Greinasafn fyrir merki: Árdís Ösp Pétursdóttir

Pétur Haukur Guðmundsson +++

Á þessum fagra degi – og jafnvel í grænlensku góðviðri – kveðjum við Pétur Hauk Guðmundsson. Öflugan mann, kraftmikinn fagmann með skarpan huga. Pétur gerði kröfur til sjálfs sín, var mikill af sjálfum sér, talaði ekki af sér, náin þeim sem hann tók og trúr þeim sem hann batt hug við. Verkefnin sem honum voru falin voru í góðum höndum og voru unnin til enda.

Hvað skiptir þig mestu máli í tengslunum við Pétur? Hvað var það eftirminnilegasta og hvað þótti þér vænst um? Var það festan, traustið? Já, nafnið hans merkir klettur og það var ástæða til að Jesús veldi mann að nafni Pétur, sem einn styrkasta og öflugasta byggingarmann kristinnar kirkju í heiminum. Það stóð sem Pétur Haukur byggði og lauk. Manstu húmorinn, eða spilagetuna, gáturnar hans og smáprófin? Manstu hve flottur hann var? Naustu handarverka Péturs eða eldaði hann einhvern tíma stórsteik fyrir þig með bernaisesósu? Var hann þér Haukur í horni – öflugur verkstjóri, stuðningur og traust fyrirmynd? Hann reiknaði yfirleitt rétt, en var líka opinn fyrir að hafa nota stundum rangar forsendur. Þannig vinnur öflugur og glöggur spilamaður. Og hann kunni líka að bíða í lífinu og vissi að utanaðkomandi breytur hafa áhrif á lífsferil og viðburði. Því reiknaði hann út fólk og aðstæður með íhygli og visku. Hann horfði og komst að niðurstöðu.

Lífsferill Péturs er merkilegur og íhugunarefni. Hann þurfti að hafa fyrir lífinu og var traustur í því sem hann tók að sér. Nú eru skil og þú mátt gjarnan nýta þessa stund til að hugsa um það merkilega og dýrmæta – íhuga lífið. Hvað skiptir máli og hvernig getur líf, eigindir og verk Péturs orðið þér til lífsbóta og eflingar?

Upphaf og uppvöxtur

Pétur Haukur Guðmundsson var sumardrengur. Hann fæddist á Akureyri þriðjudaginn 6. júlí árið 1948. Móðir hans var Gréta Doak Pétursdóttir. Pétur fékk nafn afa síns. Svo var hann skráður Guðmundsson í þjóðskrá og kirkjubækur. En sú feðrun var ákvörðun móðurinnar því hann var ekki kenndur til blóðföður. Pétur vissi hver raunverulegur faðir hans var og hitti hann þótt hann hafi ekki borið nafn hans. Það er margt í þessari veröld vitað þótt skráningin hafi þjónað einhverju öðru en raunveruleikanum.

Pétur var annar í röð fimm systkina. Ásta Guðrún Guðmundsdóttir – síðar Hurrin – var elst. Hún fædist árið 1947. Ásgeir V. Bjarnason var sá þriðji og fæddist árið 1952. Síðan komu Heimir Jón Guðjónsson 1954 og yngstur er John Michael Doak sem fæddist árið 1964.

Fyrstu árin bjó Pétur í fjölskylduhúsinu á Akureyri og naut gæða ástvina og fjölskyldu. Þegar Gréta, móðir hans, flutti suður var Pétur sendur í fóstur í Syðri Velli í Kirkjuhvammshreppi í V.-Húnavatnssýslu. Þar ílentist hann hjá Steinbirni Jónssyni og Elínbjörgu Jónasdóttir. Þar var barnafjöldi og hann var yngstur. Pétur eignaðist á Syðri Völlum fimm fóstursystkini sem hann naut samvista við og lærði af. Þau eru Steinbjörn Björnsson, Álfhildur Steinbjörnsdóttir, Samúel Ósvald Steinbjörnsson, Anna Steinbjörnsdóttir, kölluð Dúdda, og Sigurður Ingvi Steinbjörnsson. Heimilið var gott og það var ekki bara puð heldur líka skáldskapur í heimilismenningunni – tengingar til moldar, út til samfélags og upp í hæðir andans.

