Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Jónína Stefánsdóttir + minningarorð

Mér þótti vermandi að hitta Jónínu. Hún horfði ekki aðeins í augu mín þegar við heilsuðumst heldur brosti hún. Ekki aðeins með andlitinu heldur líka augunum. Ég hreifst af getu hennar til að fagna viðmælanda og fannst mikið til um mannvinsemd hennar. Svo hafa börnin hennar og ástvinir sagt mér sögur um hana. Ekki aðeins heimilissögur og vinnusögur heldur líka sögur um uppátæki, getu hennar og visku. Jónína var til eftirbreytni. Hún var fyrirmynd og leggur afkomendum sínum til afstöðu og gerðir til eftirbreytni.

Hvað sýnist ykkur t.d. um matarboðin hennar Jónínu? Já, hún var mjög góður kokkur og gat hæglega boðið heim og til veislu. En kannski var það ekki það sem freistaði unglinganna hennar, barnabarnanna, mest. Nei, svo hún bauð þeim út að borða. Þau máttu velja veitingastaðinn og hún borgaði. Svo naut Jónína með þeim gefandi kvöldstundar. Þau gátu rætt saman í ró og næði. Hún náði sambandi og þau kynntust skemmtilegri ömmu sem þorði. Svo fékk Jónína auðvitað í leiðinni gott yfirlit yfir matarmenningu höfuðborgarsvæðisins, hvað steikhúsið Argentína væri að gera; hvað var í gangi á Dillinu. Jónína var svo opin að hún fagnaði sjö rétta óvissumáltíð sem gleðilegu ferðalagi.

Það er eitthvað heilagt og djúpmannlegt við þessa samskiptaaðferð Jónínu. Kirkjur eru byggðar í kringum matarborð. Kristnin er matarhefð, fólk er kallað saman til að vera saman, tala, ræða um stóru málin og þau litlu. Fræðast og efla mannúð og samheldni, kærleika og lífsgæði. Það eru allt þættir í lífi Jónínu Stefánsdóttir. Hún var líka kona stundarinnar, nýunganna, hlátranna, gleðinnar og kærleikans. Hún bauð ungviðinu út að borða til að njóta, vera saman, rækta tengslin – vera. Í því er guðssambandið fólgið, opna fyrir allar víddir mennskunnar, inn á við, út á við, til náttúrunar og upp í óravíddir eilífðar, til Guðs.

Uppvöxtur og samhengi

Jónína var vorkona og fæddist í mars í Strandhöfn í Vopnafirði. Það var á afmælisári þúsund ára Alþingis, árið 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Jónsson og Sigríður Jósefsdóttir, sem bjuggu í Strandhöfn,Purkugerði og Hámundarstöðum. Jónína var næstelst í hópi fjögurra systkina. Hildur var elst og fæddist árið 1928. Hún lést árið 1991. Guðni Jóhannes var þriðji í röðinni og fæddist árið 1932. Hann er einnig látinn. Ingibjörg var yngst, fæddist árið 1939, og hún lifir systkini sín. 

Vopnafjörður var gjöfult menningarhérað á uppvaxtarárum Jónínu. Hún var sveitastúlka, gekk til allra verka, lærði að vinna og líka að trúa á mátt sinn og megin. Hún var hesteigandi. Svo var hún músíkölsk og langaði til að læra á hljóðfæri. Þegar hún var aðeins fjórtán ára unglingur bauð hún í og keypti harmóníuorgel. Það var ekki aðeins gott og hljómþýtt hljóðfæri heldur líka glæsileg stássmubla – gerð af sænska orgelsmiðnum KA Andersen (sem reyndar gerði nokkur orgel í íslenskum kirkjum, t.d. Hofstaðakirkju og Ljósavatnskirkju). 

Skólagönguna byrjaði Jónína á heimaslóð og sótt síðan nám í Alþýðuskólann á Eiðum á árunum 1947 –49. Þar naut hún skólastjórnar Þórarins Þórarinssonar og fræða úrvalshóps kennara. Jónínu gekk vel í námi og hún var afbragðs námsmaður. Hvað ætti hún að gera eftir gagnfræðapróf? Jú, Jónína var vön vinnu í sveitinni en þó hún hefði getað orðið bóndi var í henni útþrá og þjónustuþörf gagnvart fólki. Hún setti stefnuna á hjúkrun. Hún skráði sig til náms í Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist í september árið 1953. Síðan starfaði hún við fag sitt víða og á mörgum hjúkrunar- og umönnunar-stofnunum.

Jónína var hjúkrunarfræðingur við Landspítalann frá því hún úskrifaðist úr skóla og til febrúar árið 1954. Þá fór hún norður með manni sínum og vann á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá desember 1954 og til apríl árið eftir.Jónína hafði frá unglingsárum áhuga á geðheilbrigðismálum og tuttugu árum eftir hjúkrunarútskrift skráði hún sig til framhaldsnáms í geðhjúkrun og lauk í árslok 1976. Hún vann svo á sjúkrahúsum og stofnunum á höfðuborgarsvæðinu frá 1970. Fyrst á Borgarspítalanum, síðan á Kleppsspítala, þá í Hafnarbúðum, íSunnuhlíð og síðast á geðdeild Landspítalans frá 1989 og til starfsloka. Jónína hafði áhuga á fólki, velferð þess og heilbrigði. Hún ræktaði með sér mannúð og mannvinsemd og var ávallt reiðubúin að koma fólki til hjálpar. Af því að hún mat fólk jákvætt og sá í öllum fegurð hafði hún líka lag á fólki sem aðrir áttu í erfiðleikum með. Hún sá gildi í fólki, gæði í kynlegum kvistum. Hún horfði á fólk með jákvæðni og mannúð kærleikans. Jónína var því mikils metin.

Jónína og Guðsteinn

En hjúkrunarstarfið gat reynt á. Einu sinni var Jónína komin í miklar ógöngur. Sjúklingur hafði náð taki á hári hennar og tók fast í. Starfsmaður sá aðfarirnar, en hann var með sprautu í höndum og vildi ekki henda henni ekki frá sér til að koma hárreittri konunni til bjargar. Jónína sá útundan sér og í stimpingunum að hann lagði sprautuna varlega frá sér og þá var hann tilbúin að leggja henni lið. Jónínu þótti maðurinn bæði ótrúlega skipulagður, varkár og skýr í viðbrögðum og vildi því kynnast honum betur. Já, þetta var Guðsteinn, hún var þá hjúkrunarnemi og hann læknanemi. Þau urðu kunningjar, svo vinir og settu svo upp hringana og gengu í hjónaband 3. febrúar 1954.

Þau Jónína og Guðsteinn voru félagar, samstiga lífsförunautar og vinir í meira en fimmtíu ár allt þar til Guðsteinn féll frá árið 2004. Þau Jónína stóðu saman. Hún studdi mann sinn, fór með honum lífsferðirnar, umspennti hann og börnin, studdi hann í starfi, hvort sem var fyrir norðan eða í Súgandafirði, sem og fyrir sunnan. Fjölskyldan var saman í Uddevalla þegar Guðsteinn hóf sérnám, sem varð reyndar styttra en áætlað hafði verið vegna veikinda móður hans. Svo fóru þau aftur til Suðureyrar þegar þau komu frá Svíþjóð en fóru svo suður eftir að Jónína varð fyrir alvarlegum bakveikindum. Svo bjuggu þau hér á höfuðborgarsvæðinu, lengstum á Álfhólsvegi og þar var félagslífið ríkulegt og heimilið opið stórfjölskylduheimili. Jónína var auk allra annarra starfa stórhúsmóðir á heimili sínu.

Þau Jónína og Guðsteinn eignuðust fimm börn. Þau eru eru Stefán (f. 1954); Rósa (f. 1956); Sigríður (f. 1962); Hallgrímur (f. 1965) og Karl Jóhann (f. 1966). Þau tóku tengdabörnum opnum örmum og fögnuðu og nutu barnabarnanna, en eitt þeirra er látið. Þessu fólki, tengdabörnum, venslafólki og ástvinum var Jónína glaður og hollur vinur, fræðari og stuðningur. Hún sinnti barnabörnum sínum, fór á milli heimila til að taka á móti þeim er þau komu úr skóla, baka handa þeim lummur eða pönnukökur og vildi tryggja lærdóm þeirra. Þökk sé henni fyrir hve ástsamlega hún þjónaði sínu fólki.  

Minningarnar

Hvernig manstu Jónínu? Hún var góður námsmaður. Drátthög og góður teiknari og gat jafnvel teiknað dýr. Heststeikningin hennar lifir í fjölskylduminninu sem dæmi um getu hennar. Jónina var sjálfstæð alla tíð og tók eigin ákvarðanir í lífinu. Hún vildi ekki vera öðrum háð. Hún ræktaði frelsi og eigin styrk. Jónína er því fyrirmynd afkomendum sínum og vinum. Jónína var huguð og þorði að fara eigin leiðir. Hún hikaði t.d. ekki að fara nýgift og ólétt um hávetur austur til foreldra sinna þegar henni fannst hún verða að vitja þeirra. Og ferðin var mikilvæg og augljóst að hún var ekki aðeins jarðbundin heldur var líka gefin fjölskynjun og stefnufesta. Faðir hennar lést þegar hún kom og ferðin var henni því afar mikilvæg.

Jónína var fróðleiksfús og leitaðist ávallt við að efla kunnáttu sína og menntun. Og hún fór jafnvel utan til að ná betra valdi á ensku. Hún var í Edinborg í þeim erindagerðum árið 1985.

Jónína vildi alltaf láta gott af sér leiða, fólki nær og fjær. Mannúð einkenni hana og hún var gjafmild. Jónína var pólitísk og studdi þau stjórnmál sem hún taldi þjóna jöfnuði, mannréttindum og góðri sambúð við land og annað fólk.

Manstu orðaforðann hennar Jónínu? Hún mat bókmenntir mikils og þau Guðsteinn voru samstiga í áhuga á bókmenntum og ríkidæmi máls. Hún var ræktandi og blómin hennar brostu við heimilisfólki og gestum. Svo stunduðu þau Jónína og Guðsteinn skógrækt. Þau voru hugsjónafólk og sáu sig í þjónustu við samfélag og náttúru.

Manstu skaphöfn Jónínu, styrk og hversu skýrmælt hún var? Manstu hve röggsöm hún var. Jónina var dugmikil, forkur, rösk og ósérhlífin í vinnu. Hún var vel verki farin. Hún var kjörkuð og stefnuföst og vílaði ekki fyrir sér það sem var erfitt. Hún var þakklát fyrir það sem hún hafði og naut og kvartaði ekki. Í henni bjó ríkuleg og jafnvel óbugandi seigla.

Skilin og eilífiðin

Nú eru orðin skil. Jónína er farin. Hún bakar ekki lengur lummur handa þér eða býður fóki í svið. Hún teiknar ekki framar eða vefur eftir ljósmyndum. Hún saumar ekki framar eða prjónar. Listakokkurinn eldar ekki framar fyrir þig eða gerir undraveislu úr afgöngum. Hún fer ekki í hjólastóla-gondólaferð í Feneyjum eða framar á tónleika. Hún er farin inn í Strandhöfn eilífðar, til Guðsteins og allra sem hún var búin að sjá á eftir inn þá tryggu höfn. Við hugsum til hennar, þökkum fyrir hana, rifjum upp, drögum heim lærdóm og visku hennar. Og lærum af henni að rækta tengslin og þora að fara gondólaferðir þrátt fyrir hjólastóla eða í mathús heimsins til að geta horft í augun á afkomendum og ástvinum.

Guð geymi Jónínu og Guð styrki ykkur ástvini .

Amen.

Við þessi skil hef ég verið beðinn um að bera ykkur kveðjur frá Hlyni Ás Hallgrímssyni í Danmörk og ennfremur kveðjur frá Ingu og Ebergs börnunum á Álfhólsvegi 97.

Minningarorð við útför Jónínu. Kistulagning og útför 4. desember, 2020. Bálför. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Guðsteinn Þengilsson + minningarorð

Hvað er lífið? Guðsteinn var í miðju hins opinbera lífs en þó var hann líka utan við. Hann var einbeittur, skýr og klár, en þó ekki algerlega séður. Hann var hreinskiptin en svo djúpur að ekki var séð til botns. Hann vildi norræn fræði en verteraði yfir í heilbrigðisvísindin, þráði greinilega fræðimennsku og grúsk, en helgaði líf sitt beinni hagnýtingu fræðanna. Útför Guðsteins Þengilssonar var gerð frá Neskirkju 9. desember 2004. Minningarorðin voru birt á síðu sem nú er niðurlögð og ég birti ræðuna að nýju hér að neðan. 

Sótti í bækur

Lítill Guðsteinn hjá ömmu á Þórðarstöðum, með bók í höndum. Hún hjálpaði hnokkanum upp í rúm, fingur fór eftir línunni, svo var lesið. Skrjáfandi blað, stafir, greinarmerki, eyður, línuskil, orð, orðasambönd, mislangar setningar. Hvað merkti þessi stafahrúga, hvernig var hægt að skilja þessa orðabendu? Orðin, fléttan og sagan öll komu til hans og fönguðu hug hans.

Svo mátti hann lesa upphátt fyrir fólkið sitt. Nýju bækur lestrarfélagsins rötuðu heim og svo fékk hann líka að lesa húslestrarbókina. Það skipti máli að lesa vel ekki síst þau orð. Alla tíð síðan las hann grannt. Hann hreifst af bókum, safnaði þeim, stráði um sig spekinni og deildi með sínu fólki ævintýrum þeirra. Eru ekki blaðsíður í góðri bók gæði fyrir lífið?

Þegar þau Guðsteinn og Jónína hófu búskap áttu þau lestrarstundir. Hún með eitthvað á prjónum eða barnaplögg í höndum og með eyrun opin. Hann með sögur herlæknisins, Gerplu, Þórberg eða ljóð Jóns Helgasonar og las fyrir konuna sína, það sem hreif hann. Hann kímdi og leiftraði.

Orð, bók og líf

Í síðustu bók Biblíunnar segir:

“Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Rit kristinna manna er bókasafn. Biblia er grískt orð í ft og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók, Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður byrjaði með orð til að tjá veruleika lífsins, forsendur þess og tilgang. Orð voru við upphaf veraldar, engin ónytjuorð, heldur orð sköpunar og verðandi. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar. Og við enda Ritningarinnar er þessi bóknálgun enn til íhugunar. Í forsæti himins er innsigluð bók, en þá bók á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?” Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers?

Uppruni og ættmenni

Guðsteinn Þengilsson fæddist á Akureyri 26. maí 1924. Foreldar hans voru Þengill Þórðarson, frá Höfða í Höfðahverfi, og Rósa Stefánsdóttir, frá Þórðarstöðum í Fnjóskadal. Foreldrarnir bjuggu ekki saman og Guðsteinn taldi líklegast, að foreldrum hans hafi verið meinað að eigast.[1] Guðsteinn var fyrst á Akureyri en síðan næstu sjö árin á Þórðarstöðum hjá móður sinni og í skjóli afa og ömmu.

Þegar Rósa giftist Hallgrími Sigfússyni, barnakennara og pósti, árið 1932, fór Guðsteinn með þeim yfir Fnjóskána og í Grjótárgerði í Fnjóskadal. Síðan voru þau eitt ár á prestsetrinu á Hálsi, en settust síðan að á kirkjustaðnum Illugastöðum í sömu sveit árið 1937. Hálfsystur Guðsteins, samfeðra, eru Guðrún og Ásta.

Skólaganga

Guðsteinn naut skólagöngu á heimaslóð fram á unglingsár og undir styrkri og umhyggjusamri stjórn móður og kennarans, stjúpa hans. Guðsteinn gerði grín að eigin búmannsraunum og sagði að ekki hefði hann verið mörg ár við bústörfin á Illugastöðum, þegar farið var að hugsa um hvað væri hægt að gera við hann því hann hafi verið rati í búskapnum!

Presturinn á Hálsi, frænka og venslafólk ýttu á og Guðsteinn var sendur í tveggja ára fóstur til Akureyrar til móðursystur og manns hennar. Þar sem hann hafði aðeins lokið barnaprófi hjá stjúpanum settist hann fyrst í 2. bekk gagnfræðaskóla og tók svo gagnfræðapróf vorið 1944. Sama vorið freistaði Guðsteinn þess að taka inntökupróf í Menntaskólann á Akureyri. Vorið var því strembið, mikill lestur, puð en góð útkoma. Í þrjá vetur naut Guðsteinn menntaskólalífsins. Hann var orðinn tvítugur, þegar hann hóf það nám. Hafði næði til að hugsa pólitík, menningarmál, að lesa og lifa. Þetta var Guðsteini góður tími, í góðum skóla, kennarar miklir fræðarar og fyrirmyndir. Stúdent varð hann frá MA árið 1947.

Guðsteinn skrifaði sjálfur: “Nú var ég orðinn stúdent, en hvaða háskólagrein átti ég að nema? …Stúdentspróf veitir í sjálfu sér engin réttindi til eins eða neins. Loks komst ég að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að ég hafði numið í stærðfræðideild menntaskóla, að innritast í norrænudeild.” En þegar hann skrifaði þessi orð fyrir skömmu hefur hann orðað bakþanka öldungsins og bætir við: “Helst hefði ég viljað stunda framhaldsnám í stærðfræði, stjörnufræði og stjarneðlisfræði, en það hefði ég þurft að gera við erlendan háskóla. Þangað átti ég engan kost að fara, a.m.k. sá ég enga leið til þess.”

Norræn fræði stundaði Guðsteinn í tvö ár. Þegar hann hafði lokið upp hinum innsigluðu ritum þeirra fræða leitaði hugurinn annað. Sjálfsagt hefur raunvísindaþráin líka seitt og afkomuvitundin. Guðsteinn söðlaði um og hóf nám í læknadeild skólans haustið 1949 og lauk læknaprófi vorið 1956. Það sumar fór hann norður og vann kandídatstímann á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Á árunum 1957-63 var hann héraðslæknir á Suðureyri við Súgandafjörð. Þá lá leiðin til Svíþjóðar og Guðsteinn starfaði á sjúkrahúsi í Uddevalla í tvö ár og svo kallaði Hannibal Valdimarsson fjölskylduna heim á Suðureyri á ný. Þar var hópurinn til 1968 er þau fluttu suður í Kópavog.

Guðsteinn var síðan heimilislæknir í Reykjavík og síðar á Heilsugæslustöð Kópavogs. Hann var um árabil einnig fangelsislæknir. Árið 1982 var Guðsteinn ráðinn yfirlæknir við dvalarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi og gegndi hann því starfi til ársins 1996.

Á árinu 1997 hóf Guðsteinn síðan störf sem sjálfboðaliði í Þjóðabókhlöðunni við flokkun gagna og innslátt bréfasafna. Yfirgripsmikil þekking hans á fræðum, fólki og samfélagi nýttist vel í þessi sjö ár sem hann þjónaði handritadeild Landsbókasafnsins. Mér hefur verið falið að bera fram þakkir deildarinnar fyrir allt hans góða starf. Guðsteinn var á leið í vinnuna þegar hann var bráðkvaddur hinn 1. desember síðastliðinn, á leið til vinnu í bókhlöðu þjóðar sinnar, á fullveldisdegi.

