Birgitta Dam Lísudóttir – minningarorð

M2.2Hvað er mannlífið og hvernig vöxum við og þroskumst? Lífið kviknar í móðurkviði, fóstrið vex, líffærin verða til og svo í fyllingu tímans fæðist barn í þessa veröld, fæðist frá öryggi móðurlífs og inn í fjölbreytileika veraldarinnar. Síðan tekur við undrið að fullorðnast, vinna úr gjöfum Skaparans og ákvarða hvernig á að nota þær. Verkefni allra er að gegna kalli til visku og elsku. Við erum ábyrg gagnvart sjálfum okkur, öðrum og Guði.

FullSizeRender

Birgitta málaði einu sinni mynd sem var nokkurs konar sjálfsportett en þó meira en það því hún málaði einnig samhengi eigin lífs. Á myndinni er hún sjálf í miðju, horfir niður eins og djúpt hugsi eða jafnvel döpur? Hún stendur á grænni grund og að baki hennar eru krossar – tákn um dauðsföll, missi. Öll missum við ástvini. Suma vegna þess að tengslin bresta af einhverjum ástæðum og aðrir deyja frá okkur. Birgitta varð fyrir mörgum áföllum í lífinu og sá á bak sínu fólki inn í guðshaf eilífðar – upplifði djúpan sársauka og leið margt.

Í mynd Birgittu eru rauðir litir áberandi og hún leitaði ástar alla tíð og var eins og allir – þurfandi fyrir kærleika. Á roðafleti myndarinnar sjáum við tákn, slöngu sem varar við því sem sækir að og ógnar. Þarna er flaska og bikar. Og þarna eru líka blóm. Áleitin mynd, sjálfsmynd hæfileikarírkar konu sem reyndi margt og upplifði fjölbreytilegt líf.

Í spádómsbók Jesaja stendur:

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér….“

Þessi texti er um Guð. Gleymir Guð? Stundum finnst okkur að Guð sé fjarri og efasemdir um tilveru Guðs hríslast um huga þegar margt og jafnvel flest er mótdrægt. Jesaja spámaður þekkti þessar hugsanir og tekur dæmi af hinu ótrúlega. Getur móðir gleymt barni sínu? Hann taldi það ólíklegt en þó hugsanlegt, en Guð væri enn minnugri en allar mæður veraldar. Guð er hin besta móðir, gleymir aldrei – Guð yfirgefur aldrei. Guð er alltaf nærri. Það er verkefni okkar í lífinu að læra merkingu þess að Guð er lífið sjálft, við erum Guðs, guðslífið er í okkur. Allt það besta sem bjó í Birgittu var merki um Guð.

Birgitta sem horfir niður á lífsportrettinu, lifði fjölskrúðugu lífi, eignaðist börn, sá á eftir ástvinum – hún er líka barn Guðs sem Guð gleymir ekki og gleymdi ekki. Hún er rist í lófa Guðs, eins og þú lifir í minni og vernd Guðs.

Ætt og upphaf

Birgitta fæddist þann 19. september 1944 á Höfn í Skeggjastaðahreppi, Bakkafirði. Foreldrar hennar voru Lúðvík Sigurjónsson og Sigrid Lísa Sigurjónsson. Birgitta var lýðveldisbarn, kom í heiminn þegar lýðveldið var nýfætt. Lísa og Lúðvík höfðu eignast tvíbura árið 1940, en þeir voru andvana fæddir. Sagan lifir í fjölskyldunni að Lúðvík hafi borið kistur þeirra undir sitt hvorri hendi til kirkju. Það er átakanleg og grípandi mynd.

En í stað dauðans kom lífið í bæinn. Vestarr fæddist þeim hjónum þremur árum síðar – í ágúst 1943.

Og Birgitta var yngst systkinanna. Nú lifir Vestarr einn af þessum barnahópi.

Foreldrar hennar, Lúðvík og Lísa, kynntust í Færeyjum. Lísa, sem var færeysk, hafði lært sauma í Kaupmannahöfn og komst heim fyrir upphaf stríðs og vann síðan við iðn sína í Færeyjum. Lúðvík varð hrifinn af Lísu og vildi eiga hana þó hún væri fimmtán árum yngri en hann. Það gekk eftir. Þau fluttu svo til Íslands, gengu í hjónaband og eignuðust börn sín.

Lúðvík var verslunarstjóri í Gunnlaugsverslun á Bakkafirði og síðar kaupfélagsstjóri. Hjónaband Lísu og Lúðvíks bilaði þegar Birgitta var ung og Lísa flutti til Færeyja með börn þegar seinni heimstyrjöldinni lauk. Þar voru þau síðan til 1962 er þau sneru að nýju til Íslands til að Vestarr og Lísa gætu notið menntunar. Á Íslandi voru líka á þessum tíma meiri atvinnumöguleikar en í Færeyjum.

Birgitta hóf skólagöngu í Færeyjum, gekk vel og fékk góðar einkunnir. Þegar hún fór til Íslands hafði hún lokið tveimur árum í Verslunarskólanum í Þórshöfn. Á Íslandi vann Birgitta sem sjúkraliði á Vífilstöðum. Árið 1963 fór hún svo til Kaupmannahafnar og fór að vinna á hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara í Kaupmannahöfn.

Hjúskapur og börn og ástvinir

Í Höfn hitti hún Ole Martinussen og þau Birgitta gengu í hjónaband. Þau Ole eignuðust tvö börn. Lísa fæddist árið 1964 og Hans Christian fæddist árið 1968. Þau Ole og Birgitta skildu.

Lísa, sem ber nafn ömmu sinnar, er búsett í Danmörk. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfar við fag sitt. Maður hennar er Carsten Jensen. Börn þeirra eru Andreas, Mette og Sandra.

Hans Cristian Martinussen er kvæntur Línu Martinussen. Þau eru bæði tannfræðingar og vinna í grein sinni. Dætur þeirra eru Hannah og Carolina.

Birgitta sneri til Íslands snemma á áttunda áratugnum en veiktist af berklum sem neyddu hana inn á spítala og höfðu hamlandi áhrif á hana. Hún átti í heilsufarsbaráttu æ síðan.

Heimkomin til Íslands kynntist Birgitta Tryggva Ólafssyni og þau eignuðust soninn Davíð sem fæddist árið 1975. Þau Birgitta og Tryggvi bjuggu saman í fjögur ár.

Davíð rekur eigið fyrirtæki. Eiginkona Davíðs er Una Dögg Evudóttir. Þau eiga þrjú börn, Adam Elí, Ilmi Dís og Sóleyju Klöru.

Þegar Tryggvi hvart úr lífi hennar kynntist Birgitta Ernest Washington. Þau Birgitta eignuðust soninn Örn Jákup Dam Washington, sem fæddist árið 1980. Þau Birgitta fóru vestur um haf og bjuggu í Bandaríkjunum um tíma en komu svo til baka til Íslands þegar Örn var nokkurra mánaða gamall. Þá settust þau Birgitta og karlarnir hennar að á Meistaravöllum og bjuggu þar síðan. Örn lést eins og ykkur er öllum kunnugt um árið 2005, allri fjölskyldu og ástvinum harmdauði.

Margt gekk á í heimilishaldinu og að lokum fór Ernest til Bandaríkjanna að nýju og Birgitta varð eftir á heimilinu með drengina og lífsverkefnin. Um tíma vann hún á Grund en raunar bjó hún við heilsubrest lengstum og átti óhægt með vinnu.

Síðustu árin barðist Birgitta við vaxandi heilsubrest. Margir léttu undir með henni og Vestarr og fjölskyldan þakkar Sturlaugi Pálssyni aðstoðina síðustu tvö ár.

Minningarnar

Hvernig manstu Birgittu?

Manstu hárið og háralitinn? Manstu útlit hennar? Hverjir voru styrkleikar hennar? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það sem hún ekki gerði og hefur orðið þér til þroska?

Manstu listfengi hennar og teiknigetu? Og manstu hvernig hún náði athygli þinni eða annarra? Manstu fötin hennar og hringana?

Hún hafði gaman af að dansa og dansaði m.a.s. ballett í æsku.

Svo söng hún í skólakór í Færeyjum og hafði gaman af tónlist – og hafði breiðan smekk.

Manstu hve hún vildi sjá það besta í öðrum, í fólki? Hún vildi svo gjarnan eiga góð tengsl við fólkið sitt og tjá elsku í garð barnabarna sinna.

Himininn

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið? Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Færeyjar, Bakkafjörð eða Kaupmannahöfn, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Birgittu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Birgitta fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Hún þjáist ekki lengur og fyrir það getum við þakkað. Við megum trúa, að hún hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, njóta lífsins, vera með Erni og öllum hinum ástvinunum – hlægja og syngja.

Amen.

Minningarorð við útför í Kapelluni, Fossvogi, 18. febrúar 2015.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Ingi Kristinsson – minningarorð

Ingi Kristinsson1Ingi skólastjóri var nálægur nemendum Melaskóla. Þegar við komum í skólann var Ingi alltaf mættur, glæsilegur, hlýlegur, opineygur og vinsamlegur. Svo þegar við hlupum út í frímínútur var Ingi líka á skólalóðinni, viðtalsfrómur, leikjahvetjandi, vökull vörður hinna smáu og þeim sem var strítt og skildi að þau sem flugust á. Svo þegar við fórum heim var Ingi líka nálægur og fylgdist með og kvaddi. Hann ávann sér virðingu okkar af verðleikum sínum en ekki stöðu.

Ingi kenndi flestum, sem voru í Melaskóla, eitthvað mikilvægt. Hann kenndi mér merkingu gullnu reglu Biblíunnar. Þegar ég var 11 ára gekk hark- og púkk-æði yfir grunnskólana og fé lagt undir. Mörg mættum við með fimmeyringa í vasanum til að geta tekið þátt í því æsilega fjárhættuspili – að hitta í holu eða á línu! Ég varð brátt svo slyngur kastari að ég græddi flesta daga. Þegar ég fór heim úr skólanum voru vasar mínir oftast svo fullir af fimmeyringum að ég fékk marbletti á lærin af þunganum. Ingi sá til okkar fjárhættuspilaranna og kom út á skólalóðina. Hann sagði félögunum að fara – en sagðist vilja tala við mig einan.

Ég bar virðingu fyrir Inga og óttaðist hann ekki. Ég sá að hann hvorki kímdi né brosti, sem honum var þó tamt. Við töluðum saman lengi, aldrei hækkaði hann róminn, aldrei missti hann stjórn á skapi sínu, heldur minnti mig á að ég hefði náð miklu fé af skólafélögum mínum. Hvað þætti mér um það? Mér þótti þetta samtal stefna í vonda átt. Svo spurði Ingi mig hvernig mér litist á ef aðrir næðu af mér mínum peningum! Mér þótti það ill tilhugsun og skildi hvað hann meinti með opnum og kröftugum spurningum. Á þeim grunni byrjaði Ingi Kristinsson síðan að reisa mér hús siðfræðinnar, útlistaði að athöfn hefur afleiðingar, fjárplógur getur leitt til mikilla vandræða, en mikilvægast væri þó að gæta mannvirðingar og jafnvel takmarka eigið frelsi vegna tillitssemi við aðra. Ingi, sem var vel upplýstur um bakgrunn nemenda sinna, vissi að foreldrum mínum væri annt um að sonur þeirra misnotaði ekki fólk og gerði aðra að eigin féþúfu.

Svo lauk Ingi máli sínu með því að spyrja mig hvort ég þekkti gullnu regluna? Nei, ég var ekki viss – en hafði þó grun um að það væri eitthvað Jesúlegt siðvit. Og þá var Ingi farinn að kíma og hafði yfir það sem ég hafði reyndar heyrt áður að það sem við vildum að aðrir gerðu okkur – það ættum við að gera þeim. Fimmeyringar heimsins, já allt gull veraldarinnar fölnaði í samanburði við ríkidæmi siðvitsins fræddi skólastjórinn mig um. Í lok samtalsins tók Ingi af mér loforð: Ég hét honum að ég skyldi hætta að hafa fé af nemendum Melaskóla. Ég stóð við það, ég hætti harki og púkki algerlega og hef reyndar síðan haldið mér við þá stefnu að hafa ekki fé af nokkrum manni. Enn stend ég í þakkarskuld við Inga fyrir að hafa kennt mér hagnýta Jesúspekina fyrir líf og samskipti. Þessi heimur væri betri ef skólum og stjórnum veraldar væri stýrt af mönnum eins og Inga Kristinssyni.

Þessi einkatími minn í siðfræði hjá Inga fléttar margt saman sem einkenndi þennan eðlisvæna dreng og öfluga skólamann. Hann axlaði ábyrgð, vann sín stórvirki með festu en hægð, fór ekki hraðar en viðmælandinn þoldi, beitti hagnýtum rökum og flestum – kannski öllum – kom hann til nokkurs þroska. Í honum bjó djúp mannvirðing sem varðaði alla og gilti fyrir alla. Hann var þjónandi forystumaður. Fjallræðuspekin var iðkuð í Melaskóla því skólastjórinn var þroskaður: „Það sem þér viljið að aðrir geri yður – það skuluð þér og þeim gera“ (Matt. 7, 12). Þessi glæsilegi maður – sem mér þótti sá fallegasti í Vesturbænum – var góður fulltrúi alls hins besta í kristni og vestrænni mannúðarhefð.

Ætt og upphaf

Ingi Kristinsson var Þingeyingur, fæddist á Hjalla í Grýtubakkahreppi og sleit barnsskónum undir Kaldbak, sem honum þótti vænt um. Brynhildur Áskelsdóttir, móðir hans, var úr Fnjóskadal en Kristinn Jónsson, pabbinn frá Hjalla, var kennari og skólastjóri og þau hjónin stunduðu einnig búskap. Ingi var eldra barn þeirra og fæddist fimmtudaginn, 29. ágúst árið 1929. Laufey, alsystir hans, fæddist árið 1933 og lifir bróður sinn.

Brynhildur, móðir Inga, lést frá börnum, eiginmanni og ástvinum í júlílok árið 1938. Ingi var þá átta ára. Hvernig er fyrir ungan dreng að missa móður sína (sérkennileg spekin í upphafi Brekkukotsannáls nær ekki að skýra vel áhrifin)? Hvaða áhrif hafði hið þunga slag á drenginn? Getur verið að hann hafi orðið dulari vegna áfallsins, axlað meiri ábyrgð – alla tíð – vegna þess að hann var elstur og að auki móðurlaus? Átti hin djúprætta mannvirðing – sem bjó í Inga – sér upphaf í bernskureynslu hans sjálfs? Varð hann svo öflugur skólamaður – og gætti allra nemenda sem honum voru fólgnir og umfram alla skyldu – vegna þess að hann hafði sjálfur orðið fyrir sálarhöggi og skildi því að börn finna til? Sum hinna böldnu eiga sér lífsreynslu, sem þarf að greina og virða til að hægt sé liðsinna þeim til vaxtar. Ég undraðist alltaf virðingu Inga fyrir okkur smáfólkinu og furðaði mig á að hann var alltaf til staðar og fylgdist svo vel með okkur. En kannski er móðurmissir hans hlutaskýring á skólastjórnarháttum, Inga – auk kærleiksríks uppeldis í faðmi viskuleitandi, þingeysks ættboga.