Steinbjörn og Elínbjörg hættu búskap þegar Pétur Haukur var á unglingsaldri. Þau fluttu suður og í Hveragerði árið 1962. Flutningurinn var til góðs fyrir Pétur. Hann naut bæjarlífisins syðra, eignaðist félaga í skólanum og á fótboltavellinum og hafði gaman af að etja kappi við sveitunga og líka Selfyssingana. Hann var duglegur og eftirsóttur til vinnu og góður félagi.

Námsmaðurinn og fjölhæfur dúx

Pétur hóf skólagöngu fyrir norðan, í Vestur Húnavatnssýslu og hélt svo áfram námi í Hveragerði. Svo fór hann norður á Akureyri og auk námsins í MA varð hann snjall briddsspilari. Hann festi ekki hug við menntaskólanámið og fór í launavinnu og var m.a. í múrverki hjá Hauki frænda. Pétur talaði oft um tímann fyrir norðan og sagði skemmtisögur af litríku mannlífi í höfuðstað Norðurlands.

Pétur var skarpur, söggur að læra og gerði sér fljótt grein fyrir að það væri betra að hafa starfsréttindi en ekki. Hann skráði sig í Tækniskólann og lauk byggingatæknifræði árið 1974. Skemmtilega saga um Pétur barst til mín nú í vikunni alla leið frá Tyrklandi. Sigurjón Jónsson og Pétur voru félagar í skóla. Þeir höfðu steypt og kunnu til verka og töldu sig geta nýtt dæmatímann betur en að reikna. Þeir tefldu því og Steindór kennari horfði á þá við skákina á meðan hinir nemarnir reiknuðu. En Pétur og Sigurjón urðu þó dúxarnir um vorið. Þeir sem reiknuðu um veturinn töldu að þeir hefðu orðið svona snjallir vegna þess að skákin hefði eflt heilastarfsemina. En Sigurjón fullyrti að þeir hefðu bara verið góðir í fræðnunum líka.

Svo bætti Pétur við réttindum í múrverki. Hann varð meistari í því fagi einnig. Pétur var alla tíð góður í því sem hann tók sér fyrir hendur eða sinnti. Hann gerði kröfur til sjálf sín, setti kröfurnar hátt varðandi gæði þess sem hann vann að. Hann var fagmaður í anda og störfum. Hann gat gert margt en dúxað samt.

Með tæknifræðiprófið upp á vasa og múrverkið að auki fékk Pétur vinnu hjá Hafnarfjarðarbæ. Hann vann að og stýrði framkvæmdum á vegum bæjarins. Árið 1983 söðlaði hann um og fór yfir til Hagvirkis og var meðal annars staðarhaldari við Sultartangavirkjun sem fyrirtækið byggði. Um 1990 ákvað hann að vera engum öðrum háður og var með eigin verktakarekstur. Hann tók að sér verk eða vann sem undirverktaki. Árið 1997 fór hann með gömlum félögum sínum hjá Hagvirki til Grænlands og vann þar á vegum Íslenskra Aðalverktaka. Það var upphafið að langdvölum Péturs á Grænlandi. Næstu árin vann hann til skiptis í Keflavík og á Grænlandi. Pétur náði að vera langdvölum á austurströnd Grænlands, vesturströndinni og syðst líka. Hann var í Tassilak, Assiat og Nanortalik. Árið 2009 flutti hann svo til Nuuk þar sem hann fór að vinna fyrir KANUKOKA, sem var samband sveitarfélaga. Í þágu þeirra vann hann til 2018 þegar sambandið var leyst upp. Eftir það gerðist hann eftirlitsmaður með uppyggingu spennistöðvar sem hann vann við þar til veikindi meinuðu honum að starfa áfram.