Jónína og börnin

Guðsteinn og Jónína Stefánsdóttir kynntust á Kleppi sældarsumarið 1952. Hún var komin í nokkrar ógöngur því sjúklingur hafði náð taki á hári hennar og tók fast í. Guðsteinn kom gangandi með sprautu, varð vitni að stimpingunum en stökk þó ekki til fyrr en sprautan var örugglega komin í var. Þá var hann tilbúin að leggja henni lið. Jónínu þótti maðurinn bæði ótrúlega skipulagður, varkár og skýr í viðbrögðum og vildi því kynnast manninum betur. Hún var þá hjúkrunarnemi og hann læknanemi. Þau urðu kunningjar, svo vinir og settu svo upp hringana 13. desember og gengu í hjónaband 3. febrúar 1954. Þau eru því búin að eigast í meira en fimmtíu ár.

Guðsteinn var hamingjumaður í einkalífi, átti í Jónínu vin, andlegan og faglegan sálufélaga og samstiga lífsförunaut. Þau eignuðust fimm börn. Þau eru eru Stefán (f. 1954); Rósa (f. 1956); Sigríður (f. 1962); Hallgrímur (f. 1965) og Karl Jóhann (f. 1966). Þau tóku tengdabörnum opnum örmum og fögnuðu og nutu barnabarnanna, en eitt þeirra er látið. Þessu fólki, tengdabörnum, venslafólki og ástvinum var Guðsteinn glaður og hollur vinur, fræðari og stuðningur.

Ræktunarreitir

Málsgreinar í lífsbók Guðsteins eru margar og fjölbreytilegar. Guðsteinn lærði ekki aðeins orð í Fnjóskadal heldur einnig að vinna. Hann lærði hin almennu sveitastörf en náði jafnvel að sinna því einstaka starfi að vera geitasmali. Og Guðsteinn varð skógarmaður, lærði að grisja og vakta Þórðarstaðaskóg. Hvað ungur nemur gamall temur. Félagi í Skógræktarfélagi Kópavogs varð hann á seinni árum og fylgdist með skógræktarmálum. Hann varð síðan ræktunarmaður á mörgum sviðum.

Hann beitti sér fyrir ræktun lýðs. Á fullorðinsárum varð hann brennheitur áhugamaður um bindindismál. Hann hafði séð og reynt böl ofneyslu áfengis og vildi leggja lífinu lið, ritaði margar greinar um bindindismál í blöð og tímarit og sat í Áfengisvarnaráði. Þá var hann félagi í Lionshreyfingunni um árabil.

Hann vildi fræða um læknisfræði og ritaði hina merku bók Læknisfræði í ritröð Menningarsjóðs um vísindi. Þá þýddi hann fræðslurit um unglingaástir, ritaði fræðslubókina “Læknirinn svarar” sem ætluð var almenningi, sem leitaði svara um sjúkdóma og lækningar. Þá ritaði hann fjölda greina um ýmis framfaramál og þjóðmál.

Guðsteinn var hallur undir sameignarhyggju, tók þátt í pólitík öll sín fullorðinsár. Í þeim efnum var hann óhvikull og rásfastur vinstri maður. Hann var félagi í Samtökum herstöðvaandstæðinga og hvatti aðra til þátttöku í þeim félagsskap. Hann gekk Keflavíkurgöngur og 1. maígöngur. Þau Jónína opnuðu heimili sitt fyrir boðbera vinstri stefnunnar vestur á Suðureyri, hýstu þá og fæddu.

Guðsteinn var í andstöðu við hvers kyns auðvald, hvort sem það var að hernaðarbrölti í Asíu eða bauð læknaferðir í skjóli lyfjafyrirtækja. Hann afþakkaði slíkt og veitti andóf og oftast ljúfmannlega. Þau hjónin luku sínum pólitísku afskiptum með því að skipa heiðurssæti á lista Vinstri grænna í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogi.

Mannúð

Í Guðsteini átti mannúðin dyggan fulltrúa. Hann bar sjálfum sér fagurt vitni og varð mér eftirminnilegur fulltrúi sinnar stéttar í því hversu vel hann sinnti föngum þegar hann varð fangelsislæknir. Í tvö sumur, á átakatímum Geirfinnsmála, fylgdist ég með með hversu gott lag Guðsteinn hafði á föngunum í Síðumúlafangelsi. Hann virti manngildi þeirra, og vann meðvitað að því að koma þeim til hjálpar og manns. Það var ekki auðvelt, en fangarnir mátu hann mikils og töluðu vart betur um nokkurn mann en fangelsislækninn.

Einu sinni sagði Guðsteinn við mig eftir viðtal að það væri alveg ótrúlegt hvað hægt væri að læra mikið af föngunum. Þeir hefðu svo mikla þekkingu á hvernig ólík lyf virkuðu saman, að þeir veittu honum meiri þekkingu en hinar lærðustu fræðigreinar. Guðsteinn bar í sér slíka jákvæða fróðleiksfýsn, sem jafnan kom út í plús og varð öðrum til manndómshvatningar.

Safnari gæðanna

Guðsteinn safnaði mörgu, ekki aðeins bókum. Hann skrifaði niður vísur, sem kannski hafa orðið honum farvegur tilfinninga og jafnframt skemmtunar. Hann kunni ókjör slíkra og um flest undir himninum. Hann gat því orðið vísnavinum til gleði í ólíkum aðstæðum með smellnu vísukorni. Hann skemmti börnum og frændum með þrautum. Hann hafði auðvitað góða þekkingu á ýmsum þáttum þjóðmenningar og skemmti sér yfir óheppilegum málsháttavillum. Hann kvakaði yfir ef einhverjum varð á að segja þjóf koma úr heiðskíru lofti.

Lífsbókin

“Í hægri hendi hans …sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða… ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?”

Hvað er lífið? Hvað er innsiglað og hvað er opinbert? Guðsteinn var í miðju hins opinbera lífs en þó var hann líka utan við. Hann var einbeittur, skýr og klár, en þó ekki algerlega séður. Hann var hreinskiptin en svo djúpur að ekki var séð til botns. Hann var stilltur sjentilmaður, þægilegur og skemmtilegur, en þó var eitthvað meira. Hann var félagslyndur en naut sín fremur í smáum hóp en stórum. Hann vildi norræn fræði en verteraði yfir í heilbrigðisvísindin, þráði greinilega fræðimennsku og grúsk, en helgaði líf sitt beinni hagnýtingu fræðanna.

Hver dýptin?

Hver var þessi maður? Engin ævi er opinber, enginn verður séður algerlega. Guðsteinn var fjölhæfur hæfileikamaður, sem ræktaði vel sinn reit, sitt fólk, sjálfan sig, embætti og frændgarð. En hann verður ekki séður, við getum aðeins leitt líkum að ýmsu í lífi hans og íhugað. Hversu miklu skipti, að þrátt fyrir gott atlæti fór hann á mis við föður á mikilvægum mótunarárum? Af hverju þessi fjölþætti og margþætti fræðaáhugi? Af hverju sótti Guðsteinn bókasöfnun svo fast?

Auðvitað varð hann alfræðingur, eins og fjölmenntaður endurreisnarmaður. En hann skildi líka manna best takmörk þekkingar. Hann las sína Biblíu ungur, las um trúarbrögð alla ævi, vissi vel um bóktengingu Gyðingdóms, kristni og Islam og hvað þröng bókfesta getur orðið skelfilegt tæki í höndum einsýnna kreddumanna, sem telja sig eina geta upp lokið lífsbókinni. Með slíkum átti hann enga samleið.

Hverju skiluðu allar bækurnar Guðsteini? Visku, vökulum huga, útsýn. Hann var vökumaður þjóðar og einstaklinga, knúinn mannúð. Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. En Guðsteinn gerði sér grein fyrir að ekki var allt séð eða skilið. Fræðileg eðlisfræði og þróun í stjarnfræði kitlaði hann löngum. Hvað þýddi það, ef rauntilveran átti sér aðrar víddir, hliðstæður? Hann gerði sér alveg grein fyrir hvað þessi vísindi opnuðu margar fræðaæðar um eðli heims og manns og jafnframt flengdu upp kosmólógískum og þar með trúarheimspekilegum spurningum.

Lífsbókin. Hver er maklegur að opna? Lokið lífi. Var lífið hans Guðsteins við lok, eða er það kannski eins og hvert annað undursamlegt upphaf, eins og byrjun á spennubók sem tekur öllum fram, sem hann las á sínum tíma? Getur verið að nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings, meiri útsýnar því sá sem var hið mikla orð, samhengi bókanna til forna, hafi verið verðugur að opna hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem öll flokkun gengur upp í himnesku Deweykerfi, þar sem fangar og frjálsir lifa saman í sameign og bræðralagi, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði? Í því er undur trúarinnar, að efasemdamaðurinn má vona hið góða.

Lífsbók Guðsteins er nú blað í lífsbók veraldar. Verður bókin ávallt lokuð? Aðventa er tilkoma. Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megnar að opna er svarað með boðskap jóla um að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli allra heftinga og kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur, sjálfur sá lyfsteinn Guðs, sem læknar allt og allt færir til betri vegar.

Góður Guð blessi minningu öflugs liðsmanns lífsins, gefi konu, börnum, venslafólki og afkomendum líkn í sorg, og okkur öllum mátt til að lifa vel og með manndómi og elsku.

Amen.

[1] Heimild Heima er best 7/8 54. árg. júlí/ágúst 2004, bls. 296. Aðrar tilvitnanir í þessum minningarorðum eru einnig úr þeirri grein Guðsteins.

Útför í Neskirkju, 9. desember 2004. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Magnea Dóra Magnúsdóttir – 100

Tengdamóðir mín, Magnea Dóra, hefði orðið eitt hundrað ára í dag. Hún fæddist 25. nóvember árið 1920. Hún lést í árslok árið 2003, 31. desember. Minningarorðin sem ég flutti við útför hennar í  Hallgrímskirkju 9. janúar 2004 eru hér á eftir. 

