Flott hjá þér

IMG_1006Góðan daginn kæru hlustendur. Við fjölskylda mín fórum einu sinni til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Smáfólkið fékk líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn á ekki heldur að stjórna atvinnulífi, stofnunum og þmt. fjölmiðlum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Maki þinn þarfnast að þú sjáir hann og bregðist við með jákvæðum hætti. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er dýrmæti og þannig skapað. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og ástæða til. Jesús kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra það líka? Blóm dagsins er hrós.

Bænir…

Guð gefi þér yndislegan dag og gleðiríka helgi.

Morgunorð og morgunbæn RÚV 3. október, 2014.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Ótti og von

Hvaða tilfiningar vakna í þér með dagin framundan? Er þetta dagur tækifæranna og framkvæmda? Eða dagur óttans? Eða dagur vona?

Einu sinni var ég í sænska skerjagarðinum í fríi. Við fjölskyldan sigldum með systur og mági á skútu milli eyjanna. Það var skemmtilegt að setjast við stýrið og venda, vinna með vindi og upplifa krafta náttúrunnar. Við syntum í sjónum og bjuggum vel. Það var dekrað við okkur.

Ég á tvíburastráka og þeir voru sjö ára á þessum tíma. Eitt kvöldið var þeim boðið í kanósiglingu. Veðrið var undursamlegt, sjórinn spegilsléttur, fuglarnir sungu, smáfiskurinn kom upp í yfirborðið og gáraði lítillega speglun himins í vatni.

Kanóbáturinn sveif sem á skýjum í vatninu. Svo hurfu bátsverjar sjónum mínum og ég vissi hvaða leið þeir ætluðu. Og ég treysti skippernum vel til ferðar með drengina mína. Svo leið tíminn og bátsferðin varð lengri en ég hafði átt von á og svo tók að rökkva og ég fór að verða órólegur. Hafði eitthvað komið fyrir, hafði þeim hlekkst á. Óttinn læddist að með húminu og ég gekk á ströndinnni og skimaði eftir þeim. En ég sá engin merki um þá, heyrði ekki til þeirra – það var eins og sjórinn hefði gleypt þá. Og óttinn læddist inn í mig með fullum krafti. Hafði bátnum hvolft? Ég kallaði upp í himininn og bað um hjálp.

Þegar óttinn kemur finnur maður hvað skiptir máli og ástin hamast. Ég mátti ekki til þess hugsa að nokkuð kæmi fyrir þá, að þeir hyrfu í hafið. Þegar drengirnir mínir týndust í sænsku kvöldhúmi í skerjagarðinum fann ég hve ég elskaði drengina mína hamslaust og heitt. Mér til mikils léttis hafði ekkert hættulegt hent þá, bænin hafði verið heyrð. Þeir höfðu breytt um kúrs og lent í ævintýrum. Þeir voru í góðum höndum, vel var fyrir öllu séð, lífið hafði bara breyst á ferðinni. Allt fór vel.

Byrjar þú þennan dag í von eða ótta? Þú mátt vita að þessi dagur verður merkilegur dagur. Og svo er vinur á himnum sem elskar og vill að þú skiljir og vitir að þú ert stórkostlegur eða stórkostleg. Sá vinur heyrir vel, er nærri og allir eiga í honum góðan stuðning fyrir siglingar daganna.

Bæn – Faðir vor

Guð gefi þér óttalausan og góðan dag.

Morgunorð og bæn Rúv 29. september 201

Vistspor

Umhverfisspor í GautaborgVið vorum á ferð erlendis – fjölskylda mín – og heimsóttum stórt náttúrufræðisafn. Í einum sýningarbásnum voru vistspor þjóða sýnd. Og hvað er vistspor? Það er hver neysla hóps eða þjóðar og hvernig auðlindir eru nýttar. Vistspor er eiginlega sú náttúruafstaða sem birtist í nýtingu auðlinda náttúrunnar.