Ingi og Laufey uxu upp meðal föðurfólksins á Hjalla og Greinivík. Föðurbræður og amma urðu móðurlausum Inga mikilvæg . Svo hlotnaðist þeim stjúpa því Kristinn gekk að eiga nýja konu, Steingerði Kristjánsdóttur. Börn þeirra og hálfssystkin Inga eru Jón, sem fæddist 17. júní 1942 og fékk því lýðveldið í afmælisgjöf þegar hann varð tveggja ára. Síðan fæddist Gunnar í ágúst 1948.

Allt sumarbörn.

Heimatökin vor hæg með nám og Ingi var góður námsmaður. Þegar hann hafði lokið grunnnámi tók hann stefnuna inn í Menntaskólann á Akureyri. Hann sagði síðar sjálfur frá að þeir faðir hans hefðu farið af stað með mjólkurbílnum inn eftir. En bíllinn fór út af veginum á leiðinni og feðgarnir gengu um 20 km. leið til Akureyrar – og í miklum snjó. Það þurfti að hafa fyrir að komst til skóla á þessum tíma.

Menntaskólaárin urðu Inga til margþættrar hamingju. Hann aflaði sér góðrar menntunar og kynntist góðum félögum sem urðu vinir hans. Hann lærði að axla félagslega ábyrgð og svo fann ástin hann og þau Hildur urðu par.

Ingi var söngvin og söng með bekkjarbræðrum í kvartett – og hann söng síðan alla ævi. Í Melaskóla stýrði Ingi gjarnan söng eða hvatti til skólasöngs. Ingi ávann sér tiltrú skósystkina og var kosinn til skólaforystu. Ingi var inspector scholae síðasta veturinn í menntaskóla og var vel metinn forystumaður.

Ingi lauk stúdentsprófi árið 1951 og Þórarinn Björnsson sagði þegar hann afhenti honum prófskírteinið að Ingi væri „eðlishreinn drengur.” Umsögn skólameistara merkti að hann væri hreinlyndur maður.

Ingi fór um suður haustið 1951 og hóf nám í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi árið 1952. Sama ár hóf hann síðan kennslu í Melaskóla í Reykjavík, ávann sér strax virðingu starfsfélaga og nemenda og þótti afburðakennari. Hann ræktaði samband við “gamla” nemendur sína og það var hrífandi að heyra og sjá umsagnir þeirra að honum látnum – um “besta kennara og skólastjóra” sem þeir gætu hugsað sér.

Þegar Arngrímur Kristjánsson, fyrsti skólastjóri Melaskóla, lauk störfum árið 1959 – eftir átján ára starf – var farið að svipast um eftir þeim sem gæti tekið við og leitt skólann inn í nýtt skeið. Það þótti ekki auðvelt að stýra þessum margsetna risaskóla. Hinn þrítugi Ingi var talinn best fallinn til að takast á hendur verkefnið. Nokkrum þótti Ingi of ungur – en efasemdaraddir þögnuðu fljótt. Hann varð farsæll skólamaður, fremstur meðal jafningja, gekk sjálfur í verkin, hagsýnn, óhræddur en þó gætinn, mannasættir, hlýr og þótti eflandi og réttsýnn.

Ingi var sagður hafa verið fjárglöggur unglingur og þroskaði eðlisgáfuna og varð mannglöggur! Sem skólastjóri lagði hann upp úr að kynnast öllum nemendum skólans. Hann fylgdist með þeim, þekkti nöfn þeirra – sem er ótrúlegt afrek – og lagði sig eftir að nýta alla vaxtarsprota sem hann sá. Í þrjátíu og fimm ár stýrði Ingi Melaskóla og hætti svo 65 ára. Þá fannst okkur, sem bjuggum í hverfinu sem og starfsfélögum, hann enn vera bráðungur. En það var gott að sjá þennan skólahöfðingja fara um í hverfinu árin sem hann átti ólifuð – alltaf bjartan til augna og með friði.

Einar Magnússon, fyrrum skólastjóri Hagaskóla, þakkar fyrir samvinnu og vináttu. Það er þakkarvert hversu gott samstarf hefur alla tíð verið milli skólanna í hverfinu. Fyrir hönd okkar vesturbæinga vil ég þakka Inga Kristinssyni farsæla skólastjórn, alúð hans og mannúð í störfum og tengslum. Við minnumst ljúfs stjórnanda sem laðaði fremur fram með vinsemd en valdbeitingu. Minning okkar flestra um hann er sveipuð virðingu og þökk.

Ingi var öflugur félagsmálamaður. Hann sat í stjórn íslenskra barnakennara í tvo áratugi, var varaformaður þess í átta ár og formaður í fjögur, frá 1972 til 1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum m.a. fyrir BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Oft fór hann á fundi þegar skólastjórastörfum lauk og Brynhildi, dóttur hans, þótti nóg um og sagði einhvern tíma: „Ég nenni ekki að pabbi fari á fund!“

Hjúskapur

Ingi var hamingjumaður í einkalífi. Húsvíkingurinn Kristbjörg Hildur Þórisdóttir sá Inga í MA, hreifst af honum og vildi gjarnan kynnast honum betur – og það gekk eftir. Kóngur og drotting urðu hjón og gengu æviveginn saman og hafa sem næst alla hjúskapartíð sína – yfir sextíu ár – búið í vesturbænum og lengst á Tómasarhaga.

Hildur er kennari. Börn þeirra Inga eru: Þórir, Kristinn og Brynhildur.

Þórir fæddist 3. ágúst árið 1954. Hann er verkfræðingur. Kona hans er Þorbjörg Karlsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Ragnar, Hildi og Inga.

Kristinn, yngri sonur þeirra Inga og Hildar, fæddist 24. september árið 1958. Hann er einnig verkfræðingur. Kona hans er Bergdís Hrund Jónsdóttir og þau eiga dæturnar Sigríði Þóru og Þórdísi. Fyrir átti Kristinn dótturina Addý Guðjóns með Mörtu G. Hallgrímsdóttur.

Brynhildur var þriðja barn Inga og Hildar. Hún fæddist á aðventunni árið 1967, kom í heiminn 7. desember. Hún var lífeindafræðingur. Brynhildur lést árið 2011, aðeins fjörutíu og þriggja ára. Maður hennar var Þorkell Lillie Magnússon og þau áttu börnin Margréti Stefaníu, Guðrúnu og Friðrik Ómar.

Afkomendur Inga og Hildar eru tuttugu og eitt, þrjú börn, níu barnabörn og níu barnabarnabörn. Ingi þjónaði fólkinu sínu af elskuríkri elju, tók á móti barnabörnunum með gleði, las með þeim, reiknaði, gaf þeim ís og fékk viðurnefndið afa-pava-rafa skafís – kenndi þeim á skíði og var óhræddur að setja þau af stað í brekkunum. Svo dreif hann fólkið sitt á fjöll og ef eitthvert barnanna var þungt til sporsins sagði hann spennandi Ólasögur og þá var jafnvel hægt að laða unga snót um týrólsk fjöll því sögurnar voru spennandi.

Þegar Hildur var í námsvist í Noregi heilan vetur vafðist ekki fyrir Inga að halda heimili fyrir börnin og kona hans gat sinnt námi sínu óhrædd um holdafar, heilsu þeirra og velferð.

