Stefán Karlsson – handritafræðingur

Stefán var í París. Hvað gerir maður í þeirri borg? Jú, aðalskoðunarefni hans var ekki turn, Frúarkirkja eða latínuhverfi heldur skinnhandrit! Hjarta Stefáns tók kipp, hann sá kunnuglega hönd. Atburðarásin varð eins og í byrjun einhverrar DaVincískrar spennusögu. Leitin að höfundinum var hafin, tímasetning væri kannski möguleg og dökk bók á safni í París myndi kannski eignast ritara, frændgarð og ríkulega framtíð. Stefán hringdi heim í samstarfsmann sinn, nú skyldi farið í skrifborðið hans, miðskúffuna hægra megin. Kíkja þyfti í kompu, þessa með brúnu teygjunni! Þar væru dæmi, sem hann hafði skrifað upp, lyklar, sem gætu rofið innsigli tímans, tengt fortíð og framtíð, birt þræði milli Parísar nútímans og miðalda Íslands. Stefán var að opna rit, birta og nefna höfund.

Biblia og rit

Í síðustu bók Biblíunnar, þeirri litríku Opinberunarbók Jóhannesar segir: “Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Rit kristinna manna er bókasafn. Biblia er grískt orð í ft. og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það, sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður át meira að segja bók, Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður var svo heillaður af orðkyngi, að hann byrjaði guðspjall sitt með íhugun um orð, reyndar Orðið, sem veruleika lífsins. Við upphaf veraldar voru engin ónytjuorð, heldur máttarorð. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins. Guð sagði og það varð sem sagt var, poesis heimsins, gjörningur sköpunar. Við enda Ritningarinnar er bóknálgun til íhugunar. Í forsæti himins er innsiglað rit, sem á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?” Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers? Hvað verður opinbert?

Uppruni og ættmenni

Stefán Karlsson fæddist á Belgsá í Fnjóskadal 2. desember árið 1928 og lést í Kaupmannahöfn 2. maí síðastliðinn, 77 ára að aldri. Foreldrar hans voru Jónasína Soffía Sigurðardóttir og Karl Kristjánsson, bændur á Belgsá. Þegar Stefán var aðeins fimm mánaða gamall fórst Karl í snjóflóði. Móðirin brá búi og flutti til systkina sinna og móður á Akureyri. Í fjölskylduhúsi við Oddeyrargötu bjuggu þau síðan saman eins og stórfjölskylda í sveit. Reyndar sváfu þau ekki í baðstofu, en karlarnir sváfu samt saman í herbergi og konurnar í öðru. Jónasína og sonur hennar fengu þó skonsu fyrir sig. Stefán var eina barnið á heimilinu og naut ríkulegrar athygli og elsku margra. Hann lærði strax í bernsku að best gekk þegar konurnar, stúlkurnar, voru vinir hans. Alla tíð var hann elskulegur og því elskaður.

Móðurbróðir hans giftist ekki fyrr en á miðjum aldri og Stefán átti því tvo karlhauka í horni þrátt fyrir föðurmissinn. Félagslífið heima var ríkulegt, vinafólk fjölskyldunnar kom í heimsókn. Flest voru einhleyp svo Stefán hafði lítil kynni af hvernig hjónalíf væri iðkað. En sögur og fortíð helltust yfir hann. Auðvitað varð Stefán kotroskinn í þessum sérstæða hópi fullorðinna. Hann fékk að vera barnið, en skyn hans var teygt inn í fortíðina. Kannski er í þessu að leita skýring á, hvers vegna Stefán varð tvenna æsku og alda, síungur en þó forn.

Skólar og vinna

Stefán sótti skólana á Akureyri, var afburða námsmaður, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948 og hóf síðan nám í Kaupmannahöfn. Meðfram námi stundaði hann kennslu í viðbót við mælingavinnu á hálendinu og önnur störf. Stefán var stundakennari við sinn gamla menntaskóla einn vetur. Annan vetur kenndi hann í Samvinuskólanum. Hann var starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, fyrst lausráðinn árið 1957, frá 1962 sérfræðingur og bjó og starfaði í Höfn til 1970. Hann lauk magistersnámi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1961.

Stefáni leið vel í Kaupmannahöfn. Aðstæður til starfa voru góðar, menningarlífið var örvandi, stúdentapólitík varð æ meira spennandi, Jón Helgason og kollegar í fræðunum góðir. Stefán lagði sín þugnu lóð á vogarskálar í slagnum um handritin og var afar þarfur. Hann hefði eflaust getað hreiðrað um sig ytra, en Ísland átti sína króka og stafkróka. Stefán varð sérfræðingur og fræðimaður við Handritastofnun Íslands, sem síðar varð Stofnun Árna Magnússonar, árið 1970 og hélt þeirri stöðu til 1994 þegar hann tók við af Jónasi Kristjánssyni, sem forstöðumaður stofnunarinnar og prófessor við heimspekideild. Þeirri stöðu gegndi Stefán til ársins 1998 er hann hætti fyrir aldurs sakir. En grúskinu hélt hann áfram með dugnaði til lokadags.

Fræðimaðurinn

Stefán var víðfeðmur, þolinmóður og nákvæmur fræðimaður. Hann las hendur afar vel, var skarpskygn, sá smáatriði og sérkenni höfunda og varð eins og Indiana Jones í grafhýsi höfundarlausra handrita. Stefán náði oft að gefa slitrum og ritum nýtt líf, stundum nýtt samhengi, upplýsa skrifara og tímasetja með vissu. Það er dálítið guðlegt hlutverk. Þegar skoðaðar eru aldursgreiningar norrænna handrita, sem gerðar hafa verið síðustu áratugina kemur í ljós að nafn Stefáns Karlssonar kemur oft við sögu. Hann var meistari.

Stefán skrifaði mikið alla tíð um málsögu, íslensk handrit og texta. Hann gaf út mikilægt safn fornbréfa, fornskjala, frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar, eða til 1450. Hann var m.a. sérfræðingur í biskupasögum og vann á síðari árum að sögum hins sæla Guðmundar góða Arasonar.

