Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Heimir Steinsson

„Hér munu íslensk lög ráða,“ sagði Heimir með áherslu. Fyrir mörgum árum voru nokkrir landar í Danmörk að erinda fyrir Skálholtsskóla. Heimir og Dóra höfðu útvegað bíl til að skoða borgina Århus. Eftir tilhlýðilega heimsókn á háskólabókasafnið settist Heimir undir stýri og ók út af bílastæðinu. Áttu ekki að beygja í hina áttina? spurðum við í kór. Hin íslenska lögverndaða leið varð afar stutt. Á móti okkur brunaði her af ógnvænlegum flutningabílum og nálgaðist óðum. Góð ráð voru engin önnur en að geysast upp á umferðareyju. Þar hló ökumaðurinn hjartanlega og við með honum. Þannig var Heimir. Hann fór sína leið, oft gegn straumi, en vissi hvenær bar að víkja. Hann sá alltaf hið skoplega, jafnvel í hinum krepptustu aðstæðum. Stundirnar með honum voru alltaf skemmtilegar, eftirminnilegar og jafnvel kostulegar.

Við leiðarlok þyrlast minningar upp. Fyrsta samræðustund okkar sækir í huga. Heimir sat í rektorssætinu “sínu” í matsal Skálholtsskóla. Pípan var í munnviki og glampi í augum. Viðmælendur sátu við borðið. Allt var eins og hann kaus sér helst. Einhver í hópnum hélt fram að gerlegt væri að vera fordómalaus og algerlega opinn. Glampinn varð að glettni og hann sagði einnig með áherslu: “Praejudicium” og bætti við spurningunni: „Er fordómleysi mögulegt?“ Honum var svarað að það væri versti fordómurinn að halda að maður væri fordómlaus. Hláturinn byrjaði í maganum, gusaðist síðan upp og höndin sló á lærið. Honum þótti snörp umræða skemmtileg. Það var gaman að rökræða og jafnvel skylmast við hann um guðfræði, pólítík, kirkju eða eitthvert mannlífsefni. Hugmyndir flugu og latína hans gerði okkur fákunnandi óörugg. Heimir var ósínkur á þekkingarmola og yddaðar setningar. Hljómfall raddar hans var ákveðið og með svo sérstæðu móti að vinir hans hermdu eftir ef vitnað var beint í hann eða haft eftir honum. Orðalagið var janfnan fyrnskuskotið og stundum barrokað. Hann var mikill íslenskumaður og lék sér á engi tungunnar.

Heimir setti svip á skólasögu áttunda áratugarins og ekki aðeins með stofnun og stjórn Skálholtsskóla. Hann skrifaði blaðagreinar og flutti eftirminnilega fyrirlestra í útvarpi um lýðháskóla og arf Grundtvigs. Heimir fór eigin leið í kynningum á helgistað þjóðarinnar þegar hann tók við störfum á Þingvöllum. Um margt var hann Skálhyltingur og Þingvellingur þegar hann varð útvarpsstjóri. Hann sá í RÚV klukku Íslands. En sú klukka varð orðið flókið tæknispilverk með óljósan hljóm og hentaði honum ekki. Í kirkjulífi var Heimir fyrirferðarmikill. Greinar hans um spíritisma 1975 vöktu athygli margra. Upphafið var grein í Kirkjuritinu “Tilvera til dauða – trúin hrein.” Þessi stutta en ágenga grein var blanda tilvistarspeki og andófs gegn spíritisma. Þetta var á þeim tíma nýr kokteill og olli uppnámi. Höfundurinn uppskar drífu af greinum bæði í Kirkjuriti og Morgunblaðinu. Þá kom í ljós hversu snöggur Heimir var að semja og hversu snjall stílisti hann var. Morgunblaðið birti hverja breiðsíðuna á fætur annarri, nánast daglega. Þær skemmtu þeim sem unnu trúfræðilegum burtreiðum. Margir töldu að Heimir væri kjörinn til biskups.

Heimir var flókin maður og margræður. Flestir kynntust honum í einhverju hlutverki og þekktu ekki manninn að baki grímu. Heimir gengdi mörgum störfum: Hann var rektor, þjóðgarðsvörður, rithöfundur, útvarpsstjóri  og prestur. Hann tók þessi hlutverk sín alvarlega og gekkst upp í þeim, hafði stundum á orði: „The show must go on.“ Hann var í þjónustu málefnis eða stofnunar og þá gerði hann eins vel og hann gat.  Störf Heimis voru gjarnan í margmenni, en líklega leið honum best í fámenni og samræðu. Hann var maður hinna mörgu orða og lýsinga, en leitaði kyrru og dýptar. Hann lenti í miðri röst nútíma og miðlunar en leitaði sögu. Hann sviftist til í flengingi óstýriláts tíma en leitaði hins stöðuga. Í störfum varð hann að opna sálargáttir móti poppmenningu og tæknivæðingu en mat mest forn fræði. Hann vildi fá að stjórna en leitaði sjálfur skýrrar leiðsagnar. Hann var mikill Danavinur en ræddi helst ekki um danska sögu á Þingvöllum. Hann var fræðimaður og skáld að áhuga en lengstum embættismaður að starfi. Hann var námshestur og unni háskólalífi en dró umsókn um kennarastöðu í akademíunni til baka. Hann var mikill tilfinningamaður og tók nærri sér lifun sína og bar ekki á torg. Hann mat mikils náttúru og menn en þó mest Guð. Heimir var bæði-og-maður með tilbrigðum. Hann gerði sér vel grein fyrir sálarþráðum sínum og óf með árunum æ betur úr þeim, sér og öðrum til gagns og gleði. Þegar Heimir féll frá sýnist mér sem hann hafi þrætt flest það sem laust hafði legið í lífinu fyrr.

Hann hafði snúið til baka, tekið til við fyrri störf. Hann hafði hafið nýtt líf á svo margvíslegan máta. Og það var hin íslenska leið. Enn kom Heimir á óvart. Við sem eftir sitjum erum enn að jafna okkur eftir óvænt dauðsfall. Við biðjum góðan Guð að geyma hann og líkna Dóru, börnum þeirra og ástvinum. Ég þakka allar gjafir Heimis fyrr og síðar í minn garð og minna. Dýpst er þakklætið fyrir grímulausar samræður. Við skiljum ekki þessa sóun, að hann skuli deyja svo ungur og með svo margt óunnið. En Heimir hafði lifað mikið, stundum hratt en oftast vel. Hann þekkti þessa leið sem hann fór nú. Það var hvorki íslensk eða dönsk leið eða einhver malbikuð gata. Það var leiðin heim.

