Greinasafn fyrir merki: páskaegg

Páskaegg og Leifur Breiðfjörð

„Gott er að vera prestur um páska og engill í ofviðri.“ Þetta er spakmælið utan á stórkostlegasta páskaeggi sem ég hef séð. Sigríður Jóhannsdóttir og Leifur Breidfjord komu með þetta undraegg í gær og afhentu okkur heimilisfólkinu í Litlabæ. Já, kraftaverkin gerast enn. Og eins og glöggir sjá hefur Leifur málað eggið og hafði vitið utan á en ekki á bréfi innan í egginu. Máltækið er frá Friðmundi Engiljón, sem var vitrasti smiður í heimi skv. Ólafi Jóhanni Sigurðssyni. Og svo rataði textinn á þetta undursamlega listaverk sem hefur glatt alla sem komið hafa á heimili okkar þessa páskana.

Leifur Breiðfjörð hefur málað mörg páskaegg um dagana. Og þau eru með ýmsu móti. Sum eru með textum úr Passíusálmum, önnur með svona útanáliggjandi speki og sum á grensunni! Það er kominn tími á að veröldin fái að kynnast þessari eggjalist Leifs Breiðfjörð.

Af hverju egg á páskum, páskaegg? Egg hafa í þúsundir ára verið tákn um frjósemi og líf. Og af því táknin voru til í menningunni voru þau notuð í kristninni til að túlka eða miðla hinni kristnu lífsafstöðu. Hin ávölu egg voru sem tákn um að Kristur var ekki lengur í grafarhvelfingu sinni heldur lifandi.

Og egg hafa lengi verið skreytt. Í Afríku voru strútsegg skreytt fyrir sextíu þúsund árum. Egg voru meðal fornþjóða við Tigris og Efrat skreytt með gulli og silfri og komið fyrir í gröfum. Kristnir menn á þessum slóðum máluðu egg til að minna á að Jesús Kristur hefði úthellt blóði sínu og skapað líf (táknað með eggi). Víða lögðu kaþólskir menn áherslu á föstur fyrir páska og ekki mátti neyta eggja á þeim tíma. Hænur gerðu gjarnan hlé á varpi yfir háveturinn og tóku svo til við varpið nærri páskum. Eggin voru full af lífnæringu og þótti siðlegt fagurt að gefa þeim efnaminni egg til matar. Páll V. páfi ákvað skömmu eftir 1600 að páskaegg skyldu tengd upprisunni. Og þau egg voru gjarnan máluð. Í kjölfarið varð farið að skreyta eggin með trúarlegum myndum og lífsspeki. Svo var miðum komið fyrir í útblásnum eggjunum með hamingjuóskum og jafnvel ástarjátningum. Trúarefnið var á útleið en prívatmálin á innleið.

Alls konar aðferðir voru notaðar til að lita egg. Ef þau voru soðin í heyi urðu þau gul og litir til bandlitunar virkuðu líka við eggjalitun. Kaffi gerði eggin brún. Á nítjándu öld voru egg síðan búin til úr pappír en fyllt með sælgæti. Súkkulaðieggin komu í kjölfarið.

Upp úr aldamótum 1900 fóru páskaegg að berast til Íslands. En fyrstu páskaeggin voru seld í Björnsbakaríi í Reykjavík. Að setja málshætti inn í páskaegg er íslenskt fyrirbæri en má rekja til spakmæla í eggjum 17. aldar.

Þessa páskana höfðu drengirnir mínir ekki áhuga á venjulegum súkkulaðieggjum en þeir voru sáttir við að fá bæði körfubolta og fótbolta! Svo fóru þeir í ratleik í garðinum við hús okkar á páskamorgni og fundu dönsk málmegg full af uppáhaldsnamminu. En foreldrarnir fengu dásamlegt egg frá Hafliða og stórkostlegt málað hænuegg frá Sigríði og Leifi Breiðfjörð. Og í þeim eggjum nær list páskaeggjanna hæstu hæðum. Ég býst við að englum farnist vel í ofviðri og það er dásamlegt að vera prestur um páska – og reyndar allt árið. Takk Sigríður og Leifur.