Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Óli Valur Hansson – minningarorð

Óli Valur Hansson
Óli Valur Hansson

Allt er vænt sem vel er grænt. Það er áhrifaríkt að horfa á opnu sálmskrárinnar og sjá liti og form gróðursins, sem myndar baksvið sálma og textanna sem sungnir eru við útför Óla Vals Hanssonar. Að lifa vel var verkefni hans og að efla lífið var vinna hans. Hann var þjónn lífsins og nú er hann farinn inn í gróðurreit himinsins og getur skemmt sér við það sem honum þótti gaman að gera – skoða lauf og handleika fræ. Hann getur skoðað himneska runna og plöntur. Hvert er hið latneska heiti lífstrésins? Latnínunafnasnillingurinn Óli Valur er nú í þeim fræðaranni.

skógarbotnÉg er vínviðurinn og þér eruð greinarnar, sagði Jesús Kristur. Óli Valur lærði snemma speki lífgjafarans frá Nasaret og skildi þann boðskap. Í lífinu gekk hann svo erinda þess fagnaðarerindis sem er grænt og vænt. Hann var trúr í öllu, smáu sem stóru. Þökk sé honum og lof.

Ætt og uppruni

Óli Valur Hansson fæddist í Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Magdalenu Margrétar Eiríksdóttur, húsmóður (1884 – 1937), og Hans Wíum Bjarnasonar múrara og fjárbónda, (1888-1961). Hún var fædd á Álftanesi en hann var Skaftfellingur, frá Hruna á Brunasandi. Systkinahópur Magdalenu og Hans voru fjögur. Elst var Eydís. Hún fæddist árið 1917, náði háum aldri og lést árið 2008. Nils Einar, fæddist 1919 en lést ungur eða árið 1927. Óli Valur kom svo í heiminn í október árið 1922 og var því barn að aldri þegar bróðir hans lést. Guðrún Gyða fæddist árið 1925 og lést 2005. Margrét, móðir Óla Vals og þeirra systkina, féll frá árið 1937 svo áföllin í fjölskyldunni voru mikil. Hvaða afleiðingar höfðu missir bróður og móður á drenginn á Baldursgötunni? Þeirri spurningu verður ekki svarað en aðeins leitt að líkum að sálir voru markaðar.

Skóli, menntun og störf

Óli Valur sótti nám í hinn nýja og glæsilega Austurbæjarskóla. Hann lék sér á Skólavörðuholtinu, skemmti sér og söng í KFUM og hafði það falleg hljóð að hann tróð upp og söng einsöng í Gamla bíó. Hans, faðir hans, var bóndi að mótun og hélt sauðfé í bakgarðinum og sleit sig ekki frá búskapnum og bjó um tíma – á efri árum – í fjárhúsi sínu þegar hann hafði ekki lengur skyldum að gegna gagnvart börnum sínum. Það er lífsnatni í þessu fólki.

Óli Valur laut að blómum og jurtum og hneigðist til ræktunar og fékk snemma vinnu í samræmi við áhugann. Skömmu fyrir seinni heimstyrjöld, með stuðningi föður síns og fyrir hvatningu ræktunarmanna, fór Óli Valur – þá sautján ára – til náms í Danmörk. Hann hafði meiri áhuga á grænu víddinni en gráu hernaðarvíddinni. Þrátt fyrir stríð og fár í Evrópu náði Óli Valur að fara víða og markmið hans var að læra sem mest. Hann vann í Danmörk við garðyrkju og svo var hann ráðinn til starfa um tíma í stöð í Berlín. Hann sá nasíska forkólfa en hafði enga löngun til að ganga í SS-sveitirnar og þegar hann fór til Danmerkur aftur tengdist hann andspyrnuhreyfingu Dana.

Óli Valur stundaði nám í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og lauk prófi árið 1946. Þá fór hann heim til Íslands og tók að sér verkstjórn í þrjú ár á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar á Syðri-Reykjum í Biskupstungum sem var brautryðjendastöð. Árið 1949 varð Óli Valur kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins og var þar átta ár eða til ársins 1957. Þá varð hann garðyrkjuráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og var að til ársins 1985. Hann hafði eins og margir aðrir starfsmenn bændasamtakanna fyrst skrifstofu í búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina og síðar í Bændahöllinni við Hagatorg.

Vegna starfa síns ferðaðist Óli Valur um allt land, lagði á ráðin um ræktun, teiknaði fyrir bændur garða, skýrði út möguleika og kosti, efldi garðyrkjufólk, ráðlagði einstaklingum, hélt fyrirlestra fyrir almenning og m.a. í útvarpi, skrifaði greinar í blöð og tímarit – og hélt fram hinu græna fagnaðarerindi. Og þegar Óli Valur var búinn að koma í heimsókn í sveitir landsins var hugur í fólki og karlarnir voru jafnan sendir í kaupstað til að kaupa girðingarefni fyrir garða við bænadabýlin. Sagt var að vorið kæmi í sveitirnar þegar Óli Valur kom. Lummur voru bakaðar og veislur voru haldnar til heiðurs þessum forgöngumanni um íslenskrar garðyrkju. Einn bóndinn orkti svo um komu hans:

Kær er sá sem koma skal,

konurnar þekkja róminn.

Allar elska hann Óla Val

eins og fögur blómin.“

Óli Valur var mikill fræðari. Mér – eins og þúsundum annarra Íslendinga – eru útvarpserindi Óla Vals minnistæð. Óli Valur hélt fyrir almenning fjölda fyrirlestra um garðyrkju. Þá var hann ritstjóri búnaðablaðsins Freys um nokkurt skeið auk þess að ritstýra bókum um matjurtir og garðyrkju. Vert er að minna á að færslur um Óla Val í ritaskrá Gegnis eru 26!

Óli Valur lét víða til sína taka í græna heiminum en í öðrum veröldum einnig. Hann var t.d. öflugur frímerkjasafnari, var félagi í Félagi frímerkjasafnara og formaður þess um tíma.

Óli Valur hafði mikil, víðtæk og langvinn áhrif varðandi garðyrkju á Íslandi. Nokkrum dögum eftir andlát hans kom ég í garðyrkjubýlið Friðheima í Biskupstungum. Þar er á stóru fræðsluspjaldi minnt á að Óli Valur hafi ekki aðeins þjónað einstaklingum heldur hafi í starfi sínu hvattt garðyrkjubændur til dáða og lagt grunn að nútímagarðyrkju. Í Friðheima koma nú þúsundir íslenskra og erlendra ferðamanna, dást að ræktun og möguleikum garðyrkju á Íslandi. Og allir sem koma í þessa gróðurvin eru þar með einnig fræddir um að Óli Valur Hansson var aðalmaður í þróun garðyrkju á tuttugustu öld.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju frá Sambandi garðyrkjubænda. Garðyrkjubændur minnast hans með virðingu og þökk fyrir störf hans í þágu íslenskrar garðyrkju.

Meðfram störfum hjá Búnaðarfélagi Íslands starfaði Óli Valur um árabil hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins að tilraunum með matjurtir og berjarunna.  Þá vann hann hjá Blómamiðstöðinni og síðar Grænum Markaði frá 1985 til aldamóta. Hann þjónaði aukinni fjölbreytni íslensks gróðurs með því að fara í fræsöfnunarferðir, m.a. til Alaska og Kamtsjaka í Síberíu. Þær ferðir skiluðu miklu.

Óli Valur var mikill tungumálamaður, talaði dönsku svo lýtalaust að Danir heyrðu ekki á mæli hans að hann væri ekki landi þeirra. Óli Valur las þýsku, ensku og hollensku og svo var hann einnig mikill íslenskumaður og hafði ást á íslenskri tungu. Vert er að minna á að hann er höfundur nafna fjölda íslenskra skrautjurta og barðist gegn því að tekin væru upp hrá erlend plöntunöfn. Það eru því ekki aðeins garðyrkjumenn sem geta þakkað Óla Val heldur þjónaði hann íslenskri menningu með margvíslegum hætti.

Hjónaband

HjónÓli Valur og Emmy Daa Hansson (f. 31.8.1928 d. 11.11 1989) gengu í hjónaband 11. febrúar 1950. Þið sjáið hjónavígslumyndina aftan á sálmaskránni og glöggt má sjá hve glæsileg þau voru. Þau Emmy kynntust í Danmörku árið 1945 þegar hann var enn við nám ytra. Skömmu eftir að þau kynntust fór Óli Valur til Íslands. Hún beið eftir honum og sat í festum í langan tíma. Að lokum fór hún á eftir kærastanum til að skoða landið og aðstæður og þau gengu svo í hjónaband. En einfalt var hvorki fyrir hana né aðrar erlendar konur að hverfa frá stórfjöskyldunni ytra og aðlagast algerlega nýrri menningu, tungu og verekfnum.

Þau Emmy og Óli Valur gerðu með sér samkomulag, hann dró að og hún sá um heimili – og bæði stóðu við sinn hluta og hjúskapur þeirra var hamingjuríkur og farsæll. Þeim fæddust tveir synir. Rolf Erik fæddist í apríl árið 1956. Hann er tannlæknir. Kona hans er Herdís Sveinsdóttir og er prófessor í hjúkrunarfræði. Óttar er elsti sonur þeirra og kona hans er Sunna Símonardóttur og þau eiga tvær dætur. Nína Margrét er gift Björgvini Halldór Björnssyni og þau eiga einn son. Jakob er næstyngstur og sambýliskona er Margrét Ólöf Halldórsdóttir. Þau biðja fyrir kveðju til ykkar, en þau eru í Danmörk og komast ekki til þessarar athafnar. Jökull er yngsti sonur Rolfs og Herdísar.

Yngri sonur Óla Vals og Emmyar er Ómar Björn. Hann er júlídrengur og fæddist árið 1959. Ómar er tannsmiður að mennt og einnig flugmaður og stundar viðskipti. Kona hans er Guðríður Anna Kristjánsdóttir lögfræðingur og tannlæknir. Þau eiga synina Óla Val og Björn Dúa.

Emmy lést frá fyrir aldur fram árið 1989. Óli Valur naut í sorg sinni sona sinna og fjölskyldu, var ungu kynslóðinni elskulegu afi, hafði lífsfró af vinnu sinni og naut að greina blöð og safna fræi af fallegum plöntum. Svo kynntist hann Áslaugu Valdemarsdóttur á níunda áratugnum og þau urðu nánir vinir þó þau rugluðu aldrei reitum. Í meira en tvo áratugi var Áslaug Óla Val elskuleg vinkona. Hann varð ömmubörnum hennar sem afi og hún amma afabörnum hans. Elskusemi hennar í garð Óla Vals er þökkuð.

Minningarnar

Hvernig var Óli Valur? Hvað þótti þér eftirminnilegt í fari hans, skemmtilegt eða mikilvægt?

Manstu ljúflyndi hans? Ég man have gaman var að koma í Búnaðarfélagið og hitta hann, kátan og með bros í augum. Það var eftirminnilegt hve hann tók öllum gestum vel – stórum sem smáum. Og samskiptanetið hans varð því mikið og stórt.

Varstu einhvern tíma vitni að því hve Óla Vali var fagnað þegar hann fór um sveitir landsins í fræðsluferðir? Manstu eftir erindum hans og greinum, bókum og ritum? Áttu kannski plöntu í garðinum þínum sem kom vegna frumkvöðlastarfs hans?

Manstu hve flott Óli Valur var klæddur og hve mikið snyrtimenni hann var.

Manstu hve ljúfur hann var í samskiptum, óáreitin og umburðarlyndur gagnvart ævintýrum annarra og þmt. afkomenda sinna? Svo var hann hógvær og vildi aldrei neitt láta fyrir sér fara.

Manstu hve minnugur Óli Valur var, hvað hann gat romsað upp jurtaheitum á latínu. Svo þekkti hann fólk á flestum bæjum á Íslandi.

Og manstu have gjafmildur hann var og að hann sagði hug sinn með blómum. Fordæmi hans eru fræ til spírunar í lífi þínu.

Óli Valur Hansson skilaði miklu dagsverki. Veröldin er betri, ríkulegri og gróðursælari vegna þess að hans naut við. Óli Valur færði fólki vorið. Nú er hann orðinn vormaður í eilífð Guðs og skemmtir sér yfir ríkidæmi lífsins. Hann er í lífríki Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í útför í Fossvogskirkju miðvikudaginn 23. september, 2015. Bálför.

Gunnlaugur Kristjánsson – minningarorð

Gunnlaugur Kristjánsson
Gunnlaugur Kristjánsson

„Það væri þröngsýni að halda því fram, að í óravíddum himingeimsins séu ekki fögur veiðivötn og full af fiski. … Ég vona, að ég finni þennan elskulega mann aftur í löndum eilífðarinnar og þá helzt með stöng í hönd.” Þessa merkilegu himinsýn skráði veiðijöfurinn Björn J. Blöndal og á vel við þegar við kveðjum Gunnlaug Kristjánsson. Gulli kunni að veiða, veiddi með ákafa og gleði, eldaði bráðina, kryddaði með smjöri og góðum sögum og svo – eins og hendi sé veifað er hann farinn inn í himininn. Farinn hvert og á hvaða árbakka? Hvernig getur þú hugsað um hið ósegjanlega – Gulla í eilífðinni? Kemur ekkert veiðisumar eftir dimman og myrkan vetur? Óhugsandi. Okkur sem elskum vatn, líf í straumnum og fögnum geislum í gárum þykir eðlilegt að vænta þess að lífsins vatn sé veiðistöð, að við fáum að standa við strauminn og kasta á sporðamettaða strengi. Á þeim árbakka himinfljóts má Gulli vera. Skaparinn hefur gaman af lífi og ljósi. Lausanarinn hvatti fólk til að hyggja að dásemdum vallar og vatns og Andinn hefur húmor í bland við elsku.

Uppruni og ævistiklur

Gunnlaugur Kristjánsson fæddist á Akureyri 14. janúar árið 1956. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Bjarnason (27. 8. 1911, – 5. 2. 1992) og Mekkín Guðnadóttir (4. 5. 1920) bændur í Sigtúnum í Eyjafirði. Gunnlaugur var yngstur systkinanna. Eldri eru Bjarni Benedikt, sem fæddist árið 1944, Gunnar Árni kom svo í heiminn árið 1947 og Jón Guðni 1949. Sigrún fæddist árið 1954 og svo var Gulli síðastur í röðinni. Mekkín lifir og býr á Akureyri en Kristján lést árið 1992. Gunnlaugur, hinn yngsti, er nú látinn en systkinin lifa.

Bernskuheimilið var sveitaheimili og búskapurinn blandaður – um hundrað fjár í húsi og í fjósi voru milli tuttugu og þrjátíu gripir. Gulli lærði snemma að gera gagn. Hann var tápmikill, harðduglegur og vinnusamur. Hann var velkominn í heiminn og naut mikillar elsku í uppeldi. Gulli hóf skólagöngu í heimabyggð var snarpur og glöggur og fór fram fyrir jafnaldra í námi. Hann hleypti snemma heimdraganum og fór í héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði. Þar var hann í tvö ár. Svo lá leiðin norður aftur og hann fór beint í fjórða bekk Menntaskólans á Akureyri. Lífið í MA var ævintýralegt og Gulli eignaðist vini og líka aðdáendur í skólanum. Hann var hrókur fagnaðar, uppátækjasamur, skemmtilegur og hrífandi. Hann var þá veislusækinn leiðtogi og æ síðan. Gulli lauk stúdentsprófi árið 1976. Svo skráði hann sig í Tækniskólann og lauk prófi í byggingatæknifræði árið 1981.

Fólkið hans Gulla

Gunnlaugur Kristjánsson eignaðist soninn Loga með skólasystur sinni Huld Ingimarsdóttur árið 1975. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband árið 1984. Leiðir þeirra skildu árið 1998. Logi er kvæntur Elísabetu Guðjónsdóttur og á með henni tvo syni, Daða og Sölva, sem er á fyrsta ári. Gunnlaugur eignaðist Halldór, yngri soninn, með Rósu Emilíu Óladóttur árið 1981. Hann eignaðist fjögur börn. Þau eru Ágúst Freyr, Elín Helga, Sölvi Thor og Emilía Ósk. Halldór lést árið 2012.

Seinni kona Gulla er Helga Sigrún Harðardóttur. Þau gengu í hjónaband árið 2005. Gulli gekk Írisi, dóttur Helgu Sigrúnar, í föðurstað og börnum hennar í afastað. Sambýlismaður Írisar er Ómar Freyr Sigurbjörnsson. Börn þeirra eru Helga Vala, Dagur og Lóa Björk.

Mér var falið að bera ykkur fjölskyldu Gulla, vinum og þessum söfnuði kveðjur. Skólafélagar í Reykholtsskóla og MA biðja fyrir samúðarkveðjur sínar til fjölskyldu og ættingja Gulla. Þá biðja Lísa og Kiddi fyrir kveðjur, en þau eru erlendis og geta ekki verið við þessa útför. Þórný Linda Haraldsdóttir biður fyrir kveðjur og sömuleiðis Jakob Sævar Stefánsson.

Vinnan

Gunnlaugur Kristjánsson var dugmikill vinnuþjarkur. Ósérhlífni, áræðni, framsýni og óbilandi áhugi á skipulagsmálum, arkitektúr og byggingatækni gerði Gulla að eftirsóknarverðum stjórnanda í byggingabransanum. Hann starfaði hjá Ármannsfelli hf. og Aseta á árunum 1982 – 1987. Hann kom sér alls staðar vel í starfi, axlaði ábyrgð, var virtur fyrir getu og var treyst til stórræða. Gulli var tæknilegur framkvæmdstjóri hjá Álftarósi ehf. á árunum 1987 – 1999. Þá hóf hann störf sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Íslenskra aðalverktaka og gegndi því starfi til ársins 2007. Þá tók hann við stjórnartaumunum í Björgun og hefur m.a. stýrt námavinnslu félagsins úr sjó og vinnslu byggingarefnis auk hafnadýpkunum. Björgun hefur m.a. gegnt því Heraklesarverkefni að dýpka Landeyjahöfnina. Síðustu árin var Gunnlaugur einnig forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins, BM Vallár og Sementsverksmiðjunnar.

Gulli kom með einum eða öðrum hætti að skipulagsþróun byggingarreita og uppbyggingu ýmissa stórbygginga s.s. Kjarnanum í Mosfellsbæ og Sundlauginni í Árbæ auk fjölmargra íbúðarhúsa. Hæst ber Hörpuna en sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs ÍAV dró Gulli vagninn í Portus Group og stýrði hópi fagaðila sem í sameiningu unnu samkeppni um hönnun Hörpunnar, þess mikla djásns höfuðborgarinnar. Gunnlaugur hönnunarstýrði Hörpuframkvæmdunum til ársins 2007. Við eigum honum þökk að gjalda og hann var sjálfur stoltur af framlagi sínu við verðlaunahönnun Hörpunnar.

Gulli var skarpgreindur og sem farsæll leiðtogi lánaðist honum oftast að fá samstarfsaðila til samfylgdar – fólk með ólíkar hugmyndir og náði oftast skapandi sátt þó fyrirfram þætti mörgum óhugsandi. Ómögulegt var ekki til í orðabók Gulla. Hann fann yfirleitt leið til að láta mál ganga og hluti virka með áræðni, mikilli vinnu og framsýni.

Gulli var liðtækur bridgespilari á árum áður og mikill keppnismaður á þeim vettvangi. Tefldi hann gjarnan á tæpasta vað sem makker hans hafði getu til að meta og nýta.

Gulli var ástríðukokkur. Hann keypti alltaf besta hráefnið og gat í skyndi slegið upp veislu. Hann gantaðist með að hafa farið í veiði með gömlu vinunum í Laxárdal í Þingeyjarsýslu og í stað þess að skrifað væri um afrek þeirra í tímaritið Veiðimanninn var skrifað um þau í tímaritið Gestgjafann. Hann hafði gaman af að elda með skemmtilegu fólki, veiddi það besta úr matargerðarlist heimsins, skildi að smjör hefur aldrei skemmt mat heldur bætt og skellti svo ótrúlegum nöfnum á réttina sína. Ég sá t.d. afar áhugaverða uppskrift hans í tímaritinu Vikunni undir hinu ógvænlega heiti: Lamb Al-Quaida – fyrir 4!

Matargerð Gulla var eins og tákn um líf hans. Gulli var veislusækinn dugmaður sem veitti samferðafólki sínu vel, bjó þeim það besta sem hann átti. Hann vildi öllum vel, þjónaði eins og hann gat og Gullagleðin hreif.

Helga Sigrún og Gulli

Gunnlaugur Kristjánsson - á hjónavígsludaginn.
Gunnlaugur Kristjánsson – á hjónavígsludaginn.

Helga Sigrún og Gulli hittust á nýársballi árið 2004 þar sem Helga Sigrún var veislustjóri. Gulli kom með útsjónarsemi úrinu sínu svo fyrir að Helga Sigrún fór óvart með það heim. Daginn eftir fékk hún sms skilaboð frá honum. Í þeim stóð: „Hæ, ég heiti Gulli. Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“ Þá vissi Helga Sigrún hvað klukkan sló og hve skarpur hann var. Hálfu ári síðar höfðu þau keypt saman íbúð, innréttað hana og flutt inn. Ári síðar gengu þau í hjónaband. Þau áttu síðan tíu undraár saman. Hann dáðist að konu sinni og umvafði hana, fór með henni um heiminn og naut sín í vinnu og einkalífi.

Gulli fékk heilsufarsaðvörun á síðasta ári og síðan þungt högg á þessu. Gulli greindist með krabbamein í febrúar 2015: „Föstudagurinn þrettándi, það hlaut að vera!“ lét hann hafa eftir sér. Svo tók við slagur við dauðann og sókn í líf. Hann komst í stutta veiðiferð í Norðurá sem varaði í nokkra tíma og brosti alla leið í bæinn, vindbarinn, lúinn, lerkaður og með mikla verki. Helga Sigrún vaktaði hann og studdi og Logi hlúði að föður sínum. Gulli sat gjarnan hljóður úti, hugsaði sitt og naut birtu í auga og vinds á kinn. Geðprýði og yfirvegun hans snart þau sem áttu við hann samskipti á þessu tímabili en símtöl, heimsóknir og kveðjur frá vinum og vandamönnum voru honum styrkur í baráttunni. Hann mat mjög hve systkini hans og vinir stóðu þétt með honum í veikindunum og var þakklátur fyrir stuðninginn.

Minningar og lífið

Nú eru skil. Hvers minnistu þegar þú hugsar um Gulla? Manstu ósérhlífni, glaðværð, kraftinn, húmorinn, greindina? Manstu umhyggju hans og vilja til að efla alla? Manstu áhugann á framkvæmdum og hinn skapandi huga hans? Manstu hve frjór hann var og marksækinn? Manstu getuna til að greina að aðalatriði og aukaatriði? Og hugsaðu alltaf um Gulla héðan í frá þegar þú ekur fram hjá Hörpunni eða ferð á tónleika. Þá nýtur þú hans, hugsjóna og verka.

Og nú er hann farinn. Hann er ekki á Sigtúnum heldur Guðstúnum. Hann ekur ekki lengur hratt og multitaskar á meðan. Hann vegsamar ekki lengur íslenskan landbúnað með því að löðra smjöri á pönnu og steikja ofursteik. Hann ávann sér tuttugupundaramerkið en þeir verða ekki fleiri silfurhreistraðir á bakkanum hjá honum heldur einhverjir ofurfiskar skv. húmor himsins eins og sést á baksíðu sálmarskrárinnar. Á himnum brotna engar stangir. Það er hörmulegt að Gulli skuli vera dáinn og farinn en það er heimsins hjálparráð að Guð opnar veröld himinsins og þú, ég og Gulli megum öll njóta. Guð dassar heilmiklum húmor yfir okkur, elskar og bjargar. Heimurinn er eins og Harpan – stórkostleg hönnun en himininn fullkominn. Gulla var ríkulega gefið í lífinu og er elskaður í eilífðinni.

Guð geymi Gunnlaug Kristjánsson og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Gunnlaugs í Hallgrímskirkju föstudaginn 11. september kl. 13. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Hörpunni.

Ísleifur Sumarliðason + 1926 – 2015

Ísleifur Sumarliðason
Ísleifur Sumarliðason

Hvað var það skemmtilegasta sem Ísleifur á Vöglum gerði? Börn hans urðu hugsi því margt kom til greina, margs að minnast á heimili, úr starfi skógarvarðarins í 38 ár og plöntuframleiðslu í áratugi.

Sáning í helgidóminum

Kannski var það þegar hann fór með fræpokana að sáningarreitunum til að sá. Þá urðu börnin að hafa hljótt um sig – ekki vera fyrir þegar Ísleifur varð samverkamaður skaparans, varð prestur í gjörningi sköpunarinnar, dreifði samviskusamlega trjáfræi í frjóa mold og í sléttum beðum. Augu hans horfðu yfir sáðbeðin, hendur hans og fingur dreifðu með agaðri natni mjúku fræinu svo það lagðist á spírunarstað í hæfilegri dreifingu. Og svo var jafnað yfir, vökvað og hlúð að.

Skógurinn varð helgistaður, Vaglir kórinn og sáðreiturinn altarið. Svo spíraði undir gleri í reitum. Fuglum var haldið frá og skepnum einnig. Illgresi var reitt burt og svo uxu upp fjarska lítil birkiskott, lerki, furuskinn, heggur eða einhverjar fáséðar tilraunaplöntur sem Ísleifur hafði löngun til að reyna að rækta undir misblíðum himni við brjóst landsins.

