úr vasanum til að gleðja hvutta. Og hann grillar ekki nautalundir fyrir þig eða býr til sósu frá grunni, flettir ekki upp Gordon Ramsey eða Michelin. Hann bjargar engum framar í aðgerð á Lansanum. Hann hlustar aldrei framar á undaðsmúsíkina í the Godfather eða hlustar og horfir á Monicu Belucci. Hann fer ekki framar í rannsóknarferðir um Berlín, Taormina, New York eða á stjörnuveitingastaði heimsins. Nú er það stórsagan og gastronomía himins.

Og það er vert að þú vitir sem ekki var öllum ljóst að Gumundur Kristinn Klemenzson leit svo á að lífið væri stærra en efnaferlar og efnisveruleiki. Hann hafði í sér undur barnsins gagnvart lífinu, trúði að til væri meira en það sem séð verður. Hann var trúaður. Hann hafði hlutverk í því stóra drama sem þessi veröld er og hinn trúaði stækkar með afstöðu sinni.

Jesús Kristur fór vel með hlutverk sitt og breytti tragedíu heimsins í huggulegra stykki sem hefur meira að segja góðan endi. Mummi – Gummi Klemm – lék ekki aðeins mismunandi hlutverk heldur var í burðarhlutverki í drama margra. Og nú er hann farinn – burt af skurðstofunni og úr eldhúsinu og upp á stóra sviðið í eilífðinni. Þar eru allir vinir, veislan er mikil, dramað gengur upp, allir lifa og hlægja – líka Guðmundur.

Guð geymi hann og styrki ástvini hans. Guð geymi þig.

Amen.

Kveðjur hafa bortist frá Deisu Karlsdóttur og bróður hennar Jóni Karlssyni og fjölskyldu í Gautaborg. Þá biðja fyrir kveðju Þorsteinn Gíslason og fjölskylda en þau eru erlendis.

Minningarorð í útför Guðmundar K. Klemenzsonar, Hallgrímskirkju, 21. desember, 2015. Bálför. Erfidrykkja á Grand hótel við Sigtún.