Ófeigur Björnsson

Ófeigur Björnsson, gullsmiður, kvaddur

„Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ segir Jesús í textanum sem ég las fyrir ykkur úr Jóhannesarguðspjalli. Meistarinn frá Nasaret minnti á að lífið er ekki smátt heldur mikið, ekki lítilmótlegt heldur stórkostlegt. Möguleikarnir eru ekki takmarkaðir heldur margvíslegir og heimurinn er ekki bara gata í bæ heldur stórveröldin, bæði þessa heims og annars. Og samkvæmt Jesúnálguninni er lífið ekki búið þegar hjarta hættir að slá og blóð að renna um æðar – heldur er listaverk Guðs margra heima og vídda.

Ævintýrahús

Hildur sýndi mér hús þeirra Ófeigs í vikunni. Ég hef oft komið í búðina til þeirra á Skólavörðustígnum, keypt marga skartgripi Ófeigs, gert mér ferð á sýningarnar sem þau Hildur hýstu og meira að segja sótt til þeirra skúlptúr Páls í Húsafelli sem vinir okkar hjóna gáfu okkur og þau Ófeigur höfðu geymt í garði sínum. Ég vissi því að hús Ófeigs og Hildar væri smekklegt og áhugavert. En mig óraði ekki fyrir að það væri eins og ævintýrahús í Harry Potter-bók eða mynd. Verkstæðið með vinnuborðunum er fullt af dóti, staður til að tala, skapa, hlægja, gramsa og jafnvel kíta. Efni og gögn eru upp um alla veggi og ekki auðvelt að sjá reiðuna í öllu magninu. En íbúarnir vita nákvæmlega hvar þetta blaðið eða efnisbúturinn væri. Og svo fórum við lengra, í gegnum herbergi, fram hjá dyrum verslunar Ingu Elínar, upp brattan stiga og í íbúð þeirra Ófeigs. Þar eru stofur, eldhús og herbergi, og ekki öll á sama plani eða með sömu lofthæð sem eykur furðuna. Vistarverur eru fullar af kærleika, listmunum, litum og persónuvíddum húsráðenda. Og svo fóru við enn ofar og þá tók við ríki drengjanna, kjólasauma, hattagerðar og gesta, undraheimur í upphæðum með mörgum litum. Og alla leið niður í kjallarann, þennan útgrafna undraheim í hundrað og fjörutíu ára húsi, hvítmáluð vistarvera, svo snyrtileg, með efni skúlptúristans og gullsmiðsins, dyngja listamannsins sem hefur safnað efni sem gæti komið að notum í framtíðinni – eins og ávísun á framlíf, frekari verk og opinn tíma – eða kannski eilífð.

Skólavörðustígur hér og þar

Í húsi föður míns eru margar vistarverur – já í húsi Ófeigs og Hildar eru margar vistarverur – minningarrými. Og hafa skírskotanir til lífs. Heimili þeirra er eins og tákn um þá lífshætti sem þau Ófeigur hafa iðkað og vinir og fjölskylda hafa notið og við flest síðan þau fluttu á Skólavörðustíginn fyrir þremur áratugum. Þá fóru þau að skapa menningu Skólavörðustígsins sem gerði hann að skemmtilegustu götu Reykjavíkur. Ófeigur var ekki bara húsvörður Skólavörðustígsins eða þau Hildur guðfaðir og guðmóðir menningarinnar, heldur voru þau í hópi metnaðarfulls fólks sem byggði upp samfélag skapandi lista. Í húsi Ófeigs eru margar vistarverur, í samfélagi Skólavörðustígsins eru margar víddir, í menningu miðborgarinnar hafa undrin orðið. Nú er Ófeigur að kanna vistarverur eilífðarinnar – og væntanlega aldeilis flottur lagerinn í þeim kjallaranum og þénanlegt borð til að smíða – og Ófeigur loks algerlerga laus við klukku og tíma. Aðstæður til að skapa. Margar vistarverur – þar sem ég er – segir Jesús. Gott að fá að vera í slíkri búð.

