+ Arthur Morthens +

HArthurver var eftirminnilegasta minningin um Arthur? Eitt svarið er: „Það var þegar hann kom í Kjósina frá Danmörku.“ Arthur var tvisvar á bernskuárum sendur til Danmerkur til lækninga. Þegar hann var tíu ára var hann ytra í marga mánuði. Hvorugt foreldranna gat verið hjá honum, en hann hafði stuðning af vænu dönsku hjúkrunarfólki og ættingjum í Höfn, sem töldu kjark í litla manninn. Allt varð Arthuri til náms og þroska. Ríkisspítalinn var honum ekki aðeins hjartalækningarstöð heldur fékk hann þar „krasskúrs“ í dönsku og varð að bjarga sér – engir túlkar voru á vakt. Loks var ferðalangsins að vænta heim eftir vel heppnaða dvöl. Foreldrarnir og strákarnir biðu í ofvæni eftir komu hans með betrumbætt hjarta. Hann átti að koma með áætlunarbílnum í Kjósina. Einn bræðranna hlakkaði svo til endurfundanna að hann hljóp á móti rútunni, sem stoppaði og sá stutti fékk að fara inn. Og hann sá Arthur eins og í upphöfnum ljóma – nálgaðist hann og fagnaði. En viti menn, Arthur var orðinn svo umbreyttur að hann talaði bara dönsku við bróður sinn. Reynslan var svo yfirþyrmandi að þetta var minningin sem hentist upp í vitundina þegar ég spurði um hvað væri eftirminnilegasta upplifunin um Arthur bróður. Það var þegar Arthur kom í Kjósina. Þetta er eiginlega himinmynd, Arthur farinn og kominn, umbreyttur, íslenskan farin en danskan komin, einhvers konar himneska sem hann talaði.

Í klassískum heimi var talað um hið mennska þroskaferli – exitus og reditus. Að fara – til að koma til baka með hið nýja, stóra og viskuna. Og nú er Arthur farinn, en kominn aftur með einhvers konar himnesku til okkar. Farinn inn í eilífðina – eins og af glettinni stríðni – undir dönskum himni en kominn með nýja skynjun til eflingar lífs okkar sem störum á bak honum. Til hvers lifir þú og hvernig?

Ævistiklur

Og þá er gott að rifja upp. Hvernig manstu Arthur? Hvað var hann, hvernig og af hverju? Hann var reykvískur – en líka danskur. Hann stundaði einnig nám í Noregi, var heimsborgari og fulltrúi mennskunnar í heiminum. Hann var nálægur en líka óræður, með sterkar festur en líka hreyfanlegur. Saga hans var margbrotin og í veru hans voru margir strengir ofnir.

Arthur fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948 en lést í Fåborg í Danmörku 27. júlí síðastliðinn. Móðir hans hét Grethe Skotte. Hún hafði yfirgefið stríðshrjáða Danmörku strax eftir að hernáminu lauk – ung kona sem heillaðist af því Íslandi sem Gunnar Gunnarsson hafði með bókum sínum kynnt á meginlandi Evrópu. Hún yfirgaf Láland, Kaupmannahöfn og stríðsgrafirnar og lagði upp í lífsferð sína og leit aldrei til baka. Hún blikkaði Guðbrand Kristinn Morthens í Alþýðuhúskjallaranum og þau urðu ástríðupar og lifðu stormasömu en ávaxtaríku lífi. Kristinn var ellefu árum eldri en kona hans og lifði meira en tveimur áratugum lengur en hún. Hún var dönsk, hann var hálfnorskur. Í sögu þeirra og sögu drengjanna speglast  eftirstríðsárasaga Íslands. Í upphafi voru þau á húsnæðisflakki en risíbúð á Barónsstíg varð upphafsreitur Arthurs. Þar var fjölskyldan þröngbýl þéttbýlisfjölskylda og stutt á milli fjölskyldumeðlimanna. Svo lá leiðin upp í Gnoðarvog, mikla mannlífshöll sem varð heimili Arthurs á unglingsárum.

Arthur var elstur í albræðrahópnum en Kristinn átti þrjú börn fyrir. Hjördís Emma fæddist árið 1936, Ágúst Rósmann kom í heiminn árið 1942 og Ævar síðan 1946. Sveinn Allan fæddist tveimur og hálfu ári á eftir Arthuri, árið 1951. Tolli kom í heiminn 1953 og Bubbi fæddist árið 1956. Bergþór rak svo á happafjörur fjölskyldunnar 1961 en hann fæddist árið 1959. Hann var bróðursonur Kristins og þau Grethe tóku honum opnum örmum þegar hann þarfnaðist fjöskyldu.

Íslandseign

Strákahópurinn varð í fyllingu tímans eign Íslendinga, almenningseign – svo dugmiklir, gjöfulir, lit- og tónríkir hafa þeir verið. Við höfum fylgst með þeim, heyrt sögur þeirra, söngva og mál, hrifist af þeim, hræðst angist þeirra, grátið með þeim og dáðst að krafti þeirra. Af hverju urðu þeir svona máttugir? Þeir bjuggu við kröpp kjör og stundum ófrið. Hrammur áfengis varð löngum lamandi. Pabbinn var oft fjarverandi. Mamman mátti hafa sig alla við, seldi Lálandsdjásnin og sneri saumavélinni hratt til að fæða og klæða hópinn. Og af því þeir voru algerlega utan við ætta- og klíkusamfélag Íslands gengu þeir ekki að neinu gefnu, áttu engar silfur- eða gullskeiðar í munni og fengu ekkert ókeypis. En það var ekkert verra að vita að ættmenni þeirra erlendis voru ekki lyddur. Og Arthur og Morthens-strákarnir urðu stólpar í þjóðlífi Íslendinga. Þjóðareign er margvísleg.