Í safninu voru vistspor nokkurra þjóða borin saman og sýnd með misstórum skóförum, sem voru máluð á gólf safnsins. Þjóðanöfn voru skrifuð við sporin til að sýna hve ólík neysla og auðlindanotkun þjóða væri. Drengjum mínum varð starsýnt á þessi spor, mátuðu fætur við þau og fannst sum þeirra vera stór. Sum sporin voru smá en önnur risastór. Hvað ætla þeir drengir að gera í neyslunni og málum lífsins? Bera þeir einhverja ábyrgð og berum við ábyrgð gagnvart lífi framtíðar?

Iðnaður, vélanotkun, eldsneytisnotkun, ferðalög, tækjakaup og fleira hafa áhrif á umhverfið. Vistsporin á safninu voru ólík. Spor íbúa í Bangladesh var mjög lítið en spor Svía var hins vegar mjög stórt – nærri tíu sinnum stærra. Vistspor Bandaríkjamanna var enn stærra.

Neysla skiptir máli og við berum ábyrgð á hvað við kaupum, hvers konar landbúnað við styðjum og hvernig pólitík okkar er. Hver sem afstaða okkar er í stjórnmálum – eða hvort við hugsum um efnahagsmál og auðlindamál eða ekki – hafa lífshættir okkar áhrif á heiminn. Við höfum áhrif.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Neysla margra er umfram getu jarðar til að næra og blessa. Reiknað hefur verið að ef allir jarðarbúar myndu lifa með svipuðum hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar þyrfti mannkynið meira en 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir eru enn þurftarfrekari því ef jarðarbúar neyttu jafn mikils og þeir þyrfti 4 jarðarkúlur til að standa undir neyslunni. Við Íslendingar erum neyslutröll og einhver þurftarfrekasta þjóð í heimi. Neysla okkar er slík að ef allir væru eins og við þyrfti líklega 5 eða 6 jarðir til að framfleyta mannkyninu (til eru útreikningar sem sýna mun verri útkomu okkar Íslendinga). Þetta neyslusukk setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er ein neyslufrekasta þjóð heims.

Loftið er dýrmætt

Í liðinni viku voru mikilvægar samkomur haldnar í New York um loftslagsmál.

Trúarleiðtogar ýmissa trúarbragða hittust í borginni til að ræða ábyrgð trúmanna á atferli, lífshætti og siðferði fólks – og hvernig trú gæti stuðlað að ábyrgara lífi og minna álagi á vef lífsins. Kristnir, gyðingar, múslimar, hindúar, búddistar og ýmsir fulltrúar trúarhreyfinga og þjóðarbrota hittust til að hvetja pólitíska leiðtoga heimsins til að horfast í augu við ástand lífríkisins og taka ákveðið á málum.

Auka – en minnka

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 23. september skuldbundu nokkrir þjóðarleiðtogar og fyrirtæki heims sig til að breyta landbúnaði á heimasvæðum sínum – draga úr kolefnislosun og auka þó framleiðslu matvæla. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 70 milljónir og áætlað er að íbúar jarðarinnar verði nærri níu milljarðar eftir 25 ár. Því er ljóst að vegna fjölgunar fólks verður að auka matvælaframleiðslu heimsins.

Á ráðstefnu SÞ hétu tveir tugir ríkisstjórna og fjöldi fyrirtækja stuðningi við umhverfisvæna landbúnaðarstefnu, sem hefur m.a. að markmiði að gera 500 milljón bændum mögulegt að stunda umhverfisvænni landbúnað en nú er mögulegt. Ýmis samtök skuldbundu sig til að vernda fátækustu bændurna sem eru berskjaldaðir gagnvart loftslagsbreytingum.

Útþensluaðferðin

Umræðuefnin á þessum tveimur þingum eru mikilvæg og varða trú, guðfræði og erindi kirkjunnar. Því er ærin ástæða til að íhuga erindi þeirra. Hvernig getum við að brugðist við loftslagskreppu og auðlindakreppu? Hvað ættum við að gera þegar okkur berast þær fréttir að lífríkinu er ógnað og mannfjöldaþróun knýr á um miklar breytingar varðandi afstöðu og aðgerðir?