Ingi náði að umgangast börn sín og barnabörn með hlýju í skólanum án þess þó að láta þau njóta einhverrar forréttindastöðu. En þegar hann eignaðist barnabörn leyfði hann sér að blikka sitt fólk án þess að aðrir sæju, brosti asæll og tjáði gleði sína óhikað en með hógværð.

Ingi var alltaf til reiðu til að styðja afkomendur sína. Hann studdi þau í námi og jafnvel vini þeirra einnig. Hann varð þeim aðstoðarkennari, innrætti þeim heilsurækt og gildi hreyfingar, hló með þeim og söng, sagði sögur og þau glöddust yfir uppátækjum hans. Öll áttu þau athvarf hjá Inga afa og Hildi ömmu.

Eigindir

Minningarnar um Inga Kristinsson þyrlast upp á tímamótum. Mannstu ljúflyndi hans og vinsemd? Hve laginn skólamaður hann var? Mannstu hve elskulega hann horði á þig þegar þú áttir orðastað við hann?

Mannstu eftir harðdulegum verkmanninum, sem kunni múrverk, var góður smiður, vandvirkur málari en hafði minni þekkingu á rafmagni og hvaða hlutverki þéttir þjónaði? Manstu hve vandvirkur handverksmaður hann var og hve miklar kröfur hann gerði til sjálfs sín og hve góður kennari hann var öllum þeim sem hann aðstoðaði við húsbyggingar og hreiðurgerð? Mörg ykkar eigið ljúfar minningar um hjálpsaman föður og afa sem ekki dró af sér.

Vissir þú að Ingi og Hildur flugu í mörg ár til Lúxemburg til að njóta evrópsks sumars, óku í austur og gjarnan til Fiss í Austurríki og gengu svo um Alpana?

Manstu hve vel Ingi greindi milli vinnu og heimilis og bar ekki skólavandann með sér heim? Manstu hve vel hann vaktaði Melaskóla meðan hann stjórnaði þeirri menntastofnun? Manstu eftir hve glæsilegur hann var, fallegur höfðingi? Manstu sönginn hans – og skólasönginn?

Manstu garpinn á fjöllum – skíðamanninn, göngumanninn? Og Ingi, sem allan sinn fullorðinstíma bjó á KR-svæðinu var svo mikill fjallamaður að hann var jafnvel til í að hjálpa Fram við að reka skíðaskála í Eldborgargilinu. Svona eru eðal-KRingar.

Manstu geðprýðismanninn og öðlinginn – traustið sem hann þroskaði með sér og smitaði til annarra? Manstu hve ábyrgur hann var í öllum tengslum og störfum? Manstu hinn grandvara, trygga og trúa Inga, ljúflyndan, ærðulausan og samviskusaman?

Inn í himininn

Nú eru orði skil. Ingi hefur verið hrifinn úr faðmi Hildar og ástvina. Nú er Ingi farinn inn í eilífðina. Við horfum á eftir gæfumanni og öðlingi, sem skilur eftir litríkar minningar. Við sem nutum hans þökkum og blessum hann hið innra. Skóla- og samstarfs-fólk þakkar samfylgdina. Vestubæingar lofa þjónustu hans. Þið ástvinir haldið kefli hans á lofti.

Ingi mun aldrei snúa snú-snúbandinu framar en snilld hans lifir í minningunni og þolinmæði við ungviðið. Hann blandar aldrei aftur swiss-miss út í ís til að búa til afa-ís. Ólasögur mun hann ekki segja framar á fjöllum. Engir fleiri aukatímar í siðfræði og gullnu reglunni. Ingi mun aldrei framar grípa til söngbókarinnar í vasanum til að stjórna söng og það verða engir bílasöngvar framar með hans þátttöku. Söngbókin hans var það síðasta sem fór í kistuna hans og fallega tenórröddin hans er þögnuð. En söngvarnir hans lifa, hann kenndi fólkinu sínu að syngja og þegar í frumbernsku.

Ungur afadrengur fékk söngkennslu í langri ökuferð og hann skynjaði merkinguna vel því þegar hann stökk út úr afa-og ömmubílnum í Herðubreiðarlindum söng hann hástöfum Inga og Hildi til gleði: Frjálst er í fjallasal… og söngur barnsins barst um hásal hálendisins, inn í vitund samferðafólksins – og upp í himininn. Nú er Ingi Kristinsson frjás í fjallasal eilífðar, ekkert bindur hann lengur, engin gleymska eða hömlun. Hann á góða heimvon, hittir móður, dóttur, föður og frændgarð. Leyfið honum að fara en leyfið söng hans, siðfræði, metnaði, kímni og gæsku hans að lifa.

Guð geymi hann ávallt, opni honum öll fjallendi undraheims himins – til gangs og svigs. Guð geymi minningu hans og Guð blessi ástvini, íslenska skóla og menningu – og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför – jarðsett síðar í Kópavogskirkjugarði.

Minningarorð við útför Inga Kristinssonar í Neskirkju, 2. febrúar, 2015.

Ævistiklur:

Ingi Kristinsson fæddist 29. 8. 1929 á Hjalla í Grýtubakkahreppi í S- Þingeyjarsýslu. Hann lést laugardaginn 24. janúar 2015. Foreldrar hans voru Brynhildur Áskelsdóttir húsmóðir f. 13.1 1906 að Austari-Krókum í Fnjóskadal, S-Þingeyjarsýslu, d. 30.7 1938 og Kristinn Jónsson bóndi, kennari og skólastjóri, f. 14.10 1894 á Hjalla í Grýtubakkahreppi, d. 21.9 1975. Systkini Inga eru Laufey f. 25.7 1933 og hálfbræður samfeðra Jón f. 17.6 1942 og Gunnar f. 28.8 1948.

Eiginkona Inga var Kristbjörg Hildur Þórisdóttir kennari og talmeinafræðingur. Hún fæddist á Húsavík 31.1 1933. Foreldrar hennar voru Arnfríður Karlsdóttir húsmóðir f. 26.6 1905, d.7.6 1976 og Þórir Friðgeirsson gjaldkeri og bókavörður, f. 14.9 1901 d. 26.9 1996.

Börn þeirra eru 1) Þórir verkfræðingur f. 3.8 1954 kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur. Þeirra börn eru a) Ragnar f. 17.2 1977 kvæntur Birnu Björnssdóttur og eiga þau tvö börn b) Hildur f. 28.12 1978 gift Bjarka Valtýssyni og eiga þau þrjú börn c) Ingi f. 30.10 1990 í sambandi með Hörpu Ellertsdóttur. 2) Kristinn verkfræðingur f. 24.9 1958 kvæntur Bergdísi Hrund Jónsdóttur. Þeirra börn eru a) Sigríður Þóra f. 17.7 1986 í sambúð með Steingrími Arasyni og eiga þau eitt barn b) Þórdís f. 4.2 1991 í sambúð með Ívari Sveinssyni. Fyrir átti Kristinn Addý Guðjóns f. 1.4 1978 með Mörtu G Hallgrímsdóttur. Addý er gift Helga Sigurðssyni og eiga þau þrjú börn. 3) Brynhildur lífeindafræðingur f. 7.12 1967 d. 24.6 2011, gift Þorkeli Lillie Magnússyni. Þeirra börn eru a) Margrét Stefanía f. 6.8 1995 b) Guðrún f. 5.11 1998 c) Friðrik Ómar f. 15.10 2003.