Hin ábúðarmikla ritaskrá Stefáns Karlssonar verður ekki þulin hér. En fyrir hönd íslenskrar kristni skal Stefáni að leiðarlokum þökkuð elja hans við að greina og skýra hina kristnu hefð. Ritgerðir hans um málfar trúar og Biblíu eru merkar og ýmsar smáritgerðir hans ekki aðeins faglega góðar, heldur líka líflegar og kætandi. Mörgum hefur Stefán hjálpað og m.a. orðið okkur klerkum til skilnings. Það er ekki lengra en tveir mánuðir síðan að ég var að vinna að prédikun um skírn og vildi tengja við verndun vatns. Mig rámaði í miðaldatengingu á Jesúskírn og vatnshelgun veraldar en mundi ekki hvar ég hefði lesið. Margrét Eggertsdóttir upplýsti svo, að Stefán hefði auðvitað líka skrifað um þetta efni.[i] Svo rataði vísdómur Stefáns í prédikun á sunndegi í föstuinngangi.

Stefáni var ekki sama um gildi og því skrifaði hann um merkileg mál, sem tengjast lífinu. Hann hefur framselt í hendur okkar verkfæri, sem varða ekki aðeins heim fræða heldur líka hvernig við eigum að axla ábyrgð, líka gagnvart náttúru.

Stefán var gerður að heiðursdoktor bæði við Háskóla Íslands og  Kaupmannahafnarháskóla. Mat hann þann sóma mikils. Margir aðrir vildu heiðra hann og sæma orðum og medalíum, en Stefán endursendi orðurnar en með elskulegum skýringabréfum. Yfirdrepsskapur var honum fjarri og prjál sömuleiðis.

Hjúskapur og afkomendur

Stefán kvæntist Helgu Ólafsdóttur árið 1958. Í Helgu eignaðist hann vin og félaga. Hún tengdi hann við tímann og uppfærði m.a. stúdentinn í honum. Þrátt fyrir að hann væri fertugur varð hann sem tvítugur í stúdentavorinu upp úr ‘68. Þau Helga voru samstiga í að leyfa rauðsokkunum að dansa fyrstu sporin í kjallaranum á Ásvallagötunni. Sokkarnir tipluðu upp stigana, enda bæði jafnréttissinnar.

Stefán og Helga eignuðust dótturina Steinunni. Leiðir þeirra Helgu greindust í sundur og þau skildu eftir tveggja áratuga hjónaband. Stefán var Steinu sinni natinn faðir. Hann hefur líklega verið óvenjulegur karl af sinni kynslóð því hann vaknaði til dótur sinnar á nóttunni til að gefa henni þegar hún var á pelaaldri. Auðvitað las hann fyrir hana, burstaði tennur í smáskrikjandi stúlku og eldaði fyrir hana þegar hún var á skólaaldri.

Stefáni var umhugað um hag dóttur sinnar, sóttist eftir að vera með henni, fagnaði tengdasonunum, Tryggva Þórhallssyni og síðar Arthuri Morthens. Hann tók á móti dótturdætrum sínum opnum örmum og huga, þeim Helgu, Önnu og Höllu, hýsti þær, þegar þess þurfti með, kenndi þeim þegar þær vildu, fór með þær í álfaferðir í land sitt og skóg í Fnjóskadal, skemmti sér við sögur þeirra og kætti þær með gríni og gleðiefnum.

Afaelska Stefáns var þó ekki markalaus. Þegar innrásin í Írak hófst bjuggu stelpurnar hjá honum. Hann keypti fyrir þær það,  sem þær vildu. Þegar bomburnar sprungu í Bagdad var Stefáni nóg boðið og hætti að kaupa kók fyrir þær. Það voru skilaboð, sem hann sendi Bush, en kannski ekki síður þeim. Það skiptir máli hvað maður er og hvernig í veröldinni. Stelpurnar urðu bara þaðan í frá að sætta sig við Egils-appelsínulímonaði.

Nú er brosið hans afa stirnað og fræðasjór þeirra er farinn. Þær sjá á bak afa sem var margt; ungæðingslegur vitringur, íhaldsamur byltingamaður, jólasveinn á jólum, skógarmaður á sumrum, heimsborgari í Höfn og alltaf sjarmör.

Veitull höfðingi

Vegna skapfestu og persónueiginda var Stefán gjarnan kjörinn til stjórnunartarfa í þeim félögum, sem hann sinnti, á Akureyri, í Kaupmannahöfn, í fræðafélögum og líka á vettvangi menningarmála og stjórnmála.

Stefán var mannblendinn og veitull höfðingi. Réttlætiskenndin í brjósti hans var rík og hann hafði góða vitund um ábyrgð sína sem borgara. Hann tók fús þátt í umræðum um þjóðmál. Sósíalistinn mótmælti með elskulegum hætti, þegar honum þótti mikilvægan málstað að verja eða brjóta yrði réttlætinu leið.

Þrátt fyrir annir veik hann sér aldrei undan ef einhver þarfnaðist hans, ef fræðaráða væri þörf, ef einhver var óviss um lestur, ef spurt var um hvar heimilda væri helst að leita eða hvaða þræði væri vert að rekja. Ef Stefáni þótti einhver fara villur vega í fræðum skaut hann vísifingri og löngutöng undir gagnauga, renndi augum upp og andmælti hógværðarlega: “Ég er ekki viss um að þetta sé alveg rétt.” Svo nuddaði hann dósirnar sínar, kom með betri skýringu og var að lokum komin inn úr dósunum.

Ef erlenda gesti skorti húsaskjól eða skapa þurfti huggulegan fagnað var gestgjafinn Stefán tilbúinn. Mörgum bauð Stefán heim um dagana, margir komu í tjaldið hans í Þórðarstaðaskógi og fengu bjór úr læk. Mörgum kenndi hann fræðin bæði í Kaupmannahöfn og síðan á Íslandi, var natinn og gjafmildur kennari.

Stefán hleypti fjöri í samkomur, ef ekki vildi betur þá lagði Stefán til að dansaður yrði færeyskur hringdans, sem hann stjórnaði svo sjálfur. Stefán var elskaður velgerðarmaður og mentor margra, sem voru honum samstiga fræðum og félögum. Því staldrar fólk við í dag, um víða veröld, til að þakka og votta Stefáni virðingu sína. 

Lífsbókin

“Í hægri hendi hans …sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða… ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” Hvað er lífið? Hvað fer leynt, hvað er opinbert? Stefán sótti inn í hin innsigluðu vé til að efla þekkingu. Hann sótti í lífsgleðina og sótti lífsmátt. Hann sótti í mannfélag og vildi réttlæti. Hann var hreinskiptin en jafnframt á dýptina og varð aldrei algerlega séður. Hann var skemmtilegur og kúnstugur, en svo var þó eitthvað meira. Stefán var fjölhæfur hæfileikamaður, sem ræktaði sinn reit, sitt fólk, sjálfan sig, embætti og frændgarð.