Fyrr á öldum virtust loft, vatn, lífríki og orka vera sjálfsögð og óþrjótandi gæði. Auðlindir virtust sem næst ótæmandi. Á liðnum öldum hafa menn yfirleitt brugðist við kreppum með því að yfirvinna takmörk, fara yfir mæri, fara út fyrir mörkin, nýta meira og fara lengra. Kreppan var sigruð með útþenslu. Þegar landnæði Evrópu var fullnýtt var farið til Ameríku eða annarra álfa. Þegar auðlindir hinna ríku voru fullnýttar var farið að nýta auðlindir fátækari þjóða. Þegar heimafengin orka var ekki nægileg lengur hófst kapphlaup um orku annars staðar og aðgang að henni tryggður með valdi og “eign” slegið á orkuna. Lífsstíllinn í ríka hluta heimsins – okkar hluta – var og hefur verið að belgja okkur út úr kreppunum – sprengja kreppuna með því að útvíkka og þenja út. En nú höfum við uppgötvað mörk og mæri á öllum sviðum. Við getum ekki haldið áfram með sama lífsmynstri belgingsins.

Kreppan í fólki

Viðbrögð einstaklinga í kreppuaðstæðum geta hjálpað okkur að skýra viðbrögð hópa, þjóða og heimsbyggðar gagnvart loftlagsbreytingum og umhverfisvá sem eru stundum furðuleg. Kreppuviðbrögðin má yfirfæra og nokkur þeirra eru þessi: 1. Afneitun, 2. flótti, 3. reiði, 4. depurð, 5. einföldun og 6. grafa vandann með því að láta gott heita.

Viðbrögð til góðs

Hvað getum við gert? Í stað afneitunar og neikvæðni getum við brugðist með skapandi móti.

  1. Í fyrsta lagi horfst í augu við og viðurkennt vandann. Gagnvart loftslagsbreytingum er mikilvægt að játa að við erum samábyrg og viðurkenna neysla okkar þarf að breytast.
  2. Ábyrgð: Það eru ekki aðeins einhverjir “aðrir” sem bera sök og eiga því að bæta úr. Bandaríkjamenn og Kínverkjar blása vissulega mestri eiturgufu út í andrúmsloftið – en við getum margt gert þó við séum ekki aðalspellvirkjarnir. Við getum gengist við ábyrgð með því að huga vel að eigin innkaupum, eigin heimilislífi og beita okkur með jákvæðum hætti við stefnu og stjórn hins íslenska samfélags. Við getum brugðist við náttúrvá í anda frelsis og réttlætis.
  3. Til að nýta reiði jákvætt þarf að tengja hana kærleika. Reiði vegna mengunar er skiljanleg en getur orðið til góðs ef hún er samferða og samtaka kærleiksríkri systur sem heitir ást. Kærleikur þarf að stjórna reiði til að vel fari bæði í einkalífi og opinberu einnig.
  4. Það er engin ástæða til að leyfa depurð, fjórða kreppuviðbragðinu, að mála skrattann á veginn og draga þar með úr fólki allan matt til átaka. Við ættum fremur að temja okkur hið guðlega viðbragð, að mæta vanda með því að bæta heiminn – greina stórt og smátt til farsældar sem hægt væri að gera í eigin lífi og samfélagi okkar.
  5. Í nútíð og kreppum er alltaf tækifæri til vaxtar og möguleikar til lífs og engin ástæða til annars en horfa fram á veginn. Guð kallar úr framtíðinni.
  6. Gagnvart mengun, misnotkun auðlinda og manngerðum loftslagsbreytingum megum við gjarnan opna augu, eyru, hjarta og huga.

Verkefni okkar er ekki að bjarga heiminum heldur gera það sem við getum gert. Það er bæði mannleg og trúarleg köllun okkar sem einstaklinga. Og það er líka á ábyrgð okkar sem kirkju að bregðast við með einurð, óttaleysi og hugrekki. Okkur ber að gæta systra okkar og bræðra. En það er líka dásamlegt verkefni okkar að gæta móður okkar einnig. Náttúran er móðir sem er á okkar ábyrgð.

