Greinasafn fyrir merki: Ísak Sigurðarson

Takk fyrir Jón Kristján og Ísak

Yngri drengirnir mínir eru átján ára í dag. Þeir þora vera þeir sjálfir, virða styrkleika sína og líka það sem þeir mega vinna með. Þeir hafa mannast skemmtilega, hafa sinn eigin smekk og hugðarefni. Þeir hafa þroskað með sér mannvirðingu sem er aðall hvers manns.  

Við foreldrar vitum að það er ekkert sjálfsagt að börnin okkar nái fullorðinsárum heilbrigð, hraust og hamingjusöm. Margt getur komið fyrir svo sem slys og félagsleg áföll. Innri togstreita og erfiðar fjölskylduaðstæður geta skaddað og lemstrað. En drengirnir mínir hafa blómstrað. Kvennó hefur verið þeim öflug menningar- og menntastofnun. Þeir sinna heilsurækt af dug og festu og hlægja með vinum, fjölskyldu og foreldrum. Þeir hafa líka opnað huga mót dýrmætum menningar og heims. Nú eru þeir farnir að sækja í bókahvelfingu foreldranna og kom út með bækur heimsbókmenntanna til að lesa. Svo eru þeir farnir að sækja í bóksölur bæjarins og Bókina til að bæta í safn heimilisins. Þeir flytja okkur fyrirlestra um Dostojevskí og Matthías Jochumsson, rapp og þróun kínversks kommúnisma, ræða skólagöngu Oppenheimer í Þýskandi og líðan Jóns Sveinsonar – Nonna – í Kaupmannahöfn  – okkur foreldrum til mikillar ánægju, stundum furðu en oftast til fræðslu og menntunar. Þeir bræður tóku snemma þá ákvörðun um að hafa gaman af samveru með foreldrum þeirra. Enn taka þeir ekki annað í mál en ferðast með okkur hvort sem er innan lands eða utan. Við eigum trúnað þeirra sem er undursamlegt og þakkarvert. Þeir trúa okkur fyrir vangaveltum sínum, vanda og vegsemd svo samskiptin eru jafnan gefandi og skemmtileg.

Þegar Ísak og Jón Kristján voru nýfæddir hugsaði ég stundum um hvernig það yrði þegar þeir lykju stúdentsprófi og ég væri sjötugur. Ég fann þá fyrir nokkrum kvíða og fannst ekki sjálfgefið að þeir myndu hafa gagn eða gaman af föður sínum. En þeir tóku ákvörðun um og lánaðist að leita til mín og móður þeirra með smá mál sem stór, ræða þau og hlusta á rök elskunnar og skynsemi. Afleiðing og ávöxtur er að við erum vinir á vegi lífsins. Það er yngjandi og skemmtilegt að vera á ferðafélagi kraftmikilla ungkarla og maður slitnar ekki úr sambandi við tímann. Síðustu daga hef ég rifjað upp áhyggjur mínar fyrir átján árum. Í stað kvíða, ótta og uppgjafar hefur undrun, gleði og þakklæti fyllt huga minn. Ég þakka fyrir drengina mína, móður þeirra sem aldrei hvikar í elskustuðningnum og lífið sem Guð gefur. Drengirnir mínir byrja nýtt hamingjuár og við foreldrarnir erum lukkuhrólfar í lífinu. Mér finnst ég vera fimmtugur að nýju. 

Kennimyndin var tekin í morgun þegar afmælisdrengirnir voru að fara í skólann. Myndin hér að neðan var tekin þegar Ísak kom heim af vökudeildinni eftir 18 daga lífsháska. Þegar hann var lagður við hlið bróðurins steinsofnaði hann – og þeir báðir. Þá var allt orðið eins og það átti að vera.

Hamingjuleitin er aðalmálið

Ferming – sérblað Fréttablaðsins. Ýmislegt hefur breyst frá því Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist fyrir tæpum 53 árum í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur. Í ár fermast yngstu börnin hans tvö.

Tæp 53 ár eru síðan Sigurður Árni Þórðarson,  sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist en í ár fermast yngstu börnin hans, tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Starfsins vegna hefur hann séð fermingar þróast undanfarna áratugi betur en margir og segir þær snúast í æ meira mæli um upplifun og innlifun. „Ferming var siður í samfélaginu og flestir fermdust áður fyrr. Kirkjan var eins og skólinn, stofnun sem var nýtt og sótt. Áherslan í fermingarundirbúningnum var því á fræðslu en er í dag meiri á upplifun og innlifun, sem getur orðið á kostnað fræðslu. Það er mjög áberandi hvað fermingarungmenni eru upptekin af hamingjunni. Ég hef í fimmtán ár kannað viðhorf fermingarungmenna og hamingjuleitin er þeim aðalmál. Það er æviverkefni að vinna að lífshamingjunni og fermingartíminn er mikilvægt skref á þeim vegi.“

Spyrja gagnrýninna spurninga

Sjálfur fermdist Sigurður árið 1966 og hefur margt breyst síðan þá. „Menningarsamhengið hefur breyst, einhæfnin er rofin og fjölbreytnin er meiri. En inntakið í fermingarundirbúningnum er jafn áleitið og fyrrum. Mér þótti allt fermingarferlið merkilegt og sagði alvöru já við Guði og lífinu. Fermingarungmenni nútímans grufla af miklum heilindum, spyrja gagnrýninna spurninga og skoða mál trúar með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við mennsku sína og þar með Guð. Og nú er framundan ferming tvíbura minna. Ég dáist að því hvað þeir eru tengdir sjálfum sér og opna fyrir lífsreynslu og hugsa stóru málin.“

Guð gefur lífið

Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna segir Sigurður, heldur já, já, já Guðs. „Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum stundum Guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.“

Mættust á miðri leið

Ferming Sigurðar var eftirminnileg, ekki síst þar sem hann var yngri en hinir krakkarnir auk þess sem þau voru bara tvö fermingarbörnin í fermingarathöfninni í Neskirkju. „Ég var ekki fermdur að vori heldur haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði fermingu sinni og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumst því á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri sem komu úr Hagaskóla en ég var úr Melaskóla. Í fermingarfræðslunni lærði ég 23 sálma, Biblíuvers og fræði Lúthers og við vorum ágætlega undirbúin.“

Sannkölluð tertuveisla

Fermingarveislan var haldin heima á Tómasarhaga og segir Sigurður hana hafa verið eins og framlag Íslands í heimsmeistarakeppni í tertugerð. „Stórfjölskyldan og fjölskylduvinir komu og m.a. biskupshjónin sem bjuggu hinum megin götunnar, Magnea og Sigurbjörn. Þau gáfu mér Biblíu sem Sigurbjörn skrifaði fallega í. Veislan endaði á eftirminnilegri myndasýningu um náttúruperlur Hornstranda en við systkinin vorum ekki spurð um útfærslu veislunnar en hún varð þó eftirminnilegur menningarviðburður.“

Var sítengdur Guði

Eftir á að hyggja var kannski ekki skrýtið að Sigurður skyldi hafa valið sér þennan starfsvettvang. „Ég var sem barn sítengdur við Guð. Efni og andi, tími og eilífð, hafa alla tíð verið mér eining. Ég sótti að og í sjóinn við Ægisíðu og var á fjöllum og kafi í veiði og náttúrupplifunum í sveitinni. Náttúra og yfirnáttúra voru systur og aldrei andstæður í lífi mínu. Fermingarfræðslan varð eitt af mörgum skrefum í minni lífsframvindu. Á menntaskólaárunum hætti ég við að verða læknir og ætlaði að læra líffræði en tók u-beygju varðandi náms- og starfs-val um tvítugt og þá vegna veikinda.“

Grein í sérblaði Fréttablaðsins – Fermingar, 26. febrúar 2019. Ljósmyndina af okkur feðgum tók Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari. 

Frá vinstri Jón Kristján, SÁÞ og Ísak Sigurðarson.