Þú ert stór maður

Arthur var fyrirburi og heilsuveill alla tíð. Hann varð sjálfur að ákveða sig til lífs og beita sig n.k. Munchausentrixum, stundum að draga sig upp á hárinu. Mamman sagði við son sinn, fíngerðan, nettan og lágvaxinn: „Þú ert stór maður. Þú ert ekki lítill maður – þú ert stór maður.“ Það var brýningin, veganestið allt frá bernsku. Þessi smái maður borinn til stórvirkja. Og til loka lífs lifði hann þannig. Engir erfiðleikar voru of miklir að ekki mætti sigrast á þeim. Kröpp kjör eða fötlun neitaði hann ekki leyfa að hamla. Arthur neitaði að óréttlæti sigraði réttlæti, mennskan skyldi ekki lúta fyrir ómennskunni og ómenningunni. Erfiðleikar urðu honum tækifæri fremur en óyfirstíganleg hindrun og reglan var einföld að ef sverðið væri stutt skyldi ganga skrefinu lengra.

Arthur gerði ýmsar tilraunir í námi og lífi. Sumt var óvænt. Hann þótti ekki líklegur til hamars og nagla en svo skráði hann sig í smíðanám hér næsta húsi á Skólavörðuholtinu og þrælaðist m.a. í bryggjusmíði við Snæfjallaströnd – og kvartaði aldrei.

Fólkið hans studdi Arthur með magvíslegu móti. Bræður hans, Allan og Tolli, gáfu honum nýru sem björguðu honum og bættu lífskjörin. Þökk sé þeim.

Ég veit að Steinunn tryggði að Arthur nyti alls þess sem heilsa hans leyfði. Þökk sé henni. Og vert er að nefna „strákana“ – hóp kærleikskarla – sem sóttu Arthur í hádegismat og óku honum heim í hverri viku – og jafnvel oft í viku. Í þeim öfluga og glaðsinna hópi, sem var einn af þeim kátustu í bænum, naut Arthur sín. Þökk sé ykkur vinum Arthurs.

Sá elsti og fyrirmyndin

Sem elsti sonurinn í stórum strákahópi – og stundum pabbalausum – var hann oft í hlutverki fræðarans. Hann miðlaði músík, hafði áhrif á hvernig fyrstu gítargripin hans Bubba urðu, túlkaði átök, gæði, og skyldur fyrir strákunum, varð fyrirmynd á flestum sviðum, aðstoðarmaður mömmunnar, fulltrúi menningardeiglunnar, hippinn, pólitíkus og stríðsmaður réttlætisins. Hann gerði sér grein fyrir að hann ætlaði ekki að saga allt lífið eða moka á Miklubrautinni og kveikti á andans perum sínum í Kennaraskólanum. Þar kom hann til sjálfs sín og naut hæfileika sinna og náms. Lífið var litríkt innan sem utan skóla. Hann kynntist ástinni, lífsbaráttu og eignaðist félaga. Einn Þorláksmessudag kom hann heim alblóðugur og hafði lent í götubardaga þegar hann mótmælti framgöngu Kanans í Víetnam. Mamman bað hann blessaðan að vera heima, en hann rauk upp og niður í bæ aftur þegar tekist hafði að hreinsa sár og binda um. Byltingin og baráttan yrði ekki að honum fjarverandi. Litli maðurinn var stór og hikaði ekki að hjóla í risana í veröldinni.

Grethe fór til Danmerkur til náms og unglingurin Arthur var allt í einu alábyrgur fyrir eldri bræðrunum. Saman urðu þeir að afla fjár til matar og lífs. Það var ekkert mulið undir þá.

Arthur útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1973. Hann langaði að fara í Háskólann en svo var hnippt í hann og hann var beðinn að kenna í Keflavík. Þar starfaði hann sem kennari til 1978. Hann bryddaði upp á nýungum, hikaði ekki við kennslufræðilegar tilraunir og sló í gegn. Ýmsir undruðust hvað hann væri að fletja sig út fyrir krakkana í Keflavík. Arthur var spurður af hverju hann væri að hafa fyrir þessu pakki! En hann raðaði ekki fólki í undir- og yfirflokka. Fólkið sem hann þjónaði var einfaldlega alls konar en þó jafngilt – og þyrfti alls konar aðstoð og líka fjölbreytilegar aðstæður. Hann stóð með mennskunni og vissi að hann gæti stutt þau sem voru smá en þó stór. Það er mikill Jesús í sögunum um Arthur frá þessum tíma. Svo sneri hann til baka í bæinn. Arthur fékk kennarastöðu í Árbæjarskóla og naut sín í kraftmiklum og samheldnum kennarahópi. Í Árbænum starfaði hann frá 1978 til 84.

Með kennslustörfum í áratug aflaði Arthur sér dýrmætrar reynslu og náði yfirsýn sem hann vann úr allar götur síðan. Hann gekkst við köllun sinni og hélt til náms í Osló í sérkennslufræðum. Arthur lauk sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló árið 1985 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1987. Með þroska og menntun var hann síðan ráðinn til skrifstofu fræðslumála í Reykjavík. Hann var sérkennslufulltrúi á árunum 1988 til 1991 og síðan forstöðumaður kennsludeildar til 1996. Þá voru málefni grunnskólans flutt til sveitarfélaganna og Arthur var ráðinn forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann næstu tíu árin og var síðan ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar frá 2006 til 2012. Þau sem nutu þjónustu Arthurs muna og þakka lipurð, natni, áhuga og skapandi velvilja hans í störfum.

Vert er og að minna á og þakka fyrir félagsstörf Arthurs. Hann var einn af stofnendum Barnaheilla 1989 og var við stjórnvöl samtakanna árum saman. Hann hafði alla tíð sterkar skoðanir varðandi stjórnmál og þróun íslensks samfélags. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stétt sína í Kennarafélaginu, var virkur í Alþýðubandalaginu, varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og um tíma formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur.

Hjúskapur

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir, kennari. Þau kynntust í Kennaraskólnum, hófu hjúskap saman í Keflavík og gengu í gegnum súrt og sætt, í námi, störfum og lífi í meira en tvo áratugi. Þau skildu. Sigríður býr í Svíþjóð. Hún kvaddi Arthur í Danmörk í útförinni í Svendborg og biður fyrir kveðju til þessa safnaðar. Sonur þeirra Sigríðar og Arthurs er Ólafur Arnar. Hann starfar sem tölvunarfræðingur. Kona Ólafs er Halldóra Sigtryggsdóttir, leikskólakennari. Þau eiga þrjú börn: Petru Ósk, Harald Inga og Örnu Sigríði.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir, blaðamaður. Þau hófu sambúð árið 1997 og Arthur varð þremur dætrum hennar natinn stjúpi. Dæturnar eru Helga, Anna og Halla Tryggvadætur. Dætur Helgu og Jóns Þórs Péturssonar eru Rán og Saga. Synir Önnu eru Arnlaugur og Hallgrímur Guðmundarsynir. Halla á soninn Johann með sambýlismanni sínum, Frederik Anthonisen. Jón Þór, Pétur tengdafaðir Helgu, sem og Fredrik geta ekki verið við þessa athöfn. Þeir eru gæta smáfólksins erlendis en bera ykkur kveðjur sínar.

Arthur hafði alla tíð áhuga fólki. Hann fylgdist vel með ástvinum sínum, fagnaði með þeim, sótti skólaviðburði þeirra, vakti yfir lífi þeirra og framvindu fjölskyldunnar, lék við ungviðið, ræddi mál sem brunnu á þeim, datt í alls konar hlutverk skv. þörfum þeirra, hikaði ekki við leik og að spinna furðusögur, breytti jafnvel rúmi sínu í leiksvið ef kátínusækið barn hafði löngun til. Hann settist á gólf ef lítinn kút vantaði leikfélaga. Jafnvel máttfarinn afi hikaði ekki þegar líf smáfólksins krafði.

Ástvinirnir hafa misst mikið. Guð geymi þau í sorg þeirra og eftirsjá og styrki þau til að leyfa stórvirkjum Arthurs að lifa, til að lífið verði ríkulegt og stórt.

Mörgum hefur Arthur kynnst um æfina og mörg kveðja. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Hildi Ellertsdóttur í Svíþjóð.

Eilífðin

Nú Arthur er farinn inní eilífðina. Hann skilur eftir miklar sögur. Hann fór einn í skipi frá Íslandi til Danmerkur þegar hann var á fimmta ári. Hvernig var slík ferð tilfinningaríku barni? Stór, lítill maður. Fram fram um víða veröld. Hann ólst upp í þeytivindu Reykjavíkur og fjölskyldu Kristins og Grethe. Verkefnin voru mörg, að brotna ekki, halda stefnu, glíma við Bakkus, þora að setja tappann í. Þora að halda í festurnar, gildin, standa með því rétta til að sveigja kerfi í þágu fólks og gefa öllum möguleika. Aldrei á niðurleið. Arthur var alltaf á uppleið. Æfingar, heyrn, sjón, gleði – alltaf í plús jafnvel þótt fokið væri í flest skjól. Borinn til stórvirkja eins og allt hans fólk. Og við segjum takk. Takk Arthur fyrir að vera svona stór, glaður, kíminn, hugmyndaríkur, elskulegur og áhugasamur.

Hann er horfinn inní eilífðina. Já, kynslóðirnar koma og fara líka – við erum öll pílagrímar. Hvernig ætlar þú að verja lífinu? Hvað var það sem Arthur kenndi þér? Þitt hlutverk er að lifa vel – og lifa með öðrum og í þágu annarra – iðka hið góða líf. Það er gleðihljómur í grunni tilverunnar – sagan er saga til friðar. Boðskapur óspilltrar kristni er að við erum öll börn friðar og til þroska. Stór.

Guð geymi Arthur og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016. Bálför. Duftker jarðsett í Sóllandi, Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

Arthur Morthens fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948. Hann lést í Faaborg í Danmörku 27. júlí 2016. Foreldrar Arthurs voru þau Grethe Skotte Morthens, f. 18.3. 1928 á Lálandi í Danmörku, d. 30.1. 1982 og Guðbrandur Kristinn Morthens, f. 18.10. 1917 í Reykjavík, d. 4. desember 2002. Systkini Arthurs eru Hjördís Emma Morthens, f. 26.10. 1936, Ágúst Rósmann Morthens, f. 7.1. 1942, Ævar Guðbrandsson, f. 28.9. 1946, Sveinn Allan Morthens, f. 10.6. 1951, Tolli Morthens, f. 3.10. 1953, Bubbi Morthens, f. 6.6. 1956 og Bergþór Morthens, f. 24.8. 1959.

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir kennari, f. 20.11. 1952. Sonur þeirra er Ólafur Arnar tölvunarfræðingur, f. 26.2. 1974. Kona hans er Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólakennari, f. 28. 8. 1975. Þeirra börn eru Petra Ósk, f. 27.1. 1999, Haraldur Ingi, f. 4.6. 2003 og Arna Sigríður, f. 20.1 2006.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður, f. 26.5. 1961. Hennar dætur og fósturdætur Arthurs eru Helga Tryggvadóttir læknir, f. 21.7. 1982, gift Jóni Þór Péturssyni þjóðfræðingi, f. 27.11. 1979. Þeirra dætur eru Rán og Saga, f. 9.8. 2015. Anna Tryggvadóttir lögfræðingur, f. 24.11. 1984. Synir hennar og Guðmundar Arnlaugssonar eru Arnlaugur, f. 17.1. 2009 og Hallgrímur, f. 25.4. 2012. Halla Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 6.2. 1988, í sambúð með Frederik Anthonisen sjúkraflutningamanni, f. 28.12. 1986. Sonur þeirra er Johann, f. 6.10. 2015.

Arthur ólst upp í Reykjavík, fyrst á Barónsstíg og svo í Vogahverfinu. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló 1985 og Cand. Paed. Spes. frá sama skóla 1987.

Arthur kenndi við Barnaskóla Keflavíkur 1973 til 1978 og Árbæjarskóla 1978 til 1984. Hann var sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur 1988 til 1991 og forstöðumaður kennsludeildar frá 1991 til 1996. Þegar málefni grunnskólans fluttust til sveitarfélaga árið 1996 varð Arthur forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann í tíu ár. Síðustu starfsárin var hann ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eða frá 2006 til 2012.

Arthur var einn af stofnendum Barnaheilla 1989, varaformaður samtakanna 1989 til 1991 og formaður frá 1991 til XXXX. Arthur var varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og formaður stjórnar SVR frá 1994 til 1996. Þá gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Kennarasamband Íslands og Alþýðubandalagið.

Bálför Arthurs fór fram í Svendborg í Danmörku 2. ágúst og útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016.

Þriggja alda hús – Litlibær

 

LItlibær 1Keðja kynslóðanna er löng og gott þegar maður er rækilega minntur á hana með eigin íbúðarhúsi og umhverfi. Við njótum þeirrar einstöku blessunar að búa í húsi með sál og sögu. Það heitir Litlibær og er á Grímstaðaholti, Tómasarhaga 16b. Húsið var byggt í nokkrum áföngum. Fyrsti hlutinn, 10×8 álna steinbær, var reistur 1893 af Einari Gamalíelssyni. Þá reif hann torfbæ sem áður stóð á þessum stað. Í júní árið 1896 seldi Einar afa mínum, Halldóri Jónssyni, bæinn og hét hann þá Litlibær. Meðfylgjandi var lóð og kálgarður og einnig erfðafestuland, “þar hjáliggjandi.”“ Halldór og Guðbjörg amma, fengu síðan leyfi 26. júní 1909 til að byggja fjós og heyhús á lóðinni, 9×6 álnir. Hlaðan stendur enn og lifum við með bændastíl og anda í miðri Reykjavík. Leyfi fyrir viðbyggingu inngönguskúrs fengu gömlu hjónin 7.12. 1927. Þetta var bíslag, samtals 5,51 ferm.

Litlabæjarlandið var tekið eignarnámi á sjötta áratugnum. Lítill skiki fylgdi Litlabæ, liðlega 400 m2, enda var ætlunin að rífa húsið. Nú er land Litlabæjarbænda um 1400 fermetrar, sem er með því mesta í gamla hluta Reykjavíkur. Amma, síðan foreldrar mínir og við systkin höfum plantað trjám í tímans rás. Þau urðu skógur en af tillitssemi við nágranna hefur skógurinn verið grisjaður hressilega. Fjöldinn breytist á hverju ári, sum árin fellí ég mörg tré. Viðurinn sem til fellur nægir okkur, við kaupum aldrei arinvið og kveikjum þó oft upp.

Litlibær 2Bíslag Litlabæjar var rifið sumarið 1986 þegar nýbygging var reist. Kristín, systir mín, er mikil framkvæmdakona. Eftir japl, jaml og fuður tókst henni að fá borgaryfirvöld til að samþykkja að byggja mætti við steinbæinn, sem hún og gerði. Gunnar Bjarnason, völundur og smiður allra helstu tilgátuhúsa í landinu, var aðalsmiður og faðir hans, Bjarni Ólafsson, meistarinn. Með þeim var hópur af góðum mönnum að vinnu. Kristín bjó um tíma í húsinu ein. Skaftfellingar segja að tóftin afli trjánna og þegar húsið var komið kom prinsinn, Öyvind Kjelsvik. Þau hófu búskap og fyrr en varði voru þau flutt til hans heimalands, Noregs. Við Elín keyptum síðan húsið af þeim og bættum enn við það sumarið 2002. Enn var Gunnar yfirsmiður og synir fyrri smiða komu einnig við sögu. Litlibær er því þriggja alda hús, frá 19. 20. og 21. öldinni. Það hefur stækkað með nýjum kynslóðum. Um tíma bjuggu tólf í steinbænum! Þá var þröngt en nú er rúmt. En alltaf hefur öllum liðið vel í Litlabæ. Hér gott að vera og gott að búa.

Litlibær er friðað hús hið ytra og eigiendur hafa reyndar ákveðna stefnu að ekkert brjóti á góðri minjaverndarstefnu og allar lagfæringar eru unnar í samráði við yfirvöld þeirra mála.

+ Vilhjálmur Eyjólfsson, Hnausum +

Á bakka Eldvatns í Meðallandi bjó Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum. Við fljótið kynntist ég honum árið 1983. Ég var nýfluttur í Ása í Skaftártungu og Vilhjálmur hafði samband og spurði hvort ég kynni að veiða. Hann vildi kynna mér dásemdir Eldvantsins. Svo ók ég í morgunsólinni í hlað á Hnausum þar sem tíminn er lygn. Í asaleysi var sest við eldhúsborðið og Vilhjálmur byrjaði að fræða um hraunið, sem blasti við út um eldhúsgluggann, sandöldur og mýrar Meðallands, Kötlu, gossögu ofurfjallanna og svo kryddaði hann náttúrufræðina með nokkrum mergjuðum draugasögum. Á þessum tíma fræða og furðu urðum við Vilhjálmur vinir. Hann erfði ekki við mig að ég gat ekki hugsað mér að drekka koníak kl. 8 að morgni. En svo fórum við að veiða og Vilhjálmur sannfærði mig um að Eldvatnsbirtingurinn væri eitt af undrum heimsins.

Eftir upphafskynnin kom Vilhjálmur og húsvitjaði reglulega. Svo voru heimsóknir hans endurgoldnar. Vináttan var ræktuð og samgangur hélst þótt fjölskyldan flytti í aðra landsfjórðunga. Þar sem Vilhjálmur kom til nokkurra daga dvalar gat ég fylgst með því sem hann vann að. Honum var í mun að varðveita fróðleik, munnmæli, sögur, atburði og hóf skriftir á fullorðinsaldri. Meðal þess, sem Vilhjálmur setti á blað, voru minningar Einars Einarssonar, djákna. Vilhjálmur kom efninu á blöð sem hann setti í mínar hendur til að slá inn og koma á tölvutækt form. Ég varð því ritari Vilhjálms og fékk innsýn ekki aðeins í heim djáknans heldur líka Hnausabóndans, vinar míns. Ritsmíðin var prentuð í héraðsritinu Dynskógum.

Vilhjálmur á Hnausum 2

Vilhjálmur Eyjólfsson var andlega og fræðilega fangvíður. Hann var víðlesinn fjölfræðingur og því gefandi að ræða álitamál við hann. Alla ævi íhugaði hann skaftfellska náttúru og sögu og miðlaði til þeirra sem vildu við taka. Einu gilti hvort rætt var um jarðfræði, guðfræði, heimspeki, landafræði, líffræði, dulræn efni eða kirkjusögu. Eldfjallafræði var honum sérlega hugleikin, en einnig byggðasaga, landamerkjamál, verndun fiskjar og ábyrg nýting. Svo sá Vilhjálmur fleira en við hin og í sumu einnig lengra. Í þeim efnum var ekki komið að tómum kofum. Veröld Villa á Hnausum var stór. Hann lifði lífinu í fagurri lotningu gagnvart undri veraldar. Hann var gjöfull samfylgdarmaður.

Fyrir hönd barna minna og fjölskyldu þakka ég vináttu, fræðslu, umhyggju og elskusemi Vilhjálms á Hnausum. Guð geymi hann í lygnu eilífðar.

Minningargrein í Morgunblaðinu.

Dánartilkynning í Morgunblaðinu var þessi: Vil­hjálm­ur Eyj­ólfs­son, bóndi, frétta­rit­ari og fyrr­ver­andi hrepp­stjóri, lést á hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­il­inu Klaust­ur­hól­um 21. júlí sl., 93 ára að aldri. Vil­hjálm­ur fædd­ist 5. júní 1923 í Meðallandi í Skafta­fells­sýslu, einka­son­ur hjón­anna Sig­ur­lín­ar Sig­urðardótt­ur (f. 1891, d. 1985), hús­móður og Eyj­ólfs Eyj­ólfs­son­ar (f. 1889, d. 1983), hrepp­stjóra. Vil­hjálm­ur ólst upp á bæn­um Hnaus­um í Meðallandi í Vest­ur-Skafta­fells­sýslu og var gjarn­an kallaður Villi á Hnaus­um. Vil­hjálm­ur var síðasti maður­inn til að gegna starfi hrepp­stjóra í hrepp sín­um, auk þess sem hann var með bú­skap á jörð sinni. Vil­hjálm­ur gegndi einnig starfi frétta­rit­ara Morg­un­blaðsins um langt skeið. Þegar Vil­hjálm­ur var sjö­tug­ur lauk hann leiðsögu­manna­námi en hann gegndi lengi starfi leiðsögu­manns um Kirkju­bæj­arklaust­ur og ná­grenni. Vil­hjálm­ur var einnig mik­ill söngmaður og söng með kór­un­um í sveit­inni. Vil­hjálm­ur hætti bú­skap árið 1987 en á Hnaus­um til árs­ins 2014 þegar hann flutti á hjúkr­un­ar- og dval­ar­heim­ilið Klaust­ur­hóla. Vil­hjálm­ur var ókvænt­ur og barn­laus. Útför hans frá Lang­holts­kirkju 28. júlí 2016.

Boris Johnson, fólin og við hin

Á sunnudegi, á miðjum vaxtartíma sumarsins, – þroskatíma – er í textum kirkjunnar vakin athygli á því sem gæti hindrað þroska – falsinu, lyginni og þeim sem fara með lygar! Ekki til að við lærum að ljúga heldur til að þjálfast í sannleikanum sem fer betur með fólk en það sem í skugganum býr. Lygi er nærri okkur. Hún nærist í myrkrinu, er útúrsnúningur og afbökun, alltaf eitthvað hálf, læðist í skugganum, laumar sér í pólitík, í einkalíf og einnig trú. Lygin er boðflenna á fundum fólks og í samtölum. Viljum við það?

Fals – login

Lygin er víða, hún selur fólki falsaða miða á landsleiki. Lygin ekur vörubíla inn í mannmergð saklauss fólks í Nice. Lygin skapar glundroða og réttarmorð í byltingarsamfélögum. Lygin upphefur sig á kostnað annarra. Lygin brenglar verleikasýn fólks og leiðir það til glæpa og voðaverka. Lygin prangar inn á fólk hlutum í stað dýpri gæða. Lygin er á fullu í pólitík nær og fjær. Lygin ruglar gildi þín og æsir þig til að elta tíbrá í stað þess að iðka sannleika og leita lífshamingju.

Lygin spinnur ekki aðeins vef sinn á einkasviðinu heldur einnig í almannarýminu. Lygin nær oft að brengla og brjála stofnanir, þjóðir og samfélög. Hundruðir milljóna fólks hafa dáið á aðeins einni öld vegna þess að lygin stýrði för. Stofnanir brenglast þegar lygin nær valdatökum.

Í norskri stjórnsýslu er reiknað með að allt að þrjú prósent yfirmanna geti verið siðlausir. Slíkir menn valda skaða og fólki mikilli þjáningu. Báðir fulltrúar í forsetakjöri í Bandaríkjunum eru vændir um óheilindi. Franski utanríkisráðherrann sagði í vikunni að Boris Johnson, hinn nýji utanríkisráðherra Englendinga sé lygagosi. Ruth Bader Ginsburg, sem er dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hélt líka fram í vikunni að Donald Trump væri loddari. Allir sem fylgjast með stjórnmálum og þjóðmálum vita að sumir forystumenn ljúga purrkunarlaust. Lygi er oft haldið stíft fram þegar ná skal ákveðnni niðurstöðu eða til að verja stöðu flokka eða hagsmuna. Og það merkilega er að rannsóknir sýna að þegar lygaherferðir dynja á fólki í fjölmiðlum er flóknara og erfiðara fyrir fólk að varast lygarnar en trúa því einfaldlega sem haldið er fram. Jafnvel skarpasta og gagnrýnasta fólk lætur blekkjast.

Machiavelli ráðlagði mönnum í því slæga riti Furstanum að beita aldrei valdi ef hægt væri að ná sama markmiði með prettum. Mörg telja það stjórnkænsku að segja aðeins hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur. Það er þessi skelfilega mannsýn, þjóðfélagssýn og gervisiðfræði, sem hefur magnað spillingu og valdið óréttlæti, hryllingi og stríðum.

Grunnreglur, megindyggðir, eru nauðsyn heilbrigðs samfélags. Gott og farsælt mannlíf verður ekki byggt á lygi. Hálfsannleikur spillir. Við ættum að gjalda varhug við öllum sölumönnum glansveraldar, hvort sem þeir ætla að selja okkur vöru, pólitíska stefnu eða trú. Hvorum megin ertu, hvað viltu?

Gosi

Dr. Jakob Jónsson þjónaði Hallgrímssöfnuði yfir þrjá áratugi og lengur en nokkur annar prestur. Hann var glaðsinna og hnyttinn. Mér þótti eftirminnilegt að hann vitnaði á nokkrum fundum okkar og í einu bréfinu til ritverks Carlo Collodi sem heitir á frummálinu Pinocchio. Það er sagan um Gosa. Gosi var þeirrar nátturu að nefið á honum lengdist þegar hann sagði ósatt. Sagan er m.a. kennslusaga hve lygi fer illa með fólk og sannleikurinn gagnast lífinu best. Börnin skilja vel að skrökva er ljótt. Þau vita að við þurfum að vanda okkur til að við afskræmumst ekki og töpum mennskunni.

Er Gosasaga bara fyrir 19. og 20. öld? Nei, hún á við um fólk á öllum öldum því lygin læðist að okkur, vill inn í okkur og stjórna okkur. Vegna þess að lygin er svo víða í stofnunum og samskiptum erum við öll í stöðugri sannleiksglímu. Hið mikilvæga er að gera okkur grein fyrir að þegar við látum af lyginni verðum við mennsk. Lygin eyðileggur hið mennska en sannleikurinn eflir lífið. Því er óendalega mikilvægt og nytsamlegt að staldra við og spyrja: Leitar lygin inn í þig – eða býr Gosi jafnvel innan í þér? Laðast þú að blekkingum? Segir þú sögur sem ekki þola ljós sannleika? Lætur þú ljúga að þér? Lýgur þú að öðrum? Ertu Gosi?

Hið jákvæða og rétta

Hið illa elur illt en ekki gott, hið góða elur gott en ekki illt. Slagorð verslunarinnar Silla og Valda var úr Fjallræðunni og texta dagsins: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Jesús var ekki að tala um epli, appelsínur, krækiber, ástaraldin og bláber – heldur um tengslin við Guð, kærleika til manna og trúmennsku til gilda. Þar greinir á milli þeirra sem segja satt og lygaranna. Falsspámenn eru öll sem smækka sannleikann og brengla veröldina. Þegar dýpst er skoðað búa falsspámenn í okkur öllum. Sr. Heimir Steinsson, annar merkur íslenskur guðfræðingur, skrifaði eitt sinn: „Í mér býr fól“ og talaði þar fyrir hönd okkar allra. Gosinn er ekki í hinum eða stjórnmálamönnum. Gosi býr í mér og þér og reynir að umbreyta okkur og aflaga.