Hverju skiluðu rannsóknarferðirnar og bækurnar Stefáni? Visku og innsýn. Hann var vökumaður fræða, þjóðar, réttlætis, menningarlegrar reisnar og einstaklinga. Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum handritum og bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Hver er maklegur að opna? Er lífi Stefáns með öllu lokið eða er það við nýtt undursamlegt upphaf, – nýtt afrit, lýst og skreytt framar öllu því sem þetta líf getur leyft okkur að skygnast inn í? Getur verið að nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings vegna þess að sá, sem var hið mikla orð, samhengi bókanna til forna, hafi verðugur opnað hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem allir höfundar finnast, párið raðast upp í himneskt kerfi, þar sem réttlæti og bræðralag ríkir og líka á rauðum sokkkum, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði? Í því er undur trúarinnar, að efasemdamaðurinn má vona hið góða.

Nýtt líf

Fyrir skömmu hringdi sölukona tímaritafyrirtækis í Stefán og vildi selja honum áskrift að einhverju áhugaverðu tímariti. Nei, hann hafði ekki áhuga á Gestgjafanum þótt hann væri gestrisinn kokkur. Nei, glanstímaritin vöktu enn síður áhuga hans. Svona til að ljúka samtalinu sagði Stefán stúlkunni góðlátlega, að hann væri nú þannig innréttaður, að hann læsi helst ekkert sem væri yngra en frá árinu 1500! Hann hélt, að þá væri málið afgreitt. En stúlkan sá við honum og sagði hjartanlega: “Ja, hérna, er ekki kominn tími til að þú gerist áskrifandi að Nýju lífi”? Þetta þótti Stefáni fyndið og hló þegar hann sagði söguna.

Lífsbók Stefáns er nú blað í lífsbók veraldar. Verður bókin ávallt lokuð? Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megnar að opna er svarað með boðskap páska, að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli allra heftinga og kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur, færir til betri vegar, er sjálfur stephanos, sigursveigur lífsins, nýtt líf.

Snillingur, sem með stafkrók tengir saman skinnbók í París, rit í Höfn og Reykjavík getur skilið þörf fyrir höfund að baki náttúrubókinni, höfund að baki réttlætissókn mannabarna, hlýju að baki elskudrama biblíusafnsins.

Pár veraldarinnar, lífsins, er stórkostlegt. Kristnir menn trúa, að höfundurinn heiti Guð og hafi komið fram, birst, í honum, sem skrifaði í sand og gekk síðar fram úr grjótinu. Þá var innsiglið rofið og bókin opnuð. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Góður Guð blessi minningu öflugs rannsóknarmanns, ljósmóður höfunda, liðsmanns lífsins – og gefi dóttur, barnabörnum, afkomendum og ástvinum líkn í sorg – og okkur öllum mátt til að sækjast eftir sveig sem er til lífs. Amen.

Bálför. Jarðsett í Illugastaðakirkjugarði í Fnjóskadal. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Minningarorð flutt 4. maí 2006. 

[i] Stefán Karlsson, “Greftrun Auðar djúpúðgu” sem birtist í afmælisriti til Kristjáns Eldjárns Minjar og mennti , 1976, 481-88.

Allir fingur upp til Guðs

fingur til GuðsÉg var með fjölskyldu minni í Kaupmannahöfn fyrir liðlega viku og við flugum heim í vikulok. Flugliðarnir í flugvélinni undruðust og höfðu orð á að vélin fylltist af Dönum á leið til Íslands. En skýringin er að fjórði föstudagur eftir páska er den store bededag og almennur frídagur í Danmörk. Margir Danir notuðu bænadaginn til Íslandsferðar. Bænadagur fyrir liðlega viku í Danmörk en svo er bænadagur á Íslandi í dag.

Og bænadagurinn á sér samiginlega sögu í Danmörk og á Íslandi því Kristján 5. fyrirskipaði á seinni hluta 17. aldar að almennur bænadagur skyldi vera á fjórða föstudegi eftir páska. Dagurinn var kallaður kóngsbænadagur af því það var kóngur en ekki kirkja sem ákvað bænaiðjuna. En margir héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum en svo var ekki. Beðið var fyrir kóngi ekki bara einu sinni á ári heldur á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir stjórnvöldum á lýðveldistímanum.

Og þótt Íslendingar segðu skilið við Dani héldu menn áfram að biðja og frá og með 1951 var haldinn bænadagur í kirkjum landsins – ekki á föstudegi heldur – á fimmta sunnudegi eftir páska. Og þessi sunnudagur er því bænadagur eins og verið hefur í sextíu og fimm ár í okkar kirkju. „Biðjið“ sagði Jesús. Já við ættum að biðja, biðja mikið.

Fingurnir

Bæn er ekki bara verk andans, n.k. andverk heldur jafnvel handverk líka. Í dag langar mig að spá í handverk bænarinnar og að bæn er handtak manns og Guðs. Fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill ræða við þig og heyra hvað þú hefur að segja en líka finna til veru þinnar. Og margt er hægt að nota til að styrkja bæn, jafnvel alla puttana. Það langar mig til að ræða um í dag.

Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Give me five!

Þegar við biðjum spennum við gjarnan greipar eða leggjum saman hendur. Hendur skipta miklu máli í lífinu – bænalífinu líka. Horfðu á hönd þína. Þú þekkir handarbakið sem blasir við þér, þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo er lófinn. Kannski hefur einhver spáð í líflínu og myndagátu lófans? Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handsalið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Þegar við leggjum saman hendur verður það gjarnan til að kyrra huga. Og við getum líka notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun  – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðirnar þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Hann gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal, en við megum gjarnan skófla upp trúarlegri merkingu frekar en sætu í munninn.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á að það er að liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum og fyrirtækjum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur hringur, baugur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er gjarnan kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem eru sjúk, hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið og er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú bragðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í mannlífsgleðina, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Bæn hefur hendur til að starfa með og þjóna lífinu. „Biðjið“ segir Jesús. Bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

Amen.

Þessi texti var til grundvöllunar hugleiðingu á bænadegi þjóðkirkjunnar, 1. maí.