Ingi ólst upp á Hjalla og á Grenivík við Eyjafjörðinn austanverðan. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 1951. Að loknu stúdentsprófi flutti Ingi suður til Reykjavíkur, gekk í Kennaraskólann og lauk kennaraprófi 1952. Í Reykjavík bjuggu Ingi og Hildur í Vesturbænum, lengst af á Tómasarhaga. Haustið 1952 hóf Ingi kennslu við Melaskólann í Reykjavík og varð skólastjóri árið 1959. Hann var skólastjóri Melaskóla í 35 ár eða þar til hann lét af störfum 1994. Ingi sat í stjórn íslenskra barnakennara 1956-1976, var varaformaður þess 1964-1972 og formaður frá 1972-1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir m.a. BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Eftir að skólastjóraferlinum lauk tók hann í nokkra vetur að sér skálavörslu í skíðaskála Fram í Bláfjöllum auk þess sem hann gætti barnabarna áður en þau fengu leikskólapláss.

Út fyrir endimörk alheimsins

AmeríkukafteinninnÍ dag er síðasti sunnudagur eftir þrettánda. Nú lýkur jólatíð trúartímans – gleðiskeiðinu – og svo hefst brátt níu vikna fastan. Fagnaðartími á enda og föstutími fyrir páska hefst. Það er eins í kirkjuárinu og raunveruleikanum – tími gleði og sorgar faðmast.

Texti dagsins er um reynslu þriggja manna af ótrúlegum viðburði sem þeim var þó bannað að segja frá – fyrr en löngu seinna. Þeir urðu vitni að einhvers konar breytingu? En hvað þýddi sú skekjandi upplifun sem þeir urðu fyrir? Vinir Jesú vissu ekki hvernig þeir ættu að skilja atburðinn og gátu því ekki skýrt hann heldur. Og meistarinn bannaði þeim að tala um reynslu sína. Fólkið sem hitti Jesú velti vöngum yfir hver hann væri og furðureynsla á fjalli jók spurningaflóðið. Var Jesús Kristur kannski ofurhetja?

Ofurhetja og þrá sálardjúpa
Hefur þú einhvern tíma séð ofurhetjukvikmynd? Áttu einhverja DVD-diska með Súperman, Batman eða Spiderman? Talsvert safn er á mínu heimili og í sjónvarpsflakkaranum. Hvað merkja þessar myndir og hvernig eigum við að skýra tilurð þeirra?

Þegar á bjátar í samfélögum fólks þrá menn lausn. Í kreppum vaknar þörf fyrir ofurhetjur. Í menningarefni síðustu áratuga hafa sprottið fram margar ofurhetjur í tímaritum og kvikmyndum. Það er beint samhengi milli kreppu og viðbragða, stríða og andlegrar leitar. Svo var í seinni heimstyrjöldinni og styrjöldum síðustu áratuga. Súperman er ekki alveg nýr – hann er nærri áttræður!

Ímyndunarafl fólks er frjálst og ofurhetjunnar tjá eða túlka þrá að einhverjir leysi vanda fólks og þjóða, einhverjir tryggi öryggi og efli réttinn. Þegar stjórnmálamenn bregðast, fjármálakúnstir takast illa og tæknilausnir reynast fals þarfnast fólk samt lausnar á vandanum. Ofurhetjurnar – held ég – tjá þessar þarfir – eru táknmyndir þeirra.

Það er umhugusunarvert, að draumaverksmiðjurnar í Ameríku hafa framleitt ofurhetjumyndir í sérstaklega stórum skömmtum síðasta áratuginn. Af hverju? Jú, spenna í menningu, stjórnmálum, efnahagsmálum, óreiða í samskiptum þjóða og óljós framtíð gruggar upp í menningu og líka sálarbotnum og tilfinningum fólks. Því megum við gjarnan staldra við og spyrja um hvað hjálpar og hvernig.

Fyrirmyndir og ofurhetjur
Allar kynslóðir leita sér að hetjum. Kraftasæknir hafa alltaf gert sér ímyndir og í öllum menningarsamfélögum og trúarhefðum. Grettir, Gunnar á Hlíðarenda og Jón Páll voru kraftahvatar. En mennskar kvikmyndastjörnur, körfuboltasnillingar, Leo Messi og Ronaldo eru annars eðlis en Súperman. Leikarar og íþróttamenn njóta ekki yfirnáttúrulega krafta þó máttugir séu. Ofurhetjurnar eru ekki venjulegar mennskar verur sem hafa orðið frægar, heldur annarrar gerðar en menn. Í þeim búa ofurmennskir kraftar, sem eru handan þess sem fólk getur vænst í raunheimi. Hvað merkja Ben Ten, Hermione Granger, Catwoman, Harry Potter og fleiri í hinu skrautlega hetjugalleríi sögubóka og kvikmynda?

Foreldrar eru þrábeðin og jafnvel grátbeðin um búninga, Batmanskykkjur, Ninjufötu, Súpermanmerki og Spidermangrímu. Það er beinskeyttur bisniss á bak við þetta allt.

Munur Jesú og ofurhetjunnar
Og þá komum við að fjalli furðunnar, fjalli ummyndunar Jesú. Er einhver munur á ofurhetjunni og Jesú Kristi? Eða er Jesús Kristur kannski ofurhetja? Nei, það er alger munur á Jesú Kristi og ofurhetjum fyrr og síðar.

Fyrsta og mikilvægasta aðgreiningin er, að Jesús var og er raunverulegur maður, sem var til og söguheimildir greina frá. En ofurhetjur hafa aldrei verið til – þær eru tilbúningur.

Í öðru lagi: Jesús lagði ekki áherslu á ofurkrafta sína eða vakti athygli á þeim. Verk hans þjónuðu fólki í raunverulegum aðstæðum og voru ekki unnin á svig við veruleika þess. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega, skilja inntak, en stoppa ekki bara við ásýnd.

Í þriðja lagi er eðli lífs og eðli hins trúarlega. Markmið Jesú var að opna veröld fólks og leyfa því að lifa og skilja líf sitt í stærra samhengi en smáveröld eigin nafla. Hann vildi koma fólki til skynjunar eða skilnings á að Guð væri nærri venjulegu fólki og raunverulegu lífi. Jesús hvatti ekki til heimsflótta, heldur þess að taka þátt í lífinu og njóta þess. Guð vill að við séum samverkamenn hans í því að bæta og fegra heiminn. Við erum ekki kölluð til óra og trúarflótta. Því er trú aldrei tengd ofurhetjum.

Ofurhetjur örva ímyndunarafl og þjóna ævintýraþörf fólks. Og við erum öll börn að við höfum þörf fyrir öryggi, að einhverjir hjálpi okkur þegar við lendum í vanda.

Ofurhetjur eru tákn, tjá djúpsetta þrá, en leysa hana ekki. Jesús, hins vegar, er ekki tákn um þarfir fólks, heldur sýnir hvernig vandinn er leystur og hvað leið er fær. Hann er lausn vandans.
Ofurhetjur koma ekki fyrir í raunveruleikanum, en það gerir Jesús Kristur hins vegar. Veruleiki hans er veruleiki heimsins, fólks – okkar allra.

Ofuhetjurnar tjá óskir dulvitundar, en Jesús er veruleiki lífsins. Hetjurnar eru tákn djúpsins og neyðaróps sálarinnar en Jesús er svar lífsins.

Hetjur hvunndagsins
Þegar sonur minn var fimm ára laumaði hann sér eina nóttina upp í rúm okkar foreldranna. Við vöknuðum þennan morgun við að hann tautaði með sjálfum sér: „Ég vildi að pabbi væri ofurhetja.” Mamma hans, sem er snögg til, svaraði honum að bragði: „Hann er ofurhetja.” Þá hló drengurinn og foreldrar hans síðan með honum og við glaðvöknuðum við hlátrana. Það er skemmtilegt að vakna með hlátrasköllum. Drengurinn skildi hvað mamma hans meinti, náði alveg þessari kúrsleiðréttingu hennar og svaraði brosandi: „Það er alveg rétt, mamma mín.”