Myndin af sáðmanninum Ísleifi Sumarliðasyni er laðandi fögur. Hún dregur saman þræði í lífi hans, eðliskosti, upphaf og lífsstarf. Og hún tengir hann í sögu Íslands á 20. öld, framvinu samfélags, hugmyndir um hlutverk fólk í landinu, atvinnusögu og einnig menningarpólitík. En svo er sáðmaðurinn líka fulltrúi mannkyns í faðmlögum við náttúru, umhverfi og svo auðvitað við Guð, sem er “yfirskógarvörður” alheimsins.

Upphaf og mótun

Ísleifur Sumarliðason fæddist á Akranesi 12. nóvember 1926. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Guðmundsdóttir Thorgrímsen og Sumarliði Halldórsson. Nafn Ísleifs var vitjunarnafn eins og nafn föður hans. Fyrstu árin bjuggu foreldrar Ísleifs og Sigríðar, eldri systur hans, á Krossi við Akranes. Sumarliði var af fyrstu kynslóð skógfræðimenntaðra manna á Íslandi. Hann starfaði á árunum 1910-14 sem fyrsti skógarvörðurinn á Vesturlandi. Sumarliði var ekki aðeins áhugamaður um að endurklæða landið ilmandi skógi heldur vildi stuðla að innri ræktun íslenskrar æsku og var í þeim efnum samverkamaður sr. Friðriks Friðrikssonar í KFUM og sá um starf félagsins á Akranesi. Vegna tæprar heilsu og veikinda foreldra Ísleifs fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þegar hann var á unglingsárum. Og móðir hans lést þegar Ísleifur var 18 ára.

Ísleifur hóf skólagöngu á Skaganum en hélt svo áfram í Ingimarsskóla þegar suður var komið. Í fríum og eftir að skóla lauk fékk Ísleifur vinnu við skógræktarstörf. Ræktin var í fingrum hans og sinni. Líf skógræktarfólks varð honum eðlilegur lífsháttur. Alla tíð – allt til enda – var leiðin að hjarta og huga Ísleifs greiðust með því að ræða um gróður og ræktun.

Ísleifur fékk á stríðsárunum vinnu í Múlakoti í Fljótshlíð sem varð til að hann ákvað að fara til náms í skógfræði í Danmörk. Sumarliði, faðir hans, hafði lært á Jótlandi en Ísleifur fór til náms á Sjálandi. Hann naut ekki aðeins Danmerkurtímans sem gleðilegs tíma heldur ferðaðist suður allt Þýskaland. Það var hans – og þess tíma – útgáfa af Interrail-ferð. Ísleifi ógnuðu afleiðingar styrjaldarinnar og ásýnd Þýskalands hafði djúp áhrif á hann.

Þegar Ísleifur hafði numið fræðin, notið danskrar menningar og – skv. því sem mér telst til orðinn skógfræðingur þjóðarinnar nr. 7 – var hann tilbúinn til starfa á Íslandi. Í ársbyrjun 1949 var Ísleifur ráðinn til að verða skógarvörður á Norðurlandi, með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Hlutverk hans var að vakta skóga á Norðurlandi. Víða voru kjarrsvæði og skógarleyfar sem þurfti ekki aðeins að vakta heldur einnig að verja til að þau lifðu. Hlutverk skógarvarðarins var ekki aðeins að girða heldur líka beita sér í samskiptum við fólk og þmt stjórnvöld til að vernda viðkvæm svæði, sjá til að umgengni við skógana yrði bætt og peningar yrðu til að manna stöðvar og starf.

Svo breyttist skógarvarðarstarfið á Vöglum. Ísleifur beitti sér fyrir uppbyggingu ræktunarstöðvar og umfangsmiklum tilraunum með tegundir og kvæmi sem hægt væri að nýta á Íslandi. Hann og starfsfólkið á Vöglum byggðu upp þekkingargrunn sem var hagnýtur við skógræktarstarf í landinu á seinni hluta tuttugustu aldar. Um 1980 voru á Vöglum framleiddar um 150 þúsund skógarplöntur árlega til plöntunar í Fnjóskadal eða annars staðar á Norðurlandi. Þessi framleiðsla kom til móts við aukin skóræktaráhuga landsmanna, þjónaði skógræktarfélögum og einnig mikilvirkustu skógræktarmönnum þjóðarinnar, sumarbústaðafólkinu. Merkilegar tilraunir voru gerðar við að greina hvaða tegundir hentuðu og við hvaða aðstæður.

Sigurlaug, börnin og Vaglir

Svo var það ástin. Hinn bráðungi skógarvörður á Vöglum var einhleypur þegar hann kom norður í veturinn í Fnjóskadal. Fyrst bjó hann á Skógum, sem er vestan ár. En svo kom vorið. Skógræktin var byggðarstólpi í dalnum og veitti mörgum atvinnu. Og Ísleifur réði fjölda fólks til starfa, m.a. Sigurlaugu Jónsdóttur frá Skarði í Dalsmynni (f. 15. júlí 1931 – dóttir hjónanna á Skarði, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Jóns Jóhannssonar).

Og kannski var það fyrirsjáanlegt að fallegi Ísleifur og hin fallega Sigurlaug hrifust af hvoru öðru. Þau féllust í faðma og voru glæsileg hjón. Þau gengu í hjónaband 12. nóvember árið 1950. Hann fékk hana í afmælisgjöf – og sú gjöf var ein af stóru lífsgjöfum hans og til blessunar. Það voraði vel í lífi hans í Vaglaskógi og hjúskapurinn varð Sigurlaugu og Ísleifi ávaxtasamur. Þau eignuðust sjö börn. Elst er Sigríður Ingibjörg sem fæddist árið 1951. Síðan komu börnin eitt af öðru og þétt. Jón fæddist árið 1952, Jóhann Svavar tveimur árum síðar. Sumarliði Ragnar fæddist árið 1955 og Sigurður Örn ári síðar. Rúnar kom svo í heiminn árið 1962. Árið 1973 fæddist Guðmundur Einar, en hann lést aðeins tveggja ára.

Þau Sigurlaug og Ísleifur bjuggu á Vöglum í 38 ár. Heimili þeirra var fjölsótt. Það var m.a. áfangastaður erlendra skógræktarmanna sem komu víða að úr veröldinni. Svo var fjöldi fólks sem starfaði í skóginum, nokkrir allt árið og jafnvel einhverjir tugir yfir sumarið. Því var í mörg horn að líta og reyndi á hæfni og samstöðu þeirra hjóna. Þau nutu svo föður Ísleifs meðan honum entist aldur (+1965). Hann studdi son sinn og tengdadóttur í ýmsu m.a. með því að vera börnunum á Vöglum natinn afi sem miðlaði fjölskyldusögu, trú og gildum hins gamla Íslands.

Vaglaskógur var vegna skógræktar tengdur stórheiminum ekki síður en nærheimi. Skógarvörðurinn var ekki aðeins í góðri samvinnu við innlenda skógrækt heldur erlenda einnig. Fræsendingar komu um langan veg. Gestir komu færandi hendi og skógarvörðurinn eða þau Sigurlaug bæði ferðuðust um heiminn í vinnuerindum og oft í einkaerindum einnig. Á heimili þeirra Ísleifs mátti sjá minjagripi um heimsreisur þeirra og hve víða þau höfðu farið.

38 ár á Vöglum og svo þegar þau létu af störfum nyrðra voru þau reiðubúin að brjóta nýjan akur. Þegar þau höfðu lokað Vaglabænum í síðasta sinn hófu þau nýjan feril. Ísleifur og Sigurlaug fluttu árið 1986 suður í Mosfellsbæ. Þar keyptu þau hús og land og settu síðan upp gróðrarstöð sem þau ráku í tvo áratugi og framleiddu garðplöntur. Þau voru vön að starfa saman, nutu styrkleika hvors annars og gátu á eigin kostnað gert áfram tilraunir með gróður og í nýjum aðstæðum og á nýju svæði. Garðplöntusalan varð líka samastaður og jafnvel á stundum vinnustaður afkomenda þeirra hjóna. Þegar Ísleifur var áttræður og kona hans á áttræðisaldri var komið að nýjum skilum. Þau seldu hús og land og fluttu til Reykjavíkur. Ísleifur stríddi við vaxandi heilsuleysi síðustu árin og lést mánudaginn 29. júní, 88 ára að aldri. Þá höfðu þau Sigurlaug verið í hjónabandi í 65 ár.

Kveðjur hafa borist frá Frímúrum á Akureyri sem og frá systkinum í Nesi í Fnjóskadal.

