Ó, Guð vors lands – hvar?

ljóskrossÓ, lands vors Guð. Hver og hvar er hann? Ertu í sambandi við þann Guð sem hefur tímaflakk á valdi sínu? Hverjir lofa hið heilaga nafn? Er það til einhvers? Og hvað munu þúsundir Íslendinga syngja í Frakklandi þegar landsleikir Evrópumótsins byrja? Lofsöng til Guðs! Og þeir munu leggja allt í sönginn og líka í leikinn. En hvað með trúna og stöðu hennar í samfélagi okkar. Trúin er ekki dauð heldur sækir fram – og Guð heldur áfram að elska þig og allan heim – hvaða afstöðu sem þú hefur.

Trúin á innleið

Kirkjusókn um þessi jól var víða mjög mikil. Hallgrímskirkja er stór helgidómur en í guðsþjónustum á aðfangadagskvöldi var stemming í kirkjunni, hvert sæti skipað og margir stóðu – og mál starfsfólks að aldrei hafi jafn margir komið og þessi jól. Ekki veit ég hve stór hluti þjóðarinnar sótti í kirkjur Íslands á þessari hátíð, en víða var aukning á kirkjusókn miðað við undanliðin ár. Fólk í jólaboðum spurði af hverju koma svona margir í kirkju? Er kannski aukinn trúaráhugi meðal þjóðarinnar? Er trúin á innleið í samfélaginu en ekki útleið?

Molnun – samstaða

Í samtölunum í skírnarveislum, fjölskylduboðum og jafnvel erfidrykkjum í liðinni viku hafa viðmælendur mínir teiknað upp fyrir mér breytt Ísland. Að allt fljóti – segja þau – fólk segi skilið við hefðbundnar hugmyndir um stjórnmál, menningarmál og trúmál. Æ stærri hluti Íslendinga sé á breytingaskeiði hugmyndanna. Þeim fjölgi sem segi skilið við hefðbundna flokka, stofnanir og hugmyndakerfi. Kirkjan verði fyrir sömu breytingum. Hafi einhvern tíma verið til einsleit menning Íslendinga sé hún að baki og  merkingarkerfi og menning Íslendinga hafi brotnað í marga mola.

Einn sagði:  „Kirkjusóknin vex því hluti þjóðarinnar stendur með kristni og fólk gerir sér grein fyrir gildi trúar og kristinnar siðfræði.“ Ein var á því að andstæðurnar yrðu meiri í samfélagi okkar. Sá hópur stækkaði sem berðist gegn trú, en hinn hópurinn efldist líka sem gerði sér grein fyrir að trú væri svo mikilvæg einstaklingum og samfélagi að slá yrði skjaldborg um líf hennar. Er menningin brotin og aðeins eftir menningarkimar sem ekki tala saman heldur berjast um völd og áhrif.

Trú: Samtöl og umfjöllun

Mér kom reyndar ekki á óvart að kirkjusókn myndi aukast því á þessu ári sem er að líða hef ég heyrt í svo mörgum sem hafa tjáð samstöðu um trú og gildi í samfélagsbreytingum. En ég hef líka hlustað á fólk tjá andstöðu við trú og orðað efasemdir um kirkjuna. Ég hlusta, ræði málin og deili helst ekki við fólk um trú því það rímar illa við mannvirðingu kristins manns. Ég hef líka þjónað mörgu fólki á árinu sem hefur ekki farið í felur með guðleysi sitt. Það er ákvörðun í hvert sinn að óska skírnar barns og foreldrar ekki alltaf sammála. Og útför í kirkju er ekki sjálfsögð.

Mér virðist ákveðin breyting hafi orðið í borgarsamfélaginu. Í samtölum í tengslum við athafnir, kemur í ljós að æ færri fela hugmyndir sínar. Þau sem eru ekki guðstrúar ræða oft afstöðu sína til trúar við prestinn. Trú eða trúleysi eru ekki lengur feimnismál og í öllum fjölskyldum eru ólíkar skoðanir og trúarhugmyndir. Skoðanafrelsi er mannfélaginu dýrmætt og þarf að verja. Tjáningarfrelsið er gull samfélags.