Ástin og fjölskyldan

Svo er það heimilislífið og ástin í lífi Péturs Hauks Guðmundssonar. Hann var 22 ára þegar hann sá Magneu Þórunni Ásmundsdóttur austur á Laugarvatni. Sumarið var þeim gott og þau urðu par. Þau giftust í september árið 1971. Þau eignuðust dæturnar Ásdísi Elvu og Árdísi Ösp. Þau gengu líka John, yngsta bróður Péturs í foreldrastað. Þau Pétur og Magnea skildu árið 2000.

Ásdís Elva er myndlistarkennari í Norðlingaskóla. Hún er gift Hallgrími Ólafssyni.  Börn þeirra eru þau Ísabella Ýrr (1997) og Kormákur Logi (2001).

Árdís Ösp er meistari í bílamálun. Hún er gift Destiny Nwaokoro. Börn þeirra eru Pétur Uzoamaka (2018) og Ásmundur Obiageri sem er nýkominn í heiminn (2020).

Á Grænlandi kynntist Pétur Elisu Olsen. Þau gengu í hjónaband árið 2006 og voru um tíma með fósturdrenginn Erneeraq hjá sér. Þau skildu árið 2016.

Síðustu tuttugu árin bjó Pétur á Grænlandi og lést hann á heimili sínu þann 8. september síðastliðinn.

Mótun

Lífsferill Péturs er laðandi og vekur marga þanka. Upphafið og lífsmótunin var flókin en Pétur varð mikill af sjálfum sér. Hann vann úr lífsháska áranna og var stöndugur og staðfastur í lífinu. Hvernig leið barninu að fara að heiman og í fóstur hjá vandalausum? Hvað skilur slíkt eftir? Það var eftirminnilegt að heyra af því að þegar hann var barn og átti að sækja kýrnar í haga fann hann þær ekki. Í ljós kom að hann var sjónskertur. Og alla tíð síðan vildi hann gera vel, var ákveðinn að skila sínu og missa ekki sjónar á verkefnu sínum í lífinu. Hvaða áhrif hefur föðurleysi á persónumótun? Og hvernig mótast maður af því að eiga sér mörg systkin en vera lítið hjá þeim, mörg fóstursystkin og öll mun eldri? Hvað var það í grænlenskri menningu og náttúru sem seiddi Pétur svo mjög að hann var ekki bara heima í Vestur Húnavatnssýslu, í Hveragerði, Hafnarfirði eða Skerjafirðinum? Hann var heima á Grænlandi, skynjaði hræringar fólksins, blístraði jáið á innsoginu að grænlenskum hætti og lagði gott til uppbyggingar samfélagsins. Hann vildi líka deyja fjáls í Grænlandi þótt líkami hans yrði lagður í festu íslenskrar moldar. 

Lífið í eilífð
Nú er lagður upp í lengstu og hinstu ferðina. Hann eldar ekki framar fyrir þig og pískar bernaisesósu. Hann dottar ekki framar með barnabarn við brjóst. Þú getur aldrei hringt í hann eða leitað til hans með einhver mál, stærri eða minni. Hann klæðir sig ekki framar upp. Bendir ekki á glas í hyllu eða leggur til góða meðferð á lífverum heimsins. Hann keyrir ekki framar stóran bíl eða rennir línu í á. Hann kennir ekki lengur þakklæti eða segir sögu um fortíð sem líka er saga um hann sjálfan. Hann horfir ekki framar á fólk til að greina það og hvort það væri traustins vert. Hann talar ekki framar hægt til að hjálpa fólki að skilja stóru málin. Og dansar ekki tangó eða vals.

Nú er þessi stóri, fallegi maður farinn inn í himininn, Syðri Velli eilífðar. Þar er ljómandi stuð, kærleiksheimur þar sem allt er rétt. Allar sudoku-þrautir lífsins ganga upp. Drengur góður, vinur vina sinna, óáreitinn. Takk Pétur Haukur.

Guð geymi Pétur Hauk og Guð styrki ykkur ástvini og vini. Amen.

Hallgrímskirkja 25. september 2020, útför. Kistulagt í Kapellunni í Fossvogi 23. september. Bálför. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði.