Guðrún Guðlaugsdóttur – minningarorð

Í Guðrúnu Guðlaugsdóttur bjó list, fegurð, næmleiki og elska. Hvernig móta upphafsárin líf fólks? Hvaða áhrif hefur það á stúlkubarn að vera uppalið í hópi kvenna? Þegar hún var barnung veiktist móðir Guðrúnar veik, dvaldi árum saman sjúkrahúsi og dó þegar hún enn var barn. Það var ekki sjálfgefið hver yrði hennar skjólgarður í þeim aðstæðum. En móðursystur og amma tóku Guðrúnu til sín og að sér, ólu hana upp og komu henni til þroska.

Hvernig verðum við til sem manneskjur? Guðrún var lánssöm, hún átti góða að, naut ástúðar í uppeldi og margra kvenna sem báru hana á örmum, hvöttu og styrktu. Saga Guðrúnar Guðlaugsdóttir er heillandi og bernskusaga hennar vekur margar spurningar um tilfinningar og þroska einstaklings í litríku mannlífi á Íslandi milli heimsstyrjalda þegar Guðrún varð til og mótaðist.

Guðrún Guðlaugsdóttir var Árnesingur að uppruna. Hún fæddist á bænum Gegnishólaparti í Gaulverjabæjarhreppi 15. ágúst árið 1924. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Friðfinnsdóttir og Guðlaugur Pálsson. Guðbjörg kynntist barnsföður sínum þegar hún vann í Húsinu á Eyrarbakka og hún fór oft í búðina til Guðlaugs. Þau Guðbjörg bjuggu ekki saman en milli fjölskyldna þeirra var samgangur og vinsemd. Guðrún flutti frá Eyrarbakka til Reykjavíkur tveggja ára gömul. Móðir hennar fékk berkla og var því tíðum fjarri heimili og dvaldilangdvölum á Vífilstaðaspítala. Þar lést hún árið 1930 þegar Guðrún var aðeins sex ára gömul. Hún ólst því upp hjá móðurömmu sinni, Guðrúnu Jóhannesdóttur, og móðursystrum hennar, Guðrúnu og Pálínu Friðfinnsdætrum. Sú þrenning var Guðrúnu Guðlaugsdóttur kærleiksríkur skjólgarður.

Guðlaugur eignaðist síðar aðra konu, Ingibjörgu. Hún reyndist Guðrúnu, sem var elsta barn Guðlaugs, hið besta. Börn Ingibjargar og samfeðra hálfssystkin Guðrúnar voru: Ingveldur, Jónas, Haukur, Páll, Steinunn og Guðleif. Ingibjörgu var umhugað um að rækta tengslin milli Guðrúnar og yngri hálfssystkina hennar og sagði gjarnan við börn sín. „Þið eigið systur í Reykjavík og þið eigð að heimsækja hana.“ Ingibjörg var enn ein konan sem gerði Guðrúnu gott. Þökk sé henni og þökk sé hálfsystkinunum sem umvöfðu systur sína og voru henni styrkur og gleðigjafar. Þau hafa alla tíð vitjað eða heimsótt systur sína.

Guðrún þótti afar skýrt barn. Hún söng mikið og þótti efnisstúlka um allt. Skólarnir sem hún gekk í voru til fyrirmyndar og mikilvægir í skólasögu Íslands. Húsakynni þeirra voru og eru einnig tákn í Íslandsmenningunni. Guðrún hóf skólagönguna í Miðbæjarskólanum við Tjörnina. Hún var dugmikil í námi. Vegna færni og iðni var hún í góðum bekk. Margir af  bekkjarfélögunum urðu síðar landsþekktir. Síðar sótti Guðrún hinn merka Ingimarsskóla við Lindargötu og þaðan tók hún gagnfræðapróf. Svo fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur á Sólvallagötu 12. Þar var Guðrún einn vetur. Hún var Reykjavíkurdama og var svo lánsöm að njóta góðrar menntunar og gæða vaxandi bæjar. Góður námsferill og öflug ung kona á leiðinni út í líf og störf.

Guðrún fór snemma að vinna fyrir sér. Hún var vandvirk, nákvæm og skipulögð og fékk starf í bókbandi hjá menningarvitanum Ragnari í Smára og handlék bækur meistaranna og bjó í hendur lesenda þjóðarinnar. Úr bókbandinu fór hún í bókhald og skrifstofustörf hjá Smjörlíki hf. Þar vann hún til 67 ára aldurs eða í samtals 34 ár. Guðrún naut trausts á vinnstöðum sínum, var metin að verðleikum og falin vandasöm störf.

Guðrún var tvígift. Fyrri maður hennar var Guðjón Gunnarsson, vélvirki. Þau gengu í hjónaband árið 1947 en nutu aðeins samvista í þrjú ár saman. Guðjón lést úr heilahimnubólgu árið 1950. Eftir fráfall Guðjóns naut Guðrún góðra tengsla við fólkið hans og allt til enda.

Seinni maður Guðrúnar var Magnús Vilhjálmsson húsa- og skipa-smiður. Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson. Það var milli jóla og nýárs árið 1951, sem þau Magnús og Guðrún Guðlaugsdóttir sáu hvort annað í Breiðfirðingabúð – og hrifust. En það skal vanda sem lengi skal standa. Þau flýttu sér ekki heldur kynntust vel áður en þau hófu hjúskap og giftu sig árið 1956. Þau bjuggu fjölskyldu sinni gott heimili og smiðurinn Magnús smíðaði það sem þurfti, hvort sem voru innréttingar, skápar eða húsmunir. Þau Guðrún voru samstillt, fyrirhyggjusöm og dugmikil.

Guðrún og Magnús bjuggu lengstum í vesturhluta Reykjavíkur, byrjuðu búskap á Nýlendugötu og fóru síðan inn á Háaleitisbraut og bjuggu þar í ellefu ár. Síðan fluttu þau á Túngötu og Vesturvallagötu og fóru þaðan vestur í stórhýsið á Grandavegi 47. Guðrún og Magnús voru samhent, unnu saman við nýbyggingar sínar, ferðuðust víða og ekki síst þótti þeim gott að fara til Kanarí eftir áramót.

Guðrún og Magnús eignuðust dótturina Guðbjörgu í september árið 1957. Hún er kennari að mennt og starfar við Landakotsskóla. Foreldrarnir bjuggu dóttur sinni góða og áhyggjulausa æsku. Pabbinn smíðaði fyrir hana húsgögn, dúkkuhús og leikföng sem hún þurfti og langaði í – meira segja straujárn úr tré – sem daman var sátt við og þjónaði ágætlega sínu hlutverki. Maður Guðbjargar er Árni Larsson, rithöfundur.

Hvernig manstu Guðrúnu? Já, hún var bókakona og las mikið. Ekki aðeins íslenskar bækur heldur líka erlendar skáldsögur, þýskar og danskar, breskar og bandarískar. Og hún las líka bækur höfunda frá Kóreu, Pakistan og Nígeru svo hún varð vel heima í bókmenntum heimsins. Hún las af einbeittni og ákefð en tengdasonur hennar sagði með blik í auga að henni hefði ekki líkað við frönskuskotna enskuna í bók frá Haiti. Hún hefði skilað henni.

Það er sístætt umræðuefni hvort kvikmyndir sem gerðar eru eftir skáldsögum séu betri eða verri en originallinn – frumsagan. Sumar af sögunum sem Guðrún las sá hún síðar í kvikmyndaformi. Guðrún las skáldsögur af „skammlistum“ stóru útgáfufyrirtækjanna.

Guðrún hafði áhuga á kvikmyndum – einkum þeim „listrænu“ – og var ekki verra ef þær voru um kóngafólk. Elísabet 2. Englandsdrotting var sem næst jafnaldra Guðrúnar og henni þótti gaman að horfa á  Netflix-seríuna Crown og þótti gott að dóttir hennar hafði gaman af líka. Á fyrri árum sá Guðrún gjarnan mánudagsmyndirnar í Háskólabíó.

Guðrún var alla tíð námfús og fylgdist vel með hræringum menningar og samfélags. Hún hélt áfram að bæta við sig og menntast. Um fimmtugt var hún t.d. að læra þýsku.

Guðrún var músíkölsk eins og margt hennar fólk og hafði einkum áhuga á klassískri tónlist. Bróðir Guðrúnar, Haukur, er einn af helstu tónlistarfrömuðum Íslendinga síðustu hálfa öld. Hún fylgdist með afrekum hans og hvernig hann byggði upp kóra- og orgelmenningu þjóðarinnar. Hún hlustaði gjarnan á diskana hans. Og það er nemandi Hauks sem spilar við þessa athöfn. Í lokin munum við svo hlusta á upptöku Hauks af orgeldidiski hans.

Guðrún var næm og hafði góða frásagnargetu. Hún lýsti vel í síma útsýni, blæbrigðum ljóss yfir Faxaflóa, veðurmálum, snjókomu, fólkinu sem gekk með sjónum við Grandaveginn, leik birtunnar á Snæfellsjökli.

Manstu skopskyn Guðrúnar? Hún hafði það sem tengdasonur hennar kallaði japanska kímnigáfu, gat vel gert grín að sjálfri sér og hló hjartanlega að kátlegum málum.

Svo var hún smekkleg. Guðrún þorði að velja sér áberandi föt. Hún bar stundum stóra skartgripi eða var í fötum með tígrismynstri og fór í glæsilegan pels. Henni var annt um fegurð heimilins. Magnús smíðaði innréttingarnar og það sem kaupa þurfti valdi hún – og þau hjón – af smekkvísi. Þau vildu gjarnan styðja íslenska hönnun og áttu m.a. sófa sem Gunnar Magnússon hafði teiknað.

Nú er Guðrún farin inn í eilífðina. Hún fer ekki lengur í kaffivagninn eða lýsir undrum heims og menningar. Hún lifir nú í minni ykkar og í ljósríki eilífðar, með mömmu og pabba, Guðrúnum himinsins, ættboganum, stórfjölskyldunni. Guð geymi hana og Guð geymi þig. Amen.

Minningarorð SÁÞ. Kistulagning og útför: Kapellan í Fossvogi 15. nóvember, 2021. Kistulagning kl. 13,30. Haukur Guðlaugsson leikur á orgel í kistulagningu. Útför kl. 15. BSS og kvartet félaga úr Schola Cantorum. Erfi: Hótel Natura.