Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.

Undur lífsins

Gleðileg jól. Nú opnum við vitund okkar gagnvart jólasögunni. Í helgileik í skóla var átta ára drengur að leika í fæðingarsögu Jesú. Hann lék harðlyndan hóteleiganda, sem ekki vildi leyfa óléttri konu að komast í skjól. Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hótelkarlinn væri verulega vondur. Hvaða góður maður sendir burt konu sem væri komin að fæðingu? Gat hann leikið svona hrotta? Á jólunum ættu allir að vera góðir. Allt í einu var drengurinn kominn í bullandi siðklemmu.

Meðan hann var að hugsa sinn gang kom að þeim dramatíska hápunkti, að hjónaleysin í jólasögunni börðu að dyrum. Drengurinn lauk upp og örvæntingarfull spurning hljómaði. „Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?“ Drengurinn hikaði og svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið, leikarar og tilheyrendur. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt en óvænt:

„Já, hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin og látið fara vel um ykkur!“

Hvíslarinn í leikritinu glennti upp augun og hálfkallaði til stráksins: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir leikaranna flissuðu í stresskasti, en önnur fölnuðu. Leikstjórinn fórnaði höndum og svo hló einhver. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.

Þetta er jólasaga um hið óvænta, sem öllu breytir. “Já, hjá mér er nóg pláss.” Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Og þannig er raunar sagan um komu Jesú. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.

Sögur – mismunandi nálgun

Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár, leikin, túlkuð, endursögð og prédikuð. Við leyfum henni að seitla inn í okkur því hún varðar það mennskasta af öllu mennsku, fæðingu barns.

Jólasagan er grunnsaga. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu – heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, upplifa hana – eða breyta henni.

Plússaga fyrir líf þitt

Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við heyrum hana og skiljum mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við heyrum söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun gistihússkarlsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum.

Við erum á stöðugri hringferð ársins og í spíral tímans. Við eldumst og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í lotteríum lífsins eða töpum öllu.

Allt hefur þetta áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við gerum best að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til visku.

Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og frumsagan um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu eða glanssögu, sem aðeins gagnast börnum.

Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þær eru klassík, sögur, sem alltaf megna að bæta við og segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og ábót. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.

Plús Guðs

Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á klemmu þína og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung lífsins?

Jólasagan er ekki um fortíð heldur líf okkar í nútíð. Sagan virkar enn og á sér alls konar útgáfur og tilbrigði líka um þessi jól. Það var undursamleg tilkynning sem birtist á facebook fyrir nokkrum dögum. Kona sem á íbúð í miðbænum í Reykjavík – í nágrenni Hallgrímskirkju – tilkynnti að hún myndi ekki nota íbúðina sína yfir jólin og ef einhvern vantaði húsaskjól vildi hún lána íbúðina. Ekki fyrir gjald – heldur ókeypis þeim sem þyrftu. Eina skilyrðið var að nágrannar yrðu ekki fyrir ónæði. Hvílík gjafmildi, traust og elskusemi. Og margir hrifust af. „Já hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin.“ Rétti jólaandinn.

Jólin – tími fyrir hið stóra

Áramót eru fín til endurmats, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma, Guð inn í heim manna. Undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og mestur er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna í iðju lífsins, kallar til þín.

Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.” Konan í miðbænum líka. Og nú er komið að þér. Eru föstu liðirnir eins og venjulega óumbreytanlegar skorður – eða má bjóða þér að upplifa undur lífsins?

Verið velkomin er erindi jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér.

Amen

Hallgrímskirkja, jólanótt.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum,

sem komst til manna á jólum.

Við bjóðum þig velkominn til þinna – fögnum þér.

Þökk fyrir að þú varðst maður,

barn meðal okkar, fyrir okkur.

Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum.

 

Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd.

Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar.

Vitja þeirra Guð.

Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.

Vitja hinna fátæku, þau sem eru á flótta undan stríðum, hin kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenn okkur ábyrgð í verki, að opna dyr okkar og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna.