Æfiágrip

Ófeigur Björnsson fæddist á Valentínusardeginum 14. febrúar árið 1948 inn í litríkt menningarheimili margra tenginga. Foreldrar hans voru hjónin Björn Ófeigsson og Jensína E. S. Jónsdóttir. Faðirinn var stórkaupmaður og móðirin húsmóðir. Systkini Ófeigs eru Jón Björnsson, arkitekt, Jóhanna Björnsdóttir, nuddfræðingur og fararstjóri, og Anna Lísa Björnsdóttir, flugfreyja. Systurnar lifa bræður sína. Ófeigur naut frelsis, stuðnings, velvilja og fékk að þroskast að eigin vild, gera tilraunir og vaxa upp og þroska gáfur sínar. Alla tíð var Ófeigur sjálfstæður og var fremur upptekinn af því sem honum sýndist mikilvægt en einhverju almenningsáliti.

Áhrifavaldurinn

Í æsku var Ófeigur drifkraftur í Norðurmýrinni þar sem hann ólst upp og síðar í Brekkugerði. Þegar Ófeigur vildi fara út að leika beitti hann ofurflauti sínu, blístraði svo hvellt og skerandi að krakkarnir heyrðu merkið. Og þau streymdu út úr húsunum til leika. Ófeigur kallaði – hann varð sem sé áhrifavaldur þegar í bernsku. Alla tíð var Ófeigur uppátækjasamur og hætti aldrei að bralla í lífinu. Áhrifavaldur í menningu og samfélagi.

Pabbi Ófeigs var einu sinni á gangi á Carnaby Street í upphafi bítlaaldar. Hann gerði sér grein fyrir stílbreytingunum og vissi að Ófeigur væri maður til að ganga í útvíðum buxum og skræpóttum skyrtum. Svo pabbinn keypti flottustu jakkafötinn og unglingurinn varð aðaltöffarinn og tískulaukur hverfisins. Engum kom á óvart þegar Ófeigur birtist skyndilega á fjólubláum buxum sem var nú aðallega föstulitur í kirkjum á þeim árum. Ófeigur fékk í arf og vegna uppeldis vitund um liti, form, fegurð og föt. En svo var hann sjálfur litsækinn og hugaður. Ófeigur hafði alltaf sinn stíl og þorði að blanda litum, formum og furðum þvert á það sem aðrir myndu gera hvort sem það var heima eða á Spánarströnd. Litríkið fylgdi honum alla leið og í kistu líka.

Gullsmíði og skúlptúrar

Eftir skóla lagði Ófeigur stund á gullsmíðanám og lærði hjá Jóhannesi Jóhannessyni á Skólavörðustígnum. Hann útskrifaðist frá Iðnskólanum árið 1969 – var sá fjögur-þúsundasti sem útskrifaðist frá þeim merka skóla hér við hliðina á Hallgrímskirkju. Ákveðin formleit bjó í Ófeigi og hann stundaði nám í skúlptúrdeild Myndlistarskóla Reykjavíkur. Til að sjá sér og fjölskyldunni farborða starfaði Ófeigur sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli frá 1973 til 1997. Vinnan, félagsskapurinn og vinnuumhverfið hentaði honum vel og lagði grunn að mörgu í lífi hans, fjárhagslega og félagslega.

Hildur og fjölskyldan

Ófeigur var svo heppinn að Hildur varð drottning lífs hans. Tómas Andrés Tómasson dró vin sinn með sér í bæinn og á rúntinn. Þeir Ófeigur enduðu svo í bíó. Þar var Hildur með skólasystur Tomma sem hann heilsaði. Ófeigur fór inn í bíóið á undan vini sínum og settist si svona hjá stelpunum. Tommi kom svo inn og spurði síðar af hverju hann hefði sest hjá þeim. „Nú þú heilsaðir þeim.“ Ófeigur var alltaf kurteisislega slakur. En þegar kom að málum Hildar sótti hann inn í geislann hennar og þar var allt rétt. Hamingjan heilsaði honum og kærleikur þeirra beið aldrei skipbrot. Ófeigur tilkynnti Tomma að Hildur væri hans. Neistinn kveikti bál og suðan þeirra brast aldrei. Þau Ófeigur og Hildur Bolladóttir gengu í hjónaband í maílok árið 1969 og voru því búin að vera lífsfélagar í meira en hálfa öld þegar Ófeigur lést. Hildur er kjóla- og hattameistari – eins og allir vita sem hafa komið á Skólavörðustíginn. Alla tíð dáðist Hildur að manni sínum og hann að henni og þau styrktu hvort annað. „Hún hló alltaf að honum“ sagði sonur þeirra og tjáði um leið ást þeirra sem er best í aðdáun, vináttu og kátínu. Þau voru ólík og byggðu á styrkleikum, voru samhent og ræktuðu virðinguna. Í því eru þau skínandi fyrirmynd okkur hinum.

Strákarnir tveir komu í heiminn, Bolli í september 1970 og Björn í janúar 1973. Bolli er gullsmíðameistari og rafvirki. Kona hans Þórunn Margrét Gunnarsdóttir, leikskólakennari. Börn þeirra eru Gunnar, Hildur Margrét og Bára María. Björn er grafískur hönnuður. Kona hans er Aníta Rut Harðardóttir, varðstjóri. Fóstursynir Björns eru Lúðvík Marínó Karlsson og Alexander Emil Beck.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Ófeigur og Hildur austan við Skólavörðuholtið, við Vífilsgötuna. Svo tóku þau þátt í íslenska draumnum og fóru að byggja. Þau unnu sjálf við bygginguna og þá var heppilegt að Ófeigur var einn og heilan sólarhring í vinnunni suður á Velli og svo kom hann heim og átti tvo sólarhringa hjá fjölskyldunni og í byggingavinnunni upp í Vesturbergi 79. Allt gekk þeim að sólu. Þau fluttu inn á þjóðhátíðardeginum 1976. Meira að segja veðrið var dásamlegt þetta sumar og fór upp í yfir 24 gráður rétt eftir að þau voru flutt í þessar upphæðir Reykjavíkur. Drengirnir höfðu næg verkefni og Ófeigur var þeim natinn pabbi, hafði alltaf gaman af skemmtilegheitum og stýrði m.a. brennugerð fyrir áramótin. Vanur slökkviliðsmaðurinn bjó til kyndla fyrir drengina og var hrókur alls fagnaðar sem brennumaður. Hann hvatti sína menn til afreka, átaka og gleðiefna. Gekk sjálfur á undan með góðu fordæmi í alls konar bralli, átti hlut í bát sem hann sigldi á um sundin, fór á skak eða bara í siglingu í dýrð sumarkvöldsins. Ófeigur treysti sonum sínum furðu ungum til átaka á sjónum. Í Ófeigi bjó hugur og geta til ferða, fjörs og upplifana. Það gaf hann sonum sínum í arf.

Ófleygur

Svo var flugmennskan. Ófeigur var flugmenntaður og sótti upp í himininn. Einu sinni sá hann til manns út á túni að setja saman svifdreka. Ófeigur færði sig nær og tók manninn tali. Sá hafði gaman af handverkinu og samsetningunni en var ekki viss um að hann myndi fljúga græjunni. Það þótti Ófeigi næsta einkennilegt svo hann bauð sig fram sem tilraunaflugmann, fór upp á þúfu og flugið tókst. Svo var næsta tilraun í Úlfarsfelli og tókst mæta vel. Síðan varð Ófeigi ekki aftur snúið. Hann varð einn frumkvöðlum og stofnendum Svifdrekafélags Reykjavíkur og fyrsti formaður. Alltaf komst hann lifandi úr flugleiðöngrum sínum en félagar hans grínuðust með þegar hann lenti hastarlega að hann væri ekki Ófeigur heldur Ófleygur. Ófeigur hafði gaman af.

Gripir Ófeigs

Ófeigur átti listamenn að vinum og naut samvista við skapandi fólk. Gullsmíðin og iðja stéttarinnar höfðaði til hans. Hann hafði næmt auga fyrir formum, áferð og litum. Nálgun hans í listgrein hans var skúlptúristans. Munirnir sem hann smíðaði voru eins og smækkaðir skúlptúrar. Ófeigur var alla tíð sjálfstæður og engum háður. Hann þorði að fara eigin leiðir og smíða það sem djúp sálar hans kallaði á. Skartgripir Ófeigs voru því gjarnan sérstakir, einstakir og með sterkum höfundareinkennum. Það fór ekki milli mála hver hafði gert og því urðu munir hans víða samtalsefni því Ófeigur var frumlegur. Í kjallaranum á húsi þeirra Hildar er enn lager af því sem Ófeigur safnaði sér til að smíða úr.

Listamiðstöð og kraftuppspretta

Já, þau fluttu á Skólavörðustíginn. Bæði áttu fjölskylduupphaf í hverfinu. Ófeigur hafði ekki aðeins lært á þessum slóðum heldur líka verið meðlimur í Gallerí Grjót sem hafði aðsetur neðarlega við Skólavörðustíg á níunda áratugnum. Hildur hafði líka tengsl á torfuna. Og þó þeim liði vel í upphæðum Breiðholts voru þau þó með augun á miðbænum. Svo fann Hildur húsið sem þau síðan keyptu. Það hentaði þeim sem vinnustofa og heimili. Þau fluttu í húsið nr. 5 árið 1991 og eru því búin að búa þar í þrjá áratugi, skapa veröld undra og menningar. Þau settu upp verkstæði og sölubúð og bættu við sýningarsal fyrir ofan verslunarrýmið. Gullsmiðju-og listmuna-hús Ófeigs var stofnað árið 1992. Í sýningarsalnum hefur verið himnaríki listanna. Þar hafa verið haldnar um 360 listsýningar. Það er stórkostlegt. Í bakgarðinum og einnig fyrir búðardyrum fyrir framan verslun Ófeigs og Hildar hafa verði haldnir fjölmargir tónleikar og listviðburðir. Þau Ófeigur og fjölskylda hafa verið frumkvöðlar, hugsjónafólk sem hafa unnið kraftaverk í menningarmálum, beitt sér fyrir götuhátíðum, verið gæðahvatar hverfisins. Þau hafa fagnað nýjum listamönnum og verslunarfólki, borið blóm hamingjunnar til fólks sem var að byrja rekstur, lofsungið þau sem hafa skarað fram úr og gert Skólavörðustíginn og miðbæinn betri. Alltaf hvetjandi, alltaf eflandi. Þau Ófeigur sáu aldrei ógn í öðrum listamönnum, handverksmönnum eða verslunareigendum. Þau litu ekki á aðra sem hættu heldur félaga í að gera gott betra, efla mannlíf og gera góðan stíg að bestu götu borgarinnar. Ófeigur stóð gjarnan utan búðar, átti góð orð fyrir alla sem fóru hjá og hvatninu til nágranna, hugmyndir til eflingar eða nýsköpunar. Ófeigur var ekki aðeins góður gullsmiður heldur smíðaði gull í samskiptum og menningu hverfisins. Hann var ekki aðeins handverksmaður heldur menningarlistamaður, gull af manni sjálfur og þau Hildur guðfeðgin hverfisins. Líf þeirra og störf urðu kraftuppspretta mannlífs og menningar. Það er því við hæfi og eðlilegt að þau hafi fengið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag til þróunar miðborgarinnar. Og takk fyrir allar götuhátíðirnar, kjötsúpudaginn, blómadaginn, beikonfestivalið, matarhátíðirnar og blúsfestivalið.

Mannvirðing

Ófeigur var meistari mýktarinnar í samskiptum við fólk. Hann kunni ekki að greina fólk í flokka og fór ekki í manngreinarálit. Hann rabbaði við Madeleine Albright með sama hætti og við Helga úrsmið, Egil Ólafs, Jóa í Ostabúðinni eða afgreiðslufólkið í Tösku- og hanskabúðinni. Það var því ekki aðeins merkilegt að skoða handarverk hans heldur ánægjuleg og skemmtileg reynsla að ræða við hann um þau eða lífið. Ófeigur hafði í sér þessa jákvæðu lífssýn að fólk væri dýrmætt og allir væru mikilvægir. Hann var óbeislaður af tímapressu og var eins og spekingur sem fólk laðaðist að. Og svo fór fólk með gleði og fallega muni heim, ekki bara Clinton, Madeleine Albright og Ringo Starr heldur svo mörg okkar sem hér kveðjum í dag og mannfjöldinn sem hefur farið um Skólavörðustíginn.

Mýkt samskipta

Og hvað var Ófeigur þér? Hvað sagði hann eða gerði sem hefur lifað í þér? Manstu hve næmur hann var á fegurð og hræringar náttúrunnar? Og dró með sér heim tilfinningar sem hann tjáði síðan í verkum sínum. Manstu hve slakur hann var gagnvart framrás tímans? Klukkuverk hans var af öðrum heimi. Það var eins og tíminn væri óháður, hann talaði og var. Fólk leitaði því gjarnan til hans, í hafkyrru jákvæðni Ófeigs. Hann reifaði málin, reifst ekki, skapaði ekki óreiðu eða óvild en gat sagt skoðun sína skýrt og án nokkurrar áreitni. Af því hann dæmdi ekki gátu vinir hans og samferðamenn leitað í visku hans.

Ritúal og gjörningar Ófeigs

Ófeigur var ekki allra og bar sjaldan mál sín á torg. Íþyngdi ekki fólkinu sem hann umgekkst og reyndi að leysa úr málum með lausnamiðaðri nálgun. Hann hafði bæði þörf fyrir og lag á að búa til ritúal úr verkefnum sínum eða máltíðum. Þegar hann bjó sig til ferðar var það sem undirbúningur eða skrýðing til trúarlegrar guðsþjónustu. Allt var tilefni til gjörnings og viðburðar. Hann var nægjusamur og gerði jafnan ekki miklar kröfur fyrir sjálfan sig. Hann leyfði öðrum að njóta sín, efldi fólk til lífs og gleði. Svo lyfti hann upp listamönnunum vinum sínum, dáðist að þeim, talaði vel um þá. Ófeigur var manneflandi í samskiptum. Allir urðu meiri í samskiptum við hann því hann var svo stór sjálfur.

Mein

Fyrir áratug fékk Ófeigur mein í háls. Eftir uppskurð vegna flögukrabbameins kom í ljós að taugar höfðu skaddast. Styrkur minnkaði í hægri handlegg hans. Ófeigur varð því gjarnan að hafa höndina í fatla. Þegar handverksmaðurinn hafði ekki lengur handstyrk og stjórn varð minna úr smíðum en hann vildi. Af Ófeigi dró síðustu ár. Hann hætti þó ekki að styðja aðra en varð að viðurkenna eigin mörk. Það varð honum og þeim Hildi happ að Bolli kom til verka á vinnustofu foreldranna. Svo sátu þeir feðgar á verkstæðinu, töluðu, fóru yfir málin, báðir skemmtilegir sagnamenn. Lífið hélt áfram þó flugmaðurinn lenti og handverksmaðurinn stilltist. Kannski vissi Ófeigur að hverju drægi – alla vega vildi hann að þau Hildur færu til Tenerife í haust. Þau fóru jafnan eftir áramót og hittu vini sína úr alþjóðadreifingunni og áttu með þeim góðan tíma. En í þetta skiptið voru þau bara tvö – fóru hinstu ferðina. Ófeigur fór í stóra aðgerð eftir heimkomu – og er eftir hana fór hann inn í listhús eilífðar.

Listsmiðja himinsins

Og þá eru mikil skil. Hann eldar ekki framar sérkennilegt sjávarpasta fyrir drengina sína. Hann fer ekki framar út að borða með Hildi á laugardegi eftir lokun eða til að hitta félagana í Loka. Fallega svuntan hans Ófeigs hangir nú eins og sorgarklæði við kaffimaskínuna á verkstæðinu. Engin hamarshögg framar, engir skúlptúrar – engar búddískar viskuræður við pílagríma heimsins. Engin aðventuasi eða Þorláksmessuþreyta. Hattarnir og kjólarnir hennar Hildar eru til og Bolli heldur áfram að smíða – en Ófeigsgripirnir fæðast ekki framar á Skólavörðustíg. Andinn er farinn – nú er það miðborgin meiri þar sem ekki þarf að lúta neinu valdi nema gæðum – lífsbrallinu – sem er í húsi föður míns – listsmiðju himinsins.

Guð geymi Ófeig og styrki ykkur öll á lífsreisunni. Amen.

Kistulagning 13,30, bænhúsið í Fossvogi, fimmtudaginn 2. des. Hallgrímskirkja: Bálför föstudaginnn, 3. des. Jarðsett í Sólvangi. Engin erfidrykkja var eftir útför vegna sóttvarnasjónarmið ástæðurnar. Vini Ófeigs þótti miður að fjölskylda og félagar gætu ekki hist. Hann hringdi í Hildi og baust til að sjá um veitingar á kirkjutorginu. Hún sagði já takk – Ófeigur var jú lausnamiðaður. Vinurinn var Tómas A. Tómasson, hamborgarakóngur og alþingismaður. Þegar kista Ófeigs hafði verið borin úr kirkju útdeildu vaskir grillarar hamborgurum. Takk Tommi. Steikarlyktin kitlaði nef allra. Einn vina Ófeigs sagði: „Frábær hamborgari. Þetta er algerlega ný tegund af veitingum eftir jarðarför. Og frábær valkostur.“ Kannski að brauðterturnar séu á útleið og hamborgararnir komi í staðinn?