Erkimynd mennskunnar – Jesús Kristur

Andstæða Gosa, fúlmenna veraldar – okkar allra – er Jesús Kristur. Jesús faldi aldrei sannleikann, dró aldrei undan og sagði alltaf satt. Því var hann elskaður og varð í vitund og trú fólks sannleikurinn sjálfur. Hann var ekki uppfullur af sjálfum sér og eigin dýrð heldur tengslum við Guð. Í samskiptum hafði Jesús alltaf velferð annarra í huga, fegurð þeirra, frelsi og reisn. Erindi Jesú var ekki að banna heldur opna, ekki að benda á hið neikvæða, heldur beina sjónum að hinu mikilvæga. Jesús minnti á að sum þeirra sem þykjast vera hans vinir, boðberar og málsvarar eru svikarar.

Tilraun um sannleikann

Gosar tímans hafa gert atlögur að öllu því mesta og besta í veröld manna og náttúru. Styrjaldir síðustu aldar voru hluti þess gjalds sem greiða varð fyrir mistök og rangan mannskilning. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Post-módernísk afstaða, sem litað hefur margt í menningu heimsins síðustu ár, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur og afstæður. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri handan tímans og sammannlegt. Þessi afstaða hefur síðan litað neysluhyggju og sjálfshyggju, að fólk er upptekið af eigin þörfum, upplifunum og algildi eigin langana. Í þessari brotkenndu afstöðu til veraldar, sjálfs og sannleika hefur orðið hliðrun í veruleikaafstöðu fólks miðað við það sem áður var kennt. Það eitt hefur orðið mikilvægt sem “mér” þóknast. Sannleikurinn, dyggðir og gildi hafa því mátt liggja í þagnargildi og verið hunsuð. Þetta má greina í þöggun í pólitík, í menningarmálum, viðskiptum og fjölmiðlum.

Líður þér ekki betur með fólki sem segir satt, jafnvel þó sannleikurinn sé þungbær? Skapast ekki traust þegar þú veist að allt er heilt og þú ert ekki leiksoppur eða fólk reynir að nota þig?

Getur traust lifað þar sem lygin dafnar? Nei, aðeins þar sem sannleikurinn ríkir, dafna heilindi og traustið vex.

Gosa, nei takk. Sannleikann, já takk.

Amen.

Hallgrímskirkja 17. júlí, 2016

  1. sunnudag eftir þrenningarhátíð.

Ísland vann EURO 2016

Ísak og tákninÍslendingar unnu EM í fótbolta karla! Íslenska liðið náði lengra en nokkurn óraði fyrir í Evrópukeppninni. Karlarnir töpuðu vissulega síðasta leiknum, en það er hægt að vinna með margvíslegu móti. Skilaboð heimspressunar voru: Frakkar unnu leikinn en Íslendingar unnu hjörtun. Og það er sigur Íslendinga á EURO 2016 – ekki aðeins að hafa töfra í tánum heldur í tengslum og á dýptina. Og það er trúarlegt mál sem vert er að íhuga.

Listdans og trúargildi

Ég horfi á fótboltaleiki eins og listsýningu, listdans tveggja liða í skapandi og gagnvirku ferli. Áhuginn hefur smitast til drengja minna sem iðka fótbolta. Í uppeldi þeirra nota ég gjarnan viðburði eða persónur í boltaheiminum til að ræða við þá og fræða um vont eða gott siðferði. Dýrlingar eru ekki fyrirferðarmiklir lengur í menningu Vesturlanda en fótboltahetjur hafa m.a. komið í þeirra stað. Og myndirnar sem börnin safna eru eins og íkónar. Íþróttir hafa trúarlegar víddir og gegna ýmsum trúarlegum hlutverkum.

Til hamingju Ísland

Fyrir liðlega viku ákváðum við fjölskyldan – í skyndingu – að fara til Parísar og fara á leik Íslendinga og Frakka. Ferðalagið var skemmtilegt og viðtökurnar voru stórkostlegar. Alls staðar var okkur fagnað. Þjónn í lestinni frá Brussel gladdist þegar hann uppgötvaði að við værum íslensk, óskaði Íslendingum heilla og gaf drengjunum lukkugripi. Stúlka sem sat í lestinni var himinglöð yfir að sjá Íslendinga í fyrsta sinn. Leigubílstjórar, þjónar og verslunarfólk báðu um að fá að taka sjálfumyndir af sér og okkur Íslendingum. Allir vildu fagna með okkur, snerta, ljósmynda og óska velfarnaðar. Ekki lengur skrítlingar úr norðri, heldur eðalvíkingar sem höfðu unnið kraftaverk sem dáðst var að. Aldrei hefur verið eins gaman að vera Íslendingur í Evrópu heldur en þessa boltadaga. Ekkert íslenskt auglýsingaátak hefur verið betur heppnað.