Heimir lést 15. maí 2000. Þessi minningarorð birtust í Morgunblaðinu 24. maí. Myndir. Einkennismynd er af okkur Heimi syngja fimmundarsöng á fundi norrænna lýðháskóla-sambandsins. Mér sýnist á látbragðinu að það hafi verið Ó, mín flaskan fríða! Hin myndin er af Heimi í kennslustund í Skálholtsskóla og myndin er af vef Skjalasafns Árnessýslu. Heimir Steinsson leiðir Kötlu, dóttur mína, og ég hana, er við vorum á ferð á Þingvöllum 3. ágúst, 1991. Danskur lýðháskólahópur var á ferð og gisti í Skálholti og Heimir tók á móti hópnum. 

Guðrún Guðlaugsdóttur – minningarorð

Í Guðrúnu Guðlaugsdóttur bjó list, fegurð, næmleiki og elska. Hvernig móta upphafsárin líf fólks? Hvaða áhrif hefur það á stúlkubarn að vera uppalið í hópi kvenna? Þegar hún var barnung veiktist móðir Guðrúnar veik, dvaldi árum saman sjúkrahúsi og dó þegar hún enn var barn. Það var ekki sjálfgefið hver yrði hennar skjólgarður í þeim aðstæðum. En móðursystur og amma tóku Guðrúnu til sín og að sér, ólu hana upp og komu henni til þroska.

Hvernig verðum við til sem manneskjur? Guðrún var lánssöm, hún átti góða að, naut ástúðar í uppeldi og margra kvenna sem báru hana á örmum, hvöttu og styrktu. Saga Guðrúnar Guðlaugsdóttir er heillandi og bernskusaga hennar vekur margar spurningar um tilfinningar og þroska einstaklings í litríku mannlífi á Íslandi milli heimsstyrjalda þegar Guðrún varð til og mótaðist.

Guðrún Guðlaugsdóttir var Árnesingur að uppruna. Hún fæddist á bænum Gegnishólaparti í Gaulverjabæjarhreppi 15. ágúst árið 1924. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Friðfinnsdóttir og Guðlaugur Pálsson. Guðbjörg kynntist barnsföður sínum þegar hún vann í Húsinu á Eyrarbakka og hún fór oft í búðina til Guðlaugs. Þau Guðbjörg bjuggu ekki saman en milli fjölskyldna þeirra var samgangur og vinsemd. Guðrún flutti frá Eyrarbakka til Reykjavíkur tveggja ára gömul. Móðir hennar fékk berkla og var því tíðum fjarri heimili og dvaldilangdvölum á Vífilstaðaspítala. Þar lést hún árið 1930 þegar Guðrún var aðeins sex ára gömul. Hún ólst því upp hjá móðurömmu sinni, Guðrúnu Jóhannesdóttur, og móðursystrum hennar, Guðrúnu og Pálínu Friðfinnsdætrum. Sú þrenning var Guðrúnu Guðlaugsdóttur kærleiksríkur skjólgarður.

Guðlaugur eignaðist síðar aðra konu, Ingibjörgu. Hún reyndist Guðrúnu, sem var elsta barn Guðlaugs, hið besta. Börn Ingibjargar og samfeðra hálfssystkin Guðrúnar voru: Ingveldur, Jónas, Haukur, Páll, Steinunn og Guðleif. Ingibjörgu var umhugað um að rækta tengslin milli Guðrúnar og yngri hálfssystkina hennar og sagði gjarnan við börn sín. „Þið eigið systur í Reykjavík og þið eigð að heimsækja hana.“ Ingibjörg var enn ein konan sem gerði Guðrúnu gott. Þökk sé henni og þökk sé hálfsystkinunum sem umvöfðu systur sína og voru henni styrkur og gleðigjafar. Þau hafa alla tíð vitjað eða heimsótt systur sína.

Guðrún þótti afar skýrt barn. Hún söng mikið og þótti efnisstúlka um allt. Skólarnir sem hún gekk í voru til fyrirmyndar og mikilvægir í skólasögu Íslands. Húsakynni þeirra voru og eru einnig tákn í Íslandsmenningunni. Guðrún hóf skólagönguna í Miðbæjarskólanum við Tjörnina. Hún var dugmikil í námi. Vegna færni og iðni var hún í góðum bekk. Margir af  bekkjarfélögunum urðu síðar landsþekktir. Síðar sótti Guðrún hinn merka Ingimarsskóla við Lindargötu og þaðan tók hún gagnfræðapróf. Svo fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur á Sólvallagötu 12. Þar var Guðrún einn vetur. Hún var Reykjavíkurdama og var svo lánsöm að njóta góðrar menntunar og gæða vaxandi bæjar. Góður námsferill og öflug ung kona á leiðinni út í líf og störf.

Guðrún fór snemma að vinna fyrir sér. Hún var vandvirk, nákvæm og skipulögð og fékk starf í bókbandi hjá menningarvitanum Ragnari í Smára og handlék bækur meistaranna og bjó í hendur lesenda þjóðarinnar. Úr bókbandinu fór hún í bókhald og skrifstofustörf hjá Smjörlíki hf. Þar vann hún til 67 ára aldurs eða í samtals 34 ár. Guðrún naut trausts á vinnstöðum sínum, var metin að verðleikum og falin vandasöm störf.

Guðrún var tvígift. Fyrri maður hennar var Guðjón Gunnarsson, vélvirki. Þau gengu í hjónaband árið 1947 en nutu aðeins samvista í þrjú ár saman. Guðjón lést úr heilahimnubólgu árið 1950. Eftir fráfall Guðjóns naut Guðrún góðra tengsla við fólkið hans og allt til enda.

Seinni maður Guðrúnar var Magnús Vilhjálmsson húsa- og skipa-smiður. Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson. Það var milli jóla og nýárs árið 1951, sem þau Magnús og Guðrún Guðlaugsdóttir sáu hvort annað í Breiðfirðingabúð – og hrifust. En það skal vanda sem lengi skal standa. Þau flýttu sér ekki heldur kynntust vel áður en þau hófu hjúskap og giftu sig árið 1956. Þau bjuggu fjölskyldu sinni gott heimili og smiðurinn Magnús smíðaði það sem þurfti, hvort sem voru innréttingar, skápar eða húsmunir. Þau Guðrún voru samstillt, fyrirhyggjusöm og dugmikil.

Guðrún og Magnús bjuggu lengstum í vesturhluta Reykjavíkur, byrjuðu búskap á Nýlendugötu og fóru síðan inn á Háaleitisbraut og bjuggu þar í ellefu ár. Síðan fluttu þau á Túngötu og Vesturvallagötu og fóru þaðan vestur í stórhýsið á Grandavegi 47. Guðrún og Magnús voru samhent, unnu saman við nýbyggingar sínar, ferðuðust víða og ekki síst þótti þeim gott að fara til Kanarí eftir áramót.