Í Jesú nafni – amen

… og allar deilur hætta

Einu sinni sat lærimeistari með nemahóp hjá sér og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Það er þegar nógu bjart er til að greina milli ólífutrés og fíkjutrés.“

Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki þau réttu. Svarið er: Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Shimon Perez, einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum Ísraelsríkis frá upphafi sagði þessa sögu á leiðtogafundi í Davos. Sagan er úr gyðinglegri spekihefð og er reyndar til í ýmsum útgáfum, merkileg saga margsögð meðal fólks af þjóð sem hefur verið ofsótt og drepið fyrir það eitt að vera af gyðinglegum kynþætti. Viskusaga úr ófsóknarhefð, saga um líf gegn dauða, viska gegn heimsku. Hvernig á að bregðast við vonskunni og illsku?

Nótt lýkur og dagur hefst þegar við sjáum ókunnan mann verða að systur eða bróður og deilur hætta. Það er hægt að nota allar stundir sólarhringsins til að gera fólk að óvinum. Glæpamenn reyna að magna ófrið milli fólks, milli menningarhópa, milli vestrænna þjóða sem kristni hefur mótað og þjóða sem Islam hefur mótað og milli trúarhópa. Þegar tekst að gera komumenn að óvinum dimmir í heimi. En þá fyrst dagar þegar fólk sér hvert í öðru manneskjur en ekki hugsanlega óvini.

Aðventan er hafin og við undirbúum komu jólanna. Og þau eru friðarhátíð. Eðli trúarinnar varðar friðarræktun. Það er óhugsandi kristnum trúmönnum að réttlæta manndráp og stríð með skírskotun til kristinnar trúar, trúar á elskuríkan Guð.

Nýtum aðventu til að skoða fólk með jákvæðum hætti. Við erum kölluð til ljóss, til bjartsýnnar trúar og friðariðju gegn öllu myrkri. Við getum með afstöðu okkar, orðum og gerðum lagt til réttsýni í rökkri dagrenningar.

 

Hvernig sér Guð þig og fólk? Hvað viltu sjá, rökkur eða ljós, myrkaverur eða ljóssins börn? Ljósið kemur. Hvenær endar nóttin  – og hvenær dagar?

Þekktu þig

Yfir dyrunum véfréttinnar í Delfí í Grikklandi stóðu orðin: Gnoþi seauton – þekktu sjálfan þig – þekktu sjálfa þig. Líklega var þessi setning slagorð til að vekja athygli á og tryggja viðgang véfréttarinnar. Saga þessa helgistaðar er merkleg og vakið marga til íhugunar um eðli og inntak trúar.

Breska Nóbelskáldið, William Golding skrifaði merkilega bók – the double tongue – um völvuna Pithyu frá því hún var ung stúlka á höfðingjasetri í Grikklandi og hvernig hún var valin til starfa við véfrétt Appolos. Golding lýsir vel hvernig boðskap þurfti að búa út svo hann hugnaðist valdamönnum. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og viðeigandi orðfæri. Völvan unga varð að horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, trú og heilindi eru lúxus, sem aðeins glópar geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, í baráttu við eigin samvisku og forstjóra véfréttarinnar.

En dagar Delfí voru taldir, guðleg návist var horfin, boðskapurinn enginn og völvan tók sig upp með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar fékk hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði enga löngun til að heiðra Delfíguðinn. Hann var henni dáinn – en veruleiki Guðs ekki. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: Ókunnum Guði.

Samkvæmt Nýja testamenntinu tók Páll postuli sér stöðu við þetta altari Delfívölvunnar og hóf predikun sína um þann Guð sem kemur til manna í sannleika. Hinn ritsnjalli Golding spann sögu sína um guðsdýrkunina í Delfí, sem brást, að sögu kristninnar sem átrúnað kærleikans, en svo er kristnin í stöðugri baráttu við að vera trú köllun sinni og lifa í anda Guðs. Saga Goldings opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat lengur þjónað trúarkerfinu í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði, hún var boðberi um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður. Á aðventu er hollt að spyrja hverjum þitt altari er helgað og til hvers þú lifir. Þekktu sjálfan þig –sjálfa þig – er verkefni fyrir aðventu og raunar lífið allt.

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016.