Greinasafn fyrir merki: synir

Takk fyrir Jón Kristján og Ísak

Yngri drengirnir mínir eru átján ára í dag. Þeir þora vera þeir sjálfir, virða styrkleika sína og líka það sem þeir mega vinna með. Þeir hafa mannast skemmtilega, hafa sinn eigin smekk og hugðarefni. Þeir hafa þroskað með sér mannvirðingu sem er aðall hvers manns.  

Við foreldrar vitum að það er ekkert sjálfsagt að börnin okkar nái fullorðinsárum heilbrigð, hraust og hamingjusöm. Margt getur komið fyrir svo sem slys og félagsleg áföll. Innri togstreita og erfiðar fjölskylduaðstæður geta skaddað og lemstrað. En drengirnir mínir hafa blómstrað. Kvennó hefur verið þeim öflug menningar- og menntastofnun. Þeir sinna heilsurækt af dug og festu og hlægja með vinum, fjölskyldu og foreldrum. Þeir hafa líka opnað huga mót dýrmætum menningar og heims. Nú eru þeir farnir að sækja í bókahvelfingu foreldranna og kom út með bækur heimsbókmenntanna til að lesa. Svo eru þeir farnir að sækja í bóksölur bæjarins og Bókina til að bæta í safn heimilisins. Þeir flytja okkur fyrirlestra um Dostojevskí og Matthías Jochumsson, rapp og þróun kínversks kommúnisma, ræða skólagöngu Oppenheimer í Þýskandi og líðan Jóns Sveinsonar – Nonna – í Kaupmannahöfn  – okkur foreldrum til mikillar ánægju, stundum furðu en oftast til fræðslu og menntunar. Þeir bræður tóku snemma þá ákvörðun um að hafa gaman af samveru með foreldrum þeirra. Enn taka þeir ekki annað í mál en ferðast með okkur hvort sem er innan lands eða utan. Við eigum trúnað þeirra sem er undursamlegt og þakkarvert. Þeir trúa okkur fyrir vangaveltum sínum, vanda og vegsemd svo samskiptin eru jafnan gefandi og skemmtileg.

Þegar Ísak og Jón Kristján voru nýfæddir hugsaði ég stundum um hvernig það yrði þegar þeir lykju stúdentsprófi og ég væri sjötugur. Ég fann þá fyrir nokkrum kvíða og fannst ekki sjálfgefið að þeir myndu hafa gagn eða gaman af föður sínum. En þeir tóku ákvörðun um og lánaðist að leita til mín og móður þeirra með smá mál sem stór, ræða þau og hlusta á rök elskunnar og skynsemi. Afleiðing og ávöxtur er að við erum vinir á vegi lífsins. Það er yngjandi og skemmtilegt að vera á ferðafélagi kraftmikilla ungkarla og maður slitnar ekki úr sambandi við tímann. Síðustu daga hef ég rifjað upp áhyggjur mínar fyrir átján árum. Í stað kvíða, ótta og uppgjafar hefur undrun, gleði og þakklæti fyllt huga minn. Ég þakka fyrir drengina mína, móður þeirra sem aldrei hvikar í elskustuðningnum og lífið sem Guð gefur. Drengirnir mínir byrja nýtt hamingjuár og við foreldrarnir erum lukkuhrólfar í lífinu. Mér finnst ég vera fimmtugur að nýju. 

Kennimyndin var tekin í morgun þegar afmælisdrengirnir voru að fara í skólann. Myndin hér að neðan var tekin þegar Ísak kom heim af vökudeildinni eftir 18 daga lífsháska. Þegar hann var lagður við hlið bróðurins steinsofnaði hann – og þeir báðir. Þá var allt orðið eins og það átti að vera.