Samfélagsmiðlarnir

Umræður um trúmál hafa aukist á samfélagsmiðlunum. Sumt sem þar er sagt er af viti, annað léttvægt. Nokkur hella úr koppum yfir kirkju og trú og ljóst að sumt af því er óuppgerð reiði vegna einhvers annars en kirkju. Almennt er til bóta að trú og umræður um átrúnað hafi verið leyst úr viðjum hafta og þmt. tabúa. Að ræða um trú á forsendum kirkju eða átrúnaðar þjónar ekki sjálfkrafa Guði. Guð er óbundinn og frjáls og við eigum að leyfa okkur frelsi í trúarhugsun okkar. Marga hef ég heyrt gagnrýna þjóðkirkjuna en ekki þar með hafna trú eða Guði. Og þarft er að greina á milli kirkjustofnunar og trúar. Hver stofnun og mannlegt fyrirtæki gerir mistök sem á að gagnrýna. Þjóðkirkja er ekki hafin yfir gagnrýni, ekki frekar en dómstólar, Alþingi, sveitarstjórnir, hreyfingar og fyrirtæki. Þjóðkirkjan á ekki að fara í vörn, þarf að bæta starf sitt og breytast eins og hinar hreyfingarnar og stofnanir samfélagsins. Kristin guðfræði hefur alla tíð kennt af raunsæi að menn séu sjálfhverfir og breyskir. Trúmenn eru jafn ófullkomnir og aðrir menn. Lifandi kirkja sem vill þjóna fólki í framtíð fagnar því rýni til gagns.

Út úr almannarýminu?

En svo eru hins vegar til árásir á trú og guðstengsl sem hafa ekki með skynsemi eða raunveruleika að gera. Vaxandi hópur samfélagsins hefur óþol gagnvart hinu trúarlega, fer á límingunni þegar trú kemur við einhverja sögu. Mikið hefur verið rætt um samskipti kirkju og skóla á liðnum misserum. Tilgangur margra þeirra sem hafa hæst er að ýta málum trúar út af stóra sviði almennings og inn á litla svið heimilis og einkalífsins. Trú sé eins og kynlíf, það eigi bara að iðka innan vébanda einkalífsins. Það er auðvitað rétt að trú er mjög persónuleg en hún er þó allt annars eðlis en kynlíf og mun aldrei lúta líkum reglum. Trúin leitar alltaf inn á torg mannlífsins vegna þess að trú er samfélagsleitandi, leitar til margra. Trú verður aldrei ýtt inn fyrir dyr og glugga hins einkanlega því eðli trúar er samfélagsskapandi. Þegar reynt er að þrengja að trú sprengir hún af sér fjötra og teygir hendur til fólks.

Í íslenskri kristni hefur um aldir verið alið á mannvirðingu. Passíusálmar, Vídalínspostilla, hugvekjubækurnar og sálmarnir kenna fólki að virða aðra og bera hag þeirra og samfélags fyrir brjósti. Siðfræði kristninnar hefur kennt í þúsund ár að menn eigi að virða mannhelgi hvers manns. Eitt af því gæfulegasta og gleðilegasta í samfélagi Íslendinga síðasta áratuginn er að nú ríkir sátt meðal okkar um að virða kynhneigð fólks. Það er vel því allir eiga að njóta manngildis og öllum á að sýna mannvirðingu. En þegar kynhneigð fólks er virt er stækkandi hópur sem gerir gys að, tortryggir og hæðist að trúhneigð fólks og trúariðkun. Þegar tabúin losna varðandi kynhneigðina er hópur að reyna að þrengja að trúnni og troða inn í skáp þöggunar. Það er sorglegt því engum líður vel í skápum. Samkynhneigðu fólki leið ekki vel þar. Trúmenn – og allt heilbrigt fólk – óskar eftir mannvirðingu en ekki mannfyrirlitningu, marglitu samfélagi en ekki einlitu, opnu en ekki þröngu.

Trúin í lífinu

Á árinu 2016 munum við ekki aðeins vinna, borða, elska, kjósa og elta fótbolta í Frans. Við munum búa við hernað, hermdarverk, flóttafólk og líka fólk með óþol gagnvart trú. Við munum sem einstalingar og hópar taka skref og jafnvel ákvarðanir um mörk trúar, hvar trúin má vera og hvernig hún eigi eða geti blandast samfélagsvefnum. Við getum lagt niður eða eytt trúarstofnunum en enginn einræðisherra heimsins eða menningarafl megnar að útrýma trú. Það er virðing við trú að reyna hana með rökum en mannfyrirlitning að reyna að ýta henni út af rönd samfélagsins. Flestir heilbrigðir menn leita að lífsdýptum og margir finna engan frið fyrr en í tengslum við þann mátt sem trúmaðurinn kallar Guð.

Á lokadegi ársins gleðst ég yfir hversu víða er talað um trú og hve margir vilja ræða um hvað er gilt og hvað er úrelt. En þegar rætt er um framtíð íslensks samfélags með aukinni menningarlegri fjölbreytni, fjölgun innflytjenda til landsins og æ meiri blöndun, er mikilvægt að taka upplýst gæfuskref. Við gerðum mistök í efnahagsmálum sem leiddu til hruns. Og við höfum ekki efni á að gera menningarleg misstök með því að ana fram af samfélagslegri einfeldni. Allir verða að beita sér með viti og yfirvegun í málum menningar og trúar. Hið mikilvæga er að viðurkenna að trú gefur einstaklingum stað, gildi og stefnu, áttvísi í veröldinni. Og slíkir leita inn í almannarými með siðvit sitt og afstöðu. Trú er mál torgsins.

Opna – loka – torgþrá – skápur

Viljum við menningarlega einsleitni? Viljum við banna erlendu fólki að koma til landsins? Einangrunarhyggja er ekki til gagns. Það er til farsældar að íslenskt samfélag megi njóta hins besta úr menningu heimsins en afar mikilvægt að skera burt hið illa, hvort sem það er innlend vitleysa eða erlend. Mannvirðing er mikilvæg og mannfyrirlitningu á ekki að líða.

Við höfum tvo kosti hvernig við viljum skipa trúmálum okkar í framtíðinni. Annar kosturinn er að þrengja að hinu trúarlega og ýta iðkun hennar inn á svið einkalífsins. Ef trúnni er hins vegar þrengt í skápa samfélagsins, henni haldið í gettóum, elur hún bókstafshyggju, þröngsýni og þegar verst lætur ofbeldi. Trú og trúariðkun þarf að vera hægt að skoða og skilgreina.

Hinn kosturinn er að virða torgþrá trúar og sókn hennar inn í almannarýmið. Trú þarf að fá að dafna í almannarýminu til að þroskast með heilbrigðu móti. Trú leitar alltaf inn í miðju samfélags og menningar. Trú getur vissulega lifað á jaðrinum. En vegna þess hve umbreytnadi, lífsfyllandi og gefandi Guðsnándin er mörgum sækir trúin í mannlífsmiðjuna. Í trú er fólginn kraftur til góðs. Í almannarýminu er hægt að tala um trú, greina hana og gagnrýna til góðs, rökræða hana, grínast með hana og gleðjast yfir fjölbreytni hennar og lífsgæðum.

Flóttamenn koma til okkar með ólíka menningu, trú og siði. Hvað viljum við gera þessu fólki? Viljum við búa til skápa, menningarkima, sem eru aðgreindir og lokaðir frá öðrum kimum íslensks samfélags?

Heimsbyggðin verður æ tengdari. Átök í Asíu og Afríku hafa bein áhrif í París og Reykjavík. En það er okkar eigið val er hvort við veljum að lifa sem opið, gagnrýnið samfélag eða lokað og aðþrengjandi þjóðfélag. Hvort er betra? Hvort hentar lífi og fólki betur?

Söngur þjóðar

Svo eru áramót. Við syngjum þjóðsönginn og á stóru stundum Íslands. Þessi mikli söngur þjóðarinnar opnar gáttir og víddir til dýrðarsmáblóma landsins, til ofurfléttu tíma og sólkerfa. Guð vors lands og lands vors Guð, við lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Sú trú verður ekki lokuð í skáp heldur leitar hún út í víðerni náttúru, mannheima, alheims. Guð kemur til þín sem trúir á Guð, vilt trúa á Guð, finnur fyrir guðlegri nánd í náttúrunni og upplifir eitthvað dásamlega guðlegt í lífinu.

„Með Jesú byrja ég, með Jesú vil ég enda.“ Guð geymi þig á nýju ári og varðveiti þig, heima, á torgum, í áhorfendastúkum, skólum, búðum, í vinnu og samskiptum og gefi þér trú og mátt til að lifa í mannvirðingu og sátt við þitt eigið sjálf, fólkið þitt, heimsbyggðina og Guð.

Guð gefi þér gleðiríkt ár.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju við áramót. Aftansöngur 31. desember, 2015. Hljóðsrká fra´RÚV er aðgengileg um tíma á bak við þessa smellu.