Þegar líf hennar kviknaði slokknaði lífsljós pabbans

Báturinn hans Magnúsar hentist til í öldurótinu við Bjarnarey og hvolfdi. Allir bátsverjar fóru í hafið. Sigrún stórasystir stóð við gluggann heima og beið eftir pabba, sem aldrei kom. Sjórinn rændi hamingju, ástinni, fyrirvinnu og föður. Missir eiginmanns og föður var skuggi fjölskyldunnar á Jaðri, svo langur að hann teygði hramm sinn yfir allt líf Magneu Dóru Magnúsdóttur. Þegar myrkrið læðist að verða lífsljósin björt og sjást – jafnvel úr fjarska – og duga þegar bródera skal lífslistaverk.

“Drottinn gekk fram hjá … og kallaði: Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.” (2. Mósebók 34:6)

Líf Magneu var nánast aðeins draumur Guðs þegar líf föður hennar hvarf í faðm Guðs. Líf hennar var nýkviknað þegar líf pabba hennar slokknaði. Hvaða gæska er það að skilja eftir ekkju með ómegð og nývakið fóstur? Hvaða tilfinningar til Guðs og manna hafa brotist um í þeim sem eftir lifðu? Hvers konar Guð ertu? Ertu miskunnsamur og harla trúfastur? Úr angistardjúpi er hrópað upp í myrkan himininn. Af hverju var ekki einu sinni hægt að fá að jarða hinn horfna? Hver kallar og til hvers?

Lífsstiklur

Magnea Dóra Magnúsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 25. nóvember 1920. Foreldrar hennar voru Kristjana Þórey Jóhannsdóttir og Magnús Hjörleifsson. Kristjana var fædd í Holtum í Rangárvallasýslu, en Magnús var ættaður að austan, fæddist í Norðfirði. Hann lést í mannskaðaveðri 2. mars 1920. Hann var sjómaður og formaður á mótorbátnum Ceres. Þau Kristjana áttu tvö börn er Magnús féll frá. Kristinn er látinn en Sigrún lifir systir sína. Magnea Dóra fæddist tæpum níu mánuðum eftir að faðir hennar lést. Magnús hvarf en Magnea kom. Og hún hlaut líka Dórunafnið. Það er íhugunarvirði, að nafnið hennar merkir: Hin mikla gjöf! Enda sagði ljósan við móður hennar að hún yrði henni lífgjöf síðar. Það gekk eftir.

Kristjönu var vandi á höndum þegar hún var orðin ekkja. Henni var ráðlagt að selja Jaðarinn, sem hún gerði og sá eftir. Hún fékk að vera með börnin sín um tíma í einu herbergi í húsinu, en fluttist svo til skyldfólks í Vestmannaeyjum. Venslafólk og vinir studdu, en þó fóru í hönd áratugir basls og búferlaflutninga. Kristjana hélt fast í börnin sín, en samt slitnuðu þau frá henni henni á ýmsum tímum. Fjölskyldumyndirnar segja sláandi sögu. Það er glöð mamma á myndum áður en Magnús hvarf, en döpur augu sem stara í kalda linsu myndavélarinnar þegar Magnea var fædd. Kristinn fór að lokum til afa og ömmu í Sandgerði. Sigrún var í vist víða og stundum með mömmu. Kristjana var forkur, sleit sér út við vinnu, þrælaði til að koma börnunum til manns. Stritið og hinn horfni faðir var samhengi og ógnardjúpið sem Magnea Dóra ólst upp við. Hlutverk lífsins var að vinna úr. 

Þegar Magnea Dóra var um tíu ára gömul fór hún til Sandgerðis, var nokkur ár hjá frændfóki sínu í Hjarðarholti og síðan í Sandvík. Hún sótti grunnskóla í Sandgerði bjó þar fram undir tvítugt. Öll stríðsárin bjó hún í Reykjavík, hér nærri Skólavörðuholtinu, þá kirkjulausu. Eins og mörg ungmenni á þeirri tíð fór Magnea Dóra á síld og var með systur sinni í fjörinu, slorinu og stritinu á Siglufirði. Veturinn 1942 –43 sótti Magnea Dóra Húsmæðraskóla Reykjavíkur og eignaðist þá lífsvini í vistarsystrum sínum. Vegna hannyrðahæfni var hún síðan ráðin að Hattabúð Soffíu Pálmadóttur og vann þar við sauma á árunum 1943 – 50, lærði að meta efni, snið og handbragð. Það reyndist henni síðan vel þegar hún rak eigið stórheimili.

Magnea Dóra vissi af Jóni Kr. Jónssyni. Hún hafði séð hann í Sandgerði þegar hún var unglingur, heyrði af krafti hans og dugnaði. Jón kom ofan af Skaga 1934 til að vinna hjá bróður sínum í þjónustu útgerðar þeirrar, sem síðar varð Miðnes og var forsenda allrar uppbyggingar í Sandgerði. Jón varð síðar útgerðarstjóri þess fyrirtækis. Þau Jón Kr. og Magnea Dóra gengu í hjónaband árið 1950. Hjúskapur þeirra var ást- og gæsku-ríkur. Þau báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru og voru vinir. Þó Jón væri öflugur stjórnandi á sínum reit virti hann skipstjórann í brúnni heima. Hann var natinn faðir, taldi aldrei eftir sér að sendast eftir efni, húsmunum, skoða og kaupa kjóla á allar konurnar sínar. Fyrsta barn þeirra var stúlkubarn, andvana fætt. Síðan komu þrjár systur, þær Ingunn Guðlaug, Kristjana og Elín Sigrún.

Húsmóðirin

Það kom sér vel á heimili, sem var opin félagsmiðstöð, að Magnea Dóra var húsmæðraskólagengin. Hún hafði gaman af verkum. Hún sneið og saumaði, stagaði vinnuföt af fólkinu sínu. Magnea Dóra var góður kokkur og vön mikilli matarumsýslu. Á meðan börnin voru heima og Jón Kr. vann erfiðisvinnu bakaði hún fyrir tíukaffi og síðdegiskaffi og svo fimmkaffi líka. Hún eldaði svo bæði fyrir hádegi og kvöldmat, saltaði, sultaði og saftaði eins og íslenskar konur gerðu á þeim tíma. En hún staðnaði aldrei, var alltaf tilbúin að skoða eitthvað nýtt. Það var ævintýri líkast að fylgjast með hversu snögg hún var þegar hún sá skemmtilega uppskrift í dagblaði að morgni. Þessi kona á níræðisaldri var oft búinn að kaupa hráefni og annað hvort baka eða elda réttinn um hádegið. Svo skannaði hún Gestgjafann og var alltaf til viðræðu um krydd og kokkarí. Hún fagnaði öllum sem þjóðhöfðingjum og þegar hún var búin að drekkhlaða borð með ótrúlega mörgum tegundum af mat lauk hún verkinu með setningunni: “Þið ruglist víst ekki á sortunum” og hló svo við.

Þau Magnea Dóra og Jón Kr. bjuggu allan sinn búskap, nær fjóra áratugi, í húsinu sem  þau byggðu og stendur við Tjarnargötu í Sandgerði. Jón Kr. ætlaði að láta af störfum í árslok 1990 og þau hugðust flytja í bæinn. Áður en af því varð féll Jón með landfestakaðalinn í höndum á kæjann, aðeins sjötugur að aldri. Hann féll og dó í miðju verki á sínum stað. Magnea Dóra fór því ein frá Sandgerði. Hún bjó á Seltjarnarnesi í þrjú ár og flutti síðan á Grandaveg 47. Magnea Dóra Magnúsdóttir veiktist 29. desember og lést á gamlaársdag. Árið var liðið og lífi lokið.

Drottinn kallar og sólarsýn

„Drottinn … kallaði: Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”

Mannvænlegt stúlkubarn dó í fæðingu, fæðingarskugginn settist að sálinni. Skuggi bernskunnar og föðursorgar og margflókins móðurmissis lengdist. Í Magneu Dóru var rifið og henni var skellt á jaðarinn, jaðar lífsins og gleðinnar. Hvorum megin myndi hún verða? Missir reynir stálið í fólki og þegar eldur sálarinnar geisar hrópar hún? Er tilveran gæskurík? Hver ertu Guð? Af hverju þessi áraun? Hafið þrumaði við ströndina, trommaði dauðans alvöru og nálægð voðans. Þegar óveðrin voru sem mest fór Jón Kr. niður að höfn og var oft einn að slaka og strekkja landfestar. Stundum skolaði honum jafnvel út í höfnina en náði að krafla sig upp og kom holdvotur – en lífs – heim. Magnea Dóra var stundum döpur og hrædd en móðir líknaði, systir studdi, eiginmaður hvikaði aldrei, vinkonurnar glöddu og hleyptu upp kátínunni. Lífskallið var að ofan frá þeim, sem ekki lætur sér nægja að hrópa til mannsins, heldur kemur sjálfur, fer alla leið í öldudjúp mennskunnar og sópar með sér öllu lífi inn í birtuna á ný. Í þeirri miklu sveiflu er allur geimurinn og líka einstaklingarnir. Magnea Dóra var hrifin með, fór frá jaðrinum á ný og inn í lífið með góðum manni og tápmiklum stelpum. Á Grandaveginum var hún sæl en sagði: „Mér er sama þótt ég sjái aldrei sjó, er búinn að fá nóg af honum!” Hún var þar sunnanmegin og hafði engan áhuga á öldunum, hafði algerlega snúið við þeim baki. Líf hennar var mót sólu og íbúar á Grandaveginum voru henni dásamlegir nágrannar.

Lífssamhengið og ríkidæmið innra

Þetta er hið stóra lífssamhengi Magneu Dóru. Hvað þýddu þessi köll um missi en þó gæsku? Þegar að fólki er þrengt verða kostirnir jafnvel aðeins tveir, líf eða dauði. Magnea Dóra valdi lífið og hún hafði líka bæði þroska, greind, visku og stuðning til að velja andleg lífsgæði og því varð hún bæði rismeiri, dýpri og skemmtilegri en flestir – og einnig áhugasamari um líf í nútíma en einhverri fortíð. Hún lærði að það er ekki gott að draga trossurnar á eftir sér þegar maður er búin að draga um borð. Þegar svo er komið siglir maður. Lífssigling Magneu var ekki síst fólgin í jákvæðri lífsafstöðu. Henni leiddist því barlómur og neikvæðni. Hún tamdi sér lífsgleði og forðaðist þumbara. Hún tamdi sér hlýju og sneiddi hjá kuldabolum í mannheimi. Hún gerði sér snemma grein fyrir að lífshamingjan er ekki fólgin í að fá og ná, heldur að gefa. Aldrei fór hún í heimsókn til vina eða ættingja án þess að koma færandi hendi. Servíettur, vettlingar, blóm, heimagerð sulta, brauð, kökur og súkkulaði í litla munna fóru í löngum og óslitnum röðum á heimili og í hús vina, ættingja og þeirra sem henni var annt um. Fyrsta hugsun hennar var að gefa og önnur hugsun að gefa meira. Hún átt ekki í sér snefil af neysluafstöðu sem reynir að bæta sér upp elskuskort og sálarsársauka með því að taka til sín, sölsa undir sig, kaupa eða hrifsa. Magnea Dóra hafði ríkidæmið innan sér og því gaf hún. Hann hafði þroskað með sér lífslán og lífsfyllingu. Og hún var spilandi orðhnittinn húmoristi. Hún lagði vel til allra og bætti úr hræðilegum uppákomum með því að kveða upp úr: „Það er best sem vitlausast.” Ungviðið fékk svo sitt uppeldi og lærði fljótt hvað gleypugangur væri og gerði sig ekki sekt um slíkt nema einu sinni. Orðin hennar Magneu og atferli var allt í þágu þess að gera gott, gefa fólki. Hún var með afbrigðum gjafmild og það var einn meginstofn persónu hennar.

Félagsþjónusta

Vegna þess að Magneu var umhugað um fólk og velferð þess axlaði hún meira en henni bar skylda til. Kona útgerðarstjórans hafði engar skyldur aðrar en þær borgaralegu við samfélag og atvinnulíf. En viðgerðarmenn í bátum, við vélar og hús komu heim í kaffi og mat fyrirvaralaust með Jóni því enginnn var veitingastaðurinn í Sandgerði. Magnea Dóra svaraði í símann allan sólarhringinn, hlustaði á talstöðina og miðlaði til síns manns. Hún miðlaði málum í hjúskapardeilum sjómanna og kvenna þeirra, gekk í sálgæslu gagnvart eiginkonum sem áttu í vandkvæðum, skaut skjólshúsi yfir þau sem áttu í útistöðum, var athvarf fyrir máttlitla og leyfði þeim sem voru í vanda að vera meðan þurfti. Hún var í fullri en launalausri vinnu við að stjórna félagsþjónustu Miðnes. Hennar hvati var að sinna kalli að innan. 

Lífsvernd

Magnea hélt ákveðinn vörð um menntun og uppeldi dætra sinna, gætti að námi þeirra og hvatti þær til námsdáða. Og hún elskaði smáfólkið sem henni bættist smátt og smátt. Hún naut þess að bera það inn í lífsljósið og styðja við þroska þeirra. Þegar dóttirdóttir hennar, Tinna, fæddist fékk Magnea nýtt hlutverk í lífinu sem hún tók fagnandi. Hún varð amma. Tinna var langdvölum á heimilinu í bernsku. Síðan kom Magnús og þau urðu bæði ömmunni augasteinar. Þegar hún fluttist í bæinn varð samgangurinn enn meiri. Magnea Dóra var barnagæla og elsk að ungviði stórfjölskyldunnar.

Menningargleðin – að lifa í núinu

Magnea Dóra var óbangin við Reykjavíkurbraginn þegar hún flutti í bæinn. Hún var fullkomlega opin eins og ungmenni gagnvart hvers konar hræringum í menningarlífinu. Hún ræddi um nýjustu myndböndin á Popptíví við unglinga, sló þeim við í yfirsýn varðandi nýjustu myndirnar í bíó. Henni fannst gaman í óperunni, var næm á tónlist og sá efni í tenóra á löngu færi meðan þeir voru enn blautir á bak við eyrun. Það var hrein upplifun að fara með henni í leikhús, hún þekkti alla leikara, gat áreynslulaust rakið leiksögu þjóðarinnar. Henni var sama um þó hún missti af sumu af því, sem við bulluðum í kringum hana, en þegar hún heyrði ekki lengur hvað leikararnir sögðu fékk hún sér heyrnartæki. Hún vildi ekki fara á mis við þau gæði. Þegar hún dó átti hún að sjálfsögðu miða á sýningu í Borgarleikhúsinu. Hún stoppaði í Kringlunni fyrir framan tískuverslanirnar, skannaði efni og sniðin. Og gerði sér nákvæma grein hvernig skvísufatnaður hvers tíma var. Það var svo hressandi að upplifa endurvinnslu hennar í lífinu og hve síung hún var. Hún var vitur nútímakona og óhrædd við framtíðina. Hún átti traustið í grunni sálarinnar og það er systir trúarinnar. Af því hún var svo félagslynd sótti hún út til fólks, sótti að vera með fólki þar sem verið var að skapa, iðja eitthvað merkingarfullt.

Hvað ætlum við með sögu Magneu Dóru?

Drottinn kallaði! Hvað kallar Guð á langri ævi, í missi og gjöf, þjáningu og gleði? Kall Guðs er:

“Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”

Magnea hafði heyrt þetta kall. Hún valdi að lifa, hún hafði orðið endurómur þess hróps í lífinu. Hún var miskunsöm og líknsöm, þolinmóð og gjafmild. Trúföst í öllum tengslum við fólk. Guð kallaði – hún heyrði og svaraði með þvi að lifa vel. Undarlegt er að hugsa um bernskuhúsið hennar í Vestmannaeyjum. Í Heimaeyjargosinu geisaði hraunið fram og stefndi beint á það. Eyðingarflóðið náði þó aldrei að hremma húsið hennar. Það stendur enn – og við hraunfótinn. Svo var lífið hennar Magneu Dóru. Hraunelfur sorgarinnar sótti að henni. Hún var um tíma á jaðrinum, en lifði og lifði síðan stórkostlega. Svo lifir hún með fullum lífskrafti til enda árs og deyr svo fullkomlega óvænt á gamlaársdag. Alveg í samræmi við lífshátt, skopskyn og lífsafstöðu.

Hvað getum við lært og gert? Við eigum í Magneu Dóru fyrirmynd um að heyra kall miskunnsemi og gæskunnar, snúa okkur að ljósinu og lífinu, draga ekki fortíð með okkur í tíma, heldur lifa í krafti upprisu og að lífið er gott – því Guð er gæskuríkur.

Magnea Dóra lifði ríkulega meðan hún var á lífi og svo dó hún algerlega, en við jaðar ársins. Hún elskaði hið nýja og óflekkaða ár, fór alltaf í kirkju til að fá að syngja sálmana á nýja árinu. Nú fer hún af jaðrinum sínum, alla leið, inn í miðju lífsgleðinnar, inn í miðju jákvæninnar, huggunarinnar, inn í miðjuna þar sem ástirnar hennar eru, dóttir, maðurinn hennar, pabbi, mamma og öll hin sem hún elskaði svo heitt. Þar er Guð, sem safnar öllu lífi saman í einn mikinn lofsöng. Þar er ekki aðeins kallað heldur sungið hástöfum:

“Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”

Amen

Minningarorð við útför frá Hallgrímskirkju 9. janúar 2004. Myndina af  Magneu Dóru og Elínu Sigrúnu tók ég í Hamraborg í Árnessýslu sumarið 2001. Það var svo gaman hjá þeim mæðgum í lautarferðinni að læknum. 

Pétur Haukur Guðmundsson +++

Á þessum fagra degi – og jafnvel í grænlensku góðviðri – kveðjum við Pétur Hauk Guðmundsson. Öflugan mann, kraftmikinn fagmann með skarpan huga. Pétur gerði kröfur til sjálfs sín, var mikill af sjálfum sér, talaði ekki af sér, náin þeim sem hann tók og trúr þeim sem hann batt hug við. Verkefnin sem honum voru falin voru í góðum höndum og voru unnin til enda.

Hvað skiptir þig mestu máli í tengslunum við Pétur? Hvað var það eftirminnilegasta og hvað þótti þér vænst um? Var það festan, traustið? Já, nafnið hans merkir klettur og það var ástæða til að Jesús veldi mann að nafni Pétur, sem einn styrkasta og öflugasta byggingarmann kristinnar kirkju í heiminum. Það stóð sem Pétur Haukur byggði og lauk. Manstu húmorinn, eða spilagetuna, gáturnar hans og smáprófin? Manstu hve flottur hann var? Naustu handarverka Péturs eða eldaði hann einhvern tíma stórsteik fyrir þig með bernaisesósu? Var hann þér Haukur í horni – öflugur verkstjóri, stuðningur og traust fyrirmynd? Hann reiknaði yfirleitt rétt, en var líka opinn fyrir að hafa nota stundum rangar forsendur. Þannig vinnur öflugur og glöggur spilamaður. Og hann kunni líka að bíða í lífinu og vissi að utanaðkomandi breytur hafa áhrif á lífsferil og viðburði. Því reiknaði hann út fólk og aðstæður með íhygli og visku. Hann horfði og komst að niðurstöðu.

Lífsferill Péturs er merkilegur og íhugunarefni. Hann þurfti að hafa fyrir lífinu og var traustur í því sem hann tók að sér. Nú eru skil og þú mátt gjarnan nýta þessa stund til að hugsa um það merkilega og dýrmæta – íhuga lífið. Hvað skiptir máli og hvernig getur líf, eigindir og verk Péturs orðið þér til lífsbóta og eflingar?

Upphaf og uppvöxtur

Pétur Haukur Guðmundsson var sumardrengur. Hann fæddist á Akureyri þriðjudaginn 6. júlí árið 1948. Móðir hans var Gréta Doak Pétursdóttir. Pétur fékk nafn afa síns. Svo var hann skráður Guðmundsson í þjóðskrá og kirkjubækur. En sú feðrun var ákvörðun móðurinnar því hann var ekki kenndur til blóðföður. Pétur vissi hver raunverulegur faðir hans var og hitti hann þótt hann hafi ekki borið nafn hans. Það er margt í þessari veröld vitað þótt skráningin hafi þjónað einhverju öðru en raunveruleikanum.

Pétur var annar í röð fimm systkina. Ásta Guðrún Guðmundsdóttir – síðar Hurrin – var elst. Hún fædist árið 1947. Ásgeir V. Bjarnason var sá þriðji og fæddist árið 1952. Síðan komu Heimir Jón Guðjónsson 1954 og yngstur er John Michael Doak sem fæddist árið 1964.

Fyrstu árin bjó Pétur í fjölskylduhúsinu á Akureyri og naut gæða ástvina og fjölskyldu. Þegar Gréta, móðir hans, flutti suður var Pétur sendur í fóstur í Syðri Velli í Kirkjuhvammshreppi í V.-Húnavatnssýslu. Þar ílentist hann hjá Steinbirni Jónssyni og Elínbjörgu Jónasdóttir. Þar var barnafjöldi og hann var yngstur. Pétur eignaðist á Syðri Völlum fimm fóstursystkini sem hann naut samvista við og lærði af. Þau eru Steinbjörn Björnsson, Álfhildur Steinbjörnsdóttir, Samúel Ósvald Steinbjörnsson, Anna Steinbjörnsdóttir, kölluð Dúdda, og Sigurður Ingvi Steinbjörnsson. Heimilið var gott og það var ekki bara puð heldur líka skáldskapur í heimilismenningunni – tengingar til moldar, út til samfélags og upp í hæðir andans.

Steinbjörn og Elínbjörg hættu búskap þegar Pétur Haukur var á unglingsaldri. Þau fluttu suður og í Hveragerði árið 1962. Flutningurinn var til góðs fyrir Pétur. Hann naut bæjarlífisins syðra, eignaðist félaga í skólanum og á fótboltavellinum og hafði gaman af að etja kappi við sveitunga og líka Selfyssingana. Hann var duglegur og eftirsóttur til vinnu og góður félagi.

Námsmaðurinn og fjölhæfur dúx

Pétur hóf skólagöngu fyrir norðan, í Vestur Húnavatnssýslu og hélt svo áfram námi í Hveragerði. Svo fór hann norður á Akureyri og auk námsins í MA varð hann snjall briddsspilari. Hann festi ekki hug við menntaskólanámið og fór í launavinnu og var m.a. í múrverki hjá Hauki frænda. Pétur talaði oft um tímann fyrir norðan og sagði skemmtisögur af litríku mannlífi í höfuðstað Norðurlands.

Pétur var skarpur, söggur að læra og gerði sér fljótt grein fyrir að það væri betra að hafa starfsréttindi en ekki. Hann skráði sig í Tækniskólann og lauk byggingatæknifræði árið 1974. Skemmtilega saga um Pétur barst til mín nú í vikunni alla leið frá Tyrklandi. Sigurjón Jónsson og Pétur voru félagar í skóla. Þeir höfðu steypt og kunnu til verka og töldu sig geta nýtt dæmatímann betur en að reikna. Þeir tefldu því og Steindór kennari horfði á þá við skákina á meðan hinir nemarnir reiknuðu. En Pétur og Sigurjón urðu þó dúxarnir um vorið. Þeir sem reiknuðu um veturinn töldu að þeir hefðu orðið svona snjallir vegna þess að skákin hefði eflt heilastarfsemina. En Sigurjón fullyrti að þeir hefðu bara verið góðir í fræðnunum líka.

Svo bætti Pétur við réttindum í múrverki. Hann varð meistari í því fagi einnig. Pétur var alla tíð góður í því sem hann tók sér fyrir hendur eða sinnti. Hann gerði kröfur til sjálf sín, setti kröfurnar hátt varðandi gæði þess sem hann vann að. Hann var fagmaður í anda og störfum. Hann gat gert margt en dúxað samt.

Með tæknifræðiprófið upp á vasa og múrverkið að auki fékk Pétur vinnu hjá Hafnarfjarðarbæ. Hann vann að og stýrði framkvæmdum á vegum bæjarins. Árið 1983 söðlaði hann um og fór yfir til Hagvirkis og var meðal annars staðarhaldari við Sultartangavirkjun sem fyrirtækið byggði. Um 1990 ákvað hann að vera engum öðrum háður og var með eigin verktakarekstur. Hann tók að sér verk eða vann sem undirverktaki. Árið 1997 fór hann með gömlum félögum sínum hjá Hagvirki til Grænlands og vann þar á vegum Íslenskra Aðalverktaka. Það var upphafið að langdvölum Péturs á Grænlandi. Næstu árin vann hann til skiptis í Keflavík og á Grænlandi. Pétur náði að vera langdvölum á austurströnd Grænlands, vesturströndinni og syðst líka. Hann var í Tassilak, Assiat og Nanortalik. Árið 2009 flutti hann svo til Nuuk þar sem hann fór að vinna fyrir KANUKOKA, sem var samband sveitarfélaga. Í þágu þeirra vann hann til 2018 þegar sambandið var leyst upp. Eftir það gerðist hann eftirlitsmaður með uppyggingu spennistöðvar sem hann vann við þar til veikindi meinuðu honum að starfa áfram.

Ástin og fjölskyldan

Svo er það heimilislífið og ástin í lífi Péturs Hauks Guðmundssonar. Hann var 22 ára þegar hann sá Magneu Þórunni Ásmundsdóttur austur á Laugarvatni. Sumarið var þeim gott og þau urðu par. Þau giftust í september árið 1971. Þau eignuðust dæturnar Ásdísi Elvu og Árdísi Ösp. Þau gengu líka John, yngsta bróður Péturs í foreldrastað. Þau Pétur og Magnea skildu árið 2000.

Ásdís Elva er myndlistarkennari í Norðlingaskóla. Hún er gift Hallgrími Ólafssyni.  Börn þeirra eru þau Ísabella Ýrr (1997) og Kormákur Logi (2001).

Árdís Ösp er meistari í bílamálun. Hún er gift Destiny Nwaokoro. Börn þeirra eru Pétur Uzoamaka (2018) og Ásmundur Obiageri sem er nýkominn í heiminn (2020).

Á Grænlandi kynntist Pétur Elisu Olsen. Þau gengu í hjónaband árið 2006 og voru um tíma með fósturdrenginn Erneeraq hjá sér. Þau skildu árið 2016.

Síðustu tuttugu árin bjó Pétur á Grænlandi og lést hann á heimili sínu þann 8. september síðastliðinn.

Mótun

Lífsferill Péturs er laðandi og vekur marga þanka. Upphafið og lífsmótunin var flókin en Pétur varð mikill af sjálfum sér. Hann vann úr lífsháska áranna og var stöndugur og staðfastur í lífinu. Hvernig leið barninu að fara að heiman og í fóstur hjá vandalausum? Hvað skilur slíkt eftir? Það var eftirminnilegt að heyra af því að þegar hann var barn og átti að sækja kýrnar í haga fann hann þær ekki. Í ljós kom að hann var sjónskertur. Og alla tíð síðan vildi hann gera vel, var ákveðinn að skila sínu og missa ekki sjónar á verkefnu sínum í lífinu. Hvaða áhrif hefur föðurleysi á persónumótun? Og hvernig mótast maður af því að eiga sér mörg systkin en vera lítið hjá þeim, mörg fóstursystkin og öll mun eldri? Hvað var það í grænlenskri menningu og náttúru sem seiddi Pétur svo mjög að hann var ekki bara heima í Vestur Húnavatnssýslu, í Hveragerði, Hafnarfirði eða Skerjafirðinum? Hann var heima á Grænlandi, skynjaði hræringar fólksins, blístraði jáið á innsoginu að grænlenskum hætti og lagði gott til uppbyggingar samfélagsins. Hann vildi líka deyja fjáls í Grænlandi þótt líkami hans yrði lagður í festu íslenskrar moldar. 

Lífið í eilífð
Nú er lagður upp í lengstu og hinstu ferðina. Hann eldar ekki framar fyrir þig og pískar bernaisesósu. Hann dottar ekki framar með barnabarn við brjóst. Þú getur aldrei hringt í hann eða leitað til hans með einhver mál, stærri eða minni. Hann klæðir sig ekki framar upp. Bendir ekki á glas í hyllu eða leggur til góða meðferð á lífverum heimsins. Hann keyrir ekki framar stóran bíl eða rennir línu í á. Hann kennir ekki lengur þakklæti eða segir sögu um fortíð sem líka er saga um hann sjálfan. Hann horfir ekki framar á fólk til að greina það og hvort það væri traustins vert. Hann talar ekki framar hægt til að hjálpa fólki að skilja stóru málin. Og dansar ekki tangó eða vals.