Við upplifðum Öskubuskuævintýri í raunheimi. Heimspressan, vefmiðlarnir og sjónvarpið sagði boltasögu um litla þjóð sem elur af sér fólk með töfra í tánum. Og við komumst á Stade de France. Okkar lán var að hafa keypt miða á erlendum miðavef svo við lentum ekki í sömu miðavandkvæðum og sumir landa okkar. Á vellinum tóku Frakkarnir vel á móti Íslendingunum – okkur leið eins og við værum úr fjölskyldunni. Íslendingarnir sungu Ferðalok og þjóðsönginn hástöfum og tár féllu. Íslensku áhorfendurnir hleyptu upp fjörinu og hávaðanum. Asíubúarnir og hinir Evrópubúarnir fögnuðu innilega þegar vel gekk á vellinum og Íslendingar skorðuðu. „Bravó Ísland, til hamingju Ísland.“ Íslendingarnir unnu hjörtun.

Það sem meira er

EURO 16 vakti margar tilfinningar og hugsanir. Það er ekki sjálfgefið að Íslendingar séu verri í fótbolta en Englendingar eða Austurríkismenn. Þegar dýpst er skyggnst og allt er skoðað megum við í þessu Öskubuskuævintýri greina að lífið er ekki lokað, læst, frosið í fyrirframgefnum og óbreytanlegum mynstrum. Innan rammans sem Skaparinn setur veröldinni spírar nýgræðingur,  hið nýja. Veruleikaafstaða trúarinnar er að innan ramma erum við frjáls til að vera. Lífið er leikvangur hins mögulega og kallar lifandi fólk til nýsköpunar og að þora. Það þarf hin nýskírða Sif Hanna að læra og Þorri Jakob einnig. Það þurfa foreldrar þeirra og fjölskyldur að iðka.

Til að minna okkur á list hins mögulega segjum við ævintýri, förum í leikhús, í kirkju, látum okkur dreyma um breytingar í einkalífi, vinnu, pólitík og samfélagi. Við megum hugsa nýjar hugsanir og efast um hefð eða hið venjulega. Við megum breyta og getum gert tilraunir í vísindum, pólitík og einkalífi. Við megum beita okkur til að bæta samfélagsvef okkar þegar eitthvað hindrar réttlæti og möguleika fólks. Líf er vissulega háð formi og skipan en líf leitar þó ávallt út fyrir mörk og heftandi skorður. Þannig virkar gróður við gróðurmörk. Aspir sprengja jafnvel malbik og steypu, flóttafólk við landamæri leitar að smugum, leitandi hugur með forréttindi og spillingu fyrir augum bregst við og viskan reynir að hemja frekju heimskunnar. Mannfólk leitar alltaf út fyrir skorður, mæri sem hefta. Líf er ekki bara efnaferlar og lokað kerfi heldur opin og laðandi veröld möguleika.

Frá … og til – exodus

Í merkingargrunni menningar okkar heimshluta er varðveitt og sögð saga um brottför, exodus, fólk sem fór frá einni veröld til annarrar til að tryggja sér líf og hamingju. Jafnvel úfið haf megnaði ekki að hindra för þessa fólks. Og sú merkilega saga hefur orðið til að þjóðir fyrr og síðar hafa gert hið sama, lagt af stað þrátt fyrir hindranir. Hin íslenska saga byrjaði eins og saga Ísraela. Sagan um Jesú Krist er dýpsta og áhrifaríkasta saga veraldar fyrr og síðar, hin eiginlega erkisaga þessa heims. Og merking hennar er að tilveran er ekki til dauða, harms og ósigurs heldur til lífs, gleði og sigurs. Öll viska Jesú, lífshættir hans og andóf gegn formkreddum var að dauði er ekki hindrun heldur að lífið má og skal lifa, ef ekki í tíma þá í eilífð. Guð er góður dómari en ekki böðull, Guð er ástvinur. Mál kristninnar er sigur lífsins og hins góða. Það sem virtist sigur hins máttuga í sögu Jesú var aðeins sigur í leik. Jesús stefndi aldrei að því að vinna EM-knattleiki fólks heldur hjörtun. Tengsl okkar við hann verða aðeins lífleg þegar við opnum fyrir undrinu og skiljum að töfrar táa hans, munns, handa og veruleika er um líf og tilgang þess. Erindi Jesú verður aðeins numið með hjartanu. Sumt verður ekki sagt eða numið nema með hjartanu. Hin dýpsta skynjun, túlkun og mannlífsiðkun verður aðeins numin með opnum huga, sálarinnar. Sif Hanna og Þorri Jakob skora mörk lífsins með því að að lifa vel, þora að vera og tengjast því sem mestu máli skiptir.

Snortið hjarta

Saga dagsins um fiska og brauð er um að fólk sem leitar lífs mun ekki hungra heldur njóta hins góða. Og máttarverk kristninnar er ekki aðeins undur í huga fólks heldur lífi þess. Kristindómur varðar öll gæði – andleg, vitsmunaleg, félagsleg og líkamleg mál. Kristnin er tengd meistara sínum þegar trúmenn reyna að tryggja velferð allra. Íslenskir knattspyrnumenn unnu ekki alla leiki heldur hjörtun. Jesús Kristur vildi ekki knýja fram sigra heldur snerta hjörtu fólks. Er hjarta þitt snortið eða ertu bara hrifinn af töfrum í tánum. Má bjóða þér fiska, brauð og líf?

Amen.

Sif Hanna Hildardóttir Danielssen (búsett í Bergen, Noregi) var skírð í messunni og fermdur Þorri Jakob Jónsson (búsettur á Manhattan, New York).

Hallgrímskirkja 10. júlí, 2016. 7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Textaröð: A

Guðspjall: Mark. 8.1-9

Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“ Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ Þeir sögðu: „Sjö.“ Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.