Við getum endurskoðað neysluhætti okkar – bæði á heimilum og í samfélagi. Við getum hvatt stjórnvöld til að láta náttúruna njóta vafans og lágmarka skaða í opinberum framkvæmdum. Við ættum að auka pólitísk afskipti varðandi meðferð náttúru. Raunar ættum við Íslendingar ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera til fyrirmyndar í notkun orku og auðlinda.

Guð er ástæðan

Skiptir trú lífríkið máli? Já, trú hvetur ekki til lífsflótta heldur lífsræktar. Trú er ekki það að flýja inn í óraunsæi eða annan heim – heldur að samþætta elsku til Guðs elskunni til alls þess sem Guð hefur búið til, náttúru og þar með fólks líka. Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefið og líf heimsins er gjöf Guðs. Okkur ber að virða afstöðu Guðs sem elskar sköpunarverkið og þar með varðveita náttúruna og vernda.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Hugleiðing í Neskirkju 28. september 2014

Inga í Brekku – minningarorð

IngaIngigerður Ingvarsdóttir vildi jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og sagði gjarnan sögu um sjálfa sig unga sem er einnig lykilsaga og skýrir afstöðu og líf hennar. Ingu hafði verið bannað að fara á dansleik á Vatnsleysu í Biskupstungum. En bræður hennar, bæði eldri og yngri fengu hins vegar að fara. Ingu sárnaði þessi mismunun kynjanna. Þegar allir voru farnir í háttinn heima brá hún á það ráð að taka hrossaleggina sína sem hún notaði sem skauta og batt þá á sig. Síðan skautaði hún upp Tungufljótið og fór þangað sem dansleikurinn var haldinn. Og þar sem Inga var ekki með peninga með sér í þessari hljóðlátu mótmælaskautferð fékk hún lánaðar krónurnar sem þurfti til að komast inn. Inga fór það sem hún ætlaði – hún hafði sér einbeittnina og nægilega þrjósku!

Ætt og uppruni

Ingigerður Ingvarsdóttir var fædd á Litla-Fljóti í Biskupstungum 23. ágúst árið 1920. Hún var dóttir hjónanna Jónínu Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Ingvars Jóhannssonar. Hún var næstelst fjórtán systkina. Það var mikið barnalán á þeim bæ. Elstur var Ingvar. Á eftir Ingu kom Einar, þá Kristinn, Jóhanna Vilborg, Kormákur, Hörður, Hárlaugur og tvíburabróðir hans andvana fæddur, Ragnhildur, Guðrún, Elín, Sumarliði og Haukur. Tvö þeirra systkina eru á lífi, Sumarliði og Guðrún en hin eru farin af þessum heimi.

Inga flutti ung með foreldrum sínum og bræðrum að Halakoti, sem nú heitir Hvítárbakki, í Biskupstungum. Inga hafði bæði getu og gaman af vinnu og sótti í puðstörfin og kallaði sjálfa sig síðar “útikonu” vegna áhugans á útiverkunum. Einhverju sinni hafði sveitungi Hvítárbakkafólksins orð á dugnaði Ingu og þá varð föður hennar að orði: „Já hún Inga hefði átt að vera strákur.“ Inga heyrði umsögnina, var hnittin og orðheppin og svaraði ákveðið: „Það er þér að kenna en ekki mér pabbi.“ Þeir hafa væntanlega ekki mótmælt, karlarnir.

Inga sótti skóla í Reykholt í Biskupstungum og var í heimavist. Henni gekk vel í skóla, var námfús og fljót að læra. Alla tíð bjó þekkingin í henni og hún mundi það sem hún hafði læri – líka ljóð og sálma. Reykholt var ekki aðeins staður vísulærdóms, lesturs og stærðfræði. Þar var líka hægt að synda. Vegna jarðhitans var sundaðstöðu komi fyrir og sund kennt. Inga lærði að synda og njóta sunds og það gerði hún alla tíð meðan hún hafði heilsu til.

Gunnar og börnin 

Svo fór Inga suður til að afla sér tekna. Hún starfaði sem vinnukona – fór í vist hjá þýskri konu og íslenskum bónda hennar. Lífið í höfuðstaðnum heillaði og í Reykjavík kynntist Inga Gunnari Sveinbjörnssyni, leigubístjóra. Hann var að norðan og hún að sunnan og þau féllust í faðma og hófu búskap. Og þau voru í “görðunum” þessi árin. Þau bjuggu fyrst í Garðastræti í Reykjavík en fluttu svo 1943 í Garðahrepp, kenndan við Garða á Álftanesi. Í þeim hreppi voru þau næstu áratugina – fyrst í Litlu Brekku en byggðu síðan stórt hús upp úr 1950 og nefndu það Brekku. Mannlífið var fjölbreytilegt í umhverfinu og fjölskyldan mátt jafnvel eiga von á að skrúfað yrði fyrir vatnið vegna duttlunga nágranna. Gunnar aflaði tekna fyrir sístækkandi fjölskyldu. Hann rak verkstæði um tíma í stórri skemmu frá Bretunum. Hann vann í Fjöðrinni um tíma og gerði einnig út trillu. Og svo var Gunnar vaktmaður í síldarvinnslu í Njarðvík.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þeim Ingu og Gunnari, fjölskyldan stór og þó Bakkus kæmi oft við í Brekku bauð Inga hann ekki velkominn. Að því kom að þau Inga og Gunnar skildu og Inga flutti á Álfaskeið 100 í Hafnarfirði. Það var um 1970. Síðar fór Inga svo á Unnarstíg, þá á Miðvang og síðan á Ölduslóð. En þó þau Inga skildu slitnaði aldrei vináttustrengurinn milli þeirra. Þau áttu börnin, góðar stundir og fortíðina saman og virðinguna líka.

Gunnar lést í mars 1992 en Inga lifði 22 árum lengur. Árið 2011 fór Inga inn á Hrafnistu í Hafnarfirði og þar naut hún góðrar aðhlynningar síðustu árin og allt til enda.

Inga og Gunnar eignuðust 9 börn á 18 árum. Það er mikið afrek og aðallega Ingu. Sveinn fæddist árið 1940. Sveinbjörn Pálmi fæddist árið 1942. Vegna þroskahömlunar héldu þau Inga heimili saman þar til hann lést árið 2002. Það veitti henni mikilvægt hlutverk fram á gamals aldur. Ingvar fæddist árið 1943 en drukknaði aðeins tvítugur árið 1963. Ragnar fæddist árið 1944 og Kolbrún Kristín árið 1947 og Hjörtur Laxdal 1948. Hrafnkell kom í heiminn árið 1950, Torfhildur Rúna árið 1951 og Gunnþórunn Inga var síðust í röðinni. Hún fæddist 1958.

Hópurinn er stór og afkomendur Ingu orðnir margir – um níu tugir börn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Mesta auðlegð fólks er í ástvinum og fjölskyldu – svo Inga var forrík. Og Inga hafði gaman af fólkinu sínu, eldra og yngra og vildi gjarnan þjóna því. Og það eru ilmandi og elskulegar sögur sem ég hef heyrt að hve umhyggjusöm hún var í þeirra garð. Ástvinir Ingu og afkomendur hugsa gjarnan um hana þegar minnst er á pönnukökur. Ingu þótti gaman að standa í kokkhúsinu og baka fallegar pönsur í svanga munna. Og þeim þótti gaman að taka við og njóta hjá henni.

Störfin og minningar

Inga var dugmikil. Hún lærði snemma að vinna og kom stóra hópnum sínum til manns. Þegar næði gafst til frá heimilisstöfum fór hún að vinna sem verkakona. Hún réði sig til fiskvinnslu hjá Frosti í Hafnarfirði og síðar hjá Hval h.f. – sem yfirtók Frostið. Og þar vann hún – framyfir venjulegan lokaaldur – allt þar til hún lét af störfum hálfáttræð. Og hún hefði mátt vera lengur hefði hún viljað – eftir því sem forstjórinn sagði.