+ Helga Einarsdóttir + minningarorð

Helga EinarsdóttirMörg börn heimsins hafa legið á bakinu og horft upp í himininn, undrast stjörnumergðina og rekið upp undrunaróp þegar loftsteinn strikar næturhimininn. Svo þegar bætt er við tölum eða vitund um stærð vetrarbrautar og geimsins verður jarðarkúlan lítil og mannveran sem liggur á bakinu og leyfir sér að synda á yfirborði afgrunnsins verður sem smásteinn í fjöru. Matthías Johannessen líkti í einu ljóða sinna manneskjunni við sandkornið á ströndinni og bætti við að kæleikur Guðs væri sem hafið. Við erum óteljandi börn lífsins á strönd tímans, mannabörn, sem leikum og lifum í flæðarmáli. Og það er undursamlegt að vona og trúa að við séum ekki leiksoppar rænulauss öldugangs og án tilgangs, heldur umvafin lífi, í kærleiksfangi. Annað skáld, mun eldra – höfundur 8. Davíðssálms Biblíunnar, vísar til hinnar sammannlegu reynslu að horfa upp í himininn og undrast og vinna með smæð mennskunnar. Hann segir:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess? Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Hvað er maðurinn, hvað ert þú? Öll erum við dýrmæti. Hin kristna nálgun er að hver einasta mannvera sé undursamleg og stórkostleg. Jesús Kristur hvetur alla menn til að meta líf sitt og einnig að umgangast aðra sem djásn og vini Guðs. Og þannig megum við íhuga hið merkilega líf Helgu Einarsdóttur. Hún lifði líka þannig að líf fólks varð betra af því hún veitti til þeirra lífi og varð öðrum lífvaki. Guð minnist hennar, Guð varðveitir hana. Og þakkarandvarp sálmaskáldsins fyrir þúsundum ára var og má endurhljóma meðan börn íhuga dýptir og hæðir, stjörnur lifa og tungl og sólir lýsa: „Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!“

Æfistiklur

Æfi Helgu var margþætt og merkileg. Bernska hennar var stórfelld og íhugunarefni. Hún eignaðist góðan maka og megnið af starfsæfi hans bjuggu þau á landsbyggðinni. Svo varð til þriðja skeiðið þegar þau hjón komu í bæinn og Helga hóf nýjan feril og blómstraði í félagslífi borgarinnar.

Helga Einarsdóttir fæddist 6. desember árið 1922 á Ketilstöðum í Vallahreppi, S-Múlasýslu. Foreldrar hennar voru Margrét J. Jónsdóttir og Einar G. Markússon. Þau voru aldamótafólk – hann fæddist árið 1896 en hún aldamótaárið. Þau Margrét og Einar eignuðust tvö börn en skildu. Hjúskaparslitin urðu til að Helga dýrkeypt fór á mis við samskipti við föður sinn á bernsku- og unglings-árum eða til fullorðinsára þegar hún kynntist honum og þá einnig albróður sínum.

Foreldrar Helgu, Einar og Margrét, gengu í hjónaband að nýju. Albróðir Helgu var Jón Sigfús Einarsson og var liðlega tveimur árum eldri en systir hans. Hann er látinn. Hálfbræður Helgu eru Þráinn S. Þórarinsson og Óðinn G. Þórarinsson. Fóstursystir er Edda Stefáns Þórarinsdóttir. Hálfbræðurnir og fóstursystir lifa Helgu.

Þegar foreldrar Helgu skildu árið 1924 flutti Margrét með börnin suður til foreldra sinna í Reykjavík. Helga varð Reykjavíkurdama og þar naut hún hefðbundinnar skólagöngu þess tíma. Móðir hennar fór austur aftur en Helga varð eftir hjá ömmu sinni og afa.

Það er áleitið íhugunarefni að í frumbernsku tapaði Helga sambandi við föður sinn og sá hann ekki fyrr en sautján ára. Eldri bróðir hennar fór líka og móðir hennar einnig. Hvað gerist í sálarlífi barns við slíkar aðstæður? Hvaða áhrif höfðu þessar fjarvistir á hana og hvaða áhrif hafði það á persónumótun hennar? Getur verið að mannelska Helgu sé æfiviðbragð við æskureynslu? Getur verið að Helga hafi tamið sér að grennslast fyrir um líðan og reynslu fólks af því hún hafði sjálf upplifað mikið og skildi vel tilfinningar annarra? Var Helga svona einbeitt fjölskyldukona af því hún hafði séð ástvini fara langt í burtu? Við þekkjum ekki öll svörin en gjöful var hún og helg í gjafmilidi sinni og lífsfestu alla tíð.

Hjúskapur og fjölskylda

Svo var það ástin og ástvinirnir. Helga fór sautján ára til sumardvalar hjá föður sínum eystra og í framhaldi af þeirri dvöl var hún á Fáskrúðsfirði. Þar fann hún mannsefni sitt. Í miðju stríðinu fór Helga á ball og þar var líka Oddur Sigurbergsson frá Eyri í Fáskrúðsfirði. Hann var frábær dansari og þau féllust í faðma og dönsuðu eftir það lífsdansinn saman. Hún var tvítug þegar þau gengu í hjónaband þann 27. mars árið 1943. Og Helga var í fjólubláum kjól! Síðan áttu þau Oddur langt, gott og farsælt líf saman með ýmsum taktskiptum.

Oddur þjónaði Samvinnuhreyfingunni dyggilega og starfaði lengstum við stjórn kaupfélaga. Lengi bjuggu þau hjón á Suðurlandi, á Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og síðan á Selfossi. Í Vík og á Selfossi var Oddur mikils metinn kaupfélagsstjóri. Helga sá um heimilisreksturinn. Gestkvæmt var á heimilinuog þau hjón höfðingjar heim að sækja. Mörgum þótti ævintýralegt að njóta gestrisni Helgu, matreiðslan var rómuð og kitlað var við augu þegar borð voru dekkuð og matur fram borinn. Helga naut sín vel sem gestgjafi.

Helga hafði alla tíð gleði af samskiptum við fólk og var afar félagslega hæf. Þegar þau Oddur fluttu til Reykjavíkur árið 1983 opnuðust Helgu nýjar samfélagsvíddir og hún lagði mannúðar- og líknarfélögum lið. Hún gekk til liðs við Kvenfélagið Hringinn og starfaði m.a. um árabil í basarnefnd félagsins. Hún var einnig félagi í Kvennadeild Rauða Krossins og vann m.a. í verslun deildarinnar á Landspítala. Þá var hún virk í Félagi aðstandenda alzheimersjúklinga. Síðustu árin bjuggu þau Oddur á Þorragötu 5 í Reykjavík. Oddur lést árið 2001.

Helga og Oddur eignuðust dótturina Margréti. Hún kom í heiminn í september árið 1945 og starfaði m.a. sem dagskrárstjóri hjá Ríkisútvarpinu. Maður hennar er Hörður Filippusson, lífefnafræðingur og prófessor. Dætur þeirra eru Helga Brá Árnadóttir og Þórunn Dögg Harðardóttir. Í frumbernsku bjuggu þær um tíma hjá afa og ömmu á Selfossi og tengslin urðu djúp og öllum til blessunar. Áttu systurnar sitt annað heimili hjá afa og ömmu alla tíð. Fyrir umönnun dætranna á þeirra fyrstu árum þakkar Margrét af heilum hug.

481627_517755191577375_1951666811_n

Helga Brá er verkefnisstjóri við Háskóla Íslands. Eginmaður hennar er Jón Gunnar Þorsteinson. Þau eiga dæturnar Margréti Láru og Þórunni Helenu. Eldri börn Jóns Gunnars eru Þorsteinn Gunnar og Valgerður.

Þórunn Dögg Harðardóttir starfar sem ráðgjafi hjá Athygli-Ráðstefnum. Maður hennar er Jón Erling Ragnarsson. Dætur þeirra eru Una Brá, Andrea Rós og Telma Ösp. Það var æfiverkefni Helgu að hlúa að fólkinu sínu og efla.

Eigindir

Helga var gifturík, hæfileikarík og sterk. Hvernig minnist þú hennar? Manstu hlýja og glaðværa nærveru hennar? Manstu brosið og nærfærna hlustun og hve auðvelt hún átti með að tala við fólk á öllum aldri og gerði sér ekki mannamun? Hún átti ekki aðeins vinkonur á sínum aldri. Kynslóðabil gufuðu upp í Helgutengslunum. Hún var eins kunnáttusöm og afburðadiplómat í samkvæmum, fór á milli gesta, lagði skemmtilegheit til samkomuhaldsins og hlý orð til þeirra sem hún hitti. Hún hafði áhuga á líðan og tilfinningum, atburðum og viðburðum, áföngum og áformum fólks. Og hún studdi og samgladdist. Ungt fólk átti í Helgu jafn örugga vinkonu og þau eldri. Helga hlustaði vel, dæmdi ekki og var því elskuð af mörgum sem þótti gott að njóta styrks hennar.

Manstu hve vel Helga studdi allt sitt fólk? Og hún umvafði ekki bara bónda sinn, dóttur, tengdason og ömmudætur heldur langömmubörnin sömuleiðis, mat þau mikils, hvatti til dáða, bjó þeim athvarf og var alltaf reiðubúin að gera þeim greiða og allt það gagn sem hún mátti. Helga var fjölskyldukona og gjafmild ættmóðir sem uppskar elsku síns fólks vegna þess að hún elskaði af örlæti.

Manstu listina í Helgu? Hún var ljóðelsk og músíkölsk. Hún var laghent hannyrðakona og saumaði föt á fólkið sitt. Hún hafði sitt litakort á hreinu og var vandvirk með ásýnd og fyrirkomulag á heimili og hannyrðum. Og alla tíð var Helga flott í tauinu og Oddur einnig, glæsilegt par. Helga var flínkur kokkur og hikaði ekki við að leyfa gúrmetískum straumum að ná inn í kokkhúsið sem ástvinir hennar og gestir nutu.

Manstu hve Helga lyfti sér yfir aldur og árafjölda – hve síung hún var? Hún var eiginlega góður fulltrúi núvitundar, hlustaði og mat mál hvers tíma. Í Helgu bjó hlátur, kátína og lífsgáski sem smitaði vel til allra þeirra sem umgengust hana. Og allt til enda varðveitti Helga íhygli og skerpu. Er það ekki hrífandi að þegar stutt var eftir ævinnar velti hún vöngum yfir hvað væri sameiginlegt í þögnum tónlistar Arvo Pärt og litum í myndlist Georgs Guðna? Það er sláandi fyrir okkur sem höfum metið báða listamenn. Þessi saga er lykilsaga um Helgu. Dauðinn nálgaðist en hún varðveitti lífsgetuna til að hugsa estetíska djúpþanka. Er ég horfi á himininn, hlusta á tónlistina, nem litina, hvað er þá lífið, fegurðin og manneskjan? Þökk sé Helgu Einarsdóttur fyrir gjafmildi hennar. Í lífi hennar ríkti fegurð og örlæti sem ástvinir, já við öll, getum þakkað, því hún þorði að vera. Það er að virða kall Guðs til að lifa vel.

Og nú er hún horfin inn í himininn.

Dótturdætur og heimagangar hjá afa og ömmu urðu vitni að því að þau leiddust í svefni. Hendur Helgu og Odds féllu saman í kyrrð næturinnar. Og nú er langa nóttin komin – en afturelding einnig. Tími þeirra í heimi er liðinn en eilífðin er opin. Mynd af samfelldum höndum er einhver yndislegasta himinmynd sem hægt er að draga upp fyrir hugskotstjónum okkar sem kveðjum í dag. Að hendur ástvina falli saman og við fáum að leiðast í eilífðinni er vonarefni okkar allra.

Guð geymi Helgu, Odd og allan ættboga þeirra – og gefi þeim frið.

Og Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Minningarorð við útför í Dómkirkjunni 27. apríl, 2016. Kl. 13.

Bálför. Kistan borin út eftir athöfn en jarðsett síðar í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja á Hótel Borg eftir athöfn.

Guð blessi Ísland

IMG_0055Hrunið dundi yfir árið 2008. „Guð blessi Ísland“ – var fróm ósk og viðeigandi niðurlag í sjónvarpsávarpi forsætisráðherrans. Sömu orð, sama bæn, kom í hugann þegar ég horfði á hinn dramatíska Kastljósþátt fyrir viku síðan. Svo skrifaði ég þau á facebook: „Guð blessi Ísland II.“ Vinur minn skrifaði strax og spurði á móti: „Heldurðu ekki að hann sé orðinn þreyttur á því?“ Góð spurning. Er Guð þreyttur á okkur Íslendingum og Íslandi? Erum við sveimhugar, verri viðureignar en aðrir? Verður Guð þreyttur á sumum og síður á öðrum? Gerir Guð sér mannamun og elskar Guð mismikið? Á gleðidögum, tímanum eftir páska er vert að spyrja: Af hverju deyr dauðinn og lífið lifir? Af því Guð er ekki lúinn, gefst ekki upp – elskar.