Nú er þessi stóri, fallegi maður farinn inn í himininn, Syðri Velli eilífðar. Þar er ljómandi stuð, kærleiksheimur þar sem allt er rétt. Allar sudoku-þrautir lífsins ganga upp. Drengur góður, vinur vina sinna, óáreitinn. Takk Pétur Haukur.

Guð geymi Pétur Hauk og Guð styrki ykkur ástvini og vini. Amen.

Hallgrímskirkja 25. september 2020, útför. Kistulagt í Kapellunni í Fossvogi 23. september. Bálför. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði.

Guðjón Ármann Eyjólfsson +

Í milljónir ára hafa menn starað upp í himininn – og hugsað. Hvað merkir þessi blikandi mergð þarna uppi? Hvað er að baki? Er eitthvað hinum megin? Og þegar mannabörnin hafa legið á bakinu, séð stjörnuhröpin og numið óravíddir alheimsins hafa þau skynjað smæðina en líka vaknað til vitundar um möguleika. Óravíddir og smæð heimsins. Er nema von að sálmaskáldið spyrji í áttunda Davíðssálmi. „Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?“ Eitt er að kunna að sigla um sjó og afreka í lífinu en svo er eilífðarsiglingin. Hver eru stefnumið fyrir þá ferð? Hvaða vitar eru nothæfir? Jesús talaði um sannleikann og kenndi hvaða leið átti að fara. Guðjón Ármann Eyjólfsson var sérfræðingur í siglingum en líka kunnugur eilífðarstefnunni. Hann þekkti Karlsvagninn, Fjósakonurnar og Pólstjörnuna, stjörnumerki sem gefa stefnuna. Hann kenndi börnum sínum að þekkja stjörnuhimininn og sagði þeim nöfnin og sögurnar sem tengdust stjörnumerkjunum. Hann tengdi þau og nemendur sína við fræðin, sem færðu menn frá einni strönd til annarrar, tengdi tímann við fortíðina og himininn. Menn eru alltaf á ferð, ef ekki frá punti A til B, þá á ferð í fræðum eða í huganum til hinna draumkenndu stranda hið innra, eða á vit eilífðarhafnar á himni. Heimaey er ekki aðeins eyja sunnan við meginland Íslands heldur áfangi á himnum, sem við kristnir menn köllum eilífð. Þar er Guð og þar er Guðjón Ármann Eyjólfsson. Hann vissi hvernig átti að stýra og rataði.

Ætt og upphaf

Guðjón Ármann Eyjólfsson kom í heiminn í ársbyrjun, 10. janúar árið 1935. Vestmannaeyjar voru upphaf hans og samhengi allrar æfi hans. Guðjón Ármann var sonur hjónanna Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar. Húsið sem þau byggðu og bjuggu í hét því virðulega nafni Bessastaðir. Eyjólfur, faðir Guðjóns Ármanns, var í fjóra áratugi einn fremsti formaður Eyja. Hann var ekki aðeins mikill aflamaður heldur einnig áhugamaður um sögu Vestmannaeyja. Sonurinn naut þess áhuga og arfs frá föðurnum. Guðjón Ármann sagðist líka njóta getu föðurins til að skrifa. Guðrún, móðirin, var listfeng hannyrðakona. Erlendur var elsti bróðir Guðjóns Ármanns, samfeðra. Sigurlína og Gísli voru alystkin hans, en Sigurlína lést ung. Guðjón Ármann var yngstur í barnahópnum. 

Hann stundaði grunnnám á heimaslóð m.a. í skóla aðventista í Eyjum. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum árið 1951. Þá hóf hann nám í Menntaskólanum á Laugarvatni en leiddist og fór suður og var sáttur og leiðalaus í Menntaskólanum í Reykjavík. Guðjón Ármann var fjölhæfur í námi. Fyrst lauk hann stúdentsprófi í máladeild vorið 1955. En hann vildi auka möguleika sína varðandi náms- og starfs-val. Með honum hafði vaknað löngun að fara til náms í danska Sjóðliðsforingjaskólanum. Skólinn gerði miklar kröfur og máladeildarprófið var ekki nóg. Guðjón Ármann stæltist alltaf við átök og var marksækinn. Hann ákvað því að bæta við öðru stúdentsprófi og lauk því líka stúdentaprófi frá stærðfræðideild ári síðar.

Með tvö stúdentsskírteini sótti Guðjón Ármann um nám Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins. Hann var einn af 130 sem sóttu um en aðeins 30 komust inn. Námið var áháskólastigi og Guðjón Ármann lauk því árið 1960.[i] Þá fór hann til starfa hjá Landhelgisgæslunni og stundaði einnig rekstrarnám. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri frystihúsa í Vestmannaeyjum á árunum 1962-63. Hann var einnig hvatamaður og einn af stofnendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og var skólastjóri hans frá stofnun árið 1964. Útgerðarmennirnir vildu laða unga efnismenn til Eyja og í skólann. Þeir vildu gefa þeim möguleika og menntun, en treystu því líka að stúlkurnar myndu síðan halda þeim í Eyjum, sem tókst vel!

Þegar gosið hófst í Eyjum var skólinn fluttur upp á land og í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík. Guðjón Ármann hélt áfram kennslu í skólanum eftir gos og varð skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1981. Hann gegndi starfi skólameistara til ársins 2003.

Guðjón Ármann helgaði starfsævi sína menntun íslenskra sjómanna. Hann var árið 1993 sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Öryggis- og björgunarmál sjómanna voru honum hugleikin og var hann um árabil gjaldkeri Björgunarsjóðs Stýrimannaskólans í Reykjavík – Þyrlusjóðs.

Eftir Guðjón Ármann liggur mikið ritasafn. Hann skrifaði um sjómennsku, siglingasögu, siglingafræði og kennsluefni skipstjórnarmanna. Hann þýddi Alþjóðlegar siglingareglur og uppfærði þegar breytingar urðu (1972 og 1989). Hann skrifaði bókina Stjórn og sigling skipa, siglingareglur, sem gefin var þrisvar út í endurskoðuðum útgáfum (1982, 1989, 2006). Þá ritaði hann bækurnar Leiðastjórnun (2009) og Siglingafræði (2013). Þetta eru mikil rit og glæsilegar ritsmíðar.

En útgáfa rita um skipstjórnun og siglingafræði var ekki það eina sem Guðjón Ármann skrifaði. Eins og þegar er sagt var faðir hans mikill áhugamaður um sögu og mannlíf Vestmannaeyja. Um þau efni skrifaði Guðjón Ármann einnig mikið. Haustið 1973 kom út hin merkilega bók Vestmannaeyjar – byggð og eldgos, sem er heimild um mannlíf í Eyjum, horfna byggð og flótta íbúanna hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973. Þá skrifaði Guðjón Ármann um Vestmannaeyjar í ritið Landið þitt sem kom út árið 1984. Honum var síðar falið að skrifa Árbók Ferðafélags Íslands um Vestmannaeyjar sem kom út árið 2009 og var bókin að verðleikum tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Þessi Vestmannaeyjabók Guðjóns Ármanns er yfirgripsmesta ritið um Vestmannaeyjar. Auk annarra starfa var Guðjón Ármann ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja á árunum 1965-1975. Í því er á annað hundrað greina hans um mannlíf og sögu Eyjanna.

Guðjón Ármann var eftirsóttur félagsmálamaður enda glaður, áhugasamur um fólk, jákvæður og eflandi. Hann var virkur í Akóges um árabil og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Þá var hann dugmikill tungumálamaður og áhugamaður um rómönsk tungumál. Þegar hann var barn fékk hann fyrstu frönsku orðabókina og drakk í sig frönsk áhrif. Guðjón Ármann var meðlimur í Alliance Française og sat í stjórn félagsins og skrifaði m.a. um rithöfundinn Guy de Maupassant. Þá þýddi hann smásögu úr frönsku eftir hann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.

Anika og börnin

Svo er það fjölskyldan og Anika. Guðjón Ármann gerði sér alltaf grein fyrir gæðum og styrk. Anika Jóna Ragnarsdóttir, Arnfirðingurinn frá Lokinhömrum, vann á sjúkrahúsinu Sankt Josepí Kaupmannahöfn. Þau sáu hvort annað í Gullfossi við bryggju í Kaupmannahöfn. Svo hittustþau á Rauðu nellikunni, sem var vinsæll Íslendingastaður í Höfn. En Guðjón Ármann, sem var orðinn almælandi á dönsku þóttist vera Dani. En Anika sá gullið í gegnum þykistuna og dátabúninginn og hann sá gullið í henni. Nálgunaraðferð Guðjóns Ármanns var frumleg. Hann kom til Aniku og bað hana um að merkja fötin sín. Og hún gerði sér grein fyrir að hann var nákvæmur og kom úr formlegu vinnusamhengi sjóðhersins danska. Hún merkti vel og hann þakkaði vel fyrir sig. Þau gengu í hjónaband föstudaginn 30. desember árið 1960. Þau voru vinir og báru virðingu fyrir hvoru öðru. Þau stóðu saman, hrósuðu hvoru öðru og voru hinu styrkur. Guðjón Ármann hafði á hreinu alla tíð að góður eiginmaður ræktaði samband við konu sína og börn og þjónaði heimili sínu.