Og þar með var búið – með ofurlitlum húmor og sveiflu – að hjálpa honum að setja ofurhetjuna upp á snaga, í samhengi, koma ofurhetjutýpinni fyrir á réttum stað. Pabbar eru auðvitað ekki súperman eða spiderman, en þjóna sínu hlutverki samt í raunheimi myrkfælni, óttaefna, skólanáms, fótbolta, kvikmyndam, glímu við félaga og systkini. Og pabbar eru flestir og oftast mun betri í þeim efnum en nokkrar hetjur í bókum eða á skjánum. En ofurhetjur gegna samt hlutverki að vera sýnileg tákn um þrá og drauma undirmeðvitundar. Jesús gegnir hins vegar öðrum og mikilvægum hlutverkum.

Eitt af mikilvægu lífsverkefnum er að iðka lífsgreindina skarplega, læra eigin hlutverk og hvorki smætta né mikla þau hlutverk, sem maður sjálfur og mismunandi hlutar manns gegna. Allt hefur sinn tíma og hlutverkin eru mörg. Inn í það mál spinnast síðan ævintýri, sjálf, heimili, ástvinir og Guð.

Ummyndun Jesú
Hvað gerum við þá við söguna af ummyndunarfjallinu? Þú þarft ekki að taka söguna bókstaflega, heldur máttu gjarnan taka hana alvarlega. Sagan af ummyndunarfjallinu er n.k. krýningarsaga. Hún á sér bókmenntalegar, pólitískar og trúarbragðafræðilegar hliðstæður í sögum um þegar menn urðu kóngar í hinum forna heimi. Jesús var krýndur og þar með gefið hlutverk. Týpurnar í ummyndunarsögunni eru nokkrar og gegna túlkunarhlutverki og leiðbeina við skilning. Móses er fulltrúi laga, boðorða og upphafs sögu hebrea og gyðinga. Jesús tekur við keflinu af Móse og verður því löggjafi nýs tíma. Svo eru þarna Elía, fulltrúi spádómshefðarinnar, sem tjáir að Guð leiðir fólk og heim áfram. Jesús tekur við því hlutverki líka og er boðberi þess, að Guð muni bæta og lækna.

Lærsveinarnir eru fulltrúar manna á öllum öldum. Ummyndunaratburðurinn felst ekki í að ofurhetja verður til og allur vandi er leystur með einhverju djúpsálarlegu afreki eða ofsalegum sigri á myrkri og vonsku. Ummyndunarfjallið er ekki aðeins tákn um hið einstaka, heldur altæka og venjulega líka.

Ummyndun Jesú og líf okkar
Við erum alltaf á ummyndunarfjallinu – á hverri stund í lífinu, í siðklemmum okkar, í samskiptum okkar við fólk, í vinnunni, í æviverkefninu – að lifa. Við erum raunar alltaf í námunda við þennan Jesú og við getum snúið málinu algerlega við líka: Hann er alltaf hjá okkur – í öllum aðstæðum okkar.

Við höldum áfram alla ævi að vera eins og börn. Við þráum hið góða, óttumst hið versta, upplifum krísur og áföll. Við vonumst líka til á fullorðinsárum og gamals aldri, að ofurhetja taki okkur upp og reddi okkur. En þannig er lífið ekki. Lífið er ekki leið skyndilausna og yfirborðstækni. Ofurhetjurnar tjá djúpsetta þrá í okkur. Guð tekur vissulega eftir þeim tilfinningum en kemur ekki eins og hetja heldur sem barn, vinur, mennsk vera, nágranni og vinnufélagi. Guð kemur í hinu venjulega en síður í hinu ofsalega. Ummyndunarfjall okkar getur verið í hinu sérstaka en þó helst á heimilum okkar, í vinnu og í samskiptum við ástvini okkar og venjulegt fólk. Í því samhengi kemur Jesús ekki með látum, heldur í rauntengslum. Ummyndunarsagan er um að Guð er með fólki á lálendi lífsins, í lautum reynslunnar og á hátindum upplifunnar. Guð er alls staðar þegar menn vilja leyfa hinu guðlega að lifa. Þá verður lífið mennskt og þar með guðlegt.

Ummyndunarsagan er um krýningu og það er merkilegt mál að Guð tjáir mönnum hvers eðlis veröldin er. En það verður enginn krýndur í þínu lífi, nema þú viljir. Þig dreymir ofurhetjur – en hver er hjá þér þegar þú vaknar? Er það ofurhetjan. Nei, það er Guð einn sem er hjá þér – í hversdagsleikanum, í kreppum, en líka á hátíðum – alltaf þegar þú þarft á að halda. Guð einn. Amen.

Hallgrímskirkja, 25. janúar, 2015. Síðasti sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Áhrifasaga Jesú og ofurhetjurnar – mín túlkun: Ég tel að skoða megi alla ofuhetjuhefð í menningu Vesturlanda sem áhrifasögu Jesú. Margt af einkennum og djúpþáttum ofurhetjuhefðarinnar og ofurhetjanna má rekja til Jesúsögunnar. En mér virðist ekki vera hægt að skýra Jesú út frá ofurhetjum heldur aðeins öfugt.

 

Andri Fannar Guðmundsson – minningarorð

4Myndin á forsíðu sálmaskrárinnar er yndisleg. Andri lá á maganum meðprinsessurnar sínar á bakinu. Þau voru að leika sér á hoppubumbu á sundlaugarsvæðinu nálægt heimli þeirra í Sviss. Eins og þið sjáið brosti Andri út að eyrum og dætur hans ærsluðust og hlógu. Þetta er hamingjumynd og mynd af því hvernig hægt er að lifa vel í heimi en líka á himni. Lífið er skemmtilegt þegar við lifum því með leik og gleði. Þá tengjust við sjálfum okkur og þjálfum okkur fyrir veruna í eilífðinnni sem er heimur hins fullkomna frelsis. Alla æfi erum við að æfa okkur fyrir leik himinsins. Börnin eru best í leiknum – þau kunna aðferð eilífðar. Og í Andra bjó leikgeta. Hann má vera okkur fyrirmynd í að iðka gleðina og leika okkur, hafa gaman af því að lifa. Hver dagur, hver stund er gjöf til að njóta og ástvinir til að elska og næra.

Andri var þegar sem barn áræðinn og jafnvel hvatvís. Figgi, síðar fóstri hans, skrifaði skemmtilega sögu um Andra sex ára. Þá heillaðst Andri af stórum jeppa og gaf sig á tal við eigandann og spurði hvort hann mætti ekki koma með í smárúnt á þessum glæsilega bíl. Jú, jú það var heimilt og rúnturinn varð bílstjóranum ógleymanlegur því drengurinn talaði án afláts, spurði margs og kom viðmælanda sínum fyrir sjónir sem fróður, fullorðinslegur og skemmtilegur. Og fjörið í Andra hefur ekki verið til ills því Birna móðir hans og jeppaeigandinn tóku saman skömmu síðar og fóru síðar í langan rúnt um Afríku.