Guðrún og Magnús eignuðust dótturina Guðbjörgu í september árið 1957. Hún er kennari að mennt og starfar við Landakotsskóla. Foreldrarnir bjuggu dóttur sinni góða og áhyggjulausa æsku. Pabbinn smíðaði fyrir hana húsgögn, dúkkuhús og leikföng sem hún þurfti og langaði í – meira segja straujárn úr tré – sem daman var sátt við og þjónaði ágætlega sínu hlutverki. Maður Guðbjargar er Árni Larsson, rithöfundur.

Hvernig manstu Guðrúnu? Já, hún var bókakona og las mikið. Ekki aðeins íslenskar bækur heldur líka erlendar skáldsögur, þýskar og danskar, breskar og bandarískar. Og hún las líka bækur höfunda frá Kóreu, Pakistan og Nígeru svo hún varð vel heima í bókmenntum heimsins. Hún las af einbeittni og ákefð en tengdasonur hennar sagði með blik í auga að henni hefði ekki líkað við frönskuskotna enskuna í bók frá Haiti. Hún hefði skilað henni.

Það er sístætt umræðuefni hvort kvikmyndir sem gerðar eru eftir skáldsögum séu betri eða verri en originallinn – frumsagan. Sumar af sögunum sem Guðrún las sá hún síðar í kvikmyndaformi. Guðrún las skáldsögur af „skammlistum“ stóru útgáfufyrirtækjanna.

Guðrún hafði áhuga á kvikmyndum – einkum þeim „listrænu“ – og var ekki verra ef þær voru um kóngafólk. Elísabet 2. Englandsdrotting var sem næst jafnaldra Guðrúnar og henni þótti gaman að horfa á  Netflix-seríuna Crown og þótti gott að dóttir hennar hafði gaman af líka. Á fyrri árum sá Guðrún gjarnan mánudagsmyndirnar í Háskólabíó.

Guðrún var alla tíð námfús og fylgdist vel með hræringum menningar og samfélags. Hún hélt áfram að bæta við sig og menntast. Um fimmtugt var hún t.d. að læra þýsku.

Guðrún var músíkölsk eins og margt hennar fólk og hafði einkum áhuga á klassískri tónlist. Bróðir Guðrúnar, Haukur, er einn af helstu tónlistarfrömuðum Íslendinga síðustu hálfa öld. Hún fylgdist með afrekum hans og hvernig hann byggði upp kóra- og orgelmenningu þjóðarinnar. Hún hlustaði gjarnan á diskana hans. Og það er nemandi Hauks sem spilar við þessa athöfn. Í lokin munum við svo hlusta á upptöku Hauks af orgeldidiski hans.

Guðrún var næm og hafði góða frásagnargetu. Hún lýsti vel í síma útsýni, blæbrigðum ljóss yfir Faxaflóa, veðurmálum, snjókomu, fólkinu sem gekk með sjónum við Grandaveginn, leik birtunnar á Snæfellsjökli.

Manstu skopskyn Guðrúnar? Hún hafði það sem tengdasonur hennar kallaði japanska kímnigáfu, gat vel gert grín að sjálfri sér og hló hjartanlega að kátlegum málum.

Svo var hún smekkleg. Guðrún þorði að velja sér áberandi föt. Hún bar stundum stóra skartgripi eða var í fötum með tígrismynstri og fór í glæsilegan pels. Henni var annt um fegurð heimilins. Magnús smíðaði innréttingarnar og það sem kaupa þurfti valdi hún – og þau hjón – af smekkvísi. Þau vildu gjarnan styðja íslenska hönnun og áttu m.a. sófa sem Gunnar Magnússon hafði teiknað.

Nú er Guðrún farin inn í eilífðina. Hún fer ekki lengur í kaffivagninn eða lýsir undrum heims og menningar. Hún lifir nú í minni ykkar og í ljósríki eilífðar, með mömmu og pabba, Guðrúnum himinsins, ættboganum, stórfjölskyldunni. Guð geymi hana og Guð geymi þig. Amen.

Minningarorð SÁÞ. Kistulagning og útför: Kapellan í Fossvogi 15. nóvember, 2021. Kistulagning kl. 13,30. Haukur Guðlaugsson leikur á orgel í kistulagningu. Útför kl. 15. BSS og kvartet félaga úr Schola Cantorum. Erfi: Hótel Natura.

Smári Guðlaugsson – minningarorð

„Að hlæja hefir sinn tíma, að harma hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma… “ segir Prédikarinn sem er viskubók í Gamla testamentinu og bætir við: „Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma.“ Já, við erum samverkamenn skaparans í gerningum lífsins. Trú í Biblíunni er nátengd lífi og því sem eflir. Helgirit Biblíunnar eru mettuð áherslu á fögnuð. Verið glöð er hvatning í bréfi gleðinnar, Fiippíbréfinu. „Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. … Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“

Smári Guðlaugsson er kvaddur í dag. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður sem var afar margt gefið til orðs og æðis, anda og handa. Hann notaði hæfni sína og gáfur í þágu fólksins síns, fjölskyldu og samfélags. Lof sé honum og þökk.

Upphaf og uppvöxtur

Smári var svo sannarlega Rangæingur en fæddist samt í Reykjavík. Hann var vormaður, fæddist bjartan júnídag – 8. júní – árið 1925 í þakherbergi í húsinu við Hverfisgötu 80. Foreldrarnir voru hjónin Guðlaugur Bjarnason (1889-1984) og Láretta Sigríður Sigurjónsdóttir (1894-1978).

Bernskuhús fjölskyldu Smára við Hverfisgötuna sneri að Vitatorgi og fjölskyldan bjó á efstu hæðinni. Í húsinu var margmenni og líklega var Karl O. Runólfsson, tónskáld og tónlistarfrömuður, sá kunnasti. En húsið er farið í hít tímans, það brann aldarfjórðungi eftir fæðingu Smára. Á lóðinni er síðan bílastæði og hægt að ganga frá Hverfisgötu inn í Kjörgarð og til Kormáks og Skjaldar.

Tveimur árum eftir að Smári kom í heiminn, árið 1927, flutti fjölskyldan austur í Hvolhrepp og að Giljum. Þar ráku þau, Guðlaugur og Lára og með börnum sínum, bú í liðlega hálfa öld. Samhliða búrekstri þjónaði heimilisfaðirinn fólki sem póstur í héraði. Hann fór í upphafi um á hestum en varð síðar bílstjóri. Guðlaugur var á ferð og flugi, sagði fréttir, flutti tíðindi og Giljaheimilið var sem í þjóðbraut. Þetta var samhengi og menningarstaða Smára.

