Jesús er sætt líf sálnanna

heimild sagnaheimarÞegar ég kom frá messugerð í Hallgrímskirkju og loknum viðtölum 1. sunnudags eftir þrettánda beið mín póstur frá Báru Grímsdóttur, tónskáldi. Hún var í messu og hlustaði grannt, ekki bara á góðan söng Mótettukórsins og spilerí Björns Steinars Sólbergssonar, heldur líka á ræðing klerks í stól. Og prédikunin fjallaði um myndir og Jesúnálgun og trúarskiling fólks, sem er mismunandi og áhrifatengdur tímanum. Íhugunarsálmur sr. Jóns Þorsteinssonar í Kirkjubæ kom í hug hennar og því sendi hún hann áfram. Sr. Jón var merkisklerkur, vel skáldmæltur, og er kunnur í sögunni vegna píslarvættis hans í Tyrkjaráninu. Jón var prestur í Eyjum þegar Alsíringar réðust á Eyjar og var hann hálshöggvinn. Íhugunarsálmur Jóns sýnir innlilega trúarinnlifun, frumlútherska Jesúáherslu og líríska getu höfundarins. Klifunin er vissulega sérstæð, hugnast ekki öllum en Hallgrímur notaði það besta og fór vel með aðferðina síðar. Jón er augljóslega fyrirboði , forgengill, en ekki eftirmaður Hallgríms Péturssonar, sem breytti öllum Jesúkveðskap Íslendinga til skerpu og batnaðar. Barnsleg einlægni Jóns Þorsteinssonar hreif mig.

Jesús er sætt líf sálnanna

eftir sr. Jón Þorsteinsson (1570 – 1627) frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum

Jesús er sætt líf sálnanna,
Jesús er best ljós mannanna,
Jesús er hunang hjartnanna,
Jesús er unan eyrnanna.

Jesús er lömdum lækning dýr,
Jesús er veikum hressing hýr.
Jesús klöguðum kvittan skír,
Jesús hræddum kastali nýr.

Jesús er villtum vegur beinn,
Jesús sárum græðari hreinn.
Jesús er aumum aðstoð einn,
Jesús er Guðs húss styrktarsteinn.

Jesús er ríkum æran fest,
Jesús er aumum upphaf mest.
Jesús er ekkjum aðstoð flest,
Jesús er börnum forsvar best.

Jesús er gleði guðhræddra,
Jesús er huggun sorgmæddra.
Jesús er líf endurfæddra,
Jesús er styrkur nýgræddra.

Jesús er höfuð limana,
Jesús er víntréð kvistanna.
Jesús er hænan unganna,
Jesús er hirðir sauðanna.

Jesús er góðra frelsari,
Jesús er illra dómari.
Jesús er Satans sigrari,
Jesús er dauðans eyðari.

Jesús er fæðan hungraðra,
Jesús er friður ofsóttra.
Jesús er brunnur örþyrstra,
Jesús er kraftur vanfærra.

 

Jesús er ungum menntin mæt,
Jesús er gömlum girndin sæt.
Jesús bugnuðum björg ágæt,
Jesús allra vor allt umbæt.

Ó, Jesú, sanna andarlíf,
ó, Jesú, vert mín staðföst hlíf,
ó, Jesú, hjá mér ætíð blíf,
ó, Jesú, frá mér Satan dríf.

Ó, Jesú góði, unn mér fá,
ó, Jesú, þína dýrð að sjá.
Ó, Jesú, haf mig æ þér hjá,
ó, Jesú, svo þig lofi eg þá.

Ó, Jesú, girnd mín innilig,
ó, Jesú, prýði minnilig.
Ó, Jesú fríði, eigðu mig,
ó, Jesú blíði, eg á þig.

Ó, Jesú sálna eilíft hnoss,
ó, Jesú, fyrir þinn deyð á kross,
ó, Jesú, fyrir þinn undafoss,
ó, Jesú Kristi, hjálpa oss.

Ó, Jesú, þína annastu hirð,
ó, Jesú, þína kvölunum firrð.
Ó, Jesú, sé þér ætíð skýrð,
ó, Jesú, heiður, lof og dýrð!