Minningarnar

Hvernig manstu Ísleif Sumarliðason? Manstu dugnaðinn og vinnusemina? Hann var atorkumaður sem við munum eftir sem kynntumst honum. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður. Áhugamaður um samfélagsmál og þjóðfélagsmál og las mikið alla tíð. Hann opnaði huga gagnvart menningu heimsins. Ísleifur var málafylgjumaður, hafði skoðanir á flestu og var stefnufastur í mörgu. Hið innra bjó í Ísleifi næmni og meir lund sem kom betur í ljós þegar leið á æfina. Hann var heiðarlegur og raungóður. Ættingjar og sveitungar vissu að hægt var að leita til Ísleifs um stuðning af ýmsu tagi. Ísleifur var öflugur stjórnandi, hvatti fólk til dáð í kringum sig, börnin sín til mennta og nærsamfélag til dáða.

Hvernig manstu hann? Hvað kemur í huga þinn? Lyftu upp, farðu vel með og legðu frá þér með natni – eins og þegar lagt er til spírunar það sem er ætlað til lífs.

Sumarlandið

Og nú er komið að skilum. Maðurinn sem byrjaði æfina með því að búa á Krossi fer nú undir merki krossins inn í eilífðina. Meistarinn mikli frá Nasaret var áhugamður um gróður, benti á liljur vallarins, sagði sögur af garðyrkju og fólki í ræktunarstörfum. Það er skógrækt og lífrækt í þeim Jesú Kristi sem líkti sjálfum sér við tré. Og það tré tilheyrði lífinu. Svo ræddi hann líka um sáðmann sem fór út að sá og sumt fræið bar ávöxt og annað ekki. Það er sagan um okkur menn, líka Ísleif Sumarliðason. Hann gekk í helgidóm skógarins, sáði í frjóan jarðveg og fylgdist svo með spírun, lífvexti og ávexti. Guð á himnum horfði með áhuga og stuðningi til Ísleifs, fylgdist með lífi hans og ávöxtum verka hans og fjölskyldu. Og svo er boðskapur úr gróðrarstöð himins skýr: Ég er upprisan og lífið. Ný spírun í nýjum sáðreit eilífðar. Þar fer ekkert forgörðum því sú ofuræktunarstöð er fullgerð, er án hreta og laus við öll dýr og mein.

Guð geymi Ísleif í því sumarlandi. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 7. júlí, 2015. Erfidrykkja í Neskirkju og jarðsett í Guðfuneskirkjugarði.

Jón Pálmi Þorsteinsson + 1915 – 2015

Jón var traustur og áreiðanlegur. Það er vitnisburður barna hans og ástvina. Mér þótti áhrifaríkt að sitja með konu hans og börnum og upplifa traustið í þeim, tengsl og hlýja virðingu – samstöðuna. Traustið sem þau tjáðu með ýmsum hætti rímaði við það sem við nemendur Jóns fundum ávallt og virtum. Jón var ákveðinn, ljúfur og kraftmikill kennari sem við gátum algerlega reitt okkur á og treyst.

Frumtraust

Þessi tilfinning fyrir trausti í Jóni og fólkinu hans minnti mig á kenningu um frumtraust, sem Erik Erikson, einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna  á tuttugustu öld, setti fram og hafði mikil áhrif í fræðaheiminum. Jón hafði áhuga á sálfræði og stefndi jafnvel á nám í þeirri grein vestan hafs þó aðstæður styrjaldarára hafi hindrað að hann færi vestur þó hann hefði fengið skólavist. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn nái eðlilegum þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar þessum þáttum er fullnægt skapast frumtraust – sem er afstaða til lífsins.

Manstu eftir hve Jóni var annt um að öllu hans fólki liði vel? Hann spurði gjarnan um velferðarþætti og var ekki í rótt nema að hann gæti treyst að öllu væri óhætt og vel fyrir komið. Hann spurði um grunnvelferð og vildi að allir nytu hennar, að fólkið hans nyti góðra aðstæðna til þroska, menntunar og hamingju. Og þau atriði eru ekki aðeins mál sálfræði eða skóla, fjölskyldu eða prívatlífs heldur varðar einnig inntak trúar. Traust er trú, trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs hið sama og Jóns Þorsteinssonar að tryggja traust fólks til að lífið lifi – að allir nái þroska og fái lifað og notið hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphaf

Jón Pálmi Þorsteinsson fæddist 19. október árið 1915 í Gröf í Kirkjuhvammshreppi í V-Húnavatnssýslu. Foreldrar Jóns voru hjónin í Gröf, Þorsteinn Sigurður Jónsson (f. 4. 1.1874 í Mölshúsum Bessastaðahreppi, d. 1.7.1930) og Sigríður Hallný Pálmadóttir (f. 27. 7.1874 í Hraundal Nauteyrarhreppi, d. 18.9.1953). Jón var yngstur systkinanna. Elstur var Hrólfur Jóhannes sem fæddist árið 1907 og Hansína Kristín fæddist ári síðar. Valgerður fæddist árið 1910 og svo kom Jón í heiminn fimm árum síðar. Uppeldisbróðir þeirra var Þorsteinn Ásgeir Hraundal. Nú er allur þessi hópur farinn inn í eilífðina og Jón var síðastur þeirra.

Jón naut frumfræðslu á heimaslóð og ólst upp við sveitastörf og lærði að bjarga sér og hvert gildi vinnu væri. Árið 1930 – þegar Jón var aðeins 14 ára gamall – lést faðir hans. Alþingisárið varð því ekki fagnaðar- heldur sorgar-ár í fjölskyldunni og breytti algerlega stöðu og afkomu hennar. Það var Jóni ekki aðeins tilfinningalegt álag að missa föður heldur breytti menntunarmöguleikum hans til hins verra. En presturinn í Hindisvík á Vatnsnesi kom til hjálpar. Hann hafði grun um hvað byggi í fermingardrengnum og tók hann til sín til að kenna honum og styðja til bókar og þroska. Á þeim árum tóku prestar gjarnan nemendur á heimili sitt og urðu því margir menntunarhvatar og mikilvægir skólamenn. Og að mér hefur læðst að við nemendur Jóns Þorsteinssonar höfum notið einhverra kennsluhátta eða áherslna sem hann lærði af klerki. Í Hindisvík lærði Jón ekki aðeins að opna augu, eyru og hjarta gagvart tungumálum og fjölbreytni heimsins og merkilegum bókum heldur líka að mikilvægt væri að vernda líf og náttúru. Það er ekki aðeins mannfólkinu mikilvægt að traust sé virt og ræktað heldur náttúrunni einnig. Klerkurinn vildi jafnvel friða seli og hvali og virða lífríkið. Hann var því á undan samtíð sinni en blés nemanda sínum hugmyndum í brjóst.

Frá Hindisvík fór Jón svo til náms í Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði. Þar var hann á árunum 1933-35. Þegar Jón hafði svo náð að öngla saman nægilegu fé fór hann suður og í Kennaraskólann og lauk þaðan kennaraprófi árið 1937. Þaðan í frá hafði hann atvinnu af að kenna grunnskólanemum. Hann var kennari á Barðaströnd veturinn 1937-8 og næsta skólaár við Hörðudalsskóla í Dalasýslu. Síðan lá leiðin norður í Skagafjörð og hann kenndi við Hofstaðaskóla veturinn 1939-40.

Jón missti föður sinn árið 1930 og Hrólfur, elsti bróðir hans, var það mörgum árum eldri að hann eignaðist í honum fyrirmynd, stoð og styrk. Það var því annað áfall þegar þessi glaðsinna og öflugi bróðir fórst vegna árásar þýsks kafbáts á togarann Pétursey í mars árið 1941. Jón lærði því snemma að ekkert er sjálfgefið og altryggt í þessari veröld.

Árið 1944 fékk Jón stöðu sem kennari við Barnaskóla Siglufjarðar og þar var hann á árunum 1944-51. Svo kenndi hann í eitt ár í einhverjum besta skóla þjóðarinnar á þeim árum, Laugarnesskóla í Reykjavík 1951-2 og svo í Langholtsskóla í Reykjavík næsta skólaár.

Frá árinu 1953 til loka starfsferils í þágu hins opinbera var Jón Pálmi Þorsteinsson kennari í Melaskóla. Kennaralaunin hafa aldrei verið há og til að treysta fjárhag fjölskyldu sinnar stundaði Jón löngum smíðar meðfram kennslu. Hann tók sér hlé á kennslustörfum á stríðsárunum og smíðaði í Reykjavík á árunum 1940-44.

Lovísa Bergþórsdóttir

Svo sáust þau Lovísa Bergþórsdóttir og Jón. Það var ekki á rúntinum í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið þangað í verslunarerindum en fá hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku götu í heimsborginni. Oxfordstreet – og það var gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna og að þau Jón voru á sama hóteli – eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi hvernig Jón hafði verið klæddur og endurþekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu festuna í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband 30. desember. Síðan hafa þau verið hvors annars og átt stuðning hins. Í 65 ár – þvílík blessun og gæfa, þeim báðum, börnum þeirra og afkomendum. Mikið þakkarefni og ekki sjálfsagt. Og Oxfordstreet verður héðan í frá ástarstræti í mínum huga.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og sjö barnabörn. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Hann er læknir. Kona hans er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og sambýliskona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, stjórnarráðsfulltrúi. Börn þeirra, hennar úr fyrra sambandi, eru Björk, Freyja og Lilja Sól.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar sambýlismaður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og kona hans einnig. Hún heitir Veroníque Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorbarn, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er, læknir og hennar sambýlismaðurer Laith Al Rabadi, læknir. Hún kemst ekki til þessarar athafnar vegna starfa sinna í Boston en biður fyrir kveðjur til ykkar.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur. Davíð lærir til læknis og kona hans er Ramona Lieder, náttúrufræðingur. Þau eiga dótturina Önnu Lovísu.

Jón skapaði traust í fjölskyldu sinni og uppskar traust í fjölskyldutengslum. Honum var í mun að öllum liði vel – nytu frumtrausts í lífinu.

Minningar

Hvaða minningar áttu um Jón Þorsteinsson? Ég á mínar því Jón var kennari minn í grunnskóla. Ég man hve annt honum var um velferð okkar, nemendanna. Hann hélt skapandi aga í bekk sínum, hafði lag á að móta skikkan sem þjónaði námi og framförum. Hann tamdi okkur aga í öllu greinum, m.a.s. hve marga og hvernig blýanta við áttum að hafa í pennaveski okkar í skólanum – þrjá, langa og vel yddaða.

Melaskóli var og er merkileg menntastofnun og þar voru margir afburðakennarar. Jón var einn af þeim bestu og kunnur að skila öflugum námsmönnum til Hagaskóla. Við bárum virðingu fyrir umsjónarkennara okkar, og sú afstaða – eins og traustið – varð til í samskiptum. Jón bjó okkur skýran ramma, gerði skiljanlegar kröfur, studdi okkur þegar við vorum óviss og gerði okkur grein fyrir hvar mörkin lágu. Því leið öllum vel í bekk hans og hann gætti þeirra sem áttu undir högg að sækja heima. Þau börn sem bjuggu við einhverja óreglu eða óreiðu farnaðist vel í bekkjum Jóns og fundu í honum styrka föðurímynd. Svo þótti okkur ekki verra að Jón var örugglega lang-sterkasti kennarinn í skólanum. Ég vil fyrir hönd okkar nemanda Jóns Þorsteinssonar bera fram þakkir fyrir öll kennslu- og menntastörf hans og metnað fyrir okkar hönd – og einnig færa fram þakkir fyrir hönd Melaskóla og Vesturbæinga sem nutu starfa hans og kennslu í áratugi.

Eigindir

Hvernig var Jón Pálmi Þorsteinsson?

Manstu hve orðvar hann var? Að hann stóð alltaf í skilum með alla hluti. Manstu að hann var stólpi til að styðja sig við? Manstu hve vænn hann var í samskiptum við konu sína. Manstu eftir honum hjólandi heim í hádeginu til að eiga stund með sínu fólki? Manstu eftir honjum í stólnum sínum, ekki með ipad í hönd heldur bók? Kannski var það bók á ítölsku eða frönsku, sem hann hafði lært í sjálfsnámi eða bók um hugleiðslu. Manstu eftir áhuga hans á andlegum fræðum, heilbrigðum lífsháttum og hollri fæðu – eða eftir sundmanninum Jóni? Manstu eftir hve annt honum var um fagra tónlist? Tefldir þú við hann einhvern tíma? Manstu frímerkjamanninn og myntsafnarann? Kunnátta hans í þeim fræðum varð fjölskyldu hans til búdrýginda. Manstu hve heimakær hann var? Jón fór og hitti fólk og tók þátt í félagslífi samfélagsins en sagði gjarnan þegar hann kom í ganginn heima að alltaf væri best að vera kominn heim.

Við skilin

Jón Pálmi Þorsteinsson átti gott og gjöfult líf, naut ástríkis í hjúskap, bjartsýnnar og ljóssækinnar eiginkonu, hamingju fjölskyldu og farsældar í störfum. Hann naut lífsins og við sem kynntumst honum nutum hans fjölmörgu kosta. Svo var hann tilbúinn að fara. Eitt sinn varð hann alvarlega veikur og þá kom í ljós að hann óttaðist ekki skilin eða brottför sína. En nú er hann farinn en skilur eftir dýrmætar minningar. Þær minningar varða alúð í samskiptum, leik við heimilisdýr, skilning á þörfum barna sinna og annarra. Dóttir hans sagði eftirminnlega frá að hann var janvel tilbúinn að ná í peninga úr heimilissjóðnum til að kaupa hvíta kápu á hana unglinginn.

Nú er þessi trausti og væni maður farinn inn í þann himinn sem kenndur er við traust – og dýpsta traust varðar trú og reynslu af hinum farsæla. Nú er hann kominn heim og þar er best. Maður nær heillar aldar er alfarinn inn í eilífðina. Ég treysti að fyrir honum sé vel séð, hann megi njóta friðar í því ríki þar sem lífið er ekki bara fagurt heldur friðað af þeim Guði sem er traustsins verður og boðar traust.

Guð geymi hann og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen

Útför Jóns Pálma í Fossvogskapellu fimmtudaginn, 2. júlí, 2015. Bálför og jarðsett í duftgarðinum Sóllandi.

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir – minningarorð

Lilja 2Fólkið hennar Lilju Sólveigar, Brautarhólsfólkið, sótti kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Barnahópurinn fór með foreldrunum Kristjáni og Kristínu. Lilja Sólveig settist á suðurbekk við hlið mömmunnar. Sá merki prestur Stefán Kristinsson steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt. Enginn svefn er sætari en kirkjusvefninn. En draumurinn gisnaði allt í einu þegar farið var að syngja sálminn “Á hendur fel þú honum…” Lilja Sólveig glaðvaknaði. Þetta kunni hún og tók undir sem mest hún mátti. Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng hljómaði skær barnsröddin og um alla kirkju: “Ef vel þú vilt þér líði…” En þegar hún gerði sér grein fyrir að hún var á undan öllum hinum steinþagnaði hún, fylltist svo skelfingu og leið illa! Hún hélt að hún hefði eyðilagt messuna fyrir prestinum og söfnuðinum! Boðskapur sálmsins hafði engin áhrif á smásöngvarann: “Hann styrkir þig í stríði og stjórnar öllu best!” Að guðsþjónustu lokinni faldi hún sig í pilsi mömmu og hélt að fólkið, sem talaði um fallegu röddina hennar og sönginn, væri að stríða sér.

Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur orti eigin ljóð um Guð og menn á efnisskrá safnaðarins. Undir þau vers tóku margir síðar. Líf hennar sjálfrar varð lofsöngur um Guð.

Elskið

Eftir páska er tímabil kirkjuársins sem nefnt er gleðidagar. Textar gleðidaga færa kristnum lýð texta um hið góða líf. Í guðspjalli síðasta sunnudags talar Jesús um hlutverk manna og ástina í afstöðu og þjónustu: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“

Útvalin – til hvers? Til lífs. Bera ávöxt – af hverju? Til blessunar fyrir aðra og Guði til dýrðar. Hvernig? Með því að elska.

Stíll þeirra, sem fylgja Jesú Kristi er að elska – því þannig var hann, elskaði alla, fórnaði jafnvel öllu vegna þeirrar elskuafstöðu. “Þetta býð ég, að þér elskið hvert annað.

Lilja lærði í bernsku að Guð elskaði. Hún reyndi í lífinu að hún nyti elsku og hún tók til sín að hún væri kölluð til að elska. Erindi Guðs skildi hún vítt og elskuboðið einnig. Lilja tamdi sér að elska fólk, smátt og stórt – og allra lita og gerðar, en líka alla sköpun Guðs, náttúruna, litbrigði himins og jarðar, syngjandi lækjarbunu og drynjandi fossa, orð og allar gjafir himins í heimi. Því var hún elskuð sjálf.

Lífið og skrefin

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 11. maí árið 1923. Hún var sjötta í röðinni og yngst systkinanna. Elstur var Gísli og síðan komu Filippía, Sigurjón, Svanfríður og næstyngstur var Sigurður, karlar og konur til skiptis. Saga fjölskyldunnar var árangursrík baslsaga, sem lituð var heimiliselsku, vinnusemi, menntasókn, söng og trúrækni. Um hana bera vitni hin almennu, kristilegu mót, sem haldin voru á Brautarhóli á árunum 1940-48.

Lilja tveggja áraLilju var eins árs að aldri komið fyrir í rúmi hjá Svanfríði, móður okkar Kristínar, og var með þeim systrum óflekkaður og hrífandi kærleikur alla tíð, sem síðar var yfirfærður á ungviðið. Systkini Lilju veittu henni athygli, örvun, umhyggju og kenndu henni líka. Þó þau væru sum laus við komu þau heim til lengri eða skemmri dvalar. Munnhörpur og orgel voru til á heimilinu. Heimilisfólkið söng í rökkrinu, ekki síst ættjarðarljóð. Sálmar voru sungnir á undan og eftir húslestri kvöldsins og svo á sunnudögum ef ekki var farið til kirkju. Fjölskyldan var söngelsk, mamman var fljót að læra lög og pabbinn var kunnur kvæðamaður. Systkinin lærðu fjölradda söng í kirkjunni og höfðu gaman af. Á stilltum haustkvöldum fóru þau jafnvel í söng-gönguferðir. Raddirnar hljómuðu vel saman þó tenór væri enginn. Björt sópranrödd Lilju naut sín í þessum fjölradda kór. Söngur systkinanna barst um dalinn og einu sinni hélt heimilisfólkið á næsta bæ að ekki væri lengur hægt að slökkva á útvarpinu, þegar söngurinn hætti ekki! Vísnagerð var eðlileg heimilisiðja, sem öll fjölskyldan tók þátt í og nýttist til að búa til jólagjöf eða verða gleðigjafi á tímamótum. Þetta fólk ljóðaði hvert annað og lagði tilfinningar í.

Skólar og menntun

Bernskuheimili Lilju Sólveigar var menntunarsækið. Heimilisfaðirinn seldi bækur og gætti bókasafns. Flestar útgefnar bækur á Íslandi á þessum tíma komu því í Brautarhól og voru lesnar. Lilja Sólveig sótti unglingaskóla í heimadal sínum. Hún fór síðan til náms í Menntaskólanum á Akureyri og tók próf beint í annan bekk og varð stúdent árið 1945.

Lilja nýstúdent og hópur fólks á Brautarhólströppunum

Á menntaskólaárunum stríddi Lilja við veikindi. Hún var nærri dauða þegar hún var skorin eða öllu heldur brotin upp á Landakoti haustið 1941. Var hér upphaf veikinda, sem Lilja glímdi við síðan. Vegna heilsubrestsins ráðlögðu læknar Lilju að fara ekki í það háskólanám, læknisfræði, sem hún hafði hug til. “Læknarnir vildu mig ekki” sagði hún og varð henni áfall.

Eftir stúdentspróf kenndi hún svarfdælsku ungviði einn vetur frammi í dölum. Síðan fór hún í hannyrðaskóla í Kaupmannahöfn, Håndarbejdets Fremme, eftir lok heimstyrjaldar og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hún kom svo heim og kenndi unglingum á Dalvík. Síðan vann hún á skattstofunni á Akureyri en þá fékk hún hina illvígu Akureyrarveiki – árið 1948 – og lá rúmföst í marga mánuði. Eftir að hafa náð þokkalegri heilsu að nýju kenndi Lilja Sólveig við gagnfræðaskólann við Lindargötu frá 1949 og til ársloka 1951.

Predikarinn í Noregi

Sigurður, skólameistari á Akureyri, mat Lilju að verðleikum því hann þekkti námsgetu hennar, persónu- og trúar-þroska. Hann vildi konur í prestastétt og hvatti Lilju mjög til að læra guðfræði og verða fyrsti kvenpresturinn á Íslandi! En þá var hvorki til siðs eða í tísku að konur væru prestar. En þótt Lilja settist ekki við fótskör kennara guðfræðideildar rannsakaði hún ritningarnar og sat við fótskör hins eina meistara. Lilja fór til Noregs í ársbyrjun 1952 og hóf nám á biblíuskóla norska heimatrúboðsins eins og Svanfríður, systir hennar áður. Í skólanum, sem er rétt norðan við kóngshöllina í miðborg Osló, undi hún vel hag sínum í eitt og hálft ár. Lilja var þrítug þegar hér var komið sögu og hún sló í gegn. Útlendingurinn var svo öflugur leiðtogi að henni var falið að verða umreikandi predikari og æskulýðsfulltrúi norska heimatrúboðsins. Gerðar voru miklar kröfur til þess fólks, sem þeim störfum gengdu og tjáir vel hver staða Lilju var. Hún ferðaðist víða og predikaði á samkomum. Hún sálusorgaði fólk í sálarnauð, reyndi að greiða úr lífsgátum yngri sem eldri og var öllum engill og prestur hins góða málstaðar Guðs. Hún bjó á heimilum fólks þar sem hún fór og bast mörgum sterkum vinaböndum, sem ekki trosnuðu. Bréf og kort hennar í meira en sextíu ár eru vitnisburðir um tengslahæfni og ræktarsemi Lilju. Mörgum árum síðar bjó ég í Noregi og hitti fólk sem sagði mér sögur af hve Lilja hefði verið hrífandi og hve elska hennar hefði verið ávaxtasöm: „Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöt, ávöxt sem varir… – elskið…” sagði Jesús Kristur.

Heim

Svo kom kallið að heiman. Lilja hefði dvalið lengur í Noregi ef Sigurður, bróðir hennar, hefði ekki sent henni bréf árið 1955. Faðir þeirra var þá fallinn frá, eldri bróðirinn, Sigurjón, hafði hætt búskap vegna heilsubrests og Kristín, móðir þeirra, var komin á áttræðisaldur. Einhver varð að sjá um móður og búrekstur. Lilja brást ekki kallinu og varð bústjóri á Brautarhóli.

IMG_7593

Fjórum árum síðar kallaði sami bróðirinn aftur til hennar, en nú til kennslustarfa á Laugum í Reykjadal. Þar var Lilja Sólveig á árunum 1959-62. Síðan varð hún skólastjóri á húsmæðraskólanum á Löngumýri. En þjónusta Lilju í Skagafirði varð styttri en áætlað hafði verið. Enn hindruðu veikindi hana í starfi. Hún fór aftur heim í Svarfaðardal og starfaði sem gjaldkeri Dalvíkurhrepps á árunum 1963-64. Þá fór hún suður og bjó síðan í Reykjavík. Fyrst starfaði hún á rannsóknarstofu Borgarspítalans, en vorið 1971 varð Lilja safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar og starfaði þar í tuttugu og þrjú ár. Lilju Sólveigu var einkar lagið að opna tákn- og trúarheim Einars. Margir muna leiftrandi og grípandi leiðsögn hennar og sóttust eftir að fara í safnið þegar Lilja var á vakt til að fá hana til að skýra hin torræðu tákn í verkum Einars.

Kveðjur

Þessum fyrri hluta minningarorðanna lýkur með kveðjum frá frændfólki og vinum sem ekki geta verið við þessa athöfn. Kristín Þórðardóttir, sem er bundin heima í Noregi vegna nýlegrar aðgerðar, þakkar að Lilja varð henni sem önnur móðir og okkur systkinum. Öyvind Kjelsvik, maður Kristínar biður fyrir kveðjur. Það gera Helgi Jónsson og Hanney Árnadóttir á Akureyri. Frá Hollandi koma kveðjur frá Jóni Þorsteinssyni og að norðan frá Sigrúnu Lovísu Sigurjónsdóttur, Eddý og Alexander Antoni. Rósa Magnúsdóttir og Jegvan Purkhús biðja fyrir kveðjur.

Nú verður sungið „Lát mér Drottinn lof á tungu vera“ – Þetta er lífsstefna Lilju Sólveigar. Hún bað frænda sinn, Þórð, að semja lagið við lofsönginn til Guðs.

—-

Seinni hluti

Siguringi, heimilislíf og þjónusta

Siguringi og Lilja Sólveig
Siguringi og Lilja Sólveig

Myndlistarsýning í Bogasalnum árið 1965 varð Lilju Sólveigu afdrifarík. Hún féll fyrir fallegri mynd af Hrafnabjörgum í Þingvallasveit, sem Siguringi E. Hjörleifsson hafði málað. Hún keypti myndina og svo hreifst hún líka af listamanninum fjölhæfa – og hann af henni. Siguringi og Lilja gengu í hjónaband árið 1967. Þau voru bæði fullþroska þegar þau kynntust og áttu hamingjurík ár saman. Heimili þeirra á Sóleyjargötu 15 var hús sumarsins í lífi beggja enda máluðu þau það glöðum og björtum litum. Heimili þeirra var fullt af tónlist, hljóðfærum, tónsmíðum, kveðskap, blómum, myndum og glaðværð. Siguringi ljóðaði til konu sinnar á fjölbreytilegan hátt. Jafnvel uppvask eftir matinn varð ævintýri líkast og það var gaman að vera nærri þeim í ham. Bæði voru hraðyrkjandi og Siguringi mátti hafa sig allan við, svo snögg var Lilja að yrkja og gjarnan með hnyttni sem illt var að svara, botna eða toppa. Svo hlógu þau og skrifuðu niður bestu stökurnar. Svo kom jafnvel lagstúfur í framhaldinu.

Í öllum verkum voru þau samhent. Líka í þjónustunni við Guð og menn. Lilja – með stuðningi Siguringa – hlúði að fjölda stúlkna sem sóttu “telpnastarfið í Betaníu” sem Lilja sá um og varð um tíma á heimili þeirra á Sóleyjargötu. Margar konur koma hingað til að kveðja í dag vegna þess að Lilju Sólveigu þótti vænt um þær og sinnti þeim af elskusemi og alúð.

Þau Siguringi voru bæði ræktunarfólk, sköpuðu litskrúðugan blómagarð, sáðu til og uppskáru ríkulega af grænmeti og potuðu furuskinnum og birkihríslum í jörð þeirra, Hamraborg, í Árnessýslu. Tími þeirra saman var ríkulegur en allt of skammur, aðeins rúm átta ár. Siguringi féll frá í júlí 1975. Nokkur af rismestu sorgarkvæðum Lilju urðu til við fráfall hans þegar sorgin vitjaði hennar. Og eitt þeirra hljómaði áðan í þessari athöfn.

Félagsstörf Lilju Sólveigar voru margvísleg. Auk þess sem áður er nefnt tók hún þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík í áratugi og allt til heilsu- og lífsloka eins og systur hennar. Hún var lengi í stjórn félagsins. Svanfríður var formaðurinn, Lilja Sólveig gjaldkerinn og Filippía gleðigjafinn.

Þá var Lilja félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár. Hún starfaði í sumarbúðunum í Vindáshlíð í nokkur ár og hafði mikil áhrif á margar stúlkur á mótunartíma.

Lilja Sólveig orkti ekki aðeins, heldur skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum og kirkjulegum félögum. Og svo gaf hún út heillandi barnabók Dýrin í dalnum (1968) um lífið í Svarfaðardal. Þar kemur berlega fram hversu næm og natin Lilja var í samskiptum við málleysingjana.

Aftari f.v. Thora, Gísli, Sigurjón, Þórður, Svanfríður, Fremri f.v. Filippía, Kristín Kristjánsdóttir afmælisbarn, Lilja Sólveig, Sigríður
Thora, Gísli, Sigurjón, Þórður, Svanfríður, Filippía, Kristín afmælisbarn, Lilja Sólveig, Sigríður

Ljóð og stíll

Ljóðasafnið Liljuljóð, kom út árið 2003. Ljóð og sálmar Lilju Sólveigar tjá bjarta lífssýn trúar og traust til elskandi Guðs, sem frelsar, gætir, styður og eflir. Náttúruljóðin sem Lilja samdi eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálma. Náttúran í Liljuljóðum er vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna. Ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins, er frá Guði.

Rithönd Lilju

Krossferill

Mörg ljóð Lilju meitlaði sorg. Lilja orkti sér til léttis og ljóðin urðu hennar sorgarlyftur eða höfuðlausnir. Lilja missti heilsu á unga aldri og ljóðaði um sársauka heilsumissis. Vegna eigin veikindasögu gerði Lilja Sólveig sér snemma grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú Krists og gat því túlkað krossferill hans. Í honum átti hún lifandi samfylgdarmann, sem ekki vék frá henni heldur verndaði og blessaði. Og svo túlkaði Lilja Sólveig skýrt og ákveðið fagnaðarerindið um sigur lífsins sem á erindi við fólk. Lilja tjáði oft í ljóðum sínum sterkar tilfinningar, kvíða, friðleysi, ótta, öryggisleysi og lausn.

Lilja var svo lánsöm að eiga góða foreldra, sterka móður og blíðlyndan föður. Guðsmynd Lilju var því heil og ósprungin. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Liljuljóðin sem virðast almenn ljóð í hinu ytra eru þó bænir hvað varðar inntak.

Inn í himin Guðs

Lilja var næm á póesíu heimsins. Hún hreifst af sköpun Guðs, ljóðmáli lífsins í náttúrunni og mannlífinu. Hún tók alvarlega boð Jesú að elska. Því umvafði hún alla sem tengdust henni elskusemi og vandaði sig í samskiptum. Saga hennar var brot ástarsögu Jesú Krists í heiminum. Jesú sagði „…elskið hvert annað.“ Lilja Sólveig iðkaði það ljóðamál í lífinu.

IMG_0857

Jesús sagði: „En ég kalla yður vini … Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður… … Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ Það gerði Lilja Sólveig Kristjánsdóttir. Hún var og er útvalin og nú er hún farin í Brautarhól elskunnar – í öndvegi guðsríkisdala – og mér þykir líklegast að þau systkin – og ástvinir með þeim – séu á kvöldssönggöngu í páskaljóma eilífðar. Þar er hrein dýrð og gleði – þar er Jesús Kristur í miðjum hóp. Þar eru stjörnur og sól, blómstur og börn, já vindur og vötn – þar er lífið sem Guð gefur.

Guð geymi Lilju Sólveigu Kristjánsdóttur og Guð geymi þig.

IMG_7661 (1)

Amen.

 

Minningarorð í útför Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur, Hallgrímskirkju 6. maí, 2015. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði G 14-100. Erfidrykkja í Kristniboðssalnum Háaleitisbraut 58-60.

Æviágrip

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist 11. maí árið 1923 á Brautarhóli í Svarfaðardal. Foreldrar hennar voru hjónin Kristín Sigfúsína Kristjánsdóttir (1880-1973) og Kristján Tryggvi Sigurjónsson (1870-44). Lilja var yngst sex systkina. Hin eru Gísli Björgvin (1904-85), Filippía Sigurlaug (1905-96), Sigurjón Kristján (1907-82), Svanfríður Guðný (1910-2004) og Sigurður Marinó (1914-2009).

Lilja Sólveig lauk stúdentsprófi frá M.A. árið 1945 og kenndi síðan við farskóla í Svarfaðardal 1945-46. Hún stundaði nám við Håndarbejdets Fremme í Kaupmannahöfn 1946-47 og stundaði jafnframt nám í listasögu við Kaupmannahafnarháskóla. Lilja var kennari við Unglingaskólann á Dalvík 1947-48 og vann síðan á skattstofu Akureyrar 1948-49. Hún kenndi við Lindargötuskóla í Reykjavík á árunum 1949-51. Þá fór hún til Noregs til náms á biblíuskóla Indremisjonsselskabet í Staffeldtsgate í miðborg Oslo. Lilja Sólveig starfaði á vegum þeirra samtaka 1952-55, m.a. sem prédikari og kennari. Á árunum 1955-59 var hún á Brautarhóli og lagði búi og móður sinni lið. Kennari við héraðsskólann á Laugum í S-Þing. á árunum 1959-62, skólastjóri Húsmæðraskólans á Löngumýri í Skagafirði 1962-63 og gjaldkeri Dalvíkurhrepps 1963-64. Vann skrifstofustörf í Reykjavík 1964-67. Gæslumaður á Listasafni Einars Jónssonar í Reykjavík í 23 ár, frá 1971.

Maki frá 1. júlí. 1967: Siguringi E. Hjörleifsson (1902-75), kennari, lengstum í Austurbæjarskóla í Reykjavík, tónskáld, málari og ljóðskáld. Þau voru barnlaus.

Lilja Sólveig tók þátt í starfi Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík og var lengi í stjórn félagsins, sá um barna- og unglingastarf félagsins í Betaníu og heimili sínu og varð vinur og fræðari fjölda fólks vegna þeirra starfa. Þá var hún félagi í KFUK og var í stjórn í þrjú ár.

Lilja Sólveig orkti sálma og ljóð, skrifaði greinar í blöð og tímarit og kom oft fram í þáttum RÚV. Hún var eftirsóttur ræðumaður í kristilegum, kirkjulegum, félögum. Lilja Sólveig gaf út tvær bækur, barnabókina Dýrin í dalnum (1968) og ljóðasafnið Liljuljóð (2003). Ekki hafa verið birtir fleiri sálmar eftir nokkra konu í sálmabókum þjóðkirkjunnar en eftir Lilju Sólveigu. Meðal sálma hennar eru aðventusálmurinn “Við kveikjum einu kerti á…” og trúarjátningarsálmurinn “Stjörnur og sól.” Lilja Sólveig lést á Grund að kvöldi sumardagsins fyrsta, 23. apríl.