Giljaheimilið var fjörmikið og fjölmennt. Smári var þriðji í röð átta systkina. Sigmar var elstur og fæddist 1922 (d. 1990). Þá kom Björgvin ári síðar þ.e. árið 1923 (d. 1998) og Bjarni 1926  (d. 2016) svo skammt var á milli. Á eftir Bjarna fæddust tveir drengir sitt hvort árið 1927 og 1928. En báðir dóu þeir samdægurs. Ég staldra alltaf við  fjölskylduyfirlit með láti ungbarna. Dauðsföll barna á fyrri tíð voru jafn mikið sorgarefni og lát ungbarna í dag. Hvernig og hvaða skuggar lögðust yfir heimilið þessa sorgardaga vitum við ekki en lífið hélt áfram. Svo kom Guðrún Fjóla í heiminn á Alþingisárinu 1930 (d. 2020). Síðastur var Guðmundur Kristvin og fæddist 1933. Nú er allur þessi fríði hópur kominn á lendur Gilna himinsins.

Smári var dugmikill, námfús og mikill efnismaður. Hann sótti skóla í heimabyggð og var hæstur. Hann var góður námsmaður, snöggur, skilvirkur og skynugur í námi sem öllu öðru.

Anna og Smári

Af myndum að dæma hefur Smári verið í útliti eins og Hollywood-stjarna. Anna Þorsteinsdóttir í Götu í Ásahreppi sá sjarmörinn, gæfumanninn, og heillaðist. Smári var líka búinn taka eftir Önnu. Þau höfðu jú hist í Reykjavík. Svo tóku sveitungarnir í Ásahreppi eftir að vegirnir í hreppnum voru að batna, voru afar vel heflaðir enda var Smári á vegheflinum. Hann gerði sér ferðir um Ásahreppsvegina til að fara til fundar heimasætunnar í Götu og gleðja hana. Það tókst og sveitungarnir þökkuðu fyrir tækin á vegum ástarinnar. Fyrir okkur sem munum vegheflana gömlu er það dásamlegt og kætandi að hugsa um þennan Clark Gable Vegagerðarinnar fara heflandi á stefnumót við Önnu í Götu. Mér finnst það rómantískt. Alla tíð síðan kunnu þau að hefla niður ágreining og slétta úr misfellum lífsins, leyfa ástinni að dafna og kyssast hrifin hvort af öðru.

Barnalán og fjölskyldan

Ástríkið bar ávexti. Þegar fyrsta barnið þeirra Önnu og Smára var komið í heiminn fóru foreldrarnir að huga að nafngjöf og skírn. Þau höfðu sam band við prestinn, sr. Arngrím Jónsson, sem þá var í Odda. Hann benti á og sannfærði þau um að best væri að þau byrjuðu á að ganga í hjónaband og skírðu svo – og það væri hægt að gera í sömu ferðinni. Smári fékk lánaðan nýlegan Willis jeppa (1946) föður síns fyrir ferðina til Odda.  Þau gengu í hjónaband þann 14. október 1950 og drengurinn var svo eftir að hafa sagt tvöfalt já við spurningum prests. Ómar Bjarki er því skilgetinn í kirkjubókinni – eins og klerkur vildi að hann yrði.

Börn Önnu og Smára eru þrjú. Auk Ómars Bjarka áttu þau Eddu Sjöfn árið 1955 og Guðrúnu Hrönn árið 1961. Fyrir átti Smári Rúnar árið 1947 með Helgu Runólfsdóttur, sem hann trúlofaðist árið 1946. Rúnar lést árið 2012.

Ómar Bjarki er jarðfræðingur og rekur eigið ráðgjafafyrirtæki. Kona hans er Katrina Downs-Rose (1958). Börn þeirra eru Anna Veronika (1986), sambýlismaður Patrik McKiernan (1983), Elvar Karl (1988), maki Natsha Bo Nandabhiwat (1986)  og Bríet Dögg (1992) unnusti Sigurgeir Ólafsson (1993).

Edda Sjöfn er sjúkraliði að mennt. Maður hennar er Erlendur Árni Hjálmarsson. Börn þeirra eru Björk (1974), Atli (1981) og Elfa (1992).

Guðrún Hrönn er menntaður leikskólakennari. Maður hennar var Hörður Þór Harðarson en hann lést árið 2018. Börn þeirra eru Andri, Sigrún Sif og Ívar.

Börn Rúnars eru: Marta Sigurlilja (1969), Einar Geir (1973) og Eygló (1987).

Barnabörnum Smára fjölgar mjög þessi árin og ættboginn stækkar ört. Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin 8. Börn Bjarkar og Karls Hólm (1968) eru Agnes Lára (1995) og Daníel Freyr  (1998) – og Atla og Evu Rósar (1984) eru Arnar Kári (2008), Sóley Kría (2010) og Vaka Rut (2016). Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er svo Eydís Þula (2021) sem fæddist þeim Elfu og Ólafi Hersi (1990) um miðjan október. Marta og Úlfur Ingi Jónsson (1969) eiga Ragnhildi Mörtu Lólítu (2010) og Einar Geir og Marzena Burkot eiga soninn Emil (2018).

Hjúskapurinn og fjölskyldumaðurinn

Hjúskapur Önnu og Smára varð liðlega sjö áratugir. Þau hófu búskap hjá systur og mági Smára á Hvolsvelli. Þegar þau höfðu byggt með miklum dugnaði húsið að Hvolsvegi 12 fluttu þau í það rétt fyrir jól árið 1953 – eða 20. desember. Þau jólin hafa verið gleðileg – á nýjum stað. Smári og Anna voru meðal frumbýlinga á Hvolsvelli. Aldarfjórðungi síðar, árið 1978, fluttu þau í Öldugerði 10. Þar bjuggu þau er þau fluttu fyrir ellefu árum í glænýja Mörkina, Suðurlandsbraut 58 í Reykjavík.

Ævivegur þeirra Önnu og Smára var góður. Anna var drottningin á heimilinu og þau Smári voru samhent. Smári sinnti sínum málum í bílskúrnum og svo fékk hann áhuga á trjárækt í garðinum en Anna sá um blómin og bæði um garðræktina. Það er vermandi að í kransinum á kistunni hans Smára er teinungur sem er kominn frá ösp sem Smári bjó líf á sínum tíma – reyndar afleggjari sem var kominn í Grafarvoginn. Það er fagurt að vefa þá grein í minningakransinn.

Smári var tilfinningamaður og viðkvæmur en bar ekki tilfinningar sínar á torg. Á síðari árum opnaði hann þó ýmsa glugga og börnin hans náðu að skyggnast lengra en áður og skilja föður sinn betur. Það er þakkarvert þegar svo fer. Smári var af gamla skólanum og hrósaði ekki óhóflega en á síðari árum tjáði hann skýrar hrifningu sína á börnum sínum, hve fjölskyldan væri honum dýrmæt og hve stoltur hann væri af þeim öllum. Smári var natinn við ungviðið, skemmti barnabörnunum og afkomendum, bygði með þeim snjóhús og kofa, kenndi þeim garðyrkju og hafði traktor til leikja í bílskúrnum. Smári vildi allt fyrir sitt fólk gera.