Mikil pólitísk tíðindi hafa orðið liðna daga. Flestir hafa einhverjar skoðanir á framvindu, skúrkum og hetjum. Óþægilegar spurningar vakna við vandann: Lauk Hruninu ekki á árunum eftir 2008? Getur verið að Hrunið hafi aðeins verið fyrsti hluti í lengri sögu okkar Íslendinga – kannski bara einn af milliköflunum í breytingasögu þjóðar og vestrænna samfélaga? Ég held að svo sé og held raunar að grunnur samfélagsins hafi gliðnað sem síðan veldur skjálftum m.a. í skattaskjólunum. Hin klassísku kristnu gildi, sem við þáðum í arf frá kynslóðum liðins tíma, hafa tapað samfélagslegri seltu sinni. Og ég fór – í fyrradag – að lesa Passíusálma og Vídalínspostillu til að rifja upp boðskap fortíðar. Það var eins og mig minnti um samfélagsmálin: Hallgrímur Pétursson og Jón Vídalín eru afar skýrir um getu manna til afbrota, um skyldur hins kristna, opinbert og prívat siðferði og skyldur valdamanna. Þar kemur fram að Guð blessar Ísland þegar fólk ræktar siðvit og setur sig í samband við það sem máli skiptir.

Hvernig tengir þú reynslu daganna við lífsafstöðu þína? Eru einhver sár eða reið meðal ástvina þinna eða vina? Sá fjöldi sem mætir til mótmælafunda er teikn um miklar skoðanir og tilfinningar. Samtöl við fólk í trúnaðarsamtölum prestsþjónustunnar sem og á vinnustöðum í borginni hefur staðfest að systurnar sorg og reiði fara víða. Og þær beina spjótum sínum að einstaklingum, hreyfingum, opinberum aðilum og félögum. Miklar tilfinningar þurfa að fá útrás. Ljós sannleikans – hversu ljótur sem hann er – þarf að skína í einstaklingum og samfélagi. Guð blessi Ísland.

Þegar systurnar sorg og reiði ganga um torgin gerist margt. Ekki er að undra að þegar mikið gengur á í þjóðfélaginu að þér líði einkennilega og jafnvel á skjön við upplifun annarra í kringum þig. Af hverju? Samfélagsmein hafa áhrif á einstaklinga. Samfélagsfár rífur gjarnan ofan af gömlum einkasárum. Í látum nútíðar rifjast upp áföll fortíðar og tilfinningar þeirra spretta fram. Sorg yfir ástvinamissi vitjar fólks í umbrotum þjóðfélagsins. Ef fólk hefur einhvern tíma orðið fyrir kúgun, einelti, óréttlæti eða öðrum áföllum koma tengdar tilfinningar gjarnan í ljós á álagstíma. Í sumum tilvikum opnar samfélagsfár sálarkassa í geymslum hugans. Það sem við héldum að væri unnið og grafið kemur óvænt upp. Hitinn í samfélaginu ýtir á leynitakka sálnanna og opnar lager eða safn sorgarefna. Í uppnámi samfélagsins slengist fortíð inn í samtíðina. Þegar fólk er slegið vegna pólitískra áfalla hitnar orðræðan. Sum fara á límingunum og „missa sig.“ Fólk sem lætur sig stjórnmál miklu varða er sumt tilfinningalega og félagslega laskað þessa dagana. Og fólk dettur í sinn gír, hvort sem það er meðvirkni, vörn, kvíði eða eitthvað annað. Tökum ekki þátt í hóphýðingum, gerum ekki grín að fólki í uppnámi. Það er þarft að muna að við megum hafa hlýtt hjarta en kaldan heila, umvefja fólk með kærleika en líka góðum rökum og skynsemd. Guð blessi Ísland.

Leiðtoginn

Textar dagsins fjalla um hinn góða hirði. Ísraelsþjóðin rauk út á sinn Austurvöll og spurði ákaft hvort yfirstjórn ríkisins væri góð og skilaði sínu hlutverki. Boðskapur spámannsins Ezekíels í lexíu dagsins, var að Guð myndi sjálfur ganga í verkið, safna hinum villuráfandi sauðum, hjálpa í vanda, græða sár, binda um brot  og tryggja góðar aðstæður til lífshamingju. Gamall boðskapur og fyrir rappið á Austurvelli. Jesús talar í guðspjalli dagsins um góða hirðinn og þar ýtir hann á gamlan takka í vitund þjóðar sinnar um leiðtoga og gildi. Góður stjórnandi er sá sem engin svik eru í. Og með öll stjórnvöld og alla málaliða í heiminum í huga bendir Jesús á hinn sviklausa sem er reiðubúinn að greiða hæsta gjaldið, allan skattinn, já lífið. Lífið er hæsta gjaldið. Trúmennskan er ekki innflutt, ekki útflutt í skjólin heldur, hún er heimaræktuð. Sá einn er alverðugur sem ekki flýr heldur stenst til enda. Texti dagsins fjallar ekki um pólitík heldur lífsafstöðu. Hvar er traust þitt og hvernig tengir þú gæði, gildi, lífshætti, siðferði og tengsl við fólk? Ertu sannur og sönn? Eða ertu aðeins málaliði sem lifir með eigin hag fyrir augum? Textar dagsins eru ekki um stjórnmál liðinnnar viku en eru þó fullkomlega hagnýtir til að dæma um hvernig við menn eigum að lifa í umróti og ringulreið daganna. Við erum Guðs og eigum að bregðast við með trúmennsku og í trú. Jesúpólitíkin er að samfélagsmálin eigi að vera bæði siðleg og lögleg. Innræti stjórnar siðferði, notkun fjármuna og valda. Guð blessi Ísland.

Gleðidagar

Þessir sumpart dapurlegu dagar eru gleðidagar. Tíminn eftir páska er tími til að fagna. Ekkert er svo slæmt og þungbært að sigur lífsins gildi ekki. Engin áföll í samfélagi eða sálarlífi þínu eru svo stór að ljós páskanna megi ekki lýsa yfir og gefa birtu.

Gleðidagar eftir páska geta verið mjög sorglegir, en hætta ekki við að vera gleðidagar þótt margt dapurlegt gerist. Sorg getur dunið yfir á gleðidögum, reiði getur blossað upp á lífsdögum. Systurnar reiði og sorg eru á kreiki alla daga og koma Guði við. Við megum gjarnan nýta gleðidaga til að ígrunda hvaða sorg, áföll, reiði og miklar tilfinningar vakna í þér. Þær varða sálarlíf þitt. Hvað getur þú gert til að grisja, hverju má leyfa að fara inn í endurvinnslu eilífðar? Hvað getur þú gert til að styrkja fólk í uppnámi? Hvað getur þú gert til að íslenskt samfélag megi njóta gilda og góðs lífs?

Viltu leyfa nánd Guðs að umlykja þig, gildum guðsríksins að vefjast inn í samfélag þitt og viltu vera ásjóna Jesú Krists gagnvart fólki í sorg og reiði. „Ég er góði hirðirinn“ segir Jesús Kristur. Guð blessi Ísland.

Amen

Stólræða í Hallgrímskirkju 10. apríl, 2016.

Textaröð: A

Lexía: Esk 34.11-16, 31

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill: 1Pét 2.21-25

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Framtíðarkonur Afríku

8 3 Chep„Við stofnuðum framhaldsskóla í Chepareríu og stúlkurnar fóru í sama skóla og strákarnir,“ sagði Skúli Svavarsson og horfði yfir kristniboðsstöðina. Svo bætti hann við: „Stúlkurnar leigðu í bænum og svo kom í ljós að sumir karlar sem leigðu þeim töldu að innifalið í leigugjaldinu væri aðgangur að þeim. Nokkrar þeirra urðu ófrískar. Þá vissum við að til að tryggja öryggi þeirra og menntun yrði að stofna heimavistarskóla fyrir stúlkurnar.“ Og nú er Propoi High framhaldsskóli fjögur hundruð stúlkna. Kristniboð stendur með öllu fólki, líka konunum.

Jamas skólastýra, Samson biskup og Skúli kristniboði
Jamas Murray Samson biskup og Skúli Svavarsson.

Liljusjóður

Við vorum sjö á ferð í Afríku í janúar og febrúar 2016. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir, móðursystir mín, lést á árinu 2015 og skildi eftir í erfðaskrá sinni beiðni um að við færum til að velja gæfuleg kristniboðsverkefni sem erfðafé hennar gæti stutt. Það var til happs og blessunar að í Eþíópíu tóku á móti okkur hjónin Ingibjörg Ingvarsdóttir og Jónas Þórir Þórisson, og í Keníu hjónin Kjellrun Langdal og nefndur Skúli. Ég hef alla tíð metið mikils starf kristniboðs en þegar ég kom í heimsókn gerði ég mér grein fyrir því hve ávaxtaríkt kristniboðið hefur verið milljónum fólks í Eþíópíu og Keníu. Samfélögin hafa batnað og staða kvenna og barna mun sterkari vegna siðmáttar kristninnar. Kristniboðarnir fóru gegn hefðum og venjum og hikuðu ekki við að leyfa konum að njóta sín og afla sér líka menntunar. Alls staðar þar sem við komum höfðu konurnar rétt til að tala og tjá sig. Þær notuðu þann rétt og fluttu oft merkilegustu ræðurnar. Kristniboðið hefur verið farvegur blessunar, kristniboð er kraftaverk.

Kvennaframhaldsskóli

Orðin hans Skúla um kvennaskólann sátu í mér þegar við röltum upp veginn í átt að Propoi High, framhaldsskólanum í Chepareríu. Hópur stúlkna beið okkar uppi í hlíðinni og margar þeirra veifuðu til okkar. Þegar við komum nær sáum við að þær voru allar krúnurakaðar – vegna heilbrigðissjónarmiða — og í skólabúningi. Við vorum boðin velkomin á skrifstofu rektorsins. Vöxtur skólans hefur verið slíkur að ekki var til fé til að reisa skrifstofubyggingu svo starfsfólkið verður að láta sér nægja skólastofuhorn. En skólastýran, Jamas Murray, er kraftmikil og ákveðin, n.k. kvenútgáfa af Obama. Hún er eldklár, með skýra skólastefnu, vald á kennslufræðum og hvernig megi koma kennarahóp og fjögur hundruð tápmiklum ungum konum til þroska. Samson, Pókotbiskup, brosti þegar hún hreif okkur með sér því hann hafði séð í henni framtíðarstýru vaxandi stofnunar og ráðið hana til skólans.

Kennarar í Propoi High
kennararnir eru ungar og kraftmiklar konur.

Nemendurnir héldu út úr öllum stofum með stóla í fangi. Hvað voru þau að gera með þessi húsgögn? Svarið var að ekki væri til nema einn stóll á nemanda svo þær tækju hann bara með sér ef þær væru kallaðar á sal. Við fórum á eftir stúlkunum, kíktum í leiðinni á heimavistaraðstöðuna, sem þarf að bæta, og héldum svo í átt að matsalnum. Ég og tíu ára tvíburasynir mínir, Jón Kristján og Ísak, urðum á undan hinum gestunum og kraftmikill söngurinn umvafði okkur þegar við komum í salinn. Þetta var söngur eilífðar og kom frá hjartanu. Átta hundruð augu brostu við okkur og átta hundruð hendur fóru á loft og veifuðu til okkar þriggja. Svo þögnuðu þær. Ég stökk upp á svið og sagði þeim það sem var mér efst í sinni: „I would like to tell you a secret everyone should know: You are wonderful — so wonderful.“ Fagnaðarópin, hláturinn, gleðihljóðin bylgjuðu bárujárnið í þakinu. Allar skildu þær enskuna, allt stúlkur sem hafa orðið að berjast fyrir að vera í skóla, njóta náms sem ekki er sjálfgefið í veröld fátæktar. Skólagjöldin eru há. Flestar stúlknanna hafa lítil efni svo að skóli og nám eru þeim lífsgæði, dásemd og hlið til þroska og jafnvel betra lífs.

Kraftmikill kvennaskóli

Saga og Katla halda ræður
Saga og Katla halda ræður.
Ísak flytur ávarp - og enskan er alþjóðlega tungumálið sem unga fólkið talar gegn ruglingi Babel.
Jómfrúarræða Ísaks fyrir jómfrúrnar í Propoi High.

Svo komu konurnar í lífi mínu, Elín Sigrún og dætur mínar, Katla og Saga. Með skólastýrunni kom Skúli Svavarsson og stúlkurnar þekktu hann því hann er skólaafinn. Nafn hans — í einfaldaðri útgáfu — var skrifað á A3 blað og límt á salarvegginn: „We are proud to have you as our sponsor rev. Skuli Svavason.“ Og allur söfnuðurinn söng þessum stofnanda og verndara skólans: „Grandpa don’t forget us.“ Skúli brosti hógvær og mun minnast og vaka yfir velferð þeirra. Svo fluttum við karlarnir ávörp og allur nemendahópurinn söng. Katla og Saga voru kynntar og stóðu á fætur og töluðu við kynsystur sínar um mikilvægi ástríðunnar og eigin markmiðssetningu í námi, störfum og lífi. Svörtu stúlkurnar hlustuðu á hvítu konurnar sem höfðu sett sér stefnu. Önnur hafði numið arkitektúr og starfaði við grein sína á Íslandi, teiknaði hús og hafði látið drauma sína rætast. Hin hafði stundað ljósmyndanám, tekið myndir víða og birt verk sín í mörgum helstu ljósmyndablöðum heimsins. Meira að segja Leica, einn virtasti myndavélaframleiðandi veraldar, hafði áritað myndavél með nafni hennar og gefið henni. Svo stóð Elín Sigrún á fætur og sagði öllum söfnuðinum að hún væri lögfræðingur. Þá tóku námsmeyjarnar um höfuðið eins og þær vildu verja sig fyrir rannsóknarréttinum. Svo hlógu þær og hlustuðu á söguna um stúlkuna úr sjávarplássi á Íslandi sem tók ákvörðun um að vinna ekki í fiski allt lífið heldur fara í háskóla til að geta þjónað fólki. Þessar konur voru ungum kynsystrum sínum í Propoi High skínandi fyrirmyndir um að þær mættu þora að læra, gætu mótað eigin kjör og gæfu og mættu vitja drauma sinna. Þegar konurnar höfðu haldið ræður vildi hópurinn að drengirnir töluðu líka. Þeir héldu sínar jómfrúarræður á ensku fyrir allar jómfrúrnar í þessum hljómmikla risasöfnuði. Foreldrarnir voru stoltir og snortnir af þessum káta kvennafansi í skjóli íslensks kristniboðs.

Menntunarsókn og aðstaða

Framhaldsskóli stúlkna í Propoi í Chepareríu er stórkostleg stofnun. En aðstaðan er ekki í samræmi við íslenska staðla. Heimavistarhúsin eru eins og hlöður og aðeins stúkað á milli kojanna eins og gert er í útihúsum á sauðburðartíma í íslenskum sveitum. Heiimavist þarf að bæta. Ekkert vatnssalerni er í skólanum en kamrarnir eru hreinlegir. Nú er unnið að því að koma upp sturtuaðstöðu og þvottahúsi svo stúkurnar geti þrifið sig og þvegið plöggin sín. En þær voru þó ótrúlega snyrtilegar. Nýlega er komið tölvuver í skólann en meðan við stóðum við í tölvustofunni fór rafmagnið þrisvar. Átak þarf því að gera í rafmagnsmálum svo tölvurnar kafni ekki.

Kristniboð til trúar og menntunar

Heimsókn í söfnuði og skóla á kristniboðssvæðinu i Pókot er áhrifarík. Ég er snortinn af einbeitni Kjellrunar og Skúla og sporgöngumanna þeirra. Þau hafa auk kirkjustarfsins stofnað metnaðarfulla skóla til að veita fólki menntun. Fyrir komu íslenskra kristniboða höfðu kenísk yfirvöld hvorki haft rænu á né metnað til að mennta herskáa Pókotmenn. Margir óttuðust að fara inn á þetta svæði viðsjálla stríðsmanna. En Kjellrun og Skúli hikuðu ekki í Pókot frekar en kristniboðar í Konsó. Þau reyndu að veita fólki hlut í elsku Guðs sem vill að sérhver maður njóti ríkulegra gæða, ekki aðeins trúartrausts, heldur líka menningar, heilbrigðisþjónustu og menntunar. Raunverulegt kristniboð er ekki þröngt heldur víðfeðmt. Íslenskt kristniboð hefur alla tíð verið iðkað í anda hinnar góðu þrenningar: Heilbrigðisþjónustu, menntunar og trúar. Trú sem slitin er úr tengslum við menntun endar í vantrú. Trú sem ekki lýtur að hinum særðu við veginn er á villigötum. Ég vissi að íslenskir kristniboðar voru góðir þjónar, en ég skildi ekki vel fyrr en í þessari Liljuferð að þeir hafa verið kraftaverkamenn Guðs í heiminum. Skólakerfið sem þeir hafa byggt upp frá grunni er á við skólakerfi Íslendinga. Nú er þetta mikla menntakerfi rekið af innlendum aðilum, fyrir innlent fé og af innlendum metnaði.

Munum og styðjum

„Afi, ekki gleyma okkur,“ sungu stúlkurnar. Þær gleyma ekki því ein heimavistin ber nafn hans. Ég held að Skúli gleymi ekki söngnum meðan hann hefur mátt og rænu. Við ættum ekki heldur að gleyma þeim. Kristniboð er í þágu lífsins vegna þess að Guð elskar fólk, hvar sem það er og hvernig sem það er.

íslenskar konur meðal framskólanema í hepareríuHvað verður um stúlkurnar í Propoi High? Hvernig mun menntun þeirra nýtast þeim? Mun samfélagið leyfa þeim að njóta hæfileika sinna? Margar réttu upp hendur þegar þær voru spurðar hverjar þeirra vildu verða lögfræðingar. Margar vildu verða andlegir leiðtogar. Kannski eiga sumar við að þær vilji verða prestar og biskupar? Ekkert okkar sem horfðum í augu þessara framtíðarkvenna Keníu efuðust um að í þeim búa máttur og hæfileikar. Ég trúi á framtíð Pókot og Konsó eins og Lilja, móðursystir mín. Ég trúi að þessar stúlkur muni standa sig ef þær fá rými og frelsi til. Okkar er að styðja þessar framtíðarkonur Afríku. Þökk og lof sé íslenskum kristniboðum sem höfðu þor til að boða fagnaðarerindið og stunda mannvinsamlegt kristniboð.

Meðfylgjandi myndir frá heimsókn í kvennaskólann í Chepareríu, Pókot. Á myndunum eru nemendur Propoi High, Jamas Murray rektor, Skúli Svavarsson kristniboði, Samson biskup í Pókot, Elín Sigrún Jónsdóttir, Katla Maríudóttir, Saga Sigurðardóttir, Jón Kristján og Ísak Sigurðarsynir.

Þessi gein birtist í Bjarmi, tímarit um kristna trú, 1tbl. 110. árg, mars, 2016. Páskablað, s. 30-33.

Kristniboðssambandið gefur öllum sem vilja tækifæri til að styrkja nemendur til náms í Pókot. Þeir sem hafa áhuga geta lagt inn á reikning 0117-26-2818, kt. 550269-4149 með skýringu á að um skólagjöld í Pókot sé að ræða.
Sjá einnig grein frá Skúla Svavarssyni í Kristniboðsfréttum 2016 1. tbl bls 4.