Upphaf og samhengi

Andri Fannar var vormaður, hann fæddist 11. maí árið 1981. Foreldrar hans eru Birna Guðbjörg Hauksdóttir og Guðmundur Örn Flosason. Andri hóf nám í grunnskólanum á Siglufirði. Hann var fljótur að kynnast fólki, hikaði ekki við að gefa sig á tal við eldri sem yngri. Andri var kotroskinn og þótti ekki verra að geta komið viðmælendum til að hlægja. Eitt af mörgu sem eftir honum er haft frá æskuárum er þessi ágæta og fyndna sjálfskynning. Hann sagði: „Ég heiti Andri Fannar Guðmundsson og pabbi minn heitir Snorri.“ Sumir viðmælendur urðu að blikka augum nokkrum sinnum til að ná snilli drengsins!

Systkini Andra komu eitt af öðru og hann gekkst svo sannarlega við því hlutverki að vera góður bróðir. Og það var ekki bara Rannveig eða hin systkinin sem voru ánægð með stóra bróður heldur var hann alla tíð afar stoltur af þeim og var tilbúin að hringja yfir þveran hnöttinn bara til að segja hve stoltur hann væri af systur sinni eða kátur með bróður.

Andri eignaðist stóran systkinahóp og varð systkinum sínum kraftmikil fyrirmynd í margvíslegu tilliti. Hann hafði áhrif á menntunarsókn þeirra og það var mikilvægt. Systkini Andra sammæðra eru auk Rannveigar – Stefán Haukur Friðriksson, Margrét Marsibil Friðriksdóttir og Eirikur Hrafn Þrastarson. Systkini Andra samfeðra eru Margrét Helga, Fjóla Dröfn og Flosi Gunnar. Stjúpsystkini hans eru Guðbjörg Oddný Friðriksdóttir, Ásgrímur Már Friðriksson, Helgi Phoonsawat Guðmundsson og Óli Phoonsawat Guðmundsson.

Namibía

Lífið á Sigló var dásamlegt en svo ákváðu móðir og stjúpi að nú væri kominn tími til enn stórkostlegri ævintýra. Fjölskyldan flutti til Namibíu í suðvestur-Afríku og þar bjuggu þau í rúmlega fimm ár. Andri hóf nám í enska skólanum í Swakopmund. Andri var jafn snöggur að eignast vini þar eins og á Siglufirði, en kannski hefur hann nú ekki vaðið upp í næsta stórjeppann og beðið um að far á rúntinn.

Hann var snöggur að ná valdi á enskunni í skólanum og umfram flesta aðra lagði hann sig líka eftir Afrikaans og gat því talað við fólk af flestum stigum og stéttum. Andri var sjálfum sér trúr, stóð fast á réttlætismálum, hikaði ekki við að tala skýrt við kennara eða hvern sem var ef þess var þörf.

Aðstæður barnanna voru góðar, ströndin nærri, eyðimörkin á hina hönd og þó iðandi af forvitnilegu lífi. Eðlurnar urðu eftirlætisveiðidýr þeirra systkina og margra barna. Viðskiptavitið spratt upp. Andri setti á stofn verslun og seldi allt mögulegt og álagningin var talsverð. Andri vissi vel hvað þurfti til að viðskiptavinir yrðu kátir með kaupin en hann gæti þó hagnast á viðskiptunum.

Namibía var ekki aðeins ljúf fyrir uppvaxandi börn, heldur fjölbreytilegur fræðsluvettvangur eða skóli varðandi gildi, samskipti kynþátta og menningarhópa.

Afríkuferðin mikla

Andra var fyrr og síðar mikilvægt að njóta frelsis. Hann mat einnig víðáttu og hina opnu möguleika. Fjölskylda Andra lauk Namibíudvöl sinni með mikilli Afríkuferð, og óku eiginlega frá Namibíu til Íslands. Þau óku suður frá Namibíu til Góðrarvonarhöfða og þaðan síðan upp með austurströndinni, þvert yfir Afríku og síðan upp með vesturströndinni til Marókkó, óku yfir eyðimerkur og vel gróðið land, í gegnum hættur, voru á flótta undan óðum fíl, þurftu að gæta sig á fólki sem vildi kaupa eitt barnið úr bílnum, kynntust ótrúlega fjölbreytilegu landslagi í menningu fólks og náttúru. Ferðalagið tók átta mánuði en varð eiginlega mótandi skóli til lífs fyrir Andra og þau öll sem sátu í bílnum. Þetta var tími sem skilaði innsýn Andra í líf margra, einstaklinga, hópa og þjóða – efldi skilning hans á menningu – en líka á að fólk er líkt þótt skinnið sé ólíkt og menningin fjölbreytileg.

Forvitni, hispursleysi, kátína, brosandi augu og þor tengdu Andra við fólk á öllum breiddargráðum og lengdarbaugum. Og fullorðinn var Andri ekki aðeins Íslendingur heldur heimsborgari, jafnhæfur í plássi á Íslandi og í afrísku þorpi, jafn kunnáttusamur í háskólum heimsins, stórbönkum veraldar eða í kælinum í Hagkaup. Mömmu og pabba, fóstrum, ömmum og öllum ástvinum lánaðist að virkja mátt drengsins svo vel að Andri naut sín, nýtti hæfileika sína til vaxtar og varð þroskaður maður, sem var tilbúinn að njóta og lifa vel. Lof sé þeim öllum – ykkiur öllum – þið lögðu svo vel til hans.

Nám og störf

Eftir að Andri og fjölskylda komu heim akandi og siglandi frá Afríku hóf hann nám í Hólabrekkuskóla í Reykjavík. Þaðan lauk hann grunnskólaprófi vorið 1996. Síðan lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og þaðan lauk hann stúdentsprófi árið 2001. Andri vann með námi og kom sér jafnan vel enda hafði hann áhuga á því sem hann var að gera og gekk með krafti í verkin hvort sem það var að puða í Hagkaup eða aðlaga Credit Suisse að nýjum reglum um bankaleynd. Andri hóf starfsferil sinn sem kerrustrákur hjá Hagkaupum og Högum árið 1998 og vann sig snarlega upp í stjórnunar- og ráðgjafastöðu meðfram fullu námi.

Eftir stúdentspróf hellti Andri sér í sálfræðinám við Háskóla Íslands. Og Andri stefndi alltaf til stjarnanna og útskrifaðist með afburðaeinkunn árið 2005. Þetta var á þeim árum þegar skörpustu heilarnir voru metnir og veiddir. Andri vakti athygli í bankaheiminum og þó hann hefði stefnt á framhaldsnám í Harvard var hann til í að staldra við í bankageiranum. Hann vann hjá Glitni á árunum 2006-2008. Um tíma var hann einnig stundakennari við HÍ og HR. Andri fór svo til frekara náms, ekki þó í Bandaríkjunum heldur í Barcelona. Andri lauk MBA-námi frá Navarra-háskólanum árið 2010. Í tengslum við námið var Andri í starfsþjálfun hjá Johnson&Johnson í Stokkhólmi sumarið 2009. Og þrátt fyrir kreppuna sem reið yfir fjármálaheiminn eftir 2008 stóðu Andra ýmsar dyr opnar. Hann fékk vinnu í Zürich hjá Credit Suisse og þar starfaði hann til dánardags – og er sárt saknað bæði persónulega og faglega.

Glæsilegur ferill – glæsilegur maður.

Sara og dæturnar

3Svo er komið að þætti Söru Sturludóttur. Andri heillaðist af henni og hún varð konan hans og drottning. Það var gaman að hlusta á Söru segja frá hversu kunnáttusamur Andri var í fíngerðri list ástalífsins, hvernig hann fékk símanúmerið hennar, hringdi í hana, bauð henni í mat, eldaði eins og Michelinkokkur, aldrei ágengur en heillandi. Svo þegar Andri vissi að hann væri að missa Söru vestur bjó hann til rómantíska helgi fyrir þau og hún fór vestur í sumarvinnuna með ástina í hjartanu. Svo fóru þau að búa og giftu sig. Kannski var Andri ekki í upphafi með hugann við barneignir en hann var alltaf til í að ræða málin og svo gerðist undrið. Birna Sif kom í heiminn 12. nóvember 2008 og Kristrún Elma fæddist svo 26. mars árið 2012.

Andri var frábær pabbi, líflegur, glaður og uppátækjasamur. Hann sinnti krefjandi vinnu vel en svo þegar hann kom heim sinnti hann öllum konunum sínum heils hugar og nálægur. Og það var gaman hjá þeim. Hann tók fullan þátt í heimilishaldinu og galdraði fram veislur.

Og Andri naut leiksins, naut þess að hoppa með dætrum sínum og hann átti ekki í nokkrum erfiðleikum með að fara einn með þær báðar í sund. Flestir feður hefðu hikað – en ekki Andri – hann var margra manna maki í því sem hann tók sér fyir hendur.

„Pabbi er dáinn – ég get ekki séð hann eða snert hann“ sagði Birna Sif við mig – opineyg og ærleg. „En pabbi verður alltaf hjá mér samt“ – bætti hún við.

Og það er hjartaslítandi að hugsa um þessar fallegu stúlkur föðurlausar og Söru Andralausa. Guð geymi þær og gætið þeirra vel og sláið hring elsku og umhyggju um þær allar.

Takk Sara hvernig þú umlaukst Andra með ást þinni alla tíð og leyfðir honum að njóta hamingju til hinstu stundar. Hann vildi ekki fara inn eilífðina strax því hann var svo hamingjusamur í tíma. En hann hvarf inn í leik og gleði himins með hamingju í hjarta – elskaður.

Kveðjur

Þið eru mög sem kveðjið Andra í Hallgrímskirkju í dag. Mörg eru erlendis, eða utan bæjar og komast ekki til útfararinnar en biðja fyrir kveðjur til þeirra sem hér eru. Það gera Þorkell Kristinsson og fjölskylda, einnig systkinin Ásgrímur, Anna Lind og Sunna Lilja sem eru erlendis. Sömuleiðis Una Þórey Sigurðardóttir á Akureyri, Sara og Margrét og Birgitta í Danmörk, Eyþór Guðmundsson, Ellen Kristjánsdóttir og Kristján Kirstjánsson, KK. Sömuleiðis hef ég verið beðinn að geta hve gott samfélag Margrét Helga amma Andra átti við hann og hve þau efldu hvort annað.

Minningarnar

Á krossgötum vakna allar minningarnar um Andra. Leyfðu þeim að koma fram með krafti, leyfðu tilfinningum að flæða, segðu skemmtisögur af honum í erfidrykkjunni á eftir.

Hvernig manstu Andra?

Manstu hve góðhjartaður hann var? Manstu hve félagslega fær hann var – og fljótur til að tengja?

Manstu að hann hafði lítinn tíma fyrir rugl? Og átti ekki í neinum erfileikum með að tjá skoðun sína og ekki heldur gagnvart yfirmönnum? Manstu hve lausnamiðaður Andri var?

Manstu fótboltaáhugann? Og að hann var Arsenalmaður – átti jafnvel fágætar Arsenaltreyjur?

Manstu músíkina hans – hann gat hlustað á Bob Dylan hvar og hvenær sem var, alla Afríkuferðina – og æ síðan. Svo var hann svo klókur að hann giftist Söru – eins og Dylan. Manstu hin sem hann hafði gaman af, Bruce Springsteen, Emmylou Harris og alla hina gullbarkana? Leyfðu músíkinni hans með öllum hjartanálægu textunum að flæða til þín.

Manstu músíkina sem Andri bjó til sjálfur? Hann spilaði í böndum og barði húðirnar af mikilli kúnst, og gat m.a.s. sungið með trommuslættinum sem er ekki öllum gefið.

Manstu hvað Andri las, áhuga hans á Churchill og aðdáun hans á Margaret Thatcher? Hann var vel heima í stjórnvisku járnlafðinnar og gerþekkti æviferil hennar!

Manstu eldhússnilli Andra? Jafnvel nú á síðustu jólum þegar mjög var af honum dregið eldaði Andri. Sósan sem hann gerði mun lifa í minningu fjölskyldunnar. Og manstu hvað hann borðaði? Andri vissi alveg að rjómi og smjör hefur aldrei eyðilagt nokkurn mat!

Manstu einbeittnina í námi, hvað hann lagði hart að sér og uppskar ríkulega? Manstu kappsemina í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur? Það var ástæða fyrir að Andri var kallaður víkingurinn á Spáni – virtur og metinn!

Manstu hvernig hann tengdist þér, talaði við þig, var alnálægur og hafði mikinn áhuga á þér og fólkinu þínu?

Manstu hinn snögga og stundum kostulega húmor hans. Hann gat jafnvel skemmt um hið óskemmtilega. Hann mátaði Barbífót við sig þegar hann var orðinn einfættur. Þegar hann var orðinn mjög veikur lék hann sér í Fifa-fótbolta á X-boxið og spilaði við frænda sinn ungan og puttalipran. Þegar Andra ógnaði staðan og sá fram á tap sagði hann við frændann með blik í augum. „Þú matt ekki vinna mig – ég er með krabbamein.“ Andri tapaði aldrei skopskyni og allt lá undir – líka lífið. Það eru bestu húmoristarnir sem ná því stigi.

Manstu hve auðvelt hann átti með leiki og búa til ævintýri með systkinum sínum og ástvinum? Þeir leikir áttu sér engin takmörk, hann varð í þeim lögfærðingur, dómari og bisnismógull.

Manstu uppátækin – segðu frá þeim. Leyfðu lífsgleði hans að lifa.

Inn í himininn

Nú er Andri farinn. Hann segir þér ekki snarpan brandara, fylgist ekki með Alexis Sanches, býr ekki til fleiri sósur, sér ekki á færi snilldarlausn fyrir banka heimsins. Hann ekur ekki af stað í þriggja tíma ökuferð með prinsessurnar sínar bara til þess eins að prufa nýja sundlaug einhver staðar í Þýskalandi. Og hann tekur ekki stefnuna út í víðáttuna til að fara til Vladivostok – eins og hann sagði stundum.

Andri lifði hratt, betur en við flest, áorkaði meiru á aldarþriðjungi en flestir á langri æfi. Hann var hamingjumaður, skapaði hamingu, lagði svo margt gott til lífsins og hverfur alltof fljótt inn í himinn Guðs. En við megum þakka fyrir Andra, þakka fyrir prinsessurnar hans, þakka fyrir undrin sem hann framkallaði fyrir ástvini og samferðafólk.

Hvernig ætlar þú að glíma við missinn og sorgina? Gerðu það með því að leggja rækt við lífið, leikinn, gleðina og ástina. Þá verður Andri með þér í anda. Og leyfðu honum að fara inn í himininn. Suður í Afríku lærði hann að trúa á Guð. Og þegar hann nálgaðist vistaskiptin talaði hann mikið og einlæglega við Guð. Ræktað talsamband þjónaði undirbúningi hans undir förina inn í eilífðina. Og Guð er besti félaginn í ferðum í tíma en líka á himni. Alltaf vinur, alltaf nærri.

Guð geymi Andra í leik eilífðar. Guð geymi Söru, Birnu Sif, Kristrún Elmu, foreldra hans, systkini, fóstursystkini og alla ástvini. Guð geymi þig.

Amen.

Eftir að þessari athöfn var Andri jarðsettur í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Erfidrykkja í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 20. janúar, 2015.

 

 

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.