Dugmikill völundur

Vinnusaga Smára var litrík. Á unglingsárum vann Smári almenn sveitastörf og m.a. heima á Giljum að byggingu útihúsa. Hann var handlaginn, hafði verksvit og gekk í öll störf. Smári fékk svo starf í alls konar vegavinnu, m.a. við mokstur í vegagerð og snjómokstur með skóflu að vetri og jafnvel eldamennsku þegar ráðskonan forfallaðist! Hann fékk svo vinnu við smíðar hjá Ísleifi Sveinssyni. Svo fór hann útúr og til Reykjavíkur og var þrjú mikilvæg mótunarár að störfum hjá Ræsi við Skúlagötuna í Reykjavík, kynntist H. Ben.-fjölskyldunni og vann á verkstæðinu við réttingar og bílamálun. Smári varð þátttakandi í bíla-og vélavæðingu Íslands. Hann fór svo austur með mikilvæga þekkingu og reynslu. Hann orðaði það síðar að hann hefði séð hvernig verkin voru unnin við bílana og því vafðist aldrei fyrir honum síðar að taka vélar úr bílum, gera við þær og koma þeim fyrir að nýju. Fyrir austan starfaði Smári á bílaverkstæði Kaupfélags Rangæinga og síðar á varahlutalagernum. Þar var hann aðalmaðurinn lengi, alltaf á vaktinni og einu gilti hvort það var að nóttu eða degi, á venjulegum dögum eða frídögum. Smári var bóngóður, fór og fann til varahluti og bjargaði mörgum bændunum sem voru með biluð tól og tæki sem þurfti að laga strax. Svo var hann umhyggjusamur og þolinmóður yfirmaður og var því mikils metin af samverkamönnum og undirmönnum.

Bíla- og ferðamaðurinn

Hvernig manstu Smára? Manstu kátínu hans? Manstu hvað hann sagði og hve hæfur hann var að gleðja fólk með jákvæðni og gleðimálum? Manstu alla bílana hans sem hann ók? Hann fékk auðvitað að keyra bílana sem faðir hans réð yfir og notaði. Svo var hann svo klókur að gera samning við Guðmund Pálsson, eiganda Moskovits 1956, sem hann fékk að nota en gerði við í staðinn. En Smári gerði sér grein fyrir að það væri betra að kaupa bílskrjóð en gera gera við mót láni. Hann eignaðist á æfinni marga bíla, framan af Willysa, bæði stutta og station, og svo Bronco, tvær Cortinur, Volvo, Subaru og að síðustu Pajero sem hann ók liðlega 100.000 km á 20 árum. Hér hafa verið taldir upp þeir bílar sem talist gátu „heimilisbílar“, en þá eru ótaldir Dodge Weapon hertrukkar sem Smári keypti á uppboði hjá Sölunefnd Varnarliðseigna en á tímabili voru þrír slíkir á lóðinni við Hvolsveg 12. Þar tók sér bólfestu læða sem fannst einn daginn með þrjá dásamlega og vel olíusmurða kettlinga sem dvöldu á heimilinu í nokkrar vikur – öllum til mikillar ánægju. Þeirra var sárt saknað þegar þeir voru gefnir öðrum.

Smári tók þá ákvörðun í upphafi þessa árs að endurnýja ekki ökuskírteinið, en þegar líða tók á árið saknaði hann þess að hafa ekki lengur bílpróf.

Smári og Anna voru dugmiklir ferðamenn, fóru með börnin víða um land og Smári var kunnáttusamur vatnamaður, fór í bússurnar og óð svo vöðin með staf eða járnkarl og vissi svo hvernig mátti keyra. Það voru mörg vötnin sem hann krossaði og sum illfær. En Smári vissi hvaða vegi og leiðir hann gat farið.

Jafnvel mjólkin pólitísk

Í viðtali við Sunnlenska fréttablaðið sagði Smári að pólitíkin hefði náð inn í fjósin í sýslunni. Eins og í nágrannasýslunum var hart barist um hylli kjósenda, stefnu og atvinnumál. Um tíma var mjólkin jafnvel orðin pólitískt lituð. Sjálfstæðismenn sendu sína mjólk alla leið út í Hveragerði en framsóknarmennirnir út á Selfoss. Smári varð vitni að þessum stjórnmálalegu þrengingum og leið fyrir eins og aðrir. Hann þorði að hugsa gagnrýnið og forðaðist pólitíska nærsýni. Hann sýndi launafólki samstöðu og vildi hag allra sem bestan. Í Smára sáu sumir samferðamenn hans verkalýðsleiðtoga því hann benti á hið mikilvæga og réttláta –  „að verður er verkamaðurinn launa sinna“. Hann þorði að skoða málin og taldi sig ekki bundinn af óskrifuðum reglum eða pólitískum línum samfélagsins. Hann hafði jafnvel gaman af þegar barst út að hann ásamt „rafvirkjanum“ keypti Þjóðviljann sem þótti nánast guðlast í pólitískum búblum Hvolhrepps. En tilveran var Smára stærri en þröngir hagsmunir og hann stóð með réttlætinu.

Fróðleiksbrunnur og sagnamaðurinn

Smári fylgdist vel með þjóðmálum og aflaði sér margvíslegs fróðleiks. Hann varð því sagnabrunnur og mikilvægur heimildamaður um þróun byggða og sögu. Smári var öflugur ferðamaður og þekkti landið vel, örnefni, sögu byggðanna á Suðurlandi, tengsl fólks, hver var hvurs og hvað væri í frásögur færandi. Smári hafði auga fyrir hinu kímilega. Sérstakt áhugamál hans var rannsókn hálendisins. Hann fór með fjölskyldu sína og stundum með vöskum fjallamönnum í skoðunar- og rannsóknarferðir. Árbækur Ferðafélagsins og svo héraðsritið Goðasteinn skipuðu heiðurssess á heimili þeirra Smára og Önnu. Og svo má ekki gleyma að minna á að Smári var slyngur veiðimaður og dró björg í bú úr ám landsins, þó einkum Rangá og Fiská. Hafði sérstakt dálæti á þeirri síðarnefndu þar sem læðast þurfti þar að fiskum í hyljunum.

