Greinasafn fyrir merki: Guðrún Valborg Finnbogadóttir

Guðrún Valborg Finnbogadóttir +

Guðrún Valborg FinnbogadóttirKynslóðir koma og kynslóðir fara… hið stóra samhengi sem jólasálmurinn dregur upp. Konan sem var 11.12.13. var einu sinni barn. Hún lifði langa æfi og er nú horfin inn í Paradís með sigursöng.

Hvernig var hún? Minningar þyrlast upp þegar hugsað er til baka. Það var hrífandi að hlusta á sögur vel mælandi fólksins hennar Guðrúnar. Leiftrandi og litrík mynd varð til í mínum huga, mynd af konu sem hafði gaman af veiðum, hafði auga fyrir myndum, tók myndir og framkallaði einnig þegar fáar konur höfðu aðgang að myndavél, hvað þá lögðu fyrir sig í frístundum að ljósmynda og stækka. Guðrún hafði farið í reisu um Norðurlönd á fjórða áratug síðustu aldar þegar fár konur fóru út fyrir landsteina. Svo spilaði hún á píanó og tónlistin barst út á Njálsgötuna og blandaðist inn í borgarsynfóníuna.

Já, það eru jól, og vert að fagna að frelsari heimsins fæddur er. Og á þessum jólum kveður Guðrún Valborg Finnbogadóttir og vert og verðugt að þakka fyrir allt það sem hún var og gaf fólkinu sínu, ástvinum og samfélagi. Kynslóðir koma og fara og við njótum þess sem okkur hefur verið fært og skilum áfram til að nesta næstu kynslóð til hamingjugöngu og göngu til lífs.

Upphafið

Guðrún Valborg Finnbogadóttir var 11.12.13. – fæddist á fimmdegi klukkan ellefu fyrir hádegi þann ellefta desember árið 1913 og hafði náð 102 ára aldri þegar hún lést. Þegar Guðrún átti aldarafmæli, fyrir tveimur árum, sagði hún í dagblaðsviðtali að hún hafi vonast til að afmælisdagurinn yrði á fimmtudegi líka, sem varð reyndar ekki. Blóðforeldrar hennar voru Þuríður Jóhannesdóttir og Georg Finnsson. Foreldrarnir höfðu ekki tök á að hafa hana hjá sér og hún fór því til föðurömmu sinnar, Guðrúnar Snorradóttur. Amman var elskurík og þær yngri og eldri höfðu gleði af hvor annarri.

Þegar Guðrún gat ekki alið önn fyrir nöfnu sinni lengur stakk hún upp á við barnið að hún gerði tilraun að fara um tíma til systur sinnar, Sesselju Snorradóttur og Finnboga Finnbogasonar, sem voru barnlaus. Og Guðrún litla fór með aleiguna, koddann sinn. En tilraunin hjá Sesselju og Finnboga á Njálsgötu 27 tókst framar öllum vonum. Guðrúnu var tekið svo vel að hún fann sig fljótt heima og svo féll Guðrún amma frá og þá var ekki aftur snúið. Og Guðrún yngri fagnaði mjög þegar ljóst var að hún hefði eignast pabba og mömmu og mætti kalla þau þeim persónulegu nöfnum og ávarpa þau sem slík. Hún fagnaði mjög þeim áfanga sem mörgum þykja sjálfsögð gæði.

Glaðværð ríkti á heimilinu og þær Sesselja áttu skap saman. Efnin voru þokkaleg því húsbóndinn var skipstjóri á strandferðaskipinu Skaftfellingi, sem var happafleyta og vonar- og bjargarskip Skaftfellinga. Þau Sesselja báru Guðrúnu á höndum sér, veittu henni öryggi, leyfðu hæfileikum hennar að þroskast. Guðrún sótti skóla í Miðbænum, enda Austurbæjarskóli ekki orðinn til þegar hún var að vaxa upp á Njálsgötunni. Þegar hún hafði lokið barnaprófi fór hún í Kvennaskólann.

Þegar ljóst var að músík blundaði í Guðrúnu var tækifærið notað þegar hún var fermd og hún fékk píanó í fermingargjöf, fínt tékkneskt píanó sem varð slagharpa tónlistariðkunar Guðrúnar alla æfi. Hún sat fúslega og æfði sig á skölunum, fann gleðina í hljómaganginum, stóð sig vel í píanónáminu og varð handgengin tónlistarkennaranum Ingibjörgu Benediktsdóttur. Þær fór svo mikla reisu saman 1934 áður en óveðrið skall á með fullum þunga í stórnmálum Evrópu. Í minnum er haft að Guðrún var ekki bara með puttana á nótnaborðinu heldur einnig á myndavélinni. Hún tapaði reyndar vélinni á leiðinni en hafði það mikð fé milli handa að hún gat keypt sér nýja til að mynda það sem bar fyrir augu. Það eru því til myndir í fjölskyldunni af því Guðrún hafði áhuga á að taka myndir og framkalla. Myndirnar eru dýrmæti eru til fyrir eftirlifendur og kynslóðir framtíðar.

Sesselja, fóstra Guðrúnar, féll frá árið 1932 og fóstrinn Finnbogi kom í land. Fyrr og síðar var Guðrún natin við fósturforeldra sína og þegar húsmóðirin var látin hélt hún heimili fyrir Finnboga. Þótt aðstæður hafi ekki verið beinlínis gæfulegar þegar Guðrún kom í heiminn og henni hafi verið fleytt tvisvar til nýrra umsjónaraðila er saga uppvaxtar hennar gæfusaga. Hún fékk næði og stuðning til að þroska gáfur sínar og njóta. Gott samkomulag var við fjölskyldurnar í nágrenninu við húsið nr 27, svo gott að Njálsgötuþorpið fór jafnvel í skemmtiferðir saman.

Hermann og börnin

Svo kom Hermann Guðlaugsson inn í líf Guðrúnar. Þau kynntust í vinahóp og mublusmiðurinn ungi hreifst af Guðrúnu og hún af honum. Þau dönsuðu uppábúin á Borginni og dönsuðu til framtíðar. Þó ekki deildu þeir Finnbogi og Hermann pólitískum skoðunum virtu þeir hvorn annan og gáfu með samskiptum, orðum og jafnvel líka þögnum, yngri kynslóðinni innsýn í átaklínur stjórnmála. Þeir keyptu ólík blöð og smituðu með augnagotum, smáhlátri og viðbröðgum hvað var hvers og hvurs var hvað. Hermann efldi Finnboga til dáða og dreif hann með sér í vinnu á stríðsárunum sem varð honum og heimilislífinu til góðs.

Þau Hermann og Guðrún gengu í hjónaband á Þorláksmessu árið 1944. Sr. Jakob Jónsson, prestur í Hallgrímssókn gaf þau saman, líklega í stofunni heima hjá klerki. Breytingar urðu á mannlífinu í húsinu á Njálsgötu 27. Ungu hjónin fengu góða aðstöðu og Finnbogi afi færði sig um set í húsinu. Hjúskapurinn bar þann góða árangur að Finnbogi kom í heiminn árið 1945. Kona hans er Hansína Garðarsdóttir, Guðlaugur fæddist svo ári síðar eða 1946. Kona hans er Guðrún Sverrisdóttir. Sesselja fæddst svo árið 1950.

Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin tíu.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðrúnu og hvernig tengdist hún þér? Já, hún bjó hér í þessari sókn, Hallgrímssókn alla tíð. Á Njálsgötunni var hún frá fjögurra ára aldri og hátt í öld og þá fór hún nokkur hundruð metra og yfir á Droplaugarstaði árið 2009.

Guðrún var Rekjavíkurkona en líka mikil ferðakona. Þau Hermann voru samvaxin í að fara um og skoða Ísland. Guðrún hikaði ekki þegar þeim hjónum bauðst að kaupa bíl af breska setuliðinu. Og Bedfordinn var kannski ekki hraðskreiðasti bíllinn í bænum, en traustur og tryggur í fjölskylduferðunum og boddíið sem Hermann smíðaði á Beddann dugði vel.

Farið var árlega austur í Þingvallasveit í útilegu og veiðiskap. Svo festu þau Hermann sér liðlega fimmtíu fermetra grunn í landi Elliðakots ofan Reykjavíkur. Þar byggu þau sér sumarhús og nutu lífsins. Svo seldu þau það frá sér síðar og teygðu sig lengra og komu sér upp sumarhúsi við Meðalfellsvatn í Kjós. Þar undu þau sér við veiðar og landnemastörf og voru samhent. Ævintýralífið hentaði Guðrúnu vel og þau settu ekki fyrir sig að hafa bara eina kabyssu til hitunar og eldamennsku og þurfa að ná í vatn í lækinn. Þau áttu líka bát til veiða og þótti ekki verra þegar lax kom um borð og í pott.

Guðrún var skemmtileg mamma. Í henni bjó lífsgleði og gáski og hún var svo náttúruð að hún lagði sig eftir því sem hreif börn hennar. Hún var því hrifkvika heimilisins á Njálsgötu 27. Og af því hún vann heima var oft margt um manninn og við vinum barnanna var tekið. Hún setti börnin sín í forgang og gaf þeim veganesti til lífs. Svo spilaði hún “etíður og tunglskinslög” og gaf börnum sínum tilfinningu fyrir Chopin og Beethoven. Hún tengdi saman þrjár kynslóðir i húsi afans. Og sagan um húsið er frábærlega sögð í dásamlegri bók Finnboga Hermannssonar, Í húsi afa míns.

Hermann vann við iðn sína, húsgagnasmíði og vann lengstum hjá Reykjavíkurborg og smíðaði m.a. skápa og innréttingar í skóla borgarinnar. Þegar hann eltist og hætti vinnu hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurborgar settu þau hjón upp húsgagnaverslun, forngripaverslun, á Njálsgötunni og unnu bæði við að gera upp húsgögn og koma til nýtingar á ný. Og Guðrún var flínk í höndum og þau unnu vel saman í viðgerðum. Þegar heilsa Hermanns brast var Guðrún honum hin besta stoð. Hann lést árið 1997 og hún bjó áfram á Njálsgötunni og átti þar ágæt ár umvafin börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Á Droplaugarstöðum naut Guðrún í sex ár ágætrar aðhlynningar og eignaðist vini í hópi starfsfólks. Og starfsfólkið á Droplaugarstöðum sagði mér með blik í augum hve Guðrún var alltaf jákvæð og hve bjartsýni hennar og léttleiki hefði verið smitandi og haft góð áhrif á heimilisfólkið í kringum hana.

Saga Guðrúnar er sem örsaga Íslands síðustu hundrað árin. Hún mundi Kötlugosið 1918 og sá ösku frá gosinu á hvítum diski. Örlög hennar voru ráðin þegar nýja Ísland var að fæðast, sjálfstæðið að aukast. Hún fæddist á dönskum tima og tók dönsk orðatiltæki í arf. Þegar Guðrún var hundrað ára og minnist uppvaxtaráranna á Njálsgötunni sagði hún: „Þarna var gaman að vera í gamla daga. Þá voru engir bílar á götunni. Þetta var bara hestvagnar og hestar.“ Og svo bætti hún við. „Ég held að ég hafi haft góða lund, létta frekar. Þótti gaman að eitthverri vitleysu.“

Og nú er hún farin. Nú er lokið langri sögu. Fram, fram um víða – veröld og gistum. Já hún hafði getu til að fara ferðir, fór sínnar pílagrímaferðir. Konan 11.12.13. er komin í sína Paradís og með sigursöng. Þegar hún var að undirbúa hinstu ferðina var hún farin að hlakka til að hitta ástvini sína og hún hlakkaði líka til að hitta vinkonur sínar. Það er dásamleg afstaða að trúa að lífið sé ekki smátt heldur stórt, gott en ekki illt. Hún hafði reynslu af góðu fólki og að lífsferðin væri góð. Og Guðrún átti í sér trú á að lífið héldi áfram og góðs væri að vænta. Elífa lagið gleymist ekki – gleðisöngurinn. Njálsgata 27 var góð, og Himingata 27 er óefað góð líka. Þar er enginn deyfð eða drungi heldur góð soðning, fjör og músík. Og söngur himsins er um að Guð er góður, elskar og kemur til manna, er með mönnum, er frelsari sem heldur öllu til haga, umhyggjusamlega -eins og besta móðir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Í þeim boðskap og veruleika er rún Guðs. Guðrún er í góðum ranni.

Guð geymi hana og varðveiti. Guð geymi þig og gefi þér líf til blessunar.

Amen.

Jakob Guðmundsson á Árbakka í Austur Húnavatnssýslu hefur beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Hann bjó sem barn á Njálsgötu 36 og sagði mér hve oft Guðrún hefði kallað hann í eldhús og gaukað að honum og börnunum í hverfinu kökubita.

Minningarorð við útför Guðrúnar í Hallgrímskirkju 30. desember, 2015. Kistulagt sama dag. Bálför. Erfidrykkjan í Nauthól við Nauthólsvík.