Hvernig var svo Inga? Hvernig manstu hana?

Leyfðu myndunum að koma upp í hugann.

Manstu útlit hennar? Horfðu á myndirnar á sálmaskránni og sjáðu hve glæsileg hún var.

Manstu persónustyrk hennar, glaðlyndi og traust?

Manstu styrk hennar? Hún átti ekki alltaf auðvelda daga en gafst aldrei upp og bar í sér Hvítárbakkastyrkinn. Svo var hún traustur vinur og félagi.

Manstu hve góð mamma hún var ósérhlífin og sívinnandi? Hún sat aldrei aðgerðarlaus. Margar fallegar flíkurnar komu úr höndum hennar og klæddu kroppa barna hennar. Hún vildi skýla sínu fólki og tryggja velferð þeirra.

Hún var sterk og kjarkmikil og vílaði ekki fyrir sér að fara í langar og flóknar utanlandsferðir – og alltaf bjargaði hún sér.

Svo gladdist hún með glöðum. Inga naut þess að fara í sveitina og hitta fólkið sitt. Hún hafði gaman að fara í Hvítárbakka hvort sem var til að baka flatkökur eða undirbúa Þorrablótið í Tungunum.

Svo naut hún fjallaferðanna og sóttist eftir að fara með Ídu til að elda ofan leitarmenn. Það þótti henni gaman og svo var maturinn kryddaður með söng og hlátrum. Lífið á fjöllum heillaði Ingu.

Inga hafði fágaðan smekk og var alltaf svo snyrtileg og falleg. Og þótti mikilvægt að hárið færi vel. Inga hafði næman smekk og gekk vel um allt, braut fallega saman og fágun hennar hélst allt til enda. Inga hafði gaman af fallegu handverki og meira að segja fallegum hleðslugörðum.

Svo hafði unun af söng og tónlist og þótti gaman að sækja tónleika. Hún þekkti ekki aðeins ókjör af ljóðum og sálmum heldur söng með tærri og fagurri rödd. Söngáhugi Ingu fær sína útgáfu í sálmum og ljóðum þessarar útfararathafnar.

Himininn

Hvernig er með himnaríkið? Þegar Bjössi dó ræddi Inga stundum um framhald lífsins hinum megin grafar. Inga vildi ekki láta brenna sig. Hún hafði aldrei mörg orð um sín innri mál og ekki heldur um trúmálin. En hún átti í sér von og trú um að mega hitta fyrir fólkið sitt sem hún hafði séð fara yfir móðuna miklu. Foreldra hennar, systkini, synina hennar og Gunnar. Og allir vinirnir hennar voru farnir á undan. Og þá er gott að tala um himininn.

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið?

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Biskupstungur eða Garðabæ, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Ingu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Inga tók á móti deginum fyrir austan – átti leið í bæinn og var svo rík að eignast öll þessi börn, afkomendur og ástvini. Hún fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Inga hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, leika sér á hvers konar skautum sem henni þykja bestir og hlægja og syngja.

Nú er Inga farin. Hún bakar ekki lengur pönsur handa þér, syngur ekki fyrir þig, fer ekki á tónleika, hlær ekki við góðri sögu eða segir eitthvað hnyttið og kúnstugt. Hún er farin inn í himin Guðs.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.

Amen.

Þau er biðja fyrir kveðjur eru:

Kristín Ellen Hauksdóttir,

Ingigerður og fjölskylda og Katrín í Ástralíu.

Bergþóra og Alex í Ameríku

Steinþóra á Spáni,

Ragnheiður Diljá og fjölskylda í Noregi

og Daði Hrafnkelsson.

Erfidrykkja í safnaðarheimili kirkjunnar og jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Minningarorð í Hafnarfjarðarkirkju 24. september, 2014