Mörkin – samhengi og lok

Vegir lífsins eru oft hringleiðir. Smári hóf upphaf sitt á Hverfisgötunni og hann lauk æfi sinni í Reykjavík. Þau Anna fluttu suður 2010 og í Mörk við Suðurlandsbraut. Þau höfðu alla búskapartíð unnað Mörkinni – Þórsmörk. En Mörkin syðra var þeim mikilvæg og góð um svo margt. Þar nutu þau nándar við börn og stórfjölskyldu og góðs stuðnings þeirra. Starfsfólki Markar er þakkað fyrir þeirra störf, einnig fjölþjóðlegu starfsfólki Vífilsstaða þar sem hann dvaldi um fimm mánaða skeið í bið eftir Mörkinni. Smári tiltók sérstaklega tvo „Rússa“ sem honum lynnti vel við. Og tungumál vöfðust aldrei fyrir Smára, því þó hann lærði ekki nema undirstöðu í dönsku og ensku í skóla, þá hafði hann einstakt lag á að gera sig skiljanlegan og skilja aðra, hvaða tunga sem töluð var. Smári hafði gaman af fjölmenninu, naut sín í samskiptum, var fljótur að tengja við fólk og var sem höfðingi í stórum hópi heimilisfólks. Smári lést 28. október síðastliðinn.

Inn í ljósheiminn

Og nú er hann farinn inn í Giljur eilífðar. Hann heflar ekki lengur vegi ástarinnar eða dregur út bökunarplöturnar úr ofninum fyrir Önnu sína. Hann reddar ekki neinum varahlut lengur eða laumar skemmtisögu að grönnum sínum. Hann syngur ekki Blueberry Hill eða Tondeleyó af innlifun framar, eða kennir barnabörnum sínum Þórsmerkurljóð eða les á mæla Vegagerðarinnar. Gleðilegar minningar lifa og gleðin lifir í tímalausum eilífðarfögnuði og söng. Guð geymi Smára og Guð efli ykkur á vegum lífsástarinnar. Nú er vormaðurinn horfinn inn í birtuna. Og hann er kominn til hennar Önnu sinnar, eins og hann lofaði henni látinni að myndi gera fljótlega, enda orðheldinn alla tíð!

Útför frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 18. nóv. Kl. 14. Undirleikari Antonía Hevesi. Söngur Guðmundur Karl Eiríksson og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir. Einkennismyndin er af Smára við veghefilinn góða sem búið er að gera upp. 

 

Ingimundur Magnússon + minningarorð

Myndir hafa áhrif. Við horfum á veröldina með augunum, sjáum með ákveðnum hætti, skynjum og geymum svo í myndabanka minninganna. Frá því í árdaga hafa menn gert myndir, rist myndir á veggi, teiknað myndir í jarðveg og fest á pappír á síðari öldum. Platón mótaði heimspekikerfi um myndir, talaði um frummyndir og hafði sjálfur hugmynd um hvernig veröldin birtist skynjun manna sem myndheimur. Myndir manna hafa orðið lyklar að lífsskilningi. Málverk, skúlptúrar, hús, kvikmyndir og myndgjörningar – alls konar – hafa orðið mörgum uppspretta reynslu, sjálfsmyndar og heimstúlkunar. Ljósmyndirnar hafa bæst við síðustu öldina. Myndir eru svo mikilvægar að ekki er alltaf ljóst hvað er veigamest, fyrirmyndin eða túlkun eftirmyndarinnar.

Ingimundur var ljósmyndari – frábær ljósmyndari. Ég man eftir honum sem barn þegar hann var á ferð og mundaði ljósmyndavélina. Hann tók myndir af krökkum við hornsílaveiðar niður við Tjörn, af ungviðinu að leika sér í snjónum, Hemma Gunn á Valssvæðinu, líka Þórólfi Beck við skotæfingar. Og Ingi varð meira segja fyrir skoti Þórólfs þegar hann var að taka mynd af honum og sá á honum eftir! Þegar við gúglum Ingimund Magnússon birtast á skjánum fjöldi glæsilegra mynda sem hann tók, myndir sem fanga athygli, vekja tilfinningar og hugsun, gleðja. Ingimundur var fyrsti ljósmyndarinn sem ráðinn var til dagblaðsins Vísis, 1961. Árin þar á eftir fór hann víða , tók myndir og skráði þar með mannlífið í Reykjavík á þessum árum, þmt íþróttir, heimsóknir og viðburði. Myndirnar eru ekki aðeins góðar og til vitnis um hve vel sjáandi Ingi var heldur eru menningarlega mikilvægur vitnisburður um líf fólks í borginni og landinu á þessum árum og áratugum.

Myndir eru mikilvægar og hafa verið í tíma – en líka í eilífð – eða svo tjáir Biblían okkur. Guð gerði manninn í sinni mynd, segir þar. Og Jesús Kristur hefur haft tilfinningu fyrir myndum því hann tók einu sinni upp pening þegar verið var að reyna hann og spurði á móti: „Hvers mynd er þetta?“ Hvað er mynd, til hvers er hún? Hvernig getum við skilið og túlkað myndir best? Ingimundur tók myndir, ekki aðeins myndir af einhverju, heldur myndir sem sýndu en gáfu líka tilfinningu og túlkuðu veröldina. Í hinu trúarlega samhengi er oft sagt að Jesús Kristur sé mynd Guðs í tíma og rými. Hann sýndi elskaða veröld og guðsmynd sem umvefur. Hann var mönnum mynd þess heims sem er í góðum höndum, til góðs og er elskaður. Og svo þegar tíminn frýs í myndum eilífðar megum við vita að engin mynd megnar að túlka fyllilega hvað líf himins er fagurt og gott. Og nú megum við leyfa okkur að sjá Lilju og Inga brosa saman í grænum hvammi hlægjandi eilífðar. Þau voru okkur bæði fulltrúar þess að lífið er skemmtilegt og elskulegt.

Upphafið

Ingimundur Magnússon var Vesturbæingur, KR-ingur, tvíburi, valmenni og höfðingi. Ingi fæddist í Reykjavík 14. janúar árið 1931 og lést á Grund 12. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Helga Kristín Kristjánsdóttir og Magnús Ingimundarson. Tvíburabróðir Ingimundar var Kristján en hann lést árið 2003. Yngri en bræðurnir voru Vala Dóra sem fæddist 1937 en lést árið 2016 og Jórunn sem fæddist 1938 og lifir systkini sín. Bernskuárin bjó Ingimundur á Sólvallagötu. Hann lærði húsasmíði og vann við húsa- og húsgagnasmíði með föður sínum í nokkur ár. Ingi var alla tíð glöggur og næmur á tækni og tæki. Hann lærði snemma að mikilvægt væri að láta tækin vinna fyrir sig, þjösnast ekki á hefli og nota höfuðið við greiningu á vanda sem þurfti að vinna með. Ingi varð því góður og í mjög mörgu. Margir reiddu sig á að hann gæti bjargað úr vanda, hvort sem það var nú í rafmagni, smíðum eða smella keðjum á dekk.

Lilja og fjölskyldan

Svo var það Lilja Helga Gunnarsdóttir og hin farsæla ást þeirra Ingimundar. Ingi sá Lilju sá fyrst á götu í Hafnarfirði þegar hún var unglingur. Ingi hafði alltaf góð augu, sá vel, tók eftir og festi mynd í sinni. Hann mundi nákvæmlega hvernig kápan hennar Lilju var – að hægt var að snúa henni við og þá var komin ný flík. Löngu síðar sagði Ingi Lilju frá þessari sýn, mynd, sem greiptist í huga hans, af henni og hve sniðuglega kápan var gerð, tvær í einni. Nokkrum árum síðar hittust þau í Hveradölum þar sem ungviðið á suðvestur-horninu safnaðist saman til að hafa gaman og flest fóru eitthvað upp í brekkurnar. Ingi mundi eftir kápustúlkunni úr Hafnarfirði og hún gerði sér grein fyrir að hann tók eftir henni. Svo tók hún líka eftir hve glæsilegur þessi KR-skíðasnillingur var. Svo varð ævintýratími samdráttarins. Þau Lilja urðu par og gengu svo saman æfiveginn. Þau voru bráðung og Ingi fékk forsetaleyfið svo hann mætti ganga í hjónaband. Þau sögðu já í kirkjunni og gengu í hjónaband í lok október árið 1951. Hún var drottingin í lífi hans og hann kóngurinn. Líf þeirra var gott, litríkt og gjöfult.  

Synir þeirra Inga og Lilju eru Magnús, Gunnar og Bolli Þór.

Magnús er framhaldsskólakennari. Kona hans er Brynhildur Ingvarsdóttir, augnlæknir. Sonur Magnúsar er Ingi Fjalar og kona hans er Sólveig Ólafsdóttir.

Jóhanna Katrín Magnúsdóttir er gift Finni Vilhjálmssyni.

Lilja Ósk Magnúsdóttir fæddist 1986 og Gunnar Ingi Magnússon kom í heiminn 1991. Hans kona er Eva Harðardóttir.

Gunnar, annar sonur Lilju og Inga, er framkvæmdastjóri. Kona hans er Hrund Sch. Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur. Börn Gunnars eru Davíð, Jakob, Soffía og Magnús. Kona Davíðs er Nína Björk Arnbjörnsdóttir. Unnusti Soffíu er Jón Dagur Þorsteinsson og Glódís Ylgja Hilmarsdóttir er unnusta Magnúsar.

Bolli Þór Bollason er svo þriðji strákurinn og elstur. Hann kom ungur til Guðlaugar ömmu sinnar og Lilju þegar blóðforeldrar hans skildu. Faðir Bolla var bróðir Lilju og þeim mægðum rann blóðið til skyldunnar og hann varð eiginlega sonur þeirra beggja og gat þar með ráðið sjálfur til hvorrar hann leitaði. Það var því forréttindastaða sem hann var í – að njóta styrkleika tveggja kvenna sem voru báðar miklar fyrir sér. Svo þegar Ingi kom á heimilið varð hann stjúpi Bolla. Bolli Þór var ráðuneytisstjóri. Kona hans er Hrefna Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Elst barna Bolla er Ólöf og maður hennar er Guðmundur Pálsson.

Svo er það Lilja Guðlaug, sem fékk nöfn mæðranna beggja. Þá er Lárus og kona hans er Lára Björg Björnsdóttir. Þórunn er gift Sigurgeiri Guðlaugssyni. Stjúpdóttir Bolla er Jóhanna Guðmundsdóttir. Hennar maður er Mohsen Rezakahn Khajeh. Halla Lárusdóttir, fyrri kona Bolla, var móðir Lilju Guðlaugar, Lárusar og Þórunnar. Hún er látin.

Dætur Hrefnu eru Karen Þóra Sigurkarlsdóttir og hennar maki Jón Axel Björnsson og Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og hennar maður er Elvar Kjartansson.

Þetta er stór og kraftmikill hópur, barnabörnin á annan tug og barnabarnabörnin þrír tugir. Ríkidæmi Inga og Lilju var mikið. Og þau fylgdust vel með sínu fólki. Margir afkomendanna voru svo lánsamir að fá að gista hjá Inga og Lilju og fara ferðir með þeim um landið og í sumarbústaðareisur. Fyrir hönd alls þessa fólks er þakkað í dag.

Svo eru þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar. Bolli og Hrefna eiginkona hans eru erlendis og komast ekki til þessarar útfarar og biðja fyrir kveðjur til ykkar ástvina. Dætur Bolla, þær Ólöf, Lilja Guðlaug, Jóhanna og fjölskyldur þeirra biðja fyrir kveðjur. Sömuleiðis Guðmundur Jónsson. 

Þegar Ingi og Lilja gengu í hjónaband bjuggu þau fyrst við Laugaveginn. Magnús var þá í gerðinni. Síðan fluttu þau inn í Laugarnes árið 1957. En Vesturbæinga langar oftast „heim“ – og þau Ingi og Lilja byggðu sér íbúð á Kaplaskjólsvegi árið 1960 og fjölskyldan hjálpaðist við að klára íbúðina. Lilja og Ingi unnu úti en öll voru þau svo lánsöm að drengirnir undu vel KR-lífinu og uxu upp í fjörinu og krakkamergð svæðisins. Þar var líf, fjör, líkaminn stæltist í boltanum og persónuþroskinn og félagsfærnin í samskiptunum.

Minningarnar

Nú kveðjum við Inga. Hvernig manstu hann? Og við getum einfaldað með því að spyrja hvaða mynd hefur þú af honum í þínum myndabanka? Já, Ingi var listrænn og næmur. Hann var völdundur hins sjónræna, myndlistar og ljósmynda. Og þó hann hafi ákveðið að segja skilið við sög og hefil naut hann smíðaþjálfunar bernskunnar. Hann hafði fengið þjálfun í formskynjun, og náði að stæla verkhyggni og temja sér gott vinnulag. Myndirnar hans Inga sýna ljósvitund og góða formskynjun en líka auga fyrir margbreytileika mannlífsins. Mótífin hans eru fjölbreytileg. Eftir að erli dagblaðaljósmyndunar lauk tók við vinna í stúdíóum og auglýsingaljósmyndun. Þær voru því margar myndirnar sem Ingi tók um dagana, margar listaverk og fjöldi þeirra miklar tilfinningamyndir og þmt fjölskyldumyndirnar. Ingi hélt áfram að vinna með myndir og allt til loka. Ég hef ekki heyrt um nokkurn mann annan sem fékk flottan ljósmyndaprentara í afmælisgjöf á níræðisafmælinu. En Ingi var opinn, hugaður og þorði að vinna með nýja tækni í ljósmyndun og ljósmyndavinnslu. Ný tölva, nýr prentari hæfði Inga, líka á tíræðisaldri. Hann er ekki aðeins maður myndanna heldur líka fyrirmynd okkur um að vera opin, forvitin um líf, verðandi, tækni og breytingar.  Við týnum tímanum öllum en megum helst ekki týna lífsgleðinni og framtíðinni.

Músíkmaðurinn

Ingi var líka músíkalskur. Hann hélt músík að sínu fólki og mat alls konar tónlist. Einar Kristjánsson, stórsöngvari var náfrændi, og Ingi hafði bæði mótun og næman skilning á sönglist og söngfærni. Hann mat klassíska tónlist, hlustaði með mikilli gleði á jazz. Hann var fínstilltur og vildi góð tæki til að tónlistin nyti sín, keypti góðar græju og smíðaði jafnvel hátalara sjálfur til að tryggja hlustunargleðina. Ungviðið á heimilinu og fjölskyldan naut góðs smekks hans en hafði líka græjurnar til að tónlistin yrði hljómgóð. Krakkarnir í nágrenninu gátu hlustað á Bítlana, Led Zeppelin og Rolling Stones með góðu sándi. Ingi hlustaði vel á sína músík hvort sem það var John Williams, Bill Evans eða Miles Davis. Músíksóknin lifði í Inga alla tíð og allt til enda. Hann heyrði tónlist ekki bara í hljóðfærum heldur gladdist líka yfir hljóðgæðum í Rolleiflexnum -eða öðrum góðum myndavélum – þegar smellt var af. Hann undraðist í seinni tíð hvað hann gæti fundið mikið á youtube af góðri músík og líka með myndskeiðum af meisturunum!

Sveitin og náttúruunnandinn

Svo var sveitin í Inga. Rastaða myndin í sálmaskráropnunni sýnir Bergstaði, Drumboddstaði og Tungurnar. Ingi var í sveit á Drumboddstöðum sem sést hægra megin á myndinni, er þarna á réttum stað – við Allt eins og blómstrið eina. Ingi lærði á búskap, skildi gróandann og blómstrin, lærði að vinna og tengdist fólki djúpum böndum. Hann var líka dýravinur. Í myndasafni sálmaskrárinnar sjáum við Inga sundríða hesti. Sjósundsslagorðið á við: Hættu að væla komdu að kæla. Það er kapp og fjör í báðum. Ingi átti hesta um árabil og naut samvistanna við dýrin, dýravinina og náttúrunar.

Vandvirkur Ingi

Manstu hve Ingi var vandvirkur og miðlaði til ástvina sinna að velvirkni væri dyggð. Snyrtimenni. Hann vildi engar lélegar reddingar, heldur að verkin væru almennilega unnin og allt gert vel. Og af því Ingi var næmur á tækni og möguleika var leitað til hans til að klára mál og redda. Hann setti upp hitamæla því hann vildi vita hver hitinn væri úti. Hann smellti upp loftnetum þar sem hann var því hann vildi að heyrðist í útvarpinu. Vinir hans í hljóðheiminum voru ráðhollir og hann miðlaði síðan þekkingunni þar sem hann fór. Og auðvitað kom hann allri blokkinni í samband og sá til þess að allir sem vildu gætu séð Kanasjónvarpið. Ingi staðnaði ekki, heldur var opinn þó hann eltist. Hann vildi fá að vita og skilja hvernig Internetið virkaði og var óhræddur við tölvuvæðinguna.

Stórfjölskyldan

Svo var fjölskyldumaðurinn Ingi. Þau Lilja voru skemmtileg hjón og mér þótti kraftmikil gleði einkenna þau sem par. Þau ræktuðu vel sitt fólk. Þegar barnabörnin komu í heiminn voru þau natin í ömmu- og afahlutverkunum og Ingi vílaði ekki fyrir sér bleyjuskiptin og tókst á við að passa einn. Allt fór honum þetta vel úr hendi eins og annað sem hann gerði. Hann vakti yfir velferð fólksins síns, tók sér til hjarta ef eitthvað fór úrskeiðis og gladdist yfir áföngum, sigrum og gleðimálum. Þau Ingi voru dugleg að fara með sitt fólk í ferðir og bústaði eins og sálmaskráin sýnir. Ömmubörnin muna dekrið, ferðirnar, natnina, fjölbreytileikann og hve amma og afi elskuðu þau mikið. Ingi var stoltur af sínu fólki og vildi allt þeim besta í lífinu. Stóð alltaf með þeim. Og svo má minna á að Ingi varð æ betri kokkur eftir því sem hann eltist. Í því þjónaði hann sínu fólki og ekki síst konu sinni þegar þörf var á.

Nú kveðjum við Inga. Hann er farinn inn í ljós eilífðar. Þið hafið tekið myndir fyrir minningarnar. Og við megum sjá Inga og Lilju í ljósheimi gleðinnar. Ingi má alveg glotta og skjóta fram kímniorðum sínum. Og ég held að hann fái alveg örugglega góðan prentara fyrir margvíddarprent. Lof sé Inga, Guð geymi hann og blessi ykkur ástvini í hinu mikilvæga lífsverkefni að lifa vel. Í því er Ingi okkur öllum fyrirmynd.

Amen.

Kistulagning og útför 24. september, 2021. Neskirkja. Bálför. Erfið á Torgi Neskirkju.

Nýr tími Bandaríkja Norður Ameríku

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Tímaskil urðu í heiminum 20. janúar. Tímabili lyganna lauk og nú er runninn upp tími til að segja satt um menn og málefni. Tímabil sundrungar, aðgreiningar og sérhyggju er að baki og mikilvægt að gott fólk taki til hendi og sameinist um að leggja góðu lið. Hvað tekur við er óljóst. 

Innsetningarathöfnin við þinghúsið var einföld en heillandi. Kona er varaforseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Glerþakið var tjakkað upp. Lady Gaga söng þjóðsönginn með stæl. Ekki skemmdi kjóllinn hennar og friðardúfan sem minnti á dúfu Picasso. Amy Klobucher smitaði gleði yfir að eldurinn væri slökktur og nýr tími fæddur. Vettlingar og föðurland Bernie Sanders vermdu og skemmtu. Ræða Jo Bidens sannfærði að stjórnsýslan verður skilvís en ekki lemstruð af bræðisköstum síðustu ára.

Þetta var ekki bara byrjun heldur líka útfararathöfn. Af öllu sem sagt var og gert á þessari innsetningarhátíð var ljóðið sem Amanda Gorman samdi og flutti um opnun. Hún nefndi vanda og verkefni, litaði og færði til, lokaði og opnaði. Það er frjálst fólk sem yrkir og gengur svo vasklega inn í nýjan tíma. Ljóð Gorman sem er að baki þessari smellu. Fíkjutré Biblíunnar hafa skotið nýjum rótum.

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Myndina tók ég  um kl. 16 þegar innsetningarathöfnin í Washington var að hefjast.