Þau byrjuðu búskapinn í Hátúni 4. Þegar Guðjóni Ármanni var boðin staða í Vestmannaeyjum var Anika til í að fara út með honum. Þau bjuggu í Eyjum í áratug, en fóru svo upp á land í gosbyrjun. Það tók tíma að koma sér fyrir í nýju samhengi eftir eld. Fjölskyldan bjó í Vesturbænum um tíma en eignuðust síðar sælureit í Fossvoginum þar sem Anika býr enn. Guðjón Ármann sagði, að hann hefði lært í danska flotanum að góður yfirmaður hugsaði vel um skip sitt og áhöfn og eiginkonu sína. Svo sagði hann við konu sína: „Þú hefur það eins og þú vilt, Anika mín.“

Börn Ármanns og Aniku eru fjögur. Ragnheiður er elst. Hún er MA í alþjóðasamskiptum og leiðsögumaður. Maður hennar er Leifur Björnsson. Synir þeirra eru Ármann og Björn. Ragnar er annar í röðinni. Hann er svæfingalæknir. Kona hans er Kristín Axelsdóttir og þau eiga synina Þórólf, Höskuld, Grím og Brand. Eyjólfur er sá þriðji. Hann er lögmaður. Kristín Rósa er svo yngst. Hún er hjúkrunarfræðingur og MA í lýðheilsuvísindum. Maður hennar er Jón Heiðar Ólafsson og þau eiga Ólaf Heiðar, Guðjón Ármann og Aniku Jónu.

Hvernig var Guðjón Ármann?

Hvernig manstu Guðjón Ármann Eyjólfsson? Byrjum á öguðu snyrtimenninu. Hann fékk ákveðið uppeldi heima um hvað væri gott og hvað ekki. Svo slípuðu Danir hann í öflugri regluhefð danska hersins. Guðjón Ármann var agaður sjálfur og sagði nemendum sínum, að það væru ekki öflugir yfirmenn, sem gætu ekki klárað skúringar eða hreinsað salernin. Hann var smekkmaður, gætti að klæðaburði sínum og miðlaði innri sem ytri ögun til nemanna í Stýrimannaskólanum. Þeir lærðu fljótt, að það þýddi ekki að koma vankaður eða illa verkaður í skólann. Þeir lærðu líka að taka á móti kennara með stæl í stofu. Þegar stýrimannaskólinn flutti upp á land í gosinu gerðu nemendur Reykjavíkurskólans sér grein fyrir að Eyjanemendurnir voru á allt öðru og æðra plani hvað fatnað og aga varðaði. Þegar horft er til baka tala nemendur Guðjóns Ármanns um hve aginn sem hann kenndi þeim hefði skilað þeim miklu í störfum og stjórnun. Hatturinn hans Guðjóns Ármanns og fatnaður voru ekki sýndarmál skartmennis heldur ásýnd hins þroskaða manns. Hann var formlegur í lífi og tengslum. Og hann heilsaði með handabandi.

Guðjón Ármann var alltaf að læra. Hann var opinn, hæfileikaríkur og námsfús. Hélt áfram að þjálfa sig í tungumálum og menningu. Hann íhugaði hverju hann gæti miðlað og þar með bætt stöðu stéttar sinnar. Hann var gjarnan með bók í hendi. Hann var heillaður af dýpt franskrar menningar. Hann sótti inn á söfn, skoðaði allt vel, íhugaði og gleymdi stund og stað. Þar var hann að læra og lærði mikið. En börnum hans fannst stundum að safnaferðirnar mættu vera hraðari og styttri.

Guðjón Ármann var af kynslóð kraftaverkamanna, sem byggðu upp nútímasamfélagÍslendinga. Hann var frjálslyndur og – eins og margir af hans kynslóð – opinn gagnvart öllum gagnlegum nýungum og því sem nýta mætti í þágu íslenskrar þjóðar. Hann gekk til þjónustu við nútímasamfélaið og beitti sér af fullum þunga, ekki í eigin þágu heldur heildarinnar. Í æsku gerði hann sér grein fyrir mikilvægi útfærslu landhelginnar og mikilvægi sjómælinga. Guðjón Ármann miðlaði hugsjónum sínum til nemenda sinna og minnti þá á að góður yfirmaður lætur sér annt um velferð og hag allra um borð. Og hann minnti þá á að góður yfirmaður á sjó væri líka góður eiginmaður í landi. Mannrækt var honum mikilvæg, styrkur og fágun hið innra sem ytra. Hann mat hæfni fólks og hæfileika óháð stöðu eða stétt. Hann varumtalsfrómur mannvinur. Það er ástæða fyrir að sonur hans las áðan kærleiksóð Páls postula.

Guðjón Ármann var marksækinn og einbeittur í lífi og vinnu. Þegar hann hafði sett sér stefnu sótti hann ákveðið fram. Hann hafði að orðatiltæki „Vedligehold af målsætning.“ Hann notaði vel tímann en gekk jafnvel nærri sér vegna einbeitninnar. „Gutta cavat lapidem.“ Dropinn holar steininn – minnti hann á – og svo vissi hann og kenndi: „sed saepe legendo“ „ … ekki með afli heldur með því að falla jafnt og þétt; þannig verður maðurinn lærður, ekki með afli heldur stöðugum lestri.“ Guðjón Ármann var afkastamikill eljumaður. Hann kunni ekki vel – frekar en aðrir af hans kynslóð – að slappa af. Þegar tómstundir gáfust opnaði hann bók eða skrifaði. Hann miðlaði lífsafstöðu mennta, skynsemdar og ráðdeildar til barna sinnar. Þegar krakkarnir vildu fara í bíó eða þurftu peninga til tómstunda eða bara til að fara í sjoppuna lágu þeir ekki á lausu. En ef þau ætluðu að kaupa sér bók var afstaða pabbans mun opnari. Peningar voru ekki markmið heldur tæki til góðs og til menntunar. Og hann var áhugasamur um menntun barna sinna og studdi þau.

Í pólitík og menningarmálum taldi Guðjón Ármann mikilvægt að fjármunir væru ekki á fárra höndum, heldur ættu auðlindir að nýtast heildinni. Um skeið var hann virkur í bæjarpólitíkinni í Eyjum en taldi tíma sínum best varið við að mennta, fræða og tryggja velferð stéttar sinnar. Guðjón Ármann var gagnrýnin á þær stefnur og stjórnsýslu sem ekki tryggði velferð heildarinnar. Hann var t.d. gagnrýninn á kvótakerfið sem hann taldi of lokað og útilokandi.

Guðjón Ármann var afar hæfur félagslega. Hann hafði t.d. gaman af að tala við félaga barna sinna. Hann bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann fylgdist með þeim og gladdist yfir velferð þeirra og árangri. Alltaf jákvæður og glaður. Svo héldu nemendur hans góðu sambandi við hann. Hann hélt gjarnan ræður á mannamótum, inntaksríkar, vinsamlegar og jákvæðar tölur. Hann starfaði að margvíslegum félagsmálum, sótti samkomur á vegum Eyjamanna og ræktaði vini sína, innlenda sem erlenda.

Eldurinn í Heimaey hafði djúptæk áhrif á Guðjón Ármann eins og aðra Eyjamenn. Hann skrifaði: „Það var mér stórkostleg og ólýsanleg sjón, er ég sá þessa firnakrafta að verki stundarfjórðungi eftir að þeir leystust úr læðingi. Í sömu andrá varð maður fullur furðu, skelfingar og lotningar gagvart því sem gerzt hafði.“ Minningin um eldinn lifði í honum síðan. Þegar fólk lendir í áföllum eru kostir einkum tveir, að bogna undan vandanum eða bregðast við. Guðjón Ármann fór upp á land – og öll fjölskyldan – og hann settist niður við skriftir. Hannskrifaði sig í gegnum gosskelfinguna. Þegar á gosárinu gaf hann út bók um Vestmannaeyjar. Hann setti allt hið mikilvægasta um Eyjarnar á blað, vildi tryggja að sem flest yrði varðveitt og sem minst yrði eldi gleymskunnar að bráð. Framlag Guðjóns Ármanns um sjómennsku, skip og farmennsku er veigamikið en einnig það, sem hann skrifaði um Vestmannaeyjar. Lof sé honum og þökk.

Guðjón Ármann Eyjólfsson er farinn inn í himininn. Hann hefur sett hattinn upp í síðasta sinn og bindið líka. Hann brýnir ekki framar fyrir nemum sínum mikilvægi skapandi reglu í vinnu og lífi. Fjölskylda Guðjóns Ármanns sér á eftir ljúfum, kærleiksríkum og menntandi fjölskylduföður. Þau eiga allar minningarnar, bækurnar og sverðið hans. Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans? Guð gleymir ekki. Stefnumiðin voru skýr. Guðjón Ármann þekkti stefnuvitana og kunni að sigla. Hann er kominn til Heimaeyjar hið efra. Guð geymi Guðjón Ármann Eyjólfsson og gæti þín. Amen.

Kveðjur hafa borist frá Sigrúnu Ragnarsdóttur, Lilju Ragnarsdóttur og fjölskyldu og Jónasi Ragnarsyni og fjölskyldu sem eru búsett á Akureyri.

Ása Ingibergsdóttir biður fyrir kveðju, fyrir hönd skólasystkina Guðjóns Ármanns úr árgöngunum 1934 og 1935 úr barnaskólanum í Vestmanneyjum.

Þá barst kveðja frá Sveini Valgeirssyni, sem skrifaði: „Við, nemendur skólaárgangs 1972 til 1974, vottum eiginkonu og afkomendum Guðjóns Ármans okkar dýpstu virðingu og samúðarkveðjur með þökk fyrir góðar stundir í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja.“

Jarðsett í Sóllandi, Fossvogi. Erfidrykkja í Hörpu, Norðurbryggja, 1. hæð. Ritningarlestrar, Sálm 8; 1. Kor. 13; Jóh. 14. Hallgrímskirkju, 23. júní, 2020 kl. 15.

[i] Nám Guðjóns Ármanns kom við sögu Alþingis ári síðar. Í ræðu Jóns Árnasonar, sem er að baki þessari smellu,  kemur fram að hann hafi meiri menntun en þá sem nemendur í íslenskum stýrimannaskóla hefðu getað veitt honum